Laxness

Ég var rétt í þessu að lesa grein í Dagens nyheter um Halldór Laxness. Það minnti mig á mann sem ég hitti á miðvikudaginn var. Þennan mann hitti ég í Vornesi þar sem ég vann þennan dag. Maðurinn er finnskur og á fremur erfitt með sænskuna þótt hann hafi búið lengi í Svíþjóð. Hann hafði heyrt um mig og að ég mundi vinna áðurnefndan dag. Hann sat færis að hitta mig til að geta talað við mig og hann hafði nokkuð sem hann vildi koma á framfæri. Og hvað var nú það; jú, hann hafði lesið allar þær bækur Laxness sem hann hafði komið höndum yfir og var yfir sig hrifinn af þessum bókum. Hann nefndi nöfn á bókum og persónum í þessum bókum sem hann mundi eftir og hann var hreint alveg hugfanginn. Hann var líka stoltur af því að geta sagt mér frá því að hann hefði lesið svo mikið af bókum landa míns, Laxness. Hann ætlaði líka að segja mér frá Íslendingasögum sem hann hafði lesið en þá hafði ég ekki meiri tíma til að ræða um bókmenntir við hann. Það var alls ekki þetta sem mér datt í hug þegar ég heyrði manninn tala á morgunfundi stuttu áður þar sem hann þurfti að leggja sig allan fram til að koma því á framfæri sem hann vildi segja. Það var gaman að hitta manninn og skynja þann kraft sem það gaf honum að tjá sig um þetta. Mig grunar að hann sé meira lesinn í bókum Laxness og Íslendingasögum en ég. Vonandi hitti ég hann aftur þar sem við getum rætt meira um þessa hluti.
GB


Kommentarer
Brynja

Alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk, ég verð alltaf pínu kjánaleg þegar ég hitti útlendinga sem vita meira en ég um land og þjóð hehe en ég get trúað að það hafi verið gaman að spjalla við kauða. Mín uppáhalds laxness bók er salka valka

2008-09-30 @ 19:57:40
Guðjón

Já, ég hef hitt fólk á meðferðarheimilinu Vornesi sem veit mikið meira um íslenska hálendið en ég. Svona er þetta og hvað á maður að segja þegar svona fólk vill hefja gefandi umræðu um það sem það veit meira um en ég..

GB

2008-09-30 @ 20:12:50
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0