Að finna uppsprettu lífsins

Í gærmorgun áður en við fórum út, hvort í sína áttina, Valdís í sí gong og ég á Sólvelli til að smíða, þá töluðum við um fólk sem á við vanheilsu að stríða, bæði andlega og líkamlega. Eftir að hafa farið með Valdísi niður í bæ lagði ég af stað í sveitina og þá tekur mitt líf á sig sveitablæinn. Það þýðir að ég finn fyrir ró og get látið hugann fljúga yfir land og haf og ómældar víddir.

Ég hélt áfram vangaveltunum frá því fyrr um morguninn og ég spáði í hvernig ég hef það sjálfur. Mér fannst þarna í bílnum að ég væri lukkunnar pamfíll og ekkert þjakaði mig. Bílstjórastóllinn undir rassinum á még var volgur og ég fann ekkert fyrir mjöðminni. Vegurinn til Sólvalla er á lokasprettinum skemmtilegur að keyra, mishæðóttur, bugðóttur, í skógi, gegnum akurlönd og framhjá akurlöndum. En það er krafa ef það á að vera skemmtilegt að keyra þetta að það liggi ekki lífið á og að halda sig á réttum kanti. Svo þegar ég kem á Sólvelli bíður eftir mér vinna sem er alveg með eindæmum skemmtileg.

Mér varð hugsað til kvikmyndar sem ég sá fyrir mörgum árum. Myndin byrjar á því að hestakerra kemur heim á búgarð í Ameríku og í kerrunni situr ung kona sem forvitin skimar fram á við. Þegar heim að bænum er komið stígur konan úr kerrunni og gengur upp á verönd og heilsar heimilisfólkinu. Einmitt þá kemur hálfgert villidýr rusandi út úr húsinu. Þetta hálfgerða villidýr er nokkurra ára stúlkubarn. Aðkomukonan kastar kveðju á stúlkubarnið en fær ekki minnstu viðbrögð. Þá veifar hún hendi framan við augu barnins en ekki heldur þá fær hún nein viðbrögð. Þá vissi aðkomukonan að hún hafði mætt viðfangsefni sínu. Stúlkubarnið var Helen Keller og hún var bæði blind og heyrnarlaus. Aðkomukonan var Anna, sem hafði verið ráðin til að kenna Helen að tala.

                                                                                                   Helen Keller

Helen Keller fæddist árið 1880 í Alabama og lést árið 1968. Hún varð rithöfundur og fyrirlesari. Hún skrifaði tólf bækur og fjölda greina. Árið 1960 skrifaði hún bókina Ljósið í myrkri mínu (bókarnafnið er þýðing mín frá sænsku). Hún lét eftir sig ákveðið spakmæli sem ég hef undrast yfir mikið, oft og lengi. Spakmælið sem hér um ræðir og þessi blinda og heyrnarlausa kona lét eftir sig er þetta: Horfðu á móti ljósinu svo þú sjáir ekki skuggann. Náðuð þið þessu!? Hvernig gat hún gert sér grein fyrir þessu, svo mikilvægt sem það nú er? Svo kvarta ég ef það rignir meira en ég hefði viljað einhvern daginn.

Ég hef oft velt því fyrir mér hversu auðug af lífi sú uppspretta er sem Helen Keller hefur haft og allar þær manneskjur aðrar sem hefur vantað svo mikið af því sem við hin teljum útilokað að vera án. Sjálfsagt er þessi uppspretta fyrir hendi handa öllum en það er bara að horfa ekki fram hjá henni. Ég hef í fullri alvöru leitað að gleraugunum mínum og haft þau í hendinni. Eða er það nauðsynlegt að ganga í gegnum sársaukamörkin og halda svo ferðinni áfram til að fá aðgang að þessari uppsprettu? Nei, nú gerði ég það of flókið. Ég held bara að ég leiti á ný til Helen Keller. Hún sagði einnig þetta: Maður getur aldrei látið sér nægja að skríða þegar hvöt manns er að fljúga.

Góða nótt,

Guðjón


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0