Kæra Norrland

Í gær vorum við Susanne á leið til Saxnes i syðra Lapplandi þar sem við nú erum stödd. Við stöldruðum við í Strömsund sem er hér all nokkru sunnar og fengum okkur hamborgara. Ég beið framan við snyrtinguna eftir að komast að. Eftir nokkra stund opnuðust dyrnar og út kom drengur á að giska tíu ára. Hann leit á mig, opnaði dyrnar upp á gátt og beið þess að ég gengi inn. Svo sleppti hann hurðinni þegar hann sá að ég var tilbúinn að taka við henni þar sem hún lokaðist sjálfkrafa. Bæði hringurinn og lokið voru niðri á klósettinu. Hann hafði prúðmannlegt yfirbragð þessi drengur, hann var ungur herramaður og þannig sá ég hann fyrir mér, líka eftir að hurðin hafði byrgt sýn okkar á milli.
 
Þegar við Susanne vorum á leiðinni út þaðan mættum við ungu pari í dyrunum og svo tvístigum við öll meðan við áttuðum okkur á hvernig við skyldum mætast. Svo heilsuðumst við og hlógum, þau héldu hurðinni opinni fyrir okkur og svo sögðum við öll bless.
 
Þrjú síðustu bloggin mín fjölluðu um upplifanir í Norrland fyrir tveimur árum og á leiðinni að bílnum þarna í Strömsund hugsaði ég út í það að ég hafði ætlað að skrifa svolítinn eftirmála eftir þessi þrjú blogg. Ég nefnilega upplifi marga hluti öðru vísi hér uppi en ég geri sunnar. Sumir hafa ódrepandi áhuga fyrir fótbolta og geta rætt um fótbolta mörgum stundum. Sumir hafa þennan sterka áhuga á bílum, sumir á gömlum bílum, sumir á stangveiði og svo má lengi telja. Ég hef líka mínar dellur og ein þeirra er Norrland. Norrlandsdellan hefur afar sterk tök á mér og ef einhver segir að það sé þess vegna sem ég sé hlutina í öðru ljósi hér uppi þá myndi ég ekki þverneita því.
 
Susanne skipulagði Norrlandsferðina okkar fyrir tveimur árum. Við þurftum að taka bílaleigubíla á tveimur stöðum og eitt sinn sagði Susanne við mig að hún skildi ekki hvernig ætti að panta bíl á netinu. Og þegar ég leit á þetta skildi ég það ekki heldur. Susanne hringdi svo til Hertz í Arvidsjaur og þar var henni bent á að tala við Kurt. Kurt sagðist ekki heldur skilja þetta prógramm þar sem hægt er að panta bílaleigubíla á netinu. Pantaðu bara hjá mér gegnum síma hafði hann sagt og í lok samtalsins hafði hann sagt; "og slepptu svo öllum áhyggjum af þessu elsku stelpan mín".
 
Kurt kom með bílinn að hóteli í Arvidsjaur og kom inn í móttökuna til að ganga frá pappírum. Hann var myndarlegur kall, vel máli farinn, bráð skemmtilegur og glaðvær, nýlega kominn á eftirlaunaaldur og kynnti sig sem fyrrverandi lögreglumann. Þegar við ætluðum að skila bílnum tveimur dögum seinna komum við of seint. Kurt fór bara heim aftur og sagði okkur í síma að hann einfaldlega kæmi aftur, hann hefði bara gaman af að hitta fólk.
 
Ég sá um bílaleigubíl í Vilhelmína það árið. Þar talaði ég við Bengt hjá "Bil og frítíð" og sagðist hann ekki heldur kunna á tölvuprógrammið. Hann var talsvert önnur manntegund en Kurt. Hann var alvarlegur og hafði ekki of mörg orð um hlutina. En þeir áttu það sameiginlegt að það sem þeir lofuðu án undirskrifta, það skyldi standa. "Ég hafði ekki bíl í sama verðflokki og þið báðuð um", sagði hann þegar við komum þangað að taka bílinn, "en þið fáið Volvóinn þarna úti á sama verði". Þegar við komum til baka spurði hann hvort við hefðum fyllt bílinn af bensíni. Æ nei svaraði ég, ég skal fara og gera það. "Þú þarft þess ekki, við bara gerum það og það kostar ekkert aukalega." Þannig var Bengt.
 
 
 
 
Ég sit á hóteli hér í Saxnes og hef mikla fjallaútsýn þar sem skógarnir vaxa upp í miðjar hlíðar og meira. Hið neðra eru vötn með skógi vöxnum eyjum. Í morgun borðuðum við Susanne mikinn og góðan morgunverð. Nú er hún í æfingasal og styrkir kroppinn en ég skrifa.
 
Ég skipulagði ferðina í ár. Snemma í vor talaði ég við Ríkarð sem á hús í fjalllendinu nærri Noregi. Þar var bara um að ræða loforð og af reynslunni treysti ég því. Húsið er með heilum átta rúmum en af ákveðinni ástæðu viljum við vera þar eina nótt. Þegar ég spurði Ríkarð hvar ég ætti að taka lykilinn svaraði hann; "nú, hann stendur í skránni".
 
Skammt þar frá á Jimmý hús sem við leigjum í þrjá sólarhringa og þar gildir einnig loforð. Og þegar ég spurði Jimmý hvar lykilinn væri að finna svaraði hann alveg á sama hátt og Ríkarður; "nú, hann stendur í skránni".
 
Eftir það förum við til Kolåsen sem er í fjalllendinu í suður Norrland, með öðrum orðum í vestra Jämtland. Þar verðum við í sjö sólarhringa. Þar erum við heimavön og Anna, eins og hún heitir, veit hvaða hús við óskum okkur helst af öllu og þar verðum við.
 
Eftir það er svolítið óráðið hvað við gerum og kannski förum við heim frá Kolåsen.
 
Snemma í vor þegar ég var að ganga frá þessari ferð okkar var að venju mikið um slæmar fréttir. Þjóðir rifta rótgrónu samstarfi og starta köldu stríði, menn skjóta ótt og títt hvern annan í sunnanverðu landinu Svíþjóð sem og svo víða annars staðar og sjúkleg græðgi tröllríður stórum hluta mannkyns, bara svo að dæmi séu nefnd. Því var ég löngu ákveðinn í að skrifa þetta.
 
Svo hugsa ég til Kurts og Bengts sem leigja út bíla, til Ríkarðs og Jimmys sem geyma lykilinn í skránni, til Önnu í Kolåsen og ég gæti nefnt svo mikið annað. Ég vil heldur ekki gleyma konunni sem tók svo vinalega á móti okkur hér á hótelinu í gær eða stúlkunni sem seldi okkur kaffi í Vilhelmína. Ég er þakklátur fyrir að það finnast ennþá griðlönd hér á jörð.
 
Nú förum við Súsanne út til að kynnast lífinu í fjalllendinu.
RSS 2.0