Fyrsta ferð ársins í skóginn

Það kom að því, ég er búinn að fara fyrstu ferð ársins í skóginn. Ég sagði í bloggi þann 16. febrúar hugsa ég að eftir einn og hálfan mánuð færi ég að leggja leið mína út í skógin til að fylgjast með brumum og heilsufari vina minna þarna úti. Ekki neita ég því að ég átti þá von á því að ég yrði farinn að vera þar á ferðinni fyrr en þetta en alla vega, ég sagði þetta fyrir minna en einum og hálfum mánuði og get sagt að ég hafi verið sannspár. Það leynir sér ekki að fjórfætlingarnir hafa ekki haft of mikið í sig þar sem þeir hafa verið verulega nærgöngulir við trjáplöntur, ekki þó allar sortir, en það bjargar málunum nokkuð að fjöldinn er mikill og þetta er kannski hluti af grisjun. Hins vegar vil ég stjórna grisjuninni sjálfur. Ég tók nokkrar myndir og þær eru býsna fróðlegar.

Konungur skógarins skildi þetta eftir sig
Konungur skógarins, elgurinn, hefur verið mikið á ferðinni og það var mikið af förum eftir hann. Hann skildi líka eftir sig margar svona skítahrúgur því að meira að segja konungur skógarins þarf að skíta. Fyrsta skítahrúgan var bara eina 30 metra austan við Sólvallahúsið. Ég veti ekki hvað elgurinn hefur lagt sér til munns þarna en eitthvað hlýtur það að veta. Kannski er það hann sem hefur bitið ofan af annarri hverri eikarplöntu en ég eigna eiginlega dádýrunum frekar þann hluta skaðans í skóginum. Svo vissi ég af fallegri silfurreynisplöntu sem ég ætlaði að flytja fram að veginum í staðinn fyrir afar fallegan silfurreyni sem þar var. En þennan silfurreyni var hérinn búinn að afbarka á stóru svæði eins og þann sem er við veginn. En það verða ráð. Það var mikið af glænýjum förum þarna eftir dádýrin svo að þau eru ennþá nágrannar okkar. Hluti elgssporanna var líka nokkuð nýlegur.

Beykið virðist þrífast vel
Ef einhver smátré hafa komið vel undan vetri þá eru það beykitrén. Það er nú meiri gleðin að hafa þessi beykitré til að fylgjast með og þau standa svo sannarlega undir öllum mínum væntingum. Svona koma ung beykitré undan vetri, ennþá þakin haustlaufum. Bakvið beykið liggur löng og mjó ösp sem ég annars hefði þurft að grisja. Þar er ég laus við nokkur handtök.

Þessi litlu birkitré hefðu sjálfsagt viljað að Guðjón pabbi væri oftar á ferðinni til að hjálpa
Ég get trúað að ég hafi reist við yfir 20 birkitré, tveggja til fimm metra há, sem hafa verið knúin til að hneigja sig fyrir vetri konungi. Þau hefðu sjálfsagt verið þakklát ef Guðjón plöntupabbi hefði verið oftar á ferðinni til að reisa þau við og hrista af þeim snjóinn. En þá hefði ég þurft að kaupa mér skíði og ganga í skíðaskóla til að geta staðið á skíðunum. Ég geri ráð fyrir að ég þurfi að fara með snærisrúlluna og hæla út í skóginn til að setja stög á mörg þessara litlu birkitrjáa til að hjálpa þeim að reisa sig almennilega við aftur.


Og nú erum við komin heim á lóð aftur og svona lítur eplatré út sem hefur orðið matur fyrir svanga héra. Þetta tré var gróðursett daginn sem ég varð 65 ára. Naghlífin sést neðan til á trénu og hún hefði nægt ef snjórinn hefði ekki orðið svo mikið meiri en í meðal ári. Svo datt okkur bara ekki í hug að þetta gæti skeð en nú skiljum við að þetta getur svo vel skéð. Annað aðeins yngra eplatré sem stóð eina sjö metra frá þessu fékk nákvæmlega sömu útreið. En það skulu niður ný eplatré í vor. Við gefum okkur ekki þó á móti blási.

Rautt, hvítt og blátt

Ég er armæðunnar maður í dag! Við keyptum nýtt sjónvarp og ég, nei við bæði, erum búin að eyða fleiri tímum af lífi okkar í að koma því í gang en skjárinn bara glottir grárri stórhríð og segir að það sé ekkert loftnet virkt. Þá tókum við loftnetið og settum í gamla tækið og þar var það virkt. Aftur í nýja tækið með loftnetið og gráa stórhríðarglottið hélt bara áfram. Nú erum við búin að leggja þessa tæknivinnu á hilluna og við bíðum til morguns. Þá ætlar hann Lars granni að koma, en hann segist vera seigur við að fá þessi flóknu tæki til að virka. Hann er líka skurðgröfu- og þungavinnuvélastjóri og sú reynsla hlýtur að virka betur við fingerða rafeindatæknina en brennivínsráðgjafareynslan. Satt best að segja er það nú aldursmunurinn sem gerir hann hæfari.

Ég finn allt í einu að ég vil lýsa því þegar tveir ellilífeyrisþegar koma í nokkur hundruð fermetra verslun þar sem kannski upp undir hundrað sjónvarpstæki flökkta á veggjunum og sýna skarpar myndir sem flökta jafnt og þétt sem veldur því að ellilífeyrisþegarnir finna fyrir svima og eiga erfitt með að festa fókus á herlegheitin. Ég nota zxcvbnm sem tákn fyrir það sem ellilífeyrisþegarnir ekki skilja.

Ellilífeyrisþegarnir ganga varlega inn í verslunina og að þeim enda af stórum vegg þar sem heldur minni sjónvarpstækin eru. Konan les á miða og segir: Það er þetta tæki. Svo standa þau bæði framan við tækið og þykir það fínt. Það var dóttir þeirra og tengdasonur sem höfðu ráðlagt tegund og týpunúmer. Konan bíður framan við tækið meðan maðurinn fer og leitar eftir aðstoð. Eftir einhverjar mínútur kemur Ibrahim, dökkhærður, líflegur maður um þrítugt, afar grannur og mjög vingjarnlegur og býður fram aðstoð sína. Þegar við erum búin að lýsa áhuga okkar fyrir þessu tæki og við spyrjum eftir eiginleikum þess svarar Ibrahim: Þetta tæki er sérstaklega zxcvbnm og ellilífeyrisþegarnir eru engu nær og spyrja hvað það þýði. Ibrahim svarar að það þýði zxcvbnm og ellilífeyrisþegarnir eru engu nær með það heldur. Ibrahim er svo vingjarnlegur og virðist vilja svo vel að það er ekkert annað að gera en bara trúa á það sem hann segir. Hann meira að segja útvegar ellilífeyrisþegunum kort á verslunina sem gefur afslátt. Svo spyr hann hvort ellilífeyrisþegarnir vilji hafa zxcvbnm eða zxcvbnm og þeir skilja það ekki og spyrja hvað það þýði. Ibrahim svarar að það þýði zxcvbnm.

Þetta lætur kannski fáránlega en ekki var það alveg ólíkt þessu þegar við Valdís vorum í versluninni í dag. Hvað þýðir til dæmis "HDMI IN 1(DVI)" þegar það er sagt hratt, eða Plug & Play einnig sagt hratt. Þetta eru kannski öfgafull dæmi en málið er bara það að fólk sem gæti verið barnabörnin okkar og hefur alla þessa nýjustu þekkingu talar bara alls ekki sama mál og við -og við ekki heldur þeirra. En eitt er víst að Ibrahim vildi hjálpa okkur. Hann átti greinilega ættir sínar að rekja til annars lands eins og við Valdís, en hann hafði líka greinilega aðlagað sig mjög vel að sænskum háttum eins og við viljum líka meina að við höfum gert.

Ég finn vel að ég hef haft gott af að skrifa þetta eftir mæðu dagsins. Ég bloggaði líka á sænska blogginu mínu áðan og ég finn ekki lengur fyrir því að athafnir dagsins hafi ekki allar gengið eftir. Valdís horfir á kóra keppa í söng og ég heyri kórsönginn álengdar. Hún ætlaði að horfa á það í nýja tækinu en nú líkar henni bara vel við gamla tækið. Það virkar alla vega. Á morgun munum við líkast til setjast hlið við hlið og horfa á nýja skerminn fullan af lífi og litum og tikka fram og til baka milli þeirra rúmlega 30 rása sem við líklega eigum kost á.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá

Jæja, þá er að komast í gang á ný. Ég veit ekki betur en ég eigi góða frídaga framundan eftir býsna mikla vinnu í Vornesi og svo vinnu við innansleikjurnar hér heima. Ég fór til Uppsala á mánudaginn var og dvaldi hjá honum nafna mínum og fjölskyldu hans í einn sólarhring. Á þriðjudag fórum við Valdís svo heim og það var ekki að sökum að spyrja; Valdís tók til hendinni hér heima og allt gerbreyttist. Smíðavinnan mín fór ekki að njóta sín fyrr en hún var búin að fara höndum um hlutina líka. Eftir að hafa unnið einn sólarhring í Vornesi eftir að Valdís kom heim þekkti ég mig varla hér innan húss.

Áhuginn á veðrinu hefur ekki yfirgefið mig og má geta þess að það hefur verið að mestu frostlaust í marga daga. Snjórinn er ekki svipur hjá sjón og um helgina mun ég bregða mér í stígvél og ganga út í skóg. Það verður öðru vísi ferð en ég hafði áður hugsað mér. Það er nefnilega svo að þó að ég hafi bloggað svo fínt um okkar fjórfættu nágranna og borið óspart í þá matinn þá hafa þeir ekki að sama skapi verið okkur náðugir. Þeir eru nefnilega búnir að éta börkinn af þeim ávaxtatrjám sem við höfum gróðursett á síðustu árum. Þegar búið er að éta börkinn allan hringinn er trénu ekki við bjargandi. Það eru hérarnir sem hér eru að verki. Þeir eru líka búnir að éta börkinn af nokkrum hlynum sem við gróðursettum við lóðamörkin að veginum fyrir þremur árum.

Við vorum búin að setja naghlífar á ávaxtatrén eins hátt upp eftir stofninum og hægt var en það dugði ekki til. Þegar snjórinn var orðinn nægilega djúpur náðu þeir upp fyrir hlífarnar og þótti lífið þá nokkuð gott í öllu fæðuleysinu. Mikið af dýrum eru búin að líða fyrir snjóinn, ekki kuldann, heldur snjóinn sem lokar fyrir alla venjulega fæðuöflun. Svo eru önnur dýr sem hafa bara haft það gott undir snjónum og notið skjólsins. Það er misjafnt okkar dýranna bölið. Fyrsta ferð ársins út í skóg verður því mest til að athuga skaða á yngstu trjánum þar. Síðan verður tekin ákvörðun um nýtt átak í ávaxtatrjáamálum. Við vorum alveg grandalaus fyrir þessu en það er kannski huggun harmi gegn að svona snjóalög koma ekki nema nokkrum sinnum á öld og því þarf væntanlega ekki að óttast svona lagað á næstunni. Eldri tré fá að vera í friði.

Ekki skal gráta Björn bónda.

Ég ætlaði að birta myndir frá Uppsalaferðinni en tölvan er svo ógurlega hægfara í kvöld að ég verð að gefast upp á því. Hins vegar var ég áður búinn að spara mynd frá Kristni dóttursyni og ég ætla að birta þá mynd og vendi ég nú kvæði mínu í kross. Við fylgjumst með eldgosi og ég verð nú bara að segja að verði þetta gos ekki öflugara en það er núna í dag þann 25. mars, þá var ekki hægt fyrir Íslendinga að fá betri gjöf í öllu Icesaveruglinu. Nú eru mikið betri hlutir að tala um og einbeita sér að.

Kristinn Jónatansson tók þessa mynd af Eyjafjallajökli frá Heimaey 25. mars 2010
Þetta er virkilega falleg mynd greinilega tekin um dimmumótin. Norðurljós, eldur, jökull og haf. Fánalitirnir eru þarna allir í þeirri mynd sem hugsuð var þegar fánalitirnir voru valdir á árum áður. Ég var líka búinn að nota fleiri myndir sem Kristinn tók einum degi á undan þessari, en þær eru á sænska blogginu mínu www.gudjon.blogg.se/svenska

Að svo búnu er háttatími hér á sveitabænum, alla vega þegar ég er búinn að kíkja aðeins á íslenskar fréttir kvöldsins. Valdís er að horfa á skautadans sem er virkilega falleg íþróttagrein.

Æ, þetta pappírsdrasl

Þegar ég borgaði reikningana í febrúar gekk ég ekki frá þeim í möppu með það sama. Daginn eftir treysti ég því ekki lengur að allt væri í röð og reglu þar sem allt var á tjá og tundri heima í Örebro á þeim tíma vegna búferlaflutninganna. Þar með settum við reikningana með öðru skyldu og hálfskyldu bréfadóti niður í lítinn pappakassa sem við settum svo við hliðina á tölvunni hér á Sólvöllum. Þetta var í rauninni hreina óreiðan og mér líkaði ekki við þennan pappakassa. Svo þegar ég kom heim úr vinnunni um þrjú leytið í dag renndi ég í árans hauginn og raðaði inn í möppu eftir bankayfirlitinu sem ég hafði á skjánum meðan á þessari hreinsun stóð.

Ég held að það sé orðið allt of mikið af pappír sem gerir lífið of flókið. Ég gekk í framhaldi af reikningunum í gegnum þvílíkt magn af umslögum með yfirlitum, tilkynningum, staðfestingum, tilboðum og fleiru og fleiru sem við höfum hikað við að henda. Það er þetta sem ég kallaði skylt og hálfskylt bréfadót. Lífið er gert of flókið því að það er vinna að fara í gegnum þetta, velja og hafna og halda utan um.

Hins vegar var skemmtilegt að koma út í Vornesi í morgun um sjö leytið. Það var hláka og ég sá fram á að í byrjun apríl, eins og ég hef oft sagt, fer ég að ganga út í skóg til að spjalla við kunningja mína þar og þreifa á greinaendum og brumum og sjá hvernig lífið þrífst meðal þeirra. Þetta líf er jú komið af stað þar sem jörð er þýð og sólin farin að vera drjúg við gjafmildi sína.

Ég lagði af stað heim á leið frá Vornesi upp úr klukkan eitt í dag. Þá var gola, átta stiga hiti og sól. Það var ekki lélegt það. Eftir að taka etanol í Vingåker og kaupa svolítið matarkynns var heimferðin hafin fyrir alvöru. Ruðningarnir meðfram vegunum voru orðnir að skítugum þústum sem ekki er hægt að hafa orð á lengur. Farið var að sjást í akra sem komu sterk grænir undan snjónum. Þetta var glæsilegt og mikið að fylgjast með.

En hvað var nú þetta? Þegar ég nálgaðist Óðinsbakka var sem vinur minn Óli Lokbrá væri mættur. Hvað var hann eiginlega að gera svona snemma dags. Var hann bara á útstáelse þennan laugardag og að skemmta sér eða hvað? En það var ekkert að grínast með, ég varð bara grútsyfjaður. Ég lagði á bílastæði við vegkantinn skammt frá Óðinsbakka, drap á bílnum og tók lyklana í hægri hendi sem ég lagði á hné mér og lét lyklana hanga. Þetta kenndi þorsteinn dýralæknir mér eitt sinn þegar hann heimsótti okkur í Örebro. Vinstri olnboga setti ég í gluggasylluna við hliðarrúðuna, þumalfingur undir kjálkann og hendina lagði ég svo við vanga minn. Stellingin var góð og nú ætlaði ég að leyfa mér að sofna og vakna svo við það að lyklarnir dyttu úr hendi mér. Þá á maður að vera orðinn afþreyttur lofaði Þorsteinn og ég er búinn að gera þetta nokkrum sinnum og loforð hans stenst.

Bílar þutu hjá en fljótlega fann ég að ég slappaði notalega af. Svo var ekkert meira með það fyrr en allt í einu þegar olnboginn slapp af gluggasyllunni og rann snöggt niður með hurðinni og ég sló enninu í rúðuna að mér varð illilega hverft við og hélt að ég hefði sofnað á ferð og væri að keyra útaf. Lyklarnir voru enn kyrrir í hendi mér. En
ég áttaði mig leiftursnöggt á því að allt væri með felldu en ég varð ekki meira syfjaður í þessari ferð, ég lofa.

Þegar ég kom að Sólvöllum var slóðin orðin mikið breiðari en í gærmorgun og snjórinn hafði lækkað gríðar mikið. Það er ekkert til að vera stoltur af lengur. Grænt grasið í slóðinni heilsaði mér notalega og nú er sá tími í Svíþjóð sem kallaður er "senvinter" eða síðla vetrar. Svo gengur vorið í garð.

Á mánudag eftir vinnu fer ég til Uppsala til að heilsa upp á fólkið þar og sækja Valdísi.

Að kunna að leysa vandamál

Hvað er eiginlega að ske? Ég las í fimm daga spánni á textavarpinu í morgun  hitatölur upp á fjórar, fimm og sex gráður. Svona hefur ekki sést síðustu þrjá mánuðina en nú allt í einu skeður það. Ég veit bara ekki mitt rjúkandi ráð. Svo hef ég haldið mig inni hér um bil allan daginn og kom ekki út undir bert loft fyrr en klukkan að ganga fimm. Þá sýndi mælirinn í bílnum (sá mælirinn sem ég treysti best) fjögurra stiga hita og það var ofurlítill andvari. Það var sem sagt hláka og er enn klukkan níu og á samkvæmt spá að vera áfram. Annars er eins gott að það komi ekki asahláka enda er ekki gert ráð fyrir því.

Að ég hef ekki verið úti í góða veðrinu kemur til af þeim þráa mínum að ljúka sem fyrst við innansleikjurnar sem ég talaði um í fyrradag. Í dag hefur það verið spörslun, slípun og lökkun. Að sparsla er svo sem ekki neitt neitt, að slípa er óþrifalegt og safnast gjarnan hvíta duftið í nefið og getur ert fram hnerra. En að lakka með hvítu lakki, það er gaman. Þá sé ég eitthvað eftir mig og svo get ég gengið nokkur skref aftur á bak og virt fyrir mér og dáðst að því sem ég hef komið til leiðar. En nú er þetta búið og því get ég farið ánægður með þann þátt í vinnuna á morgun vitandi það að lakkið er að harðna og verða sterkt. Síðan er eftir að smíða eina litla hurð fyrir opið upp í loftgeymsluna og þá er ég búinn með allt sem ég hefði viljað vera búinn með fyrir mjaðmaraðgerðina í haust.

Mér skilst að tónlistarhúsið við Reykjavíkurhöfn sé stórt hús, mikið stórt. Sólvellir eru lítið hús, mikið lítið. En ég held að það sé búið að skrifa mikið meira um Sólvallahúsið en tónlistarhúsið. Það hefur bara verið skrifað gott um Sólvallahúsið, sjálfsagt tónlistarhúsið líka.

Í dag hefur mér verið hugsað til smá atburðar sem átti sér stað fyrir einu og hálfu ári. Það var háðung sem ég hafnaði í. Ég var á leið á Sólvelli frá Örebro nokkuð snemma morguns og kom við í IKEA í leiðinni. Ég lagði bílnum nokkuð langt frá húsinu þó að þar væru frekar fáir á ferðinni. Bifreiðastæðið er fyrir nokkrar stórar verslanir og er nokkrir hektarar að stærð giska ég á. Þegar ég var að koma að bílnum eftir að hafa verið í versluninni tók ég eftir bíl sem kom á nokkurri ferð og stefndi beint þangað sem ég var og það merktist á löngu færi að þar var einhver sem virtist eiga erindi við mig. Maður sem talaði hálfgerða útlensku og hálfgerða sænsku og hálfgerða ensku ávarpaði mig og spurði hvort hann mætti tala við mig. Ég játti því.

Hann sagðist hafa verið á ráðstefnu sölumanna í Örebro, sölumanna sem selja skinnföt. Hann sagði að þeir sölumennirnir hefðu alltaf með sér föt til að gefa hver öðrum við svona tækifæri og hann væri með fullt af fötum í aftursætinu sem hann hefði engan áhuga fyrir að taka sem flugfarangur til Ítalíu. Ég gæti því keypt þarna fjóra jakka á gjafvirði og hann hefði valið mig þarna vegna þess að hann sem fagmaður hefði séð á löngu færi að jakkarnir mundu passa á mig. Við þyrftum að hafa hraðann á þar sem hann væri á hraðferð til Arlanda til að taka flug til Ítalíu.

Maðurinn var kurteis, skemmtilegur og fyndinn, og alveg sérstaklega var hann svona líka sannfærandi að það var frá mínum bæjardyrum séð ekkert vafamál að allt væri með felldu. Og ég segi aftur; ekkert vafamál. Með það fór ég í hraðbanka til að taka út peninga og þegar ég lagði af stað þangað kallaði hann á eftir mér og sagði að ég hefði ekki læst bílnum. Ég læsti þá bílnum, sótti peningana og svo keypti ég fjóra jakka á góðu verði og hann var þá þegar búinn að sannfæra mig um það hversu verðmætir þessir jakkar mundu verða fyrir mig. Að þessu búnu spurði hann til vegar til Arlanda.

Ég hélt áfram til Sólvalla og á miðri leið byrjaði ég að skilja að ég hefði verið hafður að fífli. Ég hafði ekkert með jakkana að gera, maðurinn fór sennilega einn hring á bílastæðinu og valdi svo annan mann til að plata, það var engin ráðstefna sölumanna í Örebro, hann rataði vel til Arlanda, hann var sænskur og talaði sænsku og hann "tók eftir þvi að ég gleymdi að læsa bílnum". Ég skammaðist mín álíka mikið og í gamla daga þegar ég hafði hagað mér eins og fífl á fylleríi. Það er fjarri mér að vilja kaupa á svörtu.´

Þessi frásögn stemmir fullkomlega við svo margar sem ég hef heyrt aðra segja frá. Þessir menn eru svo sannfærandi að það er eins og dáleiðsla og mikið af varfærnu fólki hefur orðið fyrir tjóni vegna svona manna. Nú varð ég svo sem ekki fyrir tjóni þar sem ég hafði fjóra jakka sem reyndar hafa komið að notum. Ég segi frá þessu vegna þess að í gærkvöldi hlustaði ég á gamlan sjónvarpsþátt þar sem maður vissi til 100 % hvernig ætti að leysa ákveðin vandamál. Mér fannst hann vera af sömu sort og sölumaðurinn sem lét mig hafa mig að fífli.

Það kemur grænt undan snjónum

Átta tímar urðu það í nótt utan minnstu truflana en ég man þó eftir því að ég rumskaði einhvern tíma þegar ég velti mér í rúminu. Síðan mumlaði ég eitthvað fyrir sjálfan mig áður en ég sveif inn í draumalandið á ný. Ég byrjaði svo á því að sparsla smávegis áður en ég borðaði morgunverð þar sem sparslið hefur þennan eiginleikann að þurfa tíma til að þorna áður an það er slípað og önnur vinna getur haldið áfram. Svo leit ég á fimm daga spána á textavarpinu. Þar bar alveg nýtt fyrir augu. Í dag og næstu fjóra dagana er spáð eins til fimm stiga hita. Slík vogun hefur ekki sést á skjánum síðan um mánaðamótin nóvember-desember. Ég fann fyrir alveg sérstökum ljósum geisla innra með mér, geisla sem heitir gleði, og ég fékk það staðfest einu sinni enn að ég er vor og sumarmaður. Og hver er ekki það? Síðan leit ég á norsku spána í tölvunni, spána sem hefur meira að segja spá fyrir litla Nalavi í Krekklingesókn, en þegar við horfum út um vesturgluggann horfum við yfir húsin í Nalavi í hálfs kílómeters fjarlægð. Norðmennirnir spáðu nákvæmlega sama veðri og þeir sænsku.

Síðan gekk ég að vesturglugganum og leit einmitt yfir Nalavi móti Kilsbergen. Yfir öllu landi lá þessi jafna djúpa snjóþekja sem heldur jörðinni ófrosinni. Það var merkilegt að hugsa til þess að þarna undir öllum þessum miljónum tonna af snjó er undirbúningurinn að vorinu hafinn. Ég hef nýlega sagt í bloggi að gömlu mennirnir sátu tíðum yfir kaffibolla og neftóbaki og töluðu um að það kæmi grænt undan sköflunum. Ég held að þeir hafi sagt þetta ár eftir ár en alltaf eins og það væri nýtt fyrir þeim. Hér kemur hins vegar grænt undan snjóbreiðunni við slóðirnar sem ég mokaði fyrr í vetur.

Eftir vesturgluggann gekk ég að austurglugganum móti skóginum og sama saga þar. Snjóþekjan lá svo langt inn í skóginn sem séð varð. Ég mundi gjarnan vilja fara út í skóginn og handfjatla svolítið greinaenda og skoða brum en færðin bara leyfir það ekki. Sparslvinnu, veðurathugunum og reyndar nokkrum símtölum var lokið og klukkan orðin ellefu. Þá var morgunverður. Ég held næstum að ég hafi borðað yfir mig.


Þessi mynd er frá því rétt fyrir miðjan janúar.

Það er komið kvöld og ég hef náð að minnka svolítið innansleikjurnar sem urðu eftir í september þegar ég fór í mjaðmaaðgerðina. Þá lögðust nokkur atriði á ís og svo þegar vikur og mánuðir líða er eins og þessir hlutir hverfi og verði ekki eins mikilvægir. En ég vil ekki láta slyðruorðið um smiðina sannast á mig, að þeir ljúki aldrei við innansleikjurnar heima hjá sjálfum sér. Og sannleikurinn er sá að það verður þvílík breyting hér heima þegar ég kem þessu í verk að það verður held ég á mörkunum að Valdís þekki aftur þetta hús þegar hún kemur til baka frá Uppsala. Nú dýfði ég dálítið hressilega djúpt í árinni.

Klukkan er rúmlega hálf tíu og það er mál fyrir mig að fara að bursta og pissa og einu sinni enn ætla ég að bæta eldivið í kamínuna áður en ég legg mig. Ég er ekki alveg búinn að ná því að hvílast eftir langa vinnutörn í Vornesi um helgina og í gær. Það er gott að blanda saman svona ólíkum hlutum, vinnunni þar og smíðunum hér heima. Og til að fá svolitla útiveru í dag bar ég inn eldivið til næstu daga.


Þessi mynd er frá Vornesi og hún er frá miðjum janúar eins og myndin hér fyrir ofan af Sólvöllum. Umhverfið í Vornesi hefur í marga áratugi, ef ekki hátt í eina öld, verið ræktað og hirt af umhyggju eins og skrúðgarður. Myndin ber þess greinileg merki. Þetta er líka markmiðið á Sólvöllum en við Valdís verðum orðin ansi hvíthærð þegar við náum þessum árangri.

Örlög

Stundum erum við minnt svo harkalega á að lífið er hverfult. Það er ekki bara eitt, heldur fleiri atburðir í einu sem allt í einu eru orðnir veruleiki. Dagurinn í dag er einn slíkur. Gamall nágranni dó í dag og íslenskur vinur okkar í Örebro er veikur. Ég var í vinnunni til klukkan fimm í dag, alveg frá hádegi í gær. Þetta var óvenju langur vinnutími með nokkurra klukkustunda svefni í nótt. Ég fann þó ótrúlega lítið fyrir þreytu en varð að sjálfsögðu hugsi eftir að ég frétti af þessu og ýmsar hugsanir um staðreyndir lífsins voru á flögri í huga mér. Svo kom í ljós að ýmislegt knúði líka dyra hjá vinnufélögum mínum og þá var farið að ræða staðreyndir lífsins í stað þess að hugleiða þær. Það dróst á langinn að ég færi heim.

Um fimmleytið renndi ég úr hlaði í Vornesi og fór beint í matvöruverslun í Vingåker. Ég hafði innkaupalista í brjóstvasanum með smáræði sem ég þurfti að kaupa. Nú er ég einbúi og annast því fleira á eigin spýtur. Á miðanum var meðal annars "ósætt kex" sem ég síðan ætlaði að borða sem millimálarétt með pínulitlu smjöri og osti. Ef til vill var ég í meiri hollustuhugleiðingum en ella eftir fréttir dagsins og ég gerði óbifanlega kröfu í ósæta kexið en fann það bara alls ekki. Að lokum gekk ég til traustvekjandi verslunarkonu og bað hana að hjálpa mér að finna þetta. Hún var ekki viss en að lokum benti hún mér á tvær hillur með einhverju sem leit út fyrir að vera ósætt kex. Ég tók tvo pakka og setti í körfuna en datt svo í hug að lesa utan á þá. Það var þá sykur í þessu kexi líka. Ég sem sagt fann ekki ósætt kex. Svo borgaði ég fyrir vörurnar og fór.

Ég kom til Läppe og horfði hugsi út yfir ísi lagðan Hjälmaren. Snævi þakinn ísinn var annars vegar hvítur þar sem lág síðdegissólin náði ekki að skína á hann, en þar sem sólin náði ísnum var hann ögn gylltur. Skógi vaxnar eyjarnar langt út í ísbreiðunni virtust svo þögular. Allt að átján kílómetrum norðar sá svo dauflega í landið hinu megin vatnins. Ég stanæmdist og hugleiddi eitt augnablik að fara niður að lítilli bryggju, opna þar bílrúðuna sem sneri út að vatninu og bara hvílast í kyrrðinni sem þessar eyjar virtust breiða út yfir umhverfi sitt. En það varð ekki af og svo hélt ég áfram.

Eins og einum kílómeter vestar kom ég upp á litla hæð og vestan megin hennar var langur þráðbeinn vegur þar sem sólin skein nákvæmlega beint á móti. Ég sprautaði vatni á framrúðuna og þar með sá ég ekki nokkurn skapaðan hlut í örfáar sekúndur. Eftir það var ég kominn á staðinn þar sem ég horfði fyrir nokkrum árum á stóran vörubíl keyra á hjört og kasta honum beint framan á bílinn hans Inegmars vinnufélaga míns. Við vorum þá að koma af jólaborði í Vingåker. Vörubílstjórinn og Ingemar sáu hvorugur hjörtinn en þar sem ég var í mátulegri fjarlægð sá ég í ljósunum hvernig hann slóst á milli bílanna. Bílinn hjá Ingemar skemmdist mikið og sjálfum var honum illa brugðið. Hann átti að fara í stóra hjartaaðgerð stuttu seinna og þarna sat hann nú á framsætinu í sínum bíl með fæturna út á veginum, hélt um brjóstið og sagði hvað eftir annað: Mér er svo illt í hjartanu, mér er svo illt í hjartanu. Þá langaði mig mikið til að setjast með hann á hné mér, taka utan um hann og reyna að fá hann til að taka því rólega. Lífið er hættulegt og hefur alltaf verið það.

Í þessum hugsunum mínum var ég einmitt kominn að húsinu þar sem Ingemar býr og stuttu síðar var ég kominn að hringtorgi sem er eina fimmtán kólómetra sunnan við Örebro. Í öll ár hef ég beygt til hægri á þessum stað á leið heim úr vinnu og það gerði ég líka núna. Um einum kólómeter síðar áttaði ég mig á því að ég bjó ekki lengur í Örebro og ég átti því að fara beint áfram í hringtorginu. Ég sneri við á afleggjara og fór inn á réttan veg.

Þegar ég kom heim var eitt mitt fyrsta verk að kveikja upp í kamínunni. Við einhver sérstök veðurskilyrði getur myndast lofttappi í skorsteinum og svo var það hér heima í þetta skipti. Því vall reykurinn inn í húsið en ég brá við skjótt og gerði það eina sem gildir við þessar aðstæður, en það er að setja samanbögluð dagblöð á eldinn. Síðan fór reykurinn rétta leið en næsta hálftímann hafði ég útihurðina opna og bæði eldhús- og baðviftuna á fullu. Svo varð gott loft í húsinu en kalt um stund.

Þetta eru smá ágrip af deginum í dag og sólin skín ekki alls staðar. Það gerði hún heldur ekki á Hjälmaren þegar ég fór þar um. En góð var síldin sem ég borðaði með heitum kartöflum í kvöld og núna ætla ég að fá mér te og prufa ósæta sæta kexið sem ég keypti í Vingåker í dag og hafa smá ostflís ofan á. Ég ætlaði að enda á fallegri frásögn en bloggið er orðið svo langt að það verður að bíða.


Hvort er svo fallegra, vetur eða sumar? Jú, auðvitað er vorið og sumarið fallegra en þetta er bara svo fallegt líka.

Gott hús

Ég bloggaði í fyrri viku undir fyrirsögninni Zxcvbnsdfghyuiolö (þessi skrýtna fyrirsögn á sér skýringar), meðal annars um heimsókn Anders smiðs sem kom til að funda með okkur um viðbyggingu á Sólvöllum. Nú er það svo að í dag er Sólvallabyggingin þannig samansett að 40 ferm er bygging frá 1967 og rúmlega 33 ferm er nýbyggt af okkur Valdísi. Áður en við byrjuðum að tala um viðbyggingu vildi ég fá álit Anders á gamla hlutanum. Sama mat reyndi ég að leggja á gamla hlutann áður en við byrjuðum á því sem við höfum þegar byggt við, en þá var ég einsamall um að dæma. Þá styrkti ég gamla hlutann mikið, þá helst með því að bæta mörgum stöplum undir húsið. Anders taldi engin vandkvæði á að byggja við, gamli hlutinn stæði vel fyrir sínu, enda á líka að gera vissar endurbætur á honum. Ég var ánægður með álit hans þar sem ég vil engan veikan hlekk hafa í húsinu okkar

En þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég spyr aðra álits á húsinu. Í fyrrasumar var annar smiður á ferðinni í Örebroléni og hann kom frá íslandi. Það var Björgvin Pálsson frá Hrísey. Við höfðum verið á einhverju flakki einn daginn og skömmu eftir að við komum til Sólvalla frá því flakki spurði ég Björgvin hvort hann vildi ekki leggja sig. Hann þvertók fyrir það en ég sagðist samt ætla að sækja teppi út í bíl. Svo kom ég ákveðinn með teppið til baka frá bílnum og ekki veit ég hvað Björgvin hugsaði þá, en þegar ég slengdi því á jörðina bak við húsið og bað hann að gefa álit sitt á gólfviðum hússins var hann til í það.


Hér berum við okkur til sem vísir menn og leggjum dóm á það mikilvægasta í byggingunni, undirstöðurnar. Mikið hló hún Annelie hjúkrunarfræðingur í Vornesi hjartanlega þegar hún sá þessa mynd. Þetta er í fína lagi var dómur Björgvins.


En ég verð líka að sýna aðra mynd af okkur. Hér erum við Björgvin ásamt Magnúsi Magnússyni að skoða tréflísalagða kirkju sem er komin vel til ára sinna. Þarna er ég með staf en svoleiðis hjálpartæki er ég nú búinn að kasta veg allrar veraldar eftir að ég fékk títanliðinn í mjöðmina.

Á kaffihúsi með Hannesi Guðjóni

Ég hef verið að lofa því að vorið sé framundan, alla vega að það komi líka vor á þessu ári eins og á liðnum árum. Við fórum út að ganga í dag og það var krap víða enda var hitinn fimm stig skömmu áður en við fórum út. Veðurfræðingurinn sagði í sjónvarpinu áðan að það mundi snjóa á næstunni og að hiti yrði undir frostmarki. Samt sem áður er spáð yfir 20 stigum minna frosti en þegar það var mest og mun minna frosti en í fyrri viku. Sama segir norsk spá sem við lítum oft á og nær marga daga fram í tímann. Frostið fer minnkandi frá einni viku til annarrar -og reyndar, núna rétt fyrir klukkan átta að kvöldi þess 8. mars er fjögurra til fimm stiga hiti. Ég vissi þetta alltaf að það færi hlýnandi! Í fyrradag bloggaði ég bæði á íslensku og sænsku og í íslenska blogginu sagðist ég mundi fara að rölta út í skóg eftir mánuð og á því sænska eftir þrjár vikur.

Ég las grein um Ísland í Dagens Nyheter í dag. Þar var talað um að Íslendingar mundu eiga eftir að ganga í gegnum mikla timburmenn á næstunni. Það eru fleiri blöð og fleiri lönd sem tala um þetta. Ég hef ekki orðið var við alla þessa breyttu og jákvæðu umræðu erlendis um málsstað Íslendinga sem talað er um á Íslandi og ég vil bara segja að nú þurfa íslendingar að leggja sundurlyndisfjandann og pólitíska ofsatrú til hliðar og sýna hver öðrum nýtt andlit, bæði almenningur og stjórnmálamenn, ekki bara stjórnmálamenn. Og hana nú!

Svo að mýkri málum aftur. Á morgun fer ég heim með viðkomu í Stokkhólmi en Valdís verður eftir í hlutverki ömmu. Ég þarf að smíða á Sólvöllum næstu daga, eftir því sem vinna leyfir, og einnig að undirbúa viðbyggingu. Það er að segja að skila inn teikningum og umsókn um byggingarleyfi með meiru. Svo þarf ég að gefa okkar svöngu, fjórfættu nágrönnum svolítið matarkyns og kannski fáum við þá að sjá þessa styggu nágranna oftar í sumar.

Svo verð ég bara að kjafta frá svolitlu. Það er mánudagskvöld en það var samt veislukvöldmatur. Auðvitað er það einkamál hvað er í kvöldmat en það þarf ekki endilega að vera leyndarmál. Við vorum fimm Íslendingar hér í kvöldmat. Íslendingurinn Elísabet Eir var nefnilega í kvöldmat líka. Hún er búin að búa í Svíþjóð í meira en 20 ár og kennir stundum í háskólanum með Pétri. Og nú ljóstra ég upp hvað við borðuðum. Það var íslenskt lambalæri. Við Valdís sem borðum mikið af lambakjöti sem ekki kemur frá Íslandi getum staðfest að íslenska kjötið er hreint alveg frábært. Ég vil bara koma frá þessu á framfæri.

Við Rósa og Valdís fórum með honum Hannesi Guðjóni á kaffihús í dag.

Hannes fær að borða á kaffihúsi hjá ömmu sinni


Hannesi líkar vel á kaffihúsi


Hvernig ætli þetta sé á bragðið sem mamma er að borða


Hvað er fólkið að gera þarna frammi? Voða mikið fólk


Við erum vinir, mamma og ég.

Ef pílan er sett á myndirnar kemur upp texti og ég læt þann texta nægja. Klukkan er ellefu að kvöldi og það er kyrrt í íbúðinni og að því er virðist í öllu húsinu. Við Rósa verðum samferða til Stokkhólms á morgun og við ætlum að færa henni Ullu vinkonu Rósu og Péturs við í kamínuna, en þessi viður er í bílnum. Svo verður Rósa eftir í Stokkhólmi þar sem hún ætlar að kenna á morgun í háskólanum þar hún hefur sjálf verið nemandi. Ég fer hins vegar áfram suður úr Stokkhólmi og þaðan áfram heim til Sólvalla.

Í Uppsala í mars

Ég talaði um það í bloggi í gær að vorið væri farið að láta á sér kræla. Ég varð aftur sannfærður um það í dag þegar ég gekk Bäverns Gränd í Uppsala í átt niður að Íslandsbrúnni. Snjórinn krapaði á gangstéttarkantinum í sólinni sem að lokum kom fram í dag líka. Ekki veit ég hversu hlýtt var en það var gott að vera úti. Ég stend við það sem ég sagði í gör að eftir mánuð fer ég að ganga út í Sólvallaskóginn til að fylgjast með brumum. Í dag sá ég beyki í Stadsparken, Borgargaråinum, og verð að segja það að ef við Valdís eigum að sjá beykin okkar á Sólvöllum af þeim gildleika verðum við að verða alla vega 200 ára. Við verðum því að vera hógvær og gera okkur ánægð með minna.

Hann Hannes Guðjón nafni minn er búinn að vera mikill gleðigjafi í dag og ég get auðvitað ekki látið vera að birta af honum myndir.

Afi heldur aulalega á drengnum
Ég, sjálfur afinn, er víst óttalegur klaufi við að halda á barni. Ég sný fötunum utan á honum og aflaga og það er engin mynd á þessu hjá mér. En glaður var drengurinn og glaður var ég.

Ömmu fer þetta mikið betur úr hendi
Ömmu fer þetta mikið betur úr hendi þó að hún hafi falið sig svolítið á bakvið hann.

Amma kann að halda á litlum dreng
Og hér líka. Ég verð að muna eftir þessu næst þegar verður tekin myn af okkur að halda lögulega á barninu.

Ný græja, göngustóll, og hvað hann varð ánægður
Hann fékk nýjan göngustól í dag og í dag varð hann líka sex mánaða og bauð upp á tertu sem hann hafði samið um við ömmu að baka. Stóllinn vakti mikla gleði, ekki bara hjá drengnum, heldur líka hjá okkur sem eldri vorum.

Nú er ég rosa glaður
Já, það var alveg ofsa gaman að þessum stól og hann hló mikið. Líklega fannst honum líka að afi væri svolítið hlægilegur þar sem hann lá á gólfinu með myndavélina.

Og íhugull get ég verið
"En stundum er ég íbygginn líka skaltu vita." Seinni partinn í dag fórum við út, Hannes Guðjón, mamma og afi. Við gengum alveg heilan helling og í byrjun í göngugötunni horfði hann einmitt svona íbygginn á fólk sem kom og fór og virtist ekki láta neitt fram hjá sér fara. Svo fórum við inn í verslun og það var sama þar, hann virtist fylgjast með af kostgæfni. Síðan héldum við gönguferðinni áfram og afi fékk að vera kerrustjóri. Mamma lagaði hann þá til í kerrunni og hann nafni minn horfði á mig nokkur augnablik og svo var hann sofnaður. Það var mikil ró þarna niður í kerrunni þar sem þetta fallega barnsandlit blasti við mér og ég spáði því að eftir á þegar við kæmum heim myndi hann verða afar ljúfur. Og svo varð það. Nú er hann sofnaður og í fyrramálið mun glaður drengur gleðja okkur hin með sinni ljúfu nærveru, brosi, hlátri og leik.

Það kitlaði þægilega

Það kitlaði þægilega i brjóstinu í dag á leiðinni frá Sólvöllum til Uppsala. Það er í fyrsta skipti á þessum vetri sem við höfum orðið vör við að vorið sé að koma eitt árið enn. Á hraðbrautunum var ytri akreinin auð en innri akreinin, sú vinstri, var blaut þar sem sólin bræddi snjóinn sem búið var að ryðja í svæðið á milli veganna. Þrátt fyrir að sólin væri að bræða snjóinn þar sem hann lá að malbikinu var hitinn aðeins 0 stig. Að sól sé að bræða snjó boðar vor. Það merktist líka vel að sólin hitaði upp farþegarýmið í bílnum og þó að það gerði að verkum að það var full heitt var það svo létt að þola það vegna þess að þetta boðaði hlýrri árstíma. Það var gott að vera til í þessari ferð og hugsa til þess að eftir einn mánuð verður gaman að fylgjast með þrútnandi brumum á trjám.

Þegar við vorum komin í gegnum Örebro og héldum þaðan til austurs kom upp gömul minning varðandi ferð til Stokkhólms, ferð sem farin var eftir sama vegi. Það var margt sem olli því. Til dæmis að það var snjór og það var sólskin í báðum tilfellum og báðar ferðir farnar í mars mánuði, sú fyrri árið 1997. Ferðin sem við fórum árið 1997 var farin til þess að vera við íslenska messu í Stokkhólmi og Valdís ætlaði að taka þátt í söngnum. Ég skrifaði um þá ferð á sínum tíma og notaði meðal annars í jólabréf sem ég sendi helstu ættingjum og nánustu vinum. Þarna á leiðinni í dag velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að bitrta þetta efni á blogginu sem svolítinn framhaldsþátt. Það fjallaði líka um mótlæti sem fólk getur lent í þegar það flytur til annars lands á sextugs aldri. En ákvörðun um þetta verður tekin síðar.

Þetta var þægileg ferð eins og sagt var í byrjun. Við vorum að mestu búin að ganga frá okkur í nýjum húsakynnum og það var svolítið eins og við værum að fara í sumarfrí. Svo áðum við á veitingastað sem við köllum stundum Hreðavatnsskála. Við gefum svona stöðum gjarnan nöfn eftir íslenskum veitingastöðum sem við notuðum á ferðum milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þar fegnum við okkur væna brauðsneið með góðu kaffi, og hvað þessi brauðsneið hressti okkur mikið. Enda hét brauðið rúgbrauð þó að það væri ekki íslenskt rúgbrauð. Svo hélt ferðin áfram að vera góð og við töluðum hvað eftir annað um það hvílíkur munur það væri að keyra snjólausan og þurran veg í stað snjóa, hálku og saltyrju.

Nú er að verða áliðið að mínu mati og ég er mátulega þreyttur til að geta bullað hvaða vitleysu sem er. Á þessum mínútum eru síðustu kjörseðlarnir í þjóðaratkvæðagreiðslunni að detta í kjörkassana á Íslandi. Ég er orðinn svo gamall og ryðgaður að ég skil ekki þessa þjóðaratkvæðagreiðslu en ég veit að henni lýkur á tilsettum tíma þó að ég skilji hana ekki. Ég vona bara að þjóðin bjargi sér út úr þeirri óáran sem ríkir. Ég vona líka að nú fari að minnka svo snjóalög í Sólvallaskógi að ég geti farið að heimsækja vini mína þar. Í gærmorgun komu Stína og Lars, hinir ungu nágrannar okkar, í morgunkaffi til okkar með litlu Ölmu og Siv. Við töluðum um glugga og útsýni og Lars sagði að það væri engin tilviljun að við byggjum þarna, það væri vegna þess að það væri svo rosalega fallegt. Það var svo gaman að heyra um verðmætamat þessa unga fólks og hvað þau velja sér í lífinu. Stína og Lars gætu verið barnabörnin okkar og þau velja sveitina vegna þess að sveitin sem þau völdu er svo falleg.

Milli Örebro og Fjugesta

Við höfum verið spurð eftir því hvar Sólvellir eru. Því er einfaldast að svara á þann hátt að þeir séu mitt á milli Örebro og Fjugesta, svolítið sunnan við beina línu, og Fjugesta er suðvestan við Örebro. Þetta segir kannski ósköp lítið fyrir þá sem ekki þekkja til. En þá get ég líka sagt að frá Sólvöllum til Marieberg, í suðvesturkantinum af Örebro, eru 15 km. Marieberg er verslunarhverfi með um eða yfir 200 verslanir og það er þess vegna sem ég kalla það oft höfuðstöðvar Mamons í Örebro. Við getum sem sagt fengið það mesta í Marieberg þegar okkur vantar eitthvað á Sólvöllum og ef okkur finnst ekki svo vera er kannski orðið tímabært að fara til læknis. Frá Sólvöllum til Fjugesta, sem er höfuðstöðvar Lekebergshrepps, eru einnig 15 km.

Síðan það var ákveðið að við flyttum hingað og sérstaklega eftir að við fluttum hefur orðið breyting á fólki í nágrenninu. Áður heilsuðu flestir sem fóru framhjá yfir grjótvegginn ef við vorum útanhúss og voru ósköp kurteisir. Núna kallar fólk kveðjur sínar á löngu færi og óskar okkur velkomin og segir að það sé mikið gaman að við viljum búa hér. Svo stoppar fólk á veginum framan við húsið og spjallar. Nágrannarnir eru nefnilega duglegir við gönguferðir og segja að útsýnið hér á þessum slóðum sé fallegast frá okkur séð. Það svo sem vitum við en það er líka gaman að heyra fólk segja það.

Þessi sígilda mynd móti Kilsbergen
Það er þetta útsýni sem átt er við að sé fallegast. Það er svolítið erfitt að ná góðri mynd af því, það þarf eiginlega að draga það svolítið að til að sjá hvernig það raunverulega er.


Hér er svo sumarmynd af þessu útsýni, mynd sem ég er oft búinn að setja á bloggið, og hér er myndin dregin all mikið að. Hér þarf að fara vel með og láta þessa opnun ekki fyllast af skógi því að þá hættir fólk að nenna að ganga hingað uppeftir til að njóta þess og þá kannski fækkar hollum gönguferðum. Eitt sinn þegar Arnold bóndi var að grisja í skóginum til hægri fór ég til hans og spurði hvort ég mætti ekki fella fimm eða sex tré sem voru farin að takmarka opið. Jú, það mátti ég gjarnan gera og hann tók því svo vel að ég spurði þá hvort ég mætti ekki líka fella þessi tvö sem eru í miðju opinu. En þá gekk ég of langt og Arnold sagði nei. Hann hefur kannski búist við að ég gengi endalaust á lagið. En alla vega, trén sem ég mátti fella felldi ég, hreinsaði af þeim greinarnar og dró þær inn í skógin og svo hirti Arnold viðinn. Svo var um það samið og þannig fór það fram. Í vor þarf ég að semja við hann upp á nýtt um tvö tré sem eru farin að skyggja á frá vinstri og það kemur nú til með að ganga upp. Ég veit líka að syni hans og tengdadóttur sem búa hér í næst næsta húsi við okkur þykir þessi útsýnispunktur ekki mega hverfa.

Íbúarnir hér í nágrenninu eru glaðir yfir að við viljum búa í þeirra sveit en íbúarnir við Mejramvägen sögðust ekki vera glaðir yfir að við færum. Svona er lífið. Hér heima á Sólvöllum er nú nokkurn vegin búið að koma hlutum fyrir. Heimilið er farið að líta vel út. Mér datt ekki í hug að Valdís ætti alla þá orku sem hún er búin að leggja í þessa vinnu en hún er ekki af baki dottin fiskimannsdóttirin frá Hrísey. Um hádegi í dag leggjum við af stað til Uppsala. Hann nafni minn verður sex mánaða um helgina og ég hugsa kannski að það verði veisla. Ég stoppa þar í fáeina daga en Valdís eitthvað lengur. Ég fer svo heim til að vinna að smá atriðum sem eru eftir varðandi viðbyggingarnar tvær. Það er merkilegt hvað síðustu smáatriðin eru tímafrek. Svo vinn ég líka nokkrar nætur í Vornesi næstu tvær vikurnar og fæ þá fyrir svolitlu salti í grautinn.

Ég hlakka til

Ég sagði um daginn að ég hefði borið inn við til einnar viku en þar fór ég ekki með rátt mál. Það varð mun kaldara en mig grunaði og kaldara en veðurspáin gerði ráð fyrir þá og á morgun verður borinn inn viður á ný. Níutíu og átta skrerfa slóðirnar umhverfis og milli húsanna eru greiðfærar en þó svolítið hálar. Það var eins og snjórinn dýpkaði ekki síðast þegar það snjóaði enda er jörð ófrosin undir snjónum og mig grunar að snjórinn bráðni ögn þó að það sé frost. Hann er píniulítið krapakenndur neðst og festist auðveldlega á skóflu.

Það er líf þarna undir
Ég man vel eftir þegar bændur hittust fyrir meira en hálfri öld, drukku kaffi, tóku í nefið  og ræddu tíðarfar. Ég kannast við setningar eins og að "hann kæmi bara grænn undan" þar sem höfðu verið djúpir skaflar. Þannig verður það hér þegar vorar. Þessi vinnubekkur minn á myndinni er rúmlega 90 sm hár og stendur á svolítilli upphækkun þar að auki. Þessi er jafnaðar snjódýptin. Undir snjónum lifa ýmsir góðu lífi, til dæmis mýs og festingar. Broddgölturinn sem er viðkvæmur og sefur í dvala er líka vel varinn undir þessari hvítu voð þó að hún sé ekki meira en rétt um frostark niðri við jörð. En það tryggir líka broddgeltinum frostleysu í fylgsni sýnu og svo er það fyrir fleiri af íbúum þessa lands.

Og það er búið að vera mikið líf ofan á snjónum líka
En það er líka mikið líf ofan á snjónum eins og sjá má hér, en þetta er svo sem 15 metra sunnan við Sólvallahúsið. En þessi för eru í fyrsta lagi eftir næturgesti. Það er að nálgast miðnætti og nú eru trúlega hérar og dádýr rétt sunnan við húsið að gæða sér á eplum, gulrótum og höfrum sem við bjóðum þeim upp á í kvöld. Þegar dádýrafóðrið kemur aftur í verslunina Nágrannabæinn verðum við að kaupa sekk. Í dag var það búið og það voru fleiri eins og ég að kaupa hafra til að gefa. Hafrarnir eru vel étnir hjá mér sagði afgreiðslumaður í Nágrannabænum þegar ég spurði ráða í dag. En ég gef þeim líka gulrætur, sagði hann, dádýrin þurfa safann úr gulrótunum. Já, og ég gef þeim epli líka upplýsti ég hann um. Já, það gengur líka vel samsinnti hann. Hann hlýtur að búa í sveit maðurinn sá.

Góðgæti handa dádýrum og hérum
Hér er brytjun í gangi á eldhúsbekknum. Þetta lítur ekki sem verst út fyrir fjórfætlingana enda hvarf það snarlega þegar dimmdi kvöldið sem þetta var skorið man ég. Dádýrin ráða ekki við frosin epli eða gulrætur, þess vegna brytjum við.

Á laugardag förum við til Uppsala. Það er svo sannarlega kominn tími til að hitta hann nafna minn. Þá verðum við að treysta því að nágrannarnir kringum Sólvelli verði heima og gefi svöngum dýrum svolítið fóður. Ég hlakka til Uppsalaferðar og ég hlakka til að sjá jörð koma græna undan snjó í vor. Ég hlakka til að það verði fært út í skóg sem það alls ekki er núna fyrir gangandi mann, jafnvel þó að ég sé fyrrverandi skaftfellskur smalamaður. Já, ég hlakka til margs þessa stundina, til dæmis að setjast upp í rútu inn í Örebro í sumar eins og við erum búin að tala um og aka niður að Gautaskurði og fara þar í siglingu eða fara í skoðunarferð upp í Värmland á slóðir Selmu Lagerlöv og Göran Tunström. Vitið þið að Göran Tunström skrifaði skáldsögu þar sem Ísland er vetvangurinn. Mér líkar vel í svona rútuferðum, þær eru svo áhyggjulausar og svo notalegt að hlusta á góðan leiðsögumann eða konu. En á þessu augnabliki hlakka ég mest til að leggja mig á koddann eftir smá stund og sigla hraðbyri inn í draumalandið.

Orðinn gleyminn eða hvað?

Fyrir nokkrum dögum fengum við e-póst frá henni Súsönnu í Falun. Súsanna er fæseysk, hún er hjúkrunarfræðingur og við unnum saman upp í Svartnesi í Dölunum á árdögum okkar Valdísar í Svíþjóð. Hún dvaldi um tíma á íslandi undir lok síðustu aldar og talar nánast reiprennandi íslensku. Hún á líka móðursystkini í Keflavík, Reykjavík og Ólafsvík. Kynni ég Súsönnu þá ekki frekar en sný mér að e-póstinum frá henni. Þetta er frásögn af manni sem ætlar að framkvæma mjög ákveðinn hlut að morgni og svo var hann önnum kafinn allan daginn en þegar dagur var að kvöldi kominn hafði honum ekki tekist að framkvæma eitt einasta gagnlegt handtak.

Mér finnst sem ég hafi verið líkur þessum manni í dag en ég get þó fullyrt að mér hefur tekist að framkvæma örlítið. En sem dæmi um mótlæti mitt í dag get ég nefnt leit að tommustokk, hamri, handföngum á skáp, skrúfjárni, skrúfum og fleiru. Það versta hefur verið að ég hef haft þessa hluti í höndunum og lagt þá nákvæmlega þar sem ég ætla að nota þá en sá þá svo ekki þegar til átti að taka. Svo kom Valdís stundum og sagði einfaldlega; nú þetta er hérna. Það síðasta var þegar ég ætlaði að hlaða myndum frá myndavélinni og inn á tölvuna. Ég tók snúruna sem notuð er við það og lagði hana á nákvæmlega þar sem ég mundi finna hana. Svo hagræddi ég tölvunni og síðan myndavélinni og svo ætlaði ég að taka snúruna en fann hana alls ekki. Ég var búinn að snúa stólnum í hring og kíkja bakvið tölvuna, undir borðið og stólinn en ekkert hjálpaði. Ég ákvað því að standa upp til að fá betri yfirsýn. Þá datt snúran af hnjánum á mér niður á gólfið. Get ég bara sagt frá svona löguðu?

Valdís var í Örebro í dag hittust þær vinkonurnar sem borða saman einu sinni í mánuði. Þegar ég sótti hana komum við við í okkar gömlu íbúð til að sækja póst sem okkur hafði borist þangað. Gekk ég þá fram hjá hurðinni að bílskúrnum sem við höfðum. Þá hugsaði ég til nokkurs sem skeði fyrir tíu til tólf árum. Ég týndi lyklinum að bílskúrnum sem við leigðum þá og varð ég að fara til leigufyrirtækisins til að fá nýjan lykil. Var ég þá á einu andartaki dæmdur til að borga nýjan lykil og einnig nýja læsingu þar sem hugsanlegt var talið að einhver illa innrættur maður hefði nú lykilinn undir höndum. Svo fékk ég reikning um næstu mánaðamót upp á 750 krónur. Þá varð ég svo nýskur að það ískraði í peningapúkanum í mér. Áður en ég borgaði reikningana fór ég út að bílskúr og athugaði hvort búið væri að skipta um læsingu og svo var ei. Ég borgaði því ekki nefndan reikning og fékk áminningu. Ekki var skipt um lás og ég þráaðist. Svo fluttum við úr þessu bæjarhverfi og enn önnur áminning barst. Þá fór ég á skrifstofu fyrirtækisins og sagðist ekki borga reikninginn fyrr en ég vissi að búiið væri að skipta um lás. Mér var tjáð að það væri allt í lagi og svo liðu um tvö ár. Á þeim tíma kom ég stundum að bílskúrshurðinni og til að athuga hvernig gengi.

Eitt sinn kom ég þangað í dimmu að kvöldi og þurfti að beygja mig niður að læsingunni til að sjá hana almennilega og sá ég að gamla læsingin var þar enn í góðu gildi. Þegar ég rétti úr mér og sneri mér við stóð þar maður með lykil í hendinni og beið þess að þessi undarlegi maður sem var með nefið upp í bílskúrslæsingunni hans færi burtu. Mér brá en datt ekki í hug að bara smjúga í burtu. Ég sagði manninum að ég hefði eitt sinn haft þennan skúr en vildi alls ekki segja honum að lykill að skúrnum væri jafnvel á faralds fæti. Hann sagði að fullum tank af bensíni hefði nýlega verið stolið frá sér og þá hefði hann ákveðið að leigja þennan skúr. Svo spjölluðum við svolítið. Allt í einu spurði hann frá hvaða landi ég kæmi. Frá Íslandi svaraði ég. Þá getum við bara talað íslensku sagði hann. Hann hafði búið í Svíþjóð í 19 ár.

Eftir um það bil tvö ár frá því að lykillinn týndist sá ég að það var búið að skipta um læsingu. Engan hafði ég fengið reikninginn. Þarna sjáið þið, það getur borgað sig að vera svolítil kjaftfor og láta ekki kúga sig, hugsaði ég. Ég var harð ánægður með mig. Nokkrum vikum seinna kom bréf frá gamla húsaleigufyrirtækinu. Í því var reikningur upp á 750 krónur og 340 krónur í vexti. Ég stein hélt kjafti, borgaði reikninginn og gortaði ekki yfir viðskiptahæfileikum mínum.

Zxcvbnsdfghyuiolö

Ég er þreyttur eftir daginn og ég held jafnvel að Valdís sé þreytt líka. En það hefur líka heil mikið skeð og það er farið að líkjast einhverju hér heima og Valdís er aðal driffjöðrin innanhúss. Í morgun hafði ég hraðann á og hreinsaði 30 sm djúpan snjó úr slóðunum milli húsanna hér. Þessar slóðir eru 98 smalamannsskref hef ég mælt. Þið vitið að röskur smalamaður tekur stór skref á haustin í skaftfellska fjallendinu og mín skref fengu sitt uppeldi þar. Síðan er búið að bera hluta af kössunum eftir þessum slóðum þar sem hver hlutur skal fá sitt aðsetur í viðeigandi geymslu. Það er að segja þeir hlutir sem þola kalda geymslu. Hinu reynum við að koma fyrir í sjáfum bústaðnum.

Svo kom hann Anders smiður og yfir heitum vöfflum frá Valdísi ræddum við um byggingarframkvæmdir vorsins. Ansvíti er þetta fínt sagði Anders þegar Valdís lagði vöfflurnar og rjómann á borðið. Nú þarf ég að sinna svolítið húsateikningum og vona ég að ég geti áfram notið aðstoðar Péturs tengdasonar sem er mjög góður að teikna með tölvu. Svoleiðis teikningar verða voða fínar þó að það sé líka gaman að teikna með reglustiku og blýanti. Það er auðvitað voða ekta að teikna með reglustiku og blýanti en tölvuteikningin gefur möguleika á að gera hlutina fína, að breyta og gera tilraunir og til og með að hafa teikninguna með verðandi lit hússins.

Milli Örebro og Sólvalla er verið að byggja hús og það er með útbyggðri forstofu sem við höfum horft á á ferðum okkar þar framhjá. Okkur hefur þótt hlutföllin í þessari útbyggðu forstofu falleg. Þegar ég var að koma heim úr vinnu á sunnudaginn var ákvað ég að koma þarna við þar sem menn voru greinilega þar að vinna og ætlaði ég að biðja leyfis að mæla forstofuna. Það getur verið gott að huga að fyrirmyndum og sérstaklega þegar þær eru góðar. Ég bankaði á dyrnar og gekk svo inn. Eftir enhverjum gangi frá vinstri kom ungur, viðkunnalegur maður og horfði á mig. Niður stiga kom nokkuð eldri maður og stoppaði neðarlega í stiganum. Sá í stiganum gat vel verið faðir þess yngri.

Nú voru þeir þarna báðir rétt hjá mér og biðu þess að eitthvað skeði og ég bar upp erindið; má ég mæla forstofuna? Svarið sem ég fékk gat hljómað eitthvað á þessa leið: Zxcvbnsdfghyuiolö iuytrejklxcv asdfzxc. Ég var engu nær og hef sjálfsagt litið út eins og fuglahólkur. Þá leit föðurlegi maðurinn í stiganum á yngri maninn og bað hann með augnaráðinu að gera eitthvað. Þá sagði sá yngri hægt og skýrt: "Við tölum enga sænsku". Þá sagði ég á sænsku að það væri ekkert við þvi að gera, þakkaði fyrir og gekk út. Þetta var væntanlega eina sænskan sem þessir tveir menn töluðu. Svo mældi ég forstofuna og gekk eftir það út að bílnum mínum og sá í leiðinni að bíll manna sem voru að vinna í húsinu var með Eistnesku númeri. Ekkert létt mál það hugsaði ég.

Það er kominn háttatími á Sólvöllum.

Mikið verður gott að koma heim

Í morgun um hádegi fórum við Valdís til banka í Örebro þar sem endanlega var gengið frá sölu á bústaðsrétaríbúðinni sem við höfum átt í ellefu ár. Það var hálfgert stórhríðarveður á leiðinni og vegirnir sem höfðu verið ruddir fyrr um morguninn voru leiðinlegir yfirferðar og verulegrar aðgæslu var þörf.

Það eru ung hjón með tæplega ársgamla stúlku sem keyptu af okkur. Þau skoðuðu íbúðina fyrst um miðjan desember en á meðan sátum við Valdís á kaffihúsi í miðbæ Örebro og drukkum kaffi og átum tertu með. Daginn eftir byrjuðu að berast tilboð í íbúðina frá tveimur fjölskyldum og stóð nú yfir hið trylltasta tímabil í nákvæmlega tvo sólarhringa. Þessar fjölskyldur hækkuðu verðið jafnt og þétt þangað til önnur fjölskyldan hækkaði verðið mikið í 21. tilboðinu sem barst og þar með gafst hin upp. Við fengum þessi tilboð í sms jafn óðum og þau bárust. Konurnar í báðum fjölskyldunum sem buðu í heita Martina sem er að því ég best veit frekar sjaldgæft nafn í Svíþjóð.

Tveimur dögum seinna kom fasteignasalinn með þessi hjón heim til okkar í gömlu íbúðina til að skrifa undir kaupsamning og þá hittumst við í fyrsta skipti. Mikið voru þau spennt og skemmtilega spennt verð ég að segja. Þau fengu að kíkja inn í skápa, inn í geymslur og ganga fram og til baka, eiginlega að æfa sig aðeins að hreyfa sig þarna. Valdís bauð þeim upp á kaffi og brúntertu sem hún var búin að baka í tilefni jólanna. Maðurinn, Emil, hló mikið og lék á alls oddi en konan, Martina, var heldur lágværari í gleði sinni. Hún sagði að þegar hún kom á skoðunardaginn hefði það bara sagt klikk þegar hún hafði stigið upp úr efstu tröppunni, þetta væri hennar rétta framtíðarheimili. Hún stóð nú í eldhúsinu eftir undirskrift kaupsamningsins og strauk með fingurgómunum eftir harðplastinu á eldhúsbekknum og bað svo Emil að koma. Þegar hann var kominn upp að hlið hennar hvíslaði hún að honum að svona hefði henni alltaf sótt svo fallegt. Já, það var mikil hamingja.

Eftir viðskiptin þarna í bankanum ætluðu þau að sækja dótturina í pössun, setja nokkra kassa af búslóð í bílinn og flýta sér svo í nýju íbúðina sína til að skoða hana alein. Og hvað þau hlökkuðu til, það var hreinlega stórkostlegt. Við Valdís fórum hins vegar í IKEA til að kaupa smávegis hingað á Sólvelli og fengum okkur kaffi á eftir. Vegna þess að Valdís hafði IKEA kort fengum við kaffi og vel með því á 20 krónur. Það var svolítið gaman hjá okkur líka.

Eftir fjögurra tíma dvöl í Örebro héldum við af stað heim til Sólvalla og þá var bæði veðrátta og veglag svipað og það hafði verið um hádegisbilið. Þegar við vorum komin svo sem hálfa leið varð Valdísi að orði: Mikið verður gott að koma heim og kveikja upp í kamínunni. Ég hafði ekki haft nein áhrif á þetta, það bara kom svona líka eðlilega, en mikið var ég feginn að hún sagði það, að hún hlakkaði að koma heim til Sólvalla.

Við erum nú búin að endurskipuleggja fjármál okkar hressilega og stöndum mjög vel að vígi. Við stöndum svo vel að vígi að íslensk fjármál skipta okkur ekki lengur svo miklu máli. Þar með skýrist hvers vegna ég hafði þörf fyrir að blogga um allt annað efni í blogginu fyrr í kvöld. Ég ætla síðan að reyna að láta íslenskar fréttir ekki skipta mig miklu máli héðan eftir. Mér leiðist að þessi tvö mál skyldu blandast saman í bloggum dagsins. Það er kannski óþarfi að segja svo mikið frá eigin högum sem ég geri, en svona hlutir eru okkur engin leyndarmál. Við eigum yfir höfuð lítið af leyndarmálum.


Eftir hádegi á morgun kemur til okkar smiður sem við höfum ráðið til að byggja frekar við Sólvelli. Hann er búinn að koma einu sinni til að athuga aðstæður og á morgun ætlum við að fara í gegnum það aftur.


Happy bwoy in stroller by pinkhaddock
Unga manninn sem við sjáum á þessum tveimur myndum ætlum við svo að heimsækja um helgina. Mikið er gott að við erum svo langt komin með flutninginn að við getum tekið okkur tíma til þess. Við höfum ekki hitt hann í meira en mánuð. Við heimsækjum líka foreldra hans í leiðinni.

Grocery shopping. by pinkhaddock

Ég get ekki annað

Ég var byrjaður að blogga um ákveðið efni fyrir nokkrum hálftímum en þá sóttu á mig hlutir sem gerðu mér ókleift að halda því áfram. Ég hefði að vísu getað bloggað um hvort tveggja í sama bloggi en efnið sem sótti á mig er hið mesta óþverramál og ég vildi ekki blanda óþverramáli saman við góð mál.

Fyrir hálfu áru hefði verið hægt að ljúka Icesave málinu og snúa sér að öðrum mikilvægu málum, svo sem vanda heimilanna og atvinnuvegunum. En það skeði ekki. Í stað þess þjörkuðu menn á alþingi Íslendinga og ekkert skeði og allt lenti á hakanum og er þar enn. Ég hef séð útreikninga sem benta til þess að hver mánuður sem líður án afgreiðslu á Icesave kosti íslenskt samfélag fleiri tugi miljarða á mánuði. Ef ég lækka þessa útreikninga um nokkra miljarða á mánuði verða samt eftir tveit til þrír miljarðar. Áðan sagði ég að hægt hefði verið að ljúka málinu fyrir hálfu ári og þá hefðu sparast 120 til 180 miljarðar samkvæmt ofansögðu. Þetta kannski reiknast ekki til peninga á Íslandi, svona smá upphæðir, en í mínum augum er það mikið fé. Svo geta menn kannski lækkað Icesave kröfuna um einhverja miljarða og vextina um eitthvað smávegis miðað við samningana sem voru klárir fyrir hálfu ári, en fyrir hverju hefur verið barist?

Í minni vinnu segjum við oft við bitra menn og konur að þau hafi um tvennt að velja

réttlæti

eða

sálarfrið.

Sumir átta sig samstundis á þessu en aðrir berja höfðinu við steininn enn um sinn en gefa sig svo. Þetta fólk velur sem sagt sálarfriðinn og gengur síðan betur. En það eru alltaf einhverjir sem bara geta ekki gefið sig vegna einhvers óréttlætis sem þeir hafa orðið fyrir fyrr í lífinu og þeim gengur ekki vel, það er að segja þeir sem velja vonlaust réttlæti í staðinn fyrir sálarfrið. Hér veit ég hvað ég er að tala um. Ég þarf ekki að segja meira um þetta, það hljóta allir að skilja hvað ég meina. Hins vegar veit ég að ég hef einfaldað hlutina með þessum orðum en ég er að forðast að skrifa langa grein.

Fyrir nokkrum árum lagði breiðbandsfyrirtæki breiðband í 103 íbúðir hjá bústaðsréttarfélaginu þar sem við Valdís bjuggum. Verkið fór einhverja mánuði fram úr áætlun og eftir nokkuð þjark bauð félagið upp á ókeypis breiðband í hálft ár sem bætur fyrir töfina. Síðan var boðað til fundar og íbúum þessara 103 íbúða var kynnt sáttatilllaga breiðbandsfélagsins. Flestum fannst þetta góð lausn en nokkrir gerðust all háværir og vildu fara í mál. Stjórn bústaðsréttarfélagsins sagðist vita að málssókn gæti kostað 600 000 sænskar krónur og mjög væri óvíst hvort málið ynnist. Eigum við samt að fara í mál? spurði stjórnin. Nokkrir héldu sig við það að málssókn væri óumflýjanleg til að réttlætið næði fram að ganga. Ha ha ha. Auðvitað var ekki farið í mál þrátt fyrir þessar raddir. Þessar 600 000 Skr er jafnvirði 10,8 miljóna íslenskra króna í dag. Stundum finnst mér að Icesave málið líkist þessu. Icesaveskuldin er víst óumflýjanleg og það mun sagan sanna. Er hún ekki nógu há þegar í dag þó að íslenskt samfélag þurfi ekki að bera stórfelldan skaða hvern einsta dag sem þetta mál er ekki afgreitt? Stór hluti af því að málið er ekki afgreitt er gamaldags ást á gamla flokknum sínum. Væri ekki þessi gamaldags ást fyrir hendi væri málið fyrir löngu afgreitt og Íslendingar ynnu að þörfum málum í dag og sáttin í þjóðfélaginu væri sú að menn svæfu mikið betur á næturnar.

Nú get ég snúið mér að blogginu sem ég byrjaði á fyrr í kvöld.
RSS 2.0