Í Stokkhólmi

Hvað gerir maður um helgi í Stokkhólmi? Það er svo undarlegt að það þarf ekki að vera svo mikil dagskrá. Við fórum um þessa helgi, 26. til 28. ágúst, til að hitta Rósu og fjölskyldu. Við spjölluðum saman, lékum okkur við Hannes, skruppum í bæinn, komum heim til þeirra aftur og vorum meira saman. Þannig leið helgin og þetta var vel heppnuð ferð til Stokkhólms.


Auðvitað er um að gera að leika sér svolítið og endurnýja kynnin og það er að sjá að það gangi ágætlega. Ég að vísu puðraði svo mikið og lengi að ég var farinn að dofna í andlitinu. En samkomulagið var skínandi og bílarnir í fínasta lagi.




Svo var að fljúgast svolítið á við mömmu og svo að vera góður við hana.


Þegar við fórum út tók amma á sig mikla ábyrgð, var vagnstjóri og drengurinn sofnaði.




Svo var ábyrgð ömmu enn meiri þegar Rósa og Pétur fóru í Hemtex að leita að einhverju sem vantaði og amma var ein með drenginn í mannhafinu í Sergilsgötunni rétt hjá Sergilstorgi. Amma situr þarna aðeins til hægri við miðja mynd og heldur í vagninn. Vagninum skal hún ekki sleppa.


Svo komu Rósa og Pétur út úr Hemtex sem er þarna til hægri og skima eftir ömmu og dreng. Nú sjáum við Sergilsgötuna í hina áttina og það er sama mannhafið þar líka. Ég gleymdi að spyrja þau að hverju þau voru að hlæja, en ég tók eftir því þegar ég tók myndina að þau fóru skyndilega að skellihlæja.


Þarna hafa þau fundið það sem þau leituðu að, ömmu og drenginn. Eitt er hallærislegt á þessari mynd, maður að reykja í mannhafinu í glampandi sól og hita.


Þarna koma þau niður Kungsgatan Rósa og Pétur -og sjáum nú til, þarna er Valdís lika lengst til hægri á myndinni. Hún er ennþá með kerruna. Það er fullt af fólki í Kungsgatan líka enda blíðviðri, laugardagur og borgað út í gær.


Ég var búinn að vera á hlaupum með myndavélina og þarna stilltum við okkur upp á bekknum nafnarnir. Takið bara eftir; við erum ekki aldeilis kæruleysislegir á svipinn. Ég er svo sem ekki vanur að dylja mig á bakvið sólgleraugu en svo varð það þó á þessari mynd.


Á leikvelli einum fundum við bát og þeir feðgarnir skruppu í smá sjóferð. Pabbi stendur við stýrið en Hannes stígur ölduna.




Eftir svona útiveru er mikið gott að borða og melónur eru nú heldur betur svalandi. Það er líka auðvelt að borða þær þegar búið er að festa hendur á þeim.


Svo er að atast aðeins í afa áður en hann fer. Pota í hann með skrýtnu dýri og afi næstum veltur af stólnum.


Ég verð nú að viðurkenna að þó að við værum harðánægð með ferðina þegar við lögðum af stað frá Stokkhólmi um hádegisbilið í dag, þá sé ég þegar ég er að eiga við þessar myndir að ferin var mikið ríkulegri en ég áttaði mig á. Það eru sjálfsagt einar 50 eða 60 myndir aðrar sem hægt hefði verið að nota. Valdís er líka búin að setja slatta af myndum á Flipper þar sem hægt er að skoða þær. Við þökkum kærlega fyrir okkur Stokkhólmsbúar.

Á morgun er virkur dagur hér á Sólvöllum. Grasið æddi upp um helgina þannig að Valdís verður á fullri ferð með sláttuvélina, penslar verða á lofti en nú með hvítum lit. Lífið gengur sinn vana gang eftir þessa helgarferð og við sjáum svo til hvaða tilbreytingu við veljum okkur næst.

Ullin

Nú ætla ég að ræða svolítið margnefnda skerjagarðsferð sem við Valdís fórum í á mánudaginn var. Málið er að það eru farnar ferðir með jöfnu millibili vítt og breytt frá þessu landi sem er stefnt á ólíka staði í Stokkhólmi eða nágrenni, en þessar ferðir hafa þó allar eitt ákveðið markmið, það er að stoppa á stað í Stokkhólmi sem heitir Solvalla (Sólvellir) og er kappreiðastaður mikill. Það eru kynntar ákveðnar ullarvörur og tekið við pöntunum ef einhverjar eru, en eftir þá kynningu er svo farið á ýmsa aðra staði og í þessari ferð var farið út í skerjagarðinn út af Stokkhólmi.

Aðalinnihald allra þessara ullarkynninga er kynning á ullarrúmfötum sem eiga að hafa marga einstaka eiginleika. Þau eiga að halda jöfnum hita á fólki alla nóttina, góðri loftræstingu í rúminu, að vera hreinleg, þurfa ekki sængurver, koddaver eða lök og smáverur sem geta þrifist í venjulegum rúmfötum eiga ekki að geta þrifist í ullarrúmfötunum að sögn framleiðenda. Síðasta atriðið er af vísindunum talið mjög vafasamt. Almennt eiga þessi rúmföt að gefa vellíðan og góða heilsu og ef heilsan er léleg að gefa betri líðan. Því er alls ekki haldið fram að þau lækni. Þau endast með ólíkindum vel og það vitum við Valdís frá fólki sem hefur átt þau milli 10 og 15 ár.

Ekki ætla ég að fara nákvæmar út í þetta en geta þess að ullin sem notuð er í þessi rúmföt kemur frá Nýja-Sjálandi og heitir merinoull. Sölumaðurinn sem kynnti vörurnar fannst mér mátulega leiðinlegur en hann virtist þó hafa góða þekkingu á ýmsu sem alla vega ég gat engan veginn hrakið og það gerði heldur enginn annarra viðstaddra. Voru þó margir þeirra búnir að vera all oft á svona kynningu áður. Hann talaði mikið um ullina sjálfa og framleiðsluna. Eiginleikar ullarinnar virtust með ólikindum sérstakir og góðir og lofsöngur mannins um þetta virtist engan enda ætla að taka. Svo auðvitað í annarri hverri setningu kom hann því að að þetta væri hrein náttúruafurð.

Meðan hann talaði um þetta varð mér hugsað til kennslustundanna hjá Kristjönu frá Sólheimum í barnaskólanum á sláturhúsloftinu á Klaustri. Þar lærðum við að íslenska ullin ætti sér engan líka í víðri veröld, eiginleikar hennar og gæði væru ofar öðru sem þekktist. Ég man ekki betur en þessu hafi verið haldið fram alla tíð síðan, eða þar til við fluttum til Svíþjóðar. Þá fjarlægðumst við fullvissuna um bestu ull í heimi.

Ég fór á Google áðan og sló inn orðunum"tog og þel". Þar sá ég að hinn 55 ára fróðleikur Kristjönu um íslensku ullina er í fullu gildi enn í dag. Ég átti líka von á því og þess vegna varð mér hugsað til þess hvað eftir annað meðan á kynningunni stóð hvers vegna þessi sölumaður nefndi ekki þessa einstöku ull sem yxi á íslensku sauðkindinni. Ég auðvitað vissi það, að það væri vegna þessa að enginn hefði komið því á framfæri við hann eða fyrirtækið sem hann vinnur fyrir.

Ég verð að viðurkenna að mér var hugsað til þess hvort fátt eitt og lítið sé gert við íslensku ullina sem skapar virkileg verðmæti, og þá segi ég virkileg verðmæti. Ég veit að mamma prjónaði mikið af peysum á tímabili og fékk nokkurn pening fyrir. Svo veit ég að margir aðrir hafa gert og ýmislegt annað hefur fólk framleitt úr ull. En nú kem ég loksins að því sem ég ætla mér að segja.

Ég pantaði svona rúmföt handa okkur Valdísi og þó að verðinu ætli ég bara að halda fyrir sjálfan mig get ég þó sagt að verðið á þessum rúmfötum á sér ekkert skylt við lopapeysur. Ef allri íslenskri ull yrði breytt í slík verðmæti, þá yrði um einhverja óútreiknanlega miljarða króna að ræða. Rúmfötin eru jú seld sem lúxusvara og þá yfir raunverulegu kostnaðarverði. Það hlýtur að vera hægt að gera svoleiðis líka með dýrmætustu ull í heimi -eða hvað? Ég fann mig bara hafa þörf fyrir að koma þessu á framfæri en ég er enginn uppfinningamaður og hef sjálfur enga lausn. Svo kannski vita Íslendingar allt um þessa marinoull og eiga svona rúmföt líka og þá er þetta bull mitt bara broslegt.

Bullið bara broslegt já. Það var nú ýmislegt broslegt við þessi kaup mín. Eftir kynninguna var matur og ég utan við mig yfir því hvað ég ætti að gera. Ég vissi hug Valdísar en vissi líka að hún þorði ekki einu sinni að nefna kaup. Við höfðum talað um þetta áður og ég hafði oft heyrt um þessi rúmföt. Eftir matinn fót ég aftur upp í kynningarsalinn til að hitta sölumanninn. Þar var þá biðröð en þetta gekk hratt fyrir sig og þegar ég komst að hitti ég á einhvern hátt allt öðruvísi mann þó að það væri sá sami og hafði kynninguna. Við gengum frá kaupunum og svo hélt ferðalagið áfram út í skerjagarð.

Öðru hvoru allan daginn var það að koma upp í huga mér hvort ég hefði verið að henda heil miklum peningum á glæ. Svo þegar við loks komum heim var ég of þreyttur til að geta velt því fyrir mér. Um nóttina vaknaði ég upp og fannst ég hafa hlaupið á mig. Daginn eftir las ég mig til á Google um atriði sem sölumaðurinn hafði talað um. Komst ég þá að því að vísindin voru ekki samþykk öllu sem hann hafði sagt og um hluta af öðru sem hann hafði sagt fann ég engar vísindalegar umsagnir. Hann hafði heldur ekki haldið neinu slíku fram.

Mér líkaði þetta ekki og vildi ekki láta sölumanninn hafa síðasta orðið alveg svona ókeypis. Ég hringdi því í hann og heyrði á öllu að hann var þá heima hjá sér með hlaupandi börn í kringum sig. Svo sagði ég honum frá því sem ég hefði komist að. Viðbrögð hans voru yfirveguð og hann var alls ekki þessi leiðinlegi kjaftaskur sem hann hafði verið á kynningunni daginn áður. Það lá við að mér fyndist sem ég hefði lækkað verðið á vörunni með þessu samtali en svo var þó ekki. Ég var bara sáttari við sjálfan mig fyrir að hafa látið manninn heyra að ég gæti komið einhverri vitneskju á framfæri sem hann hafði sniðgengið daginn áður.

Að lokum: Ef hægt væri að koma allri íslenskri ull í sama verð og hér um ræðir væri það sjálfsagt á við mjög stóra álverksmiðju og gæti að auki sparað einn og annan virkjunarmöguleika til fólksins sem á að byggja Ísland í framtíðinni.

Skal duga í 15 ár

Bestå heitir utanhússmálningin og þau sögðu í málningarversluninni okkar að ef við máluðum tvær umferðir eftir grunnmálninguna mundum við ekki þurfa að mála næstu 15 árin. Það lét aldeilis gríðarlega stórt. Eftir 15 ár verðum við Valdís 84 ára. Það verður árið 2026 og kannski best að taka sumarið 2026 frá strax til að mála Sólvelli. Svo ráðgaðist ég svolítið við málarann og hann hélt því sama fram. Alveg er þetta frábært.


Í morgun, sunnudag, eftir hugvekjuna hófst málningarvinnan. Ég undirbjó í gær með því að fara yfir alla neglingu og bæta svolítið um betur. Ég tók tröppu frá IKEA og minni pensil og byrjaði að mála meðfram öllu og efst. Valdís hélt sig hins vegar við jörðina og gekk að stórum flötum. Hún notaði gamla borðstofustólinn undir málningarfötuna, þennan sem ég nenni ekki að líma saman einu sinni enn. Þarna er hún að mála austurvegginn og hefur skóginn á bakvið sig.


Hér er hún enn við austurvegginn og er að verða búin með hann. Í glugganum speglast þvotturinn á snúrunni og fata sem ég nota til að fylgjast með úrkomu. Það var nú meiri munurinn að fá þvottasnúru og lykta svo af þvottinum á eftir, mmmmmm, hvað rúmfötin lykta gott. Skógurinn speglast í glugganum líka.


Hér erum viðkomin á vesturvegg og sólin er að ná okkur þar. Hér er íslenski fáninn í glugganum móti veginum.


Það er seinlegt að mála þessa mjóu fleti en það er við engan að sakast annan en hönnuðinn sjálfan, þann sem er að mála. En satt best að segja; þetta er bráðfallegt hús og verður ennþá fallegra fullmálað.

-------------------------------------------------

Það er virkilega komið að því að funda með Óla Lokbrá. Á morgun förum við Valdís í dagsferðalag út í Stokkhólms skerjagarð. Við förum með rútu frá Örebro klukkan sjö og ósköp verður notalegt að setjast upp í rútuna og finna hana renna af stað og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af ferðinni, bara vera með. Það er alveg ótrúlega fallegt að ferðast í skerjagarðinum og því verður eiginlega ekki lýst, það verður að upplifast. Það verða engar smíðar, engin viðarvinna og enginn penslill með í för. Ég hlakka til.

Áðan talaði ég um sunnudagshugvekjuna. Þar var talað við hana Lnnu Maríu Klingvall, konuna sem fæddist handa- og handleggjalaus og með einn heilan fót og hinn örstuttann. Það var mikið að hugsa um meðan á því samtali stóð og það var því sönn hugvekja. Ég vona að ég komi því í verk að fara inn á sjónvarpið í tölvunni og hlusta betur á samtalið. Þegar manneskja með slíkar takmarkanir sem Lena María getur verið söngkona, íþróttakona, listamaður og svo glöð og þakklát fyrir sitt, þá ber mér að vera mikið þakklátur fyrir að geta farið á tveimur fótum og með tvær hendur í ferðalag út í Stokkhómms skerjagarð á morgun.

Góða nótt


Spýtukall og viðarkelling

Ólafur Kárason Ljósvíkingur var ekki duglegur við að bjarga sér þó að hann fengi einstaka sinnum greitt fyrir ástarljóð, erfiljóð eða ljóð um gæsku kaupmannsins. En hann fékk enga greiðslu þegar hann stal taðköggli til að ylja sér á, heldur fékk hann mikla sneypu fyrir. Við Valdís viljum vera sjálfstætt fólk og hluti af því er að eiga í eldinn þegar vetur konungur gengur í garð. Hluti af þeim eldiviði sem við erum búin að koma undir þak er ekki til komandi vetrar, heldur til vetrarins þar á eftir. Þá verður viðurinn góður og fyllir ekki skorsteininn með tjöru og óþverra. En hann vill brenna hratt og þá er að tempra loftið inn í kamínuna. Við erum búin að læra eitt og annað nýtt sem tilheyrir lífinu hér og þetta með við er vísdómur út af fyrir sig. Vika 33 var viðarvika á Sólvöllum.


Viðarkljúfurinn er tækið sem tilheyrir Valdísi. Þessi einfalda vél suðar hljóðlega og lætur lítið yfir sér en er þeim mun öflugri og það eru mun stærri kubbar sem Valdís er búin að leggja að velli í tækinu en þessi þarna. Þó má reikna með að þessi kubbur geti haldið þokkalega hlýju upp undir hálfan dag á miðlungsköldum vetrardegi á Sólvöllum.


Svo sótti Valdís í sig veðrið og vildu nú prófa keðjusögina líka. Mér fannst auðvitað að hún ætlaði að vinna af mér ný lönd og varð var um mig. Þó mátti ég til með að taka af henni mynd og það var ekki að spyrja að því að þessi gamli gólfbiti úr gamla Sólvallahúsinu varð eins og brauð í höndunum á henni. Svo þegar hún var búin að ljúka þessu sagarfari sagðist hún ekki ætla að saga meira. Viðarkljúfurinn tiheyrði henni en sögin mér. Þá auðvitað létti mér og ég þurfti ekki að óttast um völd mín yfir þessu mikilvirka tæki.

Rósa sá þessa mynd á Flickr um daginn og hún var fljót að sjá að mamma hennar hafði ekki hjálm, ekki löggilta hanska og hún var viss um að hún væri ekki í viðeigandi buxum og stígvélum. Það var alveg rétt. Að vísu má segja að eitt sagarfar er eins hættulegt og hvert og eitt sagarfar af hundrað þegar þau verða svo mörg. Að vinna með eldivið á þessum árstíma gerir það að verkum að það er eiginlega útilokað að vera í viðeigandi fötum þar sem manni verður allt of heitt, verður hreinlega lamaður af hita.


Ég ákveð það sem mitt verk að stafla. Ég held því fram að það sé vandasamt og ef ekki er vel raðað velti stæðurnar. Það liggur mikið í því en nú skal ég samt gera stóra játningu, ég er svo bljúgur í kvöld. Ég raða viðnum vegna þess að mér finnst það svo "rosalega gaman" að ég bara get ekki horft á neinn annan gera það sér til ánægju. Hana nú, þá er það á hreinu. Það eru gömlu gólfbitarnir sem ég er að raða þarna og þeir eiga að verða stór hluti af eldiviði komandi vetrar. Þess vegna fá þeir inni í alvöru húsi, enda búnir að vera í þurrki í 44 ár. Ég veit ekki hvort allir átta sig á því að viður þornar mjög vel að vetri til í frostum því að þá er rakastig loftsins lágt. Vor og haust er lélegur þurrkunartími


Það er mesti munur þegar maður sem vinnur svo "vandasamt" verkefni getur farið að standa í lappirnar. Þessi stæða náði vel hæð minni. Hér með er ég búinn að gera viðarvinnu á Sólvöllum mikil skil að undanförnu.


Ég læt svo vel af öllu á Sólvöllum og segi að allt sé svo gaman. Ég verð þó að viðurkenna að þetta verkefni var mér engin tilhlökkun. Sandsían sem tekur við frárennslinu frá rotþrónni losar sig ekki við vatnið eins og hún á að gera og ég er hræddur við að láta vetur koma án þess að fá það í lag. Ég gróf því rannsóknarholur og hélt að málið mundi skýrast með því, en ég varð engu nær. Svo fór að rigna og ég lauk greftinum í regngalla sem var alls ekki sem verst. Ráðviltur rölti ég inn og tók upp símann. Ég hringdi í hann Arne sem gekk frá frárennslinu árið 2006 og það hefur virkað hversu vel sem helst þar til nú að eitthvað er að byrja að stríða okkur. Arne er nú ellilífeyrisþegi síðan nokkur ár til baka og ég ætlaði ekki að krefjast neins af honum, heldur að fá ráð.

Þekkirðu mig, spurði ég Arne þegar við höfðum heilsast. Hann hló þá við og sagðist líka hafa elst eins og ég en svo gamall sagðist hann ekki vera að hann þekkti mig ekki. Mér fannst það góð byrjun. Svo bar ég upp erindið og Arne sagði að þetta ætti bara að virka og hann skyldi koma þegar hann væri búinn að vera viku í sumarhúsi niður í Halland og líta á vandamálið. Svo fljótt gekk þetta. Ég þyrfti líka að útvega mér mjög litla gröfu til að létta verkið talaði ég um. Já, já, svaraði Arne, hafðu ekki áhyggjur af því, ég annst það. Mikið leið mér nú vel eftir þetta samtal og mér fannst Arne vera svo góður kall, sem hann og er.


Þurrt hefur sumarið verið en ekki með afbrigðum þurrt. En eins og ég sagði gróf ég í regngalla í fyrradag, föstudag. Við eigum engan regnmæli um þessar mundir en um daginn færði Valdís mér ut vatn að drekka. Glasið varð eftir úti og stóð úti í rigningunni undir trjákrónu. Í því mældust 53 mm. Ég geri því ráð fyrir að það hafi rignt yfir 53 mm sem ekki var vanþörf á. Vatnið sem safnaðist í tilraunaholurnar mínar þornaði daginn eftir. Það eru margar bjarkir hér úti og þær eru drykkfelldar. Þar að auki eru mörg önnur tré sem auðvitað voru þyrst. 53 mm vera því ekki lengi að ganga upp í þessa trjástofna sem sjóða af lífi eins og Karin Boje sagði fyrir 70 árum.

Úlfur! úlfur!

Það var hérna fyrir nokkrum vikum að ég var að vinna í nýju forstofunni þegar ég sá út undan mér dýr fara framhjá húsinu, í aðeins fimm metra fjarlægð eða svo frá aðalinnganginum. Refur! hugsaði ég, svona nálægt. Nálægt hafði ég séð þá áður en aldrei svona nálægt. Svo horfði ég á eftir refnum og fannst hann skrýtinn. Refir hafa fínan pels en þessi var ein hvern veginn misjafnlega úfinn og það var eins og hann væri farinn úr hárunum á blettum og annars staðar ekki. Hann gekk líka mikið þunglammalegar en refur. Liturinn passaði ekki heldur. En refur var það, það bara hlaut að vera. Úlfur, nei, það bara gat ekki verið úlfur. Svo þegar hann var kominn eina 50 metra suður fyrir húsið fór hann yfir grjótgarðinn sem liggur meðfram veginum og þar hvarf hann. Hann hoppaði ekki yfir garðinn, hann gekk yfir garðinn.

Næstu dagana kom þetta upp í huga mér af og til og ég hugsaði sem svo að ef ég talaði um þetta við nágrannana mundu þeir telja að ekki væri allt með felldu í kollinum á mér. Að lokum nefndi ég þetta við ungu nágrannana hérna sunnan við en það samtal bar engan árangur og þeim fannst ekki einu sinni skrýtið að ég hefði jafnvel haldið að hér hefði verið úlfur á ferð.

Um miðjan dag í dag hringdi ég í hann Arnold bónda og spurði hann hvort hann væri til í að líta hér við ef hann ætti leið framhjá. Hvað viltu? spurði hann, og ég sagði að mig vantaði ráðgjafa. Ég vildi ganga með honum að nokkrum trjám og tala um þau við hann. Er í lagi að koma klukkan sex, spurði Arnold, og ég sagði svo vera. Svo kom hann klukkan sex og við gengum út í skóg. Hann hafði mikið gaman að þessu og reyndur skógarbóndinn vissi alveg hvað hann var að tala um. Fjögur tré, miðlungsstór og mjög stór, voru dæmd til að falla næsta vetur. Það verður ekki einfalt að fella þau því að þau geta öll valdið skaða ef illa tekst til. Því bauðst Arnold til að koma og hjálpa mér. Hringdu til mín og minntu mig á þetta í vetur þegar það passar og mundu líka að merkja trén svo að við þekkjum þau í vetur. Það voru hans lokaorð eftir hringferðina. Að merkja þau er mikilvægt því að það er mikill mundur á að skoða skóginn með þetta fyrir augum eftir því hvort það er sumar eða vetur.

Svo fórum við inn og Valdís kveikti á kaffikönnunni og kom með pönnukökurnar sem hún bakaði í gær. Svo kom hún líka með rabbarbarasultu. Arnold lék við hvern sinn fingur og fannst pönnukökurnar með rabbarbarasultu reglulega góðar sem þær líka voru. Hann skoðaði húsið og gaf því góða einkunn. Svo töluðum við um ferðalög fyrir ellilífeyrisþega, kóra, íslenska fótboltamenn og konur í Örebro og margt fleira. Allt í einu spurði Arnold hvort við hefðum heyrt um úlfinn. Nei, það höfðum við ekki. Svo sagði hann okkur frá litlum úlfi sem hefði látið sjá sig við ein þrjú tilfelli hér aldeilis í nágrenninu.

Jahá! svo að það var þá úlfur eftir allt saman. Svo sagði ég honum frá þessu dýri sem ég hefði kallað ref án þess að trúa því. Ég hef nú vissan grun um að ef Íslendingarnir hefðu verið fyrstir til að tala um úlf hér í Nalaví hefði það hljómað undarlega í eyrum margra. Það er nefnilega ekki vitað til þess að úlfar hafi verið hér í nágrenninu að minnsta kosti í mjög marga áratugi. Ekki get ég sagt að mér finnist það neitt spennandi þar sem það mun hafa áhrif á dýralíf. Í eitt skiptið sem þessi úlfur sást hér var hann nefnilega á harða hlaupum á eftir dádýrskiði. En það er ákveðið að úlfar verði hluti af lífríki þessa lands.

--------------------------------------------------------------


Konan þarna á myndinni, fiskimannsdóttirin frá Hrísey, mátar mig dag eftir dag. Í gær greip hún hamarinn og pappasaumspakkann öðru sinni á nokkrum dögum og negldi þakpappann á skýlið þarna. Það var annað skýlið sem fékk nýtt þak hjá okkur á jafn mörgum dögum. Svo bað hún mig að fara með sig til Fjugesta og skyldum við vera þar klukkan hálf tíu í morgun. Hún er að ganga í "Að hafa það gott kórinn" á svæðinu. Kórinn byrjar að vísu ekki fyrr en 1. september en hún hitti alla vega einn af verðandi kórfélögum í morgun. Hún stendur sig vel þessi kona.


Þessi maður er hins vega ekki í neinum kór. Hann bara klæjar í nefið, það fer ekki milli mála. Varðandi þessi viðarskýli má ég til með að segja frá því að hann Jorma ellilífeyrisþegi og vinnufélagi minn kom í heimsókn í morgun. Hann var þá á leið heim til sín til Karlskoga frá vinnu í Vornesi. Hann stoppaði hjá þessum viðarskýlum og sagði að hér væri nú skotið yfir markið. Svona þyrfti ekki að vanda til viðarskýla. En auðvitað, ef þú hefur gaman af þessu þá er það allt í lagi.

Ég hef skrifað tugi eða öllu heldur hundruð síðna um það hvernig við Valdís höfum byggt lítið einbýlishús á Sólvöllum. Núna er ég farinn að skrifa síðu eftir síðu um lítil viðarskýli á Sólvöllum. Hvað gengur að mér? Já, það var góð spurning. Ef ég segi alveg eins og er sé ég þetta sem lítillæti og nægjusemi. Dyggð er ríkidómur og er undirstaða lífsgæða og að sofa vel á nóttunni.

Það er stórkostleg gjöf

Ég sá á bloggi áðan að það er ein vika og þrír dagar síðan ég bloggaði um að við værum að vinna í viði. Fyrri partinn í dag vorum við líka að vinna í viði. Að vísu höfum við ekki verið að vinna í viði allan tímann síðan. Fimm daga hef ég verið í vinnu og einn rigningardag erum við búin að hafa. Svo hættum við stuttu eftir hádegi í dag til að skreppa til Örebro til að vera svolítið með í lífinu. Við fórum líka með kúfulla kerru af drasli í endurvinnslugámana í Örebro. Það er alltaf verið að hreinsa til á þessu stórbúi sem endalaust er hægt að skrifa um. En þið megið bara ekki segja frá því að við höfum farið á endurvinnsluna í Örebro því að við tilheyrum Fjugesta og þar er líka endurvinnslustöð. Ef einhver segir frá verðum við kannski skömmuð:-)


Vel með farinn viður er verðmætur og vel með farinn viður er góður til upphitunar og umhverfisvænn. En í svona viðarskýli líður viðnum auðvitað ekki vel. Það er náttúrlega skömm að því að sjá svona þak yfir verðmætunum og við urðum sammála um að þetta gæti ekki gengið lengur. Hann Kristinn dóttursonur sló þessu skýli saman hér um árið en ég annaðist þakið og notaði á það yfirbreiðslu sem fæst í byggingarvöruverslunum fyrir örlítinn pening. En eftir fjögurra eða fimm ára notkun er yfirbreiðslan auðvitað orðin gatslitin og heldur ekki vatni. Þessu verður auðvitað að bjarga allra næstu daga.


Hér er svo annað skýli sem er helmingi minna en jafn gamalt og þar er líka ónýt yfirbreiðsla fyrir þak. Burt með draslið. Valdís var byrjuð að rífa en þegar ég fór að rífa líka tók hún myndavélina og skjalfesti mig við vinnuna.


Svo þegar krossviðurinn var komin á þakið og ég búinn að slengja fyrstu tveimur þakpappalengjunum á þreif Valdís hamarinn og tók af mér pappasauminn og negldi. Var ég virkilega ekki ómissandi lengur!? Jæja, þá er bara að kyngja því.


En á fór nýja þakið og sjáið bara, það eru þakbrúnir sem standa 20 sm út fyrir skýlið og vernda viðinn betur fyrir regni og snjó. Í þessu skýli eru meðal annars afgangar af byggingarefni sem ekkert verður gert betra við en að nota til upphitunar. Bakvið skýlið er svo hengibjörkin sem við keyptum hjá honum Ingemar skrúðgarðameistara fyrir einum fimm árum. Hún hefur stækkað gríðarlega á þessu tímabili og er orðin minna tré. Ég tala ekkert um hvaða áburður hefur nært þetta tré en get þess þó að sá áburður er finnanlegur á hverju einasta heimili í heiminum og hugmyndin kom frá skrúðgarðameistara í Örebro. En aftur að þessu viðarskýli. Það er nú svolítið snubbótt eins og það lítur út þarna og það vitum við vel. Það verður séð við því.


Það á nefnilega að fá þetta útlit þegar það er fullbúið, vindskeiðar og fínt og rauður litur. Valdís ætlar að sjá um málninguna. Það kostar nokkur handtök að gera þetta en það er vel þess virði. Það er virðing fyrir umhverfi að gera þetta vel, virðing fyrir sjálfum sér og nágrönnum og bara hreinlega mikið skemmtilegra að umgangast eigur sínar ef þær líta vel út. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja að það sé virðing fyrir sköpunarverkinu, en alla vega þegar ég horfi á iðjagrænan skóginn fæ ég á tilfinninguna að draslhaugar undir skógarjaðrinum sé óvirðing við stórkostlegt sköpunarverkið.

Þetta skýli smíðaði ég fyrir einum þremur árum og Valdís málaði og í dag lítur það út eins og hún hafi málað það í gær. Að byggja ekki eitt hús og mikið stærra fyrir viðinn á sér skýringu. Ég vil hafa þessi skýli það lítil að það sé ekki hægt að kalla þau hús. Þá finnst meira rými fyrir aðrar byggingar með tilliti til byggingarreglugerðar.


Svo auðvitað verð ég að vera með á myndinni líka. Það vantar ekki montið og ég held stundum að ég sé bara 35 ára. Í þessu skýli er í fyrsta lagi reyniviður sem væri hægt að nota í vetur en við þurfum ekki að nota hann fyrr en þar næsta vetur.  Viðarbúskapurinn hjá okkur er nokkuð góður. Það sést vel á dökkum kjarnanum að þetta er reyniviður.


Ég byrjaði að tala um að við værum að vinna í viði og það eru ekki bara smíðar sem standa yfir. Nú erum við búin að ganga frá öllum viði sem við sóttum í skóginn. Þarna er Valdís byrjuð að kljúfa gólfbitana úr gamla húsinu sem við hentum út í vetur. Sumir þeirra voru sterkir og sumir þeirra voru bognir og sumir þeirra voru svona og sumir hinseginn. Jú, það fer nú best á því að nota þá til upphitunar.

Eins og ég sagði áður fórum við til Örebro eftir hádegið, fórum með rusl og svo keyptum við nauðsynlega hluti. Valdís fór í matvörurnar en ég í byggingarvörurnar. Þar á meðal keyptum við krossviðinn í þakið á viðarskýlinu sem ég sýndi á fyrstu myndinni. Það skal fá andlitslyftingu líka og þak sem dugir. Engin vetlingatök á Sólvöllum. Eftir innkaupin í Örebro hittum við fólk sem mætir á vikulegum fundum í Lekebergskirkju í Fjugesta á miðvikudagskvöldum til að tala um lífið af fullri alvöru og þeim sem gera það af samviskusemi vegnar vel í lífinu.


Svo er hér að lokum frábær mynd af hálfgerðu skýfalli í glampandi sólskini. Rigninguna má vel greina þarna á tveimur stöðum úti við skóginn þar sem sólargeislarnir sluppu best niður. Á grasflötinni má svo sjá skuggana frá trjánum sem sýna svo ekki verður um villst að það var sólskin í rigningunni. Við höfum verið að vinna þarna bakvið og í kringum rauða húsið og það er allt í drasli. Að horfa á þá náttúrufegurð sem myndin sýnir og svo draslið kringum rauða húsið staðfestir það sem ég sagði áður að það er óvirðing við stórkostlegt sköpunarverkið að láta draslið ráða ríkjum við skógarjaðarinn. Við erum langt komin með að bjarga þessu við.

Í byrjun sagði ég að það væri ein vika og þrír dagar síðan ég hefði bloggað um viðarvinnuna hér á Sólvöllum. Núna er það ein vika og fjórir dagar. Klukkan hefur rúllað yfir miðnættið og gott betur. Óli Lokbrá er farinn að kasta sandi í augun á mér og ég veit vel að ég ætti að vera sofnaður fyrir góðri stundu. En það er eins og þetta bloggandi mitt megi ekki hafa neinn tíma og þá verður það oft miðnættið sem ræður ríkjum þegar ég er hálfnaður að pikka á tölvuna. Ég þarf að taka á þessu máli.

Kunnugleg kvöldkyrrðin liggur yfir sveitinni og það er að sjá svarta myrkur úti. Ég heyri að Valdís á í einhverjum erfiðleikum með svefninn fyrir aftan mig. Kannski er það svo að Óli getur ekki sinnt henni þar sem hann er að fá mig til að fara að leggja mig. Ég er á leiðinni. Ef að vanda lætur verða farin að heyrast svefnhljóð í mér áður en ég næ almennilega að leggjast á koddann. Það er stórkostleg gjöf.

Á ekki að vera rólegur dagur í dag?

Á ekki að vera rólegur dagur í dag? spurði Valdís þegar ég fór út fyrir morgunverðinn til að sækja stígvél sem lágu á hliðinni undir borði bakvið húsið. Það er rigningardagur sagði hún. Svo fór ég út og tók upp stígvélin, fyrst annað og fór með hendina inn í stígvélið og alveg fram í tá. Svo tók ég hitt og gerði nákvæmlega það sama, fór með hendina alveg fram í tá. Það var engin mús í stígvélunum enda var ég vel öruggur um að svo væri ekki og þess vegna fór ég af öryggi með hendina niður í þau. Svo tók ég stígvélin inn og stillti þeim út við vegg. Rigningarsuddinn var byrjaður að falla niður um níu leytið þannig að spáin frá í gær stóðst nákvæmlega og í spá dagsins sagði að vindur ætti að vera 0,4 metrar á sekúndu. Þessi vindur merktist ekki hið minnsta og súldin féll afslöppuð beint niður.

Það var í lok morgunverðarins sem ungur prestur, kona, hóf sunnudagshugleiðingu með því að kynna hana Píu. Pía er leikkona sem er vel þekkt og hefur leikið í alvarlegum hlutverkum, hlægilegum hlutverkum, sorglegum hlutverkum og hún hefur leikið í ástarsenum sem einhvern tíma hefðu fengið mig til að roðna ef ég hefði horft á það við hliðina á börnunum mínum. Svo ræddu þessar tvær konur um Guð og hvort Guð gæti verið glaður og gamansamur. Pía efaðist ekki um það og sagði frá dæmum um það. Svo las hún stuttan egin texta um samskipti sín við Guð.

Pía sagði frá bernsku sinni þegar hún hljóp um skóginn, dáðist að stórum furum sem teygðu sig mót himni, mjúkum mosa í lautum, skófum á steinum, könglum sem voru fræ að nýjum trjám og hún dáðist að svo miklu sem fyrir augun bar. Hún sagði frá mömmu sinni sem gekk með henni um skóginn, studdi sig við þessar stóru furur, tók jafnvel utan um þær og sótti styrk í lífinu. Þarna skokkaði Pía sem lítil stelpa, fannst hún vera hluti af tilverunni og fannst sem Guð væri með henni. Það var ekki fyrr en síðar sem hún áttaði sig á því að til væri eitthvað sem nefndist kristni. Sjálf Guðstrúin hafði komið bara svona af sjálfu sér, kristnin kom síðar.

Þetta að skokka um ósnortna náttúru var mér ekki framandi og ég get sagt eins og Pía að mér fannst sem ég væri hluti af allri tilverunni. Ég var oft sendur á milli bæja og átti þá oft að fara á hesti. Það var mér raun því að ég vildi vera nær jörðinni en svo að ég vildi sitja uppi á hestbaki. Ég gerði líka hesta lata þegar ég fór eitthvað einn á hesti og báðum virtist líða hálf illa. Ég held að þeir hafi skynjað hug minn. Það var í lagi þegar fleiri voru saman, þá gekk mér vel með hesta.

Eftir að hafa hlustað á Píu og prestinn fór ég inn á Google og sló upp orðinu Djúpárdalur. Mig langaði að sjá það umhverfi sem ég þreifst svo vel í sem stráklingur og unglingur. Og það stóð ekki á því að myndirnar hreinlega ultu fram. Djúpur grámosi á hraunnibbu, jökulvatnið og bergvatnið sem mætast svo makalaust afgerandi inn á Fossum, gróðurlitlar Innhlíðarnar þar sem hvert fjallablóm verður að fjársjóði fyrir augað, grámosavaxnir Hnjúkarnir með sínum seiðandi mjúku línum og allar lindirnar sem síðar verða að lækjum og ám. Lindirnar, hreinni en allt sem hreint er, horfandi mót himni í ungu sakleysi, bara að leggjast niður og teyga vatnið, rísa upp og horfa á spegilmynd sína. Svo dettur vatnsdropi af nefinu sem myndar hringa á vatninu sem er að koma upp á yfirborðið eftir langt ferðalag inni í fjallinu eftir hárfínum göngum sem maður veit ekkert um. Hárfín göng í stóru fjalli? En skemmtilegt! Og lindin býr yfir helgum leyndarmálum úr fjallinu sem hún hefur rannsakað að innan, leyndarmálum sem aldrei verða sögð. Svo heldur hún áfram að renna krókótta leið til Atlantshafsins.

Enn eitt af undrum Kálfafellsheiðarinnar eru Hjallafossarnir þar sem silfurtær Laxá brýst fram úr gljúfrunum milli Innri og Fremri Hnjúka að austan ásamt Hjöllunum og hinsvegar Blómsturvallafjallsins að vestanverðu. Nokkur hundruð metra framan við fossana virðast vera leifar af gömlum berggöngum sem stinga sér úr í ána og svo voru þarna líka gömul sauðahús þar sem lengi gaf að líta heystabba inni í hlöðutóftinni. Þvíilíkt ævintýri, hreina þjóðsagan að hafa farið svo langt frá byggð til að sinna sauðfé.

En minn ævintýraheimur var mikið nær mannabyggð. Að fara austur með Djúpá, framhjá Arnarbælistindi og koma þar með í Garðahvamm, álíka breiðan og hann er djúpur, þar var veröld númer eitt. Að fara meðfram klettunum sem liggja í skeifu ofan við brekkurnar og kíkja þar inn í skútana gaf von um gæsahreiður. Og ef gæs velti sér fram undan klettunum þegar ég nálgaðist var svo mikil upplifun að ekkert varð sér líkt og brött brekka varð álíka létt að klífa eins og að hlaupa eftir sléttum grasbala. Grasflötin með lækjarskorningnum innst í Garðahvamminum gaf ímyndunaraflinu lausan tauminn -hús, hvílíkt stórkostlegt hússtæði sem duldist á þessari grasflöt. Sú tilfinning fylgir mér reyndar enn í dag.

Að loknum Garðahvammi tók við Lambhagi, veröld númer tvö, allt öðru vísi en Garrðahvammur og breytingin átti sér stað á kannski tíu metra vegalengd. Það var eins og að ganga í gegnum hlið í vel skipulögðum skrúðgarði þar sem arkitektinn hugsaði einmitt út þessa snöggu breytingu frá einu umhverfi til annars. Lambhaginn gat varla kallast hvammur, hann var svo beinn. Minni skútar voru þar undir klettunum og Djúpá næstum sleikti brekkurnar. Hraunklappir með geilum á milli gáfu Lambhaga sinn sterka persónuleika og milli hraunklappanna var sandur og stöku sinnum var hægt að greina þar tófuför. Það var stórt og að sjá tófuför var næstum að sjá tófu!

Svo tók Lambhaginn enda og stefnan meðfram Djúpá breyttist frá leið til austurs til þess að ganga til norðurs. Skilin þar voru heldur breiðari yfirferðar en þar tók þó innan skamms við veröld númer þrjú. Sú veröld var ekki bara öðru vísi en báðar hinar heldur allt, allt öðruvísi. Þar tók við grámosinn, hraunnibbur sem stungu upp trjónunni, grámosavaxnir hraunkambar sem stungu upp herðunum með skorum og lægðum á milli. Pínulitlir hvammar með grasi í botni þar sem gott var að setjast niður gáfu þessum undraheimi stillingu og ró. Austan við rann Djúpá í flúðum og boðaföllum í bugðóttu gljúfri með stuðlabergi, vestan við voru grösugir Garðarnir og þessi veröld endaði til norðurs við Gufufoss. Þar varð enn ein breytingin og enn önnur veröd tók við, en við Gufufoss enduðu þessar veraldir mínar sem ég átti oftast samveru með.

Svo hélt dagurinn áfram hér á Sólvöllum og undir hádegi hafði regnið aukist og streymdi beint niður svo avslappað og mjúkt. Ég skildi við veröldina hennar Píu og veraldirnar mínar meðfram Djúpá austan við Kálfafell og við Valdís skruppum til Örebro í allt aðra veröld. Ég á mikið af myndum af þessu svæði bernskuáranna en myndirnar mínar eru ekki aðgengilegar fyrir mig sem stendur. Ég hef farið þessa leið með börnunum mínum og tekið myndir af þeim á þessum slóðum. Ég á engar myndir af mér þegar ég skondraði þarna um fyrir 60 árum. Minningin verður að nægja. Líklega var ég svolítið skrýtinn og einveran hentaði mér. Einveran? Ég tek af hreinskilni undir með henni Píu að ég var ekki einn á ferð. Ferðafélagi minn var góður.

Heyrðu! Það var sunnudagshugleiðing í morgun! Já, ef ekki hugleiðing, hvað þá?

Hvenær?

Ég sat í símastólnum heima í Sólvallagötu 3 í Hrísey í septemberdag 1993 og talaði við Ingólf Margeirsson. Það var þegar hann hringdi og spurði mig hvort ég vildi prófa að fara til Svíþjóðar og vinna þar. Valdís kom innan eftir ganginum og þegar spurningin hafði gengið inn í höfuðið á mér sagði ég við hana hvað Ingólfur hafði sagt við mig. Hún hristi ekki höfuðið og hún sagði ekki nei og hún gekk ekki einu sinni þegjandi að einhverju verki sem þurfti að koma frá. Það var eiginlega á því andartaki sem ákvörðunin var endanlega tekinn af okkar hálfu. Svo skrýtið var það.


Ég hugsaði akkúrat þetta ofansagða þegar ég tók þessa mynd og af tilviljun tók ég myndina á augnablikinu þegar smellurinn kom sem gjarnan heyrist þegar stór viðarkubbur brestur á viðarkljúfnum. Hvenær tók hún ákvörðun um að vera þátttakandi í landnámsferð til annars lands ef færi gæfist hugsaði ég svo í framhaldi af þessu og tók einar tvær myndir til viðbótar. Það var nú oft svo að Valdís anaði ekki að hlutunum ef taka þurfti ákvörðun um eitthvað mikilvægt og þessi ákvörðun var engin smá ákvörðun.


Hún er allt of sakleysisleg á svipinn þarna þar sem hún heldur á Valgerði í Kelahúsinu í Hrísey til að það sé hægt að láta sér detta í hug að þessar hugleiðingar hafi verið farnar að bæra á sér innra með henni. Lífið gekk þá út á að sjá sér farborða og ég get ekki minnst þess að hugmyndaflugið hafi verið svo mikið á ferð í öðrum löndum.


Þegar verið er að bauka eins og við höfum verið að gera í gær og í dag og veðrið leikur við hvern sinn fingur er alveg sérstaklega notalegt að láta hugann reika. Og ekki síst þegar ég er að raða eldiviðarkubbum af alveg einstakri sérvisku og nýt þess að láta framhliðina vera rétta nánast upp á millimeter. Þessar hugleiðingar um lífshlaupið gengu gegnum kollinn á mér af og til í dag þegar vel stóð á og voru eitthvað á þá leið sem að ofan getur. Mér meira að segja datt í hug ákveðin mynd af Valdísi, en það var ekki myndin af henni með Valgerði á arminum, það var mynd af henni einni, mynd sem ég rakst svo ekki á áðan þegar ég var að leitaði að myndunum sem ég notaði í blogg kvöldsins.


Þetta er trúlofunarmynd segir Valdís og þegar hún segir það kannast ég við að svo er og jakkinn sem ég er í, lánsjakki, hjálpar mér til að komast að þeirri niðurstöðu. Það komst lítið annað að hjá mér á þessum tíma annað en að vera ábyrgur heimilisfaðir og drauminn um að verða læknir hafði ég látið svífa burt með vindunum einum þremur árum áður. Sá draumur hófst þegar ég horfði á Esra lækni taka burt illa farinn litlafingurinn með töng á matarborðinu á Kálfafelli og læknisdrauminn bar ég í brjósti mér næstu tíu árin. Sá draumur er stór kapítuli út af fyrir sig, draumur sem ekki varð að veruleika.


Þessa mynd tók Mats Wibe Lund af Kálfafelli 1987 og ég tók mynd af myndinni rétt áðan. Mörgum árum áður var húsakostur og allar aðstæður á Kálfafelli mikið öðru vísi en myndin sýnir og þá stóð ég eitt sinn austan við bæjarhúsið á miðri mynd, hægra megin, smá snáði, og horfði til Öræfajökuls. Þá var pabbi hættur sem póstur yfir Skeiðarársand og ferðir yfir sandinn fátíðar. Aldrei á ég eftir að koma þangað hugsaði ég. Ímyndunarafl mitt hreinlega náði ekki lengra á þeirri stundu en af einhverri ástæðu hef ég munað eftir þessu öll ár síðan. Þetta hlýtur að hafa verið áður en læknisdraumurinn fæddist.

En hvað sem öllum vangaveltum líður er það staðreynd að Valdís er hérna og það var hún sem steikti lambakótiletturnar eftir að hafa klofið við meiri hluta dagsins. Á meðan fór ég með hjólbörurnar út í skóg til að sækja meira. Svo var veisla.

Viðardagur og góðviðrisdagur

Í dag höfum við verið að vinna við nokkuð sem á að gera á allt öðrum árstíma. Við vorum að flytja heim við úr skóginum sem við felldum fyrir laufgun í vor, kljúfa og raða í hjalla. Þetta er nokkuð sem á að gera að vetrarlagi og á vorin en þegar fólk er að byggja hús fer það ekki að bardúsa við að kljúfa og raða upp eldiviði þegar gólfið kannski vantar í hluta af húsinu sem búið er í.

Hann heitir Håkan fyrrverandi vinnufélagi minn sem kenndi mér það mesta sem ég veit um eldivið. Hann sagði að veturinn og vorið væri tími fyrir eldiviðarvinnslu en ef það vri ekki hægt einhverra ástæðna vegna gerði maður það þegar tími gæfist fyrir það og svo gerum við nú. Sá viður sem við erum að ganga frá núna er viðurinn sem við ætlum að nota til upphitunnar veturinn 2012-13.


Við erum með ákveðna verkaskiptingu í þessari vinnu og það er ég sem sæki stubbana, legg þá á borðið hjá Valdísi og síðan er það hennar verk að kljúfa.


Síðan líð ég af þeirri hugmynd að ég verði að raða upp viðnum, annars velti stæðurnar. Hahaha. Góður. Ég er að vísu ekki að raða við á mydinni, ég er að undirbúa. Ég er nefnilega að hreinsa gamalt lauf undan grindinni sem viðnum er raðað á og það geri ég til að óboðnir gestir búi ekki í laufhrúgu sem er aldeilis við hnén á mér.

-------------------------------



En það er fleira að upplifa á Sólvöllum á góðviðrisdegi sem þessum í dag en eldiviðarhaugar. Stóra Sólvallaeikin er í essinu sínu, þetta rúmlega 100 ára gamla tré, en þar sem það er eik eru 100 ár bara unglingsárin hennar ef miðað er við lífshlaup manneskju.


Plómutréð er farið að sligast af því að bera uppi plómuklasana. Reyndar er ég búinn að setja stoð undir eina greinina. Annars væri hún fallin af trénu fyrir einhverjum dögum.


Svo var ég í þann veginn að taka mynd af húsinu þegsar Valdís kom í dyrnar og spurði hvort ég væri ekki að koma í mat. Jú, ég var alveg að koma í mat en ætlaði samt að taka nokkrar myndir fyrst. Annars er Valdís orðinn aðal ljósmyndarinn á bænum. Það er af sem áður var þegar ég var altekinn af ljósmyndadellunni, einni af mínum mörgu dellum, og hélt að bara ég gæti tekið skammlausar myndir. Við unnum bæði í viðnum en það var Valdís sem annaðist matargerðina.


Og nú húsið aftur í aðeins meiri fjarlægð. Það sést vel á grasflötinni að það er heitt og þurrt. Svo eru líka nokkrar bjarkir hægra megin við myndina, drykkfelldar bjarkir sem sjúga upp allt vatn sem annar gróðiur annars mundi njóta af. Eitt sinn spurði ég garðyrkjumeistara hvaða tré ætti að gróðursetja á svona stað eins og þarna vestan við húsið og ég lýsti fyrir honum malarkambi, trúlega gömlum sjávarkambi. Hann var hugsi um stund og svaraði svo að það mætti eiginlega gróðursetja þar allt annað en bjarkir. Svo eru þar nokkrar stórar bjarkir og það er ekki svo ljúft að ráðast á þær og saga niður.


Hér má sjá nokkrar þessara bjarka bjarkir og þarna eru tvær sem eru farnar að gulna. Ef það verða núna nokkrir rigningadagar eins og spáð er, þá munu þær aftur verða grænar og safaríkar.


Hér er svo að lokum Sólvallahúsið séð úr brekkunni vestan við húsið. Deginum er lokið og samvera með Óla Lokbrá er að bresta á.

Það var þetta með leyndarmálið

Ég var eitthvað að blaðra um það á FB í morgun að það væri leyndarmál hvað við ætluðum að taka okkur fyrir hendur á Sólvöllum í dag. Ég reyndi að láta líta út fyrir að lífið hér í sveitinni væri svo spennandi. En spennandi, ég veit ekki hvað ég á að segja um það en lífið er bara gott. Dagurinn í dag var enn einn dagurinn þar sem hitinn fór alla vega í 25 stig og sólin lét vel að okkur. En það er bara ekki að spyrja að því, sænska sumarið er gott sumar.


En ef ég kem nú að því sem við aðhöfðumst í dag þá var það einfaldlega það að við þvoðum stærsta hlutann af húsinu utan með með målartvätt, það er að segja efni sem brýtur niður lífrænan gróður sem myndast utan á húsum. Ég man ekki eftir neinu svona meðan við bjuggum á Íslandi en kannski er þetta gert þar í dag. En eitt er þó víst; sænska sumarið gerir það að verkum að gróður utan á húsum er meiri hér og svo skilja viðarkyndingarnar sín spor eftir á veggjunum líka. Þetta er svolítil vinna en afskaplega lítil vinna miðað við veðurgæðin sem við fáum í staðinn. Á myndinni er Valdís að sprauta efninu á austurvegginn, efni sem myndar þunna kvoðu á panelnum.


Svo kom ég með kústinn og skrúbbaði yfir og þarna er ég á norðurgaflinum. Óhreinindin beinlínis runnu niður þegar efnið var búið að vinna svolítið á og kústurinn hreyfði svo við soranum. Þegar við lögðum okkur í gær var ég með kollinn fullan af því að þetta yrði mikið vinna og leiðinleg. En svo fór með þetta verkefni eins og mörg önnur verkefni á Sólvöllum að það var einfaldlega skemmtilegt og ekki síður fyrir það að það virtist vera mikilvægt. Hún Ingmarie í málningarversluninni í Fjugesta ráðlagði þetta í gær, lánaði verkfæri til þess og góð ráð í veganesti. Ég sagði henni að málarinn hefði sagt að þessa þyrfti ekki með. Þau þekkjast málarinn og hún.

Þú ræður alveg hverjum þú trúir sagði þá Ingmarie, en ef þú vilt fá þann árangur sem ég veit að þú vilt uppná, þá er þetta nauðsynlegt. Þar með valdí ég að trúa henni og sé ekki eftir því.


Þegar ég var búinn að skrúbba kom Valdís með slönguna og skolaði öllum óþverra burtu. Og viti menn; vindskeiðarnar gerbreyttu um lit. Það var þá sem verkið varð skemmtilegt. Þannig unnum við þetta með góðri ástundun


Svo auðvitað þarf að nota stiga þegar hús eru há og myndarleg (pínu brandari). Fyrir nokkrum árum útbjó ég hjálpartæki efst á stigann og þó að það sé ekki viðameira en myndin gefur til kynna, þá er allt annað að vinna efst í stiganum í svolítilli hæð. Fjölskyldumeðlimurinn sem stendur í stiganum er sá sem er með typpið og þá gefur auga leið að það er hann sem sækir í stigann og lætur bera á sér.


Mjög fágað og fínt varð húsið og aðalinngangurinn sómdi sér vel þó að hann sé ekki tilbúinn eins og sjá má á myndinni. Stéttin er ekki komin heldur og ekki viðarpallurinn sem á að liggja ofan á hellunum.


Sumarið, gróðurinn og Kilsbergen speglast í glugganum og bæði gerefti og veggur skarta sínu besta og eru vegleg umgjörð um myndina sem speglast í glerinu. Það hefur farið með þennan dag eins og svo marga aðra að hann hefur liðið sem þarfur dagur og kvöldið leið allt of fljótt. Góður dagur er liðinn.
RSS 2.0