Gestakoma til Sólvallakarlsins, smárabreiður fyrir býflugnabónda

Á stefnuskránni hjá mér er að sofa mikið í nótt eftir frekar langan vinnusólarhring, fara í vinnu aftur á morgun og vera í vinnu þegar Hannes Guðjón kemur með mömmu sinni annað kvöld. Rúmið hans er tilbúið því hann kemur seint eftir sinn langa vinnudag og mamma hans verður líka búinn að eiga langan vinnudag þegar hún leggur af stað frá Stokkhólmi. Það er mikil vinna hjá öllum í augnablikinu og svo er allt í einu frí til að grilla um komandi góðviðrishelgi.
 
Á föstudag fer ég þokkalega tímanlega frá Vornesi og fer til bæjar sem heitir Hallsberg og tek þar á móti Valgerði og Jónatan. Síðan verður haldið til heim til Sólvalla og þá verður kyrrð og næði. Pétur kemur seinna því að hann getur ekki losnað út úr annríkinu alveg strax.
 
Þannig standa málin hér á bæ og ég hvorki bý yfir andríki til að blogga eða gef mér tíma til þess. Ég fór þó með myndavélina út áðan því að ég varð svolítið undrandi þegar ég kom heim upp úr hádegi í dag.
 
 
 
Eftir rúmlega sólarhrings fjarveru hafði gróðurfarið á lóðinni gerbreytst. Græni liturinn var orðinn sterkari eftir talsverða úrkomudaga undanfarið, og ekki bara það, það varu komnar svona líka miklar smárabreiður um allt. Litið til norðurs móti Elísabetu og Klas-Olav; smárbreiður um allt. Lág kvöldsólin gerði lýsinguna á myndunum dálítið undarlega.
 
 
 
 
Litið til suðurs móti Lars og dætrunum; smárabreiður um allt.
 
Getur þetta komið til af því að ég hef ekki verið sérstaklega duglegur við að slá? Ef svo er sé ég ekki eftir því. Smárinn er góður áburðarframleiðandi eftir því sem ég best veit. Hann er líka mjög góður fyrir býflugnabændur. Verði ég býflugnabóndi, þá er smárinn kærkominn. Ég mun ekki flýta mér of mikið að slá allar þessar blómabreiður.
 
Núna verður svefninn mér líka kærkominn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0