Rósa kára við Noravatnið

Rósa kára við Noravatnið

Við köllum hana Rósu Kára eins og líklega flestir aðrir en Rósamunda heitir hún. Hún var að fara í flug á Arlanda áleiðis heim úr Svíþjóðarferð sinni og vinalegur afgreiðslumaður leit í vegabréfið hennar og sagði rólega "Rósamunda". Svo æfði hann nafnið líklega í ein tvö skipti til þegar hann átti færi á að segja það og tókst vel upp.

Eins og þegar er fram komið neðar var hún á ferð í Svíþjóð og hún var að mörgu leyti heppin. Veðrið lék við hana og hún fékk að upplifa eitthvað fallegasta vor síðan við Valdís komum til Svíþjóðar fyrir 14 árum. Afar fallegt land er Svíþjóð en þetta vor hefur verið með afbrigðum fallegt. Græni liturinn hefur verið svo grænn, lifandi, safaríkur og gjöfull. Rósa átti þetta skilið. Hinar bitru hliðar lífsins hafa hreint ekki gengið framhjá henni, en samt gengur hún bein í baki, er glöð og hefur allt sitt líf rétt út hendina til þeirra sem eru þess þurfi og svo gerir hún enn í dag. Mikið er þetta fallegt sagði Rósa oft þegar við fórum í ferðir út frá Örebro. Það er alls staðar jafn fallegt, engan stað get ég nefnt sem ekki er fallegur sagð hún einnig.

Já Rósa, við Valdís vonum að þessi ferð gefi þér góðar minningar til frambúðar. Við höfum líka góðar minningar eftir þessa daga. Við vorum búin að spara að gera vissa hluti þangað til þú kæmir, hluti sem okkur hafði langað til að gera og gerum með jöfnu millibili. Það var gaman að gera þetta saman.

Svo heldur lífið áfram og þar sem ég horfi út um suðurglugga heima í Örebro heldur landið áfram að vera óvenju fallegt. Fljótlega förum við Valdís á Sólvelli en við tækifæri þegar við skreppum heim ætla ég að koma með fleiri myndir frá Svíþjóðardvol Rósu Kára. Eins og ég sagði ofar vorum við búin að geyma að gera vissa hluti til þessarar heimsóknar og það voru teknar margar myndir sem eru fullar af minningum. Myndin með þessu bloggi er tekin við Noravatnið. Nora (Núra) er gamall bær um 40 km norðan við Örebro, orðlagður fyrir fegurð, gömul hús og besta ís í allri Svíþjóð. Landssvæðið umhverfis Nora er líka afburða fallegt og það er hægt að finna mörg sjónarhorn sem líkjast þessari mynd. Við Nora eru þrjú vötn og því er viss leið umhverfis Nóra kölluð "Þriggja vatna leiðin".
GB

Rósa Kára í Svíþjóð

Rósa Kára í

Okkar gamli nágranni, hún Rósa Kára frá Hrísey, er búin að vera í Svíþjóð. Um það verð ég að blogga en ég er að vinna upp tíma þar sem ég bloggaði ekkert. Hér segi ég bara frá því að hún hafi komið en kemur meira um þessa heimsókn síðar.
GB

Kirkjukonsert

Kirkjukonsert

Í síðasta bloggi, því næsta fyrir neðan, tala ég um kirkjukonsert. Auðvitað hafði ég tekið myndir á þessum konsert og hér birti ég eina. Þessi konsert var haldinn í tilefni af því að söngstjórinn, hún Glory, er komin á aldur og þetta var hennar síðasta verkefni með kórnum. Það verður mikill skaði að missa hana úr þessu starfi og margar söngsamkomur hafa verið í Suðurbæjarkirkjunni á síðustu árum þar sem stórhæfileikar hennar hafa verið ótvíræðir. Kórinn söng eftirfarandi við viðeigandi lag:

Glory, Glory halelúja
Glory þú ert best

GB

Ja hérna, sjáið allt fólkið!

Ja hérna, sjáið allt fólkið!



Myndin er tekin heima hjá Rósu dóttur okkar í Stokkhólmi.

Valgerður dóttir okkar kom á námskeið til Stokkhólms fyrir tveimur vikum og með henni var hún Erna frá Vestmannaeyjum sem einnig vinnur í skólageiranum. Í tilefni af þessu fórum við Valdís til Stokkhólms og við hittumst öll þar. Eitt og annað tókum við okkur fyrir hendur eins og gengur. Veðrið vikuna á undan hafði verið sumarveður með viðeigandi hlýindum en þær Valgerður og Erna fengu lágan meðal maíhita. Fyrir neðan eru tvær myndir frá veru okkar í Stokkhólmi.

Í mat heima hjá henni Usha, sem getið er neðar, var margt að spjalla og sumt af því var ekki á mínu sviði og ég lét hugann reika á meðan. Hér mættumst við á ferðalagi og það minnti mig á ferðalag árið 1964 eða 1965. Ég held að við höfum verið að leggja af stað á Kálfafell og til Akureyrar fórum við með flóabátnum Drang. Við sátum þar meðal fólks í farþegasal Drangs og Valgerður, þá á öðru eða þriðja ári, var á mikilli hreyfingu. Hún gekk á milli fólks, studdi sig við stóla, borð og bekki og jafnvel hné fólks. Margir brostu við, sögðu eitthvað, struku yfir kollinn á henni og svo þegar hún hafði vakið athyglina hélt hún áfram könnunum sínum. Við Valdís vorum, eins og aðrir ungir foreldrar, viss um að hér væri á ferðinni eitthvað fallegasta barn vorra tíma og eftir þeirri athygli sem hún vakti hjá samferðafólki okkar um borð í Drangi styrktist sú vissa. Sá sem tók henni einna glaðlegast af öllum var þekktur ferðaskrifstofumaður sem var á ferðinni ásamt einhverjum útlendingi. Því kom Valgerður til hans aftur og aftur, hann spjallaði við hana og leit af og til yfir til okkar stoltra foreldranna.

Þar sem ég sat þarna heima hjá Usha og renndi huganum yfir þennan nokkuð löngu liðna tíma var ferðalagið sjálft í móðu, en minningin um athyglina sem okkar fallega barn vakti hjá fólkinu um borð í bátnum var ljóslifandi. Síðan kom ég til baka úr þessari ferð minni til liðins tíma og ég ætlaði að segja frá þessu áður en matarboðinu lyki en það var margt að spjalla svo að ekki varð af. Ég ákvað þá að setja þetta í bloggið mitt og nú sit ég hér á sunnudagskvöldi og skrifa það niður. Ég var reyndar búinn að skrifa þetta fyrr í kvöld en glataði því og skrifa það nú öðru sinni.

Ég hefði gjarnan viljað að Valgerður og Erna hefðu í sinni ferð fengið veðrið sem við höfum hér núna. Klukkan fimm í dag var 28 stiga hiti. Litlu eftir það gekk ég út í kirkju til að hlusta á konsert sem kórinn hennar Valdísar hélt þar. Það var þungur ilmur af sírenum og fleirum blómstrandi runnum og trjám.
Svo þéttur var þessi ilmur að það var næstum eins og hægt væri að taka hann í ílát og hafa með sér. Nú er klukkan að verða tíu og hitinn er 21 stig. Fari ég út á svalir finn ég þar líka ilminn af sírenunum. Það er bara 1. júní og hásumarið liggur í loftinu.
GB

Usha indverska

Usha indverska


Þetta er indverjinn hún Usha sem er búin að búa í Stokkhólmi í fjöldamörg ár. Usha er vinkona Rósu síðan mörg ár til baka og vinkona Valgerðar frá því í fyrra. Hún er margreynd kona, kann m. a. indverska matargerðarlist og hefur haldið tvö námskeið í slíku í Vestmannaeyjum og eitt í Borgarnesi. Henni geðjast vel að Íslandi og hefur talað um að flytja til Vestmannaeyja sem hún kemur þó trúlega ekki til með að gera. Hún vildi bjóða okkur öllum í mat og bauð upp á elgskjöt. Elgurinn er kallaður konungur skógarins í Svíþjóð og tilheyrir nú ekki indverskri matargerðarlist. En hún matreiddi elginn svo að hann smakkaðist mjög vel. Til hægri við Usha er hún Erna sem var með Valgerði í Stokkhólmsferðinni. Usha var svo vingjarnleg að kalla okkur Valdísi mömmu og pabba.
GB

Á leið á safn

Á leið á safn


Hér er mannskapurinn á leið á safn. Á þessu safni áttu að vera nútíma listaverk til sýnis. Það voru þarna hlutir sem mér féll vel við -en það voru líka hlutir til sýnis sem manninum mér, ættuðum úr austustu sveitum Vestur-Skaftafellssýslu, fannst satt best að segja að gætu líkst því að einhver hefði hellt í illskukasti úr málningarfötu upp á vegg eða þá að einhver hefði reynt að fela skranhaug að húsabaki. En ég ætla að muna eftir góðu hlutunum.
GB
RSS 2.0