Það var þetta með leyndarmálið

Ég var eitthvað að blaðra um það á FB í morgun að það væri leyndarmál hvað við ætluðum að taka okkur fyrir hendur á Sólvöllum í dag. Ég reyndi að láta líta út fyrir að lífið hér í sveitinni væri svo spennandi. En spennandi, ég veit ekki hvað ég á að segja um það en lífið er bara gott. Dagurinn í dag var enn einn dagurinn þar sem hitinn fór alla vega í 25 stig og sólin lét vel að okkur. En það er bara ekki að spyrja að því, sænska sumarið er gott sumar.


En ef ég kem nú að því sem við aðhöfðumst í dag þá var það einfaldlega það að við þvoðum stærsta hlutann af húsinu utan með með målartvätt, það er að segja efni sem brýtur niður lífrænan gróður sem myndast utan á húsum. Ég man ekki eftir neinu svona meðan við bjuggum á Íslandi en kannski er þetta gert þar í dag. En eitt er þó víst; sænska sumarið gerir það að verkum að gróður utan á húsum er meiri hér og svo skilja viðarkyndingarnar sín spor eftir á veggjunum líka. Þetta er svolítil vinna en afskaplega lítil vinna miðað við veðurgæðin sem við fáum í staðinn. Á myndinni er Valdís að sprauta efninu á austurvegginn, efni sem myndar þunna kvoðu á panelnum.


Svo kom ég með kústinn og skrúbbaði yfir og þarna er ég á norðurgaflinum. Óhreinindin beinlínis runnu niður þegar efnið var búið að vinna svolítið á og kústurinn hreyfði svo við soranum. Þegar við lögðum okkur í gær var ég með kollinn fullan af því að þetta yrði mikið vinna og leiðinleg. En svo fór með þetta verkefni eins og mörg önnur verkefni á Sólvöllum að það var einfaldlega skemmtilegt og ekki síður fyrir það að það virtist vera mikilvægt. Hún Ingmarie í málningarversluninni í Fjugesta ráðlagði þetta í gær, lánaði verkfæri til þess og góð ráð í veganesti. Ég sagði henni að málarinn hefði sagt að þessa þyrfti ekki með. Þau þekkjast málarinn og hún.

Þú ræður alveg hverjum þú trúir sagði þá Ingmarie, en ef þú vilt fá þann árangur sem ég veit að þú vilt uppná, þá er þetta nauðsynlegt. Þar með valdí ég að trúa henni og sé ekki eftir því.


Þegar ég var búinn að skrúbba kom Valdís með slönguna og skolaði öllum óþverra burtu. Og viti menn; vindskeiðarnar gerbreyttu um lit. Það var þá sem verkið varð skemmtilegt. Þannig unnum við þetta með góðri ástundun


Svo auðvitað þarf að nota stiga þegar hús eru há og myndarleg (pínu brandari). Fyrir nokkrum árum útbjó ég hjálpartæki efst á stigann og þó að það sé ekki viðameira en myndin gefur til kynna, þá er allt annað að vinna efst í stiganum í svolítilli hæð. Fjölskyldumeðlimurinn sem stendur í stiganum er sá sem er með typpið og þá gefur auga leið að það er hann sem sækir í stigann og lætur bera á sér.


Mjög fágað og fínt varð húsið og aðalinngangurinn sómdi sér vel þó að hann sé ekki tilbúinn eins og sjá má á myndinni. Stéttin er ekki komin heldur og ekki viðarpallurinn sem á að liggja ofan á hellunum.


Sumarið, gróðurinn og Kilsbergen speglast í glugganum og bæði gerefti og veggur skarta sínu besta og eru vegleg umgjörð um myndina sem speglast í glerinu. Það hefur farið með þennan dag eins og svo marga aðra að hann hefur liðið sem þarfur dagur og kvöldið leið allt of fljótt. Góður dagur er liðinn.


Kommentarer
Valgerður

Dugleg þið. Hér í Eyjum þurfum við að smúla húsin reglulega en það er af því að askan já og seltan sest í bárujárnið og á panelinn.

kv

Valgerður

2011-08-05 @ 14:17:33


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0