Á annan í jólum

Það er bara kominn annar í jólum og sólin er búin að vera að hækka á lofti í fjóra daga. Reyndar er það varla svo, frekar að dagurinn sé hættur að styttast. Við héldum eiginlega aðal jólin í gær, jóladag,  þar sem ég var að vinna frá hádegi á aðfangadagskvöld til klukkan níu á jóladagsmorgun. Oj bara, að vera með fjórtán alkohólistum og fíkniefnaneytendum mitt út í skóginum á aðfangadagskvöld. Eða hvað? Sannleikurinn er sá að mér var sæmd í að fá að vera með þessum manneskjum á þessum mesta hátíðisdegi ársins. Valdís fékk að vísu að vera ein heima í staðinn en hún var með í þessari ákvörðun. Þessir fjórtán alkohólistar og fíkniefnaneytendur gerðu engar kröfur, voru auðmjúkir, þakklátir og vel merkjanlega hrærðir þennan dag. Það var afar vel útilátinn jólamatur um hádegi á aðfangadag og var stórt borð í matsalnum hlaðið alls konar kræsingum. Á öðrum enda matsalarins er hurð með stórri rúðu og liggja þessar dyr inn í dagstofu þar sem allir innskrifaðir biðu eftir að sagt yrði gerið svo vel, en meðan þau biðu skimuðu þau ótt og títt fram í matsalinn til að fylgjast með. Svo sagði hún Lena í eldhúsinu gerið svo vel og hópurinn streymdi fram í matsalinn og það merktist vel að þau þurftu að beita sig aga til að hlaupa ekki. Svo borðuðu allir og við sem unnum borðuðum með sjúklingunum. Skömmu síðar fór allt starfsfólk heim nema ég og við tók stórkostlegur eftirmiðdagur og kvöld. Á kvöldfundi sögðu þrír þeir elstu, sem allir voru yfir fimmtugt, að það hefði verið svo erfitt að hlaupa ekki að matarborðinu. Eftirvæntingi að sjá hvernig það liti út á borðinu hafði verið svo mikil. Þetta er að segja satt og rétt frá og án þess að skammast sín fyrir að vera barnalegur. En ekki get ég þó neitað því að þessir þrír 50+ menn voru svolítið feimnir við að afhjúpa sig svo innilega sem þeir gerðu. Allir hinir ellefu voru á sama máli og gátu norfært sér þessir þrír höfðu riðið á vaðið. Þetta var innilega þakklátur hópur og þau voru svo ánægð með að við sem unnum höfðum borðað með þeim. Þess vegna fannst þeim að þetta hefði verið eins og fjölskylda. Snemma morguninn eftir sá ég í textavarpinu að það hefðu verið íkveikjur, slagsmál, fyllerí og nauðganir í þessu fallega landi um nóttina. En eitt veit ég, vinir mínir í Vornesi voru þar víðs fjarri. Þau voru inn á meðferðarheimili vegna þess að þau höfðu ákveðið að vinna að því að verða betri manneskjur. Á leiðinni frá húsinu þar sem ég svaf og inn í aðalbygginguna sá ég spor eftir dádýr sem höfðu lagt leið sína yfir hlaðið svo sem tíu metra frá aðalinnganginum. Það var mér staðfesting á að það ríkti góður andi í Vornesi á jólanóttina.


Já, svo fórum við á Sólvelli í dag. Nú hef ég ekki unnið þar í fimm daga og núna fórum við til að eiga þar góða stund og vinna ekkert. Við kveiktum upp í kasettunni eins og það er kallað hér og þið sjáið á myndinni.

Hægra megin við skorsteininn eru tvær mannhæðar háar stæður af birki sem er vel þurrt og tilbúið til að ylja upp á Sólvöllum. Á gólfinu vinstra meginn er líka smá stæða sem meira spari og til uppkveikju. Það logar fallega í kasettunni og það er voða gaman að sitja og horfa á .þennan loga, ekki síst fyrst eftir að kveikt er upp. Eiginlega er eins og það sé mikilvægt að horfa vel fyrst eftir að kveikt er upp, eins og það hjálpi til. En auðvitað er ástæðan bara að þetta er róandi og notalegt.


Valdís var búin að skreyta jólatré. Hún kveikti á því og tók mynd og gætti þess að Drottinn blessi heimilið væri með á myndinni. Ég fór yfir í svefnherbergið verðandi og spáði aðeins í komandi verkefni þar. Þegar ég kom til baka var kaffið tilbúið og rístertan sem Valdís tók með var komin á borðið. Við ætluðum bara að fá okkur smá bita en auðvitað urðu það tveir vænir bitar.

Ég fór eina hringferð í skóginum eftir veisluna og virti fyrir mér stærstu trén. Það er gott að stoppa aðeins hjá þeim á leiðinni framhjá, horfa upp eftir þeim og ekki er verra að styðja hönd á stofninn. Að vísu verða það bara fáein tré annars tæki svona ferð allan daginn. Svo má heldur ekki gleyma litlu trjánum og þeim sem við höfum gróðursett. Þegar ég hef ekki verið þarna á ferðinni í fleiri daga er eins og ég þurfi að heilsa vel og endurnýja kynnin. Og viti menn; það var eins og í Vornesi að dádýrasporin voru á grasflötinni hennar Valdísar í þunnri mjöllinni nærri húsinu. Svo var það líka út í skóginum, fullt af dádýrasporum.

Nú erum við heima og búin að borða afar gott hangikjöt með kartöflum, hvítri sósu og laufabrauði. Á meðan ég hef bloggað hefur Valdís horft á Ladda og ég hef heyrt hlátrasköll inn á milli. Utan við gluggann ríkir vetrarmyrkrið og jólaljós ásamt götulýsingu rýfur þetta myrkur á nokkrum stöðum. Myrkrið er ekki þrúgandi. Vetrarmyrkur hefur oft verið þrúgandi fyrir mig en það er það ekki núna. Ég finn fyrir svolítilli birtu innra með mér sem lýsir upp. Ég olli mínu innra vetrarmyrkri sjálfur áður fyrr en svo tók ég ákvörðun eins og fólkið sem ég var með í Vornesi á aðfangadag. Eftir það byrjaði að finnast ljós í myrkrinu.

Gangi ykkur allt í haginn.

Lena Maria

Eitt sinn reyndi ég að borða með prjónum og gekk afar illa. Maður sem var nokkuð vanur að borða með prjónum reyndi að kenna mér en orðtækið að hafa þumalfingurinn í lofanum átti við mig þá. Ég gafst upp og greip til hnífs og gaffals og þá tókst mér vel að skófla upp í mig.

Rétt áðan lagði Valdís blað fyrir framan mig og þar blasti við mynd af konu sem okkur þykir vænt um, en samt höfum við aldrei hitt hana. Hún hefur þann góða eiginleika að syngja afar vel. Hún var líka góð íþróttakona en við Valdís vissum ekki einu sinni að hún væri til á árunum sem hún var íþróttakona. Nú kannski vefst fyrir einhverjum hvað ég sé að fara að byrja á því að tala um tilraun mína að borða með prjónum og fara svo að tala um góða söngkonu. Þegar þessi kona fæddist árið 1968 varð uppi fótur og fit á fæðingardeildinni. Það var þotið með barnið út af stofunni og mamman fékk ekki að sjá það og skildi ekki neitt í neinu. Þó var að lokum komið með barnið inn og mamman leit það augum. Þegar hún hafði virt fyrir sér barnið sagði hún að þetta barn skyldi fá allt það besta sem hvert annað venjulegt barn bæri að fá. Lena María hafði engar hendur eða handleggi og hún hafði bara einn fót. Og hvað getur maður nú sagt?


Á mynd í blaðinu sem Valdís lagði fyrir framan mig var mynd af Lenu Maríu þar sem hún er að borða með prjónum. Það er ekki meðfylgjandi mynd sem er í blaðinu. Þessa mynd fann ég á netinu og þar en hún yngri en hún er í dag. Fóturinn sem Lena María hefur er þjálfaður til að gera mikið. Hún borðar með honum, málar sig, teiknar og málar myndir og skrifar. Svo þegar hún hefur sett á sig gerfifót gengur hún fram á senuna og syngur. Íþróttagrein hennar var sund. Þessi frásögn er ekki með öllu ólík frásögninni af Helen Keller sem ég bloggaði um fyrir nokkru síðan. Þær hafa það sameiginlegt að hafa sigrað og gera næstum það ómögulega.


Til þess að vera sanngjarn birti ég svo þessa mynd af Lenu Maríu. Hún syngur í fyrsta lagi trúarlega söngva.

Draumur

Ég bloggaði um það nýlega að ég fór með bílinn í þjónustu og þeir yfirfóru hann af kostgæfni. Niðurstaðan var sú að það fundust tveir fæðingagallar sem umboðið ætlaði að lagfæra síðar mér að kostnaðarlausu. Ég fór síðan með bílinn á verkstæðið fyrir um það bil viku, lagði lykilinn á afgreiðsluborðið og fékk í staðinn lykil að bíl sem ég átti að hafa meðan viðgerð stæði yfir. "Hann stendur þarna á afgirta svæðinu" sagði afgreiðslukonan "og númerið stendur á spjaldinu" sagði hún. Svo fór ég inn á afgrita svæðið og leit á spjaldið sem var áfast lyklinum. Þar stóð HGU og ég svipaðist eftir bíl með bókstöfunum HGU á skrásteningarnúmerinu. Þennan bíl bara fann ég alls ekki og ég fór aðra umferð og fann hann ekki þá heldur. Ég var í þann veginn að fara inn og spyrjast fyrir um þetta þegar mér datt í hug að þrýsta á hnapp á lyklinum og skima eftir að einhver bíll blikkaði. Og mikið rétt, bíll rétt hjá mér blikkaði og ég settist þar undir stýri. Áður en ég startaði leit ég hinu meginn á spjaldið og þar stóðu stafirnir sem voru í skrásetningarnúmerinu.

Þetta minnti mig á draum sem mig dreymdi fyrir fleiri mánuðum. Draumurinn byrjaði á því að ég stóð fyrir utan einn aðalinnganginn á Arlandaflugvelli. Í annarri hendinni hafði ég lyklakippu og þar á meðal var lykillinn að bílnum okkar. Ég vissi að Valdís sat inni á einu veitingahúsanna og drakk kaffi og dundaði sér eitthvað fleira. Á Arlanda eru mörg bílastæði. Mikið er af bílastæðum úti á fleiri stöðum, trúlega einhverjir hektarar samtals, og innan húss eru bílastæði á nokkrum stöðum í kjöllurum og sérstakri bílastæðabyggingu á nokkrum hæðum. Þetta er óhemju víðáttumikið svæði og það tekur mjög langan tíma að fara um það allt. Sannleikurinn var nefnilega sá að ég hafði ekki hugmynd um á hvaða bílastæði bíllinn okkar var. Og ekki nóg með það, ég vissi ekki hverrar tegundar bíllinn okkar var og ekki heldur hvernig hann var á litinn. En eitt vissi ég; ef ég færi um bílastæðin eitt af öðru og ýtti oft á hnappinn á bíllyklinum mundi ég að lokum sjá einhvern bílanna blikka og þá mundi það vera bíllinn okkar.

Ég var vel meðvitaður um að þetta gæti tekið gríðarlegan tíma en það var allt í lagi. Ég var gamall maður, mikið eldri en ég er í dag, og Valdís var álíka gömul. Ég hafði allan tíma í veröldinni og það olli mér ekki minnstu áhyggjum að leitin gæti tekið tíma. Ég hafði heldur engar áhyggjur af Valdísi því að ég vissi að hún hafði jafn gott um tíma og ég og hún mundi bíða við sama borð á sama veitingahúsi þangað til ég kæmi til baka. Svo rölti ég rólega af stað frá aðalinnganginum og það ríkti friður í brjósti mínu. Ég vísaði lyklinum fram á við og var tilbúinn að þrýsta á hnappinn þegar ég kæmi að fyrsta bílastæðinu þar sem ég hafði valið að byrja leitina.

Það var einn hlutur sem ég var svolítið hissa á í draumnum en hafði engar áhyggjur af. Ég var svolítið hissa á að ég skyldi ennþá hafa ökuskýrteini fyrst ég vissi ekki hvernig bíllinn okkar liti út.

Svo vaknaði ég og ég fann að ég vaknaði frá fallegum draumi. Ég fann fyrir mikilli ró og skynjaði hversu þýðingarlaust og fáránlegt það er að velta sér upp úr hversdagsáhyggjum. Að svo búnu sofnaði ég á ný.

Hej alla svenskar

Ja, hej, ni svenskar som förmodligen tittar på mitt blogg. Som jag har sagt tidigare när jag bloggade på svenska för några veckor sedan, då hade en kvinna som jag inte anade hittat mina bloggsidor. Hon visade så för en ennan som berättade för mig. Det är roligt detta. Internet är faktiskt en fantastisk källa dår man kan hitta det mästa, som t ex om jag skriver mitt namn på Google kommer mitt namn upp. Intressant eller hur!? Man får skoja lite. Min fru är i kyrkan och sjunger för skolbarn. Det blir tre julkonserter före lunch, enbart för skolbarn i stadsdelen. Jag bestämde mig för att sitta hemma i lugn och ro, men jag väntar tiden hos sjukgymnasten kl 11.30. Jag hoppas han gör mig lite yngre i dag.

Tidigare i morse satt jag framför almanackan och förhandlade med mig själv. Jag är bjuden till julbord den 17 dec men då är också ett AA-möte där jag tänkte närvara. Julbordet vann. Det är svårt att stå emot det. Svenskt julbord är ju så makalöst fint och lockande. Det är min arbetsplats, Vårnäs, som bjuder. Det är nu mer än ett och ett halvt år sedan jag var avtackad på denna arbetsplats som pensionär men dock jobbar jag där ganska mycket fortfarande. Vi skall äta på Hjälmargården i Läppe som är en restaurang driven av Kristen Samverkan Mellansverige. Hjälmargården i Läppe ligger ju, som namnet får en att ana, alldeles på Hjälmarens strand. Att besöka Hjälmargården är något speciellt. Där råder stillhet och behaglig atmosfär både vinter som sommar. Jag var där första gången för tre år sedan tror jag och då var det också julbord. Då bestämde jag mig för att jag skulle dit med min fru så fort som möjligt och det var så våren 2007 som vi var där, jag och min fru och båda döttrarna. Det var lite för tidigt på våren men nu har det blivit tradition att när vi får besök från Island, då är det lunch på Hjälmargården.


Denna bild är tagen av en familj på Hjälmargården den 13 april 2007.
Mannen längst till höger fyllde 65 denna dag och blev då också legitimerad
svensk
pensionär.

Lunch på Hjälmargården en vacker vår- eller sommardag är en upplevelse. Att äta först i lugn och ro i denna behagliga lokal med avslappnad personal till hjälp med allt som behövs och utsikten över sjön till Fiskeboda och Hjälmarens olika öar, ja, det är en vilostund. Och ta sen med sig kaffekoppen och en kaka eller chokladbit ut på terassen och setta sig ner där och känna värmen smeka med hela sin kropp och ha den vackra utsikten ännu mera in på sig. Ja, det är inget att beskriva, det är bara att uppleva. Om man har haft med en chokladbit hemmifrån, då är det bara att hämta en annan kopp kaffe och njuta en stund till.

Ha det bra,

Guðjón

Að gleðjast yfir litlu

Í dag hringdi einstæð þriggja barna móðir. Það er svo sem ekki saga til næsta bæjar að einhver hafi hringt. Og þó. Ástæðan var að við höfðum sent henni og börnunum hennar almanak með myndum af elgjum og hún hringdi til að þakka fyrir og lýsa ánægjunni þegar sonurinn, sem er að nálgast ferminguna sína, sótti pakkann á pósthúsið og spenntur sá svo innihaldið birtast. Og viti menn; það var fullt af myndum af konungi skógarins, elgnum, sem er stórt og tilkomumikið dýr. Þetta var svo lítið en virtist hafa glatt svo mikið. Eftir á varð ég hugsi og fann að ég hafði fengið eina áminningu og eina spurningu til að svara með sjálfum mér. Áminningin var að mér ber að muna oftar eftir þakklæti en ég geri. Spurningin var hinsvegar hvers vegna í ósköpunum geri ég ekki svona oftar. Eitt sinn las ég athyglisverða bók eftir bandarískan rithöfund og athafnamann. Hann segir meðal margs annars í þessari bók að það sé mikilvægt fyrir farsæld manns að sýna fólki að það sé munað eftir því. Póstkort, stutt bréf eða stutt símasamtal sé nægjanlegt. Ég trúi svo sannarlega á þetta en hvers vegna í ósköpunum er ég þá ekki duglegri en ég er við að sýna fólki að ég muni eftir því? Spurningunni get ég bara svarað sjálfur. Valdísi fannst svo mikið til þakklætis móðurinnar koma, eins og reyndar mér líka, að hún sagði að ég yrði að blogga um þetta. Það hafði mér reyndar ekki dottið í hug sjálfum en nú er það gert.


Hér er svo mynd af tarfi og elgskálfi. Mér sýnist að kálfurinn sé að spyrja; ert þú kannski pabbi minn?

Guðjón

Sjónvarp, snjór og jólakonsert

Ég vann í Vornesi á fimmtudag og föstudag í vikunni. Það var að vanda gott að koma í Vornes og það yljar mér bara meira og meira um hjartaræturnar að koma þangað og hitta þetta fólk sem hefur tekið ákvörðun um að gera breytingu á lífi sínu. Þetta er gríðarleg breyting sem fólk ræðst í að hætta að drekka og neyta eiturlyfja. Í því er líka innifalin ákvörðun um að verða betri manneskja. En sannleikurinn er sá að ég var dauðþreyttur eftir þessa tvo daga enda tel ég mig alveg hafa efni á að leggja allt mitt að mörkum þegar ég vinn bara öðru hvoru. Ég svaf því lengi í morgun og við fórum rólega af stað. Valdís kveikti á sjónvarpinu og ég heyrði talað um Martti Ahtisaari. Ég ætla bara að skrifa Matti Attisari eins og það er sagt, enda skrifa margir nafnið þannig. Hann er alltaf jafn þægilegur þessi maður og við Valdís drögumst að sjónvarpinu þegar nafn hans er nefnt. Núna var að sjálfsögðu talað við hann í tilefni friðarverðlauna Nóbels. Í Vornesi vinnur finni sem líkist Matti í útliti og einnig hafa þeir sama hrynjanda í sinni fallegu finnlandssænsku.

Mér dettur oft í hug þegar Matti er í umræðunni, atvik sem átti sér stað á tröppunum á Bessastöðum þegar fyrrverandi kona Ólafs Ragnars var jörðuð. Þá komu þeir allir samferða til Bessastaða konungarnir frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð ásamt Matti Attisari sem þá var forseti Finnlands. Konungarnir heilsuðu fyrst. Þeir heilsuðu allir með handabandi á nokkru færi. Svo kom Matti. Hann tók líka í hendina á Ólafi Ragnari, horfði nokkur augnablik framan í hann og hefur sjálfsagt séð sorgina í augum hans. Svo gekk þessi hlýlegi finni nær, sló handleggnum yfir herðar Ólafs Ragnars og faðmaði hann að sér.

Næsta atriði í þessu morgunsjónvarpi var viðtal við Carl-Erik Svanberg framkvæmdastjóra Ericsson. Þar gaf að líta þennan volduga viðskipta- og athafnamann í nýju ljósi. Við hlið hans sat þroskaheftur maður sem er í félagskap þar sem slíku fólki gefst kostur á að æfa leiklist og söng. Og við hliðina á honum sat svo maðurinn sem leiðir þennan félagskap. Ericsson styrkir þennan félagsskap og þess vegna voru þessir þrír menn þarna saman komnir. Það var annað fas yfir Carl-Erik í þessum félagsskap og það snerti okkur svolítið. Hann mun eiga náinn eða nána ættingja sem eru þroskaheftir og það er líklega skýringin á því hversu hlýr hann var í þessu hlutverki.

Svo kom nokkuð óvænt fram í þættinum. Þáttastjórnandinn ræddi svolítið aukalega Við Carl-Erik um Ericsson og spurði hvernig hann teldi að fyrirtækið mundi koma út úr kreppunni. Jú, Carl-Erik var ekki svo áhyggjufullur. Fyrirtækið er skuldlaust sagði hann og á þess utan 30 milljarða sænskra króna inn á sparisjóðsbók. Það jafngildir í dag svo sem 420 milljörðum íslenskra króna. Jahá. Þá varð mér hugsað til útrásarmannanna á Íslandi.

Aðeins meira um sjónvarp. Ég las eitthvað um það í Morgunblaðinu eða sá það í íslenska sjónvarpinu (þetta sjáum við í gegnum tölvuna) að það væri ekki margt jákvætt sagt um Ísland í útlöndum. En þá vil ég bara segja það að ég man ekki eftir einni einustu frétt í sænsku sjónvarpi þar sem talað er illa um Ísland eða íslendinga. Leiðrétti mig einhver ef ég skrökva. Hins vegar er sagt að íslendingar eigi við afar alvarlegan vanda að etja og að það hafi vantað forsjálni í athöfnum vissra manna. Eitthvað á þá leið. Svo hafa verið nokkrir þættir um Ísland á síðustu vikum, síðast í fyrrakvöld. Þar er fjallað afar fallega um landið, um hvalaskoðunarferðir, íslenska hestinn, íslenska náttúru og bara hvað sem er. Einnig hafa verið viðtöl við íslendinga í þáttunum, algerlega án háðungar og hnútukasta. Við Valdís verðum aldrei vör við nein skot vegna íslenska efnahagsástandsins. Hins vegar erum við spurð um ástandið.

Hér fyrir neðan eru svo tvær myndir.

Svona leit úr á Sólvöllum í morgun. Það var ekki leiðinlegt að koma þangað við þessar fallegu aðstæður. Fyrsti klukkutíminn fór í að moka slóð heim að húsinu, umhverfis húsið, hreinsa innkeyrsluna og blett fyrir bílinn að standa á. Þá var kominn tími til að kveikja upp í arninum og fara svo að smíða. En það varð ekki svo langur tími á Sólvöllum í dag og það skýrist hér fyrir neðan.



Það var jólakonsert í kirkjunni og þar á eftir var jólahlaðborð. Valdís var því í kirkjunni allan daginn frá hádegi en ég mætti svo á konsert númer tvö kukkan 6. Síðan var matur og var þar mikið góðgæti. Eftir matinn var farið yfir í annan sal og þar var kaffi og talsvert mikið að dýsætum rúllutertum og sandkökum. Nú erum við komin heim, mett og ánægð með daginn, en Valdís að sjálfsögðu nokkuð þreytt.

Gangi ykkur allt í haginn,

Guðjón

Að finna uppsprettu lífsins

Í gærmorgun áður en við fórum út, hvort í sína áttina, Valdís í sí gong og ég á Sólvelli til að smíða, þá töluðum við um fólk sem á við vanheilsu að stríða, bæði andlega og líkamlega. Eftir að hafa farið með Valdísi niður í bæ lagði ég af stað í sveitina og þá tekur mitt líf á sig sveitablæinn. Það þýðir að ég finn fyrir ró og get látið hugann fljúga yfir land og haf og ómældar víddir.

Ég hélt áfram vangaveltunum frá því fyrr um morguninn og ég spáði í hvernig ég hef það sjálfur. Mér fannst þarna í bílnum að ég væri lukkunnar pamfíll og ekkert þjakaði mig. Bílstjórastóllinn undir rassinum á még var volgur og ég fann ekkert fyrir mjöðminni. Vegurinn til Sólvalla er á lokasprettinum skemmtilegur að keyra, mishæðóttur, bugðóttur, í skógi, gegnum akurlönd og framhjá akurlöndum. En það er krafa ef það á að vera skemmtilegt að keyra þetta að það liggi ekki lífið á og að halda sig á réttum kanti. Svo þegar ég kem á Sólvelli bíður eftir mér vinna sem er alveg með eindæmum skemmtileg.

Mér varð hugsað til kvikmyndar sem ég sá fyrir mörgum árum. Myndin byrjar á því að hestakerra kemur heim á búgarð í Ameríku og í kerrunni situr ung kona sem forvitin skimar fram á við. Þegar heim að bænum er komið stígur konan úr kerrunni og gengur upp á verönd og heilsar heimilisfólkinu. Einmitt þá kemur hálfgert villidýr rusandi út úr húsinu. Þetta hálfgerða villidýr er nokkurra ára stúlkubarn. Aðkomukonan kastar kveðju á stúlkubarnið en fær ekki minnstu viðbrögð. Þá veifar hún hendi framan við augu barnins en ekki heldur þá fær hún nein viðbrögð. Þá vissi aðkomukonan að hún hafði mætt viðfangsefni sínu. Stúlkubarnið var Helen Keller og hún var bæði blind og heyrnarlaus. Aðkomukonan var Anna, sem hafði verið ráðin til að kenna Helen að tala.

                                                                                                   Helen Keller

Helen Keller fæddist árið 1880 í Alabama og lést árið 1968. Hún varð rithöfundur og fyrirlesari. Hún skrifaði tólf bækur og fjölda greina. Árið 1960 skrifaði hún bókina Ljósið í myrkri mínu (bókarnafnið er þýðing mín frá sænsku). Hún lét eftir sig ákveðið spakmæli sem ég hef undrast yfir mikið, oft og lengi. Spakmælið sem hér um ræðir og þessi blinda og heyrnarlausa kona lét eftir sig er þetta: Horfðu á móti ljósinu svo þú sjáir ekki skuggann. Náðuð þið þessu!? Hvernig gat hún gert sér grein fyrir þessu, svo mikilvægt sem það nú er? Svo kvarta ég ef það rignir meira en ég hefði viljað einhvern daginn.

Ég hef oft velt því fyrir mér hversu auðug af lífi sú uppspretta er sem Helen Keller hefur haft og allar þær manneskjur aðrar sem hefur vantað svo mikið af því sem við hin teljum útilokað að vera án. Sjálfsagt er þessi uppspretta fyrir hendi handa öllum en það er bara að horfa ekki fram hjá henni. Ég hef í fullri alvöru leitað að gleraugunum mínum og haft þau í hendinni. Eða er það nauðsynlegt að ganga í gegnum sársaukamörkin og halda svo ferðinni áfram til að fá aðgang að þessari uppsprettu? Nei, nú gerði ég það of flókið. Ég held bara að ég leiti á ný til Helen Keller. Hún sagði einnig þetta: Maður getur aldrei látið sér nægja að skríða þegar hvöt manns er að fljúga.

Góða nótt,

Guðjón

Á Skansinum 6. desember 2008

Eigum við ekki að gera þetta að hefð sagði Pétur tengdasonur  þegar við vorum búin að fara á jólamarkað á kansinum í Stokkhólmi fyrir jólin í fyrra. Þá vorum við Valdís líka búin að fara í leikhús í sömu Stokkhólmsferð. Núna fórum við öll í leikhús, við Valdís, Rósa og Pétur og svo fórum við líka öll á Skansinn. Skansinn er margt. Til dæmis nokkurs konar Árbæjarsafn og þar er stór sena þar sem íslendingar í Svíþjóð héldu upp á þjóðhátíðardaginn 1994. Það er gríðarlega margt að sjá á Skansinum.

Á þessari mynd er gamalt hús sem er flutt frá héraði sem heitir Härjedalen. Meðal fólks framan við húsið má sjá til vinstri Valdísi, Pétur og Rósu. Í herbergi sem var hitað upp með opnum eldi var par sem spilaði og söng. Karlinn spilaði á það sem hann kallaði taglhörpu. Strengirnir í hörpunni voru eins og nafnið gefur til kynna ofnir úr tagli og strengurinn í boganum sem harpan var dregin með var einnig úr tagli. Og viti menn; þetta var fínasta hljóðfæri. Konan sem var voða falleg og fallega búin söng gömul ljóð við undirleik þessa gamla hljóðfæris. Að vísu voru þau bæði fallega búin og sungu líka bæði.


Eftir viðkomu í Härjedalshúsinu komum við að aðal markaðssvæðinu. Þar er lítil sena og danspallur og þegar við komum þangað í fyrra var dansað þar við fjörugan undirleik. Núna var allt hljótt og Valdís hafði orð á að það væri ekkert verið að dansa þarna núna. Og hvað haldið þið? Varla hafði hún sleppt orðinu þegar maður og kona stigu fram á sviðið og byrjuðu að spila og syngja. Þau spiluðu "hejsan hoppsan" og fólk dansaði "hejsan hoppsan" og allir urðu glaðir.


Á Skansinum er þessi gamla kirkja og í henni var íslenska messa 17. júní 1994.


Eins og í fyrra annaðist Pétur myndatöku af okkur öllum. Hann er laginn við þetta en það er að sjá á andlitinu á mér að ég sé ekki alveg viss um að þetta takist. En það tókst nú samt.


Það eru auðvitað ljósaskreytingar á Skansinum eins og annars staðar. Þessi upplýstu tré eru við innganginn og nú vorum við orðin þreytt á röltinu og stefndum á ný að inngnaginum til að hafa okkur heim. Ef að er gáð má sjá Globen við sjóndeildarhring aðeins til vinstri á myndinni. Globen er mikil kúlulaga bygging sem tekur 16 eða 17 þúsund manns í sæti og þar er hreinlega allt mögulegt gert allt frá að ríða hestum til að halda stórtónleika.


Hvað gerir fólk svo annað á jólamarkaði en að skoða. Jú, frammi í ísskáp er nú ein krukka af hindberjasultu (til vinstri) og önnur af moltuberjasultu(til hægri). Hindber eru í Sólvallaskóginum (skogshallon) en moltuber (hjortron) vaxa ekki svo sunnarlega í landinu. Heit moltuberjasulta með ís er mikið namm namm.

Hafið það gott,

Guðjón

Jólaljós og fallegir gluggar

Hér eru nokkrar myndir frá miðborg Stokkhólms sem teknar voru á gönguferð okkar Valdísar og Rósu og Péturs í gærkvöldi, fimmtudag 4. des.

Þetta er NK húsið í Stokkhólmi sem er þekkt fyrir ýmissa hluta sakir. Þar eru verslanir, verslanir, verslanir og ennþá meiri verslanir. Þar eru vörur dýrar og sumir kaupa þar bara alls ekki en það er vel hægt að rölta þar um og líta á lystisemdirnar. Það var einmitt það sem við gerðum en við vorum grjóthörð á því að kaupa ekki neitt. NK húsið er snobbhús.


Mynd af sama húsi frá öðru sjónarhorni. Fólkið á gangstéttinni vék fyrir myndatökumanninum, beið, brosti og var hið vinalegasta. Það var eins og það væri svolítið jólaskap svo snemma í mánuðinum þó að það væri bara virkur og venjulegur dagur.


Þó að NK húsið sé kannski snobbhús var ekki hægt að neita því að gluggarnir þar eru alveg stórfallegir í skammdeginu. Hér er bara eitt smá dæmi um það.


Það var nú eitthvað fyrir hana Valdísi að komast í þetta allt saman, hún sem vill hafa mikið að ljósum á þessum stuttu vetrardögum. Ég er óttalega gamaldags en mér fannst þetta reyndar flott líka. Okkur fannst það öllum. Kveðja frá okkur öllum til þeirra sem lesa.

Guðjón

Leikhúsferðinni er lokið

Leikhúsferðinni er lokið. Rósa var með farsímann sinn og tók mynd af þessum mögnuðu hjónum sem prýða myndina. Það var gaman í leikhúsinu (Oskarsteatern) og allir á senunni léku á alls oddi. Þegar svo er leika allir leikhúsgestir á alls oddi.

                                                                                 Valdís og Guðjón í leikhúsi.
Það var dansað og sungið og spilað og hlegið en eiginlega var ekki allur söguþráðurinn eins og þegar við Valdís sáum My Fair Lady 1962. En þetta var nú gott samt. Málvísindamaðurinn var leiðinlegur við blómasölustúlkuna en svoleiðis átti það víst að vera. Mér fannst nú samt að hann væri leiðinlegri við hana en hún átti skilið. En það átti víst líka að vera svoleiðis. Nú held ég bara að ég eigi að hætta að nöldra þetta því að mér fannst alveg þræl gaman í leikhúsinu. Verið þið svo blessuð og sæl ef einhver skyldi lesa þetta.

Guðjón

Nú er lag á gamla fólkinu

Frá desember 2008.

Ég verð að fara að sofa bara hið bráðasta. Við nefnilega förum snemma á fætur á morgun, miðvikudag, og förum með rútu til Stokkhólms. Bara frétt til næsta bæjar. Annað kvöld förum við svo í leikhús með Rósu og Pétri til að sjá My Fair Lady. Það er nú tími til kominn. Við sáum My fair lady líklega 1962  í Þjóðleikhúsinu. Ég man afskaplega lítið frá þessari sýningu fyrir utan eitt atriði. Það var þegar sjálfur málvísindamaðurinn í sögunni sagði að hann yrði sko ekki skotinn í svona "blómasölustelpu", gæti ég ýmindað mér að hann hafi sagt, en sannleikurinn mun hafa verið sá að hann var alveg bullandi skotinn í henni. Þegar hann sagðist ekki vera skotinn í stelpunni gall við í konu minni, Valdísi, svo hátt að heyra mátti um allan salinn í Þjóðleikhúsinu: Nei! nei! Hún lifði sig inní söguþráðinn svo ekki varð um villst. Ég varð alveg agndofa yfir því hvað þessi unga kona við hlið mér var hugrökk að verða þátttakandi í sýningu Þjóðleikhússins á þennan hátt, en mér fannst það bara nokkuð sniðugt og alveg fráleitt að ég þyrði að gera það.

Við verðum í Stokkhólmi fram á laugardag, en á laugardag, áður en við förum heim, ætlum við á Skansinn þar sem allt iðar í jólamörkuðum. Þar ætlum við að mæta miklu af fólki, nikka og segja hej! öðru hvoru. Kannski smökkum við á einhverjum þjóðlegum réttum sem fólk gefur smá bita af til að laða að kaupendur. Líklega lítum við á gömul hús og hlustum á þjóðlega tónlist og bara allt mögulegt. Svo er meiningin að við verðum þreytt og þá höfum við okkur inn í veitingahús og fáum okkur kaffi og alveg gríðarlega væna tertusneið með kremi, marsipan, ávöxtum og rjóma. Eftir nokkra hvíld á þessum kaffistað förum við á rútustöðina og við Valdís höldum svo heim á leið. Trúlega verður Óli lokbrá með í rútunni, enda veit hann að stórar rjómatertusneiðar gera honum starfið auðvelt.

Kveðja,

Guðjón
RSS 2.0