Hann Sveinn mágur minn

Það var í byrjun apríl 1965 sem ég var kallaður í símann í Hrísey. Það var í þá daga sem megin þorri Hríseyinga var kallaður á símstöðina ef einhver hringdi og óskaði eftir að tala við fólkið þar. Sá sem hringdi í þetta ákveðna skipti var hann Sveinn mágur minn Garðarsson, maður Guðnýjar systur minnar. Þau höfði fyrst hittst á Eskifirði þremur árum áður. Hann var að láta mig vita að fyrsta barn þeirra væri komið í heiminn, hún Sigríður Björk. Eftir að hann hafði sagt mér frá hvernig fæðing Sigríðar Bjarkar hefði gengið og hvað hún hefði verið stór ásamt fleiru slíku hefðbundnu tali þegar börn fæðast, reyndum við að tala svolítið um daginn og veginn en ég man að það gekk frekar stirðlega. En það var eiginlega þarna sem mér finnst eftir á að kynni okkar hafi byrjað.
 
Nú er hann Sveinn mágur minn dáinn, eða Svenni sem hann var kallaður, og þegar mér barst tilkynning um það brá mér mjög. Hann var jú á áttugasta og fimmta aldursári en mér brá verulega eigi að síður. Hann og hún Guðný systir mín hafa búið á Skagaströnd í fjölda ára.
 
Síðar á lífsleiðinni töluðum við Svenni oft saman í síma og augliti auglitis og þá gengu samtöl okkar betur og alveg sérstaklega á síðustu árum. Við vorum ekki alltaf sammála um pólitík og þjóðmál en það var aukaatriði fyrir mér. Hann, og þau hjón bæði, voru góð heim að sækja, alveg sérstaklega vil ég segja. Samt hittumst við of sjaldan. Það kemur svo oft upp eftir á þegar það er of seint að breyta því.
 
Á árunum áður en við Valdís eignuðumst fyrsta bílinn voru ferðalög okkar mjög af skornum skammti, lágu í fyrsta lagi til Reykjavíkur og á Kálfafell. En Guðnýju langaði að fá okkur í heimsókn og svo sannarlega langaði okkur í heimsókn til þeirra. Dag einn hringdi hún og sagðist hafa tillögu. Það var að Svenni mundi sækja okkur. Síðan færi hann með okkur á Blönduós eftir heimsóknina og þaðan færum við heim með rútu. Sú rúta kæmi nógu snemma til Akureyrar þannig að við næðum rútunni þaðan og áleiðis heim til Hríseyjar. Þetta var allt klappað og klárt og kannað af þeirra hálfu.
 
Svenni kom í Eyjafjörðinn til að sækja okkur en þar sem bíllinn hans var bilaður þegar til átti að taka, þá kom hann á lánsbíl. Lánsbíllinn bilaði líka á leiðinni vestur á Skagaströnd og hann hafði gríðar mikið fyrir þessu ferðalagi. Mér fannst sem hann hefði alldeilis of mikið fyrir því að sækja okkur og vissi ekki almennilega hvernig ég átti að haga mér í stöðunni. En eitt var víst; hann hafði lofað henni Guðnýju systur minni að sækja okkur og það skyldi hann standa við. Sú minning er efst í huga mér nú hversu tryggur fjölskyldufaðir hann var.
 
 
 
Klukkan að verða hálf níu í gærkvöldi gekk ég út að bílnum mínum þar sem hann stóð utan við húsið heima í Örebroléni í Svíþjóð. Þá var ég þegar byrjaður að skrifa þessar línur og því var Sveinn mágur minn ofarlega í huga mér. Það var vægt frost, fullkomið logn og stjörnubjart. Ég staldraði við og virti fyrir mér stjörnuhimininn. Þær lýstu svo ótrúlega bjartar stjörnurnar og virtust svo nálægar í allri fjarlægð sinni.
 
Hvar eru þið öll sem farin eruð heim? Eruð þið þarna langt úti í stjörnuhimninum meðal alls sem finnst í þessum ótrúlega heimi? Í heimi sem er langt utan þess efnislega heims sem við þekkjum, en kannski svo nærri samt.
 
Ekkert er svo ótrúlegt að það geti ekki átt sér stað eins og bara það að allt það stjörnuhaf sem ég sá þarna úti í óravíddinni yfir höfuð varð til í árdaga og nú gengur eftir sínum brautum í einhverju ótrúlegu jafnvægi sem mér verður aldrei unnað að skilja. Eruð þið einhvers staðar þarna þið sem eruð farin á undan mér frá þeim efnisheimi sem ég þekki og yfir í þann heim sem ég fæ að vera með í þegar mín stund kemur? Ég varð hreinlega uppnuminn af hugsuninni og þrátt fyrir að upplifunin væri svo hlý og verðmæt stóð sorgin við hlið mína.
 
Svo varð ég að halda áfram jarðneskri ferð minni, eða svo fannst mér, og segja skilið við stutta helgistund undir tærum næturhimninum. Eða, líklega gerði ég rangt val að ekki vera kyrr þar mokkra stund í viðbót í staðinn fyrir að aka burtu á vélknúnu farartæki frá góðri andlegri upplifun.
 
Sveinn mágur minn, vegna þess að vegir okkar skárust á lífsleiðinni upplifði ég nákvæmlega þessi mjög svo góðu augnablik og hugsanir undir kvöldhimninum utan við húsið heima hjá mér. Kynni mín af þér og minningin um þig er góð. -Og Svenni mágur minn, mikið er ég þér þakklátur fyrir alla þá tryggð sem þú sýndir henni Guðnýju systur minni og alveg sérstaklega þessi síðustu ár sem hún hefur mest þurft á því að halda. Þetta trygglyndi þitt verður eflaust boðið velkomið í þínum nýju heimkynnum í víddum hins óþekkta.
 
 
 
 
Í september 2017 kom ég síðast í heimsókn til fólksins míns á Skagaströnd. Ég gisti eina helgi hjá Guðnýju systur minni og Sveini Garðarssyni. Þegar ég hafði þakkað fyrir mig, kvatt alla og var á leið að útihurðinni heima hjá þeim leit ég við bara eins og til öryggis. Þá varð ég hrærður þegar ég sá fólkið sem horfði á eftir mér. Ég greip upp símann og tók þessa mynd sem mér finnst ein af mínum verðmætustu myndum. Til vinstri er hún Eva, barnabarn Sveins og Guðnýjar. Þá hún Sigríður Björk sem ég heyrði fyrst um í gamla litla símaklefanum í Hrísey. Þá Sveinn Sigurbjörn Garðarsson fæddur á Sauðá á Sauðárkróki 7. október 1934. Við hlið hans stendur dóttirin Birna og lengst til hægri er svo hún Guðný systir mín. Svo verð ég bara að viðurkenna að ég man ekki hvað börnin tvö heita. Fyrirgefið mér kæru börn. Á myndina vantar soninn Stefán sem líklega var á sjó einhvers staðar undan ströndum Afríku.
 
Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Útför Sveins fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd klukkan 14 í dag
RSS 2.0