Að hjálpa lífi að komast ósködduðu í heiminn

Ég vaknaði nokkru fyrir klukkan fimm í morgun, annan í hvítasunnu, og hugsanirnar flugu af stað. Ég fann vel að ég vildi sofa lengur en vissi að svo mundi ekki verða. Í huganum skrapp ég upp á Eldfell og upplifði stund sem ég hafði þar í skjóli við stein aldeilis á toppnum þegar ég var þar uppi í gær. Ég sat þar með ferðatölvuna mína og hafði hugsað mér sð senda út myndir þaðan með smá texta. Það var kannski ekki það allra mikilvægasta af öllu í þessum heimi en bara til gamans hafði ég í vikur hugsað mér að gera þetta. Ég var í kappi við tímann því að ég vissi að eftir nokkrar mínútur mundi tölvan slökkva á sér vegna þess að batteríið ræður ekki lengur við hlutverk sitt. Ég verð að hafa tölvuna í sambandi næstum án afláts ef ég á að geta unnið á hana. Draumurinn um að geta deilt myndum með smá texta frá Eldfelli brást. Ekkert meira með það, það var heldur ekki það mikilvægasta.
 
Ég vaknaði frá löngum draumi í morgun. Draumurinn var sá að ég kom heim til Hríseyjar og eftir ýmsar krókaleiðir kom ég heim að húsinu sem við Valdís byggðum á áttunda áratugnum. Ég fór hægt, skoðaði gróður sem ég held að hafi verið rétt að byrja að koma í gang. Að lokum tók ég upp lykil sem ég vissi ekki hvort mundi passa því að ég hafði ekki verið heima mjög lengi. Einhver var með mér, einhver sem ég get alls ekki munað hver var. Lykillinn passaði og ég opnaði hurðina.
 
Ég gekk nánast ákveðnum skrefum inn að eldhúsbekknum og uppgötvaði að þar hafði ég skilið eftir opinn glugga fyrir löngu, löngu síðan og það var snjór í misjafnlega djúpum sköflum um allt. Ég sá fyrir mér mikið hreinsunarstarf en fannst það ekki svo mikið tiltökumál. Snjórinn var þurr þó vor væri og gólfin virtust ekki flæða í neinu vatni. Ég hélt áfram um húsið og það var snjór um allt. Snjórinn myndaði alls konar skrýtnar myndir og strýtur sem mér fannst líkjast því að einhver dýr hefðu verið þarna á ferðinni og haft áhrif á snjóinn. Mikil vinna mundi vera framundan við þetta en hvað með það. Snjórinn var hreinn og snyrtilegur og það var bara að koma honum út, ekki yfir svo miklu að fárast. Svo vaknaði ég.
 
 
 
 
Í fyrradag var ég við útskrift hennar Guðdísar dótturdóttur minnar. Hún varð stúdent. Það ætlaði ég einu sinni að verða sjálfur en varð aldrei. En ég hef gegnum áratugina verið við all mörg skólaslit og við skólaslitin í fyrradag vöknuðu upp margs konar minningar. Þessi skólaslit virtust ekki svo frábrugðin þeim gömlu þó að svo mikið í umhverfi okkar sé mikið breytt. Temað var það sama; að stefna fram á við og að það jákvæða eigi að ráða för. Ræðurnar voru mátulega langar og alvarlegar og í þeim var leitað eftir því jákvæða. Unga fólkið var glatt og lífið var greinilega spennandi. Svo fengu þau öll að setja upp húfurnar og myndavélarnar tikkuðu ótt og títt. Svo virtist hver halda til síns heima.
 
Ég spurði Guðdísi í fyrradag hvort ég mætti tala um að hún vildi verða ljósmóðir. Og já, ég mátti tala um það. Fyrir mörgum mánuðum eða kannski næstum einhverjum árum síðan útskýrði hún fyrir mér hvers vegna hún vildi verða ljósmóðir og hún gerði það vel. Ég get alls ekki munað orðin eða setningarnar en hún talaði um göfugt starf við að hjálpa nýju lífi að komast óskaddað ínn í þennan heim. Mér fannst hún útskýra þetta á fallegan hátt þó að ég muni ekki orðin.
 
Mér finnst jafnan að skólaslit fjalli um það að líf unga fólksins sem er að skrifast út eigi að komast óskaddað áfram gegnum öldugang lífsins og boðaföll og að þekkingin sé öruggasti vetvangurinn á þeirri ferð. Að öllum, að öllu samfélaginu beri skylda til að lifa eftir þeirri hugsun. Þannig verði öllu best varið. Eitthvað í þessum dúr fyllti huga minn á skólaslitunum í fyrradag og þessi hugsun fylgdi mér heim og hélst í huga mér alla vega all nokkuð fram eftir degi. Síðan tók við að hitta fólk, að spjalla um alla heima og geima og að hafa það notalegt og að hafa gaman af að vera til.
 
Eins og ég sagði áðan ætlaði ég einu sinni að verða stúdent og það átti að leiða mig fram til að verða læknir. Ég ætlaði líka að verða góður læknir og hjálpa mörgum. En ég varð hvorugt og í áratugi þræddi ég allt aðrar brautir, nokkuð sem ég hafði ekki skipulagt eða hugsað út. Læknisdrauminn hafði ég þó skipulagt og hugsað vel út áður en hann rann út í sandinn. Stundum nota ég orðið örlög yfir svona lagað. Líklega veit ég ekki hvað ég meina með því að nota þetta orð, en kannski er ég bara að afsaka hvernig eitthvað fór. En eins og hún Guðdís dótturdóttir mín hefur hugsað út sína framtíð og lagt niður fyrir sér, þá vona ég og óska þess og er viss um að hún á eftir að hjálpa mörgu viðkvæmu lífinu að komast óskaddað inn í þennan heim. Síðan ber okkur öllum skylda til að styðja þannig við bakið á ölli lífi að það komist óskaddað í gegnum boðaföllin.
 
Ég byrjaði þetta blogg alveg eins og ég hafði hugsað mér það og nú er ég kominn nákvæmlega að áfanga sem ég hafði hugsað. En ég ætlaði að komast mikið lengra. Orðin á milli urðu bara svo mikið fleiri en ég bjóst við að nú verð ég að hætta þessum áfanga. Ég skora hins vegar á sjálfan mig að ljúka í öðrum áfanga því sem rann gegnum huga minn frá klukkan tæplega fimm í morgun til klukkan tæplega sex þegar ég byrjaði að skrifa.
 
 
Auðvitað eru þau öll ánægð, mamman, nýstúdentinn og pabbinn. En ég held líka að foreldrarnir séu pínulítið feimin. Þannig er það einfaldlega best.
 
 
Svo komu amma og afi á Reyni og tóku Erlu litlu systur stúdentsins á milli sín. Það fór vel á því. Einhver varð að taka höndum um Erlu. Amma og afi á Reyni eru búin að ala upp börn og fæða og klæða, framleiða matvæli, borga skattana sína og vera meðborgarar þessa lands með skyldunum sem því fylgir í marga áratugi. Þannig byggðist þjóðfélagið upp til þess sem það er í dag.
 
 
Svo er komið að þessu fólki að byggja upp nýja framtíð og gera sitt besta til að lífið geti þrifist óskaddað áfram.
 

Ársins besti tími

 
 
Næstu dagarnir hafa upp á mikið að bjóða hér í landi. Þetta eplatré ætlar að gera sitt til að svo megi verða. Í baksýn er rúmlega 20 ára birkiskógur sem byrjaði að vaxa á akri hans Arnolds bónda þegar hann hætti að nytja þennan skika þar sem hann var svo grýttur að hann var of lélegur til kornræktar.
 
 
Eplatréð á þessari mynd fékk ég frá Vornesi þegar ég varð sjötíu ára. Svona leit það út í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, og það er bara samkvæmt bestu væntingum. Núna er bara að vona að flugurnar verði duglegar við að heimsækja Sólvelli svo að frjógvunin gangi vel. Fallegt er þetta eins og tréð fyrir ofan er líka og ef flugurnar gera sitt verða all nokkur epli sem koma af þessu tré sem og öðrum.
 
 
Þetta er kirsuberjatré sem ég gróðursetti um mitt sumar í fyrra. Það voru mörg ávaxtatrén og berjarunnarnir sem ég gróðursetti í fyrra. Allt er nú á góðri leið með að skila berjum og ávöxtum. Nammi namm.
 
 
Og eitt eplatré enn. Ég varð óttalega veikur fyrir þessu öllu í gærkvöldi og ég skal viðurkenna að ég vona heils hugar að næstu dagar verði góðir fyrir alla þessa blómadýrð. Það er nefnilega ekki nóg að það komi blóm, vindar og flugur þurfa líka að vera meðverkandi.
 
 
Sólvallaskógurinn er á góðri leið inn í sumarið. Langt í frá full laufgaður, en á góðri leið.
 
 
Konan á þessari mynd var sextán ára þegar myndin var tekin. Síðan hafa áratugirnir liðið en þrátt fyrir það heldur hún útliti sínu svo ótrúlega vel. Þetta er hún Súsanna og hún ætlar að gæta Sólvalla meðan ég verð á Íslandi. Ég er nefnilega á Arlandaflugvelli og er á leið til Íslands.
 
 
 
 
 
Þessa mynd tók ég af henni upp í Dölum um daginn. Skógurinn speglast fallega í vatninu og árin sín ber hún vel. Sólvellir verða í góðum höndum.
 
 
Og hér er svo að lokum mynd frá því Valgerður var í heimsókn fyrir fáeinum vikum. Brátt verður kallað út í vél og ég mundi skrifa meira ef ég væri ekki í kappi við tímann. Kannski verður netsamband í þotunni Eyjafjallajökli og þá geri ég kannski ögn betur.
RSS 2.0