Að kunna að leysa vandamál

Hvað er eiginlega að ske? Ég las í fimm daga spánni á textavarpinu í morgun  hitatölur upp á fjórar, fimm og sex gráður. Svona hefur ekki sést síðustu þrjá mánuðina en nú allt í einu skeður það. Ég veit bara ekki mitt rjúkandi ráð. Svo hef ég haldið mig inni hér um bil allan daginn og kom ekki út undir bert loft fyrr en klukkan að ganga fimm. Þá sýndi mælirinn í bílnum (sá mælirinn sem ég treysti best) fjögurra stiga hita og það var ofurlítill andvari. Það var sem sagt hláka og er enn klukkan níu og á samkvæmt spá að vera áfram. Annars er eins gott að það komi ekki asahláka enda er ekki gert ráð fyrir því.

Að ég hef ekki verið úti í góða veðrinu kemur til af þeim þráa mínum að ljúka sem fyrst við innansleikjurnar sem ég talaði um í fyrradag. Í dag hefur það verið spörslun, slípun og lökkun. Að sparsla er svo sem ekki neitt neitt, að slípa er óþrifalegt og safnast gjarnan hvíta duftið í nefið og getur ert fram hnerra. En að lakka með hvítu lakki, það er gaman. Þá sé ég eitthvað eftir mig og svo get ég gengið nokkur skref aftur á bak og virt fyrir mér og dáðst að því sem ég hef komið til leiðar. En nú er þetta búið og því get ég farið ánægður með þann þátt í vinnuna á morgun vitandi það að lakkið er að harðna og verða sterkt. Síðan er eftir að smíða eina litla hurð fyrir opið upp í loftgeymsluna og þá er ég búinn með allt sem ég hefði viljað vera búinn með fyrir mjaðmaraðgerðina í haust.

Mér skilst að tónlistarhúsið við Reykjavíkurhöfn sé stórt hús, mikið stórt. Sólvellir eru lítið hús, mikið lítið. En ég held að það sé búið að skrifa mikið meira um Sólvallahúsið en tónlistarhúsið. Það hefur bara verið skrifað gott um Sólvallahúsið, sjálfsagt tónlistarhúsið líka.

Í dag hefur mér verið hugsað til smá atburðar sem átti sér stað fyrir einu og hálfu ári. Það var háðung sem ég hafnaði í. Ég var á leið á Sólvelli frá Örebro nokkuð snemma morguns og kom við í IKEA í leiðinni. Ég lagði bílnum nokkuð langt frá húsinu þó að þar væru frekar fáir á ferðinni. Bifreiðastæðið er fyrir nokkrar stórar verslanir og er nokkrir hektarar að stærð giska ég á. Þegar ég var að koma að bílnum eftir að hafa verið í versluninni tók ég eftir bíl sem kom á nokkurri ferð og stefndi beint þangað sem ég var og það merktist á löngu færi að þar var einhver sem virtist eiga erindi við mig. Maður sem talaði hálfgerða útlensku og hálfgerða sænsku og hálfgerða ensku ávarpaði mig og spurði hvort hann mætti tala við mig. Ég játti því.

Hann sagðist hafa verið á ráðstefnu sölumanna í Örebro, sölumanna sem selja skinnföt. Hann sagði að þeir sölumennirnir hefðu alltaf með sér föt til að gefa hver öðrum við svona tækifæri og hann væri með fullt af fötum í aftursætinu sem hann hefði engan áhuga fyrir að taka sem flugfarangur til Ítalíu. Ég gæti því keypt þarna fjóra jakka á gjafvirði og hann hefði valið mig þarna vegna þess að hann sem fagmaður hefði séð á löngu færi að jakkarnir mundu passa á mig. Við þyrftum að hafa hraðann á þar sem hann væri á hraðferð til Arlanda til að taka flug til Ítalíu.

Maðurinn var kurteis, skemmtilegur og fyndinn, og alveg sérstaklega var hann svona líka sannfærandi að það var frá mínum bæjardyrum séð ekkert vafamál að allt væri með felldu. Og ég segi aftur; ekkert vafamál. Með það fór ég í hraðbanka til að taka út peninga og þegar ég lagði af stað þangað kallaði hann á eftir mér og sagði að ég hefði ekki læst bílnum. Ég læsti þá bílnum, sótti peningana og svo keypti ég fjóra jakka á góðu verði og hann var þá þegar búinn að sannfæra mig um það hversu verðmætir þessir jakkar mundu verða fyrir mig. Að þessu búnu spurði hann til vegar til Arlanda.

Ég hélt áfram til Sólvalla og á miðri leið byrjaði ég að skilja að ég hefði verið hafður að fífli. Ég hafði ekkert með jakkana að gera, maðurinn fór sennilega einn hring á bílastæðinu og valdi svo annan mann til að plata, það var engin ráðstefna sölumanna í Örebro, hann rataði vel til Arlanda, hann var sænskur og talaði sænsku og hann "tók eftir þvi að ég gleymdi að læsa bílnum". Ég skammaðist mín álíka mikið og í gamla daga þegar ég hafði hagað mér eins og fífl á fylleríi. Það er fjarri mér að vilja kaupa á svörtu.´

Þessi frásögn stemmir fullkomlega við svo margar sem ég hef heyrt aðra segja frá. Þessir menn eru svo sannfærandi að það er eins og dáleiðsla og mikið af varfærnu fólki hefur orðið fyrir tjóni vegna svona manna. Nú varð ég svo sem ekki fyrir tjóni þar sem ég hafði fjóra jakka sem reyndar hafa komið að notum. Ég segi frá þessu vegna þess að í gærkvöldi hlustaði ég á gamlan sjónvarpsþátt þar sem maður vissi til 100 % hvernig ætti að leysa ákveðin vandamál. Mér fannst hann vera af sömu sort og sölumaðurinn sem lét mig hafa mig að fífli.



Kommentarer
Guðmundur Ragnarsson

Sæll Guðjón.

það er alltaf gaman að lesa færslurnar þínar. Stundum finnst mér sumt sem þú skrifar alveg geta átt við sjálfan mig, stundum þveröfugt. Til dæmis þessi pistill; ég var að koma úr ´stuttri ferð í húsið okkar í Borgarfirðinum. Þar horfði ég á glugga sem bíða frágangs,( setja nýjar gluggakistur eftir gluggaskipti ) og breytingu á hitalögn o.s. frv. Og ég varð svo yfirþyrmandi þreyttur af að sjá allt þetta, að ég bara lagði mig eftir hádegið. Innansleikjurnar á Sólvöllum yrðu sennilega lífseigar ef þú afgreiddir þær með sama hætti...

Já og seinni hlutinn, með jakkasölumanninn; höfum við ekki flest þessa tilhneigingu að vilja gera góð kaup? Stundum lendir þessi von um góð kaup á gráa svæðinu, þótt maður vilji ekki vera þjófsnautur, vill maður stundum ekkert endilega vita hlutina út í hörgul...Það er nefnilega til svona svipuð saga af mér og stundum grínumst við hjónin með þetta þegar ég er að láta mér detta í hug að falla fyrir einhverju alveg einstöku boði :O)

Kær kveðja til ykkar Valdísar frá Guðmundi

2010-03-21 @ 23:26:43


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0