Skrifað 31. maí 2021

Það hafði verið talað um það í veðurspánni, alla vega í spánni á farsímanum mínum, að eftir nokkra daga mundi rigna mun meira en gert hefur lengi. Samt var allt blautt vegna langvarandi smá rigninga og lágs hitastigs. Ég var í miðju verki og var í kapphlaupi við þetta væntanlega regn og þurfti þar að auki að fá einn bílfarm af mold, svo skemmtileg sem mold er í meðförum í rigningu eða hitt þó heldur. Svo kom moldin og svo kom regnið samkvæmt spánni. Það rigndi líka að lokum nokkru meira en spáin hafði gert ráð fyrir.
 
 
 
 
Svona varð útlitið hjá einum nágrannanna og mikið vera víða. Akrar urðu að tjörnum og Sólvallaskógurinn varð ógangfær nema á stígvélum.
 
 
 
 
Það var bara að byrja á moldinni og halda sig við verkið meðan stætt var á. Á þessari mynd var ekkert annað að gera en hætta í bili. það má vel greina regnið fyrir miðri mynd.
 
 
 
 
Áður en ausandi rigningin að lokum hófst hafði mér tekist að flytja meira en helmingin af moldinni á þennan stað og nokkra aðra þar í kring. Meira en helmingur af bílhlassi af mold er til dæmis 86 hjólbörur eins og mínu tilfelli þarna. Stundum gengur alveg fram af mér hvað í ósköpunum ég eiginlega er að gera. Stundum eru kannski nágrannarnir svolítið hissa en þeir tala bara góðlátlega við mig yfir grjótvegginn þegar þeir ganga framhjá og ég við þá.
 
 *          *          *
 
Að setjast á veröndina móti skóginum og blunda og sjá fyrir mér aldeilis splunku nýja íbúð í Örebro eða einhverjum öðrum bæ, íbúð með öll þægindi bæði innan húss og allt um kring, það getur við viss tilfelli verið ofar öllu dásamlegu hér á jörðu.
 
Ég var spurður í fullri vinsemd hérna um daginn hvort mér liði illa ef ég stoppaði, hvort ég þyrfti alltaf að vera að. Nei, það fjallar ekki um það, það fjallar um að ljúka verkefninu sem ég setti í gang árið 2003. Það var þegar ég plataði Valdísi til að koma út að keyra og fór með hana á Sólvelli og varð ástfanginn. En ekki bara það, hún varð ástfangin líka og sagði í djúpri alvöru á veginum framan við húsið eftir að við höfðum staðið þar hljóð um stund -"hérna gæti ég hugsað mér að vera".
 
Svo vorum við bæði á Sólvöllum þangað til Valdís var kölluð til heimsálfunnar ósýnilegu. Eftir það datt mér aldrei annað í hug en að ljúka verkefninu. Ég að vísu sökkti dálítið vel upp í stóru ausunni hvað Sólvallaverkefninu áhrærði og það tók lengri tíma en til stóð. Eins gott að ég vissi það ekki í upphafi.
 
Það er mánudagur, síðasti dagurinn í maí og nú sit ég í íbúð Susanne í Katrineholm og skrifa þessar línur meðan hún er í vinnu. Þegar ég er hér í hóflegri fjarlægð frá verkefnunum mínum er sem hugurinn verði frjálsari á fluginu. Ég kom hingað síðla dags í gær og þegar ég ætlaði að fara af stað fann ég alls ekki bíllyklana mína heima. Ég var neyddur til að grípa til varalykilsins.
 
 
 
 
Eftir mikla leit að lyklunum kom ég út á veröndina með varalykilinn í vasanum og staldraði við og tók þessa mynd. Svo gekk ég að bílnum og bakkaði um nokkrar bíllengdir. Þar steig ég út til að athuga hvort aðallyklarnir hefðu nokkuð lent undir bílnum. En nei.
 
Ég leit upp, heim að húsinu, leit yfir hluta af verkefninu sem var í gangi núna og leit á trén sem ég hef flutt frá skóginum gegnum árin. Og frá öðrum skógum líka. Tré sem þrífast vel þar sem þau eru. Ég leit inn að skóginum, á trén sem sem eitt sinn voru í myrkviði en eru nú staðarprýði. Ég dáðist að laufhafinu sem virtist njóta sólarinnar í ríkum mæli og mér var hugsað til mikilvægis alls þessa fyrir heim sem reynir nú að spyrna við fæti gegn þróun sem virðist geta kallað hættu yfir mannkyn og líf á jörðinni. Þar er hvert frískt laufblað mikilvægt. Ég fann mig mitt í björgunarstarfinu þótt mitt framlag sé svo ógnarlega lítið.
 
Stór lóðin var óvenju vel hirt og það var afar notalegt fyrir mig að finna að allt þetta voru heimkynni mín. Það var ekki bara notalegt, það var hamingja. Standandi þar sem bíllinn hafði staðið einhverjum mínútum áður fann ég streyma um mig hvatningu til að ljúka verkefninu með glæsibrag. Heppinn ég var að hafa týnt bíllyklunum.
 
 
 
 
Svona lítur beyki út sem líður vel á sínum stað eftir hægláta rigningu.
 
Og að lokum þann 21. júní; Bíllyklana fann ég seinna í buxnavasa. Ég kannaðist ekki við að hafa verið í þeim buxum lengi en þeir voru þar samt. Það var eins og það hefði verið meining með því að ég stoppaði áður en ég ók úr hlaði til Katrineholm. Þar gaf ég mér tíma til að líta yfir blettinn minn hér á jörðinni og það sem þar flaug í gegnum huga minn er mér uppörvun ennþá í dag, þremur vikum seinna.
RSS 2.0