Faðir minn á himninum

Skrifað í júní 2023
Á vissum augnablikum er eins og stundirnar gefi sterkari upplifun en annars. Það er eins og að verða snögglega fyrir sterkum trúarlegum áhrifum og verða betur tengdur öllu sem finnst hér í heimi bæði nær og fjær. Fyrir mér eru það morgnarnir sem eru gjafmildastir á slíkar upplifanir.
 
 
 
 
Það var morgun einn nýlega, morgun eftir rigningarsama nótt sem hafði þornað til í augnablikinu en regnið virtist hanga í loftinu. Það var eins og það þyrfti að ákveða sig til að sleppa takinu og falla síðasta spölinn til jarðar. Það er við svona aðstæður sem hið græna er fallegast. Skógurinn virðist vera safaríkur og blöðin lifandi og hrein. Ég sótti myndavélina og tók myndina í hrifningu yfir því sem ég sá frá svefnherbergisglugganum mínum.
 
 
 
 
Frá svefnherberginu lá leiðin fram á snyrtinguna, ennþá með myndavélina í hendinni, og leit út um gluggan. Það sem ég sá var eins og af öðrum heimi fannst mér, jafnvel þótt ég viti ekki hvernig annar heimur lítur út. Vatnið sindraði á laufhafinu í bakgrunninum og myndina tók ég meðvitaður um að myndavélin mín mundi aldrei geta sýnt í sannleika það dásamlega umhverfiumhverfi sem umlykur bústaðinn minn.
 
 
 
Næsti gluggi -þvottahúsið.
 
 
 
 
Ennþá ein mynd frá glugga mót skóginum. Ég hef flutt mig frá glugga til glugga austan megin á bústaðnum mínum. Til vinstri í myndinni er beyki sem ég gróðursetti 2007. Til hægri við þetta beyki er opið móti fjarlægari hluta af litla skóginum mínum. Myndin væri reglulega fín ef mín eigin sköpunarverk væru ekki með í myndinni, það er að segja endi af grindverki til vinstri og svo brunnurinn sem bara minnir á kúk. Það þarf meiri listamann en mig til að geta blandað verkum mínum með verkum skaparans. Snyrtileg hús eru eitt en hér fór eitthvað úr böndunum
 
 
 
 
Við skiljum við austurhlina og sjáum til suðurs frá aðalinnganginum. Þar hefur skaparinn látið eftir mér að vera með í sköpuninni. Hann annaðist allt sem lifir á myndinni en ég fékk að vera með í að skipulaggningunni. Næst til hægri eru átta tré sem ég sótti inn í skóginn, sjö hlynir og ein eik. Þau þrifast ótrúlega vel og gefa útsýninu til suðurs tilfinningu af vernd, faðmlagi. Næst til vinstri er hestkastanía keypt í verslun í Örebro, ekki alveg í skyldleika við sænska skóginn en fellur samt inn í umhverfið. Ef einhver kemur í heimsókn til mín gengur sá hinn sami móti aðal innganginum eftir grasflötinni til hægri. Ég vona að þessi einhver finni sig velkominn í þetta umhverfi.
 
 
 
 
Þessari umferð lýkur hér frá glugga sem snýr á móti vestri. Hér er meira útsýni en frá öðrum hliðum, útsýni sem dugir vel fyrir mig. Til hægri í myndinni er op í skóginum sem er álengdar. Þar sér til Kilsbergen sem er lágur en langur fjallarani í um 15 km fjarlægð giska ég á. Þar hafa verið reystar 16 vindmyllur sem allar sjást hér heiman að frá þessum glugga. Mér fannst það svolítið súrt í fyrstu en þegar ég heyrði að þær framleiddu rafmagn fyrir 40 þúsund bústaði þá fannst mér best að leggja ólundina niður og sættast við orðinn hlut.
 
 Mér þykir afar vænt um allt sem sést á myndunum í þessu bloggi. Ég get gengið út að morgni til, jafnvel berfættur í döggvotu grasinu, og fundist sem ég þurfi ekkert meira í lífinu og þurfi yfir höfuð ekki að fara eitt eða neitt. Það verður niðurlagið að þessu sinni.
RSS 2.0