Gamla hurðin kvaddi í árslok

Já, svo fór það þó að lokumað gamla hurðin kvaddi á gamla árinu og sú nýja tók sess hennar. Það er nú óttalegur munur að sjá þetta. Þegar hurðin var komin á lamirnar lagði ég hana aftur og gekk nokkur skref aftur á bak og virti fyrir mér eins og þetta væri átak á stærðargráðunni Kárahnjúkar. Að vísu var það það fyrir mig. Nú sit ég hér harðánægður og það eru rúmir fjórir tímar eftir af gamla árinu. Valdís segir að mynd sem við ætlum að horfa á sé að byrja og þar með segi ég gleðilegt ár, Valdís einnig. Ég sé líka að ég raðaðiþessu öfugt upp. Meiningin var að næsta mynd á eftir yrði á undan. En svona er það að gefa út flókna bloggsíðu. Það verða öðru hvoru óhöpp.

Gamla hurðin kvaddi í árslok

Jaðrar við framhjáhald

Það er svo langt síðan ég hef sagt langar framkvæmdasögur frá Sólvöllum að það fer að jaðra við framhjáhald. Það er gamlársdagur og ekki seinna vænna en segja nokkur orð um framkvæmdirnar. En fyrst um heilsufar okkar hjóna. Ég sagði hér um daginn svolítið af heilsufari Valdísar, en viti menn. Stuttu síðar vár sjálfur ég orðinn svona líka drullu kvefaður (fallega orðað). En svo bara einn morguninn vöknuðum við bæði mikið hressari. Sjálfsvorkun mín breyttist í barnslega gleði en Valdís tekur svona með jafnari lund.

Jaðrar við framhjáhald
En nú er komið að Sólvöllum. Til að húsið gæti kallast fokhelt á sínum tíma smíðaði ég tvær útihurðir úr óhefluðum borðviði úr Sólvallaskóginum. Hurðin á myndinni er inn í nýju forstofuna. Þar sem allri grófari vinnu þarna inni var nú lokið var komið má til að setja í nýja útihurð. Nýja hurðin var jú búin að bíða ísetningar frá í júní og tók bara pláss inn í stofu eins og við segjum. Það var í fyrradag, síðasta dag í kvefi, sem við fórum á Sólvelli og ætlaði ég nú að setja í hurðina og láta hendur standa fram úr ermum. Ekkert komst í verk og ég leitaði að einu og öðru mest allan daginn, til dæmis skrúfupakka sem fannst alls ekki og svona gekk dagurinn og svo fórum við heim. Það eina sem skeði með útihurðina var að hana bar ég úr stofunni út í forstofu. Við fengum okkur líka kaffi, ég með hálfgerðum hundshaus. Ég var ekkert ánægður með daginn en kíkið á næstu mynd fyrir neðan.

Jólaskrautið komið upp

Valdís gefur sig ekki. Jólaskraut skal vera eins og það var meðan börn voru á heimilinu. Meira að segja er meiri hlutinn af því sem hún geymir í jólaskrautskössum sínum frá þeim tíma. Þetta er reyndar ekki slæm venja hjá henni. Það hafa komið börn bara til að sjá jólaskreytingu Valdísar og þau verða alveg undrandi.

Valdís hefur verið slöpp í lungum en það var á góðum batavegi. Einmitt þá fékk hún slæmt kvef. Þetta kvef er eitthvað sem hefur gert leifturárás á kórfólkið. Í gærkvöldi gekk hluti af kórnum milli garðanna á svæðinu og söng jólalög í hverjum garði. Bæjarhlutinn sem við búum í er þannig byggður að ákveðinn fjöldi íbúðarhúsa ásamt geymslum og frábæru þvottahúsi er byggður sem kjarni umhverfis grænt svæði sem kallast garður. En að kórnum á ný; stór hluti þeirra sem ætluðu að vera með kórnum í gærkvöldi og syngja á görðunum voru kvefaðir.  Kvefið í Valdísi virtist ná hámarki í nótt en þá var hún einfaldlega slæm. Núna er þetta allt annað líf hjá henni. Jólaundirbúningi hennar er nú lokið og er hún sest í stólinn sem næstur er glugganum á myndinni og slappar af. Ég er ekki frá því að Óli lokbrá hafi verið með henni þegar ég tók mynd af henni áðan, en hún bannar mér að nota þá mynd á bloggið.
Jólaskrautið komið upp
Rósa og Pétur gera eins og við. Þau eru tvö heima hjá sér í Stokkhólmi. Við vorum hjá þeim tvær nætur fyrr í mánuðinum eins og áður hefur komið fram á blogginu, fórum með þeim i leikhús og skoðuðum stórskreytingar og jólamarkað í stórborginni. Þó að ég sé orðinn ellilífeyrisþegi fer langur tími í vinnu. Ég ætlaði bara að vinna 40 % en það vill verða drjúgt meira, og svo eru smíðar á Sólvöllum. Svo lenda vissir hlutir meira á Valdísi fyrir vikið og nú er gott að fá fullkomna ró. Samt fannst mér skrýtið um hádegisbil að það ætti bara ekkert ærlegt að gera í dag. Núna er ég að átta mig á þessu og kyrrðin er góð. Svo verður smá matarstúss einni partinn í dag og ég ætla að reyna að hjálpa til, alla vega að vera ekki fyrir.

Um leið og ég skrifa þetta er ég að spjalla við Valgerði í tölvunni. Þar verða fleiri við jólaborðið í kvöld. Systurnar tvær sem voru svo áhugasamar, prúðar og skemmtilegar í heimsókninni til ömmu og afa í sumar. Við hugsum nú sérstaklega til þeirra um jólin. Til allra sem þetta lesa segjum við gleðileg jól. Nú heyri ég að Valdís er komin í ham við að fullgera jólamatinn. Við ætlum að byrja að borða kl 7, þ e a s kl 6 á Íslandi þegar útvarpsþulurinn segir Útvarp Reykjavík - Útvarp Reykjavík, gleðileg jól. Við opnum fyrir þetta gegnum tölvuna og hlustum þar. Rósa og Pétur komu okkur á lagið. Þau ætla að gera eins í kvöld.

Bless, bless og kveðja frá Valdísi og Guðjóni

Þetta hefur hún gert líka

Smá hlutir um allt og eins og allt hafi lent á réttum stað. Ég hef þurrkað af þó að það sé langt síðan núna. Svo raða ég til baka alveg eins og það var og ekkert passar. Síðan gengur Valdís framhjá og snertir eitt og annað eins og af tilviljun -og einmitt þá er allt orðið eins og það á að vera. Ég hef heyrt fleiri menn segja frá þessu. Konur hafa eitthvað í sér sem gerir að hlutir hafna á réttum stað.
Þetta hefur húngert líka

Jólakonsert í kirkjunni okkar

Í gærkvöldi var jólakonsert í kirkjunni okkar hérna handan við hornið. Ég er svo hrifinn af þessum söng- og tónlistarsamkomum sem koma mér alltaf jafn mikið á óvart. Það er bara eins og allir geti gert eitthvað. Ósköp hverdagslegur maður sem sat tveimur stólum til hægri við mig stóð allt í einu upp og fór að leika á saxafón. Annar sem sat í hálfgerðum hnút svolítið framar færði sig allt í einu að píanóinu, settist þar á stól og lék svon líka fínt á gítar. Tvær unglingsstelpur sem sátu eins og hver annar kirkjugestur gengu allt í einu fram og sungu einsöng. Svona gæti ég haldið áfram lengi. Hrærður sat ég bara og fylgdist með og mér varð hugsað til þess ef svona kennsla hefði verið ríkjandi þegar ég var í barnaskóla á Klaustri. Tónlistar- og söngkennsla í Skógum hefði komið of seint því að þá var ég kominn alvarlega á feimnisaldurinn. Þessi kennsla hefur mjög lengi verið sjálfsagður hluti skólastarfs. Hún Valdís konan mín er þarna fyrir miðri mynd sjáið þið. Sá sem situr við píanóið í þetta skiptið er einn þeirra sem komu mér á óvart.
Jólakonsert í kirkjunni okkar

Unga fólkið var líka með

Alveg makalaust hvað þetta unga fólk gerði það gott.
Unga fólkið var líka með

Ljósafoss í Stokkhólmi

Þegar Valdís varð  65 ára um daginn fékk hún miða á söngleik í Stokkhólmi í afmælisgjöf frá Rósu og Pétri. Miðarnir voru fjórir og Valdís fékk að ráða hverjum hún byði með. Og hún bauð mér, Rósu og Pétri sem kom ekki alveg á óvart.  Á tilsettum degi fórum við því til Stokkhólms og höfðum góðan tíma svo að við fórum meðal annars á Skansinn eins og það heitir og skoðuðum þar jólamarkað. Á jólamarkaðinum var margt að sjá og á Skansinum almennt er margt að sjá. Öllu heldur alveg gríðarlega margt og svo fátt sé nefnt; glerblástur, þjóðbúningar, héraðabúningar, gamlar byggingar, dýr og alveg mýgrútur af fólki. Þarna er að finna nokkuð sem samsvarar Árbæjarsafninu í Reykjavík. Hér á myndinni sjáum við ljósaskreytingu sem myndar foss á klöppum við innganginn á Skansinn. Nokkrar myndir frá þessari Stokkhólmsferð fylgja hér fyrir neðan.

Hvað söngleikinn áhrærir var hann alveg frábær. The saund of music, og ekki vissi ég fyrr en við lásum leikskrána að sagan að baki söngleiknum er sönn.
Ljósafoss í Stokkhólmi

Ljósakróna sem í sumar var laufkróna

Veltigræn voru þau í sumar þessi tré sem nú eru ljósakrónur.
Ljósakróna sem í sumar var laufkróna

Stutt áning í rökkurbyrjun

Stutt áning í rökkurbyrjun

Hjónakornin

Mikið var notalegt að setjast inn í hlýtt hús og fá sér hressingu. Það var nefnilega búið að rigna nokkuð þegar við settumst þarna inn. Takið eftir á næstu mynd hvernig þetta hús er klætt að utan.
Hjónakornin

Ein og önnur tréflís

Þarna standa Valdís, Pétur og Rósa undir gafli stærðar húss sem er klætt með með litlum tréflísum.
Ein og önnur tréflís

Elvdalshús

Þau eru ögn ekta þessi útihús frá Elvdalnum með sína veðruðu og grónu stokka. Á Skansinum er að finna mikið af húsum frá mörgum héruðum í Svíþjóð. Þar eru reistir sveitabæir með öllum húsakosti fyrir áhugasama að skoða og sjá hvernig fólk bjó fyrr á öldum.
Elvdalshús

Aftur frá Elvdalnum

Mikið timbur í þessum húsum. Þungir hafa stokkarnir verið að lyfta meðan þeir voru blautir og fínar eru samsetningarnar á hornunum.
Aftur frá Elvdalnum

Annúa -húla halí

Við fórum að mestu í neðanjarðarlest á milli staða. Rétt hjá þar sem Rósa býr er lestarstöð. Þar í sjoppu keyptum við miðalengju sem nægir okkur Valdísi um nokkurt skeið. Við afgreiðsluna var arabi, kannski um fertugt. Hann talaði í óða önn í síma með drynjandi rödd þegar við komum og það var eins og hann ætlaði að afgreiða mig talandi í símann. En að lokum lagði hann frá sér tólið og afgreiddi mig með miðana, blað og eitthvað fleira. Ég borgaði og um leið og hann hafði gefið til baka þreif hann tólið á ný og sagði umsvifalaust með kraftmikilli, rykkjandi röddu: annúa -húa halí. Ég lagði svo vel merki til hvað hann sagði og byrjaði strax að hafa þetta eftir honum í huganum og þegar við komim nægilega langt í burtu byrjaði ég að segja það upphátt. Svo skrifaði ég það eins og það hljómði en hann, manntetrið, hefði teiknað arabisk tákn í staðinn fyrir að nota bókstafi. Svo upptekinn var ég af þessu að ég auðvitað gleymdi að taka miðana en annað tók ég þó með mér. Mér var nær að láta svona og varð af með 950 kr íslenskar. Nokkrum klukkutímum seinna fórum við þarna niður aftur til að taka lest og nú varð ég að kaupa nýja miðalengju, eða athuga hvort maðurinn myndi eftir mér. Um leið og ég kom í dyrnar sá arabinn mig og ég sá á honum að hann kannaðist við mig. Miðana fékk ég skilvíslega en ég þorði ekki að segja við hann "annúa -húa halí" lét nægja að þakka fyrir mig og hann brosti út að eyrum. Neðarlega á myndinni má greina Valdísi, Rósu og Pétur.
Annúa -húla halí

Glaður ég varð

Mér finnst slæmt að vita ekki áttir. Mikið varð ég feginn þegar ég sá pílu í gólfinu í neðanjarðargöngunum sem sýnir norður og suður.
Glaður ég varð

Súludans

Þetta hef ég aldrei séð áður, jólasveinn að klifra á súlu. Þarna rembdist hann upp og niður alveg óþreytandi. Hann hlýtur að vera nýr sveinki þessi. Líklega heitir þá hann Súludans. Þetta er síðasta myndin frá Stokkhólmsferðarseríunni.
Súludans
RSS 2.0