Ég svo sem stökk ekki upp úr skónum af kæti

Hann Anton Már í Hrísey sagði í morgun í sinni daglegu veðurfréttatilkynningu að það væri hundslappadrífa. Það var engin hundslappadrífa hér í morgun en þá mikið frekar múslappadrífa. Það var smágerður salli sem féll í drjúgum mæli til jarðar og þannig var það líka í gærkvöldi áður en ég gekk til fundar með Óla lokbrá. Slóðirnar sem ég hreinsaði síðast í gær voru ekki horfnar, en þær voru búnar að fá mjúkar útlínur. Það er spáð snjókomu áfram og vörubílar liggja þversum yfir vegi. Ég mun halda mig heima um helgina, ég sem ætlaði í heimsókn til Stokkhólmsfjölskyldunnar og með viðkomu í Västerås.
 
Ég ætlaði líka að baka rúgbrauð og hafa með mér en ég held ég sleppi því alveg að fara í fjórtán kílómetra ferð eftir súrmjólk í rúgbrauðið. Ég hef nóg að sýsla heima, meira en ég kemst yfir þannig að ég þarf að velja og hafna. Vegirnir munu áfram liggja móti Västerås og Stokkhólmi þegar þessari snjókomu linnir og vörubílarnir hafa verið fjarlægðir af vegunum. Þar sem ég er ellilífeyrisþegi og á allan tíma sem finnst í heiminum og allt lífið hef ég fyrir framan mig, þá koma tímar og aðrir möguleikar.
 
Þessi tími hefur löngum verið mesti vetrartíminn. Jafnvel þó að það hafi verið nokkuð hlýtt fram undir miðjan janúar vissa vetur, þá verður vetur um þetta leyti. Hindersmessa er einmitt um þetta leyti, þegar vetur er nokkurn veginn örugglega harðastur. Þá er markaður í Örebro sem kallast hindersmessumarkaðurinn, en sá markaður var fyrst haldinn á 14. öld. Það er í frásögur fært að hann fór ekki fram árið 1446 þar sem einhver hátt settur í mannheimi bannaði hann það ár. En að öðru leyti, að því er ég best veit, hefur hann farið fram öll önnur ár.
 
Valdís hafði það fyrir venju að fara á þennan markað, við saman eða hún með einhverjum öðrum. Stundum líka með einhverjum öðrum og svo mér líka. Ég er lítill markaðskall og finnst best að fara og rölta aðeins um og fara svo í gott kaffi. Á laugardaginn var hringdi hún Auður og spurði hvort ég vildi ekki koma með þeim hjónum á markaðinn. Ég svo sem stökk ekki upp úr skónum af kæti en féllst nokkurn veginn á þetta, en með semingi þó. Auður hlustaði ekki á mig og sagði mér einfaldlega að koma heim til þeirra og svo færum við á markaðinn heiman að frá þeim og ekkert væl! Svo gerðum við og við fengum okkur líka kaffi á kaffihúsi.
 
Víst eru þau fín. Það er nú bara þannig að þau eru ástfangin þessi hjón, Auður og Þórir. Þau eru ekkert að tala um það eða hampa því, en það sést meira að segja á myndinni. Þakka ykkur fyrir að hringja til mín og fara þetta með mér. Ég fann vel að ég hafði gott af því. Ég sem bloggaði oft um það í fyrra að vinátta væri mikilvæg sem hún líka er, en ég er samt lélegur við að rækta hana, lélegri en ég hélt að ég yrði. Hefði átt að tala minna en standa við meira.
 
Ég fer ekki á markað til að kaupa alls ekki neitt. Ég hafði sultu í huga og kannski einhvers konar bjúgu. Svo varð það bara sulta og fleira í þeirri sætu fjölskyldu. Í krukkunum til vinstri er til dæmis hunang fyrir hálsinn, gott fyrir söngvara sagði konan sem seldi. Kannski ég ætti að prufa. Í stóru krukkunni er moltuberjasulta og í köntuðu krukkunum er havtornsmarmelaði. Ég finn ekkert íslenskt orð yfir það í orðabókinni minni. Í litlu krukkunum sjö er hunang sem bragðast á ólíkan hátt. Allt er þetta skemmtilegt til að hafa í kælinum hjá Sólvallamér. Það er nú annað hvort að búa vel.
 
Þessa mynd tók ég ekki á neinum markaði, ég tók hana í verslun í miðbænum í Örebro. Þar selur sem sagt íslenskan Sif Jakobsdóttir vörurnar sem hún hannar. Þar var margt fleira undir hennar nafni.
 
Ég sagði áðan að það hefði ekki fundist neitt yfir orðið "havtorn" í orðabókinni minni. Ég fann ekki heldur orðið "hindersmässa" í orðabókinni og þá setti ég það inn á Google þýðingarforritið. Þar fékk ég að vita að það þýddi "hindrun sanngjörn". Ég sleppti alveg að nota það í textanum en mátti til með að segja frá þessari mjög svo frumlegu þýðingu.
 
Ég hef punktað þetta niður í smá áföngum í dag. Ég hef allan daginn verið hálf óánægður með að ætla ekki að fara í áðurnefnda ferð móti Stokkhólmi á morgun og þess vegna fylgdist ég mjög náið með veðurspánni klukkan tæplega átta í kvöld. Þá hvarf mér allur efi. Spáin er þannig að sæmilega skynsamir menn -ekki síst ef þeir eru ellilífeyrisþegar- eiga án alls efa að sleppa langferðum á morgun, hreinlega alla helgina. Mig langaði að fara og hitta fólk en þetta er heilbrigð skynsemi og alls ekki kjarkleysi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0