Vor á mörgum sviðum

Ég hlustaði á sjónvarpsfréttir áðan. Þar sagði frá mjög vaxandi velgengni í sænska fjármálaheiminum. Atvinna hafði aukist, þjóðarframleiðslan hafði aukist til muna. Tekjur ríkisins í apríl nú var 495 ísl miljarðar og var það helmingi meira en gert hafði verið ráð fyrir. Það er eins og Svíar viti hvað þeir eru að gera þegar margar aðrar Evrópuþjóðir renna á rassinum niður brattar brekkur og slíta rassinum úr buxunum sínum. Sænski fjármálaráðherrann, Anders Borg, þessi með stutta taglið, hefur sagt nokkrum sinnum að undanförnu að hann líði það ekki að grikkir verði ellilífeyrisþegar strax upp úr fimmtugu og sendi svo nótuna til Svíþjóðar.

Ég varð rosalega hissa þegar ég sá þennan Anders Borg í fyrsta sinn fljótlega eftir síðustu þingkosningar hér. Ég held að ég hafi hugsað eitthvað á þá leið að hvað er þetta nú fyrir fyrirbæri sem er orðinn fjármálaráðherra landsins. En svo verður það bara ekki tekið frá þessum strák að hann hefur gríðarlega stóran heila og hann er ákveðinn og ábyrgur. Það lítur kannski út sem hroki af minni hálfu að kalla hann strák, en sannleikurinn er sá að hann sýnir stundum strákinn í sér -en hann er ábyrgur samt.

Hann örvar mig sem ellilífeyrisþega til að vinna með því að lækka ekki ellilífeyrinn hversu mikið sem ég vinn og þar að auki borga ég mjög lítinn skatt af vinnulaununum. Minnst af fyrstu þúsundköllunum en síðan smám saman hærri og hærri prósentu. Hann veit að með því að við fáum meiri peninga upp í hendurnar byggjum við meira á Sólvöllum. Þá þurfum við að kaupa byggingarefni og borga af því söluskatt og afgreiðslumaðurinn í versluninni fær meiri vinnu og borgar af henni skatt. Þeir sem framleiða það sem við kaupum í verslunni fá einnig meiri vinnu og borga af henni skatt. Svo fá Anders smiður, Anders rafvirki og Andreas pípari meiri vinnu og borga sína skatta.

Þetta er bara hálf sagan um það sem Anders Borg gerir fyrir mig, en ég læt þetta nægja í bloggi þessa dags. Annars verður þetta svo mikil langloka og þá verður erfitt að átta sig á staðreyndum málsins. Ég hugsa nú að ég segi frekar frá þessu einhvern næstu daga. Ég er býsna nærri því að gefa hægri öflunum í Svíþjóð atkvæðið mitt í kosningunum í haust -en bara í Svíþjóð. Ég má kjósa bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Ég ætla að stinga upp á því við Valdísi að við bjóðum Anders Borg í reisugillið á Sólvöllum. Ef hann kemur ötla ég líka að spyrja hann hvers vegna hann er með tagl.

Ég var að vinna í Vornesi í dag (þetta grunaði Anders) og svo vinn ég laugardag til sunnudag. Ég hafði myndavélina með í og tók nokkrar myndir sem ég ætlaði að nota í blogg dagsins. Svo ætlaði ég að segja nokkur orð svona sem inngang en réði þá ekki við puttana og þess vegna verða það bara tvær myndir að þessu sinni.

Rapsakur hjá Vingåker
Hér gefur að líta rapsakur milli Vårnäs og Vingåker. Rapsolían er jú gerpð úr raps. Kannski er farið að rækta raps á Íslandi líka og ef svo er er þessi rapsumræða mín óþörf. En alla vega; þessi mynd er tekin til austurs.

Sävstaholmsgård
Svo sneri ég mér við og tók aðra mynd til vesturs. Þar sem rapsakurinn endar er Sevstahólmsbýlið við Vingåker. Kringum miðja síðustu öld unnu 50 manns á Sevstaholmsbýlinu og tveir á hreppsskrifstofunni í Vingåker. Í dag vinna 50 manns hjá Vingåkershreppi og tveir á Sevstaholmsbýlinu. Þetta sagði mér Vingåkersbúi sem vann með mér í mörg ár.

Skyldan kallar

Nú lá ég í því: Ég var að hugsa um að láta hugan reika í blokkheimum í kvöld en bansettir reikningarnir voru órfrágengnir. Ég ætlaði að ganga frá þeim í gærkvöldi en þegar þar að kom voru þeir hreint ekki til í huga mér og svo hrökk ég við í morgun. En þetta er allt í lag. Ég er enn í tíma og verð skilamaður um þessi mánaðamót líka. Annars er ég búinn að vera á AA fundi í Fjugesta í kvöld eins og venjulega á miðvikudögum. Þar segja menn og konur sannleikann um sjálf sig hvort heldur hann er jákvæður eða neikvæður í það og það skiptið. Það eru engar yfirhylmingar á þeim vetvangi enda mundi fólki þá ekki farnast vel. En nú er ekki til setunnar boðið; reikningarnir bíða hér fínt upp raðaðir.

Tilviljun eða hvað

Ég var eitt sinn staddur í bókaverslun í Örebro og skoðaði þar bók með myndum frá óravíddum hiningeimsins. Ég sá þar meðal annars mynd af einhverju risavöxnu eldlituðu gasskýi sem var svo langt í burtu að ef ég hefði verið á leiðinni þangað með hraða ljóssins alla mína ævi væri ég bara kominn brot úr prósenti af leiðinni þangað.

Ég sá líka í þessari bók mynd af einhverjum óreglulegum eldslettum út um allt og í skýringartexta var sagt að þannig hefði það getað litið út í einhverjar miljónir ára eftir stóra hvell, uppruna heimsmyndarinnar, áður en eitthvað skipulag hefði farið að koma á hlutina. Svo var líka sýnd mynd þar sem skipulagningin var hafin. Þar voru sumar þessar stóru eldslettur farnar að ganga í hringi kringum aðrar enn stærri eldslettur. Sólkerfi voru að myndast.

Ég var einn eftirmiðdag fyrir nokkrum árum á leið heim úr vinnu í Vornesi og var kominn hálfa leið heim, var á móts við Odensbacken (Óðinsbakka), þegar ég tók eftir sérkennilegu skýjafari á vesturhimninum. Vegurinn þarna er þráðbeinn á köflum og á undan mér var vörubíll sem ég hafði í sigti en annars horfði ég mikið á þetta skýjafar og hugsaði um myndirnar sem ég hafði skoðað í bókinni. Á beinum vegarkafla hafði ég horft á þetta og velt fyrir mér þeim hita, óskapagangi og óreiðu sem var í upphafi veraldar og svo kastaði ég augunum niður á vörubílinn sem rann þarna með jöfnum hraða mitt á milli strikalínanna á 24 hjólum, bíll og vagn, og lengst þar frammi var lifandi vera sem stjórnaði öllu ækinu. Þvílík skipulagning sem hafði komist á hlutina og lífið sjálft hafði orðið til og bubblaði mitt í öllu saman.

Ég gróf um daginn 70 sm djúpa holu fimm metra austan við Sólvallahúsið. Þessi hola varðaði það hvernig skyldi drena frá nýjum húsgrunni. Það jaðraði við að það sæi í grunnvatnið í botni holunnar enda hafði leysingavatnið eftir hinn mikla snjó vetrarins ekki enn haft tíma til að komast burtu. Síðan byrjaði laufgun trjánna og þar á eftir byrjaði að rigna og það rigningatímabil stendur enn yfir. Eftir fyrstu daga rigningatímabilsins kom yfir 30 sm djúpt vatnn í holuna og áfram hélt regnið að falla, eitthvað flesta daga og stundum all mikið. Allt í einu hvarf vatnið nánast úr holunni en það hafði samt ekki hætt að rigna. Hvað var eiginlega á seiði. Var komið gat þarna undir?

Nei, það hafði ekki komið gat á jörðina. Hins vegar höfðu bjarkirnar laufgast að fullu og stórar bjarkir í fullu laufskrúði drekka um 600 lítra af vatni á dag. Það eru tíu allstórar og stórar bjarkir sem drekka af því svæði sem örugglega hefur áhrif á þessa holu, jafnvel tólf, og svo mörg önnur tré. Það er ekkert nýnæmi að landið hérna í kring þornar upp þegar laufgunin er komin á ákveðið stig en núna var svo auðvelt að fylgjast með þessu í hinni margnefndu holu. Það er makalaust hverju þessar bjarkir, ásamt öllum hinum trjánum, koma til leiðar. Þær draga kynstrin öll af vatni upp úr jörðinni og taka til sín kynstrin öll af úrgangsefni úr loftinu. Með aðstoð vatnisns breyta þær úrgangsefnunum í næringu og súrefni fyrir sjálfar sig og skila svo óhemju af súrefni út í gufuhvolfið okkur til lífs. Þegar þær eru búnar að nota vatnið skila þær mestu af því aftur gegnum laufblöðin út í gufuhvolfið og viðhalda þar með hringrásinni. Svo í leiðinni gefa þær okkur betra veður, fallegra umhverfi, efni í byggingar og marg fleira og eldivið til kyndingar. Þær eru kjörstaður fyrir fugla himins að dvelja í þegar þeir halda söngkonserta fyrir vinnulúna náttúruunnendur.

Hverjum dettur í hug að það sem hefur skeð eftir stóra hvell sé tilviljun allt saman. Þar að auki á eitthvað að hafa sprungið sem ekki var til og úr sprengingunni varð til allt sem er til. Svo stóri hvellur var ekki tilviljun heldur. Ég held að það sé best að ég haldi nú til fundar með Óla Lokbrá og biðji bænirnar mínar.

Ps. Ég horfði á eitt lag í söngvakeppninni áðan og það var auðvitað íslenska lagið. Hið mikla lófatak gladdi okkur mjög og ennþá meira þó þegar liðið allt saman í salnum stóð upp. Það er nóg komið fyrir Ísland og það var mál að góðir hlutir færu að ske.

Og annað til. Bókin með myndunum sem ég talaði um áðan og ég skoðaði í bókabúðinni liggur nú upp í hyllu hér heima. Ég þarf að skoða hana á næstunni til að athuga hvort ég hafi ekki farið með rétt mál.


Myndasyrpa

Annar í hvítasunnu er ekki lengur rauður á sænska almanakinu. Honum hefur verið skipt út móti 6. júní sem er þjóðhátíðadagur. Það var því venjulegur vinnudagur á Sólvöllum í dag. Inn á milli var myndavélin á lofti enda var ég búinn að tala um það nýlega að fara að sýna sumarmyndir frá sveitasetrinu. Það er heldur svalara núna og það falla því færri svitadropar við að moka mold eða möl í hverjar hjólbörur. Annars mokaði ég möl í heila kerru í dag og fór ótrúlega létt með það. Ég var harð ánægður með úthald mitt. Við fórum nefnilega til Örebro og ég tók kerruna með til að taka möl fyrst ferðin féll.

Svo þegar ég kom í Syðri malarnámuna leit Marie á klukkuna og sagði að hann Erik væri búinn að leggja ámokstursvélinni. Æ, æ, ég hafði alveg gleymt klukkunni þegar við vorum að kaupa sumarblóm í Marieberg. En ætlar þú ekki að taka möl samt, spurði hún og benti á skóflu. Jú, jú, auðvitað sagðist ég gera það. Ég gat ekki látið konu skora svona á mig og standa ekki undir því að vera karlmaður. Það hvarflaði ekki að mér að ég væri ellilífeyrisþegi. Svo ætlaði ég að borga en þá sagði Marie að þeir sem mokuðu á sjálfir borguðu ekki. Svo mokaði ég vænu hlassi á kerruna. Ég veit vel að ég get ekki notfært mér þetta framvegis að moka á sjálfur. Þá mundi Marie hætta að tala við mig. Við spjöllum saman eftir viðskipti í nokkur ár og dóttir hennar býr hér í nágrenninu og til dæmis það skapar svolítið umræðuefni.

En nú er komið að myndunum.

Það er gamalkunnugt myndefni þarna gegnum opið milli skógarlundanna niður á sléttunni og yfir til Kilsbergen út við sjóndeildarhringinn. Ég held að það séu um 15 km þangað. Myndin er tekin á aðeins öðrum stað á lóðinni en venjulega og það gerir opið minna. En alla vega; allt er orðið vel grænt og fíflabreiðurnar breiða úr sér ríkulega niður á gamla túninu.


Ég gerði tilraun í dag til að taka mynd heim að Sólvöllum gegnum þetta op í skóginum, opið sem við tökum svo oft myndirnar gegnum heiman að. Ef vel hefði átt að vera hefði ég þurft að ganga yfir nýsáinn akurinn hans Arnolds og að horninu á skógarlundinum þarna framundan en ég var of pjattaður til að gera það. Ég held að það sé bara fyrir kunnuga að koma auga á Sólvelli sem eru þarna í felum á bak við runnakúluna sem er við skógarjaðarinn aðeins til hægri við miðja mynd. Það sér aðeins í hvítan díl þar, en það er þakskegg.


Heggurinn er farinn að fella blómin. Við eigum engan stóran hegg. Við höfðum einn í fyrstu en hann hallaði svo mikið að hann var verri en enginn heggur. En nú höfum við 15 til 20 heggi sem eru 1,5 til 2 m á hæð. Þó að sá gamli hafi hallað svo mikið að við felldum hefur hann ekki verið dauður á öllum æðum.


Annað eplatréð sem við gróðursettum í vor í staðinn fyrir það sem hérarnir átu er með nokkur blóm. Það er loforð um nokkur epli þó merkilegt sé. Það er ekki venjan að eplatrén beri ávöxt fyrsta sumarið eftir gróðursetningu. Þetta sama skeði líka þegar við gróðursettum eplatré í fyrsta skipti þarna á sama stað árið 2007.


Plómutréð lofar líka plómum. Við ætlum að gróðursetja annað plómutré með fjólubláum plómum þegar búið verður að grafa fyrir nýja húsgrunninum ásamt öðrum grefti sem þarf að framkævma.


Sá sem áttar sig á hvað þetta er fær ókeypis gistingu á Sólvöllum og því ekki orð um myndina meir.

Nei, ég get ekki þagað. Þegar við gróðursettum beyki út í skógi lögðum við þangað slöngu og létum síðan renna í tunnu sem ég vatnaði úr. Þetta voru maurarnir fljótir að notfæra sér. Þessi mynd er tekin eina 30 m bak við húsið en þar er um eins meters djúpur skurður sem slangan liggur yfir. Þetta er því sannkölluð maurabrú. Það er stanslaus umferð um þessa maurabrú og stundum mikið meiri en sést á myndinni. Þeir hafa ekkert sem heitir hægri eða vinstri í sinni umferð og stundum keyra þeir beint á hver annan, jafnvel margir í einu. En þeir leysa málið og einhver víkur alltaf og það virðist vera algerlega tilviljanakennt hver víkur, ef þeir gera það ekki bara báðir. Þeir virðast ekki reiðast og þeir snúa ekki við til að berja hver á öðrum eins og ískokkímennirnir gera þegar þeir keyra illa saman og elta hver annan á eftir til að berja með kylfum og hnefum eins og þeir eigi lífið að leysa.

Mauraþúfan er einum 100 metrum lengra út í skóginum en skurðurinn, þannig að það eru mörg mauraskrefin en ekki virðast þau vera talin eftir. Það eru sjálfsagt einhver mikilvæg næringarefni, vítamín eða snefilefni hérna bak við húsið sem eru nauðsynleg í sambýlið þarna í stórri þúfunni. Það eru margir Íslendingar búnir að koma að þessari mauraþúfu og ég get lofað því að hún er stærri núna en nokkru sinni fyrr. Við þurfum að fara að taka slönguna en þá verðum við líka að skaffa nýja maurabú. Við fengum stundum inn maura meðan við áttum heima inn í Örebro en hér höfum við aldrei fengið þá inn.

Það eru góða tíðir og mikilvægt að vera þakklátur fyrir það. Bara þetta með slönguna, maurabrúna, er nokkuð til að taka eftir og ég hef oft staldrað við til að horfa á þetta. Ég horfði líka á dágóðan vöxt beykitrjánna í dag. Vaxtarsproti þeirra er mjög viðkvæmur og lafir og liturinn á honum er svipaður og á kvefi sem hangir úr nefinu á litlu barni áður en því er snýtt. Beykitrén mundu því eiga erfitt uppdráttar á vindasömu Íslandi nema á alveg sérstaklega veðursælum stöðum. Ég hef leitað að beyki í gömlu íslensku Skrúðgarðabókinni minni en hef ekki fundið. En þegar líður á sumarið trénar vaxtarsprotinn, réttir úr sér og verður sterkur. Það er líka gaman að fylgjast með þessu og það er mannbætandi.

Ó stóri Guð

Presturinn Carl Gustav Boberg var á leiðinni heim til sín eftir að hafa orðið vitni að þrumveðri geysa úti við skógarjaðarinn árið 1885 og á heimleiðinni skrifaði þann lofsöng sem sunginn er í dag á fleiri tungumálum en nokkur annar, O store Gud. Lagið er sænskt þjóðlag.

Ég veit ekki hvers vegna mér datt þetta í hug fyrr í morgun þegar ég lagði höfuðið aftur á koddann eftir að ég hafði farið eina hringferð um húsið og horft út um gluggana til allra fjögurra höfuðáttanna. Þrumuveður geysaði tvo dagparta, í fyrradag og daginn þar á undan. Núna er alskýjað og suðvestan andvari og safaríkur skógurinn er nokkurn veginn lifnaður við eftir vetrarsvefninn. Ég sit við austurglugga og horfi á handarstór laufblöðin á hlyninum bærast mjúklega á greinum sem rísa og hníga í andvaranum. Nær ber birkikrónurnar við himinn yfir hlyninn og eikurnar sem keppast nú við að þroska laufblöð sín taka þátt í félagsskapnum. Upp úr skógarbotninum teygja sig ungviði, afkvæmi þessara trjáa ásamt aðfluttu beyki, og þyrstir í sól og yl. Að baki þessu sér svo í háar aspir og kyrrlát grenitré. Botninn er fylltur af bláberjalyngi og margs konar öðrum gróðri.

Allt þetta er eins og hluti af lofsöngnum Ó mikli Guð og ég er hrærður þennan hvítasunnudagsmorgun þar sem ég er hér vitni að öllu samspilinu. Ég get ekki tára bundist af lotningu og því best að ég sit hér einn sem stendur. Í gær var mikill annríkisdagur á Sólvöllum en ég var ákveðinn í því í gærkvöldi fyrir mitt leyti að dagurinn í dag, hvítasunnudagurinn, yrði í heiðri hafður. Eftir tæpan klukkutíma hefst sjónvarpsmnessan og við ætlum að horfa á hana eins og við gerum með sjónvarpsmessur yfirleitt ef ekkert truflar.

Það verður nú ein og önnur gönguferð um skóginn í dag. Það lætur einkennilega, en í fyrradag fundum við skógarlind í skóginum eina fimmtíu metra að baki húsinu. Þetta er eina skógarlindin í skóginum og við munum rýma fyrir henni. Svo velkominn einstaklingur verður ekki látinn kaffærast af öðrum trjám sem gnægðir eru af. Hins vegar get ég alltaf alltaf spurt sig hversu mikinn rétt ég hef á að stjórna hinu lifandi umhverfi mínu.

Þá brestur sálin út í lofsöngshljóð:
Ó stóri Guð! Ó stóri Guð!
. . . . .

Hér gefur svo að hlusta á aldraðan sænskan leikara syngja sálminn Ó stóri Guð, sálminn eða lofsönginn. Ég vona að það virki.



Jan Malmsjö - O Store Gud


Góður sumardagur

Klukkan er að verða hálf tíu að kvöldi laugardags 22. maí. Mikið rosalega líður tíminn fljótt og alveg sérstaklega það sem af er þessum mánuði. Ég er með harðsperrur eftir daginn. Ég var að moldvarpast í allan dag, framhald af gærdeginum, og sem stendur eru framkvæmdirnar leyndarmál. Loksins eigum við leyndarmál hér á Sólvöllum! Dagurinn er búinn að vera frábær. Við förum hvað líður að taka mynda af Sólvallaskóginum og birta. Það var lán að smiðurinn og gröfumaðurinn vildu ekki byrja þegar þeir voru hér á mánudaginn var þar sem þá mundi vera vatnselgur í öllum útgreftri. Við tímum ekki að borga smiðum fyrir að sullast í vatni.

Ég fór út í moldarvinnuna rúmlega átta í morgun en tók svo eftir því að það stóð vatn uppi í skurði sem er eina 30 m bakvið húsið. Ég þurfti svo sem ekki að undrast þetta með vatnið og fór af stað með garðhrífu. Ég er búinn að hreinsa lauf einu sinni úr skurðinum í vor en nú þurfti ég að gera það á ný. Það leyndi sér ekki að mýflugurnar voru komnar af stað og þar sem allt er mjög rakt núna eftir talsverða rigningu nýlega og óskuðu þær mig hjartanlega velkominn þarna út til þeirra. Þær elskuðu alveg sérstasklega að hýsast niður í hvirfilinn á mér. Ég hagaði mér eins og ég væri ónæmur fyrir þeim og hversu ónæmur mun ég komast að þegar ég vakna í fyrramálið.

Annars eru það ekki bara mýflugurnar sem sækja í kollinn á mér. Ég fór inn í viðargeymsluna í gær sem er með opinn gafl móti austri. Meðan ég var þar inni var eins og einhver væri að fikta við hárið á mér nokkrum sinnum. Að lokum leit ég upp og þá var þar þröstur með einhver ólæti. Stuttu síðar tók ég eftir því að hann hafði skitið í hárið á mér þunnri drullurönd sem seig alveg inn að skinni. Það var ekki mikið annað fyrir mig að gera en að stinga kollinum undir sturtuna til að fá ósóman í burtu. Svona láta fuglarnir sér detta í hug að gera við áfengisráðgjafa í Svíþjóð.

Við fengum nokkrar línur frá henni Dísu gamla nágranna í Hrísey í gær. Á hennar bæ er verið að hlú að gróðri og náttúru eins og hér á Sólvöllum enda býr hún við Sólvallagötuna. Hún talar um bæði moltu og trjákurl í þessu sambandi. Molta er orð sem ég veit ekki til að hafi verið notað í þeirri íslensku sem töluð var í Hrísey meðan við vorum þar og trjákurl man ég ekki eftir að væri notað í garða. En ég tel mig þó átta mig á þessu hvoru tveggja.

Fyrst ég er farinn að tala um fólkið í Sólvallagötu 2 dettur mér í hug valtarinn sem við keyptum í gær. Ottó fékk aðstoð við að smíða valtara sem síðan gekk milli húsa í Hrísey eins og þarfanautin í sveitinni á æskuárum mínum. Nú hef ég engan Hauk Kristófers til að hjálpa mér við þetta svo að við keyptum valtara fyrir 999 Skr. Hann er ósköp líkur valtara Ottós nema hvað hann er lakkaður með svörtu glansandi lakki. Ég talaði um það við Valdísi að við þyrftum eiginlega að vefja hann innan í teppi áður en við færum að nota hann svo að við eyðilegðum ekki glansinn. Jónas og Lena nágrannar okkar eru að vinna við jarðabætur heima hjá sér og ég trúi að þau komi fljótlega til að fá valtarann lánaðan. Þar með verður hann orðinn arftaki þarfanautsins varðandi bæjarflakkið.

Nú er klukkan alveg að verða tólf og ef ég ætla að birta þetta bull verð ég hreinlega að gera það áður en hvítasunnudagurinn gengur í garð hér. Það munar nefnilega tveimur tímum á klukkunni hér og á Íslandi. Læt ég þar með staðar numið og leita félagsskapar Óla Lokbrá. Ég heyri að þau hafa þegar hittst Valdís og hann.

Þetta hef ég aldrei heyrt pabbi

Ég var að blogga um níu leytið í gærkvöldi og þrumuveðrið sem byrjaði um klukkan sjö var komið svo nálægt aftur að ég þorði ekki annað en slökkva á tölvunni. Rafmagninu hafði líka slegið út einu sinni í nokkrar sekúndur. Regnið féll jafnt og hæglátlega og það var notalegt að standa í dyrunum og fylgjast með framvindu náttúrunnar. Jafnt og þétt leiftruðu eldingar sem lýstu upp umhverfið. Svo var komin síðla kvöld og mál að sofa eftir enn eina vinnunótt í Vornesi.

Í morgun vaknaði ég um hálf sjö en lá áfram og hugurinn reikaði. Mér var hugsað til ferðarinnar heim úr vinnunni í gærmorgun og hvað ég varð fyrir sterkum áhrifum af öllu mögulegu. Þá hefði ég viljað stoppa bílinn og skrifa niður það sem ég upplifði meðan það ennþá brusaði í kollinum á mér. Nú er minningin ögn möttuð og hin ljóslifandi upplifun er ekki lengur til staðar. Annað sem ég fór í gegnum í hugarflugi mínu í morgun var stund sem ég átti með feðgum í Vornesi einn laugardag fyrir mörgum árum, en svo ljóslifandi varð þessi minning að mér fannst sem ég myndi samtöl frá orði til orðs. Ég á margar svona minningar og þær eru mér ríkidómur. Ég ákvað að skrifa.

Þegar ég hafði kveikt á tölvunni byrjaði ég að gá að tölvupósti, annars vildi ég ekki trufla hugan með of miklu utan að komandi. Það hafði komið tölvupóstur frá íslenskri konu sem segir að hún sé félagsliði og vinni með fólk sem greinst hefur með Alzeimer. Hún segir að þetta sé erfitt en fullnægi mikið hennar þörfum. Þessi orð voru sem ljós í sálina fyrir mig og ég byrjaði að skrifa.

Það var föstudagskvöld í Vornesi og maður um tvítugt vildi skrifa sig út. Ég kalla hann strákinn. Þetta skapaði óró í húsinu en eftir símasamtöl varð niðustaðan sú að hann skyldi bíða til morguns. Um hádegisbil kom pabbi hans til að sækja hann. Þeir feðgar settust á garðstóla nokkuð frá húsinu og virtust spjalla saman. Við hin borðuðum hádegisverð. Þegar flestir voru búnir að borða fór ég út til þeirra og bauð þeim einnig að borða. Þeir voru því fegnir og í staðinn fyrir að fara heim, þar sem vinnutíma mínum var lokið, settist ég við matborðið með þeim. Hún sem var í eldhúsinu þennan laugardag var þá einnig að borða.

Pabbinn og mamma stráksins höfðu skilið þegar stráksi var mjög ungur. Ég sem hafði talað við við pabbann í síma kvöldið áður heyrði þá að hann talaði svolítið einkennilega og hélt að hann væri drukkinn. Hann vildi gefa skýringu á talgallanum og sagðist hafa fengið heilahimnubólgu þegar hann var 14 ára ásamt kirtlabólgu og einhverri einni bólgu enn. Síðan hef ég ekki getað talað eðlilega, sagði hann. Pabbi, sagði strákurinn og hallaði sér fram á borðið, ég hef aldrei heyrt þetta áður. Er það virkilega, sagði pabbinn, og vildi þá segja ennþá meira frá veikindum sínum. Svo lýsti hann því að honum hefði ekki verið hugað líf, hann hefði ekki getað borðað í langan tíma og talfærin hefðu orðið fyrir skaða.

En pabbi, sagði strákurinn, þetta er allt í lagi, þú talar ekkert einkennilega, þú ert ekki skrýtinn. Faðir og sonur sem sátu sitt hvoru megin við borðið voru greinilega að nálgast hvor annan. Pabbinn hélt áfram. Það var gamall maður sem bjargaði lífi mínu. Hann bað um kartöflustöppu og fisk. Svo tók hann svolítinn fisk, stappaði hann með gaffli og blandaði við kartöflustöppuna. Síðan mataði hann mig með þessu með því að setja matinn aftast á tunguna og þannig gat ég byrjað að borða aftur eftir tvær vikur án matar. Ég lifði af.

Hann hafði frá mörgu fleira að segja og þarna við matarborðið urðu strákur og pabbi að feðgum. Eftir tæpa tvo tvo tíma þökkuðu þeir innilega fyrir matinn og ekki síst henni sem vann í eldhúsinu. Mér fannst eiginlega pabbinn verða smáskotinn í henni. Svo gengu þeir yfir hlaðið út að bílnum. Þeir gengu þétt saman og héldu áfam að tala mikið. Ég óska stráknum og pabba hans innilega alls hins besta. Ég fann að ég hafði orðið vitni að atburði. Ég fór tveimur tímum seinna heim úr vinnunni þennan dag og hef ekki gefið Valdísi skýringu á hvers vegna. Hún kannski les þetta.

Hvað um Björk?

Íslenska söngkonan Björk Guðmundsdóttir var umtöluð í öllum fréttatímum hér í Svíþjóð frá því um ellefu leytið í gærmorgun og fram á seina kvöldið þar sem hún fékk svonefnd Polarrverðlaun fyrir sinn sérstaka tónlistarstíl. Verðlaununum deildi hún með ítölskum manni. Svo komu fréttir um þetta í sænsku íðdegisblöðunum í gær og í dag er mjög vel talað um Björk í svæðisdagblaðinu í Örebro. Sama er að segja um blað sem berst um alla Svíþjóð svipað og Fréttablaðið á Íslandi. Í þessum fjölmiðlum er talað um að eldgos séu mikill náttúrukraftur en það sé sama með Björk, hún sé einnig einn stór náttúrukraftur.

Við auðvitað fórum inn á íslensku blöðin í tölvunni, inn á ríkisútvarpið íslenska og sjónvarpið, bæði í gær og í dag, til að sjá hvernig íslensku fjölmiðlarnir tækju á þessari frétt sem hér er svo stór. En hvergi sáum við eitt orð um Björk eða þessi verðlaun. Við erum að sjálfsögðu mjög hissa en þetta hlýtur bara að hafa komið fram einhvers staðar þar sem við höfum ekki tekið eftir því.

Ég hef ekki verið neinn sérstakur aðdáandi Bjarkar til þessa en mér fannst, eins og Valdísi, að þetta væri mjög skemmtilegt. Það voru sýndar glefsur úr ýmsum lögum hennar í sjónvarpinu og ég verð að viðurkenna að mér líkaði bara vel og Björk var ósköp indæl og falleg það sem sást til hennar í þessum fréttum.


Ps. Ég fann loks frétt um Polarverðlaun Bjarkar neðarlega á ruv.is síðunni. Þessi frétt var upphaflega birt í gær, sama dag og tilkynnt var um verðlaunin.

Sorg

Ég var svo sem var búinn að lesa um söluna á orkunni á suðvesturhorninu áður, en einhvern veginn var það svo að í morgun fann ég fyrir þessum rosalegu vonbrigðum. Við biðum eftir smiðnum og gröfumanninum og því miður álpaðist ég til að fara inn á ruv.is. Þar var meðal annars fjallað um þessa ótrúlegu sölu orkulindanna og svo sat þetta í mér og situr ennþá í mér og það er komið nokkuð fram yfir hádegi. Hvað er fólk eiginlega að hugsa? Fyrir mér er það bara einhver sem er að hugsa um peninga en gefur skít í velferð barna sinna og barnabarna.

Svo komu smiðurinn og gröfumaðurinn og við spígsporuðum kringum Sólvallahúsið góða stund áður en við fórum inn og þágum veitingarnar hjá Valdísi. Svo héldum við til Fjugesta á vit byggingafulltrúans í Lekebergshreppi. Valdís kom með þar sem við ætluðum síðan inn til Örebro og hún ætlaði að verða þar eftir. Fundurinn gekk hratt fyrir sig og við héldum í tíma til Örebro. Við komum við í raftækjaverslun í Marieberg til að skoða litla frystiskápa sem við höfum hug á að kaupa sem viðbót við sambyggða kælinn/frystinn sem við fengum um árið hjá Rósu og Pétri. Það var enginn viðskiptasvinur í versluninni í augnablikinu sem við gengum inn, en tveir kurteisir starfsmenn stóðu þar við afgreiðsludisk og spjölluðu saman.

Við skoðuðum frystiskáp sem virtist vera nákvæmlega það sem við höfðum hug á. Þar með var það gert. Fyrstu athugun var lokið og við töluðum um að við þyrftum á svona skáp að halda sem viðbótar frysti heima hjá okkur. Svo varð aðeins spjall á eftir. Allt í einu spurði yngri maðurinn hvort við kæmum frá Hollandi. Við hefðum bara átt að svara því játandi því að þegar við sögðumst vera Íslendingar fóru þeir að skellihlæja og spurðu hvort Íslendingar þyrftu virkilega auka frysti. Svo gerðu þeir grín að Íslendingum sem fjármálaþjóð en sögðu síðan að þetta með gosið væri skelfilegt.

Þetta hendir æ oftar og meira að segja fólk í sjónvarpsþáttum gerir grín að fjármálaþjóðinni Íslandi svona til að gera eitthvað fyndið. Ef ég segi allan sannleikann, þá er litið á Íslendinga sem óreiðumenn og bjána í þessu sambandi. Áður en ósköpin dundu yfir litu Svíar á Íslendinga sem fornnorræna þjóð þar sem menn væru raunverulegir karlmenn og konurnar sannar fjallkonur. Áður sagði fólk þegar við sögðumst vera frá Íslandi: Þangað hefur mig alltaf langað að fara, ég vona að ég eigi það eftir. Núna byrjar fólk á að gera grín en segir svo í lokin að það vilji koma þangað.

Einhver Íslendingur sagði um daginn í bloggi eða hvar það nú var að maður ætti alltaf að taka upp vörn fyrir Ísland þegar svona lagað hendir eins og ég hef lýst. Mér dettur bara ekki í hug að gera það. Ef ég geri það verð ég bara talinn einn af bjánunum líka og svo er enginn bættari. Svíar sem þekkja Íslendinga hafa samt sem áður á þeim sterka trú og treysta þeim vel. Eftir að forsetinn neitaði að undirskrifa Icesavelögin hefur því verið haldið fram á Íslandi að orðrómur landsins hafi breytst svo mikið til batnaðar. Ég segi bara ha, ha, ha. Forsetinn sjálfur fékk svolitla uppreisn æru þangað til hann fór að tala um Kötlu og þá varð hann ærulaus aftur. Varðandi Kötlu hef ég reyndar tekið hans málstað en það hef ég bloggað um áður.

Hefði ekki sundurlyndisfjandinn hreiðrað um sig á Alþingi Íslendinga og framámenn stjórnarandstöðunnar notfært sér Icesave til að draga að sér athygli hefði forsetinn ekki neitað undirskriftinni um áramótinn. Málið hefði nefnilega verið afgreitt á síðsumarmánuðunum í fyrra. Þá væri krónan orðin sterkari, atvinnuuppbyggingin í fullum gangi, velferðarkerfið sterkara, fólk svæfi betur á næturnar og orðstýr Íslendinga væri á hraðri uppleið, enda hefði hann aldrei sokkið svo djúpt sem nú er raunin.

Þetta ætti auðvitað að vera blaðagrein en mér finnst ég lélegur ef ég segi ekki þeim sem lesa bloggið mitt frá þessu. Sænska fréttafólkið sem hefur verið á Íslandi varðandi eldgosið hefur farið mjög góðum orðum um Ísland og Íslendinga en það dugir bara ekki til. Eldgos og vandamálin sem það skapar er eitt en fjármál landsins annað. Í fréttunum núna rétt áðan klukkan 18 var talað við Reyni Böðvarsson jarðskjálftafræðing og hann var skörulegur og myndarlegur eins og alltaf. Svo var sagt frá Björk og tónlistarverðlaununum sem hún fékk í dag.

En nú var ég að lesa að salan á íslensku auðlindindunum til útlendinga er frágengin! Ég er svo vitlaus að ég hef gaman af að sjá brum bresta, gróður vaxa og keyra hjólbörur út í skógi. En í dag er ég bara vonsvikinn og sorgmæddur Íslendingur.

Ps. Ég skrifaði þetta um tvö leytið en geymdi það svo og vildi íhuga hvort ég ætti virkilega að birta það. Nú er klukkan að verða átta og ég læt það flakka.

Sunnudagskvöld

Ég horfi út um austurgluggann yfir tölvuna og virði fyrir mér hvernig vorið vinnur sig áfram dag frá degi. Það er mikið laufskrúð komið en samt er það bara að byrja. Fyrir miðjum glugganum eru nokkrir hlynir í þyrpingu. Fyrir nokkrum dögum voru laufblöð þeirra einn til þrír sentimetrar í þvermál. Í dag eru þau þrír til sex sendimetrar í þvermál, og að lokum verða þau 13 til 15 sentimetrar í þvermá. Jafnvel meira. Að auki á þeim eftir að fjölga mjög mikið. Flest tré eru farin að grænka nokkuð eða mikið. Stóra Sólvallaeikin hefur ásamt systrum sínum hér í skóginum breytst mikið á síðustu þremur dögum. Aspirnar eru aðeins farnar að breyta lit en askurinn ekki. Askur laufgast seinast allra trjáa og fellir fyrstur lauf. Dýrðin er sem sagt mikil og fjölbreytnin óendanleg. Það sést betur og betur dag frá degi að grisjun, gróðursetning og önnur hjálpsemi við skóginn er að bera mikinn árangur.

Á föstudagsmorguninn snemma var hringt til mín frá Vornesi. Tveir yngstu ráðgjafarnir voru veikir en fólk er farið að þekkja það að íslenski ellilífeyrisþeginn verður afskaplega sjaldan veikur. Þeir sem eru yfir í Vornesi finna sig býsna mikið öruggari þar sem þeir vita að ég er býsna óbrygðull að leita til. Ég hafði ekki unnið í tvær vikur eða svo og vordagarnir eru svo dásamlegir og gott að vera heima. Þegar Birgitta forstöðukona hringdi hugsaði ég bara "nei, nei, nei" og svo sagðist ég koma. En ég nennti alls ekki. Svo þegar ég ók austur á bóginn og fór að sjá út á Hjälmaren var þetta að verða skárra. Þegar ég svo kom inn í húsið og heilsaði sorgmæddum alkohólistum varð allt í lagi. Ég var í símasambandi við Valdísi og svo rann rjóminn ljúflega niður í sparibaukinn minn næstu 26 tímana. Sænskur ellilífeyrir lækkar ekki hversu mikið sem ég vinn og skattur af vinnulaunum ellilífeyrisþega er mjög lágur.

Á morgun eru merkilegir fundir. Dagurinn byrjar á því að smiðurinn sem ætlar að byggja fyrir okkur kemur með gröfumann til að skipuleggja gröft og aðrar byggingarframkvæmdir. Við ætlum að ræða þessi mál yfir morgunverði. Síðan förum við til Fjugesta og fundum með byggingarfulltrúanum. Að þessu loknu má byrja að byggja sem ég reikna með að verði í næstu viku. Ég reikna með að verða í fyrsta lagi sendill og handlangari. Þannig er minnst hætta á að ég verði fyrir yngri og hraðskreiðari mönnum. Það er spáð hlýju og þurru næstu dagana þannig að við þurfum að kaupa panelinn hið fyrsta og mála meðan við höfum þurrt veður.

Ósköp varð húsið lítið allt í einu
Þegar hann Arne kom með moldina og sturtaði svona nálægt húsinu varð það svo lítið en bíllinn stór. Það þurfti auðvitað nokkur bílhlöss af mold til að fegra kringum sveitasetrið.

Hvaða laufblöð eru fallegri en þetta?
Beykilaufblöð. Já, hvaða laufblöð eru fegurri en ung beykilaufblöð? Myndin er fjögurra daga gömul.


Næstum full laufgað beykitré. Næstum í beina stefnu frá þessu unga beykitré er eik sem var á bólakafi í greniskógi þegar við komum á Sólvelli. Svo mikið greni var í kringum hana að ég held að við höfum ekki fundið hana fyrstu mánuðina þó að hún væri svo nálægt húsinu. Þessi eik er bara rétt að byrja að springa út.

Hannes Guðjón

Ég sit hér og sé inn í dimman skóginn hið neðra en ofar ber all laufríkar laufkrónurnar við hálf bjartan himininn. Mikið hefur skeð í dag. Ég sagði í sænska blogginu áðan að það hefði verið svo mikill laufvöxtur í dag að það hefði suðað í skóginum. Ef þetta er ekki alveg satt, þá eru það saklaus ósannindi. Dagurinn hefur verið virkilega góður
og margt aðhafst á sólvöllum. Skógardúfurnar hafa án hvíldar haldið uppi samtölum í trjákrónunum með sínu hása gúúú gú gúúú gúú og það hefur slmennt verið mikill fuglasöngur, spætur á hlaupum á trjástofnum og músin hljóp yfir göngugötuna eins og hún væri að berjast fyrir lífi sínu og þrestirnir safna fæðu handa sísvöngum ungum sínum.

En nú er ég með allt annað í huga en að skrifa langa texta. Mér mistókst að birta myndir af honum dóttursyni okkar og nafna mínum í fyrradag. Nú ætla ég að bæta um betur og prýða bloggsíður mínar með fínum myndum. Rósa varð mér innan handar fyrst mér tókst ekki sjálfum.


Ekki hár í loftinu en farinn að róla. Voða er maður myndarlegur.


Það er líka gaman að róla og þá brosir maður fallega.


Ég get líka brosað þó að ég sé ekki að róla afi.


Rósa er alls ekki með stærstu manneskjum en  mikill er stærðarmunurinn. Þetta var líka svolítið svindl. Mamma var svo nálægt myndavélinni, en ég, Hannes, var svo langt í burtu.


Þarna er líka stærðarmunur og hann ekki lítill. Eru feðgarnir komnir um borð í bát eða hvað?

Við Valdís förum til Uppsala um mánaðamótin enda kominn tími til að hitta fólkið. Skyldi hann Hannes Guðjón þekkja okkur þá? Við höfum öðru hvoru talað saman á Skype og haft vídeovél svo að við höfum getað séð hvert annað. Kannski hefur það hjálpað drengnum að muna eftir okkur. Við sjáum til. Þessar myndir eru líklega frá því um síðustu helgi eða svo og síðan hefur gróðri farið mikið fram. Annars sýnist mér bara að gróður sé lengra kominn í Uppsala en hér á Örebrosvæðinu eftir þessum myndum að dæma.

Vorkvöld

Niður í opnun milli tveggja skógarlunda skammt norðvestan við Sólvelli lágu nokkur dádýr við dimmumótin og þau eru ótrúlega oft í þessari opnun. Þau hafa væntanlega átt sinn þátt í að bíta ofan af mörgum ungtrjánum í Sólvallaskóginum í vetur í þakklætisskini fyrir epli og gulrætur sem við veittum þeim. Daglega hlaupa hérar þvert yfir lóðina sunnan við húsið og þegar þeir eru komnir í ákveðna fjarlægð vestan við stoppa þeir og það er alveg eins og þeir horfi skömmustulegir hingað heim. Það er eins og þeir séu ekki alveg ánægðir með sjálfa sig og að þeir sjái eftir því að hafa nagað börkinn af eplatrjánum og ýmsum öðrum trjám eftir að þeir höfðu haft sameiginlega epla og gulrótamáltíð með dádýrunum.

En ég meina ekkert af þessu. Það er búið að skipta út eplatrjánum og ýmsum öðrum trjám og svo koma nýir tímar. Það er ósköp gaman að þessum dýrum og við vildum bara gjarnan sjá meira af elgjunum fjórum sem voru hér á bakvið húsið í vetur, aðallega áður en við fluttum hingað. Kannski voru þeir jafn mikið eftir að við fluttum en þeir hafa væntanlega haldið sig heldur lengra burtu, alla vega á daginn. Og svo var snjórinn svo mikill að það var eiginlega alveg ófært út í skóg til að huga að því sem þar fór fram.

Við fórum inn til Örebro í dag til að panta átta glugga og útihurð. Við fórum í þrjár byggingarvöruverslanir og bárum saman verð og útlit með tilliti til gluggana sem við höfum þegar keypt. Síðasta verslunin sem við komum til er sú verslun þar sem við höfum keypt að mest leyti allt byggingarefni til Sólvalla. Þegar við vorum búin að skoða gluggana fór Valdís út og fékk sér sæti í sólinni og góða veðrinu. Við Bengt skoðuðum verð. Bengt er ekki eigandi en hann er bróðir eigandans og er launþegi hjá honum. Þegar ég sagði að lokum að ég tæki gluggana hjá honum varð hann ótrúlega glaður. Hann stóð upp, tók í hendina á mér og hneigði sig djúpt. Svíar gera þetta gjarnan en ég, Íslendingurinn, verð alltaf svo stífur í hálsinum þegar þeir gera þetta og átta mig ekki á því fyrr en eftir á.

Þegar allt var klárt fór Bengt allt í einu að tala um heimildarmyndina af eldgosinu í Eyjafjallajökli sem sýnd var í gærkvöldi. Honum fannst þetta alveg rosaleg mynd og ótrúlegt hvernig fólk gæti staðið út með þessi ósköp inn á gafli hjá sér. Hann var ekki eini maðurinn sem talaði um þetta í dag. Fólki blöskrar gersamlega.

Ég talaði um héra áðan. Það er svo gaman að sjá þá hlaupa og stundum eru þeir í hóp og virðast leika sér alveg eins og smábörn. Þeir minna mig stundum hreinlega á ólma krakka. Ég sagði eins og smábörn. Ég bað Rósu í dag að senda mér mynd af honum nafna mínum. Svo var ég svo grútmontinn af myndunum og ætlaði nú aldeilis að nota þær á bloggið. En svo bara rífur tölvan kjaft og segir Fel filformat! Fel filformat! Fel filformat! Ég er engu nær. Ég held bara að ég verði að far í tölvuháskóla til að ráða bót á þessu. Ég segi bara góða nótt.

Búið að bera eld að kveikiþræðinum

Við horfðum á átt í sænska sjónvarpinu í kvöld um eldgosið í Eyjafjallajökli. Þetta var fróðlegur þáttur, stórfenglegur, að nokkru leyti fallegur en líka all svakalegur. Það var skemmtilegt að sjá og heyra íslenska sérfræðina fjalla um eldgosið og gos almennt og eðli þeirra. Þeir eru klárir í sínu fagi íslensku sérfræðingarnir. Það var talað við marga og fylgst með þeim sem voru að vinna sín skyldustörf. Kona nokkur, frekar ung, sem virtist búa afsíðis með kindurnar sínar var heimsótt. Hún sýndi gimbrina Ösku. Hún vildi ekki fylgja mönnunum þegar þeir fóru til baka og það lá við að þeir töluðum um það á leiðinni til að þessi kona væri vart einhöm.

Það var talað um Vestmannaeyjagosið og Skaftárelda. Í lok þáttarins var talað um það að mikið gæti átt eftir að ske á Íslandi. Það væri bara búið að bera eldinn að kveikiþræðinum. Þetta lítur ekki vel út ef rétt mun reynast og ætti kannski ekkert að vera að hafa þessi orð eftir. Síðan gekk ég inn að tölvunni og þar var talað um óvenju mikla jarðskjálftahrinu í Bárðarbungu. Já, það er mikið að ske.


Hér er haugur að kljúfa
Hér á Sólvöllum verður ekki fluttur öllu meiri viður innan úr skógi á þessu vori. Nú er eftir að kljúfa og síðan að raða inn í skýli og geymslu. Við þurfum eiginlega að ráða vinnukraft upp á vatn og brauð til að komast fram úr þessu.

Víst er vorið á leiðinni
Birkið er orðið all laufgað. Þessi mynd var tekin seinni hluta dags í gær og sýnir heimaskógana hans Arnolds. Birkið til hægri er um tvítugt. Arnold nytjaði landið þar sem skógurinn stendur síðast fyrir 21 ári, en þá skar hann korn þar í síðasta skipti. Hann hefur ekki gróðursett eina einustu plöntu í þessum skógi en hann grisjaði mikið þar í fyrra.

Lítil hönd og stór fingur

5. apríl bloggaði ég um tvo menn, Tómas prest og Martin fyrrverandi biskup. Sonur Tómasar dó af einhverjum hægfara rýrnunarsjúkdómi. Eftir að það uppgötvaðist að hann leið af þessum sjúkdómi voru tveir aðrir synir Tómasar athugaðir og í ljós kom að annar þeirra hafði sama sjúksóm. Ég veit ekki á hvaða stigi sjúkdómur hans er núna eða hvort hann lifir, en síðast þegar ég vissi var hann mjög alvarlega veikur. Sonur Martins, Jónas, er alvarlega þroskaheftur og er á heimili fyrir slíka, en er í mikilli þörf fyrir foreldra sína. Hann varð fyrir bráðri blæðingu meðan hann enn var í móðurlífi og foreldrarnir vissu að hann mundi aldrei verða heilbrigður. Það er þetta sem bindur þessa tvo menn sterkum vináttuböndum.

Í morgun fór ég út í skóg um átta leytið og ætlaði að hreinsa þar til og flytja heim það sem eftir var af eldiviði. Síðan ætlaði ég að koma heim nokkuð fyrir klukkan tíu, fá mér morgunverð og horfa á sjónvarpsmessuna. Þegar ég á leið minni út í skóg gekk framhjá ákveðnu svæði bakvið húsið hugsaði ég til Arne Erikson gröfumanns sem ætlaði að færa okkur tvö bílhlöss af mold þegar moldarhaugarnir hjá honum væru orðnir frostlausir og þurrir. Hann var búinn að biðja mig að hringja í sig um 15. maí og tala um þetta þá. Við þurfum að gera snyrtilega all stóra flöt bakvið húsið.

Tuttugu mínútur fyrir tíu kom ég í þvottahúsdyrnar og þá sagði Valdís að gamli biskupinn væri með messuna. Ég hugsaði ekki svo mikið um það fyrst og fór í að hrúga morgunverðinum á disk. Klukkan tíu kom Martin fyrrverandi biskup á skjáinn í frakka og með alpahúfuna sína og kynnti messuna. Þarna stóð þessi áttræði maður framan við einhverja kirkju og bauð meðal annars okkur velkomin til að horfa á þessa messu. Hann snerti mig sterkt á einhvern hátt, sem hann hefur svo oft gert áður, og meðan ég horfði á hann tala þarna framan við kirkjuna fékk ég svo sterkt á tilfinninguna að þetta yrði góður dagur.

Messan hófst með því að all sérstakur kór söng. Sumir studdu sig við hækjur, sumir sátu í hjólastólum og það leyndi sér ekki að þessi kór var uppbyggður af þroskaheftu fólki. Miðaldra maður gekk fram og byrjaði með einsöng. Hann horfði í kringum sig þegar hann var byrjaður að syngja og virtist vera að athuga hvort ekki væri allt í lagi, og auðvitað var allt í lagi. Svo söng allur kórinn. Eftir einhver föst messuatriði steig fram Martin fyrrverandi biskup og nú í prestsskrúða. Hann byrjaði á að tala um kórinn. Þessi kór söng að nokkru með munninum og svolítið með kroppnum, sagði hann, en þessi kór söng í fyrsta lagi með hjartanu. Svo hélt hann áfram að tala blaðlaust haldandi báðum höndum utan um míkrófón.

Hann talaði lítið um trú en hann talaði þannig að orð hans urðu að sterkri trú. Hann talaði um lífið og stofan á Sólvöllum fylltist af trú. Hann talaði um fæðingu Jónasar á aðfangadagskvöld 1961 og sagði að hann hefði grátið mikið og lengi eftir fæðinguna. Þau foreldrarnir stóðu yfir rúminu hans og biðu eftir einhverju öðru en bara gráti. Allt í einu brosti Jónas. Það var fallegasta bros sem nokkur manneskja hafði nokkru sinni brosað. Martin lýsti því hvernig varnarlaust barnið hefði heyrt þau tala máli sem hann skildi ekkert í en hann hefði fundið fyrir einu. Þarna uppi yfir rúminu sem hann lá í stóðu þessar tvær mannverur sem mundu gefa honum allt það öryggi sem hann þyrfti í lífinu. Hann sem var svo lítill og varnarlaus og nýkominn frá þessari nánu nærveru og öryggi sem hann hafði haft í móðurkviði, hann gat ekki skapað sér þetta öryggi sjálfur. Hann bar óbifanlegt traust til þessara stóru mannvera sem stóðu svo oft yfir honum.

Martin sagði frá því hvernig Jónas hefði náð taki á fingri hans og svo hélt hann utan um fingurinn, ótrúlega sterku taki, eins og hann mundi aldrei vilja sleppa þessum fingri. Hann hefur heldur ekki sleppt takinu enn í dag því að þeir feðgar fara oft út að ganga og þeir haldast ennþá hönd í hönd eins og faðir og lítill sonur gerðu þegar árið 1961. Jónas er næstum líka lítill sonur enn í dag. Hann er í þörf fyrir nærveruna, vináttuna og kærleikann. Martin segir að enginn hafi kennt sér jafn mikið um þessi gildi og Jónas.

Við Valdís vorum afar hljóð meðan við hlustuðum á þennan öldung tala. Hann setti þetta allt í samband við lífið, alheiminn, nærveruna og kærleikann á mjög trúarlegan hátt. Orðin, áherslurnar, lífsreynslan og hinn djúpi andlegi þroski getur aðeins verið hans. Ég get því aldrei flutt það áfram af þeirri dýpt og innsæi sem hann gerði í messunni í dag. Aðeins maður með djúpan andlegan þroska getur haft svo sterk áhrif. Tveir menn geta lýst því sama með sömu orðum en boðskapur Martins verður samt ekki sá sami og hins. Þar sem við sátum þarna og hlustuðum gerði ég mér grein fyrir því að með staðfestu og trúmennsku hefur maðurinn öðlast þennan mikla áhrifamátt af þátttöku sinni í hinu andlega lífi.

Áður en messunni lauk hringdi Anders smiður og sagðist verða hér eftir hálftíma til að ræða byrjun byggingarframkvæmda á Sólvöllum. Strax eftir að Anders fór hringdi Arne gröfumaður og sagðist vera að koma með mold. Þar með tók veraldlegi þátturinn yfir aftur. Þeir hafa nú hvorugur fylgst með sjónvarpsmessunni býst ég við en áttu samt báðir þátt í því að þetta hefur verið ótrúlega góður dagur. Það hefur heil mikið skeð á Sólvöllum í dag.

Hversdagslíf

Það linnir ekki fréttaflutningi frá Íslandi í sænsku sjónvarpi. Einstaka dag eru bara fréttir af ösku á norðurhveli jarðar en flesta daga eru fréttir af eldgosi í Eyjafjallajökli, og öðru hvoru eru fréttir af einhverju öðru. Þessar fréttir eru gjarnan þuldar upp aftur og aftur frá morgni eða fyrri hluta dags og fram á kvöld. Talað hefur verið við íslenska sérfræðina um eðli gossins, við bændur undir Eyjafjöllum um erfiða daga við búskap og við hóteleiganda á Suðurlandi um hið stórhættulega Kötlugos. Það hefur verið talað við íslenska sérfræðinga sem vinna í Svíþjóð, í fyrsta lagi Reyni Bárðarson sem hefur gegnum árin verið einn helsti sérfræðingur sænska ríkissjónvarpsins varðandi eldgos og jarðskjálfta vítt um heim, ekki síst flóðin í Tælandi á sínum tíma. Nú í kvöld voru fréttir og myndir frá Vík. Í gær var sagt frá handtöku Kaupþingsforstjórans fyrrverandi og hvers vegna hann var handtekinn. Læt ég nu umfjöllun um þetta nægja.

Ég blogga mikið um það sem skeður á Sólvöllum og ýmislegt annað sem til fellur. Stundum líka um það sem hrærist í huganum eða skeði fyrir löngu síðan. Upphaflega var þetta hugsað til að nákomið fólk gæti fylgst með gangi mála hjá okkur Valdísi og fljótlega fannst mér það mjög góð leið til að halda dagbók. Síðan fannst mér bara allt í lagi að hver sem er gæti lesið bloggið og það er dágóður hópur lesenda á degi hverjum sem virðist taka sér tíma til að lesa. Það er eins og mörgum finnist frásagnir af venjulegu daglegu lífi vera gott lesefni. Ég hef velt þessu talsvert fyrir mér og seinni partinn í dag flaug í gegnum huga mér að frásagnir af stórfenglegu óvenjulegu lífi geti misst heldur betur fæturna. Það var kannski fangelsun bankamanna sem fékk mig til að komast á þá skoðun.

Meðan ég lýsti grefti fyrir stöplum undir hús, málningu á panel, að fella nokkrar hríslur út í skógi og svo ég tali nú ekki um að þvo óhreinindin af höndunum á mér, þá var sagt frá gríðarlegum viðskiptum og mögnuðum ákvörðunum íslenskra viðskiptajöfra sem gerðu íslenskt samfélag svo glæsilegt. Stundum fannst mér sem frásagnir mínar væru voða, voða lítils virði. Nú er verið að fangelsa viðskiptajöfrana en á sama tíma er ég að keyra eldivið á hjólbörum utan úr skógi. Ég held ég hiki ekki við að halda áfram að skrifa um venjulegt hversdagslegt líf. Þær frásagnir virðast vera byggðar á traustari grunni.

Þeir stækka hratt þessir enda hafa foreldrarnir mikið að gera við fæðuöflun.
Það er eiginlega ekki hægt að komast að þessu skógarþrastarhreiðri til að sjá það augliti til auglitis. Það verður að beita myndavél til að sjá ofan í það. Ég tók mynd af því tveimur dögum á undan þessari mynd og notaði í síðasta bloggi. Þvílíkur vöxtur á þessum ungviðum. Það er eins gott að mannanna börn vaxi ekki svona hratt. Það mundi þá víða stefna í óefni. Foreldranrir voru líka afskaplega önnum kafnir við fæðuöflun í dag.

Er þetta ekki fallegt, faðmlög út í skógi
Það mætti halda að hann sé stór Sólvallaskógurinn því að það var ekki fyrr en í morgun, eftir sex ár á Sólvöllum, sem ég sá þessi faðmlög í fyrsta skipti. Það er greni þarna til vinstri sem heldur trausta taki utan um björk til hægri. Kennarar og skólastjóri í Skógum kölluðu það flangs þegar strákar og stelpur vöfðu hvort annað örmum á dansæfingum og við ýmis önnur tækifæri. Þetta er sko ekkert flangs, þetta eru ekta falleg faðmlög og ekki er feimninni fyrir að fara. Myndavélin nær þessu bara ekki eins vel og augað.

Örebro

Ég ætlaði að skrifa þessa myndatexta í gær en mér bara tókst það ekki. Ég hef sjálfsagt verið í einhverri óstemmingu og tölvan hlýddi mér ekki og ég hreinlega frestaði því til morguns. En í gær hitti Valdís fólk sem er með henni í leikfimi fyrir gigtarsjúklinga. Þau settust niður á kaffihúsi og höfðu það notalegt. Ég auðvitað byrjaði á því að moldast svolítið, það er að segja ég tók eina kerru af mold í Syðri malarnámunni (Södra grustaget) og flutti svo á hjólbörum út í skóg á Sólvöllum. Annars er ég mjög gætin með að flytja lítið efni út í skóg þar sem það flytur með sér fræ sem á ekki heima í skóginum.

Kremaren
Síðan fór ég í heimsókn til hans Hans sem á heima á 15. hæð í þessu húsi í Örebro. Þetta hús heitir Kremaren (Krämaren) og er hjarta miðbæjarins. Þrjár neðstu hæðirnar eru verslunarhúsnæði, stór verslunarmiðstöð. Ofan á verslunarhúsnæðinu er mikill skrúðgarður, nokkuð sem fólk almennt áttar sig ekki á nema farið sé í heimsókn til einhvers sem þarna býr. Frá efri hæðum Kremaren er víðáttumikið útsýni yfir Örebro og nágrenni.

Hans vinur minn í Kremaren
Hans er einhleypur maður sem fróður um ætt sína og hefur sett skemmtilega upp myndir af áum sínum og skyldmennum. Hann hefur líka útbúið ættartré sem greinilega gerir gerir ættfræðina mikið einfaldari. Mér hefur stundum dottið í hug að útbúa svona ættartré en það er langt síðan ég komst að því að það er ekki nóg að láta sér detta í hug, ég verð að framkvæma líka. Ef ég framkvæmi þetta ekki verður ekkert ættartré. Við hans töluðum svolítið sem vísir menn um lífið og tilveruna, um að búa í Kremaren og að búa í sveitinni. Á hillu í forstofunni geymir Hans skrítinn hlut. Það er stykki úr Volvónum hans, eitt af þessum aragrúa hluta sem eru festir utan á vélina. Þetta stykki bilaði og þá tók Hans það bara burtu og svo gengur Volvóinn eins og klukka. Hann efur gert meira af þssu, að fjarlægja hluti sem bila, en bíllinn gengur eins og fyrr segir eins og klukka. Ég hef ferðast með honum í bílnum og það er ekkert athugavert við Volvóinn. En þessi stykki sem hann hefur frjarlægt eru til þess gerð að auka lífsgæðin í bílnum, en ég mundi ekki hafa hugmynd um neitt ef Hans hefði ekki sagt mér það. Hins vegar veit ég að hann hefur ekki fjarlægt neitt sem viðkemur öryggi enda mundi bifreiðaeftirlitið komast að slíku.

Örebro frá Kremaren, sjúkrahúsið til vinstri
Hér er útsýnið til norðausturs frá 15. hæð í Kremaren. Lengst burtu til vinstri sjáum við sjúkrahúsið í Örebro. Það erum margar og stórar byggingar. Ekkert veit ég í tölum um þessa stærð annað en það sem við höfum fengið frá honum Sten. Sten er giftur konunni sem hafði erft og seldi okkur Sólvelli. Hann vinnur við viðhald allra lása í sjúkrahúsinu og þeir eru um 50 000. Og hana nú. Þarna niðri sjáum við yfir hluta miðbæjarins.

Rudbäcksgatan í Örebro
Hér sjáum við til austurs og eftir Rudbekksgötunni (Rudbäcksgatan). Fyrsta árið sem ég vann í Vornesi en við bjuggum í Falun, þá ók ég næstum því tvisvar í viku eftir Rudbekksgötunni til þess að komast gegnum Örebro á leið minni. Þessi leið var líka það eina sem ég þekkti í Örebro þetta fyrsta ár og það var ekki fyrr en allra síðast á þessu tímabili sem okkur fór að gruna að við ættum eftir að eiga heima í þessari borg. Ef vel er að gáð má greina vatnið Hjelmaren (Hjälmaren) lengst burtu til vinstri.

Séð til Suðurbæjarbrekkunnar
Hér sjáum við nánast til suðsuðausturs og fyrir miðri mynd undir lágu skógi vöxnu brekkunni sem sést lengst burtu bjuggum við Valdís. Brekkan er Suðurbæjarbrekkan (Sörbybacken) sem ég hef svo afar oft nefnt í bloggum mínum. Það tekur átta mínútur að hjóla frá fyrrverandi heimili okkar í Örebrú til Kremaren.

Annar dagur beykitrésins
Úr borgarlífinu skelltum við Valdís okkur svo heim í sveitina um fimm leytið. Og hvað gerir maður þegar komið er í sveitina. Jú, ég fór til dæmis að gá að beykinu sem hafði byrjað að springa út daginn áður. Hér sjáum við þessi sömu beykiblöð og breytingin er mikil á tæpum sólarhring. Ung beykiblöð eru allra fallegustu laufblöð sem tré bjóða upp á. Alla vega að mínu mati og þá miða ég auðvitað við laufblöð eirra trjáa sem ég þekki til.

Ég fann þegar ég skrifaði þetta að það er margs að minnast í Örebro. Kannski við verðum meira með myndavélina þar á ferðinni þegar vorskrúðið er búið að taka völdin.

Góður vordagur

Ég bloggaði í gær og beið svo fram yfir miðnætti og byrjaði þá á öðru bloggi. Þá vitið þið hvað ég er að bauka seint á kvöldin. Já, það var bara góður vordagur í dag þó að það væru engin hlýindi. En það var sól og fallegt og þrátt fyrir hita undir meðallagi er allur gróður í framför.

Beykið byrjað að springa út
Til dæmis þessi agnarlitlu blöð þarna á miðri myndinni. Ég gáði í gær og varð einskis var en í dag voru komin lítil hrokkin laufblöð. Sá sem fyrstur getur rétt til um hvað þetta er, fær ókeypis gistingu á Sólvöllum. En til að taka af allan vafa þá eru þetta beykiblöð. Beykiblöð eru alveg sérstaklega falleg í fæðingu.

Þau verða góð með skvett af þeyttum rjóma þessi
Þaran er bláberjarunni í ferköntuðum, djúpum blomapotti. Þrír slíkir voru gróðursettir í dag hjá tveimur sem fyrir voru. Þau verða góð þessi með rjómaögn þegar líður á sumarið.

Börning mín bæði mörg og smá
Börnin mín bæði mörg og smá. Það fæðist fleira en laufblöð og blóm þessa dagana. Við felldum kræklóttan reynivið í fyrradag og hann féll þétt við stofninn á nokkurra metra háu grenitré. Það er undur að þrösturinn skyldi ekki verða bráðkvaddur, en hreiðrið er þarna á grein upp við stofninn á þessu grenitré.

Hún er farin að vinna í skóginum fiskimannsdóttirin
Ég hef haldið að það væri meira ég sem er með skógarsýki hér á Sólvöllum. En ég er að komast að öðru þessa dagana. Hún gaf ekki eftir við grisjunina í dag fiskimannsdóttirin. Þetta er í fyrsta skipti sem við snyrtum í skóginum í rólegheitum. Áður hefur það verið gert meira í flýti og svolítið eins og tímanum í það væri stolið.

Skógarsóleyjar við Risebergaklaustur
Skammt suðvestan við Sólvelli eru klausturrústir uppi á hæð. Í brekku suðvestan í þessari hæð er þvílíkur skógarsóleyjarbali og hann er búinn að vera svona blómlegur lengi.

Í gær tók ég birkiplöntu sem óx undir stóru grenitré og gróðursetti hana á opnu svæði. Ég greip bandspotta sem hendinni var næst til að binda upp birkið. Þetta var blátt nælon sem ætlað var til að binda heybagga. Saga þessa nælons er eftirfarandi: Við Stefán Björnsson í Hrísey hjálpuðumst að við eitthvað sem ég alls ekki man hvað var. Sjálfsagt hefur það verið eitthvað fyrir hreppinn. Svo þurftum við á bandi að halda og Stefán hljóp þá inn i dráttarvélina og sótti nælonrúllu. Þegar við vorum búnir rétti Stefán mér rúlluna með þeim orðum að ég gæti átt hana. Hún væri flækt og óhæf til að nota við baggabindingu. Þessi rúlla fylgdi okkur Valdísi svo til Svíþjóðar og nú erum við að nota síðustu spottana af henni.

Annars vil ég ekki nota nælon til að binda upp tré. Liturinn passar ekki úti í skógi og svo fúnar það afar seint. Ég vil nota snæri til þessara hluta en nú er snærið sem fylgdi Sólvöllum við kaupin að verða búið. Því þurfum við að farfa að huga að snærisrúllu en gamaldags snæri en nokkuð sem ég hef ekki séð í verslunum hér. Kannski við verðum að gera okkur ferð til Íslands til að eignast snæri. Ég lít svo á að það fáist þar ennþá.


Nú skal byggja

Þar kom að því. Ég talaði einhvern tíma um það að þegar heimildin væri komin frá byggingarfulltrúanum í Lekebergshreppi, þá mundi ég sýna teikningar af Sólvallabyggingunni á blogginu. Ég veit ekki hversu mikið teikningar voru sýndar af tónlistarhúsinu við Reykjavíkurhöfn áður en byggingarframkvæmdir byrjuðu. Ég veit ekki heldur hvort teikningar af höllum og sumarhöllum mikilla íslenskra viðskiptajöfra voru sýndar áður en byggingarframkvæmdir hófust. En ég veit eitt, hér eru til sýnis teikningar af framtíðarhúsinu á Sólvöllum í Lekebergshreppi í Svíþjóð.

Það var í desember sem ég settist niður með blýant, reglustiku og vélritunarblað og byrjaði að teikna. Síðan hófst breytingatímabilið og strokleðrið hitnaði þegar áður teiknaðar línur voru þurrkaðar út og nýjar settar í staðinn. Síðan fórum við Valdís til Uppsala til að halda jól hjá Rósu, Pétri og Hannesi Guðjóni. Þá tók Pétur við vélritunarblöðunum sem nú voru orðin tvö og svo voru teikningarnar tölvuvæddar. Enn var breytt og spekúlerað og að lokum var ákveðið að teikningarnar eins og þær eru hér fyrir neðan væru endanlegar.

Tölvukunnátta mín nægði ekki til að koma teikningunum inn á bloggið og það endaði með því að Rósa annaðist það. Nú þarf að klikka á teikningarnar til að stækka þær og það er nýtt á bloggsíðunum mínum.
Herbergið til hægri sem er suðurendi er nýtt. Einnig forstofan sem veit niður á teikningunni, mót vestri og mot veginum, er ný. Þar með er þetta hús orðið nálægt 103 fermetrum.


Hér sjáum við á efri myndinni vesturhliðina sem veit mót vestri og að veginum. Á neðri myndinni er svo suðrugaflinn ásamt forstofu til vinstri og þvottahúsi og forstofu til hægri. Þannig stendur þetta í dag. Hönnunin er ákveðin, heimildin er fengin og Anders smiður kemur á sunnudag til skipuleggja framkvæmdir.

Mús, mús -hús, hús

Það var bjartur morgun í gærmorgun en það var hrím á grasi sem þó tók fljótt af og þá varð blautt á. Ég smeygði mér út um dyrnar bakdyramegin um hálf átta leytið og tók stígvélin sem voru búin að liggja þar á hliðinni í tvo daga. Að fara í stígvél sem eru búin að liggja á hliðinni úti í tvo daga hreinlega gerir maður ekki fyrr en búið er að athuga vel hvort mús hafi hreiðrað um sig fram í tánni. Ég sló stígvélunum hressilega saman, lagði annað þeirra á borð við húsvegginn og fór með hægri hendi á bólakaf alveg niður í tá á hinu.

Ég var lengi barnalega hræddur við mýs en það er svona mitt á milli í dag. Ég mundi til dæmis alls ekki vilja fá mús upp í buxnaskálmina en ef það kæmi mús inn í húsið mundi ég ganga vasklega til verks, þó með sokkana utan yfir buxurnar. Þarna utan við austurvegginn með skóginn á bakvið mig stakk ég fingrunum hratt og ákveðið fram í tána og þá skeði þetta sem ég átti ekki von á, þó svo að ég væri að gá. Þetta mjúka þarna lengst fram í tánni fékk mig til að bregðast við með ofsalegri hreyfingu og svo hratt rykkti ég hendinni til baka upp úr stígvélinu að það var hreinasta lán að ég fór ekki úr axlarliðnum. Þetta mjúka hafði einhvern veginn flækst á milli fingra mér og fylgdi með þegar ég rykkti hendinni til baka og hátt yfir þakrennuna sá ég leistinn minn þeytast áður en hann féll máttlaus til jarðar. Það var engin mús en ég var alla vega vel vaknaður.

Svo kom pósturinn um hádegisbilið en ekkert bréf kom frá byggingarfulltrúanum. Það voru vonbrigði en það var ekki svo mikið annað að gera en halda áfram að flytja heim á hjólbörum eldiviðinn sem við brytjuðum í hæfilegar lengdir fyrir hádegið úti í skógi. En það kom líka póstur um hádegi í dag og loksins kom bréfið frá byggingafulltrúanum í Lekebergshreppi. Á sunnudag kemur Anders smiður og þá verður fundað um byggingarframkvæmdir.

Af hverju ekki fyrr

Já, af hverju gerði ég þetta ekki fyrir löngu. Ég verð bara að vera heiðarlegur og viðurkenna að það var leti. En svo er það spurning hvað það var, þetta sem ég nennti ekki að gera. Það var einfaldlega að gera 30 holur um 30 sm djúpar með járnkalli kringum plómutréð hérna norðan við húsið og fylla þær með kalki. Þegar ég talaði um það við garðyrkjumann inn í Örebro að það væri of oft uppskerubrestur á plómutrénu, þá ráðlagði hann mér að gera þetta. Sagði það hreinlega öruggt til árangurs. Það er grófur malarjarðvegur kringum plómutréð og það þýðir tvennt. Annað er að það er erfitt að komast með járnkallinn á 30 sm dýpi og hitt er að það er mikil þörf fyrir jarðvegsbætur. Að kalka svona er virkilega jarðvegsbætur. Núna er þetta búið og ég veit að þegar ég hef á liðnum árum verið að sannfæra sjálfan mig um að þetta væri ekki nauðsynlegt, þá var það vegna þess að mér óx það í augum. Svo tók þetta kannski liðlega klukkutíma. En ég er nú loksins með nýjan mjaðmalið svo að ég réttlæti smávegis.

Meðan ég var með allra mestu garðyrkjudelluna í Hrísey las ég það einhvers staðar að allt sem ég gerði fyrir garðinn minn væri til bóta. Mikið ef það stendur ekki í Skrúðgarðabókinni sem ég nota ennþá þó að hún komin hátt í fertugt. Auðvitað er hægt að gera svo vitlausan hlut að það valdi skaða en ég býst við að höfundur þessara orða hafi gert sér grein fyrir því að slíkir menn og konur fullnægi athafnaþrá sinni einhvers staðar annars staðar en við garðyrkjustörf. Það segir í bókum vísra manna að ef maður vilji gera góða hluti í lífi sínu og vaxa að visku og vexti, þá skuli maður rækta garðinn sinn. Ég hef grun um að Kínverjar fyrri tíma hafi fundið upp á að tala þessu myndmáli. Ég kunni eitt sinn kínversk vísdómsorð sem sögðu að ef maður vildi vera hamingjusamur í klukkutíma borðaði maður góða máltíð, vera hamingjusamur einn dag þá var það eitthvað annað sem ég ekki man. En ef maður vildi vera hamingjusamur allt lífið skyldi maður rækta garðinn sinn. Eflaust hafa allir heyrt þetta.

Það var að enda tveggja tíma dagskrá í sjónvarpi þar sem safnað hefur verið "veraldrarforeldrum" ef ég bara þýði orðið yfir fólk sem lætur af hendi ákveðna upphæð mánaðarlega til að gefa börnum fátæka heimsins tækifæri til betra lífs. Við í vesturheimi skuldum þessu fólki bætur fyrir nýlendutíma og þrælasölu. Það var að vísu ekki nefnt í þessum þætti en ég geri það bara að orðum mínum. Í þættinum voru sýnd mörg dæmi um lífsviðurværi barna fátæka heimsins og lýst aðstöðu mæðranna sem fæddu þessi börn. Í Kambódíu deyr helmingur mæðranna þegar þær fæða heima. Naflastrengurinn er ekki klipptur, heldur er hann skorinn með klofinni bambusstöng og svo geta bæði mæður og börn fengið eitrun. Sýnishornin sem voru notuð í þættinum voru svo rosaleg að þekkta fólkið, leikarar, söngvarar þulir og íþróttafólk svo eitthvað sé nefnt, gleymdu algerlega að þykjast vera hamingjusöm meðan sýning þessara atriða stóð yfir.

Ég veit eftir að hafa séð þennan þátt að ég hef enga ástæðu til að kvarta yfir örlögum mínum eða efnahag. Ég svo sem hef vitað það lengi en þetta er áminning sem fær fólk, alla vega mig, til að taka stund til endurskoðunar. Á morgun ætla ég að hafa samband við barnahjálpina og auka framlag okkar þangað og taka það frá Rauða krossinum sem hefur ekki hreinan skjöld. Svo ætla ég að leggja áherslu á að rækta garðinn minn, bæði þann innri og þann sem liggur í skóginum bakvið húsið.

Kalli frá Úrsa og myndir og mas

Í gærkvöldi sparaði ég myndir til að nota á blogg í dag og svo bloggaði ég í morgun en blaðraði svo mikið að það var bara of mikið að nota þessar myndir. Nú settist ég við tölvuna eftir kvöldmatinn og ætlaði að gera eitthvað við þessar myndir en það var svo góður kórsöngur í sjónvarpinu að ég freistaðist til að flytja mig þangað og fylgjast með.

Síðustu vikurnar hefur nefnilega staðið yfir kórakeppni sem er þannig fyrir komið að eitt lag fellur út á hverju laugardagskvöldi og það byggist á því hversu margir hringja á hvern kór. Í kvöld var lokakeppnin sem fór fram milli tveggja síðustu kóranna. Eins og vænta mátti vann kórinn hans Kalla frá Úrsa. Það er merkilegt hvað þessi lágvaxni maður getur lokkað fram hjá fólki og hversu djúp áhrif hann getur haft á áheyrendur sína. Hann er svo lágvaxinn að hann hefur stundum staðið á ölkassa til að vera ekki mikið lægri en maðurinn eða konan við hliðina á honum. Það hefur þó ekki allta dugað til en Kalli dugar til sem frábær listamaður.

Í dag ætlaði ég að leggja síðustu myndina sem við höfum fengið af honum Hannesi Guðjóni inn á bloggið mitt. En tæknin var mér ofviða að þessu sinni þannig að þetta fær að bíða. En við fengum líka filmubút sem tekin var í dag og þar gengur hann langa leið eftir stofugólfinu heima hjá sér keyrandi vagn með dótinu sínu á undan sér. Gott hjá honum nafna mínum sem er tæplega níu mánaða.

En nú kem ég með myndirnar sem ég ætlaði að nota í morgun en kom þeim ekki að þar sem ég bullaði svo mikið.

Fjögurra og 68 ára og bæði á fullri ferð en þó er sú fjögurra ára á undan
Hún Alma er fjögurra ára nágranni okkar, býr í næsta húsi sunnan við. Pabbi hennar og mamma buðu okkur að taka sandbing sem varð umfram í fyrra við framkvæmdir heima hjá þeim. Alma og mamma hennar og systir voru í heimsókn hjá Valdísi þegar ég var að flytja sandinn. Allt í einu sá ég hvar Alma hljóp á ótrúlegri ferð heim til sín og kom svo að vörmu spori til mín með hjólbörurnar sínar og skóflu. Hún kom til að hjálpa mér. Það eru heil 64 ár á milli okkar í aldri en okkur kom vel saman þrátt fyrir það. Hún er létt í spori á myndinni með hjólbörurnar sínar..

Hestkastanían á góðri leið
Þessi mynd af hestkastaníubrumi er tekin í gær. Það er sjónarmunur milli daga. Öll brum eru í vexti og mörg eru útsprungin. Það er frekar kalt en það er þó gott veður. Það síðasta sem ég gerði úti fyrir kvöldmatinn var að gá rétt einu sinni enn hvernig beykibrumunum gengi. Ég fullyrði að þau eru stærri nú en nokkuð annað vor síðan við byrjuðum að flytja beyki hingað. Það segir bara að það er búið að festa vel rætur og er á réttri leið.


Það sem er þarna undir glasinu er vorboði. Þú verður að taka þessa hunangasflugu, sagði Valdís, ég kem ekki nálægt henni. Hunangsflugan hafði villst inn í stofu og rataði alls ekki út aftur. Það var ekki bara Valdís sem þótti óþægilegt að hafa hana þar. Hunangsflugunni sjálfri þótti það greinilega óþægilegt líka. Þegar hún var komin undir glasið og ég búinn að renna umslagi undir hana trylltist hún algerlega en aðstæðurnar voru henni ofviða.

Ingemar vinnufélagi og hún Lena hans.
Lena og Ingemar komu í heimsókn í vikunni. Valdís bauð öllum upp á vöfflur með sultu og rjóma sem við sporðrenndum af góðri lyst. Ingemar er einu ári yngri en ég og er líka ellilífeyrisþegi. Hann er búinn að vera vinnufélagi minn í rúm 14 ár og hann gerir eins og ég, hann vinnur all mikið ennþá. Ég hef oft nefnt Ingemar áður. Hann var fallhlífahermaður sem ungur maður og í friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna á Kýpur. Fyrir tveimur árum heimsóttum við mann á sjúkrahúsi í Stokkhólmi og dvöldum hjá honum lengi. Við vorum orðnir glorhungraðir þegar við komum heim til Rósu og Péturs og fengum þar mikið af afar góðu brauði og áleggi eins og okkur lysti. Þegar við vorum orðnir mettir urðum við svo kátir að við réðum okkur naumast og sú ánægja fylgdi okkur allan daginn og alla leið heim til Örebro.

Skógarsóleyjar
Frekar kalt vorið gerir það að verkum að tími skógarsóleyjanna er langur að þessu sinni. Vitsippor er sagt á sænsku og þær eru mjög dáðar sem vorblóm þegar þær þekja ótrúleg svæði af skógarbotninum.

1. maí og Valborgarmessa

Í dag er 1. maí og Valborgarmessuhelgi. Hér í Svíþjóð er talað meira um Valborgarmessu en dag verkalýðsins. Valborgarmessa er hér svolítið sem sumardagurinn fyrsti á Íslandi en fólk óskar þó ekki gleðilegs sumars. Í gærkvöldi, Valborgarmessukvöld eins og sagt er, kveikti fólk í hríshaugum, kórar sungu falleg lög og fólk almennt hittist og hálfgerð hátíðardagskrá var í sjónvarpi. Fleiri drekka í fyrsta skipti á ævinni á Valborgarmessu en nokkurn annan dag ársins að þó einum öðrum meðtöldum sem ég man ekki hver er. Það skiptir mig heldur ekki svo miklu máli þar sem ég kæri mig ekki að svo stöddu um að drekka í fyrsta skipti aftur. Við Valdís hittum bara hvort annað. Við ætluðum inn til Örebro í gærkvöldi en þegar stundin nálgaðist sagðist Valdís bara alls ekki nenna og þá nennti ég ekki heldur. Við höfðum heldur engan hrís að brenna hér heima þar sem við vorum búin að mala hann og leggja í gönguslóðir út í skógi.

Valborgarmessa í Uppsölum
Rósa segir að í Uppsölum sé heil mikið um að vera á Valborgarmessu. Hún tók þessa mynd út um stofugluggann hjá þeim og þarna er að sjá töluvert af fólki við Fyrisána, sérstaklega þó á Íslandsbrúnni og á miðri brúnni er svo strætisvagn á ferð mitt í fólksfjöldanum. Bátar voru á ánni og komu þeir niður ána (frá hægri) og enduðu víst ferðina þegar þeir voru búnir að fara niður Íslandsfossinn sem er við brúna hinu megin, sunnan við. Ég fæ varla betur séð en að þessi bátur líkist meira bíl en bát. Þeir kannski bara eru svona Valborgarmessubátarnir í Uppsölum. Rósa kannski kommenterar ef ég fer með eitthvað rangt. Ég stal myndinni af feisbókinni hennar.

Núna að morgni þessa dags hefur blásið meira en gert hefur lengi undanfarið. Það er þó ekki hvassviðri eða þaðan af meira en sunnan undir húsinu stendur plaststóll sem gerði þennan blástur meira áberandi. Í vissum hviðum náði stólinn að slást upp að veggnum og þá dumpaði í húsinu. Þegar stóllinn var svo búinn að dumpa í vegginn féll hann aftur á sína fjóra fætur og beið eftir næstu vindhviðu. Ég hef verið berfættur í morgun og ekki nennt í sokka til að fara út og færa stólinn. Að lokum gafst hann upp á að narra mig út og nennir þessu ekki lengur. Valdís var einhvers staðar með Óla Lokbrá meðan á þessu stóð og stóllinn náði ekki að pirra hana. Að lokum gerði svolitla rigningarskúr og eftir það lygndi heldur.

Seint í gærkvöldi sparaði ég myndir sem ég ætlaði að nota í þetta blogg en nú hef ég verið svo uppkjöftugur að ég hef varla pláss fyrir myndirnar. Það er kominn tími fyrir árdegiskaffið og svo þurfum við að funda um hvað við viljum gera með þennan dag. Það verður nú engin kröfuganga. Ég hef góðan ellilífeyri frá Svíþjóð, eða þannig að ég get ekki klagað. Hins vegar fæ ég ekki krónu frá Íslandi og þó að ég hefði ekkert unnið var það svo lítið að það var ekki erfitt að velja á milli. Hins vegar fæ ég góðar greiðslur frá lífeysissjóðum á Íslandi og það verð ég að nefna. Ég má ekki kvarta undan öðru og þegja yfir hinu. Ef ég hefði séð hlutina fyrir hefði ég ekki sótt um íslenskan ellilífeyri og þá hefði hann hækkað fyrir hvert ár sem ég hefði ekki fengið greitt. Ég reyndi að draga umsóknina til baka en sá sem hefur póstlagt umsókn getur ekki gert það var mér tjáð. Hins vegar hækkar sænski ellilífeyririnn fyrir hvert ár sem ég vinn og ég verð bara að hugga mig við það.

Svo þetta varð bara 1. maí ávarp að lokum

RSS 2.0