Sólvallakallinn

Sólvallakallinn er satt best að segja snarlifandi ennþá þó að hann hafi ekki haft sig mikið í frammi undanfarið.
 
Ég tala gjarnan um að ég sé að bauka og ég hef baukað við mitt undanfarna daga. Ég vann venjulega dagvinnudaga í Vornesi á mánudaginn og þriðjudaginn. Svo hafði ég tilkynnt að ég vildi svo gjarnan hafa náðugt frá vinnunni um tíma og ég vona að svo verði einhverja daga í viðbót. Ég tauta gjarnan við sjálfan mig og svo tala ég við eina og aðra manneskjuna í síma. Það er engin hætta á að ég gleymi að tala.
 
Þegar ég vaknaði í morgun teygði ég út hendina, greip farsímann og gáði á klukkuna. Hún var rétt að verða átta. Svo tók ég mér smá tíma í eigin heimi og leit síðan á klukkuna yfir herbergisdyrunum. Nei, hvað var þetta, ég hlaut að hafa sofnað. Klukkan var rúmlega níu. Ég sem ætlaði að fara út til smá verka áður en ég horfði á sjónvarpsmessuna en nú var enginn tími til þess.
 
Ég skellti grautnum á eldavélina, gerði kaffivélina klára, kveikti svo á sjónvarpinu og innan tíðar var klukkan fimm mínútur yfir tíu. Þá byrjaði þáttur um blús í stað messu. Það hafa verið ágætis músikmessur undanfarið en núna gekk það of langt, kynning á blús átti ekkert skylt við messu. Ég varð hálf fúll, flakkaði á milli stöðva en allt kom fyrir ekki. Það var greinilega búið að eyðileggja sjónvarpsmessuna. Eitthvað passaði ekki og ég varð hálf ringlaður. Ég reyndi að finna út hvað eiginlega væri á seiði en allt kom fyrir ekki. Dagskráin sagði að það ætti að vera messa klukkan rúmlega tíu. Það var kominn tími fyrir fyrsta kaffibollann en eitthvað olli ókyrrð innra með mér.

Ég fór inn á textavarpið og leit á fréttayfirlitið. Skrýtið! Klukkan þar var bara rúmlega níu. Klukkan yfir hinum herbergisdyrunum var rúmlega tíu, klukkan á súlunni við eldhúsbekkinn líka og ég fór inn í svefnherbergið mitt og hún var líka rúmlega tíu. Hvers slags var þetta eiginlega?
 
Á textavarpinu var frétt um að börn hefðu ekki gott af því að klukkunni væri breytt með hálfs árs millibili. Já! -bíddu nú við -klukkunni var seinkað í nótt eða hvað? Allt varð eðlilegt aftur og ég var ekki svo ruglaður þegar öllu var á botninn hvolft. Ég hafði bara misst af því að það ætti að seinka klukkunni en farsíminn sá sjálfur um að breyta sinni klukku. Það skýrði fyrsta misræmið.
 
Ég dreif mig út og gerði það sem ég ætlaði að gera fyrir messu. Síðan fékk ég mér kaffi og setti títuberjasultu ofan á ostinn á ristuðu brauðsneiðinni sem ég hafði með morgunkaffinu. Svo byrjaði messan og þessi morgun varð að venjulegum sunnudagsmorgni. Mér leið alveg skínandi vel.
 
Gamli presturinn okkar Valdísar, hann Nisse, kom snemma morguns fyrir jól ef ég man rétt. Þegar hann horfði á hafragrautardiskinn minn með öllu tilleggi í grautinn, það er að segja vistvænt ræktaðar rúsínur, vistvænt ræktaðar apríkósur, hvönn frá Hrísey og vistvænt ræktaður banani ásamt mjólk og slettu af rjóma, þá varð honum að orði: "Ég sé að það er allt í lagi með þig. Ég kom eiginlega til að athuga það. Þú borðar vel." Sjálfur vildi hann bara kaffibolla.
 
Það er ennþá allt í lagi með mig. Það sem er á borðinu á þessari mynd, kjúklingur og kartöflustappa var kvöldmaturinn minn í gær. Mér varð gott af. Í glasinu er afasafi. Einn ávöxtur er líka á borðinu, persimóna. Þeir sem ekki hafa prufað að borða niðurbrytjaða persimónu út í krem fres, þeir hafa ekki prufað allt í lífinu. Slíkur eftirréttur er nefnilega óviðjafnanlegur, svo óviðjafnanlegur að það er synd að drekka kaffi á eftir slíkum eftirrétti.
 
Afasafi er saft gert úr illiblómum. Það er öðru vísi saft, allt öðru vísi en öll önnur söft og Hannesi finnst það mikið gott. Hann kallar það afasafa.

Síðbúnir sumarfrísdagar með Steinari

Ég var á járnbrautarstöðinni í Örebnro um hálf átta leytið í morgun. Það var þriggja til fjögurra stiga frost, sumsstaðar hvíldi hrímþoka yfir flatlendi en á járnbrautarstöðinni var annað í gangi. Lestir komu og fóru og gesturinn sem hefur verið hjá mér í þrjá og hálfan sólarhring var að fara. Á leiðinni heim hugleiddi ég þessa heimsókn, gerði kannski hálfgerða úttekt á henni. Sá sem var í heimsókn var Steinar Þorsteinsson frá Hrísey, Steinar tannlæknir eins og hann var oftast nefndur og hann var lengst af tannlæknirinn okkar Valdísar eftir að hann fór að starfa á Akureyri.
 
Við þekktumst svo sem ekki mikið fyrir en þegar öllu var á botninn hvolft áttum við margt sameiginlegt. Við erum álíka gamlir, báðir orðnir ellilífeyrisþegar, erum býsna virkir í samfélaginu, við erum orðnir einir, höfum að nokkru leyti svipuð áhugamál, þykir notalegt að sitja lengi yfir morgunverði og fleira mætti telja.
 
Steinar er fróður um margt, upplýsti mig um mikilvæga hluti en reyndi ekki að troða neinu upp á mig, hann er hjálplegur, vill vel og þessa daga sem hann var hér heyrði ég hann ekki í eitt einasta skipti halla orði á nokkra einustu manneskju.
 
Ég komst að þessu á leiðinni heim frá járnbrautarstöðinni, var reyndar búinn að átta mig á því meðan Steinar dvaldi hér, en þarna gerði ég samantekt sem ég ákvað að setja í blogg þegar kvölda tæki.
 
Hversdagslega er ég afar nægjusamur. Eins og ég sagði við Steinar og hef oft sagt áður, þá er ég ekki nýskur en ég er nægjusamur. Bauka heima hjá mér og fer öðru hvoru í vinnuna en ekki svo mikið annað. Ég bíð oft eftir því að einhver komi til þess að ég finni ástæðu til að bregða út af vananum. Það gerði ég þessa daga. Hefði ég verið einn hefði ég ekki farið í Naturens hus í Örebro eins og við gerðum til að borða rétt sem heitir Bullebaisse. Ég tek ekki neina ábyrgð á réttrituninni.
 
Það var margt í þessum skálum sem við erum með fyrir framan okkur, skeldýr, nokkrar sortir af fiski, mest lax, kartöflur, grænmeti og bragðefni sem voru býsna framandi fyrir Sólvallakallinn mig. En gott var það og það var öðru vísi. Naturens hus er afar skemmtilegur staður og í afar snotru umhverfi. Og svo merkilegt er það að þetta snotra umhverfi er á gömlum ruslahaugum austan við Örebroborg, skammt frá Svartánni og vatninu Hjälmaren.
 
Eftir matinn í Naturens hus var notalegt að fá sér súkkulaðiköku sem eftirrétt í Svampen. Frá þessum háa vatnstanki þeirra í Örebro er gott útsýni og þarna til austnorðausturs voru mikið fallegir haustlitir sem myndavélin mín hafði ekki nógu góða hæfileika til að varðveita fyrir mig.
 
Til austurs halda haustlitirnir áfram og og þarna sést líka nálægasti hluti Hjälmaren.
 
Það var gott kaffi í Ånnaboda, skíða og útivistarsvæði skammt vestan við Örebro. Góðar voru kökurnar líka og útsýnið með viðeigandi haustlitum var afbragð. Það sem ekki var gott þarna, það var ábótin af kaffinu. Það var ódrekkandi enda er Steinar búinn að ýta bollanum frá sér. Að öðru leyti var heimsóknin til Ånnaboda alveg ágæt.
 
Þessum skosku hálandanautgripum fannst einkennilegt að við skyldum stoppa þarna til að horfa á þá. Þessir þrír sem næstir eru voru fyrstir til að koma til okkar og athuga af okkur lyktina. Flestir hinna Skotanna eru lagðir af stað í áttina til okkar til að vita hvernig Íslendingar lykta og líta út.
 
Elgskýrin sem var þarna á beit með kálfi sínum þar sem við fórum um var ekkert að koma til okkar til að láta taka mynd. Fyrir augað voru þau nær en fyrir myndavélarnar voru þau ekki svo nálægt. Þau voru samt gott innlegg í tilveru okkar þennan dag.
 
Rusakula er klapparhorn sem stingur sér upp úr suðausturkantinum á norðanverðum Kilsbergen. Þaðan er mikið útsýni allt suðurundir Vestur-Gautalönd og langt austur á Hjälmaren. Á myndinni sér suðvestur eftir skógi vöxnum hlíðum Kilsbergen. Ég hef all oft komið þarna upp áður en er nú búinn að bíða eftir góðu tækifæri til að fara þangað með einhverjum. Eiginlega er ég hissa á hvað Steinar tekur sig vel út þarna á myndinni þar sem það var langt frá því að vera notalegt veður uppi á Rusakula.
 
Þegar Hannes og fjölskylda voru hér í sumar hélt ég að vegurinn þangað væri ekki nógu góður fyrir minn kviðsíða Ford focus C-max, en svo reyndist vegurinn alveg ágætur. Næsta sumar verður því að ráðast á brattann á ný.
 
Já, þetta var eitthvað um síðustu dagana eins og þeir hafa gengið fyrir sig hér á bæ. Steinar fór til Stokkhólms í morgun þar sem hann ætlaði að sitja ráðstefnu í Globen, því stóra húsi. Ég var búinn að segja honum að það væri upplifun að koma þar inn og ég vona að það hafi verið svo fyrir hann. Eins og ég sagði í byrjun þekktumst við Steinar ekki svo mikið, en í dag vil ég segja að við séum vinir.

Sunnudagur með tilheyrandi

Ég gleymdi mér við baukið mitt hér heima í gærkvöld og fór býsna seint á Brändåsen til að borða kvöldmat. Ég var búinn að fara í sturtu og í sunnudagafötin og svo fór ég á Brändåsen á laugardagskvöldi, bara svona til að gera öðru vísi. Tuttugu mínútur fyrir níu var ég kominn þangað og sá fólk þar í frágangi. -Er búið að loka? spurði ég eina unglingsstúlkuna sem vinnur þar. -Æ já, því miður, svaraði hún með hluttekningu, en þú getur alveg fengið þér brauðsneið hérna úr diskinum hélt hún áfram og svo getur þú setið hér ef þú vilt þó að við séum að laga til.
 
Ef hún hefði ekki tekið mér svo vinalega hefði ég kannski orðið vonsvikinn en ég skoðaði brauðið í staðinn og komst í vandræði með að velja. Ja hérna, hvað það leit vel út. Svo valdi ég rækjusneið, fékk mér kaffi og settist. Maður og kona sátu skammt frá, trúlega feðgin hugsaði ég, stúlkurnar þrifu og gengu frá og ég borðaði mína brauðsneið með ánægju. Tvö heil egg voru á þessari sneið, haugur af rækjum, stórar tómatsneiðar og vel útilátið af grænmeti. Ég var ánægður með mitt og þarna fékk ég hugmyndina um að gera nokkuð sniðugt á morgun. Ég baka pönnukökur!
 
Upp úr klukkan átta í morgun fór ég út á Bjarg til að mála aðra umferð á spýtuna sem ég keypti af honum sögunarMats um daginn. Þegar spýta er stór, svo stór að hún kemst varla fyrir í bílskúrnum, þá tekur svolitla stund að mála, klofa yfir hana til að mála hinu megin og klofa svo til baka. Þegar ég var búinn að mála hana á öllum hliðum sem hún ekki lá á var kominn tími til að fara inn, elda hafragrautinn og vera búinn að borða þegar sjónvarpsmessan byrjaði. Allt gekk eftir eins og best varð á kosið.
 
Á sunnudaginn var var messa sem byggði á lögum og textum Bob Dylan og ýmsu sem haft var eftir honum. Sú messa hafði afar sterk áhrif á mig. Núna byggði messan að nokkru á verkum Elvis Presley, en eiginlega meira á ýmsu sem hann hafði sagt. Til dæmis þegar hann sagði: "Allir vita hver Elvis er en enginn veit hver ég er." Biskup einn vestur í Vermland lagði út frá þessu á þann hátt að fólk veit gjarnan ekki, eða sjaldnast, hvað hrærist innra með okkur hinum. Svo er létt að dæma án þess að vita hvað verið er að dæma. Ég þekkti sjálfan mig í því.
 
Miðinn sem fannst á hótelherberginu þar sem Presley hafði gist hefur oft verið til frásagnar en þar hafði hann skrifað: "Stundum finn ég mig svo einmana. Nóttin er hljóð umhverfis mig. Ég mundi svo gjarnan vilja sofa. Ég er glaður yfir að allir eru farnir núna. Ég kem sjálfsagt ekki til með að finna neinn frið í nótt. Drottinn, hjálpaðu mér." Svo lagði vermlenski biskupinn út frá þessu en sjálfur minntist ég gamalla nátta þegar friðurinn vék fyrir óraunveruleika þeirra.
 
Akkúrat þegar ég skrifaði þetta um óraunveruleika langra nátta á árum áður fann ég að ég hafði skrifað nákvæmlega það sama áður. Ég fann líka að ég hafði skrifað áður það sem stóð á miðanum á hótelherberginu. Það snerti mig þá líka, hvenær svo sem það nú var, líklega eins djúpt og það snerti mig við messuna í morgun. Ég var verulega hrærður, enn hræðari en við messuna um síðustu helgi þegar Bob Dylan var þráðurinn gegnum messuna. Höfðum við Presley verið bræður vissum sviðum lífsins?
 
Þær voru margar hugsanirnar sem flugu hjá og mig langaði að fara að tölvunni og skrifa það jafnóðum. Ég gerði það ekki. Ég sneri mér að veraldlegri hlutum, fór út á Bjarg til að snúa stóru spýtunni við og mála hana hinu megin. Það var ein og önnur spýta sem ég málaði að auki og ég baukaði margt þangað til ég gekk inn og bakaði pönnukökurnar sem ég lofaði sjálfum mér á Brändåsen í gær.
 
Svo borðaði ég pönnukökur og sagði einhvers staðar í dag að þær hefðu verið átta. Þær voru fleiri. Ég bara gat ekki sagt það allt í fyrstu tilraun. Ég veit ekki hversu margar þær voru, en þær voru alla vega fleiri en átta. Fyrst borðaði ég samt mjög kjarnmikla súpu. Í Södermanland borða Svíar gjarnan kraftmikla súpu á fimmtudögum og sænskar pönnukökur á eftir. Ég notaði þetta hins vegar í sunnudagsmatinn. Ég hef vel efni á að halda mér veislu öðru hvoru þar sem ég er í mjög góðu og hóflegu matarræði hjá sjálfum mér hversdagslega. Þessi háttur gefur mér ótrúlega mikið frelsi.
 
Ég fer í vinnu á morgun og kem heim á þriðjudagsmorgun. Þá þarf ég að versla og síðan að þrífa heima hjá mér. Ég þarf að hafa hraðann á því að seinni partinn á þriðjudaginn kemur gamli tannlæknirinn minn á Akureyri í heimsókn. Það er margt sem mig langar að gera oft á tíðum en ég dreg af ásetningi þar til einhver kemur. Það er til dæmis langt síðan ég hef komið upp til Nora, allt of langt síðan ég hef komið í Svampinn í Örebro, mig langar að koma einu sinni enn upp á Kvarntorpshauginn og mig langar að fara og borða á Goda rum og Hjälmargården.
 
Við komumst sjálfsagt ekki yfir að gera allt sem mig langar að gera. Ég þarf líka að fara á endurvinnsluna með plastkassa sem standa hér frammi og ég þarf að fara í byggingarvöruverslun og leggja inn pöntun. Ég hef hugsað sem svo að ég geri þetta þegar Steinar kemur. Á þann hátt kemur aðkomufólk í öðruvísi snertingu við samfélagið.
 
Ég veit ekki hvort ég var heppinn eða óheppinn að fara ekki inn að tölvu og skrifa meðan ég enn var undir sem sterkustum áhrifum af messunni og hugsanirnar flæddu eins og bergvatnsá á fallegum sumardegi. Kannski hefði það bara orðið eitthvað tregarugl. En eitt ennþá í sambandi við messur byggðar á tilveru frægs fólks. Hvenær ætli það verði messa sem byggir á lífi sænsku konunnar Línu Sandell sem var uppi frá 1832 til 1903 og gerði mikið af sálmum og lofsöngvum sem notaðir eru í ríkum mæli enn í dag. Hefur það kannski ekki verið gert af því að hún var kona? Ég beini þessari spurningu bara til sjálfs mín.

Fjörutíu tímar úr mannsævi

Milli klukkan sjö og átta í gærmorgun fór ég vandlega yfir áætlun dagsins sem ég hafði gert kvöldið áður. Ég sá vel fyrir mér hvernig dagurinn yrði og allt myndi auðveldlega ganga eftir. Korter fyrir níu fór ég í sturtu glaður vegna þess að ég vissi að dagurinn yrði minn. Það var gaman og það má mikið vera ef ég söng ekki þarna í sturtunni eða talaði alla vega mikið við sjálfan mig.
 
Ég helti fljótandi baðsápu í lófa minn og fann af henni hindberjalyktina, dreifði henni um líkamann og fann hvernig lyktin angaði meira og meira inni í sturtunni. Ég komst að því að ég væri heldri maður. Maður sem þvær á sér rassinn með baðsápu sem lyktar af hindberjum hýtur að vera heldri maður. Svo held ég að ég hafi jafnvel hlegið að sjálfum mér. Þegar ég var að renna mér í nærbuxurnar hringdi síminn. Gaman, hver ætli sé að hringja núna? Spennandi morgun þetta.
 
Ég flýtti mér og viti menn; það var Vornes. -Geturðu unnið í kvöld? -Úff, geturðu ekki beðið Jorma að vinna kvöldið spurði ég. -Nei, ég er búin að tala við hann í heilan klukkutíma og hann er hættur að leysa af í Vornesi var svarið. Mér brá af tveimur ástæðum. Annars vegar af því að ég fann mig knúinn til að fara að vinna um kvöldið og hins vegar vegna þess að það verður sóttst ennþá meira eftir mér ef rétt reynist að Jorma sé hættur. Hvað gengur að Jorma hugsaði ég, þessu finnska þráablóði. Núna verð ég að setja Vornesi kvóta.
 
Ég varð óttalega ringlaður meðan ég var að búa mig af stað þar sem allt hafði nú riðlast og ég var eiginlega ringlaður allt fram undir kvöldið. Mér var vel tekið eins og alltaf, bæði af starfsfólki og sjúklingum. Ég borðaði mikinn kvöldmat enda hafði ég borðað sáralítinn hádegismat. Þegar ég var búinn að borða kvöldmatinn leit ég inn í kalda búrið þar sem Karina i eldhúsinu var að vinna. -Nei! tvær brúnar tertur, sagði ég við Karina. -Já, svaraði hún, borðaðu eins og þú vilt af öllu hér inni og þar á meðal af tertunum. -Takk Karina, þið eruð englar hér í eldhúsinu. Svo skildu leiðir, ég hélt áfram með mitt og allt annað starfslið hélt heim.
 
Það var heilmikill erill hjá mér en ég gat ekki látið alveg vera að hugsa um terturnar í búrinu. Sjúklingarnir voru fínir utan kannski ein kona sem vildi fara heim. Farðu í tíma, sagði ég henni, ég nenni ekki að vera að hjálpa þér þegar líður að nóttu. Svo skrifaði hún sig út þegar einna verst stóð á en ég leysti það samt. Svo fór ég í búrið. Ég tók af annarri tertunni, settist í matsal starfsfólks og byrjaði. Þvílík terta. Súkkulaði og konfektbragðið af súkkulaðilituðu lögunum, ólýsanlegt, og öðru vísi súkkulaðibragðið af rjúmafyllta ljósa laginu í miðri tertunni, einnig ólýsanlegt.
 
Og dökka súkkulaðikremið með einhverjum bragðögnum í sem var ofan á tertunni. Nei, mig skorti orð. Það lá við að bragðlaukarnir misstu meðvitund. Þetta jafnaðist á við súkkulaðikladdkökuna hennar Emblu Ingvaldsdóttur í Stokkhólmi. Eftir að hafa borðað hóflega stóra sneið af þessari ótrúlegu tertu hélt ég aftur inn á sjúkradeildina, glaður í bragði og mér fannst svo sannarlega að ég hefði fengið heilmikla umbun fyrir erfiði dagsins. Ég fann að ég mætti fólki glaðari í bragði.
 
Um miðnætti sofnaði ég og dreymdi þunga drauma þar sem Valdís var allt í einu meðal oss jarðarinnar barna. Klukkan hálf fjögur vaknaði ég, gamall maður, þreyttur og sorgmæddur. Ég greip til góða ráðsins og drakk tvö glös af vatni og sofnaði strax. Þegar klukkan vakti mig hálf sex var ég minna gamall og minna þreyttur og sorgin var á braut en alvara draumanna var ennþá með mér.
 
Þegar ég var að undirbúa heimferð mína fór ég til Karina í eldhúsinu og spurði hvort það væri til matur sem passaði fyrir mig að taka heim sem kvöldmat. -Ja já já, svaraði hún og bað hina tuttugu og tveggja ára gömlu Malin að hjálpa "honum Guðjóni". Svo kom Malin með plastbox og við settum fisk í það. Svona matarafganga er hægt að kaupa fyrir mjög vægan pening í Vornesi og hafa með heim.
 
-Viltu ekki tertu líka, spurði Malin. -Veistu ekki að þú ert að freista mín svaraði ég sem þýddi já. -Það er þess vegna sem þetta er svo gaman sagði hún, setti tertusneið á pappadisk og spurði hvort ég vildi tvær. -Nei, svaraði ég, þá verð ég bara feitur. Svo setti hún plastfilmu yfir tvær tertusneiðar og rétti mér. Þær eru góðar við mig í eldhúsinu í Vornesi, miklar dugnaðarkonur og hafa gaman af að segja mér til með matargerð.
 
Ég leysti ýmis erindi á leiðinni heim og allir sem ég hitti voru glaðir. Ég var líka glaður þrátt fyrir að ég væri minnugur drauma næturinnar. Svo endaði ég á því að fara til hans sögunarMats til að kaupa spýtu. Að vanda var hann hógvær og góður í sér, glaður og brosmildur og hann virðist alltaf vera ánægður með einfalt líf sem hann hefur tamið sér að lifa. Það er hægt að læra af þessum manni.
 
Ég fékk að heyra í dag að ég geri meira gagn í vinnunni en ég hef haldið þó að ég hafi svo sem heyrt það áður. Kona sem gæti verið yngsta dóttir mín læddi því að mér. Ég veit að hún sagði mér satt. Hún glímir núna við sjúkdómaflækju sem virðist vera erfitt að komast til botns í og hún er afar kvíðin. Ég veit að hún skrökvar ekki að mér. Það var hún sem ég leysti af í nótt. Gjafirnar sem mér eru gefnar eru stórar og mér finnst mínar gjafir svo oft vera stærri en aðrir fá. Ég er afar þakklátur núna þegar ég er að skrifa þetta.
 
Lífið er skin og skúrir. Þegar ég er að gera þessa samantekt mína finn ég samt að skúrirnar eru í miklum minnihluta hjá mér um þessar mundir og hafa verið um nokkurt skeið. Ég er búinn að mæta mikilli vináttu í dag og ég hef fengið svo gott viðmót annarra sem ég hef hitt en þekki ekki. Ég er nú svolítið eins og hann Mats sem selur mér spýtur, ég uni býsna glaður við hið einfalda.
 
Núna er ég þreyttur en ekki gamall en draumar næturinnar finnast ennþá í hugskoti mínu. Mér finnst sem sorgin búi innra með mér en sé hulin þunnri slæðu. Stundum brestur slæðan og sorgin læðist fram. Síðan dregur hún sig til baka og lætur mig í friði. Svona hefur það verið í mörg, mörg, mörg ár og mun verða. Að flýja ekki er að vera maður. Að vera svo þakklátur fyrir gjafirnar líka er að vera ennþá meiri maður.
 
 
 
 
Þetta eru tertusneiðarnar sem hún Malin laumaði á disk handa mér. Ég tók þær út úr ísskápnum til að taka mynd af þeim, breiddi svo yfir þær aftur og setti til baka í ísskápinn. Það verður engin tertuveisla á þessu kvöldi. Á morgun get ég kannski verðlaunað mig fyrir eitthvað.
RSS 2.0