Maðurinn með gráa hárið

Það var í gærmorgun. Klukkan átti að hringja hálf sjö og ég vaknaði nokkrum mínútum fyrr. Það er best þannig því að næstum öll vekjaraklukkuhljóð eru eins og grimm árás á sofandi mann. Ég ætlaði að fara með bílinn í þjónustu inn í Örebro en allur ég var á móti því þarna þegar ég vaknaði. Ég var með hellu fyrir báðum eyrum og mér fannst sem ég væri á leiðinni að verða veikur. En ég fór samt.
 
Ég fór með bílinn á verkstæði sem er rekið af írönskum manni, einhver sá prúðasti og hjálplegasti maður sem ég nokkru sinni hef hitt. Þegar ég hafði skilað bíl og lyklum í hendur hans gekk ég á teríu sem er þar í nokkur hundruð metra fjarlægð og fékk mér kaffi, vatn og stóra, stóra rækjubrauðsneið. Svo fékk ég mér sæti í góðum stól á góðum stað, en mér fannst ennþá sem ég væri að verða veikur.
 
Ég vissi að ég yrði þarna í eina tvo eða þrjá klukkutíma og þann tíma ætlaði ég að nota til að lesa um rafmagnsbíla. Ég tók upp símann og leitaði að efni um rafmagnsbíla. En mitt í þeirri leit kom bara sí svona allt í einu upp fyrirsögn að grein um Ísland og þó í fyrsta lagi um Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í þessari grein var farið mjög fallegum orðum um bæði Ísland og sérstaklega forsætisráðherra Íslands sem greinin fjallaði sérstaklega um. En þannig er það bara; þegar sænskir fjölmiðlar fjalla um Ísland er það alltaf gert á þeim nótunum.
 
Greinin var mjög löng og ég varð þreyttur við að lesa svona mikið á þessum litla skjá sem síminn minn er og því vistaði ég greinina til að lesa síðar.
 
 
 
Ég var aftur farinn að lesa um rafmagnsbíla og ég var löngu búinn að innbirða kaffið og stóru, stóru rækjusneiðina. Nú var mér orðið kalt. Já, vissulega var ég að verða veikur. Ég fór aftur að diskinum og keypti stóra gulrótarköku með þykku súkkulaði ofan á og fékk mér meira kaffi og vatn. Þetta kláraði ég á augabragði, en viti menn; mér hlýnaði. Nú fannst mér tími til kominn að heimsækja aftur bílverkstæðið.
 
Það sem ég segi núna segi ég í algjörum trúnaði. Þó að mér fyndist ég ekki nógu hress til að prufukeyra bíl, þá gerði ég það. Ég prufukeyrði "rafmagnsbíl". Það hafði ég gert áður, en núna, núna keyrði ég hreinan eðalvagn. Og hvað þessi bíll flutti manninn með gráa hárið hljóðlega og notalega norður úr Örebro. Ég var ekki lengur að verða veikur, ég var stálhress. Maður á sjötugasta og áttunda árinu getur bilast af minna. Svo keyrði ég mun lengra en ég ætlaði og hver metri var hreinn unaður.
 
Ég get talið upp að tíu og ég pantaði ekki rafmagnsbíl. En hún Gréta Thunberg hefur sagt við mig eins og alla aðra: Allir verða að gera eitthvað. Og það var snemma í vor sem ég bloggaði um það að ég væri alveg að fara að gera eitthvað, en ég hef ekki gert það ennþá sem ég bloggaði um þá.
 
Ég ætlaði mér að skrifa allt öðru vísi þegar ég byrjaði en það bara fór eins og fram er komið.
 
Það er kominn nýr dagur og undir hádegið hurfu hellurnar frá eyrunum og ég er ekki veikur.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0