Laugardagur á Sólvöllum

Það var smíðavinna í dag. Samt byrjaði ég allt of seint. Það var nefnilega svo að ég þurfti að sinna vinnunni heiman frá heilan helling bæði í gærkvöldi og í morgun. En nú er það afstaðið og dagurinn á Sólvöllum var góður. Valdís var heima og hvað haldið þið? Hún bakaði bæði hjónabandssælu og soðiðbrauð. Hvar haldið þið að það lendi annars staðar en framan á maganum á mér. Valdís er nefnilega þræl sterk á móti öllu svona núna eins og maðurinn sem stóð með járnstaf í hendi, jafnan við Lómagnúp.

Í haust og langt fram eftir vetri var ég ótt og títt að fylgjast með veðurspánni og það fyrsta sem ég gerði á morgnana var að fara inn á textavarpið og líta á fimm daga spá sem þar er að finna. Núna finnst mér að mér komi veðrið eiginlega ekkert við og það er bara af því að það er búið að loka Sólvallaviðbyggingunni. Engar áhyggjur af fasteigninni. Í dag gekk maður framhjá sem er oft á ferðinni með hvíta hundinn sinn. Hann er útlendingur og okkur Valdísi finnst hann vera meiri útlendingur en við. Eiginlega finnst okkur að við séum engir útlendingar lengur. Hann segir stundum svolítið skemmtilega hluti. Hann spurði hvort við ætluðum að búa allt árið á Sólvöllum þegar viðbyggingin væri tilbúin. Hann talaði líka um að húsið liti mjög vel út eftir þessar framkvæmdir og endaði með því að segja "man ser du gör bra" sem á íslensku þýðir "maður sér þú gerir vel".  Hann vildi segja mér að ég væri vandvirkur og ég skildi hann vel og fannst hann tjá sig skemmtilega. Svo fór ég að tala um hundinn hans sem heitir Kleópatra og þá varð hann svo ánægður að hann þakkaði mér kærlega fyrir áhugann. Hiti var um frostmark þegar þetta var og Kleópatra var í blárri hundakápu svo að henni yrði ekki kalt. Hún er svo stutthærð sagði ágæti maður. Svo fóru hjónin líka framhjá sem eiga Íslandshestana. Þau virðast ríða út flestar helgar og ekki bara það, þau grilla í útreiðartúrunum og borða hádegismat úti hversu kalt sem er í veðri. Maðurinn talaði um að ég væri ennþá að smíða og þá trúði ég honum fyrir því að viðbyggingin yrði ekki tilbúin fyrr en eftir eitt ár og þangað til mundi hann sjá mig við smíðar á Sólvöllum.

Nú er ég þurrausinn en ég bendi á að neðar finnast tvær myndir af Sólvöllum eins og þar lítur út í dag.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer
Valgerður

Hér í sólskininu smúla menn hús sín eftir að mold og sandi hefur tekist að þekja þau eftir hvassviðri undanfarinna daga. Við höfum ekki séð út um glugga fyrir ryki og drullu . Nú er nógu hlýtt til að framkvæma þetta. Ekki rekur mig minni til þess að þetta hafi verið gert í Hrísey nema til að hreinsa seltu af gluggum.

Kv
Vaglerður

2007-02-25 @ 13:21:39


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0