Hvílíkur dýrðlegur morgun

Ég kom heim úr vinnunni upp úr hádegi í gær, all sargaður af þreytu, og hafði þá lokið eiginlega nákvæmlega mánaðar vinnu í þessum júlímánuði. Það er ekkert fyrir mig að stæla mig af á þessum aldri, kannski frekar heimskulegt, en eftir á er ég ánægður með að geta gert þetta. Það varð meira en til stóð, það bara varð svo, og síðasti sólarhringurinn varð einn af þessum sólarhringum sem verður að teljast með þeim erfiðustu á mínum vinnustað. En ég finn mig snarlifandi og þátttakanda í samfélaginu sem ég lifi í. Eftir rúmlega átta tíma nætursvefn án þess að rumska, og svolítinn miðdegisblund í gær, finn ég mig vel hvíldan og ég er búinn að dvelja í skóginum bakvið húsið í morgun.
 
Auðvitað var það mikill lúxus að það var fólk hér heima þegar ég kom heim í gær. Stuttu eftir að ég kom heim buðu gestirnir mínir mér upp á vöfflukaffi -og hvað það bragðaðist vel! Svo lagði ég mig. Ég á líka lítinn heiður af þessu kvöldmatarborði. Ég steikti ekki zucchinið á stóra fatinu sem var sótt út í græna matarhornið á Sólvöllum, ég gerði heldur ekki pizzuna sem var á litla borðinu til hliðar og sést ekki á myndinni. En ég sótti þó síldina niður í kjallara og bar út diskana. Ég kom líka út með illiblómasaftið sem er í könnunni frá henni Guðnýju systur í handmáluðu könnunni hinu megin á borðinu. Málið er bara að það var minnsta vinnan í því sem ég gerði. Reyndar gróðursetti ég illiplöntu í gær. Það skal nefnilega verða árlegt að það verði til illiblómasaft á Sólvöllum svo lengi sem ég verð fær um að gera það.
 
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég fór í stuttu morgungönguna mína á nærbuxunum og inniskónum í morgun var að skoða brómberin. Ég vona að þau nái að þroskast í ár. Brómberjarunnana tvo fékk ég frá vinnufélögum mínum þegar ég varð sjötíu ára. Þeir bera ekki ber nema á sólríkum sumrum. Þessir runnar eru líka svo ungir að þetta er eiginlega fyrsta sumarið sem þeir eiga kost á að bera ber.
 
Bara að hafa laufhaf við hlið mér á svona morgni er gott. Það þarf ekki meira en svo.
 
Ég settist á bláberjabekkinn og horfði heim. Ekkert hljóð, ekki einu sinni í flugu. Á svo hljóðum morgni reyni ég líka að ganga varlega. Kannski sitja hljóðlega líka. Svolítil vinna og talsvert annað puð, hvað er það fyrir mig og geta síðan átt svona morgna? Svona morgnar eru alls virði og meiga eiginlega aldrei taka enda.
 
Og við fætur mér þegar ég sit á bláberjabekknum eru bláberin á bláberjarunnunum sem Rósa og Pétur gáfu mér fyrir all nokkrum árum. Þannig byrjaði bláberjarunnarækt á Sólvöllum. Bakvið mig á bekknum eru líka margir runnar sem einnig bera þessi stóru ber sem eru á stærð við sykurmola.
 
Við hliðina á bláberjabekknum er þetta beykitré sem ég gróðursetti árið 2007. Eiginlega var það svo stórt þegar ég flutti það út öðrum skógi á Sólvelli að það var varla hægt að kalla það stóra plöntu. En alla vega þá er það núna orðið tré sem er erfitt að mæla stærðina á. Það er nú alveg meira hvað beykin mín hafa vaxið. Ég veit hvers vegna, ég á mína leyniaðferð. Sú hollasta og besta sagði mér kona á garðyrkjustöð fyrir einum fimm árum. Svo hélt ég heim á leið aftur.
 
Á heimleiðinni varð mér litið á þær systur, eik og eik, sem gnæfa hæst á myndinni. Veturinn 2004-2005 voru þær mikið sargaðar af frekum greni- og reyniviðartrjám. Þá grisjuðum við Valdís í kringum þær. Þær hafa launað frelsið á svo ótrúlega ríkulegan hátt. Þær hafa fengið þetta fallega vaxtarlag og stækkað eitthvað svo með ólíkindum mikið og fengið gilda stofa. Eikur vaxa annars hægt. Nær á myndinni til hægri er birkitré sem hafði ekki einu sinni litið dagsins ljós þegar við grisjuðum kringum eikurnar. Þetta birkitré er nú að ganga fallega frá sér sem sambýlingur með eikunum og svo getur það vonandi gengið enn um árabil. Uppi í horninu til hægri sér í enn eina systur eik. Það var sama um hana að segja þegar við komum á Sólvelli. Það tók mig tvö ár að finna hana. Nú er hún stolt og stórt tré austur af miðju húsinu ásamt mörgum heldur minni eikarsystrum.
 
Mikið er notalegt og gaman að fara í svona morgungöngu á Sólvöllum. Væri ég búinn að vera iðjulaus og latur hér heima síðustu mánuðina mundi ég alls ekki hafa upplifað svona dýrðlega morgunstund. Ég verð djúpt hrærður af að skrifa þetta. Ég heyri að lífið er komið í fullan gang á þessum bæ og ég ætla að fara að taka þátt í því. Það er líka farið að líða nokkuð að hádegi.
 
Þetta er bara hluti af því sem rennur gegnum hugann á friðsælli morgungöngu í Sólvallaskógi.

Hlé á bloggi

Það er lítið um blogg um þessar mundir og verður væntanlega einhverja daga. Hins vegar hleðst upp bloggefni sem ég hef hingað til hugsað sem sjálfsagaðan hlut að birta. En myndirnar eru góð dagbók ef ég bíð ekki of lengi og einn fallegan sumardag mun ég væntanelga fara af stað með töluverðum gáska ef ég þekki GB rétt. Svo getur alltaf dottið inn eitt og eitt blogg inn á milli.
 
Það er margt að gera á sveitabýlinu og allt sem gert er er til framfara. Rósa gerði sultu úr sólberjum áðan af runna sem ég gróðursetti í vor, runna sem átti ekki að gefa neitt af sér á þessu ári. Svona hlutir eru til ánægju og lyktin af sultunni angaði svo sannarlega notalega.
 
 
Í gær fórum við í heimsókn suðvestur á bóginn. Sú heimsókn hefur verið á dagskránni í ein átta ár, ekki minna. Þessi mynd er tekin frá þeim stað sem við sóttum heim og er tekin í rigningu. Samt segir hún svo sannarlega frá því í hvaða umhverfi við vorum og fengum heitar vöfflur þar hjá heimafólki.
 
Konan á myndinni þarna var áður nágranni Rósu og fjölskyldu til margra ára og góð vinkona. Þetta er hún Ulla, flugfreyja um nokkurra áratuga skeið en er nú komin niður á jörðina. Mjög væn kona og var þeim góður nágranni og það var heimboð til sumarbústaðar stórfjölskyldu hennar sem við loksins létum verða af að þiggja í gærdag. Svo kom Ulla með okkur á Sólvelli undir kvöldið og borðaði þorsk af Íslandsmiðum matreiddan af Rósu og Pétri. Svo hélt hún áfram með lest til Stokkhólms. Þannig getur einn dagur liðið og það verður ekki svo mikið meira gert þann daginn.
 
Sjáumst.

Stórihólminn

Hér sjáum við einn af álum Svartárinnar sem rennur í gegnum Örebro. Við getum sagt að þessi áll sé sá nyrðri Allar byggingar sem greina má á þessari mynd tilheyra Háskólasjúkrahúsinu í Örebro og það eru stórar byggingar sem tilheyra sjúkrahúsinu sem ekki sjást ekki á þessari mynd en eru samt í sömu samtengdu þyrpingunni.
 
 
Þetta er syðri állinn þar sem bátur er í viðstöðulausum ferðum í góða veðrinu með fólk yfir mjótt sundið. Milli þessara ála er Storholmen og kannski í lagi fyrir mig að kalla hann Stórahólmann. Við núverandi ábúendur á Sólvöllum heimsóttum Stórahólmann í gær, miðvikudag. Hannes og Valgerður dvöldu þar líka í nokkra klukkutíma um daginn. Honum leiðist ekki að koma þarna.
 
 
Á Stórahólmanum er margt að finna fyrir unga fólkið -og nefnilega heilmikið fyrir fullorðna líka. Þessi smálest er í nánast viðstöðulausum ferðum eftir spori sem liggur hringinn í kringum aðal athafnasvæðið á Stórahólmanum.
 
 
Og þarna sjáum við fólk sem brá sér í ferð í gær. Ég, afi, baðst undan að fara þar sem mér hentar ekki sem best að sitja í þessum stellingum. Ég gekk hins vegar frá brottfararstað og þvert yfir hólmann og tók þessa mynd. Svo gekk ég til baka og var kominn á áfangastað áður en smálestin kom þangað.
 
 
Ungur nemur, gamall temur. Þegar ég hafði horft á þetta um stund skrapp ég í afgreiðsluna og leigði mér kylfu líka og kúlu með. Síðan æfði ég mínígolf og að lokum vorum það við Pétur sem vorum eftir í golfinu en mæðginin Rósa og Hannes héldu í leit nýrra ævintýra. Svo gáfumst við Pétur upp að lokum og leituðum líka nýrra ævintýra. Ég er viss með að skreppa aftur á Stórahólmann einungis til að æfa mínígolf.
 
 
Smá bílaævintýri skaðar ekki. Það er spurning hvor skemmtir sér betur.
 
 
Það er seldur góður ís á Stórahólmanum og þegar ungir og gamlir fara að þreytast er nauðsynlegt að fá sér eitthvað sem gefur kraft til að halda áfram. En þá verður fólk að fara í röð enda er nauðsynlegt að læra það í tíma að standa þolinmóður í biðröð og fá svo sína hjálp að lokum. Afi fór ekki í biðröðina, það voru aðrir sem sáu um að kaupa ís handa honum.
 
Svo er það svo frábært með Stórahólmann að þar er líka hægt að láta sér þykja vænt um hana mömmu sína og sýna það í verki.
 
 
Degi á Stórahólmanum lýkur eins og öðrum dögum og þarna er Kungshólmafjölskyldan frá Stokkhólmi á leiðinni yfir eina af brúnum sem tengja Stórahólmann við fastalandið. Eitthvað eru þau að virða fyrir sér þarna enda er makalaust gróskulegt og fallegt á þessu svæði. Það fer líka vel á því í námunda við stórt sjúkrahús þar sem margir eru læknaðir og aðrir fá alla þá mögulegu hjálp sem hægt er að veita fólki sem á við raunir að stríða.
 
 
Á leiðinni að bílnum og aðalinngangar sjúkrahússins eru í baksýn. Það fer ekki hjá því að minningar um hið liðna klífa fram hjá mér og fleirum við að koma þarna á þetta svæði. Þær voru margar ferðirnar inn um þessa innganga og fleiri innganga nokkru fjær á nokkrum liðnum misserum. Samt er gott að koma á Stórahólmnann og sjá ungan mann gleðjast í ævintýraheimi.
 
 
Afi! má ég sjá hvernig þú gerir? spurði Hannes þegar ég gerði upp bílinn á stóra bílastæði sjúkrahússins. Svo kom hann og fylgdist með og gæti eflaust bjargað þessu sjálfur eftirleiðis ef á þyrfti að halda. Eða er ég kannski full bjartsýnn? Hann er ekki orðinn fimm ára ennþá.

Kveðjustund

Dagarnir um þessar mundir eru þeir fegurstu sem sænskt sumar býður upp á. Heima er fólk í heimsókn en ér er í vinnu á laugardagskvöldi. Það er svolítið öfugsnúið en þannig fór það og ég hef engu um að kenna. Valgerður og Jónatan fara heim á morgun og við höfum reyndar haft góðar stundir saman þrátt fyrir að ég hafi verið of mikið að heiman. Þau fara heim á morgun nokkrum klukkutímum áður en ég kem heim frá vinnu.
 
Á ég ekki að baka brauð fyrir sameigilnlega morgunverð í fyrramálið? spurði Valgerður í gærkvöldi. Ég dró frekar úr því, taldi að það mundi draga allt á langinn og ég mundi koma of seint á vinnustað. Svo fór ég í sturtu klukkan átta í morgun og þegar ég kom þaðan sá ég að brauðið var þegar komið í bakarofninn. Svo var sameiginlegur morgunverður út á veröndinni skógarmegin við húsið. Allt var í tíma, morgunverðurinn rólegur og enginn asi á neinu. Síðan ók ég rólega í vinnuna í þessari líka einstöku blíðu.
 
Þær eru margar máltíðirnar sem borðaðar hafa verið úti í þessu frábæra veðri síðan fólkið kom á Sólvelli fyrir rúmlega viku, morgna, kvölds og um miðjan dag. Svona tímabil eru mikil verðmæti. Ég hef ekki gefið mér tíma til að draga mig undan og blogga en það hafa samt komið upp mörg tilefni til að gera það. Ég vona bara að ég komi til með að muna þessi tilefni og gera efni úr þeim. Myndirnar eru líka góður minnisbanki fyrir þetta.
 
 
Ég tók myndir af sameiginlega morgunverðinum í morgun en þær voru ekki vel teknar hjá mér. Þessi mynd er heldur ekki góð en hún er frá ríkulegum kvöldverði í gær. Svona veður er eiginlega ekki það besta fyrir myndatökukunnáttu mína og kannski ekki heldur fyrir myndavélina mína. Ég nota myndina samt. Hún er tekin vestan megin við húsið. Skógarmegin er hins vegar austan megin.
 
 
Hann nafni minn hreiðraði um sig á teppi með björgunarþyrluna sína og fleiri góð tæki meðan við hin borðuðum morgunverðinn. Einhvern vegin fellur mér þessi mynd vel þó að hann brosi ekki móti okkur við myndatökuna. Hann var afslappaður og rólegur þarna og sjálfum sér nógur með tækin sín.
 
 
Hér er önnur mynd frá í gærkvöldi. Pétur stóð upp á stól og tók myndir og Jónatan stóð út á túni með sína myndavél þegar ég kom með litlu myndavélina mína. Þeir tóku myndir af því sama, fallegum ljósbrigðum í átt að Kilsbergen. Ég bað Jónatan að færa sig nær Pétri og hann gerði það, kom nær Pétri og tók mynd af mér. Valgerður og Rósa fylgdust hljóðlátar með þssu dagskráratriði kvöldsins en Hannes var þá kominn inn að matarborðinu með ís í skál og undi sér þar.
 
 
 
 
Allt í einu kom rólegt kvöld í vinnunni og ég náði þremur korterum til að koma þessu bloggi saman. Ég er feginn því. Það ómar af kveðjustund í kollinum á mér. Það er ekki einu sinni öruggt að ég geti hringt heim í fyrramálið áður en Vestmannaeyingarnir fara. Þakka ykkur fyrir komnuna Valgerður mín og Jónatan og þakka ykkur fyrir að gista Bjarg og gefa bústaðnum þar sál. Bústaður fær varla sál fyrr en fólk fer að búa þar. Valgerður hefur gist Bjarg áður en þá var það ekki eins tilbúið til íveru og það er núna.
 
Hér með er tíminn sem ég hef fyrir mig liðinn að þessu sinni. Ég mun láta heyra í mér aftur áður en langt um líður.
.
 

Gestakoma til Sólvallakarlsins, smárabreiður fyrir býflugnabónda

Á stefnuskránni hjá mér er að sofa mikið í nótt eftir frekar langan vinnusólarhring, fara í vinnu aftur á morgun og vera í vinnu þegar Hannes Guðjón kemur með mömmu sinni annað kvöld. Rúmið hans er tilbúið því hann kemur seint eftir sinn langa vinnudag og mamma hans verður líka búinn að eiga langan vinnudag þegar hún leggur af stað frá Stokkhólmi. Það er mikil vinna hjá öllum í augnablikinu og svo er allt í einu frí til að grilla um komandi góðviðrishelgi.
 
Á föstudag fer ég þokkalega tímanlega frá Vornesi og fer til bæjar sem heitir Hallsberg og tek þar á móti Valgerði og Jónatan. Síðan verður haldið til heim til Sólvalla og þá verður kyrrð og næði. Pétur kemur seinna því að hann getur ekki losnað út úr annríkinu alveg strax.
 
Þannig standa málin hér á bæ og ég hvorki bý yfir andríki til að blogga eða gef mér tíma til þess. Ég fór þó með myndavélina út áðan því að ég varð svolítið undrandi þegar ég kom heim upp úr hádegi í dag.
 
 
 
Eftir rúmlega sólarhrings fjarveru hafði gróðurfarið á lóðinni gerbreytst. Græni liturinn var orðinn sterkari eftir talsverða úrkomudaga undanfarið, og ekki bara það, það varu komnar svona líka miklar smárabreiður um allt. Litið til norðurs móti Elísabetu og Klas-Olav; smárbreiður um allt. Lág kvöldsólin gerði lýsinguna á myndunum dálítið undarlega.
 
 
 
 
Litið til suðurs móti Lars og dætrunum; smárabreiður um allt.
 
Getur þetta komið til af því að ég hef ekki verið sérstaklega duglegur við að slá? Ef svo er sé ég ekki eftir því. Smárinn er góður áburðarframleiðandi eftir því sem ég best veit. Hann er líka mjög góður fyrir býflugnabændur. Verði ég býflugnabóndi, þá er smárinn kærkominn. Ég mun ekki flýta mér of mikið að slá allar þessar blómabreiður.
 
Núna verður svefninn mér líka kærkominn.
RSS 2.0