Góður vordagur

Ég bloggaði í gær og beið svo fram yfir miðnætti og byrjaði þá á öðru bloggi. Þá vitið þið hvað ég er að bauka seint á kvöldin. Já, það var bara góður vordagur í dag þó að það væru engin hlýindi. En það var sól og fallegt og þrátt fyrir hita undir meðallagi er allur gróður í framför.

Beykið byrjað að springa út
Til dæmis þessi agnarlitlu blöð þarna á miðri myndinni. Ég gáði í gær og varð einskis var en í dag voru komin lítil hrokkin laufblöð. Sá sem fyrstur getur rétt til um hvað þetta er, fær ókeypis gistingu á Sólvöllum. En til að taka af allan vafa þá eru þetta beykiblöð. Beykiblöð eru alveg sérstaklega falleg í fæðingu.

Þau verða góð með skvett af þeyttum rjóma þessi
Þaran er bláberjarunni í ferköntuðum, djúpum blomapotti. Þrír slíkir voru gróðursettir í dag hjá tveimur sem fyrir voru. Þau verða góð þessi með rjómaögn þegar líður á sumarið.

Börning mín bæði mörg og smá
Börnin mín bæði mörg og smá. Það fæðist fleira en laufblöð og blóm þessa dagana. Við felldum kræklóttan reynivið í fyrradag og hann féll þétt við stofninn á nokkurra metra háu grenitré. Það er undur að þrösturinn skyldi ekki verða bráðkvaddur, en hreiðrið er þarna á grein upp við stofninn á þessu grenitré.

Hún er farin að vinna í skóginum fiskimannsdóttirin
Ég hef haldið að það væri meira ég sem er með skógarsýki hér á Sólvöllum. En ég er að komast að öðru þessa dagana. Hún gaf ekki eftir við grisjunina í dag fiskimannsdóttirin. Þetta er í fyrsta skipti sem við snyrtum í skóginum í rólegheitum. Áður hefur það verið gert meira í flýti og svolítið eins og tímanum í það væri stolið.

Skógarsóleyjar við Risebergaklaustur
Skammt suðvestan við Sólvelli eru klausturrústir uppi á hæð. Í brekku suðvestan í þessari hæð er þvílíkur skógarsóleyjarbali og hann er búinn að vera svona blómlegur lengi.

Í gær tók ég birkiplöntu sem óx undir stóru grenitré og gróðursetti hana á opnu svæði. Ég greip bandspotta sem hendinni var næst til að binda upp birkið. Þetta var blátt nælon sem ætlað var til að binda heybagga. Saga þessa nælons er eftirfarandi: Við Stefán Björnsson í Hrísey hjálpuðumst að við eitthvað sem ég alls ekki man hvað var. Sjálfsagt hefur það verið eitthvað fyrir hreppinn. Svo þurftum við á bandi að halda og Stefán hljóp þá inn i dráttarvélina og sótti nælonrúllu. Þegar við vorum búnir rétti Stefán mér rúlluna með þeim orðum að ég gæti átt hana. Hún væri flækt og óhæf til að nota við baggabindingu. Þessi rúlla fylgdi okkur Valdísi svo til Svíþjóðar og nú erum við að nota síðustu spottana af henni.

Annars vil ég ekki nota nælon til að binda upp tré. Liturinn passar ekki úti í skógi og svo fúnar það afar seint. Ég vil nota snæri til þessara hluta en nú er snærið sem fylgdi Sólvöllum við kaupin að verða búið. Því þurfum við að farfa að huga að snærisrúllu en gamaldags snæri en nokkuð sem ég hef ekki séð í verslunum hér. Kannski við verðum að gera okkur ferð til Íslands til að eignast snæri. Ég lít svo á að það fáist þar ennþá.




Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0