Laxness

Ég var rétt í þessu að lesa grein í Dagens nyheter um Halldór Laxness. Það minnti mig á mann sem ég hitti á miðvikudaginn var. Þennan mann hitti ég í Vornesi þar sem ég vann þennan dag. Maðurinn er finnskur og á fremur erfitt með sænskuna þótt hann hafi búið lengi í Svíþjóð. Hann hafði heyrt um mig og að ég mundi vinna áðurnefndan dag. Hann sat færis að hitta mig til að geta talað við mig og hann hafði nokkuð sem hann vildi koma á framfæri. Og hvað var nú það; jú, hann hafði lesið allar þær bækur Laxness sem hann hafði komið höndum yfir og var yfir sig hrifinn af þessum bókum. Hann nefndi nöfn á bókum og persónum í þessum bókum sem hann mundi eftir og hann var hreint alveg hugfanginn. Hann var líka stoltur af því að geta sagt mér frá því að hann hefði lesið svo mikið af bókum landa míns, Laxness. Hann ætlaði líka að segja mér frá Íslendingasögum sem hann hafði lesið en þá hafði ég ekki meiri tíma til að ræða um bókmenntir við hann. Það var alls ekki þetta sem mér datt í hug þegar ég heyrði manninn tala á morgunfundi stuttu áður þar sem hann þurfti að leggja sig allan fram til að koma því á framfæri sem hann vildi segja. Það var gaman að hitta manninn og skynja þann kraft sem það gaf honum að tjá sig um þetta. Mig grunar að hann sé meira lesinn í bókum Laxness og Íslendingasögum en ég. Vonandi hitti ég hann aftur þar sem við getum rætt meira um þessa hluti.
GB

Að blása hjá löggunni

Aldrei varð ég þess heiðurs aðnjótandi að blása hjá löggunni á Íslandi. Þegar ég var búinn að vera tvö ár í Svíþjóð og var byrjaður að vinna í Vornesi en átti ennþá heima í Falun, var ég á leið heim á föstudegi. Um það leyti höfðu lekið nokkur tonn af bensíni af bensínstöðvartanki í litlum bæ upp í dölum, bæ sem ég keyrði gegnum á leiðinni heim frá Vornesi. Hreinsunaraðgerðir stóðu yfir að mig minnir í vikur og á meðan á því stóð var vegurinn sem ég ók gegnum bæinn lokaður. Þennan ákveðna föstudag var ég á  mjóa skógarveginum, og viti menn; allt í einu stóðu nokkrir alvarlegir lögregluþjónar í vegkantinum, stoppuðu mig og með ábyrgum svip báðu þeir mig að blása. Svo tilkynntu þeir mér að ég væri edrú og mætti halda áfram. Ekki löngu seinna var lögreglan við veginn um það bil þrjá km frá Vornesi og þar fékk ég líka að blása en síðan mátti ég halda áfram áleiðs heim. Þar var ég látinn blása líklega þrisvar sinnum með ekki svo löngu millibili. Við þó nokkur önnur tilfelli hef ég fengið að blása

Í fyrradag þurfti ég til Örebrosótarans (þeir eru reyndar yfir 20 sótararnir þar) til að spyrja eftir ákvenum hlutum varðandi arininn á Sólvöllum. Ég var með allan hugann við þetta varðandi arininn og var á mjórri götu sem breikkaði snögglega í krappri beygju. Og viti menn; þar stóðu þrír lögreglumenn, tveir eldri menn og yngri kona. Konan benti mér að stoppa og kom með þessum formlega, alvarlega svip og sagðist vilja sjá ökuskýrteinið mitt. Hún horfði svolitla stund á það og fór svo til félaganna og í bakspeglinum sá ég að þau rýndu öll í skýrteinið mitt. Svo kom hún og spurði mig hvort ég væri íslendingur sem ég sagðist jú vera. Svo fékk ég gera þetta sem er svo gaman, að blása. Hún leit á mælinn og sýndi mér niðurstöðuna; edrú. Ég vissi það allan tímann sagðu ég. Þá sleppti hún formlegheitunum og spurði hversu lengi ég hefði verið í Örebro. Síðan 1997 og mér fyndist ég vera orðinn alvöru örebrúari. Það er nú ekki erfitt að gera talaði hún um. Svo spurði hún að hvaða leyti Ísland væri sérstakt. Eftir það töluðum við þó nokkra stund um Ísland og hún sagðist hafa áhuga á að ferðast þangað. Að svo búnu fékk ég halda áfram ferð minni til Örebrosótarans. Það er ennþá gaman að blása hjá löggunni.

Kveðja, Guðjón

Í heimsókn hjá Hikmet

Undanfarið hafa safnast upp spurningar varðandi smíðavinnu mína á Sólvöllum og ég hef safnað þeim í bunka í huga mér og beðið eftir tækifæri til að fá svar við þessum þeim. Nú er ég að innrétta geymslu á hluta af loftinu á Sólvöllum og þá þarf ég að breyta sperrum innan frá. Þá var komið að burðaraflsfræði sem er fag verkfræðinga og því fór ég til höfuðstöðvanna í Lekebergshreppi og fékk fund með byggingarfulltrúanum þar, honum Hikmet (sagt eins og það er skrifað, alla vega hér í landi). Bar ég fram allar spurningar mínar úr gamla bunkanum og að endingu ræddum við sperrumálið. Báðir erum við innfluttir til Svíþjóðar, Hikmet frá gömlu Júgóslavíu það best ég veit og ég íslendingur. Báðir tölum við sænsku sem ber keim af okkar gamla móðurmáli, en við skildum hvor annan vel og hlógum að sömu hlutum. Þegar við byggðum við Sólvelli máttum við stækka húsið um 50 % af samanlagðri stærð þeirra bygginga sem þar voru þá, án byggingarleyfis og án þess að skila inn teikningum. Ég notaði því tækifærið og sýndi Hikmet mynd fyrir breytingu og mynd eftir breytingu og var það myndin sem er hér fyrir neðan.

Þetta er fínt, þetta er fínt, sagði hann hvað eftir annað. Það líkaði mér vel því að ég vildi gera góða samninga við hann. Niðurstaðan varð sú að við meigum byggja allt að tíu ferm verönd við húsið, byggja gestahús allt að 15 ferm og bílskúr allt að 40 ferm, allt án byggingasrleyfis og án þess að skila inn teikningum. Reyndar er þetta allt samkvæmt reglum sveitarfélagsins en við, eins og allir okkar grannarhafa líka gert, viljum heyra sagt af viðeigandi byggingarfulltrúa að þetta sé í lagi.

Sperrumálið leysti Hikmet á einfaldan hátt og strax eftir að ég kom heim setti ég í gang og er næstum því búinn að gera viðeigandi ráðstafanir. Ég hef einu sinni hitt þennan mann áður. Hann er þægilegur heim að sækja og hann kann sínar burðar- og reikniformúlur og er fljótur til. Hann er hjálplegur og sér ekki eftir sér að vera það. Eitt sinn í dag þegar hann leit á mig með bros á vör sá ég bak við andlit hans annað andit. Það var andlit yfirmanns á bensínstöð í Örebro þar sem ég þvoði í þvottastöð fyrsta bílinn okkar í Svíþjóð, hvítann Volvo 740, og það var fyrir ellefu árum. Eftir þvottinn skoðaði ég bílinn og fannst hann alls ekki hreinn. Ég fór því inn og talaði kurteislega um þetta við yfirmanninn. Hann kom út,  skoðaði bílinn og sagði svo að hér hefði ég þurft að byrja á að spreyja á bílinn hreinsiefni vegna þess að það væri svo mikið malbik á lakkinu. Síðan bað hann mig að færa bílinn að næstu innkeyrsludyrum. Þar fann hann mann sem vann við að þvo bíla sem fyrirtækið átti. Hann bað þennan mann að handþvo Voloinn og lét mig svo hafa nýtt þvottaspjald svo að ég gæti farið aftur í gegnum þvottastöðina eftir handþvottinn. Komdu svo og talaðu við mig á eftir sagði hann. Nú varð Volvoinn bara hvítari en nokkru sinni fyrr og ég fór afar þakklátur inn og sagði þessum afar vingjarnlega manni að bíllinn væri alveg tandurhreinn og skjannahvítur. Já, ég átti von á því, sagði hann, og sjáðu svo hérna. Kauptu svona hreinsiefni og spreyjaðu því öðru hvoru á bílinn áður en þú þværð hann. Þetta var nú meiri lipurðin og ég var alveg hissa. Þessi maður var líka júgóslavi.

Ef þig vantar að vita eitthvað fleira, sagði Hakmet, þá ertu velkominn. Þú getur líka hringt eða mailað. Ég er hér til að aðstoða þá sem eiga fasteignir í sveitarfélaginu, sagði þessi júgóslavi að lokum. Það er gott að hitta svona fólk. Þakka þér fyrir Hikmet.

Guðjón

Sólvallalíf á ný

Ja hérna, nú er ellilífeyrisþeginn búinn að vinna fulla vinnu í heilan mánuð og nú eru rólegri dagar framundan á þeim vetvangi. En þá tekur annríkið á Sólvöllum við og þar er af nógu að taka. En annríkið á Sólvöllum er gott annríki. Þannig er það reyndar líka í Vornesi. Fyrstu þrjá mánuðina í ellilífeyri vann ég lítið og eftir það rúmlega hálfa vinnu. Þetta var mjög gott fyrir mig og ég einfaldlega virka mikið betur í vinnunni í Vornesi núna en ég gerði þegar ég vann þar fulla vinnu ár út og ár inn. Ekki meira af þessu hjali núna.

Við héldum á Sólvelli á sjötta tímanum með viðkomu í IKEA. Þegar við ókum gegnum akurlöndin milli Örebro og Sólvalla sáum við að það var farið að liggja mikið vatn á ökrunum. Á akri nálægt Sólvöllum var komið stöðuvatn sem ég giskaði á að væri 50 metra breitt og 300 metra langt. Á sumum ökrum er ekki búið að þreskja ennþá þar sem það hefur einfaldlega ekki komið nógu löng þurr stund til þess síðan í fyrri hluta ágúst. Í dag eru akrarnir svo blautir að engum tækjum er fært þar um lengur. Kannski kemst þetta korn ekki í hús fyrir veturinn, en ef það tekst verður það væntanlega notað í etanol, eldsneyti á bíla, þar sem það getur hvorki orðið manna- eða dýrafóður héðan eftir.

Nú erum við komin á Sólvelli. Hér höfum við úrkomumæli sem ég nefndi í síðasta bloggi. Í mælinum voru 48 mm eftir nákvæmlega tvo Sólarhringa. Það eru engin ósköp, en eftir nær daglegar rigningar í vikur verður vatnið að lokum svo mikið að geti það ekki runnið í burtu stentur það uppi í pollum um allt. Þannig er það á Sólvöllum núna, einsog líka á ökrunum hér í kring. Það er útilokað að ganga hér um öðru vísi en á stígvélum. Valdís slær ekki að sinni ef ekki gerir reglulega þurran og hlýjan dag. Ungur veðurfræðingur sem annaðist sjónvarpsspána áðan talaði um að þegar nálgaðist helgi mundi háþrýstissvæði koma norðan að og leggja sig yfir suðurhluta landsins. Þar með kemur hlýja og sólríka tímabilið sem ég er búinn að spá í september. En þá má líka búast við að frostnæturnar leggi sig yfir landið.

Á morgun ætla ég að taka til við smíðarnar af fullum krafti á ný eftir vinnutímabilið. Við hliðina á mér liggur skrifuð áætlun um smíðarnar á morgun og annað kvöld ætla ég að gera áætlun fram að helgi. Með skriflegum áætlunum ganga verkin betur. Áður en vetur gengur í garð á nefnilega að vera tilbúið nýtt og rúmgott svefnherbergi á Sólvöllum.

Hér lýkur bloggi að sinni. Myrkrið er lagst yfir fyrir þó nokkru og það rignir enn. Það er gott að vera í húsi með góðu þaki, með þakrennum og niðurföllum sem leiða vatnið hljóðlega burtu meðan viður úr skóginum hlýjar upp húsið og gerir það notalegt fyrir nóttina.

Guðjón
RSS 2.0