Aaaaleinn heima

"Kvenmannslaus í kulda og trekki" orti Steinn Steinarr og ég er aleinn heima í Örebro. Það er svínkalt eins og svíar segja gjarnan en það er ekki trekkur. Það er blæja logn. Óvenju kaldur september var það, óvenju hlýir október og nóvember, en nú er mjög kaldur desember. Frá í gærkvöldi og þangað til ég var kominn hálfa leið í vinnuna í morgun var 22 stiga frost og nú stendur mælirinn í 20 stiga frosti. Svona veður eru vön að koma í janúar og kannski fram að miðjum febrúar, en í desember, það lætur ekki kunnuglega.

Það tók dálítið í að fara í vinnu í morgun og þegar ég kom í Vornes var ég alls ekki essinu mínu. Dagurinn byrjaði að venju á starfsmannafundi og ég lýsti því yfir að ég væri alls ekki glaður. Ég væri ellilífeyrisþegi og ætti að vera heima að borða morgunverð í rólegheitum í stað þess að sitja þennan starfsmannafund. Hins vegar sagðist ég vita að þegar ég færi að heilsa upp á sjúklingana vini mína mundi ég komast í gang. Annelie hjúkrunarfræðingur sagði þá að ég væri í góðum málum þar sem það hefði verið óeðlilegt ef ég hefði verið sólginn í að fara að heiman í skítakulda til að vinna, sextíuogsjö ára maðurinn. Heimilið ætti að vera mér kærara en vinnustaðurinn. Ó, hvað mér þótti vænt um hana þegar hún sagði þetta og svo voru allir á sama máli og hún. Ég á góða vinnufélaga. Svo varð fyrsti vinnudagur minn eftir mánudagsmorguninn 21. september alveg skínandi góður dagur.

Ég kann alveg að mæta alkohólistum á meðferðarheimili og það sýndi sig líka í morgun. Svo voru þar líka nokkur endurkomuandlit. Svo hafði ég fyrirlestur og ég sagði þeim hver lokaorðin í blogginu mínu í gær hefðu verið. Er þetta rétt hjá mér? spurði ég. Enginn svaraði stundarhátt en allir kinkuðu kolli. Ég vissi líka að ég hefði farið með rétt mál og ég vissi einnig að þau hefðu gott af að hugsa út í þennan sannleika. Það sem er best við þessa vinnu er að mæta alkohólista sem hefur verið edrú í nokkur ár með barn sitt við hlið sér, taka hann eða hana tali og sjá barnið halda þétt í hendi pabba eða mömmu og andlitið lýsir af öryggi. Þá hefur barnið fengið til baka pabba sinn eða mömmu sína og í sumum tilfellum hvort tveggja.

Utan veggjanna hélt biturt frostið áfram iðju sinni og allt í einu mundi ég eftir því að ég hafði myndavélina með. Umhverfi þessa staðar sem er einn stór og mjög fallegur skrúðgarður að sumri til er nú í djúpri hvíld. Stundum er þessi hvíldartími hryssingslegur, stundum mjög fallegur, en í dag var það bara kyrrlátur hversdagslegur vetrardagur. Nú læt ég myndirnar tala.


Sá sem sæi þessa heimkomu að Vornesi í fyrsta skipti eins og hún er á þessari mynd, mundi ekki geta trúað því hvernig hún sér út að sumri til og öfugt. Ég segi aftur; einn stór skrúðgarður.


Í þrettán sumur hef ég séð þessa lind í laufskrúði. Þá er erfitt að gera sér grein fyrir því að hún geti virkilega orðið svona að vetri til. Svo sé ég með beru auganu að hún hefur stækkað með ólíkindum á þessum þrettán árum.

Þetta útsýni til suðurs er ekki mikið fyrir augað á myndinni. En komið í lok maí og sjáið þá dýrð sem blaðgrænan skapar eftir vetrarhvíldina.

Á nýársdagsmorgun fer ég afturn til Uppsala. Þá verð ég ekki kvenmannslaus lengur og þar er mikið minna frost. Mikið minni kuldi og trekkur.


Kommentarer
Valgerður

Gleðilegt ár í einverunni pabbi. Megi nýja árið verða þér ríkt af hamingju og blessun með þér sjálfum og þínum nær og ekki síður fjær.

Valgerður

2009-12-31 @ 18:20:14
Gudjón

Thakka thér sömuleidis Valgerdur og gledilegt ár öll fjölskyldan. Thakka fyrir samveruna í vor.



Kvedja,



pabbi

2009-12-31 @ 19:39:50
♥ Jenny ♥ - Min kamp mot min vikt.

Gott nytt år =)

2009-12-31 @ 20:09:59
URL: http://forsbergjenny.blogg.se/
Gudjon

Gott nytt år

2009-12-31 @ 23:25:26


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0