Um rólegan dag, blogg frá 7. ágúst 2011

Ég sló af handahófi upp gömlum bloggum í morgun og las yfir. Þegar ég las þetta blogg var sem ég hefði verið að enda við að skrifa það. Til gamans birti ég á ný þessi tæplega sex ára skrif mín og vangaveltum um lífið.
 

Á ekki að vera rólegur dagur í dag? spurði Valdís þegar ég fór út fyrir morgunverðinn til að sækja stígvél sem lágu á hliðinni undir borði bakvið húsið. Það er rigningardagur sagði hún. Svo fór ég út og tók upp stígvélin, fyrst annað og fór með hendina inn í stígvélið og alveg fram í tá. Svo tók ég hitt og gerði nákvæmlega það sama, fór með hendina alveg fram í tá. Það var engin mús í stígvélunum enda var ég vel öruggur um að svo væri ekki og þess vegna fór ég af öryggi með hendina niður í þau. Svo tók ég stígvélin inn og stillti þeim út við vegg. Rigningarsuddinn var byrjaður að falla niður um níu leytið þannig að spáin frá í gær stóðst nákvæmlega og í spá dagsins sagði að vindur ætti að vera 0,4 metrar á sekúndu. Þessi vindur merktist ekki hið minnsta og súldin féll afslöppuð beint niður.

Það var í lok morgunverðarins sem ungur prestur, kona, hóf sunnudagshugleiðingu með því að kynna hana Píu. Pía er leikkona sem er vel þekkt og hefur leikið í alvarlegum hlutverkum, hlægilegum hlutverkum, sorglegum hlutverkum og hún hefur leikið í ástarsenum sem einhvern tíma hefðu fengið mig til að roðna ef ég hefði horft á það við hliðina á börnunum mínum. Svo ræddu þessar tvær konur um Guð og hvort Guð gæti verið glaður og gamansamur. Pía efaðist ekki um það og sagði frá dæmum um það. Svo las hún stuttan egin texta um samskipti sín við Guð.

Pía sagði frá bernsku sinni þegar hún hljóp um skóginn, dáðist að stórum furum sem teygðu sig mót himni, mjúkum mosa í lautum, skófum á steinum, könglum sem voru fræ að nýjum trjám og hún dáðist að svo miklu sem fyrir augun bar. Hún sagði frá mömmu sinni sem gekk með henni um skóginn, studdi sig við þessar stóru furur, tók jafnvel utan um þær og sótti styrk í lífinu. Þarna skokkaði Pía sem lítil stelpa, fannst hún vera hluti af tilverunni og fannst sem Guð væri með henni. Það var ekki fyrr en síðar sem hún áttaði sig á því að til væri eitthvað sem nefndist kristni. Sjálf Guðstrúin hafði komið bara svona af sjálfu sér, kristnin kom síðar.

Þetta að skokka um ósnortna náttúru var mér ekki framandi og ég get sagt eins og Pía að mér fannst sem ég væri hluti af allri tilverunni. Ég var oft sendur á milli bæja og átti þá oft að fara á hesti. Það var mér raun því að ég vildi vera nær jörðinni en svo að ég vildi sitja uppi á hestbaki. Ég gerði líka hesta lata þegar ég fór eitthvað einn á hesti og báðum virtist líða hálf illa. Ég held að þeir hafi skynjað hug minn. Það var í lagi þegar fleiri voru saman, þá gekk mér vel með hesta.

Eftir að hafa hlustað á Píu og prestinn fór ég inn á Google og sló upp orðinu Djúpárdalur. Mig langaði að sjá það umhverfi sem ég þreifst svo vel í sem stráklingur og unglingur. Og það stóð ekki á því að myndirnar hreinlega ultu fram. Djúpur grámosi á hraunnibbu, jökulvatnið og bergvatnið sem mætast svo makalaust afgerandi inn á Fossum, gróðurlitlar Innhlíðarnar þar sem hvert fjallablóm verður að fjársjóði fyrir augað, grámosavaxnir Hnjúkarnir með sínum seiðandi mjúku línum og allar lindirnar sem síðar verða að lækjum og ám. Lindirnar, hreinni en allt sem hreint er, horfandi mót himni í ungu sakleysi, bara að leggjast niður og teyga vatnið, rísa upp og horfa á spegilmynd sína. Svo dettur vatnsdropi af nefinu sem myndar hringa á vatninu sem er að koma upp á yfirborðið eftir langt ferðalag inni í fjallinu eftir hárfínum göngum sem maður veit ekkert um. Hárfín göng í stóru fjalli? En skemmtilegt! Og lindin býr yfir helgum leyndarmálum úr fjallinu sem hún hefur rannsakað að innan, leyndarmálum sem aldrei verða sögð. Svo heldur hún áfram að renna krókótta leið til Atlantshafsins.

Enn eitt af undrum Kálfafellsheiðarinnar eru Hjallafossarnir þar sem silfurtær Laxá brýst fram úr gljúfrunum milli Innri og Fremri Hnjúka að austan ásamt Hjöllunum og hinsvegar Blómsturvallafjallsins að vestanverðu. Nokkur hundruð metra framan við fossana virðast vera leifar af gömlum berggöngum sem stinga sér úr í ána og svo voru þarna líka gömul sauðahús þar sem lengi gaf að líta heystabba inni í hlöðutóftinni. Þvíilíkt ævintýri, hreina þjóðsagan að hafa farið svo langt frá byggð til að sinna sauðfé.

En minn ævintýraheimur var mikið nær mannabyggð. Að fara austur með Djúpá, framhjá Arnarbælistindi og koma þar með í Garðahvamm, álíka breiðan og hann er djúpur, þar var veröld númer eitt. Að fara meðfram klettunum sem liggja í skeifu ofan við brekkurnar og kíkja þar inn í skútana gaf von um gæsahreiður. Og ef gæs velti sér fram undan klettunum þegar ég nálgaðist var svo mikil upplifun að ekkert varð sér líkt og brött brekka varð álíka létt að klífa eins og að hlaupa eftir sléttum grasbala. Grasflötin með lækjarskorningnum innst í Garðahvamminum gaf ímyndunaraflinu lausan tauminn -hús, hvílíkt stórkostlegt hússtæði sem duldist á þessari grasflöt. Sú tilfinning fylgir mér reyndar enn í dag.

Að loknum Garðahvammi tók við Lambhagi, veröld númer tvö, allt öðru vísi en Garrðahvammur og breytingin átti sér stað á kannski tíu metra vegalengd. Það var eins og að ganga í gegnum hlið í vel skipulögðum skrúðgarði þar sem arkitektinn hugsaði einmitt út þessa snöggu breytingu frá einu umhverfi til annars. Lambhaginn gat varla kallast hvammur, hann var svo beinn. Minni skútar voru þar undir klettunum og Djúpá næstum sleikti brekkurnar. Hraunklappir með geilum á milli gáfu Lambhaga sinn sterka persónuleika og milli hraunklappanna var sandur og stöku sinnum var hægt að greina þar tófuför. Það var stórt og að sjá tófuför var næstum að sjá tófu!

Svo tók Lambhaginn enda og stefnan meðfram Djúpá breyttist frá leið til austurs til þess að ganga til norðurs. Skilin þar voru heldur breiðari yfirferðar en þar tók þó innan skamms við veröld númer þrjú. Sú veröld var ekki bara öðru vísi en báðar hinar heldur allt, allt öðruvísi. Þar tók við grámosinn, hraunnibbur sem stungu upp trjónunni, grámosavaxnir hraunkambar sem stungu upp herðunum með skorum og lægðum á milli. Pínulitlir hvammar með grasi í botni þar sem gott var að setjast niður gáfu þessum undraheimi stillingu og ró. Austan við rann Djúpá í flúðum og boðaföllum í bugðóttu gljúfri með stuðlabergi, vestan við voru grösugir Garðarnir og þessi veröld endaði til norðurs við Gufufoss. Þar varð enn ein breytingin og enn önnur veröd tók við, en við Gufufoss enduðu þessar veraldir mínar sem ég átti oftast samveru með.

Svo hélt dagurinn áfram hér á Sólvöllum og undir hádegi hafði regnið aukist og streymdi beint niður svo avslappað og mjúkt. Ég skildi við veröldina hennar Píu og veraldirnar mínar meðfram Djúpá austan við Kálfafell og við Valdís skruppum til Örebro í allt aðra veröld. Ég á mikið af myndum af þessu svæði bernskuáranna en myndirnar mínar eru ekki aðgengilegar fyrir mig sem stendur. Ég hef farið þessa leið með börnunum mínum og tekið myndir af þeim á þessum slóðum. Ég á engar myndir af mér þegar ég skondraði þarna um fyrir 60 árum. Minningin verður að nægja. Líklega var ég svolítið skrýtinn og einveran hentaði mér. Einveran? Ég tek af hreinskilni undir með henni Píu að ég var ekki einn á ferð. Ferðafélagi minn var góður.

Heyrðu! Það var sunnudagshugleiðing í morgun! Já, ef ekki hugleiðing, hvað þá?
RSS 2.0