Á Náttúrusögusafninu og elliheimilinu og eitt til

Unga manninn þarna hjá ísbirninum ætlaði ég að hitta núna undir kvöldið. Svo varð ekki. Sjálfsagt hefði ég komist alla leið til Stokkhólms milli élja en það er spurning hvort ég hefði verið svo sniðugur afi að gera það. Það er nóg vesen á vegnunum samt sem byggir á að of margir eru á ferðinni miðað við aðstæður og liggur of mikið á.
 
Ekki meira um það. Þarna er Hannes Guðjón á safni sem alltaf er gaman að heimsækja. Ég spurði ekki hvort ég mætti nota þessar myndir, en bara um leið og ég sá þær langaði mig á Naturhistoriska riksmusseet eða bara Náttúrusögusafn ríkisins. Þar er endalaust mikið að sjá get ég hugsað mér að segja, þar er alveg ótrúlegur bíósalur þar sem hægt er að verða bæði lofthræddur og sjóveikur og eiginlega detta úr stólnum ef maður lifir sig inn í sýninguna. Svo er það þetta mikilvæga; þarna er hægt að fá sér kaffi og mikið gott með því.
 
Mér sýnist Hannes vera kominn þarna inn í risaeðluegg og honum virðist ekki leiðast. En það er ekki allt úr dýraríkinu á Náttúrusögusafninu. Fyrst þegar við Valdís komum þangað var viðstöðulaust Vestmannaeyjagos á einum vegg með viðeigandi drunum, eldum                                                       og eldglæringum. Það var á deild um jarðfræði og tilurð jarðarinnar. Ég stefni á þetta safn við fyrsta tækifæri.
 
*          *          *
 

Um hálfsjö leytið stóð ég við eldhúsbekkinn og skar ólíkar lauksortir. Ég sveif um víðáttumikla heima og geima og var mjög heimsepkilegur í hugsun. Í þetta skipti tókst mér að skera laukinn án þess að gráta. Smám saman varð til hinn besti kvöldmatur, ofnsteiktur lax með mjög fjölbreytilegum pönnurétti eins og ég kalla það. Svo bar ég á borð, opnaði fyrir sjónvarpsfréttunum og byrjaði að borða.
 
Ég man fréttirnar mjög óljóst utan tvær fréttir sem standa upp úr. Þannig er það oft og ég hugsa stundum til hvers ég sé að horfa á þetta. Samt finnst mér að mér beri skylda til að fylgjast nokkuð með.
 
Fyrri fréttin sem ég man vel eftir var frá elliheimili langt norður í landi. Oft er talað um lélega umönnun á elliheimilum en þessi frétt var um hið gagnstæða. Starfsfólk var ánægt og vistfólkið var ánægt. Það er spurning hvort á að nefna á undan en alla vega er það þannig að ef starfsfólk er óánægt og vansælt, þá verður ekki svo hýr há hjá vistfólkinu heldur. Allur matur var heimatilbúinn, ilmaði svo að munnvatnið flæddi og matarlystin söng. Fólk talaði hressilega saman og sló sér á lær. Já, það virtist gaman á þessu elliheimili.
 
Hin fréttin sem ég man eftir var frá öðru elliheimili langt suður í landi. Fréttin var um Bússa sem er 92 ára og gengur við göngugrind og hana Hallveigu sem er 94 ára og rúllar sér fimlega áfram á léttum hjólastól. Þau líta ljómandi vel út, bera sig vel á allan hátt, eru hress í tali og alveg bullandi ástfangin. Þau voru að opna trúlofun sína. Bússi sagðist vera allur annar maður eftir að hann kynntist henni Hallveigu, hann væri bara svo mikið glaðari og liði svo mikið betur, enda væri hún Hallveig alveg einstök manneskja. Þetta væri nú meiri hamingjan á lífsins hausti, nokkuð sem hann átti ekki von á að gæti átt sér stað fyrir fólk á þessum aldri. En það átti sér stað þrátt fyrir allt.
 
Hallveig geislaði líka af ánægju og til að sýna enn betur ást sína á Bússa lagði hún hönd á haldlegg hans til að leggja áherslu á mál sitt. Hún var spurð hvernig þessi ást væri miðað við ástir unga fólksins. Já, svaraði Hallveig íbyggin, hún er nú mikið meiri á djúpinu ástin á okkar aldri. En svo hélt hún áfram og sagði af sjálfsöryggi; að öðru leyti er það alveg nákvæmlega eins. Svo rúllaði hún sér áfram í hjólastólnum sínum og Bússi gekk með sína göngugrind við hlið hennar. Mikið voru þau falleg.
 
Ég gaf þeim þessi nöfn og það var ekkert grín við þessa frétt. Hún var unnin af umhyggju og virðingu fyrir öldungunum og engin tilraun gerð til að gera þetta broslegt.
 
*          *          *
 
Í dag eru 23 ár síðan ég byrjaði að ganga lyfjalaus um ganga á Vogi, var farinn að ná áttum og möguleiki á nýju og betra lífi virtist blasa við. Það gekk eftir. Ég varð hrærður við að skrifa þessar línur, svo stórt var það og er enn í dag.

Ég svo sem stökk ekki upp úr skónum af kæti

Hann Anton Már í Hrísey sagði í morgun í sinni daglegu veðurfréttatilkynningu að það væri hundslappadrífa. Það var engin hundslappadrífa hér í morgun en þá mikið frekar múslappadrífa. Það var smágerður salli sem féll í drjúgum mæli til jarðar og þannig var það líka í gærkvöldi áður en ég gekk til fundar með Óla lokbrá. Slóðirnar sem ég hreinsaði síðast í gær voru ekki horfnar, en þær voru búnar að fá mjúkar útlínur. Það er spáð snjókomu áfram og vörubílar liggja þversum yfir vegi. Ég mun halda mig heima um helgina, ég sem ætlaði í heimsókn til Stokkhólmsfjölskyldunnar og með viðkomu í Västerås.
 
Ég ætlaði líka að baka rúgbrauð og hafa með mér en ég held ég sleppi því alveg að fara í fjórtán kílómetra ferð eftir súrmjólk í rúgbrauðið. Ég hef nóg að sýsla heima, meira en ég kemst yfir þannig að ég þarf að velja og hafna. Vegirnir munu áfram liggja móti Västerås og Stokkhólmi þegar þessari snjókomu linnir og vörubílarnir hafa verið fjarlægðir af vegunum. Þar sem ég er ellilífeyrisþegi og á allan tíma sem finnst í heiminum og allt lífið hef ég fyrir framan mig, þá koma tímar og aðrir möguleikar.
 
Þessi tími hefur löngum verið mesti vetrartíminn. Jafnvel þó að það hafi verið nokkuð hlýtt fram undir miðjan janúar vissa vetur, þá verður vetur um þetta leyti. Hindersmessa er einmitt um þetta leyti, þegar vetur er nokkurn veginn örugglega harðastur. Þá er markaður í Örebro sem kallast hindersmessumarkaðurinn, en sá markaður var fyrst haldinn á 14. öld. Það er í frásögur fært að hann fór ekki fram árið 1446 þar sem einhver hátt settur í mannheimi bannaði hann það ár. En að öðru leyti, að því er ég best veit, hefur hann farið fram öll önnur ár.
 
Valdís hafði það fyrir venju að fara á þennan markað, við saman eða hún með einhverjum öðrum. Stundum líka með einhverjum öðrum og svo mér líka. Ég er lítill markaðskall og finnst best að fara og rölta aðeins um og fara svo í gott kaffi. Á laugardaginn var hringdi hún Auður og spurði hvort ég vildi ekki koma með þeim hjónum á markaðinn. Ég svo sem stökk ekki upp úr skónum af kæti en féllst nokkurn veginn á þetta, en með semingi þó. Auður hlustaði ekki á mig og sagði mér einfaldlega að koma heim til þeirra og svo færum við á markaðinn heiman að frá þeim og ekkert væl! Svo gerðum við og við fengum okkur líka kaffi á kaffihúsi.
 
Víst eru þau fín. Það er nú bara þannig að þau eru ástfangin þessi hjón, Auður og Þórir. Þau eru ekkert að tala um það eða hampa því, en það sést meira að segja á myndinni. Þakka ykkur fyrir að hringja til mín og fara þetta með mér. Ég fann vel að ég hafði gott af því. Ég sem bloggaði oft um það í fyrra að vinátta væri mikilvæg sem hún líka er, en ég er samt lélegur við að rækta hana, lélegri en ég hélt að ég yrði. Hefði átt að tala minna en standa við meira.
 
Ég fer ekki á markað til að kaupa alls ekki neitt. Ég hafði sultu í huga og kannski einhvers konar bjúgu. Svo varð það bara sulta og fleira í þeirri sætu fjölskyldu. Í krukkunum til vinstri er til dæmis hunang fyrir hálsinn, gott fyrir söngvara sagði konan sem seldi. Kannski ég ætti að prufa. Í stóru krukkunni er moltuberjasulta og í köntuðu krukkunum er havtornsmarmelaði. Ég finn ekkert íslenskt orð yfir það í orðabókinni minni. Í litlu krukkunum sjö er hunang sem bragðast á ólíkan hátt. Allt er þetta skemmtilegt til að hafa í kælinum hjá Sólvallamér. Það er nú annað hvort að búa vel.
 
Þessa mynd tók ég ekki á neinum markaði, ég tók hana í verslun í miðbænum í Örebro. Þar selur sem sagt íslenskan Sif Jakobsdóttir vörurnar sem hún hannar. Þar var margt fleira undir hennar nafni.
 
Ég sagði áðan að það hefði ekki fundist neitt yfir orðið "havtorn" í orðabókinni minni. Ég fann ekki heldur orðið "hindersmässa" í orðabókinni og þá setti ég það inn á Google þýðingarforritið. Þar fékk ég að vita að það þýddi "hindrun sanngjörn". Ég sleppti alveg að nota það í textanum en mátti til með að segja frá þessari mjög svo frumlegu þýðingu.
 
Ég hef punktað þetta niður í smá áföngum í dag. Ég hef allan daginn verið hálf óánægður með að ætla ekki að fara í áðurnefnda ferð móti Stokkhólmi á morgun og þess vegna fylgdist ég mjög náið með veðurspánni klukkan tæplega átta í kvöld. Þá hvarf mér allur efi. Spáin er þannig að sæmilega skynsamir menn -ekki síst ef þeir eru ellilífeyrisþegar- eiga án alls efa að sleppa langferðum á morgun, hreinlega alla helgina. Mig langaði að fara og hitta fólk en þetta er heilbrigð skynsemi og alls ekki kjarkleysi.

Þegar vinnan og áhugamálið fara saman

Nýr dagur gekk í garð hjá mér rétt fyrir klukkan átta í morgun og þá vaknaði ég eftir einn frábæran blund á sömu hlið og ég sofnaði á rúmum átta tímum áður. Ég var uppgefinn þegar ég lagði mig í gær. Eftir stuttan svefn í tvær nætur og býsna mikið annríki í vinnunni í sólarhring var ég þreyttur.
 
Sumir hlutir virðast ekki alveg vera ætlaðir mér að fást við. Má þar nefna sturtuhurðina sem ég bloggaði um í gærkvöldi. Það fórst mér ekki vel úr hendi vegna þess að það var ekki beinlínis mitt fag. Ég ætla ekki að lýsa því hvernig ég leysti það því að það yrðu of löng skrif um lítið málefni.
 
En þegar ég vaknaði í Vornesi í gærmorgun sat ég einhverja mínútu á rúmkantinum og velti fyrir mér hvað ég hefði tekið mér fyrir hendur síðasta sólarhringinn. Það var að miklum hluta alveg óvænt, til dæmis að hafa verið í sólarhring á staðnum í staðinn fyrir átta tíma. Ég hafði líka haft sex grúppur og fyrirlestra daginn áður, áttu að vera þrír, og það þykir mikið en gamli komst óskaðaður frá því.
 
Síðan klæddi ég mig og reyndi að snurfusa mig svolítið til í pínulitlu baðherbergi starfsfólks. Síðan fór ég á stjá og hitti fólk svolítið hingað og þangað og um klukkan sex fór ég út, tók mér strákúst í hönd og ýtti honum á undan mér í tíu sentimetra djúpu nýsnævinu og gerði þannig slóð milli sex útihurða sem ég hafði læst kvöldið áður. Aðrar dyr sem ég hafði læst gat fólk einfaldlega opnað sjálft. Mér bar ekki skylda til að þjóna meira en svo.
 
Ég varð svolítið móður með strákústinn og fann hvernig hreyfingin og hreint og svalt útiloftið gerði mér gott. Ég mætti enn fleira fólki innskrifuðu í Vornesi og það urðu svona góðan daginn umræður hingað og þangað. Þess á milli var ég ánægður í mínum morgunhugleiðingum. Ég var þess full viss þarna í gærmorgun að þessi vinna er mjög holl fyrir mig. Hún gefur mér án nokkurs vafa betri heilsu og hindrar væntanlega að ég verði elliær í ótíma. Spurning hvort mín elliæra er ekki nægjanleg samt.
 
Ég er þess aðnjótandi að vinnan er þess eðlis að ég get sinnt henni og ég er líka aðnjótandi þess að vinna mín er metin að verðleikum þrátt fyrir aldur minn, bæði af ráðafólki í Vornesi og sjúklingum, ekki síst af sjúklingum. Ég bloggaði um það fyrir ekki ýkja löngu að þetta er sú eina vinna sem mér finnst eftir á að hyggja að ég hafi kunnað almennilega á mínum vinnuferli. Ég er ennfremur aðnjótandi þess að þessi vinna er mér bæði vinna og áhugamál.
 
Ég skil ekki að fullu fólk sem situr friðlaust við sjónvarpið og æpir vegna þess að það er svo spennandi fótboltaleikur í gangi, eða fólk sem er á handboltaleik og bítur sig í fingurna af spenningi. Ég fer ekki heldur fram á það að fólk skilji mig fyrir að vilja sitja með veikum alkohólistum og eiturlyfjaneytendum og sjá augnaráð þeirra verða fallegra við að segja sannleikann um líf sitt. Eða að sjá börnin sem koma í heimsókn til foreldra á sunnudögum og sitja á hné pabba eða mömmu og með sínum litlu fingrum greiða hár þeirra bakvið eyrað og segja; núna ertu svo flottur pabbi -eða, núna ertu mín reglulega mamma. Á slíkum augnablikum verð ég tilfinninganæmur.
 
*          *          *
 
 
Ég er búinn að fara út með ullarfeldina mína, setja þá á snúruna og hrista þá all hraustlega. Svo eru þeir búnir að liggja í tandurhreinum snjónum í nokkra klukkutíma. Síðan á snúruna aftur og svo inn á rúm. Hurðin sem ég skemmdi um daginn er komin með endurheimta heilsu á sinn stað til frambúðar og smálítið fleira hef ég fengið gert úti í nýbyggingunni. Samt ósköp lítið. Ég hef verið mikið í þönkum mínum í dag og ekki hefur umferðin truflað mig. Mér vitanlega hefur eitt farartæki farið hér framhjá. Einhverjum hefur eflaust tekist að laumast um veginn.
 
En nú er ég búinn að skrökva. Ég fékk reyndar heimsókn í morgun. AA kona úr nágrenninu kom með innkaup sem hún hafði gert fyrir grúppuna okkar og ég fer með þau innkaup með mér í kvöld þegar ég fer til að opna húsið. Hún ætlar að æfa fyrir Vasagönguna og ég er með lykilinn sem stendur. Þegar ég verð búinn að fara í sturtu, borða þorskinn sem ég tók úr frysti í morgun, fara á AA fundinn og lesa síðan nokkrar blaðsíður, þá verður gott að skríða undir hreinan ullarfeldinn og hvílast endanlega eftir vinnutörnina í gær og í fyrradag. Síðan mun ég vakna glaður á nýjum degi sem verður fimm mínútum bjartari en dagurinn í dag.
 
Ég hef nógan tíma fyrir allt sem ég þarf að koma í verk. Eins og ég sagði við manninn í byggingarvöruversluninni í Vingåker í gær þegar ég keypti borina fjóra, þá hef ég allt lífið framundan til að sinna því sem ég þarf. Það er á minni hendi að gera það besta úr því. Eftir rúma tvo mánuði fer ég að ganga út í skóginn til að fylgjast með brumhnöppum beykitrjánna.

Ein lítin skrúfa

Já, það var ein lítil skrúfa sem var erfiðari en allt hitt. Og þetta allt hitt var ýmislegt sem fór öðru vísi en til stóð. Það var eitt atriðið á eftir öðru sem fór þannig hjá dúkalagningamönnum og málara. Lífið er bara þannig og það er eins og þetta komi stundum í törnum, svo margt með stuttu millibili. Meira að segja veikindi geta dunið með ólíkindum á mörgum í sömu fjölskyldu á skömmum tíma. En hér á Sólvöllum fjallaði það um óhöpp í lokafrágangi úti á Bjargi og allir bættu fyrir óhöppin sín. Ég hafði sjálfur alveg sloppið frá þessum óhöppum. Svo var komið að því að setja upp sturtuhurðirnar.
 
Ég skoðaði teikningar af þessari einföldu uppsetningu og tók langan tíma í það. Svo byrjaði ég á því að skrúfa eina alúminíumstoð á vegg, það var veggfestingin fyrir vinstri hurðina. Síðan skrúfaði ég lítil stykki á sitt hvorn endan á stoðinni sem festist á stoðina sem fyrst er fest á vegginn og setti hana svo upp. Að því búnu byrjaði ég að skrúfa eins konar lamir á endana á alúminíumprófíl sem er fastur við sjálfa glerhurðina. Ég tók skrúfvélina og skrúfaði fyrstu skrúfuna alveg í botn og þar með brotnaði hausinn af henni.
 
Ég horfði á þetta skelfingu lostinn og sá þegar að málið var mjög alvarlegt. Það var mikið alvarlegra en það sem hafði komið fyrir dúklagningamennina og málarann. Ég hafði keypt all dýrar og vandaðar sturtuhurðir og var búinn að eyðileggja aðra þeirra. Ég lagði verkfærin frá mér og reyndi að sannfæra sjálfan mig um að ég væri alveg sallarólegur. Svo hélt ég af stað til Bauhaus, fjórtán kílómetra ferðalag. Ég bar upp erindi mitt og var ekki stoltur en hélt þó að hér væri um vörugalla að ræða. Allt í einu hafði ég komist að þeirri niðurstöðu. Ung hjálpleg kona tók við erindi mínu, hringdi í þjónustufyrirtæki suður í Gautaborg og rétti mér svo tólið. Málið varð meira og meira alvarlegt eftir því sem á tímann leið.
 
Maðurinn í Gautborg bað um símanúmer og heimilisfang og ætlaði svo að hringja eftir um það bil tíu daga og ræða þetta, trúlega að koma og rannsaka málið. Ég var að byrja að þorna í munninum og allt í einu datt mér nokkuð hræðilegt í hug sem ég nefndi ekki við Gautaborgarmanninn. Svo hélt ég heim og hugsaði alla leiðina -skrúfvélin, skrúfvélin. Þegar ég kom heim tók ég aftur fram teikninguna og skoðaði á síðu þrjú. Þar sást það svart á hvítu; það mátti alls ekki nota skrúfvél við það sem ég hafði verið að skrúfa.
 
Svo skrúfaði ég allt annað á þessa hurð og setti hana upp en hún virkaði ekki -það vantaði líka eina skrúfu. Svo gerði ég allt það sama við hina hurðina án þess þó að nota skrúfvélina og hún virkaði alveg stórvel. Mér féll allur ketill í eld og hætti þann daginn. Ég sá fyrir mér brotnu skrúfuna sem sennilega ætti eftir að kosta mig nýja hurð og heiður minn.
 
Þarna stendur hurðin á hlið og bláa röndin er sjálft glerið. Brotna skrúfan er hægra megin við efri endann á bláu röndinni, kolföst. Stærðarhlutföllin eru ekki rétt. Aúmíníumprófíllinn eru upp undir helmingi stærri á myndinni en hann er í raun. Skrúfan er því pínulítil í raun, brotni endinn er kúptur og þess vegan erfiðara að fá borinn til að tolla á réttum stað. En án þess að ná henni er hurðin ónýt. Það er heldur ekki hægt að ná henni hafa ráðgjafar mínir sagt. Skrúfan er úr stáli og þess vegna mun borðinn alltaf hrökkva af skrúfunni og út í mýkri málminn. "Þannig er það bara góurinn minn."
 
Þegar ég vaknaði þriðja morguninn eftir óhappið vaknaði ég við lausnina. Því kom ég við í byggingarvöruversluninni í Vingåker á leiðinni heim frá Vornesi í morgun og keypti fjóra bori. Þeir áttu ekki fleiri af stærðinni sem ég þurfti. "Hvað ætlarðu að gera?" spurði maðurinn sem aðstoðaði mig. Ég sagðist ætla að bora burtu stálskrúfu úr alúminíum þar sem það væru þunnir veggir kringum skrúfuna. Hann leit upp frá afgreiðsluborðinu, horfði framan í mig og spurði hvernig ég ætlaði að fara að því. Ég sagðist hafa vaknað við lausnina í gærmorgun. Gangi þér vel sagði hann.
 
Skrúfan ef horfin, það brotnuðu sjö borir við verkið og það fór langur tími í það. Það lítur út fyrir að skrúfustæðið sé orðið víðara þeim megin en það er bara rétt í endann. Mér þykir vænt um málarann og dúkalagningamennina og öllum getur okkur orðið á. Við erum fínir samt. Þegar ég kom heim úr vinnu upp úr klukkan ellefu í dag var ég dauð þreyttur og vildi bara fara að hvíla mig. Ég gat það samt ekki. Ég varð að sanna það fyrir mér að það stæðist sem ég vaknaði við í gærmorgun. Nú er allt tilbúið til uppsetningar fyrir morgundaginn. Ég þurfti að fara í þrjár verslanir eftir að ég náði brotinu burtu áður en ég fann réttu skrúfuna en það var þess virði. Á morgun hringi ég líka í Gautaborgarmanninn og segi honum að ég þarfnist hans ekki. Ég hef unnið heiður minn til baka.

Frá Sólvöllum og Bjargi í Krekklingesókn

Ég var á leiðinni út á Bjarg fyrir hádegi í gær en sneri við til að bæta atriði á innkaupalistann minn. Ég var búinn að hringla kringum eitt og annað sem mér fannst ég þurfa að gera og var búinn að láta dragast. Samt skeði ekki svo mikið. Svo var kannski best að hringja líka til hennar Rósamundu Káradóttur í Hrísey eins og ég hafði hugsað mér að gera frá því að við áttum orðaskipti á feisbókinni um daginn. Ég var snúinn við hvort sem var. Svo töluðum við Rósa saman um stund og meðan ég talaði við hana sat ég nálægt bókinni Þúsund bjartar sólir sem fjallar um raunverulega lífið í Afganistan og ég fann að hugur minn dróst meira og meira til bókarinnar meðan við töluðum saman.
 
Eftir að hafa kvatt Rósu fannst mér að ég gæti eins vel lesið nokkrar blaðsíður áður en ég færi út. Svo las ég í einhvern hálftíma. Fimmtán ára unglingsstúlka og maður sem gat verið afi hennar voru að leggja af stað í heilsdags rútuferð og ferðinni var heitið frá Herat til Kabúl í þessu fjarlæga landi. Þau höfðu hittst í fyrsta skipti einhverjum klukkutíma áður en þau lögðu af stað og á þeim stutta tíma urðu þau hjón. Ég fylgdi þeim áleiðis af stað og fannst sem ég sæi fjöllin, eyðimerkurnar og holóttan veginn á leið þeirra en svo lokaði ég bókinni, mér þvert um geð, og gekk út til að sinna mínum heimaverkefnum. Ég get lofað að ég hefði ekki viljað vera 15 ára stúlkan.
 
Dúkalagningamennirnir sem urðu að snúa frá verki í baðherberginu á Bjargi fyrir þremur dögum ætluðu að koma í eftirmiðdaginn og klára það sem þeir urðu að snúa frá þá. Þá dúklögðu þeir þrjá veggi af fjórum. En sú breyting. Einmitt svona stundir eru svo skemmtilegar. En fjórði veggurinn tók þeim með mótlæti og þeir urðu frá að hverfa, dálítið vonsviknir og ég líka. Ég tók sturtuhurðirnar líka upp úr kössum sínum í gær, skoðaði teikningar og leiðbeiningar og undirbjó í huga mér uppsetningu á þeim. En hvað þær voru fínar þessar sturtuhurðir. Ég virti þær ánægður fyrir mér. Ég hafði gert gott val, alls ekki það ódýrasta en ekki það dýrasta heldur.
 
Þessir dúkalagningamenn voru hér líka fyrir rúmum hálfum mánuði og dúklögðu þá baðgólfið þarna úti þannig að nú voru þeir að koma til mín í þriðja skiptið. Þetta eru strákar sem eru nær Guðdísi dótturdóttur minni í aldri en honum Kristni dóttursyni mínum. Fyrir mig eru þeir sem sagt á barnabarnaaldri. Í gær ætluðu þeir að koma með nýjan dúk á fjórða vegginn, þann sem misheppnaðist, og þegar ég var búinn að taka til fyrir þá fór ég inn og undirbjó að gefa þeim eitthvað í svanginn. Þeir eru svo glaðir að fá eitthvað að ég verð líka glaður að bjóða þeim. Ég veit að það er ekki svo venjulegt að gera þetta í Svíþjóð nútímans en ég er ekki svo venjulegur heldur.
 
Þeim fannst svo leiðinlegt að þeim mistókst um daginn og nostruðu því mikið og gerðu svo fínt í gær. Svo virtust þeir njóta þess að koma inn til mín og fá í svanginn. Þegar þeir fóru kvöddu þeir með virktum og þökkuðu fyrir sig hvað eftir annað. Eftir var ég og virti fyrir mér fíneríið út á Bjargi. Það var bara eitt um það að segja; alveg glæsilegt og ég ánægður kall. Svo fór ég inn að ganga frá og hélt svo áfram að lesa Þúsund bjartar sólir, en bara stutta stund hugsaði ég. Svo las ég rúmlega hundrað blaðsíður.
 
Að lesa þessa bók var ferðalag um fjarlægan heim þar sem mættust ævafornir tímar og nýi tíminn. Þar sem Rússar börðust fram á tíunda áratuginn sem blöð, sjónvarp og útvarp sögðu svo mikið frá á þeim tíma. Nú var ég sjálfur kominn á þessar fjarlægu slóðir gegnum bókina og þess vegna urðu blaðsíðurnar fleiri en ég hef lesið í einni lotu síðan við bjuggum á Bjargi í Hrísey fyrir meira en fjörutíu árum. Tilfinning mín var sú að bókinn væri skrifuð um raunveruleika sem fólk lifir við. Það var ekki allt fallegt á þessum hundrað blaðsíðum sem ég las, alls ekki! en það var enginn drepinn bara til þess að gleðja mig og stytta mér stundir.
 
Ég tel mig fróðari um lífið í fjarlægu landi eftir lestur gærkvöldsins vegna þess að ég hef tilfinningu fyrir að bókin sé skrifuð af umhyggju og vilja til að segja frá hlutunum eins og þeir eru í þeim múslimska heimi sem þar ríkir. Ég hlakka til að fara aftur í ferðalag til Afganistan í kvöld.
 
Þetta blogg skrifaði ég í kyrrðinni eftir miðnætti síðastliðna nótt og nú er kominn föstudagurinn 24. janúar. Það er mál að birta það og svo að elda hafragraut.

Sá yðar sem syndlaus er

Það var mikið um það á feisbók í fyrradag að Björn Bragi yrði að víkja, hvernig nokkrum manni gæti dottið í hug að láta svona lagað út úr sér . . . og marg og margt fleira sagt með þungum orðum um þennan mann á feisbókinni. Mér finnst feisbókin frábær. Hún hefur hjálpað mér við að endurheimta horfna kunningja og vini, hjálpað mér við að viðhalda kunningsskap og vináttu og við að hafa svolítið samband við það sem ég kalla stórfjölskyldu mína. Svo getur feisbókin allt í einu orðið að ófreskju og er varla lengur vinabók eins og skólasystir mín ein frá Skógaárunum kallar hana. Það er sem sjálfur svarti dauði sé nálægt því að endurfæðast, svo smitsamur sem hann nú var og tjáningarnar verða býsna tíðar og hömlulausar og virðast smita feisbókarheiminn.
 
Þegar búið er að skjóta í fótinn verður örið kannski ekki burtmáð og taugin sem ef til vill fór í tætlur á löngu svæði verður þá aldrei lagfærð. Þannig geta orðin líka skaðað. Ég veit ekkert um þennan fréttamann sem hljóp á sig í hita leiksins en þeir sem skrifuðu um hann á vinabókinni voru þá ekki lengur í hita leiksins þegar þeir skrifuðu. Vinabókin var ekki vinabók á tímabili í fyrradag. Ég las einhvers staðar að þessi maður væir einn af bestu fréttamönnum landsins. Kannski fékk hann þarna sína dýrustu lexíu og verður þar af leiðandi lang besti fréttamaður landsisn. En kannski var hann skotinn í fótinn og taugin verður aldrei lagfærð. Ég er samt ekkert að ganga í vörn nema þá í vörn fyrir vinabókina.
 
Ég sagði oft hluti sem ég hefði betur látið ósagða, stundum af algerum klaufaskap og stundum af þörf fyrir að verja mig eða koma höggi á einhvern. Mér finnst hins vegar flestar yfirsjónir mínar í dag byggjast á því að ég segi eitthvað svo ótrúlega klaufalegt. Ég get verið mjög ánægður með sjálfan mig eins og ég er orðinn og mér finnst sem ég hafi lagt all hart að mér til að ná þangað. Svo allt í einu segi ég eitthvað svo merkilega aulalegt, svo aulalegt að það getur raskað svefni mínum í hálfa nótt. Stundum fannst mér sem ég hefði efni á að kasta fyrsta steininum, finnst jafnvel enn, en sannleikurinn er sá að ég hef aldrei efni á að kasta honum. Frekar hef ég efni á að hugleiða og kannski að koma einhverju á framfæri.
 
Ég horfði á sjónvarpsmessuna í gær. Höfuðpersónan af jarðneskum toga í þessari messu var sjálfur Elvis Presley. Þegar við Valdís vorum nýorðin kærustupar og í mörg ár þar á eftir, þá söng hún hástöfum með Presley þegar lög með honum voru flutt í útvarpinu. Á slíkum augnablikum fannst ég ekki í vitund hennar, það voru bara hún og Presley sem sungu saman. Hún hefði viljað tjútta við mig en ég tjúttaði ekki. Hún hélt upp á Presley. Svo sat ég hljóður og hlustaði á og var afbrýðissamur. Hvað þessi (bölv) Preley stal senunni fullkomlega og ég varð eins og lítill kúkur sem var hættur að lykta og skipti því ekki máli. Svo hætti lagið með Presley og ég lét einhver orð falla um hann. Það var eins og Valdís heyrði þau aldrei og hún reyndi aldrei að núa mér um nasir að hafa sagt þau. Þau féllu í tóma ekkert eins og þau hefðu aldrei verið sögð og mér fannst að ég hefði gert mig að kjána. Svo hélt lífið áfram þangað Presley söng næst.
 
Í messunni voru flutt mörg trúarleg lög, öll komin frá Presley. Presturinn, biskup í héraði skammt hér vestan við, í Värmland, lýsti Presley sem leitandi persónu. Það kom líka fram í þessum lögum. Bæði túaður og leitandi. Miði fannst á hóteli þar sem Presley hafði gist og á þennan miða hafði hann skrifað: "Stundum finnst mér að ég sé svo einsamall. Nóttin er hljóð umhverfis mig. Ég vildi svo gjarnan geta sofið. Ég er svo glaður yfir að allir eru farnir núna. Ég kem sennilega ekki til með að fá neinn frið. Drottinn, hjálpaðu mér." Ég hrökk við þegar ég heyrði þetta og minntist nátta í Sólvallagötunni í Hrísey.
 
Við höfðum sem sagt átt eitthvað sameiginlegt, ég og Presley. Mjög alvarlega hluti höfðum við átt sameiginlega. Og í annað skipti skrifaði hann: "Ég hef bara sjálfan mig og Drottinn. Drottinn, hjálpaðu mér að gera hið rétta."
 
Ég hafði gert grín að honum þegar Valdís var að syngja með honum í útvarpinu þegar við bjuggum á Undralandi í Reykjavík og svo vorum við bræður eftir allt saman. Ég hafði skotið sjálfan mig í fótinn. Það er hálf öld síðan. Drottinn, hjálpaðu mér að gera hið rétta.

Sólvllaleyndarmálið

Nokkru fyrir jól var ég í verslun og sá þar súkkulaði á tækifærisverði. Ég borgaði fyrir eina blokk og fékk þrjár. Hannes og fjölskylda voru væntanleg nokkrum dögum seinna þannig að ég sló til. Svo vildu þau ekki svo mikið sem smakka á þessu súkkulaði. Svo gleymdi ég því í búrskápnum.
 
Stuttu fyrir jól fékk ég eitt kíló af konfekti frá vini á Íslandi. Ég notaði það til að gefa með kaffinu þegar einhver leit inn. Konfektið var gott og bragðaðist öðruvísi en það sænska. Að öðru leyti fór ég með það til Stokkhólms og við smökkuðum öðru hvoru á því þá fjóra daga sem ég var þar fyrir jól. Um þriðjunginn af þessi kílói hafði ég svo með mér heim aftur.
 
Hann Guðbjörn frá Varberg kom til Örebro með íslenskar vörur stuttu fyrir jól. Í pöntun minni voru meðal annars tveir pokar af súkkulaðirúsínum og tvær blokkir af suðusúkkulaði. Þetta hafði ég með til Stokkhólms líka en það var ekki snert og kom heim aftur. Nú var mikið magn í búrskápnum sem bragðaði af súkkulaði.
 
Nú kemur að hluta leyndarmálsins. Það er músagangur á Sólvöllum. Allt í búrskápnum sem hefur bragð af súkkulaði er horfið nema suðusúkkulaðið. Ef suðusúkkulaðið fer líka að hverfa set ég músagildrur í búrskápinn og þá fá sökudólgarnir að finna fyrir því. Ef músagildra smellur á fingurgóma er það býsna sárt. Svo sárt að það er eins víst að suðusúkkulaðiblokkirnar verði ekki opnaðar.
 
Þar með verður búrskápurinn kominn í verndarflokk eins og Þjórsárver. Munurinn verður bara sá að það má ekki taka búrskápinn úr verndarflokki fyrr en það verður gestakoma á Sólvöllum sem réttlætir að það verði búið til ekta súkkulaði til að hafa með rjómapönnukökum.
 
Það er einkennilegt hvað súkkulaðibragðið getur gert mýs veikar fyrir. Jafnvel einstaka ellilífeyrisþega líka -ef hann byrjar að smakka á því. Það er hinn hluti leyndarmálsins.
 
Það er ekkert smá magn sem er horfið.
 
Eftir sjónvarpsmessuna í morgun skrifaði ég blogg með miklu hraði. Það var skrifað af tilfinningu og mér fannst áðan sem ég ætti alla vega að bíða til morguns með að ákveða hvort það verður birt.

Veislukostur í jólahúsinu

 Sólvellir 16. janúar 2014.
 
Sé komið að Sólvöllum veginn norðan megin frá þá blasir þetta við. Ég er alveg harðánægður með þessa aðkomu og þykir staðurinn myndarlegur.
 
Sé vegurinn kominn sunnanfrá blasir hins vegar þetta við. En málið er nefnilega að ég er líka harðánægður með þessa aðkomu og þykir staðurinn jafn myndarlegur séð hérna megin frá.
 
Ég sé ekki betur en það séu ennþá jólastjörnur í gluggunum hjá mér, að vísu bara á þessum stað. Líklega hverfa þær niður í kassa um helgina. Ég er iðinn við að moka slóðir. Ég vil komast hvert sem er hvaðan sem er og þá verða slóðirnar fjölþættar eins og þræðirnir í kóngulóarvefnum. Það er næstum að það þurfi glöggt auga til að sjá að það hafi verið byggð stór verönd við Sólvallahúsið á síðastliðnu sumri.
 
Aðkoman bakdyramegin varð afar mikið skemmtilegri þegar veröndin kom, líka að vetri til. Það er önnur slóð til hægri upp við húshornið. Það er leiðin út á Bjarg og út í skóg. Ég fer þá leið mikið oftar. Það fer vel um mig hér þó að glugginn þarna rétt hjá útihurðinni sé glugginn sem Valdís sat svo oft við og hann minni mig oft á hana. Það er bara hluti af lífinu og verður áfram.
 
*          *          *
 
 Matargerð á Sólvöllum 17. janúar 2014.
 
Alltaf öðru hvoru er ég spurður út í matargerð mína. Því birti ég þessa mynd til að taka af allan vafa þess efnis að ég lifi ekki við þröngan kost. Á pönnunni er eftirfarandi: Rósakál, palsternakka, hvítlaukur, blaðlaukur, engifer, paprika, piparrót, tómatsósa og creme fraiche með papriku og chili. Ég gleymdi tómötunum. Þetta er hollusta í ríkum mæli ekki satt? Það voru þáttaskil á þessari matargerð hjá mér þegar ég fór að nota piparrótina og creme fraiche. Þetta var reglulega gott, aldrei betra en núna í kvöld. Það er mikið meira á pönnunni en ætla mætti eftir myndinni að dæma.
 
Helmingur af matnum kominn á disk. Fiskurinn er rauðspretta krydduð með pipar og salti. Rauðsprettan varð að ósköp litlu þegar ég var búinn að steikja hana í ofninum og vatnið var runnið úr henni. Ég kem til með að nota aðrar fisktegundir framvegis. Undir diskinum er einn af hinum mörgu dúkum sem Valdís saumaði.
 
Það var eftirréttur. Það voru bláber sem ég hrærði saman við tyrkneska jógúrt, 10 % feita. Ég þynnti hana lítilllega með mjólk. Ég á líka íslenskt skyr í ísskápnum, 0.2 % feitt. Hefði ég notað það hefði ég þynnt það með rjóma. Það er sem sagt engin neyð hjá mér hvað mat áhrærir. Það var hvorki koníak eða kaffi á eftir matnum. Hins vegar mundi ég allt í einu eftir poka með súkkuklaðirúsínum í búrskápnum þegar ég var búinn að ganga frá. Ég er búinn að borða fullan hnefa af því góðgæti og það á eftir eftirréttinum. Það var svo sem alveg óþarfi.
 
Gærdagurinn var ekki minn dagur en megnið af deginum í dag var betri dagur. Ég gæti vel steinþagað yfir þessu en ef ég segi bara frá því besta er ekki nokkurn skapaðan hlut að marka mig. Ég tek heldur ekki mark á þeim sem segja bara frá því besta. Enginn er í sjöunda himni 365 daga á ári. Ég hef nákvæmlega ekki undan neinu að kvarta jafnvel þó að ég vorkenni öðru hvoru sjálfum mér. Margir aðrir eiga hins vegar skelfilega bágt.

Það er uppgangur í landinu

Málarinn sem ekki kom á föstudaginn var eins og um var talað kom ekki heldur á mánudaginn. Síðdegis á mánudag sendi ég honum sms. Hann svaraði seint um kvöldið og baðst ekki afsökunar, heldur baðst hann fyrirgefningar á því að hafa algerlega gleymt mér. Hann ætlaði að koma í gær, þriðjudag, klukkan sjö að morgni. Því fór ég út fyrir klukkan sjö til að moka allar slóðir sem liggja til "allra helstu bygginga hér á Sólvöllum". Og klukkan varð sjö og hún varð átta og níu og enginn kom málarinn. Rétt um tíu leytið komu tveir bílar og með þeim tveir málarar sem unnu á tuttugu mínútum það sem hægt var að vinna þann daginn. Svo skyldi annar þeirra koma klukkan sjö í morgun. Ég fór því út að moka snjó fyrir klukkan sjö í morgun og klukkan hálf  ellefu fór ég inn til Örebro til að láta bólusetja mig við inflúensu. Enginn málari var þá kominn.
 
Þegar ég kom heim eftir bólusetninguna og smá innkaup í kaupfélaginu var málarinn búinn með verkefni dagsins og þar með farinn aftur. Svo skal það þorna þar til á morgun. Klukkan sjö fer ég væntanlega út að moka slóðirnar að nýju. Reyndar er ég ekki að úthúða málaranum með því að segja þetta, en verkin sem ég ætlaði að dást að um miðja þessa viku verða ekki til aðdáunar fyrr en um miðja næstu viku. En, það hefur eitthvað skeð. Málarinn hefur ekki tíma og það er margra vikna bið eftir pípulagningamanninum. Það er nefnilega svona mikill uppgangur í byggingariðnaðinum á svæðinu. Það er einfaldlega það sem málið snýst um. Það er bullandi uppgangur í landinu.
 
Þegar klukkan var tuttugu mínútur yfir sex hætti ég mínu bauki út í bílskúrnum, en ég þarf að gera svolítið klárt þar til að hægt verði að hengja upp hitakútinn fyrir Bjarg og tengja hann. Ég ætlaði mér klukkutíma og tuttugu mínútur til að skipta um föt, búa til mat og borða. En þar feilreiknaði ég mig og ekki í fyrsta skipti. Ég er ekki enn búinn að fá matargerðina inn í tímaskin mitt. Ég var því of seint tilbúinn til að leggja af stað á AA fundinn minn í Fjugesta. Svo þegar ég kom út að bíl þurfti ég að hreinsa snjó af honum í þriðja skiptið í dag og þá var ég í þann veginn að hætta við að fara á fundinn. Það væri betra fyrir mig að fara inn og blogga um allt og ekki neitt í staðinn. En ég gerði mér hins vegar alveg grein fyrir því að ég mundi ekki geta bloggað með lélega samvisku yfir því að fara ekki. Svo fór ég.
 
Þegar ég var kominn eina tvo kólómetra þótti mér færið alls ekki vera nógu gott fyrir bílinn minn sem er ekki beinlínis neinn jöklafari. En nei, ég hélt áfram, vitandi það að mér ber að taka ábyrgð á lífi mínu og það skal þurfa mikið til svo að ég geti með góðri samvisku sleppt úr fundi. Víst koma tilfelli þar sem það er ekkert annað að gera en að sleppa fundi, en það verður að vera fullgild ástæða. Svo vorum við tveir sem komum of seint á fundinn. Reyndar var færðin alls ekki í lagi en ég gat ekki vitað það fyrr en ég var lagður af stað.
 
Þegar ég kom heim leit ég á feisbókina og sá þá greinina hennar Steinunnar Ólínu sem ákvað í ágúst í fyrra að taka ábyrgð á lífi sínu og dreif sig inn á Vog. Það nálgast nú tuttugu og þrjú árin síðan ég stóð þar sjáfur í andyrrinu og beið þess að ókunnug kona kæmi fram, tæki á móti mér og skrifaði mig inn. Ég var ekki beinlínis uppkjöftugur þá skal ég segja. En tuttugu og þrjú ár! Eftir fimm og hálfa viku á Vogi og Sogni fékk ég borða í íslensku fánalitunum lagðan yfir hálsinn á mér og í þessum boðra hékk peningur. Ég átti að lesa það sem stóð á annarri hlið þessa penings og þar stóð og stendur enn Ég er ábyrgur. Já þannig er það. Það var hálf ófært vegna snjóa á AA fundinn í Fjugesta og reyndar var ástæða fyrir mig að fara ekki. En ég er ábyrgur og ég má aldrei byrja á að gera það að leik að sleppa fundinum mínum sem hefur hjálpað tugmiljónum manna og kvenna í heiminum í tæp áttatíu ár.
 
Tæplega sjötíu og tveggja ára og búinn að vera edrú í tæp tuttugu og þrjú ár. Eins og maðurinn geti ekki farið að taka því rólega og sleppa þessum fundum. Jú, sumir gera það og með skelfilegum afleiðingum.
 
Ég man enn hver lagði borðann yfir hálsinn á mér og ég man enn hvað ég var klökkur þegar ég las það sem stóð á pengingnum. Þetta voru stórir tímar fyrir tæplega fimmtugan mann.

Þá vantar bara 6999999 hunangsbú

Ég var að lesa um að það vantaði hunangsflugur í milljarðatali í Evrópu. Ekki hef ég hugsað mér að rækta hunangsflugur en ég er skráður á býflugnaræktarnámskeið í Örebro í mars. Býflugurnar hjálpa jú til við frjóvgun blóma eins og hunangsflugurnar og það er kannski spurning hvort það hafi verið átt við býflugur en ekki hunangsflugur þegar sagt var að það vantaði sjö miljón bú í Evrópu. Ef ég set upp eitt bú vantar ekki nema 6999999 bú til viðbótar.
 
Ég tók þessa mynd ófrjálsri hendi frá fréttinni, en hér finnst mér svo sem alveg nóg um. Þegar ég skoðaði býflugnabúin þeirra Þórhalls og Völu í Stokkhólmi síðsumars í fyrra, þá var fjöldinn alls ekki slíkur og þarna gefur að líta. En vingjarnlegar voru býflugurnar þeirra og það var eins og við værum svo velkomin til þeirra til að fylgjast með bardúsi þeirra. Þær rákust svolítið á hendurnar á okkur og voru kannski ögn nærri því að hafna í buxnavösum líka. En sem sagt, þetta voru ósköp vinaleg grei.
 
Þessa mynd tók ég líka ófrjálsri hendi á feisbókinni í dag. Fjöldi fólks heldur vart vatni af gleði yfir snjónum. Fyrir mér er svo sem allt í lagi að það snjói, en að ég ýli beinlínis af gleði get ég ekki sagt. Tvisvar þurfti ég að skafa snjó af stígunum milli húsanna í gær og aftur í morgun. Svo berst hann inn þegar ég er á ferðinni og vill líka endileg komast ofan í skóna mína. En ef náttúran á að halda sér í sínu árþúsunda gamla taktfasta og eðlilega formi verður að koma vetur og það er einungis þess vegna sem ég gleðst yfir svolítið yfir komu hans. Komi enginn vetur fer tilvist skógarmítilsins úr böndunum. Hóflega mikið af honum er svo sem í lagi en ég vil líka að það verði ekki meira en svo.
 
Mýsnar þurfa líka að fá svolítið mótlæti, annars fer fjöldi þeirra líka úr böndunum. Og skógurinn vill líka fá hóflegan vetur svo að tré fari ekki að laufgast nú upp úr áramótunum. Þannig má lengi telja og það er sem sagt þetta sem gerir vetrarkomuna æskilega hvað mig áhrærir. Svo skal ég alveg viðurkenna að ég hef augum litið margan vetrarmorguninn gegnum árin þar sem svo ótrúlegt hrím prýðir skógana að það mætti stundum ætla að ég hafi komist til annarra hnatta, svo óþekkjanleg verður náttúran. Það hrífur mig persónulega meira en skíðafærið. Ég datt alltaf á skíðum ef brekka var í sjónmáli. Mér gekk hins vegar alveg þokkalega að komast út í Hríesyjarvita á gönguskíðum þó að ég dytti stundum við þær aðstæður líka.
 
*          *          *
 
Svo tókst mér að ljúka því sem ég hafði ætlað mér í dag. Hægum en öruggum skrefum sækja verk mín áfram og um eða upp úr miðri viku verður mikið gaman fyrir mig að virða fyrir mér baðherbergið á Bjargi. Það verður eins og svlítil gleðivíma fyrir mig sem mun endast mér einhverja daga. Svo um mánaðamótin kemur pípulagningamaðurinn og það verður lokaáfanginn og þá upplifi ég enn aðra gleðivímu. Það er nefnilega í góðu lagi með gleðivímur en svo eru til aðrar vímur og þær eru í ætt við myrkrið. Þannig vímur fá ekki að þrífast á Sólvöllum.
 
Svo verð ég að ljóstra öðru upp. Ég er búinn að setja rafmagnsreikning í umslag til að senda í bankann minn á Íslandi. Þar vill fólk fá að vita með vissu að ég sé til og að ég eigi hér heima. Rafmagnsreikningurinn á að sanna það. Ég fæ hins vegar að borga hann sjálfur.
 
Klukkan er að nálgast hálf tíu og nú er komið að því fyrir mig að bursta og pissa. Svo skal ég lesa nokkrar blaðsíður, eða með öðrum orðum; þá ætla ég að lesa mig í svefn.

Ég missti mig dálítið í dag

Í morgun hitti ég fólk sem spurði mig hvað ég væri að sýsla. Ég sagðist ætla að skreppa í Bauhaus til að kaupa sturtuhurðir og svolítið af efni til að vinna úr á Bjargi. Já heyrðu, var mér sagt, ég sá í morgun auglýsinu um að svona hurðir eru á útsölu fyrir 900 krónur. Ja hérna, já, áhugavert. En ég ætlaði samt að kaupa hurðir sem voru 4000 krónum dýrari. Já segirðu, var mér svarað til baka og kannski ekki laust við undrunartón. Já, ég sagðist hafa unnið óvænta nótt um daginn og þar hefði ég fengið fyrir þessum mismun, eða svo gott sem. Þetta er annað valið sem ég geri frá því um áramót, að það sem ég hef fengið borgað fyrir að vinna óvænta nótt fer til að kaupa vandaðri hluti í nýja baðherbergið.
 
Svo sögðust þau vera að fara í rútuferð til Ungverjalands fyrir vorið. Ég gladdist með þeim yfir því. Ég valdi að kaupa dýrari sturtuhurðir og þau völdu að fara til Ungverjalands. Ég hlakka til að fylgja fyrsta gestinum þangað út, eða gestunum, sýna herbergið og inn á baðið, sýna skúffuna með handklæðunum, skúffuna fyrir það sem er í töskunni og skápinn með herðatré fyrir fötin. Byggingarnar á Sólvöllum eru góðar, ekki stórbrotnar en mjög þokkalegar. Ég  vil hafa baðið snyrtilegt.
 
Svo hélt ég áfram heim til Lennarts sem ætlaði með mér að sækja hurðirnar og efnið. Meðan við biðum eftir lyftaramanni í Bauhaus sýndi hann mér baðkar með hátæknilegum dælubúnaði, nokkrum nuddstútum og mjúkum línum, baðkar sem kemur í horn. Sonur hans er með þannig baðkar. Baðherbergið á Bjargi mundi alls ekki rúma svona baðkar eitt saman, hvað þá handlaugina og klósettið. En baðherbergið á Bjargi verður mjög snyrtilegt. Ég er viss um að einhvern tíma fer ég sjálfur þangað út til að gista. Þá læt ég mig dreyma um að ég sé í orlofshúsi í fjarlægu héraði. Svo fer ég í sturtu og sæki mér svo handklæði í nýju handklæðaskúffuna. Svo hef ég kannski með mér gosdrykk og konfektmola.

Ég missti mig dálítið í dag. Þegar við Lennart vorum búnir að bera inn það sem ég keypti í Bauhaus útbjó ég mat fyrir hádegis og kvöldmat. Þegar ég var búinn að borða hádegismatinn bakaði ég pönnukökur. Svo settist ég við matrborðið með kaffi og þrjár pönnukökur. Svo fannst mér það of lítið þannig að ég fór að eldhúsbekknum og fékk mér eina til. Svo fékk ég mér eina til þangað pönnukökurnar voru orðnar sex. Ég hefði hlest viljað skrifa þetta með mjög litlum bókstöfum en ég kann það ekki. En ekki nóg með það. Ég fékk mér líka þrjár pönnukökur eftir kvöldmatnum. Ég er búinn að detta "íða" í dag. Ég geri þetta ekki oft enda yrði ég þá að kaupa mér stærri baðvigt.
 
Ég er eiginlega harð ánægður með daginn. Ég er ekki búinn að gera mikið en ég er búinn að gera nákvæmlega það sem ég ætlaði að gera í dag. Á morgun ætla ég svo að eiga með sjálfum mér langan morgunverð og svo ætla ég að horfa á sjónvarpsmessuna. Ég er orðnn svo meir að ég er hálf vælandi við að horfa á sjónvarpsmessurnar, það er að segja þegar mér finnst þær gefa eitthvað. En ég verð bara að búa við það og trúa að þá hefi messurnar gefið mér eitthvað fyrst þær hræra svona í tilfinningalífinu.
 
En nú ætla ég að hætta þessu hjali mínu og taka bókina sem ég er að lesa og halda áfram að kynna mér múslimska menningu og heimilishætti. Í landi karlmanna er fyrir mig öðruvísi bók. Frammi í stofu bíður svo önnur bók sem lýsir sama heimi en þó í öðru landi. Hún heitir Þúsund bjartar sólir og ég er búinn að þjóflesa svolítið í henni og hún er forvitnileg. Nú birti ég þetta og læt svo fara vel um mig með bók í hönd. Það er gott að lesa í sveitakyrrðinni.

. . . þú líka gamli

Eitt og annað hef ég komist yfir í dag en alls ekki eins og óskir mínar og áætlanir reyndu að lifa upp til í morgun. Þó komst ég til dæmis aftur í kunningsskap við klósettið með innbyggða vatnskassanum sem á að verða á baðinu á Bjargi. Ég bloggaði um það í fyrra þegar ég var búinn að taka það upp úr pappakössunum að þá var það bara mikil dreif af algerlega óþekkjanlegum smáhlutum, stærri hlutum, boltum, skrúfum, hosum, slöngubörkum, plasthringjum, rörbútum, plastvinklum og einhverju fleiru. Það eina sem ég þekkti virkilega með vissu var sjálf klósettskálin, hringurinn og lokið.
 
Svo kom pípulagningamaður til að skoða allt annað en ég ætlaði að fá stuðning hans í leiðinni varðandi klósettið. En hann horfði á þessi ósköp, leit á algerlega ruglingslega teikninguna, sagði hreint ekki neitt og flýtti sér svo í burtu. Þá greip ég til þolinmæðinnar, að lokum, og byrjaði rólega að bera saman hlutina, máta skrúfur, athuga hvort eitthvað annað passaði betur saman og einhvern veginn á þennan hátt kom ég því mesta saman og fyrirbærinu síðan á sinn stað inn í veggnum. Þetta var allt í fyrra, fyrir hálfu ári eða meira og síðan var verkefnið sett í bið. Í dag pússlaði ég því síðasta saman og festi grindina endanlega í vegginn. Nú er klósettið tilbúið fyrir pípulagningamanninn og núna þegar ég skrifa þessi orð finn ég fyrir sigurgleði.
 
Annars kom ekki málarinn sem lofaði fyrir löngu að koma í dag. Í dag ætlaði ég að biðja píparann að koma á föstudegi eða mánudegi kringum næstu helgi en hann bað mig að gleyma því. Mánaðamótin væru nær lagi. Ég veit að þetta Fjugestafyrirtæki er að vinna verk í öðrum landshlutum og svo geta þeir ekki tekið að sér verk hér heima. Ég sagði manninum að ég þyrfti að hugsa og ég mundi hringja aftur. Svo settist ég niður, stakk upp í mig konfektmola sem ég fékk um jólin og velti fyrir mér hvort ég ætti að fara í fýlu. Nokkrum mínútum síðar hringdi ég til píaranna aftur og sagðist taka því sem að höndum bæri. Ég var boðinn hjartanlega velkominn á biðlistann. Maðurinn sem ég talaði við er vandvirkur, ekki hraðvirkur en mjög vandvirkur. Hann vann hér fyrir okkur árið 2007.
 
Svo fór ég til Fjugesta rétt fyrir lokun til að kaupa það sem málarinn ætlaði að koma með í dag. Það tilheyrir því einfaldasta af því sem hann ætlaði að gera þannig að ég get flýtt fyrir og gert það sjálfur. Eftir það verður kannski auðveldara fyrir mig að fá hann með primer og rakaþétta málningu til að mála loftið og niður á veggdúkinn. Svo koma strákarnir sem dúklögðu gólfið um daginn og líma dúkinn á veggina. Þeir vilja koma sem fyrst. Mér skilst að þeim hafi þótt svo gaman um daginn. Ég auðvitað hældi þeim fyrir að vinna vel og að þeir hefði líka verið fljótir. Svo fengu þeir veitingar og hringdu síðar til að fá hjá mér sultuuppskrift. Það voru þeir sem ég kallaði á eftir um daginn þegar þeir voru að fara með hvor sitt rúgbrauðið að þeir væru duglegir og fínir strákar. Og þeir sneru sér við og svöruðu um hæl; þú líka gamli. Gamli er gjarnan notað hér sem vinalegt ávarp.
 
En hvað um það og hvað um allt annað. Ég veit að það verður enginn málari fyrr en einhvern tíma í næstu viku og enginn pípari fyrr en um mánaðamót. Ég sný mér því með ró að mínu um helgina og reyni að njóta þess að gera það sjálfur, slípa, sparsla og slípa aftur og svo framvegis. Í fyrramálið ætlar hann Lennart nágranni að fara með mér inn í Bauhaus og sækja sturtuhurðir ásamt nokkru fleiru. Þær eru svolítið vandfluttar þannig að ég vil fá hann með og hann lánar mér líka yfirbyggðu kerruna sem þeir eiga kallarnir hérna niður í brekkunni. Svo ætla ég að borga honum fyrir með hvönn frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Hvönnin gerir mig hressan og ég vil láta hana gera nágranna mína hressa líka.
 
Þrátt fyrir svolítið japl og jaml og fuður í dag hefur þetta verið góður dagur þegar öllu er á botninn hvolft. Ég finn það þegar ég skrifa um það. Á almanaki sem stendur hér fyrir framan mig á borðinu stendur: Lítið hús rúmar eins mikla hamingju og stórt hús. Þetta mun rétt vera. Svo er mitt hús alls ekki svo lítið.

Hún hefur verið kölluð heim

Í dag ætlar hress hópur Skógaskólafólks að hittast yfir kaffibolla í Reykjavík. Ég bloggaði líka um það í gær, þennan árgang 1959 sem okkur þykir bestur allra árganga. Ekki mæta allir og til dæmis ekki ég. Nokkrir hafa verið kallaðir heim til óþekkta landsins. Þann 30. desember var hún Kristín Eggertsdóttir frá Vík kölluð heim.
 
Þær voru nokkrar Kristínarnar í skólanum og til að aðgreina hana frá öðrum Krístínum var hún jú kölluð Stína Eggerts. Ég held að ég fari rétt með það að við Skógaskólafólk sem vorum úr Vestur-Skaftafellssýslunni höfum talið að við ættum okkur svolítið sameiginlegt. Við vorum nú einu sinni Skaftfellingar, hvort heldur við vorum austan eða vestan Mýrdalssands. Við Stína Eggerts ræddum stundum um fólk sem við þekktum sameiginlega og hún sagði mér sögur úr Víkinni.
 
Okkar samskipti voru mjög lítil eftir skólaárin nema þegar við hittumst í þau skipti sem 1959 hópurinn kom saman á fimm ára fresti og ég var þar ekki alltaf. Einu sinni hittumst við alveg óvænt í daglega lífinu, en það var þegar ég var einhverju sinni var staddur í Tryggingarstofnun ríkisins og þá vann hún þar. Það var einn af þessum algerlega óvæntu fundum og höfðum við bæði gaman af og Stína kynnti mig af hreinni gleði fyrir nokkrum af samstarfsfólki sínu.
 
Hún vann eitt sinn með Guðnýju systur minni á hótelinu á Kirkjubæjarklaustri. Þetta minntist hún oft á og spurði með hlýju um hagi Guðnýjar í þau skipti sem við hittumst og einnig á feisbókinni. Einmitt þetta tengdi okkur svolítið saman gegnum árin og gaf okkur aukinn möguleika á að spjalla enn frekar saman.
 
Til hvaða verkefna Stína Eggerts hefur verið kölluð væri fróðlegt að vita, en við hin sem eftir lifum munum komast að því síðar þegar að okkar köllun kemur. "Það er gegnum að deyja sem við verðum meðvituð um hið eilífa líf", eða nokkuð á þá leið sagði heilagur Frans frá Assisi fyrir um það bil 700 árum í sinni þekktu bæn Frans frá Assisi. Þeir sem eru farnir til heimalandsins eilífa á undan okkur hafa nú þegar komist að þessu.
 
Stína mín, við sem fáum að hittast að vori munum muna eftir þér kæra skólasystir.

Ég vil endilega virkja möguleikana

Ég er nú bara alltaf að bjarga heiminum. Í morgun, mánudag og þrettándadag, var hringt og sem betur fer heyrði ég ekki í símanum því að hann var í jakkavasa í fataskáp í forstofunni. Ég var að sparsla á baðinu úti á Bjargi. Svo saknaði ég símans og fór inn og hringdi frá heimasímanum í farsímann og fann hann þannig. Þá hafði Vornes hringt nokkrum sinnum til að reyna að fá mig í vinnu, en þar sem ég var byrjaður að sparsla ákvað ég að klára það fyrst og fara svo. Það var ófrávíkjanlegt en það gerði mér auðveldara fyrir að hafa ekki heyrt fyrstu hringinguna. Annars hefði ég hugsanlega farið fyrr en ég vildi. Nú er ég í Vornesi og ætla að vinna kvöldið og nóttina. Fer svo heim fyrir hádegi á morgun.
 
Á leiðinni heim ætla ég að koma við i Bauhaus í Marieberg og panta sturtuhurðirnar sem ég valdi í gær. Ég ætla líka að kaupa blöndunartæki fyrir sturtuna. Ég nefnilega rann á rassinn með það í gær, sunnudag, vegna þess að þau blöndunartæki sem ég vildi voru svo dýr og þá frestaði ég að velja, lét gunguna taka yfirhöndina. Nú tek ég þau dýrari án þess að velta því meira fyrir mér. Ég fæ vel borgað fyrir þennan sólarhring sem ég vinn hér nú og hef vel efni á að kaupa þau blöndunartæki sem ég vil. Gungunni fleygði ég langt út í skóg á leiðinni í Vornes.
 
Nei, ég er reyndar ekki að bjarga heiminum en það kemur Vornesi vel að ég er vel hress og get gert þetta án nokkurra vandkvæða. Ég þarf líka að halda við því hressa í mér. Ég hef gott af því að sanna fyrir mér að ég get sinnt krefjandi vinnu, en akkúrat núna fékk ég hlé sem ég get notað fyrir sjálfan mig. Ég settist því við borð á annarri hæð með mikið fínu útsýni móti suðri, yfir litla tjörn og dálítið stöðuvatn lengra frá. Hinu megin við þetta stöðuvatn eru nánast óslitnir skógar fleiri kílómetra til suðurs, jafnvel tugi kílómetra.
 
Þetta útsýni dró hins vegar huga minn norður á bóginn til ennþá meiri skóga, upp í Dali. Ferðin upp í Dali í haust kveikti í mér ennþá meiri Dalaþrá en áður og var þó talsvert af henni fyrir. Ég þarf að fara þangað aftur þegar sumrar og vera ennþá lengur en við Kristín vorum í haust þegar við dvöldum í og við Falun. Ég vil aftur þangað upp og sækja mér lífsgleði og kraft til áframhaldandi góðrar heilsu.
 
En áður en það getur orðið ætla ég í Íslandsferð, gjarnan síðla vetrar eða snemma vors. Ég ætlaði að gera það í fyrra að fara aðra ferð til Íslands en svo frestaði ég því. Ég þarf að hitta ættingja og vini og svo ætlar Skógaskólafólkið frá 1959 að hittast á morgun, þriðjudag, yfir kaffibolla og þá á að ræða hvað gera skuli í vor í tilefni af því að 55 ár eru liðin frá útskriftinni okkar. Ég bíð spenntur að heyra niðurstöðuna. Eftir það fer ég að skipuleggja þessa Íslandsferð og Dalaferðin ólgar í mér nú þegar.
 
Ég sér fyrir mér tréborðin upp á Orsa Gönklitt þar sem hægt er að sitja með nesti eða kaupa sér ærlega hressingu og hafa ótrúlega víðáttumikið útsýni þaðan yfir lægri fjöll, vötn, skóga og byggðir. Ég vil komast upp í útsýnisturninn í Vidablick og vera þar uppi lengi og horfa yfir það sama þar; ótrúlegar grænar víðáttur prýddar vötnum með Siljan í fararbroddi. Ég vil fara upp í skíðalyftu á enn öðrum útsýnisstað og vera lengi þar uppi og virða fyrir mér Siljanhringinn sem myndaðist fyrir 362 miljónum ára síðan. Ægilegur loftsteinn myndaði þennan hring og í hundrað þúsund ár kraumaði þar bráðin jarðskorpan og núverandi landslag myndaðist smám saman.
 
Ég nefndi Vidablick. Þangað kom ég fyrir mörgum árum. Ég vildi endilega fara þangað í Dalaferð okkar Kristínar þó að ég vissi að útsýnisturninn væri lokaður. Við stoppuðum á stað með góðu útsýni yfir Siljan. Síðan langaði mig að leita uppi Vidablick sem ég taldi góðan spöl frá okkur og á allt öðrum stað. Eftir að hafa rölt þarna um, horft yfir ótrúlega fallegt svæði, meðal annars Siljan, og tekið myndir, þá settumst við inn í bílinn. Hvað er þetta, spurði Kristín og benti á skilti nokkra metra framan við bílinn. Það var skiltið Vidablick. Stundum er ég ótrúlegur sauður. Hefði hún ekki verið með hefði ég jafnvel farið framhjá skiltinu. Við fórum þangað upp og höfðum þaðan mikið útsýni þó að turninn væri lokaður
 
Ég vil fara ennþá lengra upp í land, kannski langt langt upp. Ég er búinn að eiga þann draum lengi. Þegar ég er að skrifa þetta fer ég gersamlega á flug. Ég get gert margt gott með lífið og inn á milli get ég líka aðstoðað marga aðra við að gera góða hluti í lífi sínu. Ég get kannski stuðlað að því að börn fái heim fríska mömmu eða pabba, jafnvel hvort tveggja. Mörg þessara barna eru búin að gráta lengi, kannski í mörg ár, alla ævi, grátið af þrá eftir að mamma eða pabbi verði nýjar manneskjur. Þetta getur líka fjallað um systur eða bróður, kærustu eða kærasta eða bara öll möguleg sambönd.
 
Svo get ég farið eitthvað enn annað, um slóðir sem hafa á mig aðdráttarafl og á þessu augnabliki finn ég sumarið toga í mig. Já, það eru ýmsir möguleikar í lífinu og nú verð ég að halda vinnunni áfram. Annars fæ ég ekkert borgað og þá verð ég að kaupa ódýrara blöndunartækið.
 
En lífið gefur mér möguleika sem ég vil endilega virkja.

Ég held ég fari bara líka

Í gær var andlegur þokudagur á Sólvöllum en í dag er sterkt sólskin þó að alskýjað sé. Sparslspaðinn gekk ótt og títt út á Bjargi í morgun og nú harðnar það fyrir slípun í fyrramálið. Svo náði ég sjónvarpsmessunni klukkan tíu og hafði gott af. Henni stjórnaði presturinn sem horfði á tvo syni sína visna til dauða fyrir ekki svo löngu síðan. Eftir það leit hann út eins og gamall og hrumur maður. Núna er hann glæsilegur og hress kall um fimmtugt og þegar ég sé svona menn á skjánum, menn sem hafa komist svo vel á strik aftur, þá tek ég mark á því mesta sem þeir segja. Ég vil gera hann að fyrirmynd minni þó að hann sé tuttugu árum yngri en ég er.
 
Ég var líka á ferð inn í höfuðstöðvum Mammons í Marieberg eftir hádegið og keypti helminginn af baðinnréttingum, blöndunartækjum og viðeigandi græjum. Á morgun eftir slípun og spörslun númer tvö fer ég aftur og kaupi hinn helminginn. Þegar maður eins og ég þarf að velja úr tugum sýnishorna tekur það á. Ég sá mér því vænst að skipta þessu niður og rasa ekki um ráð fram.
 
*          *          *
 
 
Ef manni líður svona á Grænhöfðaeyjum eins og honum nafna mínum á myndinni, þá er alveg spurning hvort ég ætti ekki að fara að koma mér þangað líka. Ekki veit ég nokkur minnstu deili á þessari mynd önnur en þau að þarna er hann nafni minn og að baki honum einhvers konar pálmatré. Húsin veit ég ekkert um og hvað er hinu megin við þau, nei, ég veit ekkert. Alveg er þetta magnað. Það var þegar við bjuggum í Sólvallagötunni í Hrísey sem fyrsta símamyndin af einhverjum atburði út í heimi barst til Íslands og var sýnd í sjónvarpi. Það var frétt en nú dregur fólk farsímann upp úr vasanum og nokkrum sekúndum síðar er búið að taka mynd suður undir miðbaug sem er svo komin komin norður á Sólvelli í Krekklingesókn andartaki eftir það.
 
Ég hef líka heyrt að Hannes Guðjón kalli Atlantshafið sem þarna blasir við "den riktiga sjön" sem kannski væri hægt að þýða til "alvöruhafið". Ég var svolitla stund að átta mig á þessari mynd af þeim feðgum en svo sá ég jú að Hannes er á hnjánum og þá breyttist allt. Það hefur ekki borist af myndum af Rósu sem virðist vera aðal ljósmyndarinn, en hins vegar geri ég ráð fyrir að fótsporin þarna í sandinum séu hennar þar sem hún hafi verið á leið til að taka mynd.
 
Og það er greinilega gaman á þessum slóðum og þannig á það líka að vera.
 
*          *          *
 
Það eru fleiri barnabörn en Hannes Guðjón. Á þessari mynd eru Erla, Kristinn og Guðdís, en Guðdís er lengst til hægri og átti afmæli í gær. Myndin er hreint ekki ný en ég sé að hún hefur verið tekin heima hjá þeim í Vestmannaeyjum en alls ekki á Grænhöfðaeyjum.
 
Hér er Guðdís afmælisbarn til vinstri og Erla til hægri. Ekki veit ég nákvæmlega hversu gömul þessi mynd er, en ekki er hún beinlínis gömul. Hitt veit ég að það er ekki svo voða langt síðan að þessar systur voru í heimsókn hjá ömmu og afa í Svíþjóð. Meðan þær voru hér var ég að vinna eitthvað og þá sváfu þær báðar í rúminu hjá ömmu. Nú eru þær orðnar konur og ég er ekki viss um að þær vildu sofa afa meginn upp í rúmi hjá ömmu sinni í dag.

Eldmóðurinn, driffjöður lífsins

Ég sofnaði full seint í gærkvöldi, óánægður með sjálfan mig. Ég hefði átt að vera himinlifnadi eftir vel heppnaða vinnu sólarhringinn á undan og frábæra ferð á nuddstofu að vinnunni lokinni. En nei, mér fannst ég oft haga mér eins og smábarn og var hund óánægður með mig. Svo svaf ég þó í fjóra tíma og vaknaði þá að því er virtist til þess eins að halda áfram að velta mér upp úr heilabrotunum sem ég sofnaði út frá. Svo sofnaði ég aftur og vaknaði ekki fyrr en korter yfir níu. Þá lét ég auðvitað eftir mér að verða fyrir vonbrigðum yfir því hversu seint ég vaknaði. Og ekki bara það; ég gleymdi morgunbæninni þar til skömmu fyrir hádegi og þá settist ég í djúpan stól inni í stofu og bað morgunbænina mína.
 
Eftir þvæling hér fram og til baka og japl og jaml og fuður innra með sjálfum mér fór ég til Fjugesta til að fá upp verð á hlutum og verkum tilheyrandi Bjargi. Líka til að kaupa mjólkina og kartöflurnar sem ég gaf skít í að kaupa í gær. Seint og um síðir fór ég út á Bjarg til að slípa sparsl og til að reyna að komast í gang aftur eftir nokkurra daga stopp þar úti. Óánægjan með sjálfan mig hélt áfram alveg fram að kvöldmat en samt lagaði ég mat handa mér. Ég var svo óánægður með sjálfan mig að ég tók ekki eftir því að ég viðraði rúmfötin mín og hengdi líka tvær þvottavélar út á snúru, tvær þvottavélar sem ég var búinn að þurrka inni en vildi svo mýkja upp og viðra í svölu útiloftinu. Nú bíða hrein og vellyktandi rúmfötin fyrir aftan mig og þvotturinn er snyrtilega lagður á rúm og stóla í öðru herbergi og bíður þess að verða brotinn saman á morgun. Allt var í góðu standi þegar ég byrjaði að borða, allt nema ég sjálfur.
 
Orð dagsins í einni af almanökunum mínum, því nýjasta sem heitir Vegur til farsældar, segja eftirfarandi: "Eldmóðurinn er driffjöður lífsins. Án hans getur þú ekkert en með honum eru þér allir vegir færir."
 
Þessi eldmóður hefur ekki verið félagi minn í dag. Eftir kvöldmatinn og þokkalegan frágang eftir matargerðina reyndi ég að horfa á sjónvarp. Allt sem sjónvarpið bauð upp á var bara drasl. Ég skal þó viðurkenna að ég gerði mér vel grein fyrir því að það var í fyrsta lagi mitt innra ástand sem olli þessu. Ég horfði á tvær bækur sem mér voru lánaðar seint í haust og ég var ekki farinn að lesa. Ég leit líka á bók sem ég fékk um jólin og ég var ekki farinn að lesa. Svo tók ég ákvörðun.
 
Ég tók aðra bókina sem ég fékk að láni, settist niður í góðan stól í dagstofunni og fór að lesa. Þegar ég var búinn að lesa 45 síður í einni lotu varð ég alveg steinhissa á sjálfum mér. Ég var að byrja að kynnast heimi sem ég þekki ekkert til og það var þess vegna sem góður vinur vildi lána mér bókina. Hún heitir Í landi karlmanna og er eftir karlmann, líbanskan rithöfund og eins og ég sagði, þá er ég í þessari bók að kynnast heimi sem ég veit ekkert um en hef samt oft talað um hann eins og ég þekki hann. Ég geri einfaldlega þá heiðarlegu játningu.
 
Ég hef ekki lesið 45 síður í bók í einni lotu í mjög langan tíma, einhver ár. Hvað ég varð glaður og hvað mér fannst heimurinn mikið betri að lifa í eftir að hafa gert þetta. Heimili mitt varð líka betra og meira virði. Ég skoðaði þvottinn aftur og hann var mjúkur og ilmandi af útiveru. Og maturinn var reyndar góður. Hafi ég verið óánægður með eitthvað í sjálfum mér hef ég þá reynslu til að byggja eitthvað nýtt á. Líklega færði það mér bara eitthvað gott að mig vantaði eldmóðinn, driffjöður lífsins, í heilan sólarhring. Ég hlakka til að hitta eldmóðinn í fyrramálið.

Það er margt sem drífur á daga Sólvallabóndans

Í gærmorgun fór ég á stjá korter yfir átta eftir nákvæmlega átta tíma svefn í einum dúr. Ég flæktist aðeins um húsið, leit á textavarp og tölvu og lagði mig svo aftur, horfði upp í loftið og velti hlutunum fyrir mér. Eftir morgunverð ætlaði ég út á Bjarg til að slípa það sem ég hafði sparslað daginn fyrir gamlársdag. Svo var ég að hugsa framhaldið, kaupa handlaug á Bjarg, sturtuhurðir, blöndunartæki ásamt mörgum hugleiðingum af öllu mögulegu tagi. En síminn hringdi rúmlega hálf níu. Ég byrjaði á að líta á skjáinn á farsímanum og sá númerið 518090. Þá vissi ég það. Allar áætlanir ruku út í veður og vind.
 
Einn af þeim ungu í Vornesi, sá sem átti að vinna kvöldið, hann var veikur. Augnabliki síðar var það ákveðið að ég færi í vinnu eins fljótt og ég gæti án þess þó að fara alveg í kerfi, og svo ynni ég kvöldið. Ég horfði á það jákvæða með því að fara og hugsa til Bensa sem ég bloggaði um á annan í jólum og nefndi bloggið Borðberi hins góða. Eitthvað mundi líka reka á fjörur mínar núna sem mundi gera þennan sólarhring meira virði en bara peninganna.
 
Þegar ég ek inn trjágöngin heim að þessum stað, Vornesi, er eins og ég aki inn í ögn aðra tilveru. Klukkan eitt réðum við í meðferðarhópnum ráðum okkar fyrir grúppurnar og klukkan hálf tvö gekk ég til B-grúppunnar og þar sat ég með systkinum mínum í klukkutíma. Eftir grúpuna réðum við ráðum okkar aftur og við ákváðum að taka sérstaklega á málum tveggja sjúklinga. Það féll í minn hlut að tala við Sönnu þegar kvöldaði. Sanna er hjúkrunarfræðingur sem meðal annars er reynd í því að hlú að og styrkja gamla sem eru að taka síðustu sporin inn til ókunna landsins, landsins sem sumir óttast og hver óttast ekki það óþekkta, jafnvel þó að það sé af hinu góða. Ég ætlaði mér að ná Sönnu einmitt í gegnum þetta.
 
Klukkan hálf sex settumst við Sanna niður og hún gerði sér grein fyrir því að nú stæði eitthvað til. Við í Vornesi vorum kunnug henni frá því fyrir um það bil ári síðan og þá var hún einn af þessum sjúklingum sem einfaldlega gerði bókstaflega allt rétt. Núna hafði eitthvað skyggt á götu hennar og gamla Sanna hafði ekki birtst okkur í þetta skipti.
 
Ég spurði hana hvenær hún ætlaði að sleppa út englinum sínum. Hún skildi spurninguna og hún sagðist enga ósk eiga heitari en að geta gert það. Þessi þrjátíu og þriggja ára gamla lífsreynda kona sem svo oft hafði róað niður skjálfandi raddir þeirra sem áttu bágt og hlýjað þeim um hjartaræturnar, hún átti nú í erfiðleikum með að róa niður sína eigin innri rödd. Hún sagði að það væri svo erfitt að sleppa fram englinum þegar myrkrið reyndi stöðugt að vinna sigur yfir birtunni. Ég veit, ég veit, sagði hún, ég vil, ég vil, en myrkrið er bara svo svart.
 
Stundum verð ég lítill og sitjandi þarna á móti Sönnu við borðið varð mér um stund orða vant. Það er svo myrkt þegar fólk talar um að myrkrið sé svart. Samt töluðum við um þessa baráttu milli ljóssins og myrkursins og um engilinn sem sem grátbiður um að fá að birtast. Að lokum sagði ég við Sönnu: Væri ég núna gamall maður sem væri veikur og hrumur og væri á barmi þess að skilja við jarðlífið, ég væri hræddur og óöruggur og mikið sorgmæddur, geturðu þá ímyndað þér hvers ég mundi óska mér?
 
Þegar ég sá augu Sönnu verða tárvot vissi ég að hún skildi spurninguna en hún hafði ekki kraft til að svara henni. Þegar mér fannst þögnin vera orðin hóflega löng sagði ég henni að ég mundi óksa þess að hún kæmi með sína dýrmætu eiginleika og segði eitthvað róandi við mig. Þá hallaði hún sér fram á borðið, lifnaði við og sagði: Veistu, ég held að ég mundi jafnvel bara taka í hönd þína og vera nálæg. Orðin eru oft ofnotuð og ég hugsa að ég mundi best hjálpa þér yfir landamærin með því að vera hjá þér og láta þig finna snertinguna.
 
Sanna er eitulyfjaneytandi en engillinn hennar lifir ennþá innra með henni. Eiturlyfjaneytandi sem ber engil í brjósti sér lætur kannski undarlega, en svo er það og myrkrið má aldrei yfirbuga hann. Einungis þetta eina atriði gerði sólarhringinn verðan þess að hafa lifað hann í Vornesi. Sanna og Bensi eiga bæði sína pússlbita í þeirri persónu sem ég er í dag ásamt svo mörgum sem ég hef hitt á þessum stað og öðrum stöðum.
 
Í þau fáu skipti sem ég skrifa svona um Vornes breyti ég nöfnum og venjulega tíma, en sannleikann læt ég halda sér.
 
*          *          *
 
Þegar Valdís varð sjötíu ára fékk hún frá Valgerði gjafakort á nuddstofu í Örebro, Spa-huset. Gjafakortið gilti fyrir eitthvað flotbað og nudd. En áður en að því kom að nota þetta var Valdís kvödd heim til landsins óþekkta þar sem fólk er leyst frá jarðneskum raunum sínum. Það kom því í minn hlut að nýta mér gjafakortið og í staðinn fyrir flotbað fékk ég nudd í sjötíu og fimm mínútur og reyndar gott betur. Ég fór í þetta nudd á leiðinni heim í dag eftir sólarhrings vinnu í Vornesi. Þetta var eiginlega ekki nudd eins og ég hef kynnst því. Helmingurinn var kannski létt nudd og hinn helmingurinn bara snerting.
 
Katrín, hún sem nuddaði mig, hefði getað verið barnabarnið mitt og sú sem var í afgreiðslunni hefði hins vegar nánast getað verið barnabarnabarnið mitt. Ég fann fljótlega að þetta svokallaða nudd var mjög faglega unnið og það hafði ótrúleg áhrif. Ég hafnaði fljótlega inni í einhvers konar veröld milli draumalandsins og óraunveruleikans. Ég vissi ekki betur en ég væri vakandi þar sem ég lá á maganum með höfuðið niður í opi sem ég andaði í gegnum, en þá heyrði ég einhvern hrjóta svo ótrúlega milt og afslappað. Ég hóf leit að þeim sem hraut en fann þá bara Sólvallakallinn liggjandi á bekknum, svífandi þyngdarlaus við jaðar draumalandsins.
 
Ég bað klukkuna að stoppa í heilan sólarhring sem hún ekki gerði en ég vonaði þó að tíminn yrði lengi að líða. Samt kom að því að konurödd bað mig að snúa mér við og leggjast á bakið. Ég kveið fyrir og datt helst í hug að ég mundi velta út af bekknum. Samt tókst mér þetta slysalaust og nú sá ég net yfir mér og í netinu var fjöldinn allur af opnum kræklingaskeljum á víð og dreif. Þarna inni angaði af alls konar róandi ilmefnum og mild tónlist barst hljóðlega að eins og úr fjarska.
 
Nuddið og nánast gælandi snertingar Katrínar héldu áfram og í nýju stellingunni slappaði ég fljótlega af aftur. Mildar lágar hrotur bárust mér aftur til eyrna og nú leitaði ég ekki eftir þeim sem hraut, heldur lét mig bara hafa það. Ég gerði líka ráð fyrir að Katrín væri ýmsu vön, gerði jafnvel ráð fyrir að þegar hún heyrði þessar hrotur vissi hún að hún væri að vinna verk sitt vel. Svo var tíminn búinn. Æ æ æ! Nei! Hversdagsleikinn umkringdi mig og ég plokkaði á mig fötin aftur. Það er gott fyrir þig að drekka þetta vatn sagði Katrín og rétti mér vatnsglas. Ég þakkaði fyrir mig og hálf reikull í spori gekk ég upp einn stiga og upp í forstofu þar sem skórnir mínir voru og vetrarjakkinn. Í því kom hún innan úr afgreiðslunni sem gat verið barnabarnabarnið mitt.
 
Ferðu nú heim að leggja þig spurði hún glaðlega. Eða kannski að borða góðan hádegismat. En fyrst af öllu skaltu drekka mikið vatn það sem eftir er dags. Hún ráðlagði langafa svo fallega.
 
Þegar ég kom út á gangstéttina var ég næstum reikull í spori og það var eins og þetta mikilvæga líffæri sem býr upp í höfðinu á mér væri óvenju seigfljótandi. Ég var hreinlega í vafa varðandi bílstjóraeiginleika mína á þessari stundu. Það var þó bót í máli að ég hafði lagt bílnum drjúgan spöl í burtu og á stað sem lá auðveldlega út á leiðina heim til mín. Ég þurft að kaupa mjólk. En nei, ég gef skít í það. En ég þurfti að kaupa kartöflur líka. Nei, ég gef skít í það líka. Hugsandi þetta og eiginlega ekki neitt hélt ég heim á leið og hlakkaði til kvöldsins. Ég var sko ákveðinn í að slípa ekki sparsl í dag, ég ætlaði ekki heldur að versla baðinnréttingu og ég ætlaði bæði að drekka mikið vatn og borða síðbúinn og góðan hádegisverð -með rúgbrauði í staðinn fyrir kartöflur.
 
Svo fékk ég hugmyndina um að blogga líka -aldrei slíku vant :-).
RSS 2.0