Þriðjudagur til þrautar

Í gær var það þriðjudagur og ég fór í vinnuna sem var þó ekki á áætlun fyrr en daginn áður. Ég settist upp í Fordinn okkar og lagði af stað, afslappaður og í góðu standi. Hraðastillinn setti ég á 90 km sem svo oft áður og notaði svo bensínfótinnn (etanolfótinn) á 50 og 70 km köflunum. Veðrið var alveg frábært, sól og stillt. Viss akursvæði voru gul og vögguðu þroskuðu korni. Önnur akursvæði voru líka gul en þar hafði þreskivélin verið á ferðinni og kornið var þegar komið í hlöður. Svo voru stór akursvæði sem þegar var búið að plægja og sá í og þau biðu bara eftir að verða græn aftur fyrir veturinn. Það var af ýmsu að taka fyrir augað og ferðin í vinnuna var notaleg. Svo kom ég að Óðinsbaskka sem er nákvæmlega á miðri leið og lækkaði hraðann niður í 70 km. Eftir rúman kílómetra kom svo 90 km skilti aftur og ég þrýsti á hnappinn hraðastilli og bíllinn jók ferðina. Svo komu vindmyllurnar tvær skammt austan við Óðinsbakka og þær stóðu graf kyrrar. Engin rafmagnsframleiðsla þar þessa stundina hugsaði ég. Ég hafði á sínum tíma fylgst með þegar þessar gríðar háu vindmyllur voru reistar og þótti það skemmtilegt. En hvað var þessi grái fólksbíll að gera sem fylgdi mér þétt í sporin? Það var einhver blá lýsandi rönd neðst á framrúðunni og við endann á henni önnur rauð. Nú var ég kominn eina fjóra kílómetra austur fyrir Óðinsbakka og vegarkaflinn var þráðbeinn. Allt í einu var rauði hlutinn af þessari rönd neðst á framrúðunni orðinn blár líka og nú fór ég að fylgjast vel með. Allt í einu fór bláa röndin að blikka og blár lampi var kominn upp á toppinn sem þó lýsti ekki. Alla vega ekki ennþá. Nýskupúkinn byrjaði að væla innan í mér þar sem mig fór að gruna sekt fyrir of hraðan akstur. Samt vonaði ég að ég væri grunaður fyrir eitthvað annað því að ég var alveg hand viss um að ég væri saklaus. Að vera grunaður fyrir eitthvað sem ég væri saklaus af mundi ekki kosta peninga. En ég var líka viss um að ég hefði ekki ekið of hratt framhjá Óðinsbakka.

Þegar ég var stoppaður á útskoti kom miðaldra lögregluþjónn og bað um ökuskýrteinið mitt. Síðan bað hann mig að blása sem ég einnig fékk að gera á mánudaginn var. Feginn ég var að það var ekki alvarlega en þetta. En þá kom að alvöru málsins. Þú keyrðir of hratt framhjá Óðinsbakka, sagði hann. Svo fékk ég að sjá í radarnum hvernig málum var háttað. Ég hafði verið á 76 km hraða í staðinn fyrir 70 km og um næstu mánaðamót fæ ég að borga óvæntan reikning upp á 1500 sænskar krónur. Afraksturinn að vinnuferðinni í Vornes í þetta skiptið lækkaði umtalsvert. Það svíður í veskinu mínu.


Um hálf fimm leytið í gær var ég sem sagt í vinnunni og þá sá ég að ég hafði fengið skilaboð á farsímann minn. Ég hlustaði og fann fyrir gæsahúð. Þetta var hún Sonja hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu í Lindesberg og hún bauð mig velkominn í mjaðmaraðgerð á fimmdudaginn í næstu viku. Úúúh! Svona nálægt! voru mín fyrstu viðbrögð. Daginn áður var mér sagt að það yrði ekki fyrr en eftir mánuð. En nú er þetta farið að leggja sig í mér og á morgun á ég að mæta þar til kynningar og undirbúnings. Ég er ekki hræddur við að deyja í aðgerðinni og ekki kem ég til með að finna fyrir henni, en ég verð, eins og allir sem gangast undir aðgerð, algerlega á valdi annarra meðan hún stendur yfir. Þar að auki mundi ég ekki vilja vera áhorfandi að svona aðgerð. En hversu margir verða leiðir á mér þegar ég verð á fullri ferð um allt og alls staðar eftir að ég hef fengið nýjan mjaðmarlið, það kemur í ljós.


Kommentarer
Rósa

Þetta er alveg frábært eða hvað. Eyða tíma í að haffa þig fyrir að keyra aðeins of hratt. Hvernig væri að eyða tímanum í að leysa alvöru glæpi?!?



Kveðja,



R

2009-09-16 @ 15:21:35
Guðjón Björnsson

Þarna komstu með það Rósa, ætli ég bara breyti ekki hraðakstrinum í glæp. Rán! Afi glæpó!

2009-09-16 @ 17:43:43
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þórlaug

Gangi þér vel í aðgerðinni. Mundu að illu er best aflokið. Og hlakkarðu ekki til þegar þú verður orðinn sprækur sem lækur?

Kveðja,



Þórlaug

2009-09-16 @ 18:45:45
Guðmundur Ragnars

Já, það er ergilegt að vera hirtur fyrir svona smávægilega yfirsjón, sérstaklega fyrst þú varst nú að vanda þig við að fara rétt að þessu. En þetta eru nú bara heimskir peningar sem tapast og það er nú alltaf að gerast. Þú mátt prísa þig sælan að vera ekki hér uppi, hér tapast stóru peningarnir núna :)

Ég óska þér góðs gengis í aðgerðinni, fingurnir níu verða nú vonandi jafnliðugir við lyklaborðið eftir sem áður.

2009-09-16 @ 22:19:55
Gudjon

Ég geri svolítið grín að sjálfum mér bæði hvað varðar peningana og aðgerðina. Það sem vegur meira en peningarnir vegna hraðakstursins er að ég var á leið til vinnu þar sem áhersla er lögð á að það sé ekki nóg að leggja flöskuna til hliðar, það verði að breyta bæði viðhorfum og háttarlagi en svo er ég þar sjálfur. Vinnufélagi minn var ljósmyndaður af hraðamyndavél, líka í gær, þar sem hann ók of hratt á mótorhjóli. Ég skil þig sagði hann, ég dauðskammaðist mín líka. Ef maður ekki lifir sem maður lærir verður manni illt, verður veikur.



Svo þakka ég góðar óskir varðandi aðgerð. Ég verð ekki bara léttari í hreyfingum, ég verð líka ennþá léttari í lund en ég er í dag.



Kveðja,



Guðjón

2009-09-16 @ 23:11:21
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

Det er sure penge segja danir þegar éir fá stöumælasektir og þess háttar og það má með sanni segja.



Pabbi minn frábært að það sé komið að aðgerðinni, hlakka til að hitta þig minna- eða óhaltan egar við hittumst næst. Geri ráð fyrir að þú getir áfram bloggað þegar þú mátt aftur setjast niður eftir aðgerð.

Knús

Valgerður

2009-09-17 @ 17:14:47
Gudjon

Þakka þér fyrir falleg orð Valgerður mín. Fátt mun stoppa mig og ég mun bara safna fyrirsögnum í bloggið mitt meðan ég verð í Lindesberg. Það verður nú full ferð á mér eftir sem áður.



Kveðja,



pabbi

2009-09-17 @ 20:06:30
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0