Hjalmar var í essinu sínu.

Ég stóð við eldavélina í morgun og hrærði í hafragrautnum mínum. Ég var eitthvað að velta því fyrir mér hvernig maturinn mundi verða á revíunni sem við ætluðum að fara á í hádeginu. Hann mundi líta vel út, borinn fram í veislubúnum sal við fallegar aðstæður af myndarlegu fólki. Svo mundi hann bragðast vel eftir því. Hafragrauturinn í pottinum hjá mér leit ekki vel út, einhvern veginn grábeisbrúnn á litinn, ólystileg lella með nokkrum rúsínum í sem ekki gerði hann ásjálegri nema síður væri. Og ekki var ég sérlega myndarlegur þar sem ég hrærði í pottinum, nýlega vaknaður, með blautt hárið eftir sturtuna, ennþá hálf stirður og ekki sérlega svangur. Ekki bætti það svo úr að í þessum hugleiðingum gleymdi ég að lækka strauminn á hellunni þannig að grauturinn festist meira við botninn en venjulega, þó án þess að brenna við, en ég fann á því hvernig sleifin hnökraði þegar ég hrærði að það yrði vont að þrífa pottinn á eftir.
 
Svo setti ég hafragrautarlelluna á disk og borðaði. Hann var reyndar jafn ágætur á bragðið og venjulega, en það er bra þannig með hafragraut, svo ágæt fæða sem hann er, að það er sem hann sé fæddur til að líta ólystilega út. Ég minntist hans Hannesar Guðjóns nafna míns þegar hann fékk harfagraut fyrir löngu síðan, ótalandi var hann, og þegar hann smakkaði á fyrstu teskeiðinni skókst þessi litli kroppur af ógeði. Svo borðaði hann skyldurækinn og án þess að kvarta allt sem honum hafði verið skammtað. Ég borðaði líka allt sem ég hafði soðið og sett á diskinn minn án þess að þurfa að kvarta og varð gott af.
 
Þegar við komum á revíuna og gengum í salinn var það eins og mig grunaði að þessi stóri salur var fallega dúkaður í hvítu með glansaði leirtaui og mörgum vel upp röðuðum glösum sem stirndu í mjúkri lýsingunni. Forrétturinn var þegar kominn á borðin, kringlótt dúsa í lófastærð skreytt með rauðgulum hrognum. Með okkur sátu við borðið tvær konur heldur yngri en við, frá einhverjum stað utan við Örebro þar sem þær höfðu komið með lest. Þær voru vingjarnlegar sem ég held að við höfum líka verið en við nenntum ekki að tala sænsku okkar á milli og kunnum ekki almennilega við að tala íslensku heldur. En þetta var í besta lagi eins og allt annað var þarna í dag.
 
Hjalmar var í essinu sínu enda eins gott því að all nokkrar rútur, stórar og heldur minni, voru þarna á bílastæðum í kring, þannig að margir höfðu komið um lengri veg til að fá eitthvað fyrir aurana sína. Sex leikarar tóku þátt í revíunni. Maturinn var góður og revían var góð. Það var margt sniðugt, margt fallega sungið og dansað og margt fallega gert. Hann veit hvað hann er að gera hann Hjalmar enda enginn nýbyrjari í faginu. Allt í einu stóðu tvær ungar, fallegar konur á borðum milli okkar og sviðsins, þær bara voru þarna allt í einu, og svo dundi músik. Þarna dönsuðu þær á borðunum, léttklæddar en ekki dónalegar, og mér varð hugsað hvort Hjalmar væri að reyna að vekja líf í gömlum æðum. Sjálfur er hann 65 ára. Hann vitirst stundum í vandræðum með að fara ekki að hlæja sjálfur að því sem hann var að rausa og stundum var eins og hann semdi það jafn óðum. Eftir rúma fjóra tíma lögðum við af stað heim.
 
Við Valdís erum bæði búin að sofna smá stund í stólunum okkar undir sjónvasrpsfréttunum. Hjalmar vakti ekki meira líf í æðum okkar en svo. Það var lítið um kvöldmat utan ostaköku með þeyttum rjóma og týtuberjasultu (lingonsultu). Það er einn stór galli við týtuberjasultuna. Hún er svo góð að öll önnur sulta verður hálf bragðlaus þegar maður venst henni. Hafragrautarpotturinn er orðin hreinn og kominn á sinn stað. Valdís fékk tvo miða á Hjalmar í afmælisgjöf og ég er henni þakklátur fyrir að bjóða mér með. Ég reiknaði líka með því þegar ég keypti miðana.


Kommentarer
Rósa

Nej, Hannesi fannst hótelhafragrautur ekki góður.

Svar: Þetta tilfelli er eftirminnilegt. Liklega var það í Uppsala.
Gudjon

2012-12-08 @ 23:01:32
Rósa

Nebb, þetta var á Hótel Amaranten þegar við bjuggum þar í kringum doktorsvörnina mína.

r

Svar: Svo var það, en alla vega þá var skylduræknin mikil og hann borðaði grautinn.
Gudjon

2012-12-09 @ 12:26:56


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0