Sólvellir 070225

Sólvellir 070225

Í gær var minni snjór en nú þekur snjórinn allt þakið. Það er mun snotrara.

Sólvellir 070225

Sólvellir 070225

Laugardagur á Sólvöllum

Það var smíðavinna í dag. Samt byrjaði ég allt of seint. Það var nefnilega svo að ég þurfti að sinna vinnunni heiman frá heilan helling bæði í gærkvöldi og í morgun. En nú er það afstaðið og dagurinn á Sólvöllum var góður. Valdís var heima og hvað haldið þið? Hún bakaði bæði hjónabandssælu og soðiðbrauð. Hvar haldið þið að það lendi annars staðar en framan á maganum á mér. Valdís er nefnilega þræl sterk á móti öllu svona núna eins og maðurinn sem stóð með járnstaf í hendi, jafnan við Lómagnúp.

Í haust og langt fram eftir vetri var ég ótt og títt að fylgjast með veðurspánni og það fyrsta sem ég gerði á morgnana var að fara inn á textavarpið og líta á fimm daga spá sem þar er að finna. Núna finnst mér að mér komi veðrið eiginlega ekkert við og það er bara af því að það er búið að loka Sólvallaviðbyggingunni. Engar áhyggjur af fasteigninni. Í dag gekk maður framhjá sem er oft á ferðinni með hvíta hundinn sinn. Hann er útlendingur og okkur Valdísi finnst hann vera meiri útlendingur en við. Eiginlega finnst okkur að við séum engir útlendingar lengur. Hann segir stundum svolítið skemmtilega hluti. Hann spurði hvort við ætluðum að búa allt árið á Sólvöllum þegar viðbyggingin væri tilbúin. Hann talaði líka um að húsið liti mjög vel út eftir þessar framkvæmdir og endaði með því að segja "man ser du gör bra" sem á íslensku þýðir "maður sér þú gerir vel".  Hann vildi segja mér að ég væri vandvirkur og ég skildi hann vel og fannst hann tjá sig skemmtilega. Svo fór ég að tala um hundinn hans sem heitir Kleópatra og þá varð hann svo ánægður að hann þakkaði mér kærlega fyrir áhugann. Hiti var um frostmark þegar þetta var og Kleópatra var í blárri hundakápu svo að henni yrði ekki kalt. Hún er svo stutthærð sagði ágæti maður. Svo fóru hjónin líka framhjá sem eiga Íslandshestana. Þau virðast ríða út flestar helgar og ekki bara það, þau grilla í útreiðartúrunum og borða hádegismat úti hversu kalt sem er í veðri. Maðurinn talaði um að ég væri ennþá að smíða og þá trúði ég honum fyrir því að viðbyggingin yrði ekki tilbúin fyrr en eftir eitt ár og þangað til mundi hann sjá mig við smíðar á Sólvöllum.

Nú er ég þurrausinn en ég bendi á að neðar finnast tvær myndir af Sólvöllum eins og þar lítur út í dag.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Sólvellir í dag 070224

Sólvellir í dag 070224

Sólvellir í dag 070224

Sólvellir í dag 070224

Enginn tími

Þetta er ekki nógu gott. Ekki hef ég bloggað lengi og ekki skrýtið. Í gær ætlaði ég að horfa á sjónvarpsfréttirnar klukkan hálf átta, settist niður og lét fara vel um mig og vaknaði kl hálf níu. Enga sá ég fréttina, fyrir utan þá fyrstu að hálfu leyti og man ekki um hvað hún fjallaði. Samt hafði þeim tekist að senda út fréttirnar án minnar þátttöku. Í kvöld horfði ég á Så skall det låta frá kl átta til níu. Eftir 45 mínútur sofnaði ég en þrátt fyrir það tókst þeim að senda út síðustu 15 mínúturnar. Fólki virðist takast næstum hvað sem er án minnar þátttöku en mér gefst ekki tími til að skrifa á bloggið mitt. Haldið þið að það sé skemmtilegt að búa með svona manni? Núna er ekki um annað að ræða fyrir mig en fara að sofa enda hálftími síðan ég vaknaði.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Komin heim úr höfuðborginni

Þá er nú komið sunnudagskvöld og við komin heim frá Stokkhólmi. Við lögðum af stað þangað um tíuleytið í gærmorgun. Ferðaveður var gott og ferðaskapið í topp og landið skartaði fínum vetrardegi. Hjá Rósu og Pétri vorum við vel móttekin með gleði, hlýju og kaffi með helling af brauði og áleggi. Við fórum með þeim í matvöruverslun sem liggur undir einhverri götu eða torgi og þar úði og grúði svo af fólki að við Valdís töldum að þetta væri eins og að vera í verslun í Kína. Ég sagði í bloggi nýlega að það væri gaman að koma til Stokkhólms og svo var það líka að þessu sinni, en ég hugsa að mér mundi finnast of margt um manninn ef ég ætti að búa þar að staðaldri. Kannski er þetta einn af mínum gamaldags eiginleikum sem ég hef grun um að yrði erfitt fyrir mig að vinna á. Ég finn mig mikið frjálsari í Örebro þar sem ég þekki mig svo ég tali nú ekki um á Sólvöllum. Við spiluðum heil mikið í gær og meðal annars spil sem heitir hæ gosi. Ég ætla ekki að lýsa þessu spili, en það þarf að bregðast hratt við með vissum orðum og háttarlagi. Ég er svifaseinn í þessu og fólk hlær mikið að mínum seinu viðbrögðum þegar ég er þátttakandi í spilinu og svo var einnig í gær. Það get ég boðið upp á með ánægju.

Í morgun hjálpuðu Rósa og Pétur okkur við að lagfæra síðurnar og Rósa kenndi okkur úmis góð knep. Að blogga er góð leið til að fólk geti fylgst svolítið með okkur hér á erlendri grund. Rósa hafði talað eitthvað um vort bloggandi við svía og þeir urðu alveg hissa á hvað foreldrar hennar voru nútímalegt fólk á sjötugs aldri sem stundaði það að blogga. Það var gaman að heyra þetta.

Ekki gátum við látið vera að koma við á TAKO BAR og borða þar hádegismat. Það var aðal menningarviðburður ferðarinnar, en það svo sem jók ekkert á matarlystina þegar tiltölulega ungur maður stillti sér upp við byggingargám hinu megin við götuna beint á móti glugganum sem við sátum innan við og meig. Maður getur unnað hundum að gera þetta öðru hvoru þegar þeir fara hjá stórum trjám á gönguferðum með eiganda sínum, en það hefði þá verið skylda stráksa að lyfta afturfætinum eins og hundarnir gera. Hundar gera þetta mjög eðlilega og ófullir, en trúlega hefur stráksi verið búinn að demba í sig einhverri ólyfjan.

Hvað haldið þið svo að við ætlum að gera á morgun. Þið getið aldrei getið upp á því. Við ætlum nefnilega að vera á Sólvöllum og smíða.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Mynd af Sólvöllum, tekin gamlársdag 2003

Mynd af Sólvöllum, tekin gamlársdag 2003

Þessi mynd var tekin af Sólvöllum á gamlársdag 2003 þegar Rósa, Pétur og Kristinn dóttursonur komu þangað í fyrsta skipti. Þegar við vorum á leiðinni þangað frá Örebro og vorum á sléttlendinu sem umlykur Örebro frá flestum áttum sagði Pétur: Nú ökum við eftir Sléttuvöllum. Svo segjum við oft en í dag.

Ýmislegt

Hann Steini Marels var jarðaður í dag og ég hef hugsað mikið til hans. Í morgun kom fólk í heimsókn á vinnustað minn, Vornes, til að kynna sér starfssemi okkar. Ég tók á móti þessu fólki og var með því í rúma tvo tíma. Til að útskýra vissa hluti talaði ég um Steina sem góðan áfengisráðgjafa og lýsti hvað hann hafði unnið með og hvernig. Ég hafði leitað til hans með ákveðna hluti og fengið af honum mikinn fróðleik.

Svo hætti ég að vinna um hádegi eins og ég geri flesta föstudaga. Eftir að hafa borðað góðan grjónagraut hér heima héldum við á Sólvelli -og hvert hefðum við svo sem getað farið annað. Ég held næstum að bíllinn rati ekki lengur á aðra staði en í Vornes, á Sólvelli og í vissar byggingarvöruverslanir. Að vísu ætlum við til Stokkhólms á morgun og vona ég rétt að mér takist að koma bílnum í stefnu þangað. Það er svo notalegt að vinna á Sólvöllum eftir að þakið varð klárt og viss vinna við útveggina. Það lá vissulega á að gera þessa hluti klára til að ekkert mundi skaðast í vetrarveðrum, en nú liggur ekkert á og ég nýt þess að vanda mig og vera lengi. Þakrennur og þakrennuniðurföll eru frágengin og vatnið sem kemur af þakinu rennur beint út í skurð sem er á bakvið húsið eftir lögn sem er bara gerð fyrir það. Mikill munur var það þegar vatnið hætti að hríslast niður af þakbrúninni og slettast utan í veggina. Þetta var líka eitt af mikilvægustu verkefnunum. Drulla upp á miðja veggi vegna þess að þakvatnið slettir upp leðjunni, það er ekki vinsælt á sveitasetrinu okkar Valdísar. Þetta var tilbúið áður en búið var að loka öllum veggjum. Það var ánægjulegt þegar niðurföllin voru full frágengin að ganga nokkur skref aftur á bak og njóta þess að sjá þau tilbúin. Það eru margar þannig stundir á Sólvöllum og ekki er það verra að Valdís hefur líka gaman að þessu.

Og hvað á ég að segja meira. Eiginlega er þetta nóg í kvöld en ég bæti þó svolitlu við. Nýlega var talað við unga konu sem skrifar um ákveðnar vörur á sínu bloggi. Hún, og margir fleiri,  er orðin þekkt fyrir þessi auglýsingaskrif. Þegar hún skrifaði til dæmis um ákveðnar gallabuxur jókst salan á þessum gallabuxum eitthvað svo alveg makalaust. Húnn fær borgað frá fyrirtækjum fyrir að skrifa vel um vörur sem þau framleiða eða selja og hefur af því mánaðartekjur sem ég hef aldrei komist í námunda við. Því fór ég að hugsa um hvaða vörur ég gæti skrifað um til að auka tekjur mínar. Mér datt til dæmis í hug að ég gæti skrifað um gallabuxur fyrir ellilífeyrisþega, og þó. Ég nefnilega er eiginlega aldrei í gallabuxum sjálfur en því má að vísu breyta. Svo gæti ég skrifað um háraplokkara, svona sem maður notar til að plokka hár af augabrúnum og úr nösum. Þessi óvelkomnu hár vaxa með ótrúlegu hraði. Ég læt rakarann minn alltaf klippa hárin úr eyrunum þegar ég fer í klippingu, en eiginlega verð ég að klippa sjálfur einu sinni á milli eða láta Valdísi ger það. Um daginn sagði ég við rakarann að það væri nú meiri rosalegur vaxtarhraðinn í eyrunum. Já, sagði hann, það er svo frjósöm jörð þarna inni. Nú er aldeilis nóg komið af prívat málum.

Gandi ykkur allt í haginn. Guðjón

Eins og tómur fuglahólkur

Hún Guðdís dótturdóttir mín segir að hún hlakki alveg rosalega til að koma í heimsókn. Þá vitum við afi og amma að við fáum heimsókn. Hún segir ekki hvenær hún komi og kannski hún bara hringi dyrabjöllunni allt í einu og spyrji hvort hún megi koma inn. Eða að hún komi allt í einu hlaupandi út úr skóginum á Sólvöllum og geri okkur ömmu og afa illt við. Maður veit aldrei. Auðvitað er hægt að setja gestabók á bloggið Guðdís, en ég verð nú að fá hjálp til þess. Ég er óttalegur tölvuklaufi.

Ég vinn fram að hádegi á morgun og hvert ætli við förum svo sem eftir það. Auðvitað á Sólvelli. Allir vegir liggja þangað. Ég ætla að smíða sum stund og svo ætlum við að setja við í poka og svo ætlum við til Stokkhólms með þessa viðarpoka á laugardaginn. Við ætlum að heimsækja Rósu og Pétur og okkur finnst afar merkilegt að í Stokkhólmi hiti fólk upp með við úr Sólvallaskóginum.

Ekki veit ég af hverju, en ég er eiginlega ekki í nógu góðri stemmingu til að skrifa. Ég hélt að mundi alveg ausa úr mér vel skrifuðu efni, en þegar ég var sestur við tölvuna varð ég alveg eins og tómur fuglahólkur og starði bara fram fyrir mig. Ég bæti úr þessu seinna. Kannski annað kvöld ef smíðarnar á Sólvöllum ganga vel.

Gangi ykkur allt í haginn. Guðjón

Aaaaleinn heima

Það verður svo sem ekkert blogg í kvöld en ég ætla að prufa aðferðina sem hún Rósa J benti á að skrifa fyrst í Word og kópera svo inn á bloggið. En svona til að segja eitthvað þá er hún Valdís á kóræfingu og mér hefur ekki orðið neitt úr kvöldinu. Ég kom seint heim og svo voru tvö símtöl út af vinnunni. Hann Kjell er nefnilega að hugsa um að vera veikur annað kvöld og þá þurfti ég að fá varamanneskju fyrir hann annað kvöld ef hann lætur verða af hugsun sinni. Annars er Hann Kjell duglegur og hann er ekki veikur að gamni sínu. Svo horfði ég á frétt um umhverfisvæna bíla og EU kröfur varðandi útblástur. Þar með er eiginlega hetjusögu kvöldsins lokið og bara komið mál fyrir mig að bursta og pissa og slá til fiðrið í koddanum mínum svo að mig dreymi vel í nótt. Kannski verð ég kominn í ferðalag með Óla lokbrá þegar Valdís kemur heim úr kirkjunni. Það er frost og verður frost og fallegt verður veðrið um helgina og gott að vera í sveitinni við smíðar. Gangi ykkur allt í haginn. GB

Allt er glatað

Ég var búinn að skrifa heil mikið í bloggið í kvöld og svo þegar ég sparaði það hvarf allt saman og ég finn hvorki tangur né tetur af því. Nú er ekkert annað fyrir mig að gera en fara að bursta og pissa og leggja mig. Það er vinnudagur snemma í fyrramálið.

Gangi ykkur allt í haginn. GB

Það er gaman að þessu

Bæði vorum við á Sólvöllum í dag hjónin og ég vann við smíðar en Valdís prjónaði, lagaði til, bjó til kakó og las. Það gekk vel í dag og það nálgast að búið sé að setja panel á alla veggi. Það gekk vel sagði ég. Smiður í akkorði hefði gert grín að mínum afköstum en það skiptir mig ekki máli. Aðalmálið er að ég geri þetta eins vel og mér sýnist og að það er gaman að öllum smíðum á Sólvöllum. Eins og ég sagði einhvern tíma áður að eftir að ég hætti að liggja á hnjánum við að grafa holur og eftir að vinnu á þakinu lauk, þá eru öll smíðaverkefni hátíðaverkefni. Svo þegar einhverjum áfanga er lokið, hvort sem hann er stór eða pínu lítill, þá er hreina dásemdin að geta gengið svolítið aftur á bak eða frá húsinu og ég virði fyrir mér verkið, þá finnst mér alveg frábært að vera til. Það var sól í dag og svo sem fjögurra stiga hiti og alveg frábært smíðaveður.

Valdís er hressari, já já segir hún, þetta er allt að koma. Ég er líka hressari. Ég talaði um hjúkrunarfræðing um daginn sem sagði að maðurinn hennar notaði glukósamín með frábærum árangri. Ég sagði lika að ég hefði keypt glukósamín sama dag. Ég get ekki betur fundið en að það sé farið að skila árangri. Þegar ég kem frá Sólvöllum keyri ég oft að bæjarhluta í Örebro sem heitir Brickebacken og þaðan keyri ég svo heim. Þegar ég tek síðustu stefnuna heim þarf ég að keyra inn á aðalgötu og hagar á þannig til að ég verða næstum að líta aftur fyrir mig til að gá að umferð. Ég var orðinn allt of stirður í hálsinum til að gera þetta. Þegar við vorum á leið heim nú í kvöld og ég þurfti að líta aftur fyrir mig á þessum gatnamótum merkti ég að það var orðið mikið auðveldara en það hefur verið lengi. Ég varð himin lifandi og gat mér til um að hér væri glukósamínið byrjað að skila árangri eftir tveggja vikna notkun. Ekki slæmt það. En margt getur hjálpast að. Ég er mikið úti og hreyfi mig mikið á Sólvöllum og anda að mér miklu af hreinu lofti. Það er svo sem ekkert nýtt, en eftir að það kólnaði hér um daginn var eins og loftið yrði mikið hreinna og betra að anda inn.

Svolítið um glukósamínhjúkrunarkonuna. Við vorum þrír af Örebrosvæðinu sem þurftum að fara í berklaathugun á sjúkrahúsinu í Örebro vegna nærveru við berklasjúkling. Fyrstur fór ég, síðan hann Ingimar og síðastur hann Benní. Allir þurftum við að mæta tvisvar og allir hittum við sömu hjúkrunarkonu. Hún er á mínum aldri. Þegar Benní var á sjúkrahúsinu í seinna skiptið sagði hjúkrunarkonan nokkuð skemmtilegt. Hún sagði að við værum allir sérstakir menn og þægilegir að hitta. Og svo sagði hún að ef hún fengi vandamál með alkohól, þá mundi hún vilja koma í Vornes til að fá hjálp. Þetta voru frábær meðmæli.

Gangi ykkur allt í haginn og farið vel með ykkur. GB
RSS 2.0