Gamlárskvöld 2012

Við vorum að tala um það áðan við Valdís hvenær veturinn hefði byrjað og að það væri nú meiri vitleysan að færa ekki dagbók þannig að hægt væri að fletta upp á svona löguðu. Svo varð mér hugsað til nokkurs sem ég bloggaði um fyrir löngu síðan, að bloggið væri dagbókin mín, og þá fór ég í efnisyfirlitið á blogginu mínu og fann blogg frá 29. nóvember. Þá bloggaði ég undir yfirskriftinni Vetrarkoma. Þá var að byrja að snjóa.
 
Það er búinn að vera hörku vetur. Annars veit ég ekki hvort fólk sem hefur búið við alla þá stórhríð sem Vestfirðingar og Norðlendingar hafa búið við undanfarið kalla það hörkuvetur þegar logndagarnir reka hver annan vikum saman. Logn, snjókoma og frost allt að niður fyrir 25 stig er hörku vetur hér en þægilegur vetur miðað við vindbelging og hálf endalausar stórhríðar.
 
Nú er hláka hér og snjórinn hefur minnkað mjög mikið. Í fyrrinótt vaknaði ég tvisvar sinnum og gerði mér ekki almennilega grein fyrir hvað var á ferðinni. Klukkan þrjú leit ég út og þá sá ég að fyrsta snjóhúsið sem ég hef byggt í þessu landi var jafnað við jörðu. Ég sá eftir því. Ég sá líka að snjórinn var runnin af þökunum. Það var þess vegna sem ég hafði vaknað. Þegar allt að hálfs meters þykkur snjór rennur fram af þaki heyrist það vel.
 
Í gær fór ég í vinnu og vann í nótt. Ég var farinn að hálf sjá eftir að hafa tekið þetta að mér en svo reyndist það bara vel að hitta þetta fólk og það reyndist mér vel að þurfa að einbeita mér að einhverju öðru en því sem ég hef fengist við undanfarið. Ég hugsa líka að ég sé heldur skemmtilegri heimilismaður ef ég geri þetta öðru hvoru. Í gærmorgun áður en ég fór mundi ég ekki eftir því að það voru 51 ár síðan við Valdís fórum heim til séra Árelíusar og létum gifta okkur. Svo vorum við að tala saman í síma seinna í gær og þá kom þetta upp.
 
Í Vingåker er hin besta blómaverslun og þar kom ég við á leiðinni heim. Þær eru mjög liprar þar við að útbúa fína blómavendi og það var nú annað hvort að konan mín sem var búin að vera ein heima, bæði þessa nótt og margar aðrar á undanförnum árum, fengi sæmilegan blómavönd fyrir 51 ár með mér.
 
Við erum að hugsa um að senda á loft svo sem einn af þessum belgjum sem svífa upp af hitanum frá svolítilli vaxplötu sem kveikt er í neðst í belgnum. Ég hef ekki hugmynd um hvað svona lagað heitir. Það verða engir flugeldar og þá höfum við bara ekki verið með síðan ég hætti að drekka mig fullan og vitlausan um það leyti sem flugeldarnir voru seldir hér áður fyrr. Á gamlárskvöld var ég ragur við að drekka þar sem nýársdagurinn var þá svo hræðilegur þegar aðrir sváfu og slöppuðu af fram eftir öllum degi en innri óróleiki ásótti mig. Hins vegar var auðvitað kveikt í þeim rakettum og púðurkellingum sem búið var að kaupa.
 
Við hreinlega viljum ekki borga fyrir þessa hluti sem fólk síðan skýtur þvers og krus og af verður mikill óvinveittur mökkur, megn fýla og árans hávaði. Öll dýr skógarins tryllast af skelfingu meðan þetta stendur yfir og leggja á flótta og mæta hvert sem flúið er sömu skelfingunni. Skelfing hvert sem flúið er og þá getur það varla orðið skelfilegra. Fuglarnir geta reynt að stefna mót háum himni en þar er ekki friður heldur. Sem sagt; ægilegar þjáningar milli fjalls og fjöru og svo hátt upp í himinhvolfið sem nokkur fugl getur hafið sig. Nei, þá er hægt að gefa penginga til góðgerðarmála án þess að standa í þessum ósköpum. En svona er það; ég er hræðilega gamaldags. Ég veit þó að glorhungruðu barni þykir matarskammtur mikið fallegri en flugeldur og fólki í nauð þykir hljóðið í snjósleða mikið fallegra en sprengingar á gamlárskvöld. Og enn hampa ég mínum gamaldags hugsunarhætti. Akkúrat í þessum orðum skrifuðum varð all mikil sprenging skammt frá hér í okkar annars friðsama byggðarlagi.
 
Ég leit á spána á sextavarpinu áðan. Ég fæ ekki betur séð en daginn hafi þegar tekið að lengja um þrettán mínútur hér á okkar svæði. Svo eykst hraðinn þegar lengra líður á janúar og það hyllir undir bjartari tíðir. Áramótin sem eru nú fáa tíma framundan eru þó það sem er í gangi núna. Hér á bæ eru engin áramótaheit en ég held að ég geti sagt fyrir okkur bæði að við viljum bæði taka skref framávið sem manneskjur þetta ár sem svo mörg önnur. Áramótin eru auðvitað tími til að íhuga hér eins og svo víða.
 
Hér erum við komin í áramótasparifötin og maturinn er kominn á borðið. Á veggnum yfir öxl Valdísar er loftvogin sem pabbi hennar fékk frá foreldrum sínum. Hún er því búin að lifa ein og önnur áramótin umfram okkur og spá fyrir um mikil veður, vafalaust frostaveturinn 1918 og trúlega líka einhver kuldaár fyrir næstsíðustu aldamót. En það má heldur ekki gleyma öllum góðviðrisdögunum sem þessi loftvog er búin að spá á þessari öld, þeirri síðustu og væntanlega þeirri næst síðustu. Valdís gengur oft að henni og bankar í glerið til að sjá á hvaða leið vísirinn er.
 
Nú skulum við borða sagði Valdís þegar við vorum búin að taka nokkrar myndir og maturinn var á borðinu. Og mjúk og safarík var léttreykta skinkan. Svo lumaði Valdís á heimagerðum ís í frystinum gerðum eftir uppsklrift sem hún er búin að nota fyrir jól og aðra stóra daga í ein 30 ár. Svo kom mánaðarlega kaupfélagsblaðið hér heim fyrir jól í því var þessi gamla uppskrift Valdísar. Þetta er svona eins og þegar gömul tíska kemur til baka eftir einhverja áratugi. Ég á útvíðar buxur sem eru þröngar um hnén en þó ennþá þrengri um lærin. En eitthvað hefur breytst, það hljóta að vera buxurnar, því að þær eru svo rosalega langt frá því að ná saman um mittið (komast reyndar alls ekki svo langt upp). Það verða engin áramótaheit um það mál, en trúlega verður hent úr jólakökudunkunum fljótlega eftir áramótin. Það er af sem áður var þegar ég gat borðað hauga af þessum kökum og drukkið mjólk með, en samt var ég með horstrenginn undir bringsbölunum. Nú er ég þar með grautlinan og ólánlegan vetrarforða sem aldrei þarf að nota. Mér þykir allt of vænt um lífið til að gera ekkert í því óheilla máli.
 
Það er margt að taka á og það er margt að lifa fyrir. Ég stalst út á Bjarg nokkru eftir að ég kom heim úr vinnunni. Þar einangraði ég nokkra metra af útvegg og þar úti hef ég allt til að einangra nokkra metra í viðbót. Síðan er Bjarg einangrað í lofti og á veggjum. Með hækkandi sól er brátt kominn tími til að velja tré sem falla eiga í valinn fyrir grisjun vetrarins. Svo er að fella þau, búta niður, flytja heim og kasta í haug til að byrja með. Þá verður kominn tími til að grafa nokkrar holur, fylla af góðri mold og flytja nokkur ungviði úr skóginum á staði til frambúðar. Það er af nógu að taka á nýju ári og það er allt skemmtilegt nema þá kannski helst að fella tré sem eru búin að vera augnayndi í mörg ár.
 
Svo óskum við Valdís gleðilegs árs og þökkum fyrir samverustundir bæði þessa árs og á síðustu áratugum.

Enginn að leika sér á Sólvöllum í kvöld

Enginn smávaxinn maður kemur á þessu kvöldi og biður mig að fela eggjabakka því að hann hefur gaman af að leita. Hann biður mig ekki heldur að fela sjálfan mig eða að leika ljón. Það er býsna auðvelt að fela eggjabakka en það er töluverð áreynsla í því að leika ljón, meira að segja áreynsla að vernda smávaxna manninn þegar hann hefur fengið pabba sinn til að taka að sér hlutverk ljónsins. Gestirnir okkar eru farnir heim.
 
Valdís horfir á sjónvarpsþátt þar sem þekktir leikarar koma saman í einhverri höll og leika sér en ég fann mér aðra hluti til að dunda við. Til dæmis var ég að lesa um óveður á Íslandi. Það er mjög ólíkt því sem skeði í gærdag meðan Rósa og Pétur voru inn í Örebro að skoða rafmagnsvörur. Þá var ég úti við og kom inn þar sem þau sátu saman amma og Hannes. Amma þurfti að víkja sér frá og sagði við Hannes að afi mundi sitja hjá honum á meðan. Þá spratt hann fram úr stólnum, benti mér á að setjast og svo hoppaði hann upp í kjöltu mína. Það var mun áreynsluminna en að leika ljón.
 
Á járnbrautarstöðinni i Kumla sagðist ég ætla að taka mynd af þeim. Hannes gekk þá að ferðatöskunni hennar mömmu sinnar og stillti sér svolítið upp. Það er alveg leyfilegt en segir líka að hann er farinn að skilja þetta betur með að taka myndir. Svona síast hlutirnir inn einn af öðrum og skilningurinn eykst. Hann talar mikið sænsku en foreldrarnir sögðu að hann hefði aukið við íslenskuna meðan hann þau dvöldu hjá okkur á Sólvöllum.
 
Amma fer sjaldan með þegar ég sæki þau eða fer með þau á jármbrautarstöðina. Hannes kveður ömmu heima. Kannski er eitt og hálft ár síðan við vorum þarna á járnbrautarstöðinni og þegar þau fóru inn í lestina leit hann við og átti von á því að ég fylgdi þeim inn í lestina. En í stað þess veifaði ég þeim þegar hún rann af stað. Hann hafði spurt eitthvað eftir mér á leiðinni til Stokkhólms, en þegar þau stigu af lestinni þar, þá var afi ekki utan við. Þá fór Hannes að gráta og grét á leiðinni heim á Celsiusgötuna. Ég veit að það er ekki í fyrsta skipti sem ég segi frá þessu á blogginu núna.
 
Við hittumst aftur á þriðja í nýári. Rósa og Pétur ætla að endurnýja hjá sér eldhúsið. Ekki það að innréttingin sé svo léleg, heldur að fólkið sem síðast setti þar upp innréttingu skipulagði eldhúsið all fáránlega. Það var vegna þessa sem þau fóru inní Örebro í gær. Elon er verslunarkeðja í Svíþjóð sem selur heimilistæki. Það var því upplagt fyrir þau að nota tækifærið meðan Hannes var hjá ömmu og afa og þau gátu notað bílinn okkar og skoðað heimilistæki í rólegheitum. Nú eru þau ákveðin í eldhústækjunum og geta svo bara pantað. Sniðugt.
 
Þriðja í nýári förum við Valdís svo með kerruna til Stokkhólms og tökum það sem við viljum af innréttingunni og setjum síðan upp bílageymslumegin á Bjargi. Það verður ekki amaleg bílageymsla með eldhúsinnréttingu frá Stokkhólmi. Þannig eru nú plönin þessa stundina og þá gistum við eina nótt hjá þeim og kannski leik ég þá ljón fyrir Hannes Guðjón. Ég læt mig þá hafa það að veltast svolítið í gólfinu og urra. Mér dettur í hug núna að ég ætti heldur að vera hestur og taka Hannes á bak. Ég geri ráð fyrir að margir kannist við þetta að leika einhver dýr fyrir börn á þessum aldri.
 
Hannes Guðjón. Þó að ég geti orðið þreyttur og stirður þegar ég leik ljón, þá er gaman að því. Ég finn það sérastaklega núna þegar þú ert farinn.
 
Við þökkum ykkur fyrir dvölina Rósa, Pétur og Hannes Guðjón.

Tíminn hefur flogið áfram

Það er þriðji í jólum og aðal hátíðinni er lokið. Á morgun fara líka jólagestirnir okkar. Tíminn hefur flogið áfram og þegar ég byrjaði að skrifa þessar línur hugsaði ég bara hvort ég hefði stuðlað nægjanlega að því að nota þennan tíma svo vel sem skyldi. Ég er ekki með reiðubúið svar við þvi en ég ætla heldur ekki að velta mér neitt upp úr því. Þetta er búinn að vera góður tími, það er alveg ljóst.
 
Í dag voru þau Rósa og Pétur inn í Örebro og við Valdís heima með Hannes. Ég var úti við að sýsla og svo datt mér í hug að athuga hvernig þeim Hannesi og ömmu kæmi saman. Þegar ég kom inn var samkomulagið eins og myndin sýnir. Þau voru að horfa á Dóru landkönnuð, en Valgerður hafði sent Hannesi nokkra þætti um jólin. Er nokkuð hægt að hugsa sér betra samkomulag en við sjáum þarna á myndinni?
 
Í gær vildi ég sýna hvað ég gæti. Nokkrum sinnum hlóð ég það sem ég kallaði eskimóasnjóhús í Hrísey. Ég reikna hins vegar með að eskimóar hefðu hlegið mikið að öllum mínum eskimóasnjóhúsum. Snjórinn hér var afar lélegur til þessa en húsið stóð af sér framkvæmdirnar, enda fór ég mjög gætilega því að ég gat ekki hugsað mér að það hryndi í höndunum á mér meðan það væri í byggingu. Svo settum við stórt kerti inn í það og svo frysti. Þá fékk það einhvern styrk. Þau komust sæmilega þarna fyrir Hannes og Rósa og ég hugsa að Hannes komi til með að muna eftrir þessu snjóhúsi einhverja daga og kannski þegar hann kemur hingað næst.
 
Ég sagðist hafa hlaðið svona hús nokkrum sinnum í Hrísey. Fyrri árin okkar á Bjargi var þokkalegur tími til að vera með börnunum og við gerðum sitt af hverju með þeim. Svo fórum við að byggja í Sólvallagötunni og ég reyndi að vera einn af þessum duglegu heimilisfeðrum sem unnu mikið að húsbyggingunni sinni og sköpuðu verðmæti. Kannski sköpuðust einhver verðmæti en önnur verðmæti töpuðust líka á móti. Það varð minni tími með börnunum, oft enginn. Það er alveg ljóst að Rósa fékk minni tíma en Kristinn og Valgerður. Til dæmis man Rósa ekki eftir neinu eskimóasnjóhúsi og ég man vel að ég hugsaði í nokkur ár að næsta vetur get ég hlaðið snjóhús handa henni. Svo varð þó aldrei.
 
En viti menn. Mannfræðidoktorinn Rósa er búin að fá snjóhúsið sitt. Hvað er eðlilegra en að mannfræðingur hafi áhuga á eskimóasnjóhúsi. Samkvæmt svip hennar á þessari mynd er hún ánægð með þetta þó að húsið hafi komið minnst 30 árum seinna en vilji minn stóð til á þeim tíma.
 
Það er þriðji í jólum sagði ég. Aðfaranótt annars í jólum vaknaði Pétur við einhverja skruðninga. Við vissum ekkert hvað þetta hafði verið fyrr en við litum út eftir morgunverðinn. Snjórinn hafði runnið að þakinu báðu megin á Bjargi. Ég hugsaði nú bara að þarna hefði ég fengið framtíðarvinnu svo lengi sem við búum hér, það er að moka mig gegnum þennan snjó í hvert skipti sem hrynur af þakinu á þessu húsi. Ég losnaði þó við það í þetta skiptið þar sem tengdasonurinn annaðist moksturinn. Rósa vinkar og Hannes fylgist með. Það var eftir að þessi mynd var tekin sem bygging snjóhússins byrjaði.
 
Það var svo í dag sem við fórum inn með bílinn einungis til að sjá hvernig hús og bíll kæmu út hvort á móti öðru. Hvar væri hægt að setja upp skápa og hvar væri hægt að geyma þetta og hitt. Við erum þarna tengdafeðgar að leggja á ráðin og mér sýnist að ég hafi sett upp allan þann spekingssvip sem ég bjó yfir á þeirri stundu.
 
Svo fórum við Rósa að einangra. Rósa vildi alls ekki fara frá Sólvöllum án þess að fá að prófa að einangra. Okkur gekk vel og ég fann vel hversu mikið betur verkið gekk þegar ég var ekki einn við það. Ég dunda mikið meira við verkin þegar ég er einn. Ég vil njóta þess að gera svona hluti, en þegar tveir vinna verður annar kraftur í verkinu og þá er líka hægt að njóta þess en þá á annan hátt.
 
Svo héldum við svolítið gamlárskvöld fyrir kvöldmatinn þar sem við Valdís verðum ein á gamlárskvöld. Valdís kom með stjörnublys frá því í fyrra og lét þau brenna upp utan á snjóhúsinu.
 
Pétur sendi upp loftbelgi. Svo var sagt frá því í fréttunum örstuttu seinna að það þarf leyfi fyrir að senda svona himnafyrirbæri á loft. Þá vitum við það. Hvað ætli fólk sem ekki veit að svona er til haldi þegar það sér svona ljós líða yfir himinhvolfið á náttmyrkrinu.
 
Klukkan er orðin tíu að kvöldi og Hannes er sofnaður. Það er mjög hljótt hér í sveitinni og ró í húsinu. Um hádegi á morgun höldum við á járnbrautarstöðina í Kumla og gestirnir okkar stíga upp í lestina þar. Svo verður ennþá hljóðlátara í sveitinni annað kvöld.

Hjartað slær fyrir Dalina

Það var fyrir jól sem hún Jensa hringdi til Valdísar. Hún er færeysk kona sem býr i Varberg en hún á dóttur og dótturdóttur í Falun. Jensa sagðist verða upp í Falun um jólin og á annan í jólum ætlaði hún til baka heim til Varberg. Hún færi þá fyrst með lest til Örebro og þar þyrfti hun að skipta um lest og bíða í rúman klukkutíma. Hún stakk upp á því við Valdísi að hittast þennan rúma klukkutíma og spjalla saman yfir kaffibolla. Þetta var samstundis ákveðið.
 
Hérna eru þær svo á járnbrautarstöðinni í Örebro þessar tvær konur sem drógust að hvor annarri uppi í Falun í sænsku Dölunum. Ég sat á móti þeim á brautarstöðinni og þegar kaffið og bollurnar voru búnar fannst mér rétta augnablikið fyrir myndatöku vera komið.
 
Þetta byrjaði upp í Svartnesi. Þegar ég kom þangað í ársbyrjun 1994 vann þar færeysk kona að nafni Súsanna. Hún talaði stundum um mömmu sína, hana Jensu. Svo var Svartnesi lokað. Við Valdís bjuggum í Svärdsjö tæpa 30 km frá Svartnesi eins og fjöldamargir aðrir Íslendingar sem unnu þar. Þegar frá leið þessari lokun og Íslendingarnir hurfu frá Svärdsjö hver af öðrum fór okkur Valdísi að finnast vistin þar dauf og lífið erfitt. Því fluttum við til Falun haustið 1995, en Falun liggur um 30 km sunnan við Svärdsjö. Mjög fljótlega eftir að við vorum komin í hus í Falun kom Súsanna með mömmu sína í heimsókn til okkar og það varð samstundis vinskapur milli Valdísar og hennar, vinskapur sem stendur enn.
 
Edit systir Jensu er gift Pétri Sæmundssyni í Keflavík. Þorgrímur bróðir hennar býr í Ólafsvík og Jakob bróðir hennar býr í Reykjavík. Edit og Valdís unnu saman í Keflavík 1959. Við höfum nokkrum sinnum farið upp til Falun með fólk sem hefur heimsótt okkur eftir að við fluttum til Örebro og gjarnan komið við hjá Súsönnu. Til dæmis fórum vi þangað með Dísu og Ottó þegar þau heimsóttu okkur fyrir all nokkrum árum og þau og Súsanna höfðu margt að spjalla um.
 
Falun er jú í sænsku Dölunum og ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei losnað við Dalina úr hjarta mínu síðan við fluttum þaðan í ársbyrjun 1997. Það er ekkert skrýtið finnst mér þar sem við byrjuðum veru okkar hér í landi þar uppfrá. Við vorum í Dölunum þegar við urðum ástfangin af landinu sem við búum í. Það fer ótrúlega vel um okkur hérna þar sem við Valdís eigum heima, en það kemur fyrir ef við Valdís förum að tala um staðina þarna uppfrá, Falun, Svartnes, Svärdsjö og fleiri staði, að þá bara vil ég fara þangað með hraði. Ég finn alveg á Valdísi að þessi tilfinning blundar í henni líka.
 
Fyrir fáeinum árum var Rósa dóttir okkar að vinna í Falun og þá var henni gefinn kaffibolli sem á stendur: "Hjartað slær fyrir Dalina." Ég valdi það sem fyrirsögn fyrir þetta blogg. Þegar Jensa hringdi og talaði um að hittast á leiðinni norðan úr Dölum, nú þá fór í gang þessi Dalaþrá og hjartað fór að slá fyrir Dalina. Minningar úr Dölunum dönsuðu í huga mér og ég var þegar fyrir jól farinn að setja saman orð og setningar.
 
Súsanna bjó á jarðhæð í blokk í Norslund í Falun. Við bjuggum í næstu blokk neðar í brekkunni, beint fyrir neðan blokkina þar sem Súsanna bjó, og bjuggum þar á fjórðu hæð. Dóttir Súsönnu er Liv og ég giska á að hún hafi verið um fimm ára þegar hér var komið sögu. Þegar ég fór að vinna í Vornesi krafðist Valdís þess að ég fengi mér farsíma og svo gerði ég. Eitt sinn sátum við við matarborðið heima hjá Súsönnu og Liv sat við hliðina á mér. Heimasíminn þeirra stóð næstum við hliðina á Liv þar sem hún sat. Ég tók upp frsímann án þess að hún tæki eftir og hringdi í heimasímann þeirra. Lív svaraði og eftir nokkur andartök áttaði hun sig á því að það var ég sem hafði hringt. Hún skildi ekkert í þessu, starði á mig og fór svo að gráta. Ég sá eftir gerningnum.
 
Í annað skipti vorum við heima hjá þeim mæðgum og ég ætlaði að leika við Liv. Eitthvað var ég klunnalegur og hún datt og kom ónotalega niður og fór að gráta. Ég sá eftir klaufaskapnum. Nú er Liv fullvaxta kona sem vinnur í Stokkhólmi. En mínar minningar um þetta fólk tengist svo mörgu öðru en þessum tveimur óhöppum mínum. Þegar ég hugsa til þessara ára finn ég að vináttan og nábýlið við þetta fólk var sem hlýr og tryggur faðmur og auðvitað fannst fleira fólk ofið inn í þá mynd. Í dag býr Súsanna á sömu hæð og við áður og aðeins einn veggur aðskilur íbúðina hennar og þeirrar sem við bjuggum í.
 
Árin hafa greinilega ætt áfram. Örstutt þarna frá, í sömu brekku, bjó Jensa í all hárri blokk. Ég gæti trúað að hún hafi búið á fimmtu til sjöundu hæð, eða alla vega hafði hún alveg magnað útsýni yfir þann fallega bæ sem Falun er. Við Valdís höfðum líka alveg magnað útsýni yfir vatnið Runn sem liggur milli bæjanna Falun og Borlänge, all þétt setið skógi vöxnum eyjum og annesjum. Þegar við fluttum frá Falun var mér alveg ljóst að við Valdís fluttum frá því fegursta útsýni sem við nokkru sinni höfðum búið við eða áttum eftir að búa við. Þegar ég skrifa þetta hugsa ég til eyfirska fjallahringsins og skaftfellsku fjallanna. Þrátt fyrir það læt ég þessi orð standa.
 
Þegar við fluttum til Örebro vegna vinnu minnar í Vornesi bjó í mér draumur um að koma til baka til Falun og eða nágrennis. Sá draumur er löngu sofnaður en ekki er ég í vafa um að einhver gæti einhvern tíma vakið upp drauminn og ég alla vega látið eftir mér að dreyma hann enn einu sinni þó ekki væri nema til að eiga góða stund með honum svo sem einn góðviðrisdag. Jensa, þakka þér fyrir að vilja hitta okkur Valdísi og þakka þér fyrir að það fékk mig til að dreyma mig svolítið um nokkra eftirlætisstaði upp í Dölum.
 
 
Þegar við fluttum frá Svärdsjö höfðu örlögin gripið okkur með kuldaklóm sínum eftir að vinnan í Svartnesi brást og því var þessi litli bær kaldur í minningunni í nokkur ár. Í dag er Svärdsjö fyrir okkur litill fallegur bær i frábæru umhverfi með margar mjög góðar minningar.

Einföld jól

Íslenska lambalærið var í matinn á aðfangadagskvöld, í gær, mjög vel matreitt og bragðgott eftir því. Þau komu með þetta í sumar hún Árný mágkona mín og Gústi svili minn. Já, gott var það, en án minnar aðkomu þangað til farið var að borða það. Það er skrýtið þetta með matreiðslu. Valdís kryddar mat með ákveðnum kryddum og hann verður góður. Svo krydda ég mat með sömu kryddum og í sama magni að því er ég best veit, og hann verður ekki góður. Ég velti ekki fyrir mér hvers vegna þetta er svona, en ég veit hins vegar að það bara er svona. Svo væri ég ekki að bjóða upp á þetta með íslenska lambalærið sem frétt ef það hefði ekki verið utan íslensku landssteinanna sem það var framreitt.
 
Þau tóku að sér matargerðina Rósa og Pétur og árangurinn var sem sagt eins og ég var búinn að segja, íslenska lambakjötið var alveg frábært. Valdís kom auðvitað að þessu líka og það var þá sem ég tók myndina. Annars var hún búin að segja að matargerðin væri á Rósu og Péturs vegum. Ég hélt mig hinu megin við eldhúsbekkinn og  það fór best á því. Ég get vel soðið hafragraut, hellt á könnuna, soðið egg og eitthvað smávegis fleira, og svo get ég líka hitað upp mat. En bestur er ég við að ganga frá og geri það snyrtilega. Þetta er ekki bara grín hjá mér, það er alvara líka. Ég þarf ekkert að grínast með það að kokkur er ég lélegur.
 
Þau eru þarna búin að klæða sig í jólafötin, amma og Hannes, og biðu nú eftir jólamatnum. Afi og Hannes voru báðir með bindi en það þótti ekki öruggt að sá yngri væri tilbúinn að bera það. En það gerði hann fúslega og honum fór það vissulega vel. Afi er vanur bindinu og það er engin spurning fyrir hann að setja það upp við viss tækifæri og alveg sérstaklega á aðfangadagskvöldi.
 
Auðvitað fór Hannes fram fyrir spegilinn til að huga að útlitinu þegar bindið var komið upp, en honum leist vel á þetta og var ánægður með sitt bindi. Þessi spegill er heil skáphurð sem bara er spegill. Bakvið þessa skáphurð eru hleðslutæki fyrir öll tæki á heimilinu sem þarf að hlaða með jöfnu millibili. Kvöld eitt fyrir stuttu vorum við Valdís að fara inn til Örebro og var þá orðið rokkið. Þegar ég var kominn út mundi ég eftir farsímanum þar sem hann var í hleðslu. Ég sneri við og gekk með dálitlu hraði inn í herbergið til að sækja hann. Þar sem ég vatt mér snarlega fyrir horn og að skápnum, aleinn heima, vissi ég ekki fyrri til en maður snaraði sér á móti mér og varð mér talsvert hverft við. Skáphurðin var opin og ég gekk á móti sjálfum mér í rökkrinu.
 
Það var einfalt jólahald á okkar bæ. Þessi einfaldi góði matur og svo má greina pakka á borði þarna handan við Rósu og Hannes. Myndin er ekki góð en ég læt hana flakka samt, vona að þeir sem ekki eru ánægðir með hana fyrirgefi mér. Það var svolítið erfitt að fá Hannes til að sitja fyrir. Á næstu mynd á undan þessari stóð hann í stólnum og leit hressilega út, en þá var myndin af hinum verri. Hann lét reyndar pakkana í friði og þegar við hin opnuðum okkar pakka, þá vildi hann gjarnan hjálpa okkur að opna en var ekki svo æstur yfir sínum pökkum. Hins vegr lá honum á í morgun að byrja að setja saman legóbílinn sinn. Svo hefur hann verið talsvert í feluleik með afa og þá verður afi alveg yfir sig þreyttur á tiltölulega stuttum tíma. Í gær létum við klukkurnar á Íslandi hringja inn jólin fyrir okkur klukkan 18 að íslenskum tíma, gerðum það gegnum tölvu. Þá vorum við reyndar búin að borða en þá var okkar tími til að segja gleðileg jól. Við höldum ekki hefðbundin sænsk jól, heldur að mestu í íslenskum anda. Við höfum haft bæði íslenska og sænska jólatónlist og sjónvarpsmessuna hlustuðum við misjafnlega mikið á.
 
Við enduðum daginn á að senda upp tvo svona belgi, hálfgerða loftbelgimeð ljósi, og við lékum okkur svolítið að þvi að spá í hvað fólk héldi sem sá þessi ljós líða vestur yfir byggðina. Það er ekkert daglegt brauð að sjá svona ljós hér, en þau eru þó þekkt. Pétur er sem sagt ekki að biðja bæn, heldur að sleppa öðrum þessum belg á loft. Annar þeirra hafnaði í allháu birkitré sem stendur hér á lóðamörkunum við vegin. Þar barðist hann fyrir tilveru sinni í svo sem eina mínutu, en slapp þá frjáls og hélt þá í vesturátt móti Kilsbergen og Íslandi.
 
Svo komum við til dagsins í dag. Það snjóaði eina 10 til 15 sm í nótt og í morgun. Greinar jólatrésins hnigu undan snjónum en þegar svo Valdís kveikti á því í rökkurbyrjun, þá virkaði það eins og ekkert hefði í skorist. Það hefur verið töluverður snjómokstur í gær og í dag, en það hefur bara gert jólamatinn hollari. Gott var svo hangikjötið í dag, jóladag, og hress var fjögurra manna nágrannafjölskyldan sem heimsótti okkur í dag og þá kaffi og jólakökur hjá Valdísi.

Að biðja í Jesú nafni

Að morgni nýársdags kom ég heim frá vinnu og hafði ég þá lokið fjögurra mánaða löngu tímabili í fullri vinnu. Mjög fljótlega eftir það byrjaði ég vinnu hér heima, vinnu sem ég hafði lagt til hliðar meðan ég vann þessa mánuði í Vornesi. Það var að setja upp gluggaáfellur, gerefti, sólbekki og svo að sparsla þetta allt saman og mála. Mér þótti þetta skemmtilegt verk sem gekk mjög vel og var mjög langt kominn með það um miðjan febrúar þegar ég lagðist í inflúensu. Ég fékk háan hita í fáeina daga og svo var ég nokkrar vikur að ná heilsu aftur. Daginn sem ég fyllti sjötíu ár, þann 13. apríl, vaknaði ég sem nýr maður hvað alla líkamsburði áhrærði. Það voru fyrir mig algjör þáttaskil.
 
Fyrir Valdísi voru það engin þáttaskil þennan dag. Henni hafði verið þungt all lengi og henni var ráðlagt að hreyfa sig. Við töluðum um þessi þyngsli hér heima en hún sagði að það væri bara þetta venjulega vetrarkvef sem hún hefði fengið undanfarin ár, þó misjafnlega þungt. Að þessu sinni var það ekki svo mikið kvef, heldur þyngsli. Ég var mjög kvíðinn ef hún skyldi fá inflúensuna ofan í þetta, hvernig henni mundi þá reiða af. En hún slapp. Þann 27. mars var hún hjá heimilislækninum sínum og hann ráðlagði henni að fara í röntgenmyndatöku. Svo gerði hún þann 3. apríl. Við vorum að koma heim eftir myndatökuna, vorum bara í dyrunum þegar heimilislæknirinn hringdi og sagði Valdísi að það hefði sést blettur í öðru lunganu og hann mundi senda hana í sneiðmyndatöku. Við þessa frétt var okkur brugðið en einhvern veginn tókst að trúa á það besta, alla vega löngum stundum, og ég verð að segja að mér fannst útlit Valdísar ekki þess eðlis að um væri að ræða neina bráða hættu. Samt sló sú hugsun mig alltaf öðru hvoru, sérstaklega á nóttunni þegar ég vaknaði og fannst andardráttur hennar ekki eðlilegur.
 
Meðan Valdís beið eftir sneiðmyndatökunni fékk hún kvef og það settist í lungun. Það fóru að heyrast vaxandi hrygluhljóð þegar hún svaf. Ég horfði oft á hana í laumi en gat ekki með nokkru móti látið mér detta í hug að það væri nokkuð alverlegt á ferðinni. En þó, það var erfitt að vera viss. Kvefið versnaði og mér fannst sem ekki gæti allt verið með felldu. Þeim fjölgaði nóttunum sem ég vaknaði og hlustaði á svefnhljóðin sem bara virtust boða vá. Mikið var ég þó feginn að hún gat yfirleitt sofið. Að það hefði sést blettur í lunga fannst mér misjafnlega alvarlegt og margar sögur voru sagðar af því að fólk hefði greinst með blett í lunga, en svo hefði það ekki orðið neitt meira. Þegar einhver gat sagt frá slíku drakk ég það í mig og sagði svo Valdísi frá. Samt fór það svo að þetta íþyngdi mér mjög á köflum og gerði mig oft á tíðum hálf lamaðan. Ég fann mig ekki í að gera það sem til stóð. Oft sótti ég út í Sólvallaskóginn til að nálgast félagsskap einverunnar og skapara míns.
 
Þessi líkamlegi bati minn þann 13. apríl eftir flensuna var í raun sleginn út af sálrænum erfiðleikum? Sorgin ásótti mig oft. Meðan hrygluhljóðin voru verst og ég vakti meðan Valdís svaf runnu margar myndir hjá í óraunveruleika næturinnar. Ég bað mínar bænir en fannst sem þær kæmust ekki til skila. Nótt eina lagði ég allt mitt í að koma sipulagi á hugann og ákvað að nú skyldi leið bænarinnar reynd af auðmjúkri einbeitni sem aldrei fyrr. Ég minntist orða Jesú í Jóhannesarguðspjalli þegar hann talaði einhver síðustu orð sín til lærisveinanna og ég ákvað að nota þessi orð til að komast nær markinu. Ég kveikti á lampanum mínum, teygði hendina ofan í náttborðsskúffuna og tók fram biblíuna.
 
Ég var fljótur að finna þessi orð: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um, það mun hann veita yður í mínu nafni. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni; biðjið, og þér munuð öðlast." Þetta sagði meistarinn við lærisveina sína fyrir tæpum 2000 árum og hann var líka að segja þau við mig um miðja vornóttina. Ef ég bið skýrt í hans nafni, ákvað ég, þá mun ég verða bænheyrður. Ég reyndi að setja mig inn í 2000 ára gamla atburðinn. Mér fannst næstum sem ég yrði einn af þeim sem þá voru viðstaddir og svo bað ég.
 
Í Jesú nafni bað ég fyrir heilsufari Valdísar. Og ég bað aftur og aftur þessi sömu orð, í mínútur, í stundarfjórðunga, í einhverja hálftíma eða ég veit ekki hversu lengi. Á meðan las ég línurnar með þessum orðum yfir nokkrum sinnum til þess að tapa ekki huganum frá loforði meistarans. Valdís hagræddi sér allt í einu í rúminu og hljóðin sem ég óttaðist breyttust, urðu léttari, og ég fann hvernig ró færðist yfir mig og óraunveruleiki næturinnar fjarlægðist. Það var virkilega eins og  eitthvað hefði gerst innra með mér og mér fannst ég líka finna það á Valdísi. Næstu tvo til þrjá daga færðist ró yfir huga minn og einhvers konar sátt við ástandið. Ég gat ekki betur fundið en það sama ætti sér stað hjá henni.
 
Valdís dró að hafa samband við heimilislækninn út af lungnakvefinu en einhverri viku fyrir sneiðmyndatökuna varð henni illt í eyra. Þetta bagaði hana mjög og versnaði hratt. Einn daginn sagðist hún ætla að leggja sig og reyna að slappa af sem hún og gerði, en hún kom strax fram aftur, ákveðin mjög, og hringdi nú á heilsugæsluna. Hún var tekinn inn samstundis. Hún var sett á pensilínkúr og nokkrum dögum seinna byrjaði eyrað að lagast, lungnakvefið einnig og öndunarhljóð næturinnar gerbreyttust. Ég hugsaði til bænarinnar og velti því fyrir mér hvort henni hefði verið gert að fá eyrnabólgu til að hún fengi pensilín. Sólin hækkaði dag hvern á þessum tíma og dagana eftir að hún byrjaði á pensilínkúrnum var sem það birti með auknum hraða.
 
Við vorum varla komin heim frá sneiðmyndatökunni þann 25. apríl þegar heimilislæknirinn hringdi og staðfesti að það væri ekki allt með felldu og rannsókn mundi halda áfram. Stundir efans og óvissunnar jukust á ný. Við fórum nokkrum dögum síðar til Maríu, krabbameinslæknis á sjúkrahúsinu í Örebro, og hún sýndi okkur á tölvuskjá hvað kom út úr sneiðmyndatökunni. Síðan var ákveðið að fara niður í lungun og taks sýni. Það gerði María nokkrum dögum síðar.
 
Þann 18. maí mættum við hjá Maríu, Valdís, Rósa dóttir okkar og ég. María byrjaði á því að lýsa aðdraganda alls þessa og það var sem þau orð ætluðu aldrei að taka enda. Síðan sagði hún að útkoma sýnatökunnar sýndi að um krabbamein var að ræða. Þar féll höggið þunga. Valdís fór fyrst að gráta og ég hugsaði með mér að það væri gott að ég væri búinn að eiga mínar stundir meðal hinna rótföstu vina minna í Sólvallaskóginum. Svo spurði Valdís; hvað gerum við nú. María lagði hendina á arm hennar og sagði: Nú byrjum við meðferð. En hún útskýrði að hér væri ekki hægt að lækna, en það væri hægt að halda sjúkdómnun niðri. Hversu mikið yrði tíminn að leiða í ljós. Við vorum Maríu mjög þakklát fyrir allt hennar jákvæða og góðlátlega viðmót í þessu samtali.
 
*
 
Í byrjun september lauk rúmlega þriggja mánaða lyfja- og geislameðferð. Ég hef sagt það áður og segi það einu sinni enn að þessi meðferð er gríðarlega erfið og nánast ómanneskjuleg. Rúmlega mánuði síðar fór Valdís aftur í sneiðmyndatöku og í framhaldi af því fórum við í viðtal til Maríu. Meðferðin hefur skilað góðum árangri sagði hún og stráði yfir okkur geislum vonarinnar.
 
Tveimur vikum eftir að lyfjameðferðin byrjaði komu Rósa og fjölskylda til okkar og síðan var hér fólk samfleytt þangað til allri meðferð var lokið. Við erum ykkur þakklát öll þið sem lögðuð hönd á plóginn
 
*
 
Mánuðurnir síðan hafa verið blanda af bata og mótlæti, en óneitanlega er batinn mikið meiri en mótlætið. Læknar hafa sagt að bataferlið eftir slíka meðferð sem Valdís gekk í gegnum taki marga mánuði og jafnvel heilt ár. Bænin á sér enn samastað í þessu húsi. Margan daginn síðustu vikurnar hefur Valdís unnið eins og forkur við jólaundirbúninginn og afkastað hreint með ólíkindum.
 
Í gegnum þetta höfum við hitt mikið af góðu fólki sem við höfðum ekki hugmynd um að væri til, læknum og hjúkrunarfræðingum, fólki sem er ríkt af góðvild, hjálpsemi og eiginleikanum að gefa von. Ég hef aftur og aftur heyrt Valdísi þakka þessu fólki fyrir hjálpina og hrósa því fyrir góðsemina á þann hátt sem ekki öllum er lagið. Og ég hef tekið eftir að þetta fólk hefur orðið þakklátt og tekið orð hennar til sín, hvort heldur það eru hámenntaðir læknar eða hjúkrunarfræðingar. Tíminn, sérstaklega þar til meðferðinni lauk, hefur verið blanda af sorg, bið, brostnum vonum, von á ný, bið enn og aftur, kvíða, bjartsýni og sátt. Vonin, bjartsýnin og sáttin eiga vinninginn. Á tímabilum frá því í haust hef ég aftur náð afkastagleðinni sem ég hafði í janúar fyrir tæpu ári og ég talaði um í byrjun bloggsins. Ef Valdís hefði ekki verið sá forkur sem hún hefur verið gegnum þetta allt saman hefði ég aldrei náð því. Ég hef í mörg ár kallað hana KiddaVillasystur, fiskimannsdóttur, fjallkonu og eitt og annað fleira og hún stendur undir öllu saman.
 
Hún er sterk þessi kona. Klukkan er orðin tvö að nóttu og nú sefur hún hljóðlega fyrir aftan mig þar sem ég sit og skrifa. Hún er búin að ná því sem hún ætlaði sér, að gera það kleyft að hér á Sólvöllum verði haldin jól með gestunum okkar sem komu fyrir þremur dögum. Og það er ýmislegt fleira sem hún ætlar sér að ná þessi kona.
 
Að öllum öðrum ólöstuðum grunar mig að þessi ungi maður, hann Hannes Guðjón, hafi veitt henni ömmu sinni mesta hjálp af öllum sem hafa komið við sögu. Hún tók þessa mynd af honum í fyrradag og ég veit ekki hvort það er mögulegt að brosa svona fallega móti hvaða ljósmyndara sem er, en svona brosti hann alla vega á móti myndavélinni þegar amma hans hélt á henni. Þegar við Rósa og Pétur höfum verið að sýsla eitthvað úti við segir hann gjarnan: Ég ætla að vera hjá ömmu. Þau hafa oft setið hlið við hlið, amma og drengur, og horft á barnaefni og þá gjarnan setið nálægt hvort öðru og haldið hönd í hönd. Hljóður og án krafna hefur hann verið henni félagi marga stund.
 
Þessi mynd er tekin nú að morgni aðfangadags. Þessi ungi maður var fljótur að vakna og nudda stýrurnar úr augunum. Síðan hjúfraði hann sig upp að ömmu sinni og hjálpaði henni að vakna líka. Nú þegar ég er að gera þetta tilbúið til yfirlestrar fyrir Valdísi eru gestirnir okkar úti að spássera og leika sér á snjóþotu. Valdís er að elda möndlugrautinn. Svo verða jól á Sólvöllum og jólatréð utan við gluggann er sótt inn í Sólvallaskóginn. Það hefur snjóað síðan það var sett upp og hvítur snjórinn þyngir mjúklega greinar þess. Gleðileg jól héðan til allra.

Jólagestir og jólaljós

Á föstudaginn var, þann 21. desember, fengum við jólagesti. Við hlökkuðum til þessarar gestakomu og töldum dagana eins og við gerðum sem smábörn fyrir jólin áður fyrr.
 
Það var ekki leiðinlegt að vera þarna á járnbrautarstöðinni í Kumla og taka á móti þessum brosandi gestum. Að foreldrunum ólöstuðum horfði ég mest á bros unga mannins, Hannesar Guðjóns, og ég heyrði álengdar að hann nefndi hann afa sinn. Ég eiginlega tók ekki eftir því að foreldrarnir brostu fyrr en ég fór að skoða myndina. Hannes er með bakpokann sinn og ferðatöskuna sem hann pakkaði sjálfur niður í fyrir ferðalagið. Það eru ákveðnir hlutir sem hann vill hafa með sér og hann er eiginlega orðinn æfður ferðamaður. Að fara óundirbúinn af stað er honum fjarri, eða það er mitt álit eftir það sem ég hef séð til þessa unga ferðamanns. Það var synd að Valdís skyldi ekki vera með við þessa móttöku. Okkur fannst að það væri varla pláss fyrir okkur öll í bílnum en sannleikurinn er þó sá að það var nóg pláss syfir okkur öll. Við Hannes sátum aftur í á leiðinni heim og hann marg tók það fram að við værum að fara til ömmu. Hann þekkir þetta orðið.
 
Jólaljósastjóri á Sólvöllum er Valdís. Mér finnst stundum nóg um, en gamaldags dunkur eins og ég á bara að hlýða í stað þess að nöldra, það fer lang best á því. Jólatréð sótti ég út í Sólvallaskóginn eftir að gestirnir komu. Okkur fannst best að hafa það úti og þá fá líka þeir sem fara hjá aðeins meira fyrir augað. Þegar ég er að ganga frá þessu stutta bloggi eru allir íbúar þessa húss sofnaðir nema hvað ég norpa ennþá við tölvuna. Það er kominn aðfangadagur og ég óska öllum sem kíkja á þetta blogg gleðilegra jóla og reyndar öllum hinum líka.

Leyndarmálin í skápnum í horninu.

Í dag hef ég verið í jólaþrifunum sem byrjuðu á mánudaginn var. Þetta lætur kannski eins og grobb hjá mér en er það alls ekki. Ég hef reynt að halda Valdísi frá þessu undanfarið og hef sagt henni að ég mundi byrja þrifin á mánudaginn í þessari viku og við það stóð ég. En svo er það ekki allt þrif eins og ég kem að síðar. En það er erfitt að halda Valdísi í skefjum og í dag hefur hún bakað tvær tertur og svo allt í einu var hún farin að skipta um púða neðan á stólfótum. Eins og ég sagði um daginn; dálítil ótemja í henni.
 
Hluti af því sem ég var að gera í dag var að fara með ýmislegt í geymslu út á loftið á Bjargi (nýja húsið okkar). Ég opnaði "skápinn í horninu", eins og við köllum einn skáp í svefnherberginu okkar, til að taka þaðan fáeina litla pappakassa sem við geymum þar til að nota fyrir umbúðir þegar við þurfum að senda eitthvað með pósti. Þetta ætlaði ég að setja í stóran plastkassa til að fara með út á loft. Þegar Valdís varð vör við hvað ég var farinn að gera kom hún með í þetta.
 
Úr skápnum í horninu komu ekki fáeinir litlir pappakassar, helur einhver alveg ótrúlegur fjöldi af umbúðum sem óvart höfðu safnast þar fyrir á nokkrum árum. Valdís tíndi út úr skápnum og ég sorteraði og hirti nokkra kassa og setti niður í plastkassann. Þarna kom kassinn utan af rauða símanum sem við keyptum af Telia fyrir einum sjö árum vegna þess að hann var með svo stórum tölustöfum á hnöppunum og það átti að vera svo þægilegt fyrir þá sem eru aðeins farnir að eldast. Svo reyndist sá sími illa og það gekk heldur alls ekki að láta hann hanga upp á vegg eins og til stóð. Svo fannst fólki sem það heyrðist svo illa í okkur þegar við töluðum til Íslands.
 
Svo kom kssinn utan af fyrri símanum frá Tele2, þeim sem við fengum þegar við fluttum á Sólvelli fyrir þremur árum og fengum þráðlausan heimasíma. Af því að við vorum nýir kúnnar hjá Tele2 sögðust þeir senda okkur besta símann sinn. Svo varð hann óttalega lélegur og tveimur árum seinna sendu þeir nýja týpu af besta símanum sínum. Kassinn utan af honum var þarna líka. Hluti af lífsferli okkar byrjaði nú að líða hjá sem af myndbandi. Umbúðir utan af hinu og þessu sem við höfum keypt og fengið á einn og annan hátt sem meiningin var að gerði lífið léttara, gerði okkur glöð eða meira hamingjusöm. Nú var ég orðinn ótrúlega niðursokkinn í spurninguna hversu mikla hamnigju þessi plastvarningur allur hafði fært okkur. Eða hefðum við kannski orðið nákvæmlega mikið eða lítið hamingjusöm án þess mesta af honum. Ég held að á tímabili hafi ég ekki almennilega gert mér grein fyrir að Valdís var með í þessu bjástri líka. En alla vega; vegna þess að hún hafði hamast við að tína út úr skápnum var hann nú tómur. Mikið var.
 
Allt sem átti að fara út á loftið á Bjargi var nú komið fram í forstofu, mikið meira en það sem hafði verið í skápnum í horninu. Hluti af því átti líka að fara á kerruna og síðar í endurvinnsluna. Forstofan var eiginlega full. Ég var nú svo aldeilis hissa. Allt í einu datt mér Gunnar í hug. Hann hét að vísu alls ekki Gunnar en ég læt hann heita það núna. Það var á árunum sem við Valdís vorum hjá sjúkraþjálfaranum að við hittum Gunnar. Skilyrðið fyrir því að ég fengi nýjan mjaðmalið var að ég gengi fyrst til sjúkraþjálfara. Valdís var þá þegar hjá honum þessum. Við fórum þangað saman og Gunnar og konan hans komu þangað líka saman. Fyrst fór Gunnar inn til sjúkraþjálfarans og svo beið hann eftir konunni sinni. Við Valdís höfðum það þannig að Valdís fór fyrst og svo beið hún eftir mér.
 
Stundum lék Gunnar á alls Oddi og var skrafhreyfinn og fróður. Eitt sinn sagði hann frá því að hann sem ungur maður kom til Örebro vestan úr Värmland og fékk samnstundis vinnu. Hann  var duglegur, vann mikið og svo keypti hann bíl til að geta heimsótt af og til foreldrana vestur í Värmland. Eitt sinn kom vinnufélagi að máli við Gunnar og sagði honum að hann væri í byggingarfélagi sem væri að reisa nokkur raðhús í vesturbænum og hann spurði Gunnar hvort hann vildi ekki vera með í þessu, það væri einn hættur við og því væri ein íbúð laus.
 
Gunnar settist næsta föstudag inn í bílinn sinn og þaut vestur í Värmland. Þar sagði hann pabba sínum frá þessu og vildi ráðgast við hann hvað gera skyldi. Pabbinn bað hann að koma út að glugga og þar benti hann Gunnari á bílinn utan við og sagði að þarna væri hrúga af járni sem mundi ryðga niður og verða verðlaust á örfáum árum. En hús, Gunnar, hús standa í heila öld eða mikið meira. Það kallast fasteign. Byggðu húsið og þar geturðu svo búið alla ævi ef þú vilt. Ég stend við bakið á þér ef þú lendir í vanda. Gunnar byggði húsið þegar hann var rúmlega tvítugur og þegar við hittum hann vel yfir áttrætt bjó hann enn í húsinu. Hins vegar hafði hann slitið út mörgum bílum á þessari lífsleið sinni.
 
Dagurinn í dag hefur verið býsna mikið dagur hugleiðinga. Hvað er varanlegt og hvað tærist upp í höndum mínum og verður að engu, verður kannski aldrei að verulegu gagni og skapar kannski enga gleði eða þá hamingju sem sóst var eftir? Svo byrjaði ég að kasta hluta af pappakössunum í kamínuna, en þegar ég sá að eldurinn varð stundum grænn, stundum blár og stundum eldrauður þegar þeir brunnu, þá hætti ég að elda þá upp. Ég tróð þá niður undir fótum mínum til að þeir minnkuðu fyrirferð. Nú bíða þeir í plastpoka út á kerru og skulu þaðan á endurvinnslustöðina. Sumt af því sem þessir pappakassar innihéldu þegar þeir bárust til okkar liggur líka á kerrunni og skal eiga samleið með umbúðunum á endurvinnslustöðina. Yngasta barnabarnið kemur í heimsókn á föstudaginn og við viljum ekki eitra loftið hér fyrir honum með því að brenna hér heima menguðum umbúðunum utan af plastgræjunum sem við höfum fjárfest í
 
Klukkan sjö í kvöld fór ég svo á AA fund í Fjugesta og sagði þar frá því að ég væri ennþá bara ófullkominn maður. Hinir fundargestirnir könnuðust við þetta allt saman, en við áttum það líka sameiginlegt að geta talað um það og að við stefndum að því að verða betri.
 
Aftur um hann Gunnar. Stundum lék hann á alls Oddi eins og ég sagði áðan, en stundum var það ekki svo og þá var hann ekki til viðtals. Svo var það eitt sinn þegar ég beið eftir Valdísi. Þegar ég bauð honum góðan daginn í það skiptið heyrði ég eitthvað óljóst "uhm!" og svo var það alls ekkert meir. Þegar ég vissi að Valdís ætti eftir svo sem 15 mínútur fór ég í nuddstólinn sem stóð til boða. Þegar ég hafði setið þar stutta stund kom Gunnar inn til mín með blað í hendinni, benti á fyrirsögn og sagði að þetta væri athyglisvert. Svo kvaddi hann og óskaði góðs gengis. Ég vissi vel að það var ekki greinin sem þetta snerist um, heldur vildi hann segja fyrirgefðu á þennan hátt. Mér þótti vænt um hann þegar ég horfði á eftir honum og hugsaði að þetta tækist alls ekki öllum alltaf, ekki mér heldur.
 
 
 Fyrir neðan gefur að líta "skápinn í horninu" eftir tæmingu.

Hlustað undir pönnuþvottinum

Ég stóð við eldhúsvaskinn þegar kvöldið var gengið í garð og þvoði tvær steikarpönnur. Þá var tími til kominn að ég gerði eitthvað í eldhúsinu líka á þessum degi. Ég velti því fyrir mér hvað þessi dagur hefði gefið og var búinn að finna eitt og annað sem var vert að upplifa. Þá heyrði ég allt í einu að verið var að rifja upp atburð sem átti sér stað einhvern tíma síðastliðinn vetur. Tvö systkini voru að leika sér við vatn sem var að hluta ísi lagt. Þau duttu bæði í vatnið en drengnum tókst að ná sér upp úr en systir hans rak inn undir ísinn. Ég giska á að hún hafi verið fjögurra til sex ára. Mamma kom hlaupandi og fór út á glæran ísinn. Fljótlega sá hún dóttur sína lifvana undir ísnum aðeins í nokkurra sentimetra fjarlægð frá fótum hennar.
 
Hvernig ætli móður líði við þessar aðstæður? Hvað ætli henni detti í hug að gera? Mamman í þessu tilfelli ákvað að hoppa. Hún hoppaði en ísinn var of sterkur. Hún færði sig úr stað og hoppaði aftur og hún færði sig aftur og aftur og hoppaði aftur og aftur. Loks fann hún stað þar sem ísinn gaf sig og hún náði til dóttur sinnar. Dóttirin var flutt á sjúkrahús þar sem líkamshitinn var aukinn undir eftirliti. Einhverja daga var hún í öndunarvél og allt var gert til að bjarga henni með sem minnstan skaða eftir þetta mikla áfall. Það var talað við þessa litlu stúlku í sjónvarpinu áðan og hún var svo ótrúlega eðlileg. Það var líka talað við mömmuna sem hoppaði eins og hún ætti lífið að leysa. Hún bjargaði lífi. Að hlusta á þetta var án alls efa upphafið yfir allar aðrar upplifanir dagsins.
 
Í morgun horfðum við Valdís á sjónvarpsmessuna. Minnst sagt þá var þessi messa öðru vísi en hefðbundnar messur eins og við könnumst við þær. Þetta var öllu frekar tónverk með ljóðlínum á stangli og nokkrum töluðum orðum, einnig á stangli. Presturinn sem predikaði var höfundur alls þessa og nafn hennar sem höfundar kom á skjáinn fjölda mörgum sinnum meðan á flutningnum stóð. Ég var vonsvikinn með messuna og þarna sat ég og var farinn að dæma messuformið og höfundinn. Allt í einu sagði presturinn í einni af predikunarsetningum sínum sem komu á stangli mitt í tónlistaratriðunum að það væri auðvelt að dæma en gera ekkert sjálfur. Þarna var hún á skjánum og virtist horfa beint í augu mín og það var eins og hún vissi hvað ég var að hugsa. Mér liggur við að segja að ég dró undir mig lappirnar og eitthvað hálf herptist saman innan í mér.
 
Mér varð hugsað til þess sem ég hef oft sagt í blogginu mínu að þetta og þetta sé ekkert sem mér beri að segja en svo bæti ég því við að ef enginn segir neitt en gáir bara að því hvað aðrir segja, þá verður afar lítið sagt. Þannig er nú það. Messan hafði áhrif á mig. Ég ætla að reyna að vera auðmýkri næst þegar ég hlusta á sjónvarpsmessuna, dæma minna og komast frá messunni ánægðari með sjálfan mig.
 
Stuttu eftir messuna gekk Valdís að eldhúsbekknum og byrjaði að færa til hluti og tína fram aðra hluti. Ég spurði hana hvað hún ætlaði að fara að gera og hún sagíst nú vilja vera í friði með sína eigin óreiðu á eldhúsbekknum um stund. Stuttu seinna veltist yfir eldhúsbekkinn hveiti sem hún bleytti með heitri mjólk og í hönskum var hún, ötuð í blautu hveiti, og vissulega var óreiða næst eldhúsvaskinum. Þar ægði saman eggjaskurn ásamt einhverjum umbúðum, sleifum, skeiðum og spöðum sem tilheyrðu þessari framkvæmd. Ég fór út til að sinna mínu og það fyrsta var að moka snjó úr slóðum og innkeyrslunni að bílskúrnum. Ég ætlaði að gera eins og hún óskaði að blanda mér ekki inn í þessar athafnir.
 
Nokkru síðar ilmaði nágrenni hússins af nýsteiktu soðiðbrauði. Það var greinilegt að það var fleira en Valdís sem var í gangi. Eldhúsviftan virkaði augljóslega líka og dældi út þessari góðu lykt sem setti í gang gerfihungur mitt. Svo tilkynnti Valdís að það væri til nýtt kaffi og soðiðbrauð. Það var nú komið skipulag á eldhúsbekkinn aftur og eftir kaffitímann sneri hún sér aftur að eldhúsbekknum og nú byrjaði hún á jólaísnum. Þegar ég talaði um hvort það væri ekki hægt að dreifa þessu niður á dagana ansaði hún mér ekki. Það hefur alltaf fundist svolítil ótemja í þessari konu. Mér varð hugsað til þess þegar hún gekk að verki sem ung kona, þá innan við tvítugt, að það gekk undan. Þegar hún vaskaði upp og ég þurrkaði hafði ég ekki við. Svo vildi ég seinna skipta um hlutverk og vaska upp til að sýna henni að ég gæti verið fljótur líka en þá var það hún sem beið eftir mér.
 
Þegar ég skrifa þetta minnist ég atviks í Örebro fyrir fjölda mörgum árum. Kona sem Valdís þekkti leitaði hjálpar okkar þar sem hún hafði læst lyklana inni í bílnum sínum. Það var áríðandi fyrir hana að komast inn í bílinn því að hún ætlaði snemma morguninn eftir upp í Dali í viðtal þar sem hún hafði verið ráðin sem skólastjóri. Við fórum með henni að bílnum og ég með vír sem ég hélt að mundi verða til hjálpar við að ná upp læsingahnappnum. Ég bjástraði lengi við þetta sem ég hafði oft þurft að gera við mína bíla og með góðum árangri. Nú vildi ég gjarnan verða til hjálpar en gekk illa. Allt í einu spurði þessi ágæta kona mig spurningar sem ég átti ekki von á. Hún spurði mig hvort ég vissi örugglega hvers konar afbragðs góðri konu ég væri giftur. Ég varð hissa en hún bara var þannig sjálf þessi kona að spurningin var ekki óþægileg eða skrýtin. Ég sagðist vita það en ég held að ég hafi haft gott af að vera spurður þessa. Við sáum eftir henni þegar hún flutti frá Örebro.
 
Ég var vissulega með ákveðna hluti í huga þegar ég byrjaði á þessu bloggi en svo varð það allt annað sem sem fæddist. Mér tókst ekki að opna bílinn fyrir skólastjórann upp í Dölum en seint og síðar meir birtust þarna einir þrír ungir menn og við ræddum um það í hálfum hljóðum að þeir væri til alls vísir þessir dularfullu náungar. Þeir mundu líklega vera vanir svona vinnu að næturþeli. Við spurðum þá og þeir töldu sig geta orðið til hjálpar en svolítið voru þeir spotskir á svip. Mér til mikillar ánægju gekk þeim illa að opna bílinn en það bjargaðist þó að lokum. Mér fannst sem ég héldi meiri reisn fyrst þeim gekk illa.

Sitt lítið af hverju

Það varð aldeilis breyting í veðrinu. Það er kominn eins stigs hiti og það á að vera eins stigs hiti í tvo daga. Síðan á að kólna með hógværð niður í fjögurra til sex stiga frost. Þessi hlýnun olli auðvitað snjókomu meiri hluta dagsins, svo sem tíu sentimetrar mælist snjókoman í dag. Seinni partinn í dag mokaði ég mig á nokkra staði sem ég þurfti að komast að hér heima og það er jöfn 40 sm snjódýpt yfir öllu núna. Þetta hlýtur að vera kjörfæri fyrir hestasleða, en það datt mér í hug áðan þegar ég sá mynd norðan úr Dölum  á Facebook.
 
Eigandi þessarar myndar er hún Kerstin Korsgren í Borlänge og það er dóttir hennar sem stendur hjá hestinum. Kerstin lánaði mér myndina með ánægju. Fólk upp í Dölum er duglegt við að halda í hefðir og þetta er hluti af því. Ég gæti alveg hugsað mér að setjast þarna í sleðann hjá jólasveininum og aka um svæðin kringum Borlänge og Falun. Mikið yrði svo gott að koma inn á eftir og fá sér heitt kakó og brauðsneið með góðu áleggi.
 
*
 
En við hér heima höfum sýslað við allt annað en hestasport í dag. Það má segja að það hafi náðst ákveðinn áfangi hér í dag. Okkur hefur vantað þurra og góða geymslu, það stóra að það sé hægt að ganga á milli kassastæðana þegar búið er að raða upp við báða veggi. Ég náði því í dag að gera svona geymslu nothæfa þó að hún sé alls ekki búin. Á meðan sorteraði Valdís ýmis konar dót sem þolir að vera í óupphitaðri geymslu og gekk frá því í kassa.
 
Hér er nefnilega þessi geymsla, uppi í risinu í Bjargi. Ég fór Um mitt sumar til hans Bengts í BFs byggingavöruversluninni og bað hann að fá hugmynd að sperrum þar sem ekki væri fullt með stífur og stoðir sem eyðilegðu allt geymnslupláss. Hann hafði samband við trésmiðjuna sem smíðar sperrurnar fyrir þá og daginn eftir hringdi hann til mín og sagði mér að koma til að skoða. Mér datt þetta aldrei í hug, svona gríðarlegt geymslusvæði. Það kostaði að hafa talsvert breiðara efni í sperrunum og þær urðu dálítið dýrari í innkaupum, en það var bara alls ekki hægt að ganga framhjá því að fá tæplega fjögurra metra breiða geymslu þarna upp í risinu. Lúgan á gaflinum á móti er 95 sm há og 80 sm breið þannig að hún gefur góða hugmynd um stærðina. Kasaarnir sem Valdís sorteraði í í dag eru nú komnir þarna upp og ég raða þeim svo á sinn stað á morgun eftir sjónvarpsmessuna.
 
Ég las um myglu í húsum á Íslandi um daginn og þess vegna birti ég þessa mynd. Það á að vera gott loft uppi í risinu og því er góð loftræstirauf á báðum hliðum. Fyrir henni er alúmíníum net þannig að kraftaverkamýs sem kæmust upp undir þak verða að láta þarna staðar numið. Geitungar verða líka að gera bú sitt annars staðar en uppi í risinu og flugur af öllu tagi verða líka að láta þarna staðar numið. Einangrunin er 21,5 sm og þá er eftir að bæta vel ofan á þessa einangurun alla og klæða svo samfellt gólf á milli stoðanna. Það verður ekki gert á næstu vikum og dót verður bara sett upp í annan endann að sinni. Upphitaða geymslan verður svo niðri og hún verður ekki gerð í stand á næstu vikum heldur. Það er eins og stólpinn þarna lengst til hægri halli en ég get sko upplýst að hann hallar hreint alls ekki. Ég skrifa hallann á myndavélina.
 
Varðandi loftræstinguna, þá er einangrað á milli sperra í íbúðarhúsinu, en þar er 5 sm loftræsting yfir allri einangruninni. Þar verður engin mygla. Það kostar bæði svolitla peninga og töluverða vinnu að gera svo, en ég endurtek; þar verður engin mygla.
 
Ég segi svona frá þessu vegna þess að ég veit um fólk sem vill gjarnan vita hvernig við gerum. Þeir sem ekki hafa þann áhuga geta þá valið að sleppa lestrinum.
 
Eftir morgundaginn ætla ég að einbeita mér að jólaþrifunum. Valdís bítur stundum í sig að gera allt mögulegt og ég hreinlega verð stundum að stoppa hana. Hún er sko hreint ekki af baki dottin konan mín. Hér áðan var hún að tala um að baka döðlutertu og soðiðbrauð og það ætti bara að nægja fyrir hana. Já, og svo bað hún mig að kaupa rjóma í dag þar sem hún ætlaði að búa til rjómaís fyrir jólin.
 
Ég veit af reynslunni að þegar ég er byrjaður á að þrífa, þá er erfitt að stoppa mig. Ég vil gjarnan leggja mig á hnén og næstum sleikja öll horn, gera alveg sérstaklega vel fyrir jólin. Þegar við bjuggum á bjargi tók ég eldhúsgólfið alltaf hreint á þann hátt og fannst að bara ég mætti gera það. Ég á svolítið erfitt með að hætta því. Og svona til gamans; á mánudaginn ætla ég að fara mjög svo léttklættur inn á bað og þrífa það svo um muni.

Rútuferð um þýskaland, það er málið!

Upp úr klukkan átta í gærkvöldi þegar ég lagði af stað heim eftir minn vikulega AA fund í Fjugesta stóð hitamælirinn í bílnum mínum í 22 stiga frosti. Á leiðinni heim var frostið allt niður í 25 stig á oppnu akursvæðunum. Síðastliðna nótt og í morgun hefur verið mikið um 25 stiga frost hér á svæðinu. Um helgina á að hlýna, jafnvel að verða hiti yfir frostmarki, en ég vona að það fari ekki að skiptast á frost og hláka. Eftir helgina á að kólna á ný.
 
Það var ekki fyrr en rúmlega átta í morgun sem ég leit út um vesturgluggann og þá var sem sagt ennþá kaldara en í gær. Eina 80 metra frá vesturglugganum stóð elgskú með tvo kálfa við hlið sér. Ég fór inn til Valdísar og sagði henni að nú yrði hún bar að koma fram og sjá. Svo horfðum við all nokkra stund á þessa tignarlegu elgi þar sem þeir bara stóðu þarna og skimuðu í kringum sig. Ég hugsaði nu bara hvernig það væri eiginlega hægt að standa kyrr langan tíma í 25 stiga frosti. Eftir dágóða stund heldu elgirnir í átt að næsta skógi og hlupu með þessum undarlega svífandi hreyfingum. Ég get unnað þeim alls hins besta en ég vona samt að þeir láti ungeikurnar í skóginum okkar vera þennan vetur líka, annað árið í röð. Þá munu margar eikur komast á táningsaldurinn og þá fer þeim að vera borgið.
 
Elgir eru nokkuð sem alltaf dregur að sér athyglina og fólk sem sér elg hefur alltag eitthvað að segja frá, líka þeir sem hafa lifað við hlið þeirra alla ævi. Geitungurinn sem til all nokkrar furðu byrjaði allt í einu að surra bakvið mig í gærmorgun hér innan húss var allt annars eðlis. En þegar hann leitaði á gruggarúðu og virtist vilja komast út , þá sleppti ég honum sannarlega út þó að hann ætti ekki möguleika á að lifa svo lengi í því hitastigi sem þá var.
 
En nú var kominn nýr morgun og tími fyrir morgunverð, þennan gamalkunna hafragraut með nokkrum rúsínum í. Eitthvað verður að setja lit á daglega lífið og þá eru rúsinurnar góðar að grípa til. Svo þegar þær hafa verið notaðar í grautinn nógu lengi verða þær líka hluti af hversdagsleikanum. Ekki verður grauturinn svo verri með hálfum banana sneiddum út á grautinn. Svo er bara að gleyma ekki D-vítamíninu sem ku vera sérstaklega gott fyrir fólk á miðjum aldri um sjötugt. Eftir þennan góða morgunverð og nýburstaðar tennur fyllti ég kerruna af umbúðum og drasli og hélt til tannlæknisins. Ekki ætlaði hann að taka við ruslinu en það er gott að slá fleiri en eina flugu í högginu þegar farið er inn í Örebro á annað borð.
 
Ég kann vel við þennan tannlækni sem er þýskur og heitir Jóhann eða Jóhanni. Við getum einhvern veginn hitt naglana á höfuðið hvor hjá öðrum. Svo var það líka með 25 ára þýskan mann sem var með mér í fullorðinsfræðslu fyrir mörgum árum. Þó að ég væri hátt í 40 árum eldri en hann hlógum við oft að sömu hlutum. Jóhann giskaði á að ég væri finnskur en ég leiðrétti það. Johann skilur mig ekki alltaf í fyrstu tilraun en þá kemur aðstoðarkonan til hjálpar og endurtekur það sem ég segi og þá skilur hann. Hann sagði að rútuferð um Þýskaland mundi ekki skaða mig og mikilvægt væri að ég mundi þá lenda á landsins fegurstu stöðum. Við ákváðum að hittast á ný eftir tvö ár og ég sagði honum að kannski mundi ég þá geta sagt honum fréttir frá Þýskalandsferð. Hver veit? Hvað skyldi Valdís segja um það?
 
Seinna í dag borðuðum við Valdís jólamat í IKEA. Það var alls ekki vitlaust og aðeins tilbreyting á hversdagsleikanum. Diskarnir voru örðu vísi en heima, kaffibollinn og hnífapörin einnig og maturinn var bara góður. Svo sáum við fullt af fólki sem flest virtist slappa vel af yfir jólamatnum og hafði margt að spjalla um. Það er líka það góða við að gera svona að það skapar umræður, bara þetta að setjast niður meðal almennings á notalegum stað og borða góðan mat.
 
Annars er það mikið Lucia í dag og það var gaman þegar við komum heim. Ég fór að bera inn við til að nota næstu dagana og allt í einu sagði Valdís; nei! en gaman! komdu og sjáðu. Þá var Lucialið að ganga syngjandi inn í Uppsaladómkirkju og sjálf Lucian var svertingi, ærlega dökk á húð og hár, og þarna var hún falleg og örugg í sínu hlutverki og brosti breitt og söng. Það er ekki svo langt síðan Lucian var með ljóst sítt hár, og bara þannig, en nú er búið að brjóta upp þann sið og hleypa öðru fólki að. Það var ABBA Benny Andersson ásamt fleiru færu fólki sem stóð á bakvið þetta.
 
Heyrðu mig nú? Klukkan er orðin hálf tíu og hér sit ég og bara blaðra. Þetta er búinn að vera alls konar dagur með mörgu öðru en ég hef nefnt hér. Þeir eru þannig ellilífeyrisþegadagarnir að það er vel hægt að gera þá margbreytilega. Ég hef litið fram hjá byggingarvinnu í dag utan að ég dró heim svolítið af byggingarefni í Örebroferðinni í dag. Nú þegar bílskurinn er kominn í gagnið (ekki fullbyggður) er svo nauðsynlegt að setja bílinn inn að ég skil ekki hvernig það gat gengið að vera án hans í hátt í þrjú ár. Nú notum við motorhitarann og ofn í farþegarýmið og það er hreinn lúxus að leggja upp í bílferð í vetrarkuldanum.

Vinarbragð

Þegar við Valdís komum heim úr Örebroferð nokkru eftir hádegi í dag var ég svolítið í sjöunda himni og orðin léku í höfðinu á mér. Ég var með ákveðið atvik í huga sem ég stofnaði til að yfirlögðu ráði og ég var glaður yfir uppátækinu. Ég hugsaði mér að blogga um það í kvöld.
 
Eftir að við komum heim var ýmislegt að sýsla, að ganga frá fullri kerru af einangrun sem ég kom með heim og setja umbúðir og allt mögulegt á kerruna aftur til að fara með í endurvinnsluna. Öðru hvoru leit ég inn í bæ og í eitt skiptið lyktaði af vöfflum. Þá tapaði ég sjálfsaganum og borðaði meira af vöfflum en ég vil segja frá. Í einni af þessum ferðum mínum inn spurði Valdís hvenær ég ætlaði að setja ljósið upp í forstofuna. Eitthvað herptist saman innan í mér og að ég hafði einhvern tíma keypt þetta ljós var alls ekki til í huga mér. Það var löngu gleymt og ég var viss um það að ég hafði ákveðið þegar ljósið var komið heim á sínum tíma að þetta sæi hann Patrik rafvirki um. Ég er ágætur við ýmislegt en að eiga við rafmagn á ég alls ekki að láta mér detta í hug að gera.
 
En ég sá spurninguna sem áskorun og svo fór ég í uppsetningu á þessu blessaða ljósi, gegn vilja mínum og með hálfgerðum hundshaus. Svo þegar rafmagnið allt í einu fór af húsinu sá ég mikið eftir því að hafa farið út í þetta. Andagiftin var nú með öllu horfin á braut og lífið var orðið grátt og tilgangslítið. Ljósið komst upp að lokum og ekki gat ég neitað því að það var býsna snoturt og passaði mikið betur í forstofuloftið en bráðabirgðalampinn sem hafði hangið þar allt of lengi. Svo fórum við að borða, Valdís alsæl yfir hálfum sviðakjamma og ég með gæðalax frá djúpum fjörðum í Noregi -en hundshausinn át frá mér lífsgæðin.
 
Það var barnaefni í sjónvarpinu og það fór að mestu leyti inn um annað og út um hitt en þó tók ég eftir orðinu "alkemist" -gullgerðarmaður. Svo fórum við að tala um orðið gullgerðarmaður. Ég sagði Valdísi frá bókinni Alkemisten -sem sagt gullgerðarmaðurinn- en í þessari bók var gullgerðarmaðurinn meira í hlutverki hins vísa manns. Fjárhirðir á Spáni óskaði sér að fara út í heim og því seldi hann féð sitt, tók sig yfir Gíbraltarsundið og hóf ferð um norðanverða Afríku. Hann lenti í ýmsum ævintýrum og fyrsta ævintýrið var að tapa öllum peningunum sem hann hafði fengið fyrir féð sitt. Hann var góður fjárhirðir en hann var hins vegar algerlega bláeygur fyrir hinum ókunna heimi.
 
Að lokum hitti hann gullgerðarmanninn sem einmitt var afar vís maður. Dag einn riðu þeir hestum í grýttri eyðimörk og nálguðust átakasvæði. Allt í einu sáu þeir tvo hermenn koma ríðandi og fjárhirðirinn sagði hræddur að nú yrðu þeir drepnir. Gullgerðarmaðurinn tók þessu með mikilli yfirvegun og sagði: Einhvern tíma deyjum við hvort sem er, er þetta nokkuð verri dagur til þess en einhver annar? Svo voru hermennirnir komnir til þeirra, þeir ræddust svolítið við og svo riðu þeir á braut á ný. Þeir höfðu engan áhuga á að drepa vísan gullgerðarmann og fjárhirði frá Spáni. Þegar fjárhirðirinn var búinn að hitta gullgerðarmanninn og sjá heiminn valdi hann starf fjárhirðis á ný, fór heim til átthaganna og eignaðist kindur á ný.
 
Þegar ég var búinn að segja Valdís frá þessu litla ágripi úr bókinni Gullgerðarmaðurinn var hundshausinn horfinn á braut. Hundshausinn nefnilega þoldi alls ekki svona umræður og atvikið sem ég stofnaði til í morgun tók völdin á ný. Það var nefnilega svo að við Valdís lögðum af stað héðan að heima klukkan rúmlega tíu í morgun. Valdís ætlaði í verslunarmiðstöðina í Maríeberg þar sem er að finna yfir 100 verslanir undir einu þaki á 4,5 hektara svæði. Þar fór hún úr bílnum en ég hélt áfram með ruslið í endurvinnsluna og síðan í BFs byggingarvöruverslun. Þar ætlaði ég að kaupa einangrun en fyrst að borga all háan reikning
 
Bert á þessa byggingarvöruverslun og ég komst svolítið í kynni við hann fyrir einum tíu árum. Þá byrjaði ég að koma þangað og hann var stundum við afgreiðslu á þeim tíma. Við áttum það sameiginlegt að ég haltraði með lélega mjöðm en Bert hlatraði með lélegt hné. Kannski var það þetta sem dró okkur saman á þeim tíma. Annars er það svo með Bert að hann hefur gengið í gegnum mikið og alvarlegt sjúkdómaferli síðustu 20 árin sem hefur oft hindrað hann í að vinna svo mánuðum skiptir. Í þessari verslun höfum við keypt ein 80 % af öllu efni í Sólvelli og enn sem komið er nánast allt efni í Bjarg. Seinni partinn í sumar voru peningarnir búnir og þá var um tvennt að ræða; að staldra við með framkvæmdir eða semja einhvers staðar. Ég valdi að fara til Berts með stóran reikning í hendinni og spyrja hann hvort hann gæti geymt hann í einhverja daga, en það var reikninginn sem ég borgaði í dag.
 
Ekkert mál svaraði Bert, 50 dagar er ekkert vandamál þó að það standi 30 dagar á reikningnum. Eftir 35 daga kom ég svo í verslunina og þá var bara haust, enn með reikninginn í hendinni, og sagði við Bert að nú ætlaði ég að borga hann. Hann eins og hálf skrúfaði sig til í stólnum og spurði hvort ég væri búinn að fá peninga. Nei svaraði ég, ég þarf að flytja peninga frá Íslandi en vegna gjaldeyrishafta get ég það ekki fyrr en eftir áramót. Ég sagðist ætla að borga með korti og láta það svo fljóta fram yfir áramótin þangað til ég gæti flutt peninga. Heyrðu, sagði Bert mjög ákveðinn, þú borgar þetta ekkert fyrr en um miðjan desember og nú förum við og tölum við stelpuna. Bert stóð upp og gekk mjög ákveðnum skrefum með reikninginn í hendinni og við lögðum af stað til að hitta stelpuna sem reyndar var kona um fimmtugt, kölluð Lotta. Hún sér um reikningagerð og innheimtu. Bert sagði henni að taka þennan reikning og plokka hann út úr dráttarvaxtakerfinu og að senda ekki áminngar. Svo sneri hann sér að mér og sagði: Haltu svo áfram með bygginguna ef þú vilt. Þú getur haldið áfram að kaupa hér.
 
Já, og hvað segir maður svo? Ég hef út af fyrir sig enga ástæðu til að opinbera fjárhag minn fyrir fólki, en ef ég vil segja frá vinarbragði verð ég að gera svo. Ég sagði Rósu dóttur okkar frá þessu og hún sagði að menn ættu erfiðara með að gera svona gagnvart mönnum. Svo útskýrði hún það nánar og mér fannst fróðlegt að heyra þá umfjöllun hennar. Ég ákvað að segja Bert frá þessu þegar ég mundi koma og borga reikninginn sem ég ákvað að gera þann 10. desember.
 
Svo var tíundi desember kominn, Valdís byrjuð að dunda sér í Marieberg og ég á leið til Berts í byggingarvöruverslunina. Ég gat gert upp reikninginn án þess að hitta hann en ég æltaði að standa við ákvörðun mína. Ég gekk upp á skrifstofuna hans og þarna sat þessi heilsuhrjáði maður við skrifborðið sitt. Hann var löngu hættur að koma nálægt afgreiðslu. Það er búið að vera honum um megn í nokkur ár. Þessi stóra kúla sem hann er með undir bringsbölunum er vegna kviðslits sem erfitt er að laga. Hann varð fyrri til að spyrja hvernig ég hefði það. Þegar ég spurði hann hvernig honum liði svaraði hann að hann hefði það "fjandi" gott. Hann veit að ég veit hvernig hann hefur það. Svo lagði hann hendi á stóru kúluna undir bringsbölunum og sagði að hann gæti ekki sagt að þetta væri skemmtilegt. Það dofnaði yfir andlitinu.
 
Ég tók upp reikninginn, sýndi honum, og sagðist vera kominn til að borga, en ég sagðist vilja segja honum dálítið áður en ég borgaði. Ég sagði honum að dóttir mín í Stokkhólmi væri mannfræðingur, til og með doktor í greininni, og hún hefði sagt mér að það væri erfitt fyrir menn að mæta mönnum á þann hátt sem hann hefði mætt mér í haust, en hann hefði gert það á svo sérstakan hátt og það hefði hjálpað mér mjög mikið. Fyrst varð honum orðfall. Svo sá ég hvernig augu hans urðu vot og einhver þakklátur gleðibjarmi fyllti andlitið. En ég get alveg gert svona sagði hann eftir stundarþögn. Já, það er þess vegna sem ég segi þér þetta, þú getur það en það geta alls ekki allir og ég segi þér þetta vegna þess að ég er þér þakklátur. Ég fullyrði núna að við Bert erum vinir. Óumbeðinn gerði hann mér greiða sem ég sé ekki sem viðskiptalegs eðlis, heldur sem vinarbragð. Ég reyndi að sýna honum vinarbragð á móti. Hann á að mæta hjá læknum þann 17. desember til að athuga kviðslitið. Ég vona að honum gangi vel.
 
Vinarbragðið gerði mér kleift að fara með 14 sekki af einangrun heim á kerrunni í dag og það er ekki fyrsti farmurinn. Ef ég hefði verið að skrifa þetta á sænsku hefði ég ekki gert það án þess að fá leyfi hjá Bert, en ég tel að það sé í lagi að segja það á íslensku.

Hjalmar var í essinu sínu.

Ég stóð við eldavélina í morgun og hrærði í hafragrautnum mínum. Ég var eitthvað að velta því fyrir mér hvernig maturinn mundi verða á revíunni sem við ætluðum að fara á í hádeginu. Hann mundi líta vel út, borinn fram í veislubúnum sal við fallegar aðstæður af myndarlegu fólki. Svo mundi hann bragðast vel eftir því. Hafragrauturinn í pottinum hjá mér leit ekki vel út, einhvern veginn grábeisbrúnn á litinn, ólystileg lella með nokkrum rúsínum í sem ekki gerði hann ásjálegri nema síður væri. Og ekki var ég sérlega myndarlegur þar sem ég hrærði í pottinum, nýlega vaknaður, með blautt hárið eftir sturtuna, ennþá hálf stirður og ekki sérlega svangur. Ekki bætti það svo úr að í þessum hugleiðingum gleymdi ég að lækka strauminn á hellunni þannig að grauturinn festist meira við botninn en venjulega, þó án þess að brenna við, en ég fann á því hvernig sleifin hnökraði þegar ég hrærði að það yrði vont að þrífa pottinn á eftir.
 
Svo setti ég hafragrautarlelluna á disk og borðaði. Hann var reyndar jafn ágætur á bragðið og venjulega, en það er bra þannig með hafragraut, svo ágæt fæða sem hann er, að það er sem hann sé fæddur til að líta ólystilega út. Ég minntist hans Hannesar Guðjóns nafna míns þegar hann fékk harfagraut fyrir löngu síðan, ótalandi var hann, og þegar hann smakkaði á fyrstu teskeiðinni skókst þessi litli kroppur af ógeði. Svo borðaði hann skyldurækinn og án þess að kvarta allt sem honum hafði verið skammtað. Ég borðaði líka allt sem ég hafði soðið og sett á diskinn minn án þess að þurfa að kvarta og varð gott af.
 
Þegar við komum á revíuna og gengum í salinn var það eins og mig grunaði að þessi stóri salur var fallega dúkaður í hvítu með glansaði leirtaui og mörgum vel upp röðuðum glösum sem stirndu í mjúkri lýsingunni. Forrétturinn var þegar kominn á borðin, kringlótt dúsa í lófastærð skreytt með rauðgulum hrognum. Með okkur sátu við borðið tvær konur heldur yngri en við, frá einhverjum stað utan við Örebro þar sem þær höfðu komið með lest. Þær voru vingjarnlegar sem ég held að við höfum líka verið en við nenntum ekki að tala sænsku okkar á milli og kunnum ekki almennilega við að tala íslensku heldur. En þetta var í besta lagi eins og allt annað var þarna í dag.
 
Hjalmar var í essinu sínu enda eins gott því að all nokkrar rútur, stórar og heldur minni, voru þarna á bílastæðum í kring, þannig að margir höfðu komið um lengri veg til að fá eitthvað fyrir aurana sína. Sex leikarar tóku þátt í revíunni. Maturinn var góður og revían var góð. Það var margt sniðugt, margt fallega sungið og dansað og margt fallega gert. Hann veit hvað hann er að gera hann Hjalmar enda enginn nýbyrjari í faginu. Allt í einu stóðu tvær ungar, fallegar konur á borðum milli okkar og sviðsins, þær bara voru þarna allt í einu, og svo dundi músik. Þarna dönsuðu þær á borðunum, léttklæddar en ekki dónalegar, og mér varð hugsað hvort Hjalmar væri að reyna að vekja líf í gömlum æðum. Sjálfur er hann 65 ára. Hann vitirst stundum í vandræðum með að fara ekki að hlæja sjálfur að því sem hann var að rausa og stundum var eins og hann semdi það jafn óðum. Eftir rúma fjóra tíma lögðum við af stað heim.
 
Við Valdís erum bæði búin að sofna smá stund í stólunum okkar undir sjónvasrpsfréttunum. Hjalmar vakti ekki meira líf í æðum okkar en svo. Það var lítið um kvöldmat utan ostaköku með þeyttum rjóma og týtuberjasultu (lingonsultu). Það er einn stór galli við týtuberjasultuna. Hún er svo góð að öll önnur sulta verður hálf bragðlaus þegar maður venst henni. Hafragrautarpotturinn er orðin hreinn og kominn á sinn stað. Valdís fékk tvo miða á Hjalmar í afmælisgjöf og ég er henni þakklátur fyrir að bjóða mér með. Ég reiknaði líka með því þegar ég keypti miðana.

Vetrardagar

Eins og venjulega voru fyrstu frostdagarnir býsna kaldir. Það var eins og engin föt nægðu og kuldinn smaug lúmskur alveg inn á skinnið. Ég gaf mig ekki og fór inn og sótti meiri föt, aftur og aftur, og hélt áfram úti við og svo var eins og ég vendist frostinu.
 
Þessa mynd birti ég á Feisbókinni í gær en svo breytti ég henni svolítið. Stundum æfi ég mig í því að gera eitthvað öðru vísi en alltaf áður og ég tók neðan af þessari mynd til að gera húsin meira áberandi. Húsið þarna til hægri, húsið sem við köllum Bjarg, er ekki eins tilbúið og það kannski lítur út fyrir að vera. Það til dæmis vantar gerefti bæði á glugga og dyr. Svoleiðis kemur ekki fyrr en seinna þegar einangrun er komin í húsið og hægt verður að hita aðeins upp til að geta málað inni. Ekki set ég upp ómáluð gerefti. Vinnupallarnir hans Anders smiðs eru í haug þarna lengst til hægri. Hann er núna að vinna við næst næsta hús norðan við okkur og ætlar að nota vinnupallana þar, þannig að þeir fá að liggja þarna enn um sinn.
 
Næsti haugur, sá sem ber í bílskúrshurðina, er bekkur sem ég smíðaði undir vélsögina mína árið 2006. Haganlegur bekkur er það og hefur komið að miklu gagni en hann hefur alltaf verið úti og er nú orðinn hrumur af fúa. Við tækifæri ætla ég að smíða nýjan bekk, mikið minni, og hafa hann á tveimur hjólum þannig að ég geti ekið honum eins og hjólbörum þangað sem ég vil hafa hana hverju sinni. Þessi gamli bekkur fer á haugana fljótlega. Svo er kerran okkar þarna. Hún á að fá stæði við suðurgaflinn á Bjargi svona þegar vorar. Þá er komið að leikturninum hans Hannesar sem er fyrir miðri mynd. Að vori verður hann málaður í stíl við húsin og þá á hann að falla inn í umhverfið.
 
Svona er eitt og annað eftir og ég gæti haldið lengi áfram með að telja það upp. En hins vegar er það svo að þegar Bjarg verður komið í notkun, þá er full byggt á Sólvöllum. Annað verður svo frístundavinna framtíðarinnar ásamt því að hlú að skóginum. En að byggja Bjarg var stærra verkefni en svo að það gæti kallast frístundavinna. Annars var ég að byrja að einangra aftur í dag eftir að slíkt hefur legið í láginni í nokkrar vikur. Þegar ég var kominn í gang varð svo gaman að ég ætlaði ekki að geta hætt þegar kvöldmatartíminn gekk í garð.
 
Peysan sem ég er í þarna er frá síðari árunum sem við bjuiggum á Bjargi. Þá prjónaði Valdís hana. Ég er þarna í annarri peysu undir henni en hún nægði ekki. Þá var bara að bæta á og í þessari peysu varð mér loks almennilega hlýtt. Þá varð líka gaman að vinna. Ég á aðra sannkallaða vetrarpeysu, en þá peysu prjónaði Valgerður fyrir mörgum árum. Hún verður til taks ef annað þrýtur.
 
Í rökkurbyrjun tók ég þessa mynd. Hún er vetrarleg en vetrarlegra getur það orðið. Myndavélin réði ekki alveg við þetta og skógurinn var fallegri en fram kemur á myndinni. Ég hef oft sagt að upp koma augnablik eða stundir á veturna þegar ég get alveg spurt mig hvort sé fallegara sumar eða vetur. En þær stundir er skógurinn ennþá fallegri en nú. Þá er allt þakið hrími líka. Þegar sólin byrjar svo að skína við þær aðstæður á morgnana er umhverfið algerlega ólýsanlegt. Snjódýpið núna er 30 sm og aldrei slíku vant eru aðeins skaflar hér. Þar er snjódýptin vel upp í hálfan meter. Hálfur meter! Fleiri metrar var það í Hrísey forðum daga þegar margra daga stórhríð slotaði. Við söknum ekki þeirra skafla.
 
Á morgun er frídagurinn mikli. Þá förum við Valdís á revíu og þar eigum við að vera mætt í hádeginu. Takið nú eftir; í hádeginu. Svo verður revía fram eftir degi og þríréttaður matur borinn fram milli atriða. Svo komum við heim á kvöldmatartíma en þurfum væntanlega ekki að fá okkur að borða. Revíuhaldarinn kallar sig Hjalmar. Hann er maður rúmlega sextugur, giftur mikið yngri konu. Ég sagði um daginn að Kalli frá Orsa sé einhvern veginn þannig maður að þegar hann gengur fram á sviðið með hálf útbreiddan faðminn, þá bara verða allir glaðir. En Hjalmar hefir til að bera annan eiginleika. Þegar hann gengur fram á sviðið fara allir að hlæja. Honum verður á að hreyfa annan fótinn eitthvað öðru vísi, hálf hrasa um eitthvað, spyrja skrýtinnar spurningar, sjúga upp í nefið eða vera seinn að fatta, og hann einfaldlega gerir þetta á þann hátt að það verður hlægilegt. Eitthvað er það þegar fólk kemur hvaðanæva að úr landinu til að upplifa Hjalmar í Örebro og fá sér að borða.
 
Morgundagurinn verður góður dagur og við værum ekki að fara þetta akkúrat núna ef Valdís hefði ekki átt afmæli um daginn.

Brún terta, snjómokstur og gluggatróð

Það var löngu eftir að hann Mikki hafði rutt vegina hér á svæðinu snemma í morgun sem ég rölti af stað með snjóskófluna okkar og ætlaði að "byrja" snjómoksturinn. Ég setti mér að taka moksturinn í áföngum því að þá yrði ekki eins leiðinlegt að moka. Svo þegar ég var byrjaður hljóp mér kapp í kinn og ég lauk mokstrinum í einum áfanga. Ég varð glaður eins og barn en sá þó að það fyllti ótrúlega fljótt í slóðirnar aftur. Svo bar ég inn við til að fylla upp í skarðið eftir upphitun gærdagsins. Þegar ég var búinn að því var það fyrsta sem ég mokaði að hverfa undir nýja mjöll og Mikki var þá líka kominn af stað öðru sinni. Svo var hádegismatur.
 
Meðan ég var inni í mat bað Valdís mig að setja hrærivélina upp á eldhúsbekkinn. Ég renndi grun í hvað stæði til. Ég setti hrærivélina á eldhúsbekkinn og fór svo út á Bjarg að vinna. Þegar ég var búinn að vera þar svo lengi að mér var orðið kalt á höndunum fór ég inn. Það var eins og mig grunaði, hvítt krem í skál var á eldhúsbekknum og Valdís var að leggja fyrsta lagið í brúnu tertuna á bekkinn. Svo tók hún slatta af kreminu og setti í haug á lagið og byrjaði að jafna úr.
 
Ég veit ekki hvernig hún fór að því, en skammturinn af kreminu sem hún lagði á lagið passaði nákvæmlega. Á ég að hjálpa, spurði ég. Nei, svaraði hún og leit ekki upp. Þá var ég þegar búinn að taka mynd og kom mér á ný að verki úti í Bjargi. Svo seint og síðar meir kom pósturinn og ég mokaði slóðirnar á ný. Það eina sem var í okkar póstkassa var DAM, vikurit um einkalíf konungafólks. Nokkru eftir það fór Mikki þriðju umferðina um vegina.
 
Það eru margar vikur, næstum mánuðir síðan við Anders settum gluggana og hurðirnar í Bjarg. En það var fyrst í dag sem ég lauk við að ganga frá gluggatróðinu. Ég var áður búinn að einangra rúmlega helminginn af loftinu. Þegar ég hafði lokið við að ganga frá gluggatróðinu virti ég húsið fyrir mér innan frá og svo skrýtið sem það nú var, þá breyttist andrúmsloftið þar inni við þessa að gerð. Bjarg varð meira eins og hús og hljóð sem bárust inn í húsið dofnuðu og urðu öðru vísi. Það verður gaman þegar ég lýk við að loka loftinu. Annars er ég ekki í neinu kapphlaupi með þetta, en áfangar eru samt alltaf jafn skemmtilegir.
 
Ég giskaði nú á að Valdís væri búin að skera kantana á brúnu tertunni og fannst kominn tími fyrir eftirmiðdagskaffi. Ég fór inn. Akkúrat. Kantarnir lágu í lítilli skál á borðinu og Valdís var að ljúka við að pakka vænum terttubitum inn í plastfólí.
 
Mikið var gott að smakka á þessu. Eini gallinn var bara sá, eins og venjulega, að það var eins og það þyrfti að smakka svo mikið. Ég átti erfitt með að hætta.
 
Þegar ég tók efri myndina virti ég Valdísi fyrir mér. Það sem ég hugsaði var eitthvað á þá leið að hún var farin að líta alveg ótrúlega vel út eftir ómannúðlega geisla- og lyfjameðferðina í sumar. Samt segja læknar að það geti tekið heilt ár að endurheimta sig eftir þetta. Seinna, í eitt skiptið sem ég leit inn, var hún farin að þrífa veggflísarnar milli eldhúsbekks og efri skápa. Þá þáði hún aðstoð mína enda er stellingin við þetta óþægileg. Það verður ekki ofsögum sagt að hún er dugleg hún Valdís og ég þreytist ekki á að segja það.

Við getum ekki tínt allar fallegu skeljarnar á ströndinni

Í fyrradag sá ég all nokkrar fyrirsagnir um réttarhöld sem tengjast frjálslegri meðferð manna á miklum fjármunum, fjármunum sem eru ofar mínum skilningi  að fjalla um. Ég var að hugsa um að lesa eitthvað af þessu en las þó aðeins nokkrar fyrirsagnir og nokkrar línur að auki. Ég hreinlega vildi ekki lesa þar sem mér fannst að ég mundi ekki hafa gott að því. Svo ýtti ég stólnum aðeins aftur á bak frá skrifborðinu og leit þá ósjálfrátt á bókina Kyrrð dagsins.
 
Já, einmitt, það voru einhverjir dagar síðan ég hef lesið vísdómsorðin á síðum þessarar bókar. Á síðunni sem þá blasti við mér vegna stóð eftirfarandi: "Við getum ekki tínt allar fallegu skeljarnar á ströndinni. Við getum aðeins tínt örfáar og fáar saman eru þær fallegri." Anne Morrow Lindbergh (1906 - 2001) Þessi kona var rithöfundur og kona Charles Lindbergh flugmanns.
 
Mér fannst sem það væri ekkert samhengi sem ég gæti fundið með þessum vísdómsorðum og öllum fyrirsögnunum um réttarhöld og miklar vitnaleiðslur sem fyrirsagnirnar í íslenskm fjölmiðlum fjölluðu um. Svo þegar ég var að reisa mig upp úr stólnum til að ganga fram stoppaði ég og leit aftur á vísdómsorðin. Jú, það var akkúrat það. Það er svipað med þessar skeljar og peningana; í hæfilegu magni getur fjármagn skapað lífsgæði, peningar í of mikli magni skapar ófreskjur sem engu eira. Nokkrar skeljar saman eru fallegri en óreiðuhaugur sem við aldrei komumst yfir að ganga fallega frá.
 
*
 
Í gær var spáð mikilli snjókomu. Svo klukkan tæplega hálf sjö í morgun vaknaði ég við að hann Mikki bóndi æddi hér framhjá á stóru dráttarvélinni sinni. Hann var að moka vegina hér og þá gengur það hjá honum. Um sama leyti voru alþingismenn íslendinga að fara heim úr vinnunni. Sá var bara munurinn á gerðum þeirra að alþingismennirnir voru búnir að vinna fyrir laununum sínum með því að afla Alþingi virðingar á ný með ræðuhöldum næturinnar. Mikki var að byrja að vinna fyrir laununum. Svo kom Mikki til baka eftir að hafa farið veginn á enda til norðurs og nú voru öllum allir vegir færir hér um slóðir. Hann er fljótur að hreinsa vegina hann Mikki og gerir ekkert vesen úr því.
 
 *
 
Í dag birti ég á FB íslenska frétt af dönskum manni sem talar um að íslenskur efnahagsbati sé kominn í ljós. Enginn likaði þetta FB-innleg mitt og ég skoðaði blogg um fréttina á Eyjunni. Daninn var bara bjáni. En það voru samt Danir sem spáðu eindregnast af mörgum þjóðum fyrir um íslenska efnahagshrunið og Íslendingarnir gerðu bara grín að Dönum. Ég vona samt að hann hafi rétt fyrir sér. Ég hef ekkert á móti því að ellilaunin okkar Valdísar vaxi aftur að verðgildi um hluta þeirrar helmings lækkunar sem hrunið olli árið 2008.

Tertan með hvíta kreminu

Ég ætlaði svo sannarlega að láta bloggið eiga sig þennan daginn en þegar ég nú leit yfir daginn fyrir háttinn gat ég ekki staðið við það. Í fyrsta lagi þá var hörku frost í morgun, svo sem 15 til 20 stig. En Sólvellir er gott hús sem hlúir að okkur ef við gerum rétta hluti, svo sem að hafa góðan við inni, að hreinlega kveikja upp og hafa loftræstingu hóflega. Svo höfum við líka rafmagnsofna sem sjá um hitann þegar líður á nóttina og hitinn frá kamínunni kólnar út.
 
Tímanlega fór ég bakvið útihurðina og stakk klónni í tengilinn svo að bílmótorinn færi að hitna. Við ætluðum nefnilega í smá bílferð. Í hádeginu fór ég svo með Valdísi að gatnamótunum við Götabro, en ýmsir vita nú orðið hvar það er. Þar ætluðu konur úr kórnum að taka hana með til staðar sem heitir Hällabrottet. Þar átti Hafðu það gott kórinn að syngja fyrir aldraða. Frá Götabro hélt ég svo heim aftur en Valdís hélt hins vegar á vit nýrra ævintýra með þessum kórfélögum sínum. Mér fannst hún hafa verið hálf þögul áður en við lögðum af stað og óskaði nú alls hins besta.
 
Þegar ég kom heim bjó ég mig vel út í veterarveðrið þar sem ég ætlaði að stunda byggingarvinnu nokkra tíma. En þó að ég hefði búið mig vel hafði ég ekki verið svo ýkja lengi úti þegar kuldinn var kominn inn á bera húðina og ég dró mig inn, bætti í kamínuna og gerði nýtt kaffi. Út fór ég á ný og tók dálitla skorpu en svo fór ég enn á ný inn í notalegan ylinn. Þegar ég hafði svo verið um stund úti í þriðja skiptið birtist bíll heim við húsið og þar voru kórkonurnar að koma til baka. Þær vildu skila Valdísi alla leið heim og sjá um leið jólaljósin hjá henni. Svo fóru þær. Ég notaði tækifærið og við tylltum okkur niður með kaffibollana okkar þangað Valdís spratt á fætur, fann rauða glerkúlu niður í kassa, skrúfaði í þessa kúlu peru og svo aðstoðaði ég við upphenginguna. Eftir það fór ég í fjórðu ferðina út í byggingarvinnuna en lét svo staðar numið og byrjaði að dunda mér við smávegir frammi í þvottahúsi.
 
Stuttu síðar heyrði ég að Valdís var farin að vinna við eldhúsbekkinn og mér fannst sem ég þekkti það á hljóðinu að nú væri hún byrjuð á brúnu tertunni með hvíta kreminu. Ég spurði og fékk grun minn staðfestan. Að ég heyrði þetta á hlóðinu lætur kannski undarlega í eyrum en ég kann enga aðra skýringu á þessu. Svo leit ég inn í eldhúsið og þar vann Valdís létt í spori eins og þegar hún dansaði sjómannavalsinn í Sæborg í Hrísey fyrir 40 árum. Ég á mínu hringli hér fram og til baka tók svo eftir því að hún var komin með nýtt deig á borðið og nú var nýtt verkefni komið af stað. Ég spurði hvað væri komið í gang núna og hún svaraði hvatlega: súkkulaðibitakökur. Jahérnanahér. Nú bíður deigið í ísskápnum þess að nýr dagur renni og húsmóðirin á þessum bæ setji í gang eftir morgunverrð og kaffibolla.
 
Hvernig var annað hægt en blogga líka í kvöld? Ég veit að margir velta fyrir sér hvernig Valdís hafi það. Hér hef ég lýst einum degi. Síðar horfði hún um stund á sjónvarp og nú er hún að lesa bók. Lífið er ekki bara þrældómur hjá henni en hún er býsna lifandi manneskja.

Fyrsti sunnudagur í desember

Það er svonefndur skyltsunnudagur í dag. Það þýðir að þar sem það er fyrsti sunnudagur í desember, þá skreyta verslanir glugga sína og bjóða gjarnan upp á eitthvað. Mikið af fólki er á ferðinni og margir hittast, heilsast og spjalla. Kaupmennirnir fá ögn í kassann. Við Valdís fórum stutta ferð til Fjugesta í dag og þar var mikið af fólki á hreyfingu. Við heimsóttum kaupmanninn í Málning og járnvörur og þar fékk Valdís eina stjörnu og tvö aðventuljós. Hún kom einnig pökkum í póst. Svo keyptum við tvo tertubita í Baunin og kakan og fórum að því búnu heim til að fá okkur kakó og tertu. Þetta var okkar þátttaka í skyltdsunnudeginum í ár.
 
Þessi ferð okkar minnti mig á skyltsunnudaginn í desember 1995. Þann dag fór ég í fyrsta skipti til Vornes alla leið frá Falun. Það var 240 km leið í snjó og all miklum kulda, einmitt eins og það er í dag. Þegar ég kom í Vornes í vetrarmyrkri og frosti fann ég ekki eina linfandi sálu þar. Ég varð verulega hissa en ákvað að fara til nágrannabæjarins, Vingåker, og fá mér eitthvað. Ég fann þar hamborgarastað þó að hamborgari væri kannski ekki það sem ég helst vildi fá mér. Það var mikill erill í Vingåker og ég gerði mér ekki grein fyrir hvers vegna. Þá vissi ég ekkert um þessa hefð.
 
Fjöldi fólks var á ferðinni út og inn á hamborgarastaðnum eins og annars staðar. Margir heilsuðu mér, lyftu henti í kveðjuskini, og ég var nú svo aldeilis hissa á því hversu viðmótsþýtt fólk var þarna í Södermanland. Það var eitthvað annað en upp í Dölum. Það var ekki fyrr en all löngu seinna sem ég skildi það að fólk var í hátíðaskapi vegna dagsins. Svo var það einnig í Fjugesta í dag.
 
Þegar ég kom svo aftur í Vornes frá Vingåker fann ég fólk að lokum. Danska konan Jette vann þá helgi og þegar ég kom í fyrra skiptið var hún með alla innskrifaða í grúppu. Þá voru ekki jafn margir innskrifaðir í Vornesi og nú til dags og það fór ekki mikið fyrir fólkinu. Jette tók vel á móti mér og bar fyrir mig smurt brauð og kaffi. Ekki svo löngu seinna hætti hún í Vornesi og ég fékk stöðuna hennar.
 
Þegar við vorum á leiðinni heim frá Fjugesta í dag var frostið 17 stig. Í Fjugesta var frostið 10 til 13 stig, svona eftir því í horum enda götu við vorum stödd. Samkvæmt tölvuspánni á að verða yfir 20 stiga frost annað kvöld en samkvæmt textavarpinu á það einungis að vera helmingurinn af því. En hvað um það; motorhitarinn er kominn í samband og ég þarf bara að setja eina kló í samband við útihurðina, þá fer bílvélin að hitna. Ég er búinn að bera inn talsvert magn af góðum viði og við erum vel undirbúin. Svo er blæja logn í þessu frosti
 
Ps. Ég veit að ég hef bloggað áður um þessa fyrstu ferð mína í Vornes.

Hann stráði kringum sig ljósgeislunum

Þriggja tommu naglarnir kláruðust í gær og ég hefði svo gjarnan viljað hafa eina tíu í viðbót því að þá hefði ég getað lokið einum smá áfanga. Svo var ekkert við því að gera og ég hugsaði mér að kaupa nagla í dag. Samt fór ég út í geymslu og sótti lítinn pappakassa með helling af samansafni af ýmis konar nöglum sem voru bognir og ónothæfir eins og þeir voru í kassanum. Svo ákváðum við í morgun að fara ekki í búð í dag en í staðinn fór ég í litla pappakassan og sorteradi úr honum slatta af bognum þriggja tommu nöglum. Svo hugsaði ég -skal eða skal ekki.
 
Svo ákvað ég "skal" og settist niður með slaghamar og hamar á tröppu fyrir framan mig. Svo tók ég þriggja tommurnar sem ég hafði sorterað úr pappakassanum og rétti þær nægjanlega mikið til að þær gilda sem góðir naglar fyrir mann sem hefur nokkurn veginn tök á hamri. Hálftíma var ég að þessu og þá datt mér í hug að vigta afraksturinn. Tæpt hálft kíló. Það kom mér á óvart. Ég veit að ég verð ekki ríkur af þessu og ég veit líka að ríkasti maður í Sviss hefði ekki orðið ríkur ef hann hefði setið löngum stundum við að rétta nagla. En mér fannst svolítil dyggð í að gera þetta í stað þess að henda öllu saman og þar að auki var þessi stund góð stund til íhugunar. Síðan ætlaði ég út og negla þessa tíu nagla sem vantaði í gær.
 
Þegar ég var að enda við að naglaréttinguna hringdi síminn og ég merkti á Valdísi að þarna hafði hringt einhver sem hún átti alls ekki von á að mundi hringja. Ég heyrði líka á Valdísi að sá sem hringdi ætlaði að koma í heimsókn. Nú gerðist ég forvitinn. Þegar samtalinu lauk gat ég ekki leynt forvitni minni og spurði hver þetta hefði verið. Það var Nils-Erik svaraði hún og hann ætlar að koma í heimsókn klukkan hálf þrjú. Jahérnanahér! Þetta var mikið, mikið gaman að heyra.
 
Nils-Erik er nefnilega fyrrverandi presturinn okkar í Örebro og er nú 75 ára ellilífeyrisþegi og býr í Uppsala. Samt er hann að leysa af í gömlu kirkjunni sinni í Örebro um nokkurra mánaða skeið. Ég steinhætti við að negla naglana tíu og við undirbjuggum svolítið þessa heimsókn. Svo kom Nils-Erik aðeins fyrir klukkan hálf þrjú og þessi hógværi en glaðværi og ákveðni maður hreinlega bara stráði kringum sig ljósgeislunum þegar hann kom inn í húsið. Hann furðaði sig kannski svolítið á því hvernig við hefðum hafnað hérna en þegar hann var búinn að fá skýringar á því var hann ekki lengur undrandi. Hann skildi okkur vel og honum virtist líða vel á Sólvöllum. Svo leið einn og hálfur tími allt of fljótt og gamli presturinn okkar kvaddi og fór og eftir skildi hann hluta af ljósgeislunum sem fylgdu honum.
 
Þar með var komið að næsta atriði, söngæfingu í Krekklingekirkju. Ég fór með Valdísi þangað og dundaði mér svo í einn klukkutíma meðan hún var á æfingunni. Svo var komið að tónleikum í tilefni aðventunnar. Kirkjan var hreinlega troðfull af fólki og samt voru allir söngvarnir trúarlegir eða tengdust jólum eða hvort tveggja. Hvernig gat staðið á þessu í allri umræðunni um fækkun í sænsku kirkjunni og hreinlega andúð margra á tilvist hennar. Meðan ég sat þarna undir kórsöng komst ég að þeirri niðurstöðu að kannski væri það allt saman bara í nefinu á fólki. En hvað um það, kirkjan var troðfull og vissir nágrannar sátu þar á næstu bekkjum. Svo leið einn og hálfur tími allt of fljótt í annað skiptið á þessum laugardegi.
 
Þarna í kirkjunni sá ég eina af dætrum Hríseyjar mitt í hópi kórfólks sem velur sér þennan vetvang sem tilgang í lífinu. Hún leit vel út, frískleg var hún, glaðleg og í essinu sínu. Þetta hefur verið góður dagur hjá okkur báðum. Hún situr nú frammi í dagstofu og hlustar á söngleik í sjónvarpinu. Ég held að hún sé ennþá í essinu sínu þessi Hríseyjarættaða kona. Frostið er um tíu stig en eldurinn leikur sér í kamínunni og stráir hitageislum sínum um húsið þar sem þeir blandast ljósgeislunum sem gamli presturinn okkar skildi eftir hjá okkur.
 
Krekklingekirkja

Utkast: Dec. 01, 2012

RSS 2.0