Ársins besti tími

 
 
Næstu dagarnir hafa upp á mikið að bjóða hér í landi. Þetta eplatré ætlar að gera sitt til að svo megi verða. Í baksýn er rúmlega 20 ára birkiskógur sem byrjaði að vaxa á akri hans Arnolds bónda þegar hann hætti að nytja þennan skika þar sem hann var svo grýttur að hann var of lélegur til kornræktar.
 
 
Eplatréð á þessari mynd fékk ég frá Vornesi þegar ég varð sjötíu ára. Svona leit það út í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, og það er bara samkvæmt bestu væntingum. Núna er bara að vona að flugurnar verði duglegar við að heimsækja Sólvelli svo að frjógvunin gangi vel. Fallegt er þetta eins og tréð fyrir ofan er líka og ef flugurnar gera sitt verða all nokkur epli sem koma af þessu tré sem og öðrum.
 
 
Þetta er kirsuberjatré sem ég gróðursetti um mitt sumar í fyrra. Það voru mörg ávaxtatrén og berjarunnarnir sem ég gróðursetti í fyrra. Allt er nú á góðri leið með að skila berjum og ávöxtum. Nammi namm.
 
 
Og eitt eplatré enn. Ég varð óttalega veikur fyrir þessu öllu í gærkvöldi og ég skal viðurkenna að ég vona heils hugar að næstu dagar verði góðir fyrir alla þessa blómadýrð. Það er nefnilega ekki nóg að það komi blóm, vindar og flugur þurfa líka að vera meðverkandi.
 
 
Sólvallaskógurinn er á góðri leið inn í sumarið. Langt í frá full laufgaður, en á góðri leið.
 
 
Konan á þessari mynd var sextán ára þegar myndin var tekin. Síðan hafa áratugirnir liðið en þrátt fyrir það heldur hún útliti sínu svo ótrúlega vel. Þetta er hún Súsanna og hún ætlar að gæta Sólvalla meðan ég verð á Íslandi. Ég er nefnilega á Arlandaflugvelli og er á leið til Íslands.
 
 
 
 
 
Þessa mynd tók ég af henni upp í Dölum um daginn. Skógurinn speglast fallega í vatninu og árin sín ber hún vel. Sólvellir verða í góðum höndum.
 
 
Og hér er svo að lokum mynd frá því Valgerður var í heimsókn fyrir fáeinum vikum. Brátt verður kallað út í vél og ég mundi skrifa meira ef ég væri ekki í kappi við tímann. Kannski verður netsamband í þotunni Eyjafjallajökli og þá geri ég kannski ögn betur.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0