Gamlárskvöld

Thad er nú meira ad vera á medferdaheimili á gamlárskvöld med 17 alkohólistum og fíkniefnaneytendum. Thad er thó ekki í fyrsta skipti í sögunni sem ég geri thetta. Ég hef nefnilega unnid hér mörg jólin og áramótin og reyndar átt afar gódar stundir med thessu fólki. Hér hefur gegnum öll ár verid fólk sem á sína áramótadrauma og áramótaheitn hafa verid mörg en ekki öll höfd í hávegum.

Ég spurdi ádan mann á fertugsaldri hvort thad hefdi verid gódur matur á adfangadag. Hann stoppadi beint fyrir framan mig og sagdi med miklum áherslum: Oja, mycket gott var det och överflöde var det också skall du veta. Ég thurfti ekki ad spyrja, ég vissi thetta vel en langadi ad heyra einhvern segja thad. Nú sitja thau öll á sínum fundum sem thau sjá um á eigin spýtur og ég skýst á medan og blogga.

Thad er mun hlýrra, frostid er níu stig sem stendur. Núna er alveg örugglega allt í lagi ad fara ad hlakka til vorsins. Í tilefni af thví leitadi ég upp sumarmynd frá Vornesi. Í gaer birti ég vetrarmynd af innkeyrslunni hingad heim og nú birti ég sumarmynd af henni.


Thad eru ljúfir dagar thegar náttúran er komin í thennan búning.

Ég óska öllum er thetta lesa gledilegs nýs árs og fridar og thakka fyrir allt sem vid höfum átt sameiginlegt á árinu 2009.

Aaaaleinn heima

"Kvenmannslaus í kulda og trekki" orti Steinn Steinarr og ég er aleinn heima í Örebro. Það er svínkalt eins og svíar segja gjarnan en það er ekki trekkur. Það er blæja logn. Óvenju kaldur september var það, óvenju hlýir október og nóvember, en nú er mjög kaldur desember. Frá í gærkvöldi og þangað til ég var kominn hálfa leið í vinnuna í morgun var 22 stiga frost og nú stendur mælirinn í 20 stiga frosti. Svona veður eru vön að koma í janúar og kannski fram að miðjum febrúar, en í desember, það lætur ekki kunnuglega.

Það tók dálítið í að fara í vinnu í morgun og þegar ég kom í Vornes var ég alls ekki essinu mínu. Dagurinn byrjaði að venju á starfsmannafundi og ég lýsti því yfir að ég væri alls ekki glaður. Ég væri ellilífeyrisþegi og ætti að vera heima að borða morgunverð í rólegheitum í stað þess að sitja þennan starfsmannafund. Hins vegar sagðist ég vita að þegar ég færi að heilsa upp á sjúklingana vini mína mundi ég komast í gang. Annelie hjúkrunarfræðingur sagði þá að ég væri í góðum málum þar sem það hefði verið óeðlilegt ef ég hefði verið sólginn í að fara að heiman í skítakulda til að vinna, sextíuogsjö ára maðurinn. Heimilið ætti að vera mér kærara en vinnustaðurinn. Ó, hvað mér þótti vænt um hana þegar hún sagði þetta og svo voru allir á sama máli og hún. Ég á góða vinnufélaga. Svo varð fyrsti vinnudagur minn eftir mánudagsmorguninn 21. september alveg skínandi góður dagur.

Ég kann alveg að mæta alkohólistum á meðferðarheimili og það sýndi sig líka í morgun. Svo voru þar líka nokkur endurkomuandlit. Svo hafði ég fyrirlestur og ég sagði þeim hver lokaorðin í blogginu mínu í gær hefðu verið. Er þetta rétt hjá mér? spurði ég. Enginn svaraði stundarhátt en allir kinkuðu kolli. Ég vissi líka að ég hefði farið með rétt mál og ég vissi einnig að þau hefðu gott af að hugsa út í þennan sannleika. Það sem er best við þessa vinnu er að mæta alkohólista sem hefur verið edrú í nokkur ár með barn sitt við hlið sér, taka hann eða hana tali og sjá barnið halda þétt í hendi pabba eða mömmu og andlitið lýsir af öryggi. Þá hefur barnið fengið til baka pabba sinn eða mömmu sína og í sumum tilfellum hvort tveggja.

Utan veggjanna hélt biturt frostið áfram iðju sinni og allt í einu mundi ég eftir því að ég hafði myndavélina með. Umhverfi þessa staðar sem er einn stór og mjög fallegur skrúðgarður að sumri til er nú í djúpri hvíld. Stundum er þessi hvíldartími hryssingslegur, stundum mjög fallegur, en í dag var það bara kyrrlátur hversdagslegur vetrardagur. Nú læt ég myndirnar tala.


Sá sem sæi þessa heimkomu að Vornesi í fyrsta skipti eins og hún er á þessari mynd, mundi ekki geta trúað því hvernig hún sér út að sumri til og öfugt. Ég segi aftur; einn stór skrúðgarður.


Í þrettán sumur hef ég séð þessa lind í laufskrúði. Þá er erfitt að gera sér grein fyrir því að hún geti virkilega orðið svona að vetri til. Svo sé ég með beru auganu að hún hefur stækkað með ólíkindum á þessum þrettán árum.

Þetta útsýni til suðurs er ekki mikið fyrir augað á myndinni. En komið í lok maí og sjáið þá dýrð sem blaðgrænan skapar eftir vetrarhvíldina.

Á nýársdagsmorgun fer ég afturn til Uppsala. Þá verð ég ekki kvenmannslaus lengur og þar er mikið minna frost. Mikið minni kuldi og trekkur.

Kominn heim

Ég fór frá Uppsala rétt fyrir klukkan tólf í dag og það var næstum sem það væri ferðaóhugur í mér. Ég vissi svo sem hvað það var, það var enginn ferðaóhugur, ég vildi bara ekki fara. Þegar ég var kominn vestur fyrir borgina komst ég yfir þetta og ferðalagið gekk mjög vel. Það var svínkalt, 12 til 20 stiga frost á leiðinni, og vegagerðin varaði við hálku. Hins vegar er ekki svo hált í svona miklu frosti ef maður bara keyrir ekki eins og manni liggi lífið á. Mér lá alls ekki lífið á og nýtti mér ekki einu sinni hámarkshraðann. Landið var býsna fallegt í þessu veðri og mér fannst gaman að virða það fyrir mér. Ég er duglegur við að hleypa öðrum framúr þegar ég vil fara rólega en sannleikurinn var sá að lang flestir tóku því álíka rólega og ég.

Ég kvaddi Uppsalafjölskylduna á stéttinni fyrir utan innganginn þeirra. Hannes Guðjón var þar dúðaður í vagni og foreldrarnir voru á leið með hann í gönguferð. Hann var sofnaður og ég hef frétt að hann hafi sofið lengi og vaknað sæll og ánægður. Hæpið er að hann skynji að afi sé farinn en það verður gaman að sjá á nýársdag hvort hann þekkir mig. Ég er vongóður því að ég fékk skilaboð frá Íslandi í morgun um að barnabörnin þekktu afa og ömmu alltaf aftur.

Ég fór beina leið á Sólvelli til að ganga úr skugga um að þar væri allt í lagi eins og það raunar var. Þegar ég var á milli Örebro og Sólvalla var frostið mest, 20 stig. Á Sólvöllum var einhver mesti snjór sem ég hef séð þar, næstum upp í hné, og ég var hreinlega ekki skóaður til að ganga frá innkeyrslunni og heim að húsinu enda fékk ég ríkulega snjó í skóna. Þegar ég kom svo heim í Örebro var í póstkassanum mikill haugur af pósti. Þar var bréf frá tryggingastofnun og ég opnaði það hinn glaðasti og forvitinn um verðandi ellilífeyri. Nei. Það var ekkert svoleiðis. Hins vegar var gefið í skin að ég hefði gefið rangar upplýsingar í tekjuáætlun næsta árs sem ég þyrfti að sanna með miklum pappír ef það ætti að verða tekið trúanlegt. Ég vissi vel að upplýsingarnar voru réttar og nú er ég búinn að senda tvöfaldan tölvupóst til að útskýra málið. Ég vona að það verði tekið trúanlegt.

Á leiðinni frá Uppsala var ég með efni frá jólum 1993 í kollinum sem ég ætlaði að blogga um í kvöld. Svo verður þó ekki því að tryggingastofnun tókst að drepa niður andagift mína og nú er ég mun jarðbundnari fyrir vikið. Jólin 1993 verða því að bíða. Rósa bað mig að senda vetrarmyndir frá Sólvöllum og hér koma þær. Þær eru teknar rétt um það leyti sem birtu tók að bregða og eru hver annarri líkar.







Hér með er bloggi dagsins lokið og ég mun leggja mig mjög snemma í kvöld. Á morgun er það vinna og blákaldur veruleiki. Ég hef ekki verið á vinnustaðnum í næstum þrjá og hálfan mánuð en ég á samt ekki von á að alkohólistarnir hafi breytst. Þeir eru hræddir, fátækir af von, sorgmæddir og með litla trú á sjálfum sér þó að stundum megi halda að þeir séu frakkir og góðir með sig.

Hvað tíminn líður hratt

Þegar við Valdís vorum á leið til Uppsala þann 18. desember fannst okkur, alla vega mér, að þetta yrði langur og góður tími hér. Ég ætlaði ekki til baka fyrr en þann 29. desember og Valdís nokkuð seinna. Einhvers staðar undir niðri fannst þó sterkur grunur um að tíminn mundi líða fljótt, en máttur afneitunarinnar er sterkur og getur riðlað raunveruleikanum. Nú er það svo að tíminn hefur verið afar góður en hann er líka liðinn og leið allt of fljótt. Ég fer heim á morgun um hádegisbil eða svo og nú er komið fram yfir miðnætti. Ég mun sakna þeirra allra þriggja en ég vona að Rósa og Pétur fyrirgefi mér -ég mun líklega sakna Hannesar Guðjóns mest.

Síðast héldum við jól þar sem barn var i heimili í Vestmannaeyjum 1993 hjá Valgerði og Jónatan en þá var Kristinn þeirra tíu ára. Ég man vel þegar við undirbjuggum jól meðan börnin okkar voru lítil að það var afar gaman að fylgjast með eftirvæntingu þeirra og þá var líka undirbúningurinn skemmtilegur. Þegar við Valdís vorum orðin ein fannst mér undirbúningurinn meira tilgangslaus og ýmislegt við hann varð hálf leiðinlegt, sérstaklega að gera við bilaðar ljósaseríur. Valdísi fannst hann alltaf jafn skemmtilegur og líka eftir að við fluttum til Svíþjóðar. Allt í einu höldum við svo jól þar sem er smábarn og ég varð svo var við  gömlu skemmtilegu tilfinninguna, jafnvel þó að hann nafni minn sé enn of ungur til að finna fyrir eftirvæntingu. Ég þakka ykkur svo mikið fyrir þessi jól Rósa, Pétur og Hannes Guðjón. Nú ætla ég að hampa nokkrum barnamyndum.


Ég er búinn að nota þessa mynd áður en ég ætla að nota hana aftur. Í traustum höndum ömmu er maður öruggur og þá er gaman að horfa á lífið úti. Frábær mynd af barni sem finnur sig öruggt.


Frábært uppeldi eða hvað? Pabbi leikur á hljóðfæri og syngur fyrir barnið sitt. Hvað verður langt þangað til sá litli fer að syngja með.


Heyrðu, er hann ekki að dansa þarna?


Það er létt að hrífast af þessum augum. Þessa mynd tók amma þegar þrjár kynslóðir, amma, mamma og litli drengurinn voru að spássera í Stokkhólmi fyrir jólin og kíkja aðeins í búðarglugga.


Kominn í jólasparifötin og öryggið hjá mömmu sinni.
Jólatré í stofu stendur/ stjörnur glampar á. En hann vildi heldur horfa á mömmu en jólatréð og segja henni eitthvað skemmtilegt sem hún mátti ekki missa af.


Svo endum við hér nafnarnir. Okkur hefur oft komið vel saman þennan tíma þó að það sé stærðarmunur á höndunum. Það verður söknuður að fara heim til Örebro á morgun til að vinna svo næstu þrjá daga þar á eftir. En við hittumst aftur strax eftir áramótin þegar afi kemur að sækja ömmu en þá verður það líka ný kveðjustund. Lífið er svona.

Ég sagði að ég ætlaði að hampa nokkrum barnamyndum. En nú er það svo að það er aðeins eitt barn á þessum myndum en fjórir fullorðnir. En við þessi fullorðnu höfum oft orðið að börnum þessa daga.

Annar í jólum

Sumir dagar eru bara þannig að það er engu hægt að segja frá. Ekkert sérstakt er gert og það það skeður ekki neitt. Svoleiðis var kannski annar í jólum hjá okkur hér í Uppsala. Valdís, sönn íslensk húsmóðir frá Hrísey, hitaði súkkulaði og bar íslenskar kökur á borð og svo héldum við veislu eins og í gamla daga. Það var ekki amalegt fyrir sextíu árum í fámenninu í sveitinni að fá súkkulaði og kökur hjäa mömmu á hátíðisdögum man ég. Ég hugsa líka að dætur okkar kannist við kökuveislur á hátíðum á frá sinni tíð þó að þær séu einni kynslóð yngri en við. Valdís hefur gegnum tíðina verið seig við ýmsar gamlar venjur. En nú er það svo að það er ekki hægt að bara borða og borða og háma í sig sætar kökur með súkkulaði og vera ekkert á ferðinni. Við Rósa og hann nafni minn erum búin að leggja að baki milli fimm og sex kólómetra í dag en Valdís og Pétur hafa verið við heimilisstörf og fleira á meðan.

Við Rósa héldum árdeigis niður með Fyrisánni að vestan með hann nafna og svo komum við upp með ánni að austan. Gatan austan við heitir ána heitir Eystri Árgatan og hvað haldið þið þá að gatan vestan við heiti? Hún heitir Vestri Árgatan (Östra og Västra Ågatan). Það verður mikið gaman að sjá í seinni hluta maí hvernig þessi gönguleið lítur út á árbökkunum með öllum tilheyrandi trjágöngum og sjálfum borgargarðinum. Þegar við komum heim var konan mín búin að þvo þvott og þurrka þannig að hún lá ekki í neinu aðgerðarleysi. Og við heimkomuna tók hann nafni minn mikinn þátt í heimilislífinu. Hann var vel úthvíldur og óspar á brosið og þá var ekki að því að spyrja að hann gladdi okkur mjög mikið. Það er meira hvað þessi börn geta stráð gleðinni kringum sig.

Þannig leit hluti af gærdeginum út hjá okkur. Ég get heldur ekki þagað yfir því að eftir að dimmt var orðið fórum við í gönguferð í dómkirkjuna. Ég sæki í það að verða svolítill sérfræðingur í Uppsala dómkirkju og reyni ögn að draga fólk með mér þangað. Ég veit ekki hvort Guð var yfir sig hrifinn af uppátækinu að reisa svo mikla og dýra kirkju honum til heiðurs í stað þess að til dæmis byggja yfir fátæka og gefa þeim möguleika í lífinu. En ég er sannfærður um það að ef hann hefði ekki lagt sitt af mörkum við hina mikilfenglegu kirkju, þá hefði hún aldrei risið. Ég hef þegar kynnt mér það að pólitísk öfl settu stundum stólinn fyrir dyrnar, ósamkomulag stöðvaði stundum framkvæmdir, peningaleysi einnig, svarti dauði og fleiri óáran gengu yfir á byggingartímanum. En Uppsaladómkirkja var að lokum staðreynd árið 1435 og hún stendur enn.

Ég skrifaði seint um gærdaginn og það var heldur ekkert að segja um hann taldi ég. Og þó, ég er þrátt fyrir allt búinn að skrifa lengra um hann en til stóð. Einfalt líf er gott líf og hangikjötið er búið. En helmingur er eftir af harðfiskinum sem Dísa og Ottó í Hrísey sendu fyrir jólin. Að lokum birti ég mynd af dómkirkjunni, mynd sem ég birti án heimildar því að ég tók hana ekki sjálfur.


Mynd frá suðri. Ég býst við að ljósmyndarinn hafi leitað færis á að taka myndina eins og hún er. Það lítur út fyrir að turnspírurnar tengist himinhvolfinu.

Jóladagur í Uppsala

Það var freistandi í morgun að halda áfram að kúra sig undir sænginni og kasta fyrir róða áætlun okkar Valdísar um að fara í messu í Uppsaladómkirkju klukkan ellefu. Svo spurði ég Valdísi þar sem hún lá undir sænginni hvort við ættum að fara í kirkju. Já, svaraði hún, en þá var líka kominn tími fyrir fótaferð og morgunverð. Maður hámar bara ekki í sig morgunverðinn fyrir kirkjuferð. Nei, það mundi ekki stýra góðri lukku, maður borðar hann í rólegheitum.

Hálftíma fyrir messu vorum við mætt til kirkju. Í þessari kirkju þar sem óendanlega margt er að taka eftir líður þessi hálftími bara eins og andartak. Svo vorum við setst mitt á meðal hinna fjölda mörgu steinsúlna, bogalína og margra alda gömlu óteljandi handtaka. Það er ógnarlegur haugur af grjóti í þessari kirkju -en- þegar þessi grjóthaugur hefur verið skipulagður á þennan snilldarlega hátt, þá er hann orðinn að helgidómi.



Orgelleikur byrjaði, fólk stóð upp, hálf sneri sér við og horfði mót innganginum. Hópur rauðklæddra hjálparmanna gekk skipulega inn aðalganginn í miðri kirkjunni. Á eftir þeim gekk hópur hvítklæddra presta. Einn, stakur og öðru vísi klæddur gekk svo aðal biskup landsins á eftir prestunum. Hann hafði bagalinn í vinstri hendi og gekk við hann. Hann sveiflaði baglinum fram og fram og fram eins og glaður, ófeiminn drengur. Sjálfur gekk hann ögn vaggandi göngulagi eins og sjómaður sem gengur snemma morguns fram bryggjuna að bát sínum, eða eins og hress bóndi sem gengur frjáls eins og fuglinn út í fjárhús til gegninga. Þessi maður er þekktur fyrir lítillæti og hógværð. Svo hófst messan fyrir alvöru.

Það er upplifun að vera við messu í guðshúsi sem er byggt á tímabilinu fyrir 550 til 750 árum, guðshúsi sem er svo ótrúlega veglegt. Þeir sem gerðu það mögulegt á þeim árum hljóta að hafa verið leiddir af einhverju æðra afli. Annað er óhugsandi. Svo var lesið upphaf Jóhannesarguðspjallsins. Það er sama saga þar. Sá sem skrifaði það hlýtur að hafa verið í snertingu við æðri máttarvöld þegar hann gerði það. Kórar sungu, textar voru lesnir og bænir beðnar, æðsti biskup landsins predikaði. Svo var altarisganga þar sem fjöldi presta gerði öllum kirkjugestum mögulegt að ganga til altaris. Við Valdís gengum til altaris í kirkjunni sem við skoðuðum hugfangin með gestum okkar sumarið 1996. Við fengum við oblátuna úr hendi æðsta biskupsins sem gekk eins og bæði sjómaður og bóndi.

Þegar kirkjan var opnuð eftir messu beið þar úti fjöldi fólks sem ætlaði inn að skoða. Við Valdís gengum þá einn auka hring um ytri súlnagöng kirkjunnar. Þar voru all stórar uglur í risa stórri gólfhellu bak við altarið. Þar var líka stytta af Maríu í hversdagslegum fötum sem var svo ótrúlega lík lifadi konu að fólki næstum hnykkti við og margir voru í vafa. Sumum var svo starsýnt á styttuna að þeir næstum duttu um uglurnar í gólfinu. Maðurinn sem gerð þessa styttu hlýtur líka að hafa verið í snertingu við alheiminn þegar hann gerði hana.

Svo gengum við heim á leið. Þegar við komum heim til Rósu, Péturs og Hannesar Guðjóns beið okkar síðbúinn auka morgunverður, mikið góður morgunverður. Það var margt að spjalla og ýmislegt að segja frá úr kirkjunni. Hannes Guðjón var með í þessu líka. Hann brosti, hló og hjalaði. Hann grét svolítið líka, horfði út um gluggann með afa, horfði á pabba sinn kveikja á kertunum á englaspilinu og hló beint í andlitið á ömmu. Svo þurfti hann að leggja sig og þá var mamma best.

Aðfangadagur í Uppsala

Klukkan var upp úr tíu í morgun þegar Rósa og Pétur fóru út i gönguferð með drenginn sinn. Ég tók að mér að vera mjólkurpósturinn og fór því í Hemköp og keypti mjólk. Valdís vildi vera heima og byrja að elda  mjólkurgrautinn og þegar ég var að fara út úr dyrunum merkti ég að hún ætlaði líka að skúra. Það voru örfáir á ferli og þeir sem voru í aðal verslunargötunni virtust hafa allan tíma í veröldinni. Mjólkurgrautirinn var afar góður hjá Valdísi og rúsínur voru í honum líka. Rjómaögn leyndist líka á borðinu og ekki var það verra. Svo var bankað á dyrnar. Þar var vinnufélagi Rósu sem ætlaði bara aðeins að líta inn. Svo fékk hann sér graut líka og svo fékk hann sér ábót en hann fékk ekki möndluna. Hana fékk Rósa og svo bauð hún upp á konfekt með kaffinu á eftir.


Klukkan var langt gengin í þrjú. Niður á Fyresánni hringsóluðu stokkendur af báðum kynjum. Stundum eltu þær hver aðra og svo stakk einhver þeirra nefinu í ána og kippti því svo upp svo að vatn slettist. Þá hættu þær eltingaleiknum þangað til þær byrjuðu aftur. Einstaka kom og einstaka fór. Þetta var beint undir stofuglugganum. Innan við stofugluggann voru afi og litli drengurinn nafni hans. Drengnum fannst svo gaman að horfa út um gluggann. Svo kom mamma og kveikti á englaspilinu þar sem það stóð á gluggabekknum. Þegar það fór að snúast fluttist athygli drengsins að því. Það var einn heimur utan við gluggann þar sem endurnar héldu áfram að hringsóla og einstaka manneskja gekk meðfram ánni. Annar heimur var innan við gluggann þar sem lítill drengur sat á hné afa og horfði hugfanginn á englaspilið. Mamma og pabbi pökkuðu inn einhverju í jólapappír og afi mátti ekki líta við. Amma var enn í eldhúsinu eitthvað að fást við mat. Hangikjötslyktin hafði þegar fyllt íbúðina. Svo varð drengurinn þreyttur og fór inn í herbergi í fangi mömmu. Pabbinn tók nú yfir við eldhúsbekkinn og amma fann sér annað að sýsla við. Afi fór út með ruslið.

Rökkrið hafði lagst mjúklega yfir þegar afi smeygði ruslapokanum inn í ruslaskápinn. Að horfa upp götuna sem liggur upp frá ánni sást ekki ein einasta manneskja á ferli. Suður með ánni gekk ungt par þétt upp að hvort öðru haldandi í hendur. Hinu megin við ána var ein manneskja, líka á suðurleið. Bíll kom sunnan að og fór svo til vinstri yfir Íslandsbrúna og það var engu líkara en honum fyndist óviðeigandi að vera á ferð. Þegar ég sneri við til að fara til baka eftir könnun mína við ána kom þeldökk kona á hjóli með hettuna á vetrarjakkanum uppbretta. Það var ótrúlega hljótt þarna um fjögurleytið nánast í miðbænum í 130 000 manna borg.

Þorlákur

Það var ekki skata í kvöldmat hér í Uppsala í dag. Skata finnst mér samt góð. Ég smakkaði hana í fyrsta skipti á Mjólkurbarnum í Reykjavík seinni hluta árs 1959 eða 60. Mjólkurbarinn var matsölustaður á Laugarveginum skammt innan við Hlemm. Ég var þar þá í hálf föstu fæði og borðaði þar hádegismat alla virka daga. Ég hafði horft á þennan skrítna fisk í borðinu en þorði ekki að smakka hann fyrr en eftir einhverra vikna umhugsun. Mér fannst sem ég yrði mér til skammar ef ég yrði að skilja skötuna eftir. Svo kom dagurinn sem ég bað um skötu og með gætni setti ég smá bita upp í mig og þar með var ég fallinn fyrir skötunni.

Hér hefur verið jólaundirbúningur í dag sem blandast því að Rósa og fjölskylda eru líka að koma sér fyrir. Svo hefur lestur hugheilla jólakveðja á Íslandi heyrst hér í íbúðinni stóran hluta dagsins. Þrátt fyrir annríki fórum við Rósa í fjögurra kólómetra gönguferði í morgun og auðvitað var yngsti fjölskyldumeðlimurinn með. Gönguferðin var reyndar í fyrsta lagi farin hans vegna en var mér líka alveg nauðsynleg. Ég hef verið dálítið trasaasamur með gönguferðirnar síðustu tvær til þrjár vikur. Hins vegar fer ég bara illa með sjálfan mig ef ég ekki stend mig í stykkinu með þetta.

Eitthvað þurfti að kaupa eftir gönguferðina og ég fór gangandi í búðir. Það úði og grúði af fólki svo að verslanir voru hálf fullar af fólki á öllum aldri. En það var rólegt yfir sem sýndi sig best í því að það voru ekki biðraðir við kassana. Undir kvöldið vorum við búin að koma flestum hlutum fyrir og hér er nú hið fallegasta heimili. Það er kyrrlátt hér og við Valdís höfum talað um að hér er gott að sofa.

Hann nafni minn er farinn að kunna vel við okkur. Hann er orðinn óspar á brosið þegar við víkjum okkur að honum og honum finnst voða gaman að fara út að glugga með ömmu sinni og horfa út. Svo segir hann stundum heilan helling við okkur með miklum tilbrigðum og við auðvitað skiljum allt saman. Það er langt síðan við Valdís höfum verið með öðrum um jól og mörg undanfarin jól hef ég verið að vinna. Því hefði lika verið tekið með þökkum ef ég hefði unnið þessi jól en það var engin spurning; fjölskyldumál voru látin liggja í fyrirrúmi. Það er mikil upplifun að vera svona í námunda við lítið barn og þó að við Valdís séum komin á ellilífeyrisaldurinn tel ég að það þroski okkur að gera það. Við ætlum í kirkju klukkan ellefu á jóladag og þá auðvitað í Uppsaladómkirkju.

Mig dauðlangaði að skrifa aftur um Uppsaladómkirkju í dag en ákvað að fresta því þangað til við hefðum verið við messu þar. Það eru tvær kirkjur sem ég hef hrifist mest af um dagana og það eru Uppsaladómkirkja og Niðarósdómkirkja. Þessi margra alda gömlu mannvirki og fólkið sem byggði þau heilla mig. Þessi jól leggjast mjög vel í mig eins og jól eiga að gera. Við höfum haldið jól með Rósu og Pétri í fáein skipti en ekki núna í þó nokkur ár. Síðast héldum við jól með Vestmannaeyjafjölskyldunni 1993. Þessi sérstaka kirkjuferð verður góð upplifun finn ég á mér.

Að svo búnu vil ég segja gleðileg jól við þá sem þetta kunna að lesa og því fylgja líka kveðjur og jólaóskir frá Valdísi, Rósu og Pétri.

Uppsaladómkirkja

Ég var ekki alveg ánægður með mig í morgun  og fram eftir degi. Mér fannst ég vera bæði of framtakslaus og of latur. Mér var vel ljóst að ég þurfti út að ganga og ég var að reyna að gera hluti hér heima hjá þeim í Uppsala sem þurfti að gera. Þess á milli gekk ég út að stofuglugganum og horfði til dómkirkjunnar sem ég var svo  ákveðinn í að heimsækja oftar en einu sinni meðan við dveldum hér. Svo þurfti ég að sinna reikningum og fleiru en allt gekk hægt. Svo var ég alveg ákveðinn í því að nú fer ég upp að kirkju og dvel þar um stund. Seint og um síðir kom ég mér af stað og það örlaði fyrir að það væri farið að bregða birtu. Þegar ég var kominn af stað fann ég bæði á sál og líkama að ég var að gera rétt. Hreyfingin, útiloftið og umhverfið, allt þetta gerði mér gott þar sem ég gekk upp með Fyresánni.


Þegar ég nálgaðist kirkjuna má segja að hún stækkaði við hvert skref sem ég færðist nær og lotning mín fyrir þessu aldagamla mannvirki og helgidómi óx að sama skapi. Myndavélin var í jakkavasanum og ég velti fyrir mér hvar  ég kæmist í næga fjarlægð til að ná mynd af allri kirkjunni þar sem ekkert bæri þó á milli. Að lokum hallaði ég mér upp að húsvegg beint á móti innganginum og tók þessa mynd af neðri hluta stafnsins. Svo horfði ég á hann, ýmist í myndavélinni eða beint á stafninn og skynjaði fegurð og mikilleika. Já, þetta var bæði voldugt og fallegt þarna strax fyrir dimmumótin í tíu stiga frosti og snjó. Ég hlakkaði til að koma inn og meðal annars að sjá aldur kirkjunnar.


Síðan gekk ég upp í hallandi götu suðvestan við kirkjuna og það var sá staðurinn þar sem gaf best færi á að ná mynd af henni næstum allri. Þessir 118,7 metra háu turnar á stærstu kirkju á Norðurlöndum teygðu sig ótrúlega langt upp mót himni. Hver skyldi svo vera lengd þessarar kirkju sem hefur 118,7 metraháa turna? Jú lengdin er einnig 118,7 metrar.


Ekki minnkaði lotningin þegar inn var komið. Ég leitaði uppi lítinn kynningarbækling um kirkjuna og þar las ég mig til um að byggingarframkvæmdir hefðu hafist um árið 1270 og víxluathöfnin hefði farið fram árið 1435. Hún var heldur eldri en ég hafði haldið og byggingin hafði tekið styttri tíma en mér fannst mögulegt. Ég gekk úr rúmgóðu anddyrinu inn í 27 metra háa kirkjuna og litaðist um. Þar var slæðingur af fólki þegar ég kom inn, fólki sem fór hljóðlega og alla vega helmingur af því voru unglingar sem töluðu í hálfum hljóðum um einhverja muni sem þau skoðuðu. Ég hafði komið þarna tvisvar áður og orðið fyrir sterkum áhrifum og í þetta skipti voru áhrifin kannski enn sterkari. Eftir að ég hafði verið þarna nokkra stund fækkaði fólki til muna og ég settist og fannst ég finna að ég væri staddur í helgidómi.

Tólf burðarstoðir liggja sitt hvoru megin við aðal salinn eftir endilengri kirkjunni. Beggja vegna utan við þessar stoðir eru svo heldur mjórri salir. Yst við útveggina eru minni herbergi. Hver þessara burðarstoða er svo þakin ótrúlegum fjölda súlna sem allar eru svo vel unnar að það mætti ætla að þær hafi verið unnar í einhverjum risa rennibekk. Þær eru settar saman úr á að giska þrjátíu sentimetra háum einingum. Súlurnar má greina á myndinni fyrir ofan. Efst uppi enda súlurnar í bogadregnum hvelfingum. Allur þessi fjöldi af súlum, öll reglan og stílfegurðin skapa svo ótrúlegan samhljóm, og hugsandi um að þetta er fleiri alda gömul sköpun og handbragð, það setur hugann á flug.

Hver gat teiknað þetta með þeirri tækni sem fannst fyrir nær átta hundruð árum? Hvernig gátu menn byggt þetta mannvirki með þeirri tækni sem fannst þá? Þær verða áleitnar spurningarnar. Ef ekki allt hefði verið vel undirbúið hefði byggingin orðið ringulreið. Hvernig er að teikna hús og stjórna byrjunarframkvæmdunum vitandi að það eru margir mannsaldrar þangað til það verður tilbúið? Hvernig er að vinna við bygginguna á lokastigum vitandi að það eru margir mannsaldrar síðan hún var hönnuð og byggingin hófst? Það eru margar spurningar og mikil undrun sem fylgja því að skoða gömul mannvirki. Ég vil fjalla meira um þetta síðar.

Þegar ég gekk heim var orðið dimmt. Það voru mikil jólaljós og skreytingar en hugur minn var bundinn við sál og tilvist Uppsaladómkirkju. Þegar ég kom heim lét ég þau hin ekki í friði. Ég sá mig knúinn til að æfa hugarheim minn með miklu tali um hið ótrúlega. Nú er hins vegar komin nótt og ég mun ekki leysa neinar gátur að sinni.

Jólasnjór

Það er líklega átta stiga frost hér í Uppsala núna og það er spáð 15 stiga frosti í dag. Það snjóar næstum samfleytt en oftast nær mjög lítið, svo lítið að ég held að snjórinn sé ekki meira en 20 sentimetrar eftir einhverra daga snjókomu. Ísþynnurnar byrjuðu aftur að fljóta niður Fyrisána í gær og á þeim sér maður að vatnið rennur með drjúgum hraða niður að Íslandsfossi. Eftir iðuna sem fossinn myndar er áin ísi lögð niður eftir til suðurs svo langt sem sést og bátar eru frosnir inni við bryggjurnar báðu megin árinnar. Það er greinilega eitthvað sem sem menn eru vanir við því að það er ekkert vafstur út af þessum bátum.

Það fer varla hjá því að það verður jólasnjór hér. Spáin er í þá veruna og það er nögjanlega staðviðrasamt hér til að það verða engar afgerandi sveiflur í veðrinu fyrir jól. Það er óneitanlega bjartara meðan snjórinn liggur á en ég aftur á móti mundi gjarnan vilja hafa greitt göngufæri með hækjurnar. Fari ég í ærlega gönguferð nota ég hækjurnar ennþá. Ég er ekki farinn að heimsækja dómkirkjuna sem er þó í sjónmáli héðan að heiman

Um hádegisbil förum við öll til Stokkhólms. Rósa og Pétur ætla að fara síðustu höndum um íbúðina áður en nýir eigendur taka við henni og við Valdís ætlum að vera þeim innan handar eftir bestu getu. Það er ósköp lítið sem þarf að gera en það þarf að gera það samt.



Við erum komin heim út Stokkhólmsferðinni.

Miðdepillinn í hópnum var auðvitað sá yngsti, hann Hannes Guðjón nafni minn. Ég get ekki látið vera að koma þessu nafni að við öllmöguleg tækifæri. Það er ekki nóg með að hann heiti Hannes Guðjón, hann er líka nafni minn. Hann var alveg ótrúlega duglegur í þessari ferð og tók því mesta með jafnaðargeði. Hér situr hann í lestinni ásamt stoltum foreldrum.


En það eru ekki bara foreldrarnir sem eru stoltir. Afinn og amman eru montin. En hvað um það, það er gaman að fylgjast með daglegum framförum.


Ég ætlaði bara að hafa tvær myndir með essu bloggi. Svo skoðaði ég fleiri myndir og hver getur hreinlegsa staðist þetta.


Og hér sjáum við hana Ullu flugfreyju fyrrverandi nágranna og Rósu og fjölskyldu og bæði fyrrverandi og núverandi vin. Ulla bauð okkur upp á afar góðan kvöldmat þar sem við fengum að smakka bæði hreyndýra- og elgskjöt. Það var mikið góður matur. Hannes Guðjón er vel kunnugur Ullu og hún hefur voða fínt lag á að fá hann til að hjala og hlæja.

Sunnudagsmorgun í Uppsala

Það snjóar aðeins og er trúlega búið að snjóa ögn í alla nótt. Það er afar kyrrlátt fyrir utan að snjómoksturstæki hafa verið á ferðinni. Vatnið streymir án afláts suður Fyrisána, all hratt en án allra boðafalla, og í dag eru engar ísþynnur á ferðalagi með vatninu. Ung kona hljóp áðan niður með ánni á vesturbakkanum. Hún ætlar kannski að sjá til þess að aukakílóin safnist ekki fyrir nú um jólaleytið.

Við Pétur fórum í gær að sækja íslenskar vörur eins og ég hef sagt frá. Þá snjóaði mun meira en núna og húfurnar okkar urðu fljótt hlaðnar snjó. Það var kannski tíu til tólf manna biðröð við Íslandsvörubílinn og þar var töluð íslenska. Aftast í röðinni um tíma var málvísindamaðurinn Pétur Helgason og fremstur í röðinni var málvísindamaðurinn Heimir Pálsson. Ég vissi að Heimir átti að leggjast inn á sjúkrahús fyrir tveimur vikum og fá nýjan mjaðmalið en þarna stóð hann með venjulegan göngustaf og virtist hafa misst af aðgerðinni. Ég ákvað að sleppa honum ekki. Þegar hann var laus úr biðröðinni réðist ég að honum, heilsaði og spurði hann eftir aðgerðinni. Þá hafði ekki orðið af henni á tilsettum tíma af ástæðum sem ég heyrði ekki almennilega. Pétur var enn aftastur í biðröðinni og ég benti Heimi á hann og sagði honum að þar væri tengdasonur minn. Þeir hafa hittst nokkrum sinnum áður þar sem báðir hafa unnið við Uppsalaháskóla.

Pétur, Rósa og Hannes búa á Östra Ågatan 57 en Heimir upplýsti að bann byggi á Östra Ågatan 73 eða svo. Pétur, Rósa og Hannes búa við íslandsbrúna og Íslandsfossinn en Heimir býr við Íslandsgötuna sem liggur þvert á Östra Ågatan aåeins häerna sunnar. Östra Ågatan, sem þýðir jú einfaldlega Eystri Árgatan, er á Eystri bakka Fyrisárinnar. Getur nokkur stungið upp á hvað gatan á vesturbakkanum heitir?


Hér sjáum við til norðurs til Uppsaladómkirkju ut um stofugluggann. Við Valdís skoðuðum þessa kirkju ótrúlega snemma á árdögum okkar í Svíþjóð og hrifumst mjög af henni. Síðar komim við þangað með Guðrúnu mágkonu minni og Páli bróður sumarið 1996. Vegalengdin héðan að kirkjunni er bara smá gönguferð. Hana skal ég leggja að baki, vonandi oftar en einu sinni, áður en við förum heim á ný. Það er mjög gott að sitja í kirrlátri kirkju, hvíla hugann og nálgast sjálfan sig. Ég hef gert mikið af því í Svíþjóð en verið lélegur við það síðustu árin. Það er kominn tími til að auðga andann á ný á þennan einfalda hátt.


Hér sjáum við suður og niður eftir Fyresánni. Bátarnir eru nú frosnir inni en Íslandsfossinn heldur oppnu neðan við brúna. Þessi mynd er líka tekin út um stofugluggann.

Að vera afi og amma

Hann dóttursonur minn er búinn að vera mikill gleðigjafi í gær. Það er ótrúlegt hvað svona lítil mannvera á létt með að fylla heila íbúð af gleði. Að hann var svo fús að vera hjá bæði ömmu og afa í dag, daginn eftir að við komum, það eitt skapaði bæði undrun og gleði. Víst var það svona líka þegar okkar börn voru lítil en ég held að ég hafi ekki séð það í hinu rétta ljósi í þá daga, að ég hafi ekki skilið að þetta litla fólk fyllti heilt hús af gleði. Er það ekki alveg frábært? Stundum komu líka stundir þegar þeim gekk illa að sofna eða eitthvað virtist vera að og þá gat hvort heldur óþolinmæði eða órói tekið við í stað gleði.


Ömmunni leiddist ekki sérstaklega mikið þegar Hannes Guðjón vildi sitja á hné hennar og bæði hló og hjalaði. Og við sem erum orðin 67 ára förum alveg óvart að tala barnalega.


Svo leit hann á afa sinn sem mundaði myndavélina á alla vegu og talaði eins og smákrakki. Ætli honum hafi ekki þótt afi svolítið skrýtinn. Ekki væri ég hissa.


Svo var allt í einu komin upp róla og þá var minn maður bara uppréttur og tyllti niður tánum. Eitthvað nýtt, gaman gaman. Og pabbi fylgist með viðbrögðunum og sér til að ekkert fari úrskeiðis.

Get ég bara sofið alveg endalaust?

Þvílíkur svefn. Ég er búinn að sofa á níunda tíma mína fyrstu nótt í Uppsala. Alveg makalaust. Einhvern tíma í nótt þurfti Valdís að skreppa fram. Heima og á Sólvöllum förum við út úr svefnherberginju til hægri fótagafls megin. Nú fór Valdís fram til vinstri höfðagafls megin. Ég rumskaði aðeins þegar hún fór fram og skildi ekkert í þessu. Var það virkilega svo að það lá leið fram á bað gegnum fataskápinn? Svo hafði ég ekki frekari áhuga á því, heldur hvað mér leið notalega í rúminu og það var enginn verkur í fætinum. Ég er enn að dást að því. Svo teygði ég aðeins úr fætinum og fannst eins og ég fyndi batatilfinninguna ennþá hríslast um hann núna þremur mánuðum eftir aðgerð. Mig langaði svo sannarlega að mala eins og köttur og svo er það oft undanfarið. Svo var ég sofnaður áður en Valdís kom til baka af snyrtingunni. Það var ekki fyrr en í morgun sem ég áttaði mig á því að það eru ekki endilega öll herbergi eins og heima. Valdís fór alls ekki gegnum fataskápinn þegar hún fór á snyrtinguna í nótt, heldur bara venjulega hurð sem er á öllum herbergjum.

Ég er góður að vita áttir og það hjálpaði mér við að komast á leiðarenda í gær. En hér inni er ég alveg kolringlaður á bæði áttum og herbergjaskipan. Svo þegar ég lít út um glugga og sé Uppsaladómkirkju, þá
fæ ég staðfestingu á réttum áttum mínum. Svo sný ég mér við og horfi inn í íbúðina og allt er samstundis farið  í rugl í kollinum á mér.

Það er dálítið frost hér í dag, sjö til níu stig. Í gær var mun meira frost og þegar við vorum á leiðinni hingað var frostið 13 til 16 stig. Ég læt hér fylgja tvær vetrarmyndir frá Uppsala, báðar teknar út um stofugluggann.

Þessi mynd er tekin til vesturs af nokkuð gömlum kastala. Ég get ímyndað mér að hann taki sig vel út þegar hann verður innrammaður af blaðgrænu næsta sumar.

Brúin þarna niðri heitir Íslandsbrúin og þessi mynd er líka tekin út um stofugluggann. Merkilegt að Uppsalabúar skyldu vita svo snemma að Íslendingar kæmu til með að búa í næsta nágrenni við brúna. Í hvarfi við brúna er svo foss sem heitir Íslandsfoss. Kannski nær því að vera foss en flúðir.

Svo er að sjálfsögðu það mikilvægasta eftir, en það er að gefa svolitla skýrslu um hann nafna minn. Hver veit hvað ég geri seinna í kvöld, en núna ætlum við Pétur að skreppa að ákveðinni Ica verslun hér í bæ, en þar ætlar Íslenskur kaupmaður að afgreiða íslenskar vörur til fólks sem áður hefur lagt inn hjá honum jólapöntunina, Þ e a s ýsu, appelsín, malt, skötu, lambakjöt ofl ofl

Komin til Uppsala

Jæja, þá erum við komin í heimahús í Uppsala hjá Rósu og fjölskyldu. Ég hef það svolítið fyrir íþrótt að rata og er nokkuð klár í þessari íþrótt. Lít ég þá í leiðabók ef ég er að fara nýjar leiðir og vil helst komast á leiðarenda án þess að þurfa frekar að líta í bókina. Ég ætlaði að spreyta mig á þessu í dag, en mér brást bogalistin og kom inn í Uppsala langtum norðar en til stóð. Það er heldur ekki glóra í því að hafa götunöfn eins og Luthagsespanaden, enda stytti ég það í L-espenaden áður en við lögðum af stað að heiman. Það var kannski þess vegna sem ég fór beint áfram á gatnamótunum þar sem ég átti að beygja til hægri inn á Luthagsespanaden, en ef ég hefði gert það hefði leiðin orðið svo ósköp einföld. En nú erum við hér og það er allt í lagi að villast því að ef maður tekur því rólega kemst maður alltaf á leiðarenda að lokum.

Þau eru greinilega búin að vera mjög dugleg við að ganga frá sér hér í þessum nýja bústað sínum því að það eru svo rosalega margir tómir pappakassar frammi í geymslu. Barnabarnið okkar, hann Hannes Guðjón, er búinn að brosa mikið fallega fyrir okkur og hann er líka búinn að spjalla töluvert á sínu fallega barnamáli. Hann er líka búinn að vera þreyttur og svolítið var um sig gagnvart þessum manneskjum sem allt í einu bara óðu hér inn með helling af farangri. Við tökum því bara rólega og bíðum þess að  það komist á góður kunningsskapur. Það er alveg dásamlegt að hafa svona saklausa, brosandi litla mannveru á hné sér og horfa á varirnar mynda alls konar hljóð. Þá segi ég að hann sé að tala við hann afa sinn, það er að segja þegar hann situr á mínu hné. Geri hann þetta þegar hann situr á ömmu hné, þá er hann að tala við hana ömmu sína.

Þessi mynd er frá því í fyrri hluta nóvember þegar við áttum svolítið spjall saman.


Við fengum hérna herbergi með litlu hliðarherbergi þar sem ég sit núna við tölvuna. Valdís er komin í bólið og les Sjúkrahússögu. Úti er kyrrt og talsvert af jólaljósum. Við fórum framhjá lögreglustöðinni á leiðinni hingað og á einni hlið hennar taldi Valdís 140 aðventuljós. Eina 30 metra vestan við húsið rennur Fyresáin og enn vestar upp á svoltilli hæð stendur gamall kastali. Ég get rétt ímyndað mér hvernig umhverfið er hér á fallegum og hlýjum sumardegi. Svo rata ég þegar í tvær búðir hér í Uppsala, Ica og Hemköp, og þar er hægt að kaupa rjómaís á hlýjum sumardögum.

Ég hef verið hálf slæptur á köflum í dag en nú virðist sem ég sé bara þægilega þreyttur eftir all langan dag. Það fer vel í mig að sofa hér í nótt. Það er gott fyrir fólk á okkar aldri að hafa góða heim að sækja. Ég er þakklátur fyrir það.

Uppsala á morgun

Um hádegisbil á morgun höldum við Valdís af stað til Uppsala. Nú þegar Rósa og fjölskylda eru flutt þangað verður gaman að sjá hvernig þau hafa komið sér fyrir. Og að hitta hann Hannes Guðjón, það verður alveg stórskemmtilegt. Í Uppsala verðum við um jól og Valdís kannski um áramót, en ég vinn um áramótin. Þar með er ég búinn að gefa skýrslu um þessi mál og öll þið sem viljið líta inn og athuga hvort það sé til á konnunni verða bara að líta við í Uppsala.

Ég man ekki betur en það hafi verið þannig í Hrísey fyrir sjónvarp að fólk hafi bankað á útidyrnar, gjarnan opnað sjálft og kallað inn; er til kaffi. Og alltaf var til kaffi og nóg að spjalla um. Ég man ekki betur en það hafi líka verið til með kaffinu. Svo kom sjónvarp og þá gekk þetta bara á fimmtudögum og svo kom sjónvarp á fimmtudögum og þar með var draumurinn búinn. Ef ég fer með rangt mál, þá vonast ég til að einhver leiðrétti mig.

Í dag skiptir sjónvarpið ekki lengur máli sem betur fer en við bíðum þó eftir því að ábúendur opni sjálfir. Í dag fór ég á Sólvelli til að líta yfir og til að setja við í nokkra poka sem við ætlum að gefa vinkonu Rósu í Stokkhólmi. Hún er ekki bara vinkona, heldur hefur hún verið nágranni Rósu og Péturs í þó nokkur ár. Ég held að þar hafi ekki þurft að tilkynna um komu sína, það hafi verið í lagi að banka upp á án fyrirvara.

En í þessari Sólvallaferð leit ég inn hjá nágrönnum okkar, hjónum á þrítugs aldri með tvær litlar dætur. Maðurinn var í vinnu en konan var að baka pönnukökur og dæturnar, Siv og Alma, sjö mánaða og þriggja ára, voru á viðeigandi stólum eins nálægt og hægt var og töldu sig vera að hjálpa mömmu. Þegar ég sagði henni að við værum að fara til Uppsala á morgun og yrðum þar yfir jól, spurði hún hvort þau ættu að hafa auga með húsinu okkar. Svo bætti hún við að það gerðu þau reyndar alltaf hvort sem væri þegar við værum ekki þar. Við vitum að þau gera það og við lítum einhvern veginn sjálfkrafa eftir hvert hjá öðru þarfna þegar fólk er ekki heima. Þessir ungu nágrannar okkar ganga öðru hvoru yfir til okkar þegar þau sjá okkur á stjái og hafa sagt okkur að gera slíkt hið sama en við erum lélegri við það en þau.

Hún bað að heilsa Rósu og Pétri og auðvitað honum nafna þínum sagði hún og hló. Svo spurði hún hvort það væri ekki í lagi að segja bara Peter eins og svíar gera. Það væri svolítið snúið að segja Pétur. Ég taldi það væri ekkert vandamál að þau segðu Peter, hann mundi fyrirgefa það. Þau kynntust Rósu og Pétri þegar þau dvöldu á Sólvöllum í sumar. Hún var alveg viss um að Pétur væri sænskur þó að hann héti þessu nafni. Svo tók hún við lykli að Sólvöllum og kvaddi ósköp innilega þegar ég fór. Góðir nágrannar hugsaði ég og bretti húfunni yfir eyrun þegar ég kom út. Það var sjö stiga frost og kaldanæðingur en pönnukökulyktin fylgdi mér út í bílinn.

Það var fimmkvennamatur hjá Valdísi í dag. Valdís var stór sniðug. Hún bauð upp á hangikjöt, hvíta sósu, kartöflur og laufabrauð, bara ekta íslenskan jólamat. Ein þeirra var hrædd við hangikjötið þegar hún vissi að það væri af lambi. Þessi finnska kona var viss um að lambakjöt hefði ullarbragð. Hún trúði einhverju sem hún hafði aldrei prufað. En svo voru þær svona líka hrifnar af matnum og ein þeirra borðaði yfir sig. Þegar maturinn var farinn að sjatna fengu þær vínartertu og brúntertu hjá Valdísi. Hún er ennþá þessi búkona eins og fyrir sjónvarp, hún lumar á brauði í dunkum.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því?

"Sjáðu út á handrið" sagði Valdís í morgun. Og ég leit út á handrið og sá hvernig snjórinn hafði lagt sig mjúklega á handriðið og hvíldi þar svo eðlilega og möglunarlaust. Bara var þar. Þá kviknaði hugmynd að því sem ég blogga nú og ég ákvað að taka mynd af snjónum á handriðinu. Stuttu síðar sá ég hvar Valdís gekk með myndavélina út í svaladyrnar til að taka mynda af snjónum sem hafði lag á að láta fara svo undur vel um sig á mjóu og hálf kringlóttu svalahandriðinu. Þarna sýndu nátturulögmálin eiginleika sína á einhvern undursamlegan hátt.


Í níu fréttunum í sjónvarpinu var sagt frá 20 kílómetra löngum jarðgöngum sem eiga að taka umferð sem fer af héruðunum sunnan við Stokkhólm til svæðanna norðan við Stokkhólm og öfugt. Alveg gífurleg umferð sem á þar með að hverfa af stóru vegunum gegnum borgina, en í dag finnst engin önnur leið. En nú er komið babb í bátinn. Samkvæmt útreikningum verður svo mikil mengun niður í þessum göngum að viðkvæmu fólki sem fer þar um mun verða hætt við hjártaáfalli eða andnauð ef ekki hvoru tveggja. Það er reyndar ekki afgasið sem verður höfuð bófinn, heldur nagladekkin sem rífa upp svo mikið magn af alveg salla fínu ryki. Síðan voru sýndar myndir af umferð eins og hún er í dag á stóru vegunum sem á að rýma að hluta með göngunum, og það var ógurlegt að sjá. Auðvitað hafa myndirnar verið teknar á há annatímum -en samt.

Eftir fréttatímann talaði þáttastjórnandi við mann og konu sem voru tæplega á miðjum aldri og þekktu ekki hvort annað. Þessi þáttur fjallaði um ofneyslu. Maðurinn hafði lengi verið mjög meðvitaður um samband neyslu og umhverfis og lifði samkvæmt því. Konan hafði aftur að segja sögu frá síðastliðnu vori þegar dóttir hennar átti að semja erindi um nákvæmlega þá hluti sem manninum voru orðnir eðlislægir. Bekkur stúlkunnar átti með samtali við foreldrana að semja erindi þar sem þau síðan skyldu fræða hvert annað um umhverfismál út frá hugsunarhætti foreldranna. Þegar stúlkan hafði um stund reynt að tala við mömmu sína um viðhorf hennar til neyslu og umhverfis, þá hreinlega fór hún að stórgráta og sagðist ekki fara í skólann. Mamma hennar var nefnilega nsyslufrík. Þetta vakti hana til umhugsunar. Hún fór að velta því fyrir sér hað gerði lífið þess virði að lifa því.

Í kvöld fer ég á jólaborð með starfsfólkinu í Vornesi. Þá kem ég til með að aka einkabílnum okkar 58 kílómetra til að borða lax og síld. Ég er nefnilega alltaf mettur þegar ég er búinn að borða fiskréttina. Samtals 116 kílómetrar til að borða! Ég hef það þrennt mér til afsökunar að við Ingemar ökum báðir á mínum bíl, ég er ekki á nagladekkum og bíllinn brennir etanol. Við Ingemar ökum gjarnan saman og réttum svo hvor öðrum 50 eða 100 krónur til að vera samábyrgir. Mikið vantar samt á að ég lifi nægjanlega samkvæmt minni bestu vitund. Þó að ég noti etanol á bílinn spúi ég samt mikilli eimyrju út í gufuhvolfið og eitra þar með loftið sem barnabörnin mín skulu síðar anda að sér. Svo ætla ég að fara að vinna um áramót og aka samtals 126 kílómetra til að vinna tæpa tvo sólarhringa í hverri törn. "Ei við eina fjöl er ég felldur" eins og Sigurður Þórarinsson segir í ljóði sínu. Ég er ekki stoltur af að keyra mikið.

Suður í Kaupmannahöfn á alþjóða umhverfisráðstefnu gengur ekki sem skyldi. Þar arga menn hver á annan að ef þú gerir ekki þetta líka þá geri ég það ekki heldur og þá getum við bara öll drepist. Að vísu er það ekki svo illa. Menn leystu á sínum tíma þetta með ózonlagið og nú er það á batavegi. Svo er annað. Við erum undir smásjánni ef okkur ekki tekst sjálfum. Ég er í hópi þeirra manna sem ekki sjá Jörðina okkar sem einhvern skynlausan efnishlunk. Þegar henni verður nóg boðið kemur hún til með að láta okkur vita og þá gleymum við því ekki framar.

Auðvitað tekst okkur. Þá verða barnabörnin okkar hamingjusamari yfir betri heimi. Snjórinn getur haldið áfram að stoppa við á handriði eða trjágrein og hvíla þar svo undur fallega þangað náttúran segir; nú er nóg komið. Það er mál að vakna. Svo hlýnar, snjórinn dropar niður og fer út í hringrásina á ný. Vorið kemur eins og því er eðlilegt og rósin og morgunfrúin springa út á réttum tíma. Eikur, beykitré og birki breiða út laufkrónur sínar, drekka vatnið sem draup niður, hirða úrgangsefni úr loftinu og skila fersku súrefni handa okkur til að draga niðurn í lungun.

". . . er ekki tilveran dásamleg." Svo endaði Sigurður Þórsmerkurljóðið.

Á ferð um Suðurbæjarengið og Fjósengið

Sörbyängen = Suðurbæjarengið
Ladugårdsängen = Fjósengið

Þetta eru annars vegar gömul rennslétt akurlönd og hins vegar tveir bæjarhlutar í Örebro og þýðingin er hárrétt. Annars er vafasamt að vera að þýða viss nöfn og svo eru önnur nöfn sem ekki er hægt að þýða vegna þess að þau þýða ekkert sérstakt, alla vega ekki í skilningi almennings í dag. Ég gæti líka sagt Aurabrú í staðinn fyrir Örebro en þá mundi enginn skilja hvað ég væri að fara. Þetta tal um Örebro minnir mig á það sem hún Lena sagði okkur Valdísi frá yfir jólaborðinu í kirkjunni í fyrradag. Lena þessi er kennari í Örebro. Hún var á námskeiði í Noregi og þar var einnig íslensk kona og sú spurði Lenu hvar hún byggi í Svíþjóð. Lena hugsaði sem svo að það væri best að miða við stærstu staðina í landinu ef íslenska konan ætti að fá eitthvað út úr svarinu. Hún svaraði því að hún ætti heima í borg sem væri svo sem mitt á milli Stokkhólms og Gautaborgar. Íslenska konan spurði þá hreint út hvað þessi borg héti. Já, Lena sagði að hún héti Örebro. Já já, svaraði sú íslenska, þar hef ég búið í sjö ár.

Klukkan tíu lagði ég upp með báðar hækjurnar mínar og gekk út á Suðurbæjarengið með stefnu til vesturs á Fjósengið. Borgin var svo rausnarleg í sumar og haust að leggja dálítið hlykkjóttan malbikaðan veg eftir þessum engjum endilöngum ásamt fáeinum þvervegum líka. Það á ekki að byggja alveg á næstunni á þessum rennsléttu fyrrverandi akurlöndum, en næsta sumar stendur til að þarna safnist saman yfir 20 000 manns sem verða þáttakendur í einhverjum feikna stórum ratleik. Ég kann svo sem ekki mikil skil á þessu með ratleiki en svíar eru alveg uppteknir af því. En þessir nýju vegir á engjunum gefa göngufólki alveg frábæran möguleika til gönguferða.

Fyrir fáeinum vikum þegar ég var þarna á ferð sá ég hvar spengilegur maður, beinn í baki og gekki hratt með sína göngustafi (skíðastafi). Ég hugsaði sem svo að þarna væri jafnaldri minn, en mikið rosalega var kallinn reffilegur. Svo mættumst við nákvæmlega þar sem gömul gönguleið lá þvert yfir nýja malbikaða veginn. Það leyndi sér ekki síðasta spölinn að við vorum báðir ákveðnir í að tala saman þegar við mættumst. Það var hálfgerður kuldanæðingur og sultardroparnir sóttu niður á nefbroddinn þannig að við bárum handarbökin upp eð nefjunum þegar við byrjuðum að tala saman. Svo stóðum við svolitla stund á gatnamótunum og ræddum svolítið hvor um annan. Hann var á dálítilli hraðferð því að konan var lasin heima. Hún er alltaf lasin sagði hann. Sjálfur sagðist hann hafa lent í tveimur umferðaóhöppum á seinni árum og það bagaði hann nokkuð. Svo kom fram að hann var gamall íþróttamaður og var meðal annars skíðastökkvari. Ég hugsaði bara til ferða minna upp í stökkpallinn í Falun þar sem maður fer upp um gríðarlegan sívalning í lyftu. Og að horfa svo niður brautina og hugsa sér að menn renni sér þarna niður á fullri ferð á skíðum, það fær mig bara til að svitna. Síðustu árin var hann dómari í þessari, mér liggur við að segja rosalegu íþróttagrein, þar sem menn svífa í loftinu yfir 100 metra. Nú gat ég ekki annað en spurt hann eftir aldri. Ja, ekkert unglamb sagðist hann vera, hann væri 83 ára. Það var ekkert annað, þú gætir verið pabbi minn datt út úr mér. Hann hló. Veistu, ég tók dómaraprófið mitt upp í Falun svo að ég þekki vel til þar.

Svo gengum við áleiðis að bæjarhlutanum Fjósenginu þar sem hann sagðist búa. Veistu hvar heilsugæslustöðin er? Ég á heima í nýlega húsinu sem er næstum beint á móti heilsugæslustöðinni. Konan er lasin. Það eru nokkrir hryggjarliðir sem hafa tærst svo mikið og hún hefur stöðugan óþolandi verk. Því er hún á sterkum verkjalyfjum, sterkum skilurðu. Hún situr oft og horfir bara beint fram fyrir sig. En það er betra en að hafa þessa stöðugu verki. Núna verð ég að flýta mér því að við stoppuðum það lengi áðan. Hún er sjálfsagt orðin hissa.

Ég fann fyrir sorginni í þessum ókunnuga manni sem varla þekkti lengur konuna sem hann hafði verið giftur í nær 60 ár. Ég fann sjálfur fyrir sorginni hans. Í gær hitti ég hann aftur á öðrum stað. Það var eins og okkur hefði verið stefnt saman á gatnamótum. Við gengum saman einn hálfan kílómeter. Ég byrjaði daginn á góðri gönguferð sagði hann. Svo þreif ég bakarofninn og eldavélina og svólítið meira og svo fór ég í aðra gönguferð. Það er nauðsynlegt fyrir mig að gera það. Svo ætla ég að halda áfram að þrífa þegar ég kem heim. Þú veist hvar heilsugæslustöðin er eða hvað? Ég á heima í nýja húsinu sem er næstum beint á móti heilsugæslustöðinni.

Og ég veit ekki hvað hann heitir.

Svar til Þórlaugar og Guðmundar

Takk fyrir innleggin ykkar Þórlaug og Guðmundur og takk fyrir hamingjuóskir. Já, Guðmundur, þú talar um hvernig þetta hafi farið fram. Þegar eftirspurn er mikið meiri en framboð verður þetta svona. Samt er byggt af svo miklum krafti í Örebro að það brakar í steypustyrktarjárnunum eins og blaðamaður sagði fyrir stuttu.

Það er grjótharður heimur meðan boðið er í. Við virðumst hafa verið alveg á nákvæmlega réttum tíma. Síðla sumars seldi kona hér í næst næsta húsi íbúð sem er af nákvæmlega sama gæðaflokki og okkar, en þó einu herbergi og einni snyrtingu stærri, eða með öðrum orðum 25 ferm stærri. Samt fengum við svo mikið hærra verð fyrir okkar íbúð að mismunurinn er næstum sama upphæð og við gáfum fyrir Sólvelli árið 2003.

Svo spyrjið þið hvert við ætlum að flytja. Já, það er kannski ekki að undra og margur mundi verða órólegur í okkar sporum að hafa ekki tryggt sér annan bústað áður en selt er. En það er alls ekki svo auðvelt. Hvað mig áhrærir var það mesti höfuðverkurinn hvernig við gætum stillt saman tímann á sölunni og nýjum bústað. Fjölskyldan sem tapaði í tilboðaslagnum hefur engan bústað þann 1. febrúar þegar þau verða að yfirgefa sinn núverandi bústað. Fjölskyldan sem vann verður að yfirgefa sinn bústað fyrir 1. mars. Þessar fjölskyldur báðar eru búnar að segja upp núverandi húsnæði af því að þau ætla að kaupa og einhverjir aðrir bíða eftir að flytja inn þar sem þau búa.

En nú verður þetta enginn höfuðverkur fyrir okkur. Við verðum að vera farin héðan fyrir 1. mars og þá höfum við Sólvelli. Svo einfalt er það. Við erum ekki byrjuð að leita og gerum það ekki fyrr en eftir jól. Við þurfum ekki að skaða okkur á stressi.

Við Valdís horfðum á sjónvarpsmessuna í morgun. Hún var tekin upp niður í Smálöndum. Prestur, kona, sem talaði í messunni talaði um að fólk byggði sér himnaríki heima hjá sér fyrir jól með skrauti og punti og hún var ekkert að setja út á það. En eftir jól verður þetta skraut og punt tekið niður og vetrarmyrkrið liggur þá jafn þungt yfir og það gerir í dag. Því er svo mikilvægt að við sækjum líka himnaríkið sem við viljum hafa inn á önnur svið, sækjum kraft þangað sem hann aldrei þrýtur. Þessum orðum sínum til staðfestingar vitnaði hún í Jóhannes skirara. Hún lauk tali sínu með þessum orðum: "Hræðist ei myrkrið" og jafnskjótt og hún hafði sagt það kom kór á sjónvarpsskjáinn. Aðeins framan við kórinn stóðu tvær fallegar stúlkur svo sem sjö og átta ára, greinilega ættaðar frá fjarlægu landi, í hvítum kyrtlum eins og allur kórinn sem stóð bakvið þær. Þær byrjuðu sinn tvísöng á þessum orðum; "Hræðist ei myrkrið". Eftir fyrsta versið söng allur kórinn það sem eftir var af sálminum. Svo ungur sem þessi kór var, hversu fallega hann söng.

Við hræðumst ei myrkrið.


Hér eru þrjár myndir frá Sólvöllum




Að ljóstra upp um leyndarmál

Í fyrradag var ég með dylgjur um að við ættum leyndarmál. Ég er að velta því fyrir mér núna hvort ég eigi að ljóstra upp þessu leyndarmáli okkar, en ef ég geri það eigum við ekkert leyndarmál til að pukra með. Leyndarmál eru nefnilega svolítið skemmtileg -eða hvað? Jú, það er nefnilega þannig að við erum búin að selja íbúðina sem við erum búin að búa í í tæp ellefu ár.

Það var þannig að í árslok 1998 að ég hafði verið á þönum um allt að leita að íbúð eða húsi fyrir okkur að kaupa. Valdísi var ekkert of vel við þetta og fannst við geta tekið því svolítið rólegar en ég gerði. Íbúðin sem við leigðum þá var ágæt en í svolítið leiðinlegum bæjarhluta fannst okkur og svo var ég með svolitla dellu fyrir að kaupa. Valdís vann þá á heimili fyrir aldraða í Örebro og svo var það dag einn þeger ég var í viku fríi sem ég fékk reglubundið á þeim árum, að ég svaf eftir að Valdís fór í vinnuna. Þegar ég kom fram að matborðinu sá ég hvar hún hafði krossað við auglysingu í dagblaðinu og ég varð svolítið hissa. Var hún þá með einhverjar íbúðahugleiðingar líka þegar öllu var á botninn hvolft. Ég flýtti mér því eftir morgunverðinn að húsinu þar sem þessi íbúð var og snuðraði svolítið þar í kring og leist vel á. Þegar Valdís kom heim úr vinnunni var ég ólmur að fara með hana á staðinn og sýna henni. Nokkrum dögum seinna komum við með fasteignasala að útihurðinni að þessari íbúð og fasteignasalinn hringdi dyrabjöllunni. Tæplega þrítug kona kom niður tröppur og opnaði og um leið og hún stóð þarna í opnum dyrunum var það eins og við værum komin á réttan stað.

Fyrir hálfum mánuði höfðum við samband við konuna sem í árslok 1998 opnaði útuhurðina að íbúðinni sem við búum í núna og sögðum henni að við værum búin að taka ákvörun um að selja. Þetta er bankakona, Helena, sú sem seldi okkur íbúðina sína þá og síðan hefur hún verið fulltrúi okkar í bankanum. Hún er líka nágranni okkar. Að við mundum selja var ekkert sem kom Helenu á óvart, við vorum búin að tala um þetta. Hún brást vel við og tveimur dögum seinna kom Gro (Grú) heim til okkar, en hún vinnur á fasteignasölu hér í Örebro, komin hingað frá Noregi. Hún tók heldur betur til hendinni, tók myndir, við ákváðum lágmarksverð á íbúðinni, hún auglýsti og sýndi svo íbúðina á mánudaginn var meðan við Valdís skruppum í bæinn og fengum okkur kaffi og bollu.

Á þriðjudaginn byrjuðu tvær fjölskyldur að bjóða í íbúðina í hinum grimmasta bardaga og stóðu nú yfir tilboð í tvo sólarhringa þar sem hvor aðili bauð yfir hinn, aðeins hærra, aðeins hærra og aðeins hærra. Samtals kom 21 tilboð frá þessum tveimur aðilum og stundum með afar stuttu millibili. Að lokum gafst önnur fjölskyldan upp og þar með var hin orðin sigurvegari í þessu grjótharða einvígi. Þá var íbúðin komin langt upp fyrir það lágmarksverð sem við settum upp.

Þetta var mikið ólíkt því þegar við keyptum af Helenu, en þá hafði hún líka sett upp verð en það voru engir að keppast um íbúðir 1998. Það var þá enn of stuttu eftir sænska bankakrísinn. Þá var háskólinn í Örebro heldur ekki orðinn að Universitet, en íbúðin er einmitt í nágrenni háskólans. Svo buðum við Valdís lægri upphæð en Helena hafði sett upp og svo sömdum við bróðurlega um mismuninn. Svo fluttum við inn og bjuggum hér í nær ellefu ár.

Í gær, fimmtudag, kom svo Gro og fjölskyldan sem bar sigur úr býtum til að skoða íbúðina nánar, til að hitta okkur og til að skrifa undir pappírana sem Gro hafði gengið frá. Þetta eru tæplega þrítug hjón með níu mánaða gamla dóttur og þau voru svo ánægð með sitt verðandi heimili, alveg í skýjunum og tjáðu sig um það hvað eftir annað. Konan sagði að um leið og hún var komin upp stigan á skoðunardaginn, þá bara hefði það sagt klikk, þetta var hennar rétta heimili. Það var sama og við fundum ellefu árum áður þegar Helena opnaði útihurðina. Svo ánægð voru þessi ungu hjón að þau sögðust lofa því að viðhalda alla tíð góðum anda í þessari íbúð, við þyrftum ekki að vera hrædd um annað. Þetta var þriðja íbúðin sem þau buðu í og höfðu því tapað tveimur orrustum og töldu sig nú að sigrinum komin. Mæðurnar í báðum fjölskyldunum sem buðu eru nöfnur.

Frá jólum heima 2008

Maður verður svo glaður líka

Hvernig geta afi og amma annað en orðið glöð þegar barnabarnið sýnir svona mikla gleði. Það styttist óðum í Uppsalaheimsókn, enda eins gott því að þolinmæðin getur þrotið. Það verður gaman að sjá viðbrögð hans nafna míns þegar okkur, ókunnugt fólkið, ber að garði. Í gær eða fyrradag hringdi ég þangað og talaði við Rósu og á meðan heyrði ég feðga tala saman. Það var ekki leiðinlegt.

Hvað segja amma og afi þegar þau horfa á svona mynd? Það verður hver á giska á fyrir sig. Og hvernig ætli mömmu og pabba líði þegar þau fá svona innilegt viðmót þriggja mánaða drengsins síns?


Í gær bað ég um upplýsingar frá Stapa lífeyrissjóði. Örstuttu síðar fékk ég greinargott og vinalegt svar frá sjóðnum undirritað af Maríu Björk Guðmundsdóttur. Ég nefni nafnið þar sem ég virti svo andann í svarinu. Þegar ég var búinn að lesa innihaldið ætlaði ég umsvifalaust að prenta mailið út. En áður en ég kom því í verk sá ég græna línu neðst á skjánum og þar stóð: "Leiddu hugann að umhverfinu áður en þú prentar út þennan tölvupóst". Ég prentaði ekki út tölvupóstinn enda algerlega óþarft þar sem ég einfaldlega geymi hann. Þarna sparaði ég eina síðu af teiknipappír handa barnabörnunum mínum. Stuttun síðar fékk ég líka svar frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ég prentaði ekki út svarið og þá sparaði ég annað blað handa barnabarni að teikna á. Ég er svolítið sneyptur yfir því að ég þurfti ábendingu frá Stapa til að skilja svona einfaldan hlut.

Aðallega tileinkað konu minni

Desembermyrkrið er ekki bara langt á Íslandi, það er býsna langt hér líka. Það er kannski venjulegra að tala um að dagurinn sé stuttur en mér fannst allt í einu gaman að snúa þessu við. En svo er það með daga eins og í dag þegar það er þoka fram eftir degi og svo lágskýjað það sem eftir lifir dags, þá verður svo sem aldrei bjart. Svo var það hér í dag og það var bara að notast við ljós inni um miðjan daginn. En hér á bæ var ekki verið að horfa á þetta. Það var ýmislegt í gangi og hún Valdís kona mín lét ekki deigan síga og ekki var hún döpur vegna skammdegisins. Hún var að undirbúa jól.

Við verðum um jól hjá Rósu og fjölskyldu í Uppsala, en þangað fluttu þau um mánaðamótin. Rósa er búin að birta talsvert af myndum þaðan og okkur þykir þessi borg býsna forvitnileg. Íbúar eru rúmlega 130 000. Við Valdís ókum oft í gegnum Uppsala á okkar allra fyrstu tímum í Svíþjóð. Leiðin úr dölunum til Stokklhólms lá þannig eftir því hvaða veg maður valdi. Þar er afar falleg kirkja eins og sjá má hér neðar og eitt sinn lögðum við Valdís lykkju á leið okkar og skoðuðum kirkjuna og urðum býsna hugfangin. Nú er þessi kirkja í nágrenni við bústað Rósu og fjölskyldu. Svo þegar Páll bróðir og Guðrún mágkona mín komu í heimsókn til okkar 1996 máttum við Valdís til með að sýna þeim hvað við værum sigld og sýndum þeim kirkjuna eins og við værum þarna þrælkunnug. Stór Evrópuvegur liggur gegnum Uppsala, E4, og við þennan veg sunnan til í borginni er veitingahús sem heitir Frestelsen, Freistingin, og þar höfum við nokkrum sinnum komið og þaðan kann ég góða sögu sem bíður betri tíma.
Fil:Wiew of uppsala.JPG
Myndina tók ég ófrjálsri hendi frá upplýsingasíðu um Uppsalaborg.


En nú vil ég koma aftur að Valdísi. Það var heil mikið að ske hér í dag en það er ekki allt til frásagnar að sinni. En það sem Valdís aðhafðist við eldhúsbekkinn og bakarofninn, það verður til umræðu. Ég sagði frá því í bloggi í gær að hún hefði hnoðað deig í eina smákökusort og tvær sortir af tertum. Svo eftir nokkuð síðbúinn morgunverð setti hún í gang á ný og drifin umsvifalaust sett á öll hjól. Svo var flatt út deig og bakað og meira flatt út og kökukeflið gekk hratt og örugglega. Ég spurði hvað ég ætti að gera en ég var bara að þvælast þarna eins og einhver auli í kringum hana. Ég var bestur við að þvo vissa hluti og raða öðrum í uppþvottavélina og kannski smálítið fleira gerði ég mögulega að gagni. Svo eftir á var ég býsna góður þegar ég smakkaði á afskorningunum utan af tertunum og fékk mér mjólk með. Og mér varð gott af.

En hvað er ég eiginlega að fara með þessu rugli. Jú, Þegar það var ákveðið að við yrðum hjá fjölskyldunni í Uppsala um jólin, þá varð Valdísi að orði: Ég verða að baka svolítið og hafa með til þeirra. Nú er hún svo virkilega búin að baka svolítið til að hafa með og það er einfaldlega það sem hana langar svo mikið að gera. Svo auðvitað, það voru plötur með jólalögum á fóninum meðan þessi vinna stóð yfir.

Vínarterta eða hvað! með blöndu af sveskju- og plómusultu. Plómurnar komu auðvitað frá Sólvöllum. Ég smakkaði hana fyrst, afskorningana, þegar Valdís var búin að snyrta kantinn.



Ég man ekki betur en Valdís og Guðrún mágkona mín hafi sagt í gamla daga að Kálfafellsbræður væru hrifnir af brúnum tertum. Það er nú orð að sönnu og ég varð að taka mig taki í dag til að borða ekki allt of mikið af þessu góðgæti. Vonandi verða það margir sem smakka á þessu, annars mun þurfa að færa út í belti sumra eftir jól.

Nú kannski skilur einhver sem les þetta hvers vegna við horfðum ekki á desembermyrkrið í dag. En eins og ég sagði áðan var fleira að ske í dag, en einhverju verð ég nú að þegja yfir.

Rreiknhildur er mér ekki hagstæð

Ég hef verið skammarlega lélegur við gönguferðirnar þó nokkra undanfarna daga. Það nefnilega verður að kallast vítavert kæruleysi eftir að hafa fengið dýra aðgerð framkvæmda og hafa aðeins borgað 400 krónur sjálfur, að framfylgja ekki þeim bestu ráðum sem gefin eru til að fá sem besta heilsu með minn nýja mjaðmalið. Ég get komið með fullt af afsökunum fyrir þessari tregðu minni móti því að framfylgja góðu ráðunum, en ég bara eyði ekki tölvuplássi í það. En alla vega, um tvö leytið í dag lagði ég í hann og stikaði all stórum skrefum eins og skaftfellingi sæmir út á vellina hér suðvestan við íbúðina okkar. Valdís fór í aðra átt. Hún hjólaði áleiðis í búð til að kaupa bakstursvörur. Þegar ég hafði stikað svo sem 150 metra hringdi farsíminn í vasa mínum. Það var Valdís sem sagðist hafa komið við á heislugæslustöðinni til að athuga með flensusprautu við venjulegu flensunni eins og sagt er hér, og nú væri verið að bólusetja í óða önn sagði hún. Þá sneri ég við í átt að heilsugæslunni og þar með var gönguferð minni lokið í bili. Ég nefnilega kalla það ekki gönguferð ef það er erindi, og að fara á heilsugæslustöð í bólusetningu er vissulega erindi.

Áður en ég var bólusettur fyllti ég í ákveðið eyðublað og það er í þriðja skiptið á sex vikum sem ég staðfesti á þessu eyðublaði að ég sé ekki óléttur, en aðeins á undan staðfesti ég að ég sé maður. Sem sagt óléttur maður. Eftir bólusetninguna tók ég stefnuna út á hina víðu velli að nýju og nú var þetta aftur orðin gönguferð. Ég var frjáls eins og fuglinn þótt ég væri pínulítið stirður að byrja með, en ég fann hvernig krafturinn færðist í mig eftir því sem skrefin urðu fleiri. Ég var að gera rétt og var harð ánægður með mig.

Skömmu eftir að ég kom heim tók ég möppu ofan úr hillu, gekk að tölvunni og opnaði tölvupóst frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar með var gleði dagsins lokið. Ég fyrirlít blöð og tölur og litlu reiknivélina. Litla reiknivélin, sem reyndar er Nokia farsími, lenti undir blaði þar sem ég var viss um að hann gæti ekki verið og svo upphófst leit. Að lokum fann ég símann en þá voru öll blöðin komin í rugling og ég fann að mér var þungt í sinni. Bakvið þetta leyndist líka grunur um að ellilífeyrir minn frá tryggingastofnun yrði svo sem ekki neitt neitt. Þegar ég var tilbúinn með áætlunina fór ég inn á Reiknhildi og áætlaði hver ellilaun mín frá Tryggingastofnun ríkisins yrðu á næsta ári. Þar með lýk ég umfjöllun um þetta mál.

Valdís stendur við eldhúsbekkinn. Hvað svo sem datt henni allt í einu í hug seint að kvöldi? Jú, að hnoða deig í eina sort af smákökum og brúna lagtertu. Ég man hér á árum áður, og þá meina ég fyrir nokkuð mörgum árum, hvað það var rosalega gott að fá sér fullt mjólkurglas og prufa svo hálf volgan baksturinn hjá konunni minni. Og það merkilega var að mér varð bara sæmilega gott af þessu í þá daga. Á seinni árum krefur þetta meiri gætni af minni hálfu. Nú er hún búin að ákveða að hnoða í hvíta lagtertu líka, vínarterta er hún víst kölluð. Það eru snöggar ákvarðanir teknar hér á þessu kvöldi.

Undanþága

Fyrir nokkrum dögum hlustaði ég á fréttir í sænska sjónvarpinu varðandi umhverfisráðstefnuna í Kaupmannahöfn. Þar var meðal annars komið inn á það að nokkur lönd hefðu áður sótt um undanþágu frá reglum um losun gróðurhúsalofttegunda og að það gæti auðvitað ekki gengið þar sem allir yrðu aðleggja sitt af mörkum. Svo las þulan upp hver þessi lönd hefðu verið og byrjaði á Íslandi. Mér varð svo mikið um þetta að ég heyrði ekki hver hin löndin voru. Mér fannst þetta svo langt frá því stolti sem ég hélt að Íslendingar bæru fyrir bæði landi og þjóð að ég bara trúði því ekki. Mér fannst líka greinileg undrun í rödd þulunnar þegar hún nefndi Ísland. Í dag fékk ég svo staðfestingu á þessu þegar ég las eftirfarandi frétt á netinu:

"Íslendingar mega ekki ofan á allt annað vera sú þjóð á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem óskar eftir frekari undanþágum frá reglum um losun gróðurhúsalofttegunda. Á ráðstefnunni sem hefst á morgun í Kaupmannahöfn mun Ísland boða samdrátt í fyrsta skipti í sögu landsins."

Nú er ég stoltur yfir þessari ákvörðunum Íslendinga. Í umræðunni hér er mikið talað um allt of margir vilji að "hinir" dragi saman en fyrirgefið bara, ég vissi ekki að Ísland hefði verið á neinni undanþágu. Að ég ekki vissi um þessa undanþáguumsókn segir að ég fylgist ekki of vel með íslenskum málefnum. Ég hefði getað þagað en valdi þó að viðurkenna og segja hvað mér finnst um þetta málefni. Íslendingar hljótaverða eins og aðrar þjóðir.


Við Valdís höfum undanfarið verið að sortera og henda og koma röð og reglu á ýmislegt hér heima. Í dag fór ég í gegnum ákveðinn skáp hjá tölvunni og þar var ekkert um annað að ræða en fletta blað fyrir blað og velja og hafna. Því mesta henti ég en svo fann ég nokkur gullkorn sem kom ekki til nokkurra mála að henda. Ég fann nokkur blöð með efni sem ég hafði skrifað fyrir nokkrum árum og annað fyrir mörgum árum. Sumt hafði ég skrifað í sambandi við vinnuna og til að nota þar. Svo varð ég alveg steinhissa hvernig ég hafði skrifað fyrir mörgum árum og ég varð jafnvel hrærður þegar ég hitti þessar gömlu hugsanir mínar sem voru löngu gleymdar. Já, lífið býður upp á fjölbreytileika þegar meira að segja tiltekt í íbúðinni vekur fínar tilfinningar.

Það tók auðvitað tíma fyrir mig að fara í gegnum þetta og meðan ég gerði það vann Valdís hreint afrek í afköstum miðað við það sem ég gerði. Það er ótrúlegt hvernig þessi vinnuslitna manneskja hefur drif á öllum fjórum þegar hún tekur sig til og er ákveðin í að láta það ganga.

Svo fór ég út á svalir til að sækja baðmottuna í viðringu þar sem við ætlum bæði að skola af okkur eftir dagsverkið. Ég stoppaði svolitla stund út á svölunum og horfði til vesturs móti desembermyrkrinu. Það er vafamál hvort ég get kallað það myrkur í dag. Fyrir tveimur árum horfðum við út á gríðar stórt akursvæði þegar við horfðum til vesturs af svölunum, og þá var þar ekkert ljós að sjá. I dag er það mikil ljósadýrð sem mætir auganu hið næsta en hinu megin við þessa ljósadýrð tekur svo desemmbermyrkrið við. Á þessum tveimur árum sem ég nefndi hafa nefnilega verið byggðar þarna á annað hundrað íbúðir á svæði sem nær svo sem eitt hundrað og fimmtíu metra héðan frá svölunum til vesturs. Flestar eru þessar íbúðir í fjórum fimm hæða húsum sem eru ótrúlega nálægt svölunum okkar. Það er ótrúlegt að þarna búi skyndilega á fjórða hundrað manns og við verðum ekkert vör við þennan fjölda.

Skipulagslaus

Það er minna en 20 dagar þangað sólin fer á hækka á lofti á ný. Í dag skruppum við Valdís á Sólvelli og hvers urðum við vísari þar? Jú, sunnan undir húsgaflinum var ný útsprungin rós. Fólk er nú í óða önn að skrifa jólakort og fara á jólaborð og þó að dagarnir séu svo óttalega stuttir sem þeir eru í desember, þá veit náttúran ekki sitt rjúkandi ráð og morgunfrúr og rósir springa út.

Á leiðinni heim litum við inn í IKEA í Marieberg. Þar utan við er bílastæði af þeirri stærð sem minnir helst á flugvöll. Það fundust nokkur laus stæði svo langt frá aðalinnganginum að þar vill helst enginn leggja. Það skipti okkur ekki svo miklu máli þar sem við ætluðum inn um útganginn. Þrátt fyrir mikinn aragrúa fólks þar inni var engin biðröð við kassana þannig að við áætluðum að fólk væri ekki endilega í verslunarferð í IKEA, heldur í skemmtiferð. En það er kannski ekki verri skemmtiferð en hvað annað. Og svo þetta sem ég ætlaði helst ekkert að segja frá; við borðuðum síðbúinn hádegismat þar í stórversluninni. Við erum ekki vön að borða í þessari stórmiðstöð mammons. Ég er að velta því fyrir mér núna hvers vegna ég sé að bulla um það og kemst að þeirri niðurstöðu að ég sé orðinn þreyttur og syfjaður og þá veit ég að mér verður lausara um tungutak þegar um er að ræða eitthvað sem ég ætla að þegja yfir. En hvað um það, gravlaxinn sem ég borðaði var góður og Valdís dáðist að kjötbollunum. Út fórum við svo með klósettrúlluhaldara sem ég held að best verði að skila aftur því að hann passar ekki fyrir gömlu skrúfugötin og ég tími ekki að bora ný göt í baðvegginn.

Ég er búinn að vera óskipulagður seinni partinn í dag og litlu komið í verk. Ég hef eiginlega ekki fundið að það sé neitt sem ég þarf að ljúka við en veit þó að það er ekki rétt þar sem allt annað var á teningnum í morgun. Þó að klukkan sé að ganga ellefu er nú Valdís í gangi með eitthvað við frammi við matborðið. Ég held svei mér þá að hún sé að ganga frá jólapakka, heyrist það á öllu. Hún er búin að horfa á þátt í sjónvarpinu sem heitir danshljómsveitakeppnin. Þar var leikið mikið af tjúttlögum og vangadönsum og ég settist um stund til að fylgjast með en sofnaði bara í stólnum. Þá líkaði mér það ekki svo að ég reisti mig upp og skoraði á sjálfan mig að blogga til að gefa mig ekki skipulagsleysinu algerlega á vald. Nú er það gert og ég veit að þegar ég leggst á koddann verð ég fljótlega var nálægðar Óla lokbrá. Ég er ekki viss um að ég lesi neitt um Bjart í Sumarhúsum í kvöld. Hann hefur verið óvæginn við fólkið sitt undanfarið og ég hef verið reiður út í óbilgirni hans. En það er þannig með þessa bók að síða eftir síða fjallar um tilbreytingarleysi í umræðu, óbilgirni, harðræði og illkvitni. Svo koma síður þar sem fjallað er um það allra fínasta sem á sér stað meðal fólks. Þannig voru síðustu síðurnar sem ég las í gærkvöldi. Það voru fallegar, heimspekilegar umræður milli mömmu og Nonna litla og þó að mamma væri alltaf þreytt gaf hún Nonna þennan tíma. Svo hallaði hann höfðinu að brjósti mömmu og hlustaði á hjarta hennar slá.

Íslendingar í Örebro

Eftir að ég var búinn að þenja mig út af íslenskum stjórnmálum í síðasta bloggi fórum við Valdís á jólaborð hjá Norræna félaginu í Örebro. Það var afar notaleg samkoma og má segja að einn maður hafi sérstaklega gefið henni svip. Það var maður að nafni Kristinn Jóhannesson ættaður úr Svarvaðardal og er hann íslenskukennari við háskólann í Gautaborg. Kristinn sagði frá íslenskum jólum og gerði hann það bæði fróðlega og skemmtilega. Ég get líka fullyrt að það voru ekki bara íslendingarnir sem þarna voru saman komnir sem hrifust af frásögn hans. Fólk almennt hreifst og var mjög ánægt.

Þegar Kristinn hafði lokið þessari frásögn sinni dreifði hann fjölrituðum blöðum meðal jólaborðsgestanna. Á þessum blöðum voru nokkrir textar með bæði hátíðalögum og öðrum jólalögum. Taka verður fram að Kristinn er ekki bara íslenskukennari, heldur er hann líka söngkennari. Nú nýtti hann þá kunnáttu sína. Með sínum fallega tenór söng hann fyrst einn við undirleik sinnar finnsku konu, hvern texta fyrir sig, og að því loknu fékk hann alla til að syngja með sér. Ég virti fólk fyrir mér og margir norðmenn, finnar og svíar tóku vel undir. Þeir studdust við íslenska textann á blöðunum en hvernig framburðurinn var fékkst enginn um. Þessi söngur styrktist líka vel af þeim sex íslendingum sem þarna voru. Þetta tókst allt afar vel hjá Kristni og við Valdís vorum stolt af landa okkar og það sögðum við honum. Valdís fékk hann svo að lokum til að syngja með sér Bráðum koma blessuð jólin.

Svo er annað skemmtilegt sem ég vil nefna. Rósa var á fertugasta aldursári þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. Þá var hún líka að skrifa doktorsritgerð. Á samkomunni þarna var íslenskur háskólakennari hér í Örebro sem heitir Anna Jónsdóttir og er á aldur við okkur Valdísi. Hún sat við sama borð og við. Með henni var dóttirin Siv og maður hennar. Siv er á fertugasta aldursári, er ófrísk og er að skrifa doktorsritgerð.

Þjóðarhagur eða flokkshagur

Það er kreppa í öllum löndum segir fólk og það er kannski orð að sönnu. Hins vegar er þetta og síðasta ár hin bestu fyrir okkur Valdísi síðan við komum til Svíþjóðar fyrir 15 árum ef við miðum við sameiginlegar tekjur okkar hér í landi. Hægri stjórnin hér verðlaunar ellilífeyrisþega fyrir að vinna og ég hef unnið talsvert mikið eftir að ég varð ellilífeyrisþegi og haft góðar tekjur. Það kemur líka til með að hækka sænsku ellilaunin mín í framtíðinni. Íslensku lífeyristekjurnar hafa hins vegar lækkað um 50 % á tæplega tveimur síðustu árum vegna falls íslensku krónunnar. Ég get haft góðar tekjur í Svíþjóð svo lengi sem ég nenni að vinna sem ellilífeyrisþegi en íslensku tekjurnar verða léttar á vogarskálinni næstu árin.

Alvarlegur og kurteis bankamaður heimsótti okkur á Sólvelli sumarið 2008. Ég vildi ekki vera ókurteis en spurði þó hversu lengi við gætum verið róleg með peninga sem við áttum á Íslandi. Þessari spurningu er erfitt að svara, sagði hann, en fjármálakerfið mun einhvern tíma springa, springa vegna þess að menn gera hluti sem bara geta ekki annað en leitt til mikilla óheilla. Ég hugsaði sem svo að ef ég fylgdist vel með mundi ég finna á mér þegar hættan nálgaðist. Svo sprakk það og það skeði eiginlega á einni nóttu og ég var algerlega óviðbúinn og peningarnir eru ennþá á Íslandi. Einhvers staðar undir niðri hafði kraumað kraftur hins illa.

Á Alþingi íslendinga var einn maður statt og stöðugt að ergja þingheim með því að siglt væri að feigðarósi. Hann var alveg öruggur með það að fjármálastefnan íslenska mundi tröllríða efnahag þjóðarinnar og færa mikla ógæfu yfir landslýð. Hann var kallaður svartsýnismaður, bölsýnismaður og margir undruðust hvort hann væri ekki sjálfur orðinn þreyttur á sinni inngrónu neikvæðni. Þessi maður heitir Steingrímur J Sigfússon. Í bók sem hann ritaði, Við öll, íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum, sagði hann eftirfarandi: "Skuldir íslenskra heimila eru komnar yfir 200% af ráðstöfunartekjum og eru þar með einhverjar hinar mestu sem fyrir finnast á byggðu bóli. Skuldir atvinnulífsins eru þegar orðnar svipaðar eða meiri en nokkurs staðar annars staðar þekkist, mælt í samræmdum mælikvarða."

Og svo sprakk blaðran eins og Steingrímur hafði spáð. Ég vil hér nefna fimm apparöt brugðust. Í fyrsta lagi má nefna ríkisstjórnina í heild. Síðan má nefna forsætisráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, Fjármálaeftirlit og Seðlabanka. Forsætisráðuneytið var í höndum sjálfstæðismanna og þar með yfirverkstjórn ríkisstjórnarinnar. Allt brást og enginn var á varðbergi og enginn virtist vita neitt, kunna neitt eða geta rönd við reist.

Nú stendur yfir vinna hjá ríkisstjórn Íslands við að byggja upp íslenskan fjárhag og að vinna Íslandi traust á ný á alþjóðavetvangi. Þá bregður svo við að flokkurinn sem hafði yfirverkstjórnina í rískistjórninni á örlagatímunum, ríkisstjórninni sem enga rönd fékk við reist og hreinlega gat ekki bjargað neinu, veit nú allt og hefur ráð við öllu. Auðvitað skilja allir sem ekki eru smitaðir af einhverri óskiljanlegri, meðfæddri dýrkunarþörf á Sjálfstæðisflokknum að hér liggur fiskur undir steini. Ekkert! Ekkert! er heilagt ef hægt væri að fella núverandi ríkisstjórn, ekki einu sinni að skaða íslensku þjóðina enn meira en þegar er orðið. Enginn áróður eða ósannindi eru eru svo slæm að ekki sé hægt að ausa þeim yfir þjóðina og svo margir trúa á þetta að Sjálfstæðisflokkurinn er nú stærsti íslenski stjórnmálaflokkurinn og fer stækkandi ef eitthvað er að marka kannanir. Svo gelta dindlarnir í Framsókn með Sjálfstæðisflokki og reyna að vekja á sér eftirtekt, en Framsóknarflokkurinn ber jafn mikla ábyrgð á hruninu og Sjálfstæðisflokkur þar sem Framsókn hafði líka yfirverkstjórn á tímum einkavæðingaröldunnar. Og mitt í þessari umræðu allri stingur svo sjálfstæðismaður upp á því að einkavæða Ríkisútvarpið.

Hvert er nú hlutverk mannsins í dag, þess hins sama og spáði fyrir um hrunið og var með leiðindi á Alþingi og í fjölmiðlum? Hann meira að segja skrifaði um það bók, svo þreytandi var hann. Hann er í sömu sporum og Göran Persson á níunda áratugnum þegar bankakreppa hafði hálf limlest sænsku þjóðina. Þá hötuðu margir Göran. Hann fékk síðar mikla uppreisn æru þegar hann sagði eitt sinn í ræðu að hann gæti ekki hugsað sér að fara til dæmis til Bandaríkjanna og krjúpa þar fyrir hámenntuðum bankamönnum á þrítugs aldri og biðja þá um að bjarga Svíþjóð. Skuldugur maður er ófrjáls maður sagði hann við sama tækifæri og undir hans fjármálastjórn rétti sænskur fjárhagur úr kútnum. Hverjum dettur í hug að þær aðgerðir sem nú þarf að koma í verk af íslensku ríkisstjórninni verði sársaukalausar. Að fella Icsave samkomulagið þýðir að Ísland er eftir sem áður skuldugt um jafn háa upphæð og þar að auki gjörsneidd trausti alþjóðasamflélagsins. Margir íslendingar eru reiðir Norðurlandaþjóðunum fyrir að koma ekki Íslandi til bjargar. En þess ber bara að geta að Norðurlandaþjóðirnar eru engin klíka sem "reddar" þegar menn hafa gert ljóta hluti. Norðurlandasamstarfið er samstarf þjóða með sjálfsvirðingu.

Að lokum: Ekkert af því sem ég hef sagt hér er nýtt. Ég vildi bara sérstaklega minna á að Steingrímur J Sigfússon var sannapár. Ég vil líka segja að ég er alinn upp á sjálfstæðisheimili en það fær mig ekki til að verja það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir rangt.

Aftur í Lindesberg

Í dag ætla ég að gera að umtalsefni ferðir á sjúkrahúsið í Lindesberg. Viku áður en ég fór í mjaðmaaðgerð mína fór ég í undirbúningsferð uppeftir og var það raunar önnur undirbúningsferðin þangað. Í þessari ferð númer tvö hafði hjúkrunarkona all ítarlegt samtal við mig ásamt því að ég hitti iðjuþjálfa og sjúkraþjálfa. Ég kom svolítið seint inn á sjúkrahúsið þá, því að mér tókst að villast aðeins í þessum litla bæ, Lindesberg. Þegar ég svo komst á leiðarenda nálgaðist deild 3 á annarri hæð á töluverðri ferð, mætti ég þar í gangi konu sem var væntanlega á fimmtugsaldri. Hún var þá komin á stúfana að leita að mér, en þetta var þá hjúkrunarkonan sem átti að hafa samtalið við mig. Þetta var falleg kona í öllu útliti, þægileg í viðmóti og framkoman þess eðlis að ég fann samstundis fyrir virðingu fyrir henni. Það var þó eitt sem gerði mig, gamaldags kallinn, undrandi varðandi þessa konu. Hún var með litað hár, nánast hvítt, en þó ekki hvítt eins og á gamalmenni. Það var enn hvítara en svo. Skuggar af einhverjum litum voru í því líka. Svo var hárið úfið. Það stóð óreglulega í allar áttir, sums staðar í lokkum og annars staðar hár fyrir hár. En ég lét þetta ekki hafa áhrif á mig, heldur var það hið góða fas hennar sem gerði þennan fund okkar góðan. Ég var þakklátur fyrir það og þurfti á því að halda. Eftir þetta samtal þurfti ég að bíða í tvo tíma eftir því að hitta þau hin sem ég átti að hitta og þá fór ég á kaffiterðíu sjúkrahússins og fékk mér væna brauðsneið og kaffi.

Í gær viltist ég ekki. Ég kom vel í tíma eins og mér bar og það var byrjað á að taka blóðprufur í nokkur glös. Síðan gekk ég inn á deild 3 og hjúkrunarfræðingur á mínum aldri mætti mér af tilviljun. Þetta var rífandi hress kona, glaðleg og reiðubúin að spjalla svolítið. Hún heilsaði mig velkominn og virtist gruna í hvaða erindagjörðum ég var þarna. Þarna var ég kunnugur og ég spurði hvort ég mætti ekki bíða í litla matsalnum og hún hélt nú það, spurði hvort ég vildi ekki kaffi og bollu. Jú takk, og hún vildi endilega koma sjálf með kaffið og bolluna til mín. Ég vinn hér bara dag og dag útskýrði hún, og það gaf skýringu á því hvers vegna ég hafði ekki séð hana þegar ég var þarna innskrifaður. Ég hugsaði að hún gerði eins og ég, ynni dag og dag ellilífeyrisþeginn, og auk þess að auka tekjurnar sínar svolítið að hitta fólk og gamla vinnufélaga. Þú átt væntanlega að hitta Margareta Vilhelmsson talaði hún um og ég játti því. Hún kemur nú rétt bráðum skaltu vita og drekktu bara kaffið þitt í rólegheitum. Fín kelling, hugsaði ég.

Klukkan nákvæmlega níu, alveg eins og stóð í bréfinu sem ég hafði fengið, gekk inn Margareta Vilhelmsson hjúkrunarfræðingur og kynnti sig. Margareta var rúmlega meðal há, trúlega nokkuð yfir fertugt, með dökkskollitað frekar stuttklippt hár sem féll fallega að höfðinu, og umfram allt þægileg í viðmóti eins og allt fólk sem ég hafði hitt á þessu sjúkrahúsi. Þetta var glæsileg, falleg kona, og ellilífeyrisþeginn ég fann næstum fyrir stolti yfir að ganga henni við hlið þarna eftir rúmgóðum ganginum.

Í samtalsherberginu svaraði ég helling af spurningum og Margareta sagði oft, rosa fínt, virkilega fínt og fleira í þá áttina. Svo lét hún mig standa á öðrum fæti, bæði í fríska og viðgerða fótinn og hún lét mig leggjast útaf og gera ýmsar hreyfingar til að sjá hvort ég væri stirður. Að lokum fékk ég að heyra niðurstöðuna sem var á þá leið að ég væri í alveg sérstaklega góðu standi svo stuttu eftir aðgerðina. Ég verð nú að viðurkenna að þetta gladdi mig og styrkti mig í því að ég hefði gert þá hluti rétt sem mér voru ráðlagðir við úskriftina tveimur mánuðum áður. Svo fékk ég að vita að það hefði ekki fundist ögn af brjóski eftir í liðnum þegar aðgerðin var gerð.

Ég gekk framhjá kaffiteríunni og leist vel á brauðsneiðarnar þar en ákvað að fara heldur heim og gera brauðsneið handa mér sjálfur. Svo ók ég af stað. Ég var mjög ánægður með þessa skoðun sem ég hafði frarið í og get ekki neitað því að umsögn Margareta gladdi mig og var mér mikil hvatning. Svo hugsaði ég út í eitt sem hún hafði sagt. Hún nefnilega talaði um að hún sæi mikið jákvætt í starfi sínu. Nokkurn veginn orðrétt sagði hún að hún hefði samtöl við bókstaflega alla sem færu í aðgerð svo sem viku áður. Og svo hef ég viðtöl eftir tvo mánuði eins og ég hef haft við þig núna.

Jaaaaá. Fattarinn í mér stendur stundum á sér. Þarna í bílnum skildi ég allt í einu að konan með hvítmálaða hárið sem hafði haft viðtal við mig viku fyrir aðgerð var líka Margareta. Rosalega hafði hún platað mig. En það verð ég að segja að dökka hárið fór henni mikið betur -að mínu mati.

Gertur nokkur hjálpað mér?

Er það nokkur í hinum stóra heimi sem getur hjálpað mér að finna hvaðan þessi tilvitnun er komin?

"Skuldir íslenskra heimila eru komnar yfir 200% af ráðstöfunartekjum og eru þar með einhverjar hinar mestu sem fyrirfinnast á byggðu bóli. Skuldir atvinnulífsins eru þegar orðnar svipaðar eða meiri en nokkurs staðar annars staðar þekkist, mælt á samræmdum mælikvarða."

Mér finnst þetta áhugaverð orð og kannski hafa þau einhvern tíma verið orð í tíma töluð. Það væri fróðlegt að vita hver er höfundurinn og hvenær þau voru sögð.
RSS 2.0