Á heilagri jörð

Styttsti dagur ársins er liðinn og jólin eru á leiðinni. Það er lifrarpylsa með hafragrautnum á morgnarna sem heldur myrkrinu fjarri með hjálp ólíkra sorta af heimaræktuðum berjum. Það er lítið um snjó en jörð er frosin. Fuglarnir eru tryggir matnum sem ég gef þeim og með hjálp íkornans eru þeir fljótir að éta upp það sem þeir fá. Vissulega gerir þetta útsýnið frá matarborðinu meira lifandi.
 
Hvað ætla ég svo að gera um jólin? Fyrir nokkrum vikum síðan velti ég fyrir mér að fara til Íslands og halda jól í Vestmannaeyjum hjá Valgerði dóttur minni ásamt fjölskyldu, en þeirri hugsun hélt ég leyndri. Það var eins gott því að eins og ég sé það núna eru engir tímar fyrir ferðalög. Ég mun fara til Stokkhólms á morgun, Þorláksdag, og vera um jólin hjá Rósu dóttur minni og fjölskyldu. Susanne ætlar að halda jól í Eskilstuna með sonum sínum ásamt fjölskyldum.
 
Frá Stokkhólmi kem ég til baka í sveitina þar sem ég hef fest rætur á þann hátt sem ég aldrei reiknaði með. Þær rætur eru fastar eins og rætur eikarinnar. Eikin er svo rótföst að sem litla plöntu er erfitt að slíta hana upp ef það yfir höfuð er mögulegt.
 
Það var dag einn á JAS mánuðunum í ár, júlí-ágúst-september, mánuðunum sem eru sagðir bestir til að klippa til mörg tré. Dagurinn var mér hvert prófið á fætur öðru og ekkert gekk mér vel langt fram á daginn.
 
Síðdegis tók ég ákvörðun, nú skildi ég takast á við drauginn sem vildi skaða mig. Ég tók litlu greinaklippurnar mínar og rölti út í skóg þar sem ég vissi um margar plöntur og smá tré sem mér fannst þurfa á hjálp minni að halda. Það var jú rétti tíminn. Ég gekk að fyrstu plöntunni og snyrti hana til. Síðan sá ég að hún hafði nokkra keppinauta sem vildu taka til sín næringu af sama borði og hún.  Ég lagðist á hné til að klippa burtu þessa keppinauta. Þeir geta orðið ótrúlega margir þessir keppinautar og meðan ég klippti þá burtu, einn af öðrum, sá ég hvernig maurarnir byrjuðu að skríða upp buxurnar mínar. Brátt mundu einhverjir þeirra byrja að leita inn fyrr skyrtuna mína. Svo hafði ég lokið við þessa fyrstu plöntu, stóð upp, dustaði buxurnar og gekk áfram.
 
Það var dauðakyrrt í skóginum og ég horfði á trjástofnana og minntist ljóðlínu þar sem talað er um að "lífið kraumi bakvið börkinn". Einstaka fugl flaug hljóðlega framhjá, stórar bjöllur fikruðu sig hljóðlega hingað og þangað á götuslóða, maurarnir komu jafn fljótt og ég stoppaði og vildu upp eftir fótleggjunum. Ég hélt áfram við plönturnar hverja á fætur annarri og þær fengu á sig betra form. Smám saman varð ég meira og meira var við hvernig hljóðlátt lífið iðaði allt í kringum mig og ég fékk að vera með í því, ég virtist svo innilega velkominn. Ég var fullgildur þátttakandi í lífinu í skóginum.
 
Mótlæti dagsins var á bak og burt og það virtist aldrei hafa verið til. Ég fann mig á heilagri jörð og vildi alls ekki til baka heim til hússins míns sem ég sá útundan mér spölkorn í burtu, ekki fyrr en rökkrið væri orðið of þétt til að halda áfram.
 
Ég hef fundið þessa heilögu jörð svo víða. Hérna heima hjá mér, í íslensku fjalllendi, í norðlenskum skógum þar sem athafnir manneskjunnar eru langt í burtu, þar sem víðáttan opnar allt í einu faðm sinn framundan, og á kyrrlátum fjallvegum. Það er bara að gefa sig á vald tilverunnar án skilyrða og þá verður jörðin heilög. Það þarf svo lítið, bara að það sé án skilyrða til náttúrunnar og alheimsins. Gefa fuglunum matinn sinn, íkornanum líka. Gefa broddgeltinum. Taka burtu steininn sem hindrar tígullega trjáplöntu að vaxa og setja gróðrarmold í holuna. Það þarf ekki að vera svo stórbrotið. Það stórbrotna er bara fyrir. Svo er stjörnuhimininn allrar athygli verður
 
 
 
Maður heitir Richard Foster og hann er rithöfundur og guðfræðingur, fæddur sama ár og ég. Hann skrifaði umsögn um bók sem heitir í minni þýðingu "INRA LJÓSIÐ" og er skrifuð af manni sem heitir Thomas R Kelly. Richard Foster skrifaði eftirfarandi í umsögn sinni og þýðingin frá sænsku er mín:
 
 
"Ég man enn í dag eftir rigningarsama febrúarmorgninum fyrir mörgum árum síðan á einum flugvallanna í Vosington. Eins og venjulega hafði ég tekið með mér efni til að lesa til að geta notað vel lausar stundir. Í fyrsta skipti í lífi mínu opnaði ég bók Thomasar Kellys, INRA LJÓSIÐ.
   . . .þar sat ég einsamall á flugvellinumog og sá hvernig regnið sló móti gluggarúðunni. Tár runnu yfir kinnar mínar og niður á frakkann minn. Ég var á heilögum stað, stóllinn sem ég sat á var altri. Ég mundi aldrei framar verða sami maður. . ."
 
 
Ekki hef ég komið svo langt að geta séð flugvöll sem heilagan stað, en eftir að hafa lesið þessa umsögn fyrir mörgum árum í bókabúð í Örebro, þá keypti ég bókina INRA LJÓSIÐ og las hana. Nú finn ég að mér ber að lesa hana aftur.
 
Ég óska öllum sem lesa þetta gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Meigi innra          ljósið ná að skína meðal okkar allra um þessi jól, fram á veginn líka, nú og ævinlega. Og gleðileg jól til allra hinna líka sem ekki lesa þetta.
 
 I


Kommentarer
Eva

Takk fyrir þessi skrif, gaman að lesa🥰🎄

Svar: Takk fyrir það Eva min.
Gudjon

2021-12-28 @ 08:48:09


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0