Hvað á ég að segja

Jæja, hér sit ég og velti fyrir mér hvort ég eigi að blogga eður ei. Ég veit að það eru svo margar miljónir manna og kvenna sem hafa fengið nýja mjaðmaliði að ég get ekki bloggað einhvern helling um það. Ég kem þó til með að gera það við tækifæri seinna. Ég á líka eftir að blogga um vissa þætti Íslandsferðar okkar Valdísar í vor svo eitthvað sé nefnt. Það er mér ekki sérstök ánægja að sitja við tölvuna ennþá eftir aðgerðina en það er bara tímaspursmál.

Ég var búinn að stefna að því lengi að geta tekið því rólega eftir aðgerð og nú er sá tími frammi. Ég stunda mína æfingar nokkuð samviskusamlega og er búinn að fara eina gönguferð úti í dag. Þess á milli á ég alls ekki erfitt með að horfa úr rúminu upp í loftið og hugsa svo sem ekki neitt, eða horfa á veggfóðursborðann upp undir loftinu og athuga hvort blómunum sé örugglega raðað eins saman í öllum blómaknöppunum sem eru í þessum borða með svo sem 35 sm millibili. Ég nenni ekki einu sinni að lesa bók ennþá, er hreinlega ekki kominn þangað. Á Sólvöllum er allt tilbúið eins og óskir okkar stóðu til fyrir aðgerð og ég var búinn að vinna allt sumarið eins og norrænn víkingur til að hafa pínulítið í kornhlöðunni þegar þessi aðgerðarlausi og launalausi tími eftir aðgerðina hæfist. Svo allt í einu eins og þruma úr heiðskýru lofti brast aðgerðin á mánuði fyrir áætlaðan tíma. Hvað þetta er allt saman notalegt. Ég mundi að vísu óska þess af heilum hug að íslenska krónan hækkaði hressilega svo að hún yrði einhvers virði hér úti. Þá væri allt fullkomið. Það mundi líka að sjálfsögðu koma sér vel fyrir alla aðra íslendinga.

Nú er mál til komið að taka eina æfingaumferðina enn og borða svo léttan miðdegisverð. Valdís er í leikfimi ásamt nokkrum öðrum konum niður í miðbæ. Suðurbæjarskógurinn baðaður í sól hefur fleiri haustliti en í gær og langt á suðurhimni eru fyrirferðarmiklir skýjaklakkar á leið austur á bóginn. Hitinn er ellefu stig. Í líkama mínum hefur hins vegar vorið hafið innreið sína.

Ekki í banastuði í dag

Nei, ég er ekki í neinu banastuði í dag en kvarta heldur ekki. Ég er svo sannarlega á batavegi, skaftfellingurinn fótfrái eins og Jónatan tengdasonur sagði einhvern tíma. Þó ligg ég mest í rúminu og geri mínar æfingar með vissu millibili og geng svo með göngugrindina hornanna á milli. Fín þessi göngugrind sem ég fékk lánaða í Lindesberg, glæný. Hún er með fallegum gráum dekkjum og læstri bremsu og handbremsu og vöruflutningagrind. Ég má nú ekki falla fyrir því að nota göngugrind lengur en ég þarf. En ég gleymi oft hlutum hingað og þangað og þarf svo til baka til að sækja þá. Núna eru hlutirnir í göngugrindinni.

Sérstaklegqa eitt tré í Suðurbæjarskóginum er orðið gult. Annars eru grænu litirnir ennþá ráðandi. Sólin baðar skóginn og vestan golukaldi leikur við trjákrónurnar. Hitinn er um ellefu stig. Það hallar að hausti.

Ég nenni ekki að blogga

Í dag er ég heima aftur eftir mjaðmaskiptin. Ég fann um leið og ég vaknaði eftir aðgerðina að það hafði eitthvað gott skeð í vinstri fætinum og ég er allur betri. En hvað ég varð þreyttur eftir heimferðina, eins og smá barn sem hefur þátt í of miklu. Ég bara nenni ekki að blogga. Að hugsa sér, þá er ég þreyttur og nú legg ég mig eftir að hafa sofið í tvo tíma. En ég er búinn að bursta og pissa svo að ég sinni alla vega hlutunum hlutunum.

Góða nótt

Þetta verður nú meira . . .

Já, þetta verður nú meira áfallið að geta ekki bloggað næstu dagana. Ég reikna alla vega ekki með því að það verði á vegi mínum nokkur tölva þarna upp í Lindesberg sem ég geti notað til að blogga. Það er hreint ekki svo vitlaust að það verði hlé á mínu bloggandi um sinn.

Á morgun, nokkru fyrir hádegi, ætlar hún Ghita að koma og renna með okkur Valdísi upp til Lindesberg, skilja mig þar eftir en skila Valdísi heim aftur. Hvernig verður mér við síðasta daginn heima fyrir sjúkrahúsvist hef ég hugsað að undanförnu og nú ég get alveg svipt hulunni af því. Ég mundi helst vilja vera kominn þangað núna og að aðgerðin yrði gerð í fyrramálið. Það verður hins vegar undirbúningur eftir hádegi á morgun og aðgerð  á fimmtudag.

Hugarfarslega er ég tilbúinn að því er ég best veit og ég finn ekki fyrir kvíða. Hins vegar finn ég eins og óljóst fyrir því að líkaminn finni fyrir að eitthvað sé í vændum. Ég hef enga ástæðu til að útvarpa þessu en ég vil sjálfs mín vegna skrifa það niður og þá nota ég bloggið og ef einhver vill lesa það þá bara; gerið svo vel.

Það lætur kannski eins og montsaga ef ég finn ekki fyrir kvíða. Það hafa margir spurt mig eftir því að undanförnu. Málið var að það var búið að tilkynna mér að það yrði ekki gerð á mér mjaðmaaðgerð fyrr en eftir miðjan október. Ég bara tók því og svo hélt lífið áfram. En daginn eftir var hringt til mín frá sjúkrahúsinu og mér boðið að koma í aðgerð þann 24. september, á fjörutíu ára afmælisdegi Rósu. Ég hugsaði mig eiginlega ekki um en tók þessu boði. Þar með hætti ég að taka bólguhamlandi verkjatöflur sem ég hef notað samkvæmt læknisráði eitthvað á annað ár. Ég vissi að svo yrði ég að gera síðustu vikuna fyrir aðgerð þar sem þær geta annars aukið hættu á blæðingu. En viti menn; þega ég hætti að taka þessar töflur varð ég svona líka lélegur, bara hálf ógangfær vegna verkja og alveg skelfilega stirður. Þar með skildi ég hversu lélegur ég raunverulega var orðinn og að það væri alveg gríðarlega áríðandi að ljúka Þessu af. Þetta er mér til stórrar hjálpar í dag við að sætta mig við það sem fram undan er. Það gerir líka að verkum að ég hlakka mikið til að verða af með áralanga verki og stirðleika.

Í dag hringdi ég í vin minn sem er rúmliggjandi vegna kvefs eða flensu. Veistu, sagði hann, hann pabbi minn fór aldrei í þessa aðgerð vegna þess að hann þorði ekki, en hann hefði svo sannarlega þurft að gera það. Ég var hissa á því að hafa aldrei heyrt þetta hjá honum áður og fannst að sama skapi skelfilegt að heyra það. Þá mun ég aldrei gleyma því að pabbi leið af þessu í áratugi. Hann var hreinlega stórfatlaður maður af sliti í mjaðmarliðum.

Svo segi ég bara sjö, níu, þrettán og vona að ég fái ekki kvef eða nokkra kveisu fyrir hádegi á morgun því að mér hefur verið tilkynnt að þá verði ekkert af aðgerð um sinn.

Aftur um barnabarn

Ég hef barist við aðgerðarleysi eftir að ég gekk frá reikningum mánaðarins fyrir einum tveimur eða þremur tímum. Ég ætlaði nefnilega að blogga og var búinn að velja myndir af honum nafna mínum, sjálfu barnabarninu. Svo skeði ekkert fyrr en allt í einu að ég leit á myndirnar sem ég hafði valið. Þegar ég svo leit á þær skammaðist ég mín fyrir að vera latur þegar svona skýr og glaður maður birtist á fyrstu myndinni með svo fallegt bros á vör.


Á þessari mynd er hann Hannes Guðjón ekki orðinn viku gamall en getur það bara verið? Jú, það er svo en okkur afa og ömmu rekur í rogastans þegar við horfum á þessa mynd. Drengurinn er þarna greinilega að fylgjast með foreldrunum og það verður ekki betur séð en það sé gaman.


Og hér horfir hann nafni minn á leikfang og eins og á fyrri myndinni; það er gaman. Það mun dragast að ég, afi, fari og hitti hann en mig grunar að amma muni taka rútuna og fara einhvern næstu daga til Stokkhólms til að horfa á hann og lyfta honum aðeins upp. Trúlega mun hún líka að setjast með hann á kné sér og tala til hans. Afi kemur seinna og fær kannski að keyra honum í barnavagni meðfram sundunum í Stokkhólmi. Svo auðvitað kemur hann einhvern tíma í heimsókn á Sólvelli og þá kemur nú afi nafni til með að vilja sýna honum eitt og annað og segja honum frá afrekum sínum í sveitinni.


Rósa mamma og Hannes Guðjón að leika sér.






Og Pétur pabbi og Hannes Guðjón að bauka eitthvað í félagi.


Ég verð nú að segja að tölvutæknin gefur mikla möguleika. Við vorum fyrir fáeinum dögum að skoða myndir af barnabörnunum á Íslandi og ekki fundust á árunum sem þau fæddust möguleikar á að skoða í öðrum löndum myndir af þeim nýfæddum.

Lindesberg

Ég varð stoltur í dag, ég get ekki neitað því. Upp úr klukkan átta í morgun lagði ég af stað upp í Lindesberg til undirbúningsfunda fyrir margnefnda mjaðmaaðgerð mína. En takið nú eftir; það er ekki þessi aðgerð sem er aðal málið í dag.

Lindesberg er lítill afar fallegur staður með um það bil 9000 íbúa. Leiðin þangað frá Örebro liggur gegnum fallegt landbúnaðarhérað og það er hluti leiðarinnar sem ég fór svo oft meðan við áttum heima í Falun en ég vann í Vornesi. Ég ætla ekki að rekja mikið af því sem fram fór á sjúkrahúsinu og varðar aðgerðina. Þó það að ljóshærð hjúkrunarkona eitthvað á fimmtugs aldri spurði mig svo oft hvort ég væri kvefaður, og eins ef ég yrði kvefaður yrði ég að hringjan umsvifalaust til þeirra því að þá yrði að fresta aðgerðinni. Þetta varð svo mikið kveftal að ég var á tímabili farinn að halda að ég væri orðinn kvefaður.

Ég þurfti að bíða dálítið hingað og þangað og hitti þá svolítið af fólki. Hávaxin, dökkhærð hjúkrunarkona trúlega um sextugt var þarna á röltinu og kom með bréf til mín sem annars er yfirleitt sent í pósti. Hún settist niður og við spjölluðum svolitla stund. Þá tók ég eftir því að hún talaði Dalamál. Aðspurð sagðist hún vera frá Falun. Einmitt. Ég gat þá sagt frá því að við Valdís hefðum búið í Falun og Svärdsjö í þrjú ár. Svo töluðum við um mállýskur.

Þú talar eins og hann Hlöðver, sagði hún. Þess vegna vissi ég strax að þú kæmir frá Íslandi. Makalaust hvað hann var fín manneskja hann Hlöðver. Það var svo synd að hann skyldi komast á aldur þessi maður og verða ellilífeyrisþegi. Hvað við söknuðum hans og söknum hans enn. Virkilegt góðmenni og skemmtilegur var hann.

Þau hafa eflaust haft eitthvað gælunafn á Hlöðver því að hún átti mjög erfitt með að segja nafnið. Ég var reyndar í vafa um hvaða nafn hún væri að reyna að segja en ég er nokkuð viss um að það var þarna læknir sem heitir Hlöðver. Það var varla hægt að gefa nokkrum manni betri vitnisburð en þessi kona gaf þessum fyrrverandi vinnufélaga sínum. Þetta gerði mig meira forvitinn svo að ég spurði eftir honum Theódór.

Já hann Theódór! Að hann skyldi hætta hjá okkur. Ég held að hann hafi flutt eitthvað niður á Skán. En veistu að hann ætlar að koma í haust og vinna hér í þrjár vikur. Það er sama með hann Theódór. Alveg úrvals manneskja og svo góður læknir og þvílík eftirsjá að honum. Og hún Guðrún (kona Theódórs). Hún er sama úrvalsmanneskjan og hann Theódór og alveg frábær félagsráðgjafi. Það var svo gott að hafa þetta fólk hérna á sjúkrahúsinu.

Ekki er ég viss um að ég hafi allt orðrétt eftir en efnislega tel ég þessa frásögn rétta. Þetta lætur kannski of vel í eyrum en konan var mjög eðlileg og ekta og við höfum líka áður heyrt afskaplega vel talað um þetta fólk.

Þegar erindum  mínum var lokið á Lindesbergs lasarett gekk ég út og yfir bílastæðið fyrir fatlaða. Þar gekk ég undir tvö reyniviðartré svo hlaðin berjum að greinarnar héngu eins og vængir á skarfi sem situr og þurrkar sig á klettagnípu við Eyjafjörð. Þetta fékk mig til að líta til baka heim að húsinu og þá sá ég að ég hafði gengið nánast undir fjögur svona tré við aðalinnganginn. Eitthvað hef ég verið annars hugar þar sem ég tók ekkert eftir þeim trjám þegar ég gekk undir þau. Svo falleg sem þessi tré voru þarna í dag og okkur finnst reyniviður vera illgresi á Sólvöllum. Spurning hvort við þurfum að breyta því hugarfari.

Það var líka reyniviður sunnan undir gamla íbúðarhúsinu á Kálfafelli. Þegar Esra Pétursson læknir tók af mér illa farinn litlafingur vinstri handar fyrir meira en 60 árum síðan lá ég á stofuborðinu í stofunni í gamla bænum. Annað borð var haft undir hendinni á mér þó að ég væri ekki stór og ef ég man rétt þá var það kallað litla borðið. Esra sýslaði við hendin á mér og ég horfði forvitinn á og var hvergi banginn. Allt í einu sagði Esra mér að horfa horfa út um gluggann sem var hægra meginn við mig og horfa á tréð þar utan við. Það var reyniviðartréð. Síðan horfði ég á tréð og stalst inn á milli til að horfa á Esra. Eitt sinn þegar ég leit á hann var hann að færa fingurflakið frá hendinni á á mér með töng. Aðdáun mín á læknavísindunum átti sér engin takmörk og það var við þetta tilfelli sem ég ákvað að verða læknirinn sem ég aldrei varð. Þannig lifir þetta í minningu minni og hefur gert alla áratugi.

Það sem gerði mig stoltan í dag voru orð konunnar í Lindesberg um íslendingana.

Þriðjudagur til þrautar

Í gær var það þriðjudagur og ég fór í vinnuna sem var þó ekki á áætlun fyrr en daginn áður. Ég settist upp í Fordinn okkar og lagði af stað, afslappaður og í góðu standi. Hraðastillinn setti ég á 90 km sem svo oft áður og notaði svo bensínfótinnn (etanolfótinn) á 50 og 70 km köflunum. Veðrið var alveg frábært, sól og stillt. Viss akursvæði voru gul og vögguðu þroskuðu korni. Önnur akursvæði voru líka gul en þar hafði þreskivélin verið á ferðinni og kornið var þegar komið í hlöður. Svo voru stór akursvæði sem þegar var búið að plægja og sá í og þau biðu bara eftir að verða græn aftur fyrir veturinn. Það var af ýmsu að taka fyrir augað og ferðin í vinnuna var notaleg. Svo kom ég að Óðinsbaskka sem er nákvæmlega á miðri leið og lækkaði hraðann niður í 70 km. Eftir rúman kílómetra kom svo 90 km skilti aftur og ég þrýsti á hnappinn hraðastilli og bíllinn jók ferðina. Svo komu vindmyllurnar tvær skammt austan við Óðinsbakka og þær stóðu graf kyrrar. Engin rafmagnsframleiðsla þar þessa stundina hugsaði ég. Ég hafði á sínum tíma fylgst með þegar þessar gríðar háu vindmyllur voru reistar og þótti það skemmtilegt. En hvað var þessi grái fólksbíll að gera sem fylgdi mér þétt í sporin? Það var einhver blá lýsandi rönd neðst á framrúðunni og við endann á henni önnur rauð. Nú var ég kominn eina fjóra kílómetra austur fyrir Óðinsbakka og vegarkaflinn var þráðbeinn. Allt í einu var rauði hlutinn af þessari rönd neðst á framrúðunni orðinn blár líka og nú fór ég að fylgjast vel með. Allt í einu fór bláa röndin að blikka og blár lampi var kominn upp á toppinn sem þó lýsti ekki. Alla vega ekki ennþá. Nýskupúkinn byrjaði að væla innan í mér þar sem mig fór að gruna sekt fyrir of hraðan akstur. Samt vonaði ég að ég væri grunaður fyrir eitthvað annað því að ég var alveg hand viss um að ég væri saklaus. Að vera grunaður fyrir eitthvað sem ég væri saklaus af mundi ekki kosta peninga. En ég var líka viss um að ég hefði ekki ekið of hratt framhjá Óðinsbakka.

Þegar ég var stoppaður á útskoti kom miðaldra lögregluþjónn og bað um ökuskýrteinið mitt. Síðan bað hann mig að blása sem ég einnig fékk að gera á mánudaginn var. Feginn ég var að það var ekki alvarlega en þetta. En þá kom að alvöru málsins. Þú keyrðir of hratt framhjá Óðinsbakka, sagði hann. Svo fékk ég að sjá í radarnum hvernig málum var háttað. Ég hafði verið á 76 km hraða í staðinn fyrir 70 km og um næstu mánaðamót fæ ég að borga óvæntan reikning upp á 1500 sænskar krónur. Afraksturinn að vinnuferðinni í Vornes í þetta skiptið lækkaði umtalsvert. Það svíður í veskinu mínu.


Um hálf fimm leytið í gær var ég sem sagt í vinnunni og þá sá ég að ég hafði fengið skilaboð á farsímann minn. Ég hlustaði og fann fyrir gæsahúð. Þetta var hún Sonja hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu í Lindesberg og hún bauð mig velkominn í mjaðmaraðgerð á fimmdudaginn í næstu viku. Úúúh! Svona nálægt! voru mín fyrstu viðbrögð. Daginn áður var mér sagt að það yrði ekki fyrr en eftir mánuð. En nú er þetta farið að leggja sig í mér og á morgun á ég að mæta þar til kynningar og undirbúnings. Ég er ekki hræddur við að deyja í aðgerðinni og ekki kem ég til með að finna fyrir henni, en ég verð, eins og allir sem gangast undir aðgerð, algerlega á valdi annarra meðan hún stendur yfir. Þar að auki mundi ég ekki vilja vera áhorfandi að svona aðgerð. En hversu margir verða leiðir á mér þegar ég verð á fullri ferð um allt og alls staðar eftir að ég hef fengið nýjan mjaðmarlið, það kemur í ljós.

Frjáls maður

Í morgunn taldi ég dagana þangað til ég þyrfti að fara að vinna og komst að því að það væru fleiri dagar þangað til en dagarnir sem ég hef verið frískur eftir kvefið sem ég fékk fyrsta daginn eftir að ég vann síðast. Nú varð þetta dálítið flókið en málið var að ég var að reyna að gera sem allra mest úr þessum fríu dögum fram að næstu vinnu. Við vorum búin að vera hjá sjúkraþjálfaranum og skreppa í bankann og Valdís keypti lambakjöt í Alibaba. Svo var ég búinn að hringja í sjúkrahúsið í Lindesberg og fékk ekki nánari dagsetningu en svo að aðgerðin verður ekki gerð fyrr enn í seinni hluta október. Kannski hefði ég getað röflað en þegar hjúkrunarfræðingurinn sem ég talaði við sagði að doktor Hallberg, skurðlæknirinn sem á að framkvæma á mér mjaðmaaðgerðina, væri í fríi og yrði í fríi eina viku til, þá hugsaði ég sem svo að það verður betri aðgerð ef læknirinn verður ánægður með lífið þegar hann hefur mig bjargarlausan á skurðarborðinu. Svo héldum við af stað á Sólvelli. Við keyrðum eftir endilangri Glommunni, en það er löng gata þar sem hámarkshraðinn skiptir ótt og títt milli 30 eða 50 km og það er svo erfitt að vita hvort maður er á 30 eða 50 km kafla hverju sinni. Við mættum strætisvasgni sem blikkaði og ég velti fyrir mér hvort það væri biluð pera í framljósunum hjá mér. En mitt í þeirri hugsun skaust lögreglumaður út á götuna og benti okkur að beygja út á hlliðargötu, hliðargötu sem er ögn breið og lögreglan er einmitt oft þarna og mælir hraða á 30 km kafla.

Í þessari hliðargötu stóðu þrír lögreglubílar og alls ekki færri en tíu lögregluþjónar. Við Valdís vorum sammála um það að héðan væri vonlaust að komast á flotta. Kurteisw ungur maður stakk hálfu höfðinu inn um gluggann hjá mér og bað um ökuskýrteini. Rosalega eruð þið mörg hér, sagði ég. Hann sagði að þarna stæði yfir æfing hjá lögregluskólanum. Flott hjá þeim sögðum við Valdís. Síðan bað hann mig að blása og ég sem hef svo gaman að því að blása fyrir lögregluna. Aldrei fékk ég að gera þetta á Íslandi en svo sem 1,5 sinnum á ári fæ ég að blása í Svíþjóð. Ég mældist ófullur og ungi lögreglumaðurinn þakkaði fyrir og við fengum að halda áfram. En það fengu ekki allir að halda áfram. Bíllinn framan við okkur þar sem við stoppuðum hafði greinilega ekki fengið að halda áfram. Upp að bílnum hallaði sér órakaður maður sem reykti í ákafa og virtist bíða eftir einhverju. Kannski beið hann einhvers sem mátti keyra bílinn hans af vetvangi. Hefði ég þurft að velja mér herbergisfélaga á þessu augnabliki hefði ég ekki valið hann. Þar var Valdís sammála.

Áfram var haldið áleiðis til Sólvalla en við þurftum þó að koma við í K-rauta byggingarvöruversluninni og kaupa skrúfur. Þar hringdi síminn í vasa mínum og ég þekkti númerið á gamla símanum sem ég hafði þegar ég var dagskrárstjóri í Vornesi. Þá vissi ég það. Fjárinn sjálfur. Nú fækkar frídögunum mínum svo um munar skildi ég. Eftir kurteisisávörp spurði Ove hvort ég vildi vinna eina auka nótt í vikunni. Nei! Svo samþykkti ég að gera það þó að ég vissi að það tæki einn og hálfan sólarhring af frelsi mínu. Ég verð aldrei alvöru ellilífeyrisþegi með þessu áframhaldi. Unga fólkið er oft veikt en gamlir jaxlar verða bara veikir í fríum. Ég sem sagt fer af stað í vinnuna klukkan tíu árdegis á morgun, þriðjudag.

Sem fyrr er ég háður því að vinna talsvert, ég sem hafði hlakkað svo mikið til hinna frjálsu ellilífeyrisdaga. En ég hef nú lúmskt gaman að þessu líka ef það er ekki of oft. Mér finnst Vornes betri vinnustaður nú en meðan ég var þar fastráðinn. Ég fer þangað til að gera gagn, það er að segja að rétta út hendina til þeirra sem eru hjálpar þurfi. Ég hef ekki minnstu áhyggjur af því hvaða ákvarðanir staðarhaldarinn i Vornesi tekur og ég geri mér ekki grillur út af því hvað dagskrárstjórinn gerir hverju sinni. Þetta gerir mig að frjálsum manni. Að rétta út hendina til þeirra sem eru hjálpar þurfi sagði ég. Þessir sem eru hjálpar þurfi, þurfa líka að vilja taka við hjálpinni. Enginn getur hætt drykkjuskap nema hann vilji það sjálfur.

Hann nafni minn

Það er nú meira hvað ég er orðinn tilfinninganæmur með aldrinum. Bara að horfa á þessa mynd vekur hjá mér lotningu fyrir lífinu og yljar mér fyrir brjósti. Lífið er merkilegt fyrirbæri. Í dag hringdi ég til foreldranna og átti ekki von á neinu sérstöku en svo sagði Rósa allt í einu að það væri búið að ákveða nafnið.


Hann á að heita Hannes Guðjón sagði Rósa eftir svolitla hljóða stund og ég fann á augnablikinu hvernig klökkvinn þrýsti sér upp í hálsinn á mér. Ég átti ekki von á mínu nafni þarna vegna þess að flestir svíar eiga erfitt með að heyra nafnið mitt í fyrstu tilraun og þessi drengur á jú heima í þessu landi. En Hannes eiga svíar ekki erfitt með og nafnið er þekkt hér. Það er bæði skrifað og sagt eins á íslensku og sænsku. Þannig leystu þau þetta mál. Þakka ykkur fyrir góðsemina í minn garð Rósa og Pétur.

Svo er hægt að skoða þetta á fleiri en einn hátt. Það er hægt að segja Hannes Guðjón Pétursson og svo er líka hægt að segja Hannes G. Pétursson. Tíminn leiðir í ljós hvernig það verður. Þú virðist sofa tryggur og öruggur með þig á þessari mynd nafni minn.





Heyrðu nafni minn, ertu að hlæja á þessari mynd, kominn í fín föt og með húfu. Það er ekki um að villast. Fáeinum dögum áður en Hannes Guðjón fæddist fylgdumst við með mjög fróðlegum þætti í sjónvarpi. Þar var sagt frá því að meðan börn væru í móðurkviði lærðu þau að þekkja raddir foreldranna, þau þekktu þá tónlist sem leikin væri á heimilinu og jafnvel að þau þekktu lyktina heima. Með þessa vitneskju fengna er ég ekki hissa á því að drengurinn brosi þegar hann er kominn í fínu fötin sín og heyrir mildar raddir foreldra sinna sem tala hamingjusöm yfir barni sínu. Ég er líka alveg á því hreina að hann hefur ekki, meðan hann var í móðurkviði, heyrt háværar eða styggar raddir heima fyrir.

Svo aðeins meira um Guðjónsnafnið í Svíþjóð. Sumir heyra nafn mitt í fyrstu tilraun, aðrir þurfa að hvá í eitt, tvö eða þrjú skipti og einstaka þarf helst að sjá það skrifað. Ungt fólk sem þekkir mig ávarpar mig við öll möguleg tækifæri með nafni og virðist þykja það þægilegt. Þau vilja líka láta mig heyra að þau geti notað þetta nafn sem er óvenjulegt hér.

Ég er að lagast af kvefi en Valdís jafnvel að fá kvef. Hannes Guðjón fær því trúlega að bíða enn um sinn eftir því að hitta afa og ömmu í Örebro

Dagurinn í dag

Ég var sestur framan við sjónvarpið með kaffibolla og súkkulaðibita og var í þann veginn að lofa mér að ég skyldi bara lata þar þangað til ég færi að sofa. Það var meira súkkulaði við hliðina á mér og engan veginn útilokað að ég mundi semja um það við mig að ég ætti annan súkkulaðibita skilinn eftir dagsins önn. En nú fann ég allt í einu fyrir því að mér líkaði þetta alls ekki. Ég hafði nefnilega ákveðið fyrr í dag að Ég skyldi setjast niður og skrifa nokkrar línur. Ég hefði gott af því.

Í morgun hafði ég tvennt að velja um. Annað var að fara á fætur, borða morgunverð og byrja svo í rólegheitum að mála og vinna að smá verkefnum sem eftir eru á ýmsum stöðum í bústaðnum okkar. Smiðir þekkja þetta og þeir sem hafa byggt þekkja þetta. Listi hér og listi þar, sparsla smá og mála, skrúfa einhvers staðar þar sem óþægilegt er að komast að, veggfóðra smá og fleira og fleira. Hitt sem ég hafði svo að velja um var að gera samviskusamlega æfingarnar sem hann Renè sjúkraþjálfari í Örebro hafði ráðagt mér og einnig æfingar sem hann Elías sjúkraþjálfari í Vestmannaeyjum kenndi mér í vor. Svo merkilegt er það að mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að byrja á þessum æfingum en jafnskjótt og ég hef byrjað er það notalegt, virðist mjög þarft og er hreinlega skemmtilegt. Ég valdi æfingarnar.

Það voru fínar fréttir í sjónvarpinu í dag. Sjúkrahúsið í Lindesberg er fjórða besta/vinsælasta sjúkrahúsið í Svíþjóð. Það er í Lindesberg sem setja skal titanliðamót í mjöðmina á mér sem síðan skal gera mig að hraðskreiðum yngri manni á ný. Annars ætti ég kannski að fara að athuga hvort aldur minn er rétt skráður. Það var nefnilegsa til umræðu í Vornesi um daginn hversu gamall ég er. Ég á ekki erfitt með að segja til um aldur minn og í fyrirlestri nefndi ég hversu gamall ég er. Þá sögðu sjúklingar að ég gæti ekki verið meira en 59 ára. Það var ekki erfitt að taka ofan hattinn fyrir svona jákvæðri umsögn.




Lóðin við bústaðinn okkar er vel hirt. Það er ekki mér að þakka, það er henni Valdísi að þakka. Í gær sló hún hluta af lóðinni og í dag sló hún það sem eftir var, hún giskaði á 1200 fermetra. Samtals er það sem hún slær um 2000 ferm. Það er mikill þrái í henni hvað þetta varðar og það er ekki auðvelt að fá hana til að slá slöku við varðandi lóðarhirðinguna. Ég heyrði eitt sinn um fjölskyldu sem fékk heimsókn vina. Þeir gengu um lóðina ásamt heimilisföðurnum og hældu manninum fyrir frábæra lóðargerð og spurðu hvort þetta hefði ekki verið erfitt. O, ekki svo mjög, svaraði hann.

Það var reyndar konan hans sem hafði unnið lóðina.




Það er ég sem er á þessari mynd að mála út í skógi. Þessi vinnubekkur á alls ekki heima þarna en einhvers staðar verður hann að vera enn um sinn. Ef svíar sem aldir eru upp í sveit hefðu séð til mín hefðu þeir hrist höfuðið. Að vera að mála innidyragerefti og fleira fínt úti í skógi, það er ekki neitt sem hægt er að mæla með. Tréð til hægri við mig er unglings eik og hægt er að merkja að ein greinin er beint yfir mér. Tréð vinstra megin við mig er björk og greinar hennar eru hærra uppi og yfir mér. Ef það kæmi smá vindhviða mundu birkifræ og óteljandi fjöldi annarra fræja úðast yfir það sem ég er að mála, einnig allt lauslegt sem hvílir á aragrúa laufblaða sem er beint yfir vinnubekknum, og þá verður eftirvinnan ekki svo skemmtileg. Grunnmálning með hundruð fræja föst í málningunni, nei og aftur nei. Málið var bara það að það kom engin vindhviða og engin fræ féllu i málninguna. Ég hed bara að ég sé bjartsýnismaður. Ég ætla að leika leikinn aftur á morgun og mála eina umferð með yfirmálningu. Kannski koma einhverjir ósýnilegir sveppir í málninguna en ég mála líka eina umferð eftir uppsetningu og þá láta hugsanlegir sveppir í minni pokann.

Nú er það svo að í staðinn fyrir að lata í hægindastólnum og éta súkkulaði er ég búinn að skrifa nokkrar línur. Það gerir aftur að verkum að ég á súkkulaði til helgarinnar. Í fyrramálið er ég svo ákveðinn í að gera æfingar sjúkraþjálfaranna. Annars er þetta merkilegt með fjótinn sem á að fara í viðgerð í Lindesberg. Ég vaknaði um miðja nótt um síðustu mánaðamót og hafði þungan verk í fætinum allt frá rist og upp að mjöðm. Mér leist alls ekki á, varð hreinlega smeykur, og hélt að nýr erfiður áfangi væri að byrja. En eftir svolitla stund sleppti verkurinn mér til mikils léttis og ég sofnaði á ný. Síðan hefur mér liðið allt öðru vísi í fætinum og ég er hættur að nota stafinn. Mér hefur verið kennt að ónýt mjöðm getur ekki læknast, annars mundi ég halda að ég væri á batavegi.

Kvefaður karlmaður

Ég er kvefaður karlmaður, sem sagt veikur maður. Ég hnerra, snýti mér, þurrka augun, styn og andvarpa. Legg mig, fer á stjá, legg mig aftur, fer á stjá aftur, sest niður og kíki í tölvuna. Þó að ég geri grín að mér í þessu sambandi væri mér mun rórra ef ég gæti tryggt að ég smitaði ekki Valdísi. En hún segist ekki ætla að smitast af þessu og það er bara að vona það besta. Haustkvef tollir nefnilega svo lengi við hana. Að ég smitaðist var ekki skrýtið fyrst ég var á annað borð að vinna í Vornesi. Einn daginn þegar ég kom í vinnuna var kvefið þar staðreynd og ég var grunlaus mitt inn í hósta- og hnerrastormunum upp á marga metra á sekúndu.  Heimsvanur listamaður sem er innskrifaður kom til mín og þurfti að tala við mig og bar sig afar illa vegna kvefsins sem hann þjáðist af. Hann blés eins og hvalur og þegar ég bað hann að sýna tillitssemi lofaði hann skilningsríkur að gera það. Svo teygði hann fram neðri vörina og andvarpaði svona líka svakalega og þjáningarrfullt svo að vindgusan lék um andlit mitt. Þá var mér alveg ljóst að ég kæmist ekki undan.

Eftir hádegi í gær fórum við á Sólvelli. En hvað nú? Er það bara Vornes og Sólvellir sem ég þekki til? Ég alla vega skrifa oft um þessa tvo staði. Nær sjóndeildarhringur bara til þessara tveggja staða? Og um leið og ég skrifa þetta dettur mér í hug ákveðinn atburður. Ég var að koma í fyrsta skipti til Svíþjóðar á leið minni í Svartnes. Flugvélin var lent og var á leiðinni að flugstöðvarbyggingunni. Ég horfði á blá ljós í brautinni og fannst sem þau væru þar á víð og dreif en vissi þó að þau mundu vera alveg þræl skipulögð. Þá spurði ég sjálfan mig hvort ég væri orðinn algerlega brjálaður að láta mér detta í hug að fara á sextugs aldri mállaus til annars lands til að vinna þar. Skömmu síðar gekk ég inn flugstöðvarbygginguna sem mér fannst gríðarlega stór og svo mætti ég Rósu og Pétri. Ég Þóttist vera hugaður eins og víkingi bæri og spurði hvar blaðamennirnir væru. Ha ha.




Þó að ég væri í aumingjaleik í dag fór Valdís út og tíndi síðustu eplin af litla eplatrénu okkar. Hún tíndi líka sveppi undan stóru Sólvallaeikinni. Merkilegt hversu oft er hægt að fara þangað og tína sveppi. Síðan hreinsaði hún sveppina og steikti þá og nú bíða þeir í frystinum eftir að fara í einhverja sunnudagssósuna. Þegar hún var búin að ganga frá sveppunum eldaði hún eplagraut og svo var eplagrautur í hádegismat.



Eftir hádegismatinn fór ég inn að tölvunni og sem er á borði undir austurglugga, þeim sem snýr út að skóginum. Mörg laufblöðin eru orðin lúin en það er enginn haustlitur. Þar sem ég horfði þarna út í skóginn velti ég fyrir mér hvílíkur fjöldi af trjátegundum, lyngi, grösum og blómum lifir þar í að því er virðist svo ljúfu samfélagi. Og innan um þetta samfélag er svo annað samfélag, það er að segja fuglar, skordýr, slöngur, broddgeltir, hérar, dádýr og fleiri spendýr. Á tímabili í vetur virtist meira að segja greifinginn leita sér skjóls undir bústaðnum. Komist ég í kynni við þetta líf allt saman verður sjóndeildarhringur minn alls ekki svo þröngur.  Svo tók ég myndavélina og tók myndina hér fyrir ofan.



Svo sneri ég stólnum og horfði út um gluggann hinu megin á herberginu, mót vestri. Þá auðvitað reisti ég mig upp úr stólnum og tók meðfylgjandi mynd. Það er þarna sem sólin sest á kvöldin. Snemma á morgnana smýgur hún eftir bestu getu gegnum laufþykknið utan við austurgluggann og svo sest hún þarna á kvöldin.

Við Valdís tökum þátt í þessu saman. Það finnast mörg önnur markmið en að við bindum okkur bara við þetta. Eitt marknmiðið getur heitið Härjedalen, annað Jämtland, enn annað Högakusten, Västerbotten, skerjagarðar á mörgum stöðum, beykiskógarnir á Skáni og bara nefndu það.

Svo að lokum þetta. Rósa og Pétur voru á ferju i skerjagarði utan við vesturströnd Kanada. Þeim fannst eitthvað þægilega kunnuglegt við þetta umhverfi og áttuðu sig þegar enskumælandi fólk sem sat nærri þeim sagði: Þetta er bara alveg eins og Stokkhólmsskerjagarður.

Kominn niður á jörðina

Ég, hinn nýendurkrýndi afi, er nú lentur í jarðríki á ný. Í morgun bloggaði ég um fæðingu dóttursonarins í gær en hafði ekki mynd. Nú er myndin fengin og einnig leyfi foreldranna til að nota hana á bloggið mitt. Hvernig ætti að vera hægt að sniðganga það þegar um slíkt kraftaverk er að ræða; nýr maður er kominn í heiminn.


Já, blessaður kallinn minn, hvenær ætli við hittumst. Í dag er ég, afi, kvefaður og hætt við að ég verði það einn eða tvo daga til viðbótar. Ekki vil ég þér svo illa að ég vilji bera til þín þær bakteríur sem ég ber bæði í mér og á núna. Okkar tækifæri kemur að við afi og amma komum og hittum þig.

Rósa mín og Pétur minn, innilega til hamingju með barnið ykkar segja afi og amma, þetta fallega, lifandi sköpunarverk. Gangi ykkur allt í haginn.

Barnabarn

Ég sem hélt að ég væri svo yfirvegaður og sterkur á taugum. Það var hreinlega ákveðið að hún Rósa dóttir mín skyldi fæða barn í gær og ég með þessa nefndu eiginleika mína ætlaði aldeilis að vera yfirvegaður og sýsla smá hér heima, til dæmis að gera við rimlagardínur sem hanga milli glerja hjá okkur eins og á flestum öðrum sænskum heimilum. Fyrst fórum við þó til sjúkraþjálfara og með bílinn í reglubundna þjónustu. Svo skyldi ég með rósemi taka upp tólið þegar pabbinn hringdi ef Valdís yrði þá ekki á undan mér. Svo kom síðdegið og mér hafði tekist að gera við eina gardínu og var byrjaður á þeirri næstu. Það er ekkert einfalt að gera við þessar gardínur og hvað þá seinni varðaði, þá þurfti að skipta um það mesta í henni, meðal annars músastigana sem halda rimlunum í skefljum. Jæja, svo hringdi síminn -en það var ekki pabbinn. Það var hin dóttir okkar, verðandi móðursystir, Valgerður. Það leyndi sér ekki að hún var líka með hugann við það sem í vændum var. Ég var ekki eins rólegur og ég ímyndaði mér að ég væri. Ég taldi tímana sem ég gerði ráð fyrir að hún væri búin að vera á fæðingardeildinni og ég hrökk við vegna þessa að mér fannst sem síminn ætlaði að fara að hringja eða farsíminn ætlaði að fara að pípa sms skilaboð. Loks var ég búinn að setja báða músastigana í gardínuna, lyfti henni upp til að já að allt passaði sem það ekki gerði. Öðru megin höfðu tveir rimlar lent í sama þrepi á tveimur stöðum og hinu megin hafði ég gert böndin of stutt þegar ég festi þeim í efri endann.

Ekki æsti afinn sig út af þessu, klippti burt músastigana og byrjaði upp á nýtt. Síminn hélt áfram að vera nagandi hljóður. Smám saman hafði mér tekist að setja enn nýtt sett af músastigum í gardínuna og ég lyfti henni upp til að fullvissa mig um að núna hafði það tekist. Þetta leit vel út og nú prufaði ég að snúa rimlunum -en, það virkaði ekki. Eftir margar tilraunir sem ekki virkuðu gekk ég út að glugga, opnaði og kíkti ofan í aðra gardínu til að sjá hvernig frágangurinn ætti að vera þarna uppi. Það hefði ég átt að gera fyrr, að athuga áður en ég byrjaði hvernig ætti að vinna verkið. Það var komið miðnætti og ég þurfti að kaupa enn eitt nýtt sett af músastigum og gera þriðju tilraun og bíða sem sagt til næsta dags.

Með farsímann á náttborðinu og herbergishurðina opna svo að við skyldum heyra í heimasímanum lagði ég mig. Valdís hafði þá lagt sig fyrir nokkurri stundu og líka með sinn farsíma á sínu náttborði. Einhvers staðar milli svefns og vöku heyrði ég að lokum farsímann dingla sms hjá Valdísi og augnabliki síðar pípti minn farsími. Snögg viðbrögð,  kveikja ljósið, opna farsímann. Það var greinilega pabbinn sem hafði sent sms frá farsíma mömmunnar. Það hafði fæðst hraustur, fallegur strákur, 18 merkur og 53 sentimetrar klukkan 22,19 og það var þann 7. september. Núna var komið vel framyfir miðnætti. Við lásum þessi fallegu skilaboð hvað eftir annað og gleðin tók völdin.

Merkilegt hvað ég hef orðið meyr með aldrinum. Hér með var andlegum fæðingarhríðum afans lokið. Ég er sannfærður um að amman upplifði eitthvað svipað. Nú er kominn nýr dagur með nýjum möguleikum og óskum um að allt gangi vel. Það eru tólf ár síðan síðasta barnabarn okkar fæddist hjá dótturinni í Vestmannaeyjum. Ég beið þá líka og mikið var ég feginn að heyra að allt hafði gengið vel, en ég held að ég sé fullorðnari maður í dag og það segi ég af alvöru. En svona upp á grín segi ég að ég er ekki eldri.


Myndin er af pabbanum og mömmunni á fallegu kvöldi á Sólvöllum þann 20. júní. Sem sjá má er mikil lambakótilettuveisla í undirbúningi.

Kominn í gott frí

Hvað það var gott að renna úr hlaði í Vornesi í dag og halda heim á leið. Ég fór að vísu nokkuð seint af stað, hefði getað lagt af stað rúmum klukkutíma fyrr en ég gerði, en sumir sjúklinganna sem fengu heimsókn í dag, sunnudag, vildu svo gjarnan kynna mig fyrir sínum nánustu. Ef það þarf ekki meira en það til að gleðja fólk, já, því ekki að taka þátt í því svolitla stund?

Það sem gerði það sérstaklega notalegt að yfirgefa Vornes í dag var að ég er búinn að vera í býsna strangri vinnu með allar þessar nætur sem ég hef unnið í sumar, og svo að ég er að fara í næstum tveggja vikna frí. Oj, oj, hvað ég nýt þess. Landið var fagurt og frítt en hvergi sáust fannhvítir jöklanna tindar en hins vegar sá ég þungbúin úrkomuský á vesturhimninum. Þegar ég átti eftir svo sem 25 kílómetra í Örebro byrjaði að rigna. Fyrst hafði ég rúðuþurrkurnar á letihraðanum, síðan á næsta stigi þar fyrir ofan og að lokum á mesta hraða. Ekki nægði það og ég hægði mjög ferðina. Vatnið hafði ekki við að renna af veginum þannig að það má segja að allir bílar óðu virkilega elginn. Svo kom einn af þessum stóru vörubílum með stóran aftanívagn, samtals á sjö hásingum og 24 metrar á lengd. Þá varð ástandið í Fordinum okkar þannig að það var eins og ég hefði ekið undir Skógafoss. Ég vissi að vegurinn var beinn framundan svo að þær sekúndur sem ég sá ekkert fyrir vatnsaustrinum frá vörubílnum einbeindi ég mér í að halda beinni stefnu. Þegar ég byrjaði á sjá framfyrir mig aftur sá ég útskot á veginum og þar lagði ég.

Ég hringdi í Valdísi og sagði henni að ég væri veðurteftur á veginu 20 km frá Örebro. Hún hélt að ég væri að reyna að segja brandara og sagði að það væri sól í Örebro. Eftir nokkrar mínútur hætti mjög skyndilega að rigna og ég hélt af stað á ný. Eftir tveggja kílómetra akstur var vegurinn svo þurr að það hafði greinilega ekki rignt þar í langan tíma. Nú sit ég heima hér í Örebro, kvöldrökkrið er lagst yfir, það er logn, þurrt og 14 stiga hiti.

Svo má ég til með að segja svolitla sögu um útlit mitt. Í fyrra komu þau Rósa og Pétur með gallabuxur sem ekki pössuðu lengur á Pétur, engar lélegar slíkar. Á merkinu sem er á buxunum sem ég er í núna stendur til dæmis Calvin Klein (það hlýtur að vera fínt merki Calvin Klein). Ég sem hef verið vanafastur í meira lagi og alltaf viljað ganga í buxum með egghvössum brotum er nú farinn að ganga í gallabuxum -og mér líkar það stórvel. Samt var svolítið erfitt fyrir mig að gefa mig í byrjun en nú er það um garð gengið.

Það var starfsmannafundur í Vornesi eftir hádegi á föstudaginn var. Við hlið mér sat Annelie hjúkrunarfræðingur. Hún er hávaxinn kona rétt undir fertugu, ljóshærð, þægileg í framkomu og samviskusöm svo að af ber. Þegar ég var að draga út stólinn til að setjast á hann ýtti hún með fingri á Calvin Klein merkið og sagði prúð að vanda: Þú ert farinn að ganga mikið í gallabuxum Guðjón, það gerir þig unglegan. Já, hvað segir ellilífeyrisþeginn þá. Ég sagði einfaldlega; þakka þér fyrir Annelie.

Að lokum vil ég segja um Pétur að það var ekki vegna þess að hann væri svo feitur sem buxurnar pössuðu ekki lengur á hann. Ég held hreinlega að hann sé of grannur í þær núna.


Myndin er frá Noravatninu skammt norðan við Örebro.

Hér með ætlum við Valdís að horfa á myndina Menn sem hata konur. Ég hlakka til frídaganna og spáin er síðsumarspá með 17 til 18 stiga hita. Gangi ykkur allt í haginn.

Fróðleikur og bílar

Ég var að lesa mikinn fróðleik á bloggsíðu Ágústs H Bjarnasonar. Þvílíkur fróðleikur sem finnst að lesa. Það væri enginn vandi að lesa fróðleik alla ævi án þess að komast yfir það sem jafnhraðan bætist við. En þessi fróðleikur fjallaði um breytingar á sól sem er ekkert nýnæmi og hugsanlega að það hafi áhrif á hlýnun jarðar. Ágúst er samt engu að spá, einungis að bjóða upp á fróðleik og svo geta bæði ég og þú spáð í hlutina út frá því.

Við ökum á umhverfisvænum bíl, bíl sem brennir etanol. Þegar við vorum búin að eiga bílinn í hálft ár fengum við senda tíu þúsund króna ávísun frá fjármálaráðherra, Anders Borg, sem verðlaun fyrir að stuðla að umhverfisvænni umferð í Svíþjóð. Margir æstu sig á móti etanol sem eldsneyti þar sem í það væri meðal annars notað korn og það ylli hækkun á kornverði og þar með auknu hungri í heiminum. Aðrir sögðu að ef hvergi væri byrjað yrðu engar framfarir. Af einhverri ástæðu hljóðnuðu mótmælaraddirnar og margir í Svíþjóð nota etanol.

Áður en ég las grein Ágústs H Bjarnasonar las ég um næsta árs Ford bíla, en við eigum Ford focus C-max. C-max er eins og margir vita hærri bíll og er einkar þægilegur fyrir eldra fólk og ekki síst fyrir fólk eins og mig sem er með lélega mjöðm. Á næsta ári mun gefast kostur á að kaupa þennan bíl með gasmótor. Þegar við keyptum okkar Ford fyrir næstum tveimur og hálfu ári var hann ófáanlegur með gasmótor, en það var einmitt bíllinn sem mig langaði að kaupa. Allir bílar sem ég fann með gasmótor voru lágir, því miður. Samt finnst okkur að við höfum verið þátttakendur í umhverfisvænni umferð með kaupunum á etanolbílnum okkar eins og líka Anders Borg fannst þegar hann sendi okkur ávísunina. Allt stefnir nú í að okkar næsti bíll verði gasdrifinn.

Fyrstu marga mánuðina sem við áttum þennan bíl var næsta bensínstöð sem seldi etanol hjá Volvóumboðinu nyrst í Örebro. Oft þegar ég var þar að taka etanol var líka fólk þar að tanka gasi rétt við hliðina á mér. Það voru bæði yngra fólk og eldra fólk og bæði menn og konur. Ég spurði fólk oft hvernig því líkaði við gasdrifna bílinn -og viti menn; allir sem ég spurði voru svo glaðir með það að ég vildi vita eitthvað um gasbílinn þeirra og ég fékk fullt af svörum. Allir sem ég spurði voru hæst ánægðir með bílinn sinn. Það eina sem kannski var eitthvað neikvætt var það að það tæki lengri tíma að tanka.

Hvort heldur sem hlýnun jarðar stafar af manna völdum, gamalþekktum breytingum á sólblettum eða einhverju öðru, þá höldum við nú áfram að aka umhverfisvænum bíl. Hverjir aðrir eiga að bera ábyrgð á framtíð barna, barnabarna og barnabarnabarna ef ekki við sem einmitt núna lifum á því sem Jörðin gefur af sér.

Þetta varð lengra en ég ætlaði í upphafi. Því verð ég að bíða með að blogga um bráðskemmtilega umsögn sem ég fékk í dag hjá vinnufélaga mínum, kvenlegum hjúkrunarfræðingi rétt undir fertugu.

Allt og ekkert

Við vorum að horfa á spurningaþátt í sjónvarpinu og ég gerði nokkrar tilraunir til að svara á undan þátttakendunum. Þegar ég hafði svarað vitlaust nokkrum sinnum slumpaðist ég að lokum til að svara einni spurningu rétt. Eftir það reyndi ég ekki að svara, það var best að hafa svarað síðustu spurningu rétt. Síðan, á milli þátta, var einn þátttakenda beðinn að nefna þá staði þar sem hann hafði komið við á í hringinn í kringum jörðina ferðalagi sínu. Þá gekk ég frá sjónvarpinu þar sem ég hafði heimsótt svo fáar heimsborgir, í fyrsta lagi Stokkhólm og Reykjavík.

Fólk hafði talað svo mikið um myndina "Menn sem hata konur" á feisbókinni og fóru svo góðum orðum um hana. Því keypti Valdís myndina á geisladiski. Ég var að vinna í dag og langaði allt í einu að slappa af yfir einhverju virkilega góðu nú í kvöld. Ég hringdi því í Valdísi í dag og stakk upp á því að horfa á myndina í kvöld og hafa það notaleg á þann hátt. Hún samþykkti. Ég nefndi þetta við vinnufélaga mína áður en ég fór heim og þeir fóru að lýsa innihaldi myndarinnar fyrir mér. Eftir það þótti mér vænlegast að horfa frekar á þennan spurningaþátt. Ég mæli með mynd sem heitir á sænsku "Så som i himmelen". Menn sem hata konur kem ég til með að sjá síðar.

Trönurnar eru farnar að sjást í stærri hópum sem þýðir að það er liðið á sumarið. Það var 12 stiga hiti þegar ég fór í vinnu klukkan sjö í morgun og blæja log. Ég fór á stutterma skyrtunni að vanda. Á leiðinni heim hafði ég 14 stiga hita og í fyrsta skipti síðan fyrir mörgum vikum greip ég jakkann þegar ég fór úr bílnum og fór í honum inn ef það skyldi verða þannig veður í fyrramálið að ég þyrfti á honum að halda. Svo kom í ljós að spáð er 15 til 18 stiga hita næstu fimm daga. Eftir það á að hlýna. Ég verð líka væntanlega í fríi alla næstu viku.

Vornes

Það er sem sagt kominn 1. september og ekkert lát á blaðgrænunni þar sem ég horfi nú upp í Suðurbæjarbrekkuna. Alveg merkilegt hvað úrkoma, sól og hiti hafa haft gott jafnvægi sín á milli þetta sumar og hlúð að lífinu. Sumar bjarkir eru komnar með þreytulit en þó ekki í Suðurbæjarbrekkunni eins og ég sagði. Það er kannski ekki skrýtið að bjarkirnar fari að vera lúnar ef það stenst að hvert laufblað andi út 60 lítrum af vatni á einu sumri auk alls þess súrefnis sem þær skaffa. Lífríkið er nú alveg makalauast.

Tveir menn gengu skógarstíg og annar þeirra ýtti á undan sér hjólastól og í hjólastólnum sat sjö ára strákur sem var ógöngufær vegna mjaðmasjúkdóms. Fullorðnu mennirnir ræddu heimsmál, Nóbelsverðlaun, geimferðir og fleira gagnlegt. Strákurinn í hjólastólnum sagði; sjáið þið pödduna þarna. Geimferðin til Mars var nú á dagskrá hjá þeim, langt ofan þessarar pöddu sem skreið eftir jarðveginum og strákurinn sá. Stráksi gaf sig ekki og hélt áfram að benda á pöddur sem á vegi þeirra urðu, stórar járnsmiðslíknandi bjöllur. Að lokum varð hann þreyttur á sinnuleysi þeirra fullorðnu og argaði til þeirra hvort þeir sæu ekki neitt. Þá spurðu þeir að loksins hvað gerði hann órólegan. Hann benti niður í jörðina og spurði hvað þessar pöddur hétu. Þeir litu niður og sáu að það var líka líf þarna niðri sem auðvelt var að gleyma.

Ég kannast við þessar bjöllur en veit ekki hvað þær heita. Strákurinn í hjólastólnum getur gengið í dag. Hann getur verið sauðþrár og hann er vinnufélagi minn.


Hér um daginn talaði ég um það við Valdísi að það væri vitleysa af mér að vera ekki öðru hvoru með myndavélina með mér þegar ég fer í vinnu, það væri svo margt fallegt sem bæri fyrir augu. Nú er ég búinn að fara tvisvar með myndavélina eftir þetta og hér fyrir neðan eru tvær myndir sem ég tók í Vornesi í gær. Valdís hefur svo sett fleiri á Flickr.



Hér er séð af svölum á annarri hæð móti innkeyrslunni heim að Vornesi. Innkeyrslan er ekki klippt. Það eru vörubílarnir sem koma með lífsnauðsynjar og ruslabíllinn sem annast viðhaldið innanfrá. Fyrr á árum var það fastráðinn garðyrkjumaður sem annaðist allt umhverfi í Vornesi og í dag, mörgum árum seinna, ber staðurinn þess glögg merki. Það er mikil áskorun til þeirra sem hafa með þetta að gera í dag að viðhalda því sem hinn nú háaldraði garðyrkjumaður skildi eftir sig. Ég hef gegnum árin tekið á móti mörgu fólkinu sem hefur komið í Vornes, ekki bara sjúkilingum, heldur fólki sem hefur verið starfandi við allt mögulegt í samfélaginu og farið víða. Hvort það hefur verið vetur eða sumar hefur þetta fólk talað mikið um það að Vornes sé sem einn stór skrúðgarður.




Tréð á þessari mynd er lind. Húsið við hliðina á trénu er er í reynd fullar tvær hæðir og kjallari undir, bara til að gera sér grein fyrir stærðinni.  Á þrettán og hálfu ári sem ég hef unnið í Vornesi merki égt vel hversu mikið þetta tré hefur vaxið, ég sem hélt þegar ég kom þangað fyrst að það gæti ekki vaxið meira. Það fer að nálgast húsgaflinn. Þau eru mörg svona tré í Vornesi.
RSS 2.0