Dagur eins og ég vil hafa dagana í framtíðinni

Í gærmorgun klukkan hálf átta stóð ég úti með slönguna og vökvaði eitt og annað sem ég hef verið að gróðursetja og ganga frá undanfarið, nokkuð sem ég kalla blettina og líka grænmetisræktina hennar Rósu. Það er jú lífsnauðsynlegt á heitum dögum að nýjar sáningar og gróðursetningar fái vatn. Svo vökvaði ég í eina tvo klukkutíma. Klukkan ellefu í gærkvöldi stóð ég líka úti með slönguna og vatnaði á sömu stöðum þar sem allt var orðið hálf bakað af þurrki eftir fleiri klukkutíma sterka sól og 20 stiga hita. Síðan fór ég inn og hugsaði mér að blogga um nokkuð sem hafði verið förunautur minn stærstan hluta dagsins, blogga þangað til ég gæti tekið tólf fernur af angandi rúgbrauði út úr bakarofninum. Ég var nefnilega að baka.
 
Ég setti fartölvuna á matarborðið og skoðaði myndirnar sem ég var þegar búinn að setja inn á viðeigandi blogg. Þegar ég var búinn að skrifa einar fjórar línur steinsvaf ég í stólnum. Eftir það var ég á röltinu þangað til klukkan var rúmlega tólf og þá var tími að taka rúgbrauðið úr bakarofninum. Rúgbrauðið angaði og ég tók fernuna sem minnst var í, skar utan af brauðinu og tók burt pappann. Ég sé það strax á brauðinu hvort rúgbrauðsgerðin hafi tekist vel eða ekki og þessi rúgbrauðsgerð var sú besta. Svo fékk ég vatn í munninn en ég var búinn að borða það sem ég hafði ætlað mér að borða þann daginn svo að það var ekki að tala um að fara að borða rúgbrauð klukkan að verða hálf eitt um nótt.
 
Svo opnaði ég ísskápinn og tók út smjör og ost, skar mér volga rúgbrauðsneið, smurði og borðaði. Þvílík nautn mitt um nótt. Svo borðaði ég aðra braðusneið. Eftir það burstaði ég og pissaði, lagði mig og fann svefninn síga á mig meðan ég var að halla mér. Þá var klukkan eitt að nóttu.
 
Upp úr klukkan sex vaknaði ég og fann fyrir óróa. Ég var með einhver ónot framan á bringubeininu, ónot sem voru mér gamalkunn en ég hafði ekki fundið fyrir lengi, lengi. Ég hef alltaf tengt þessi ónot hryggjarliðum sem eru stífir. Á leiðinni á klósettið hugsaði ég að ég ætti kannski að fara mér aðeins hægar og láta hlutina sjá meira um sið sjálfa. Kannski þyrfti ég ekki að standa úti með vatnsslönguna klukkan hálf átta að morgni og aftur klukkan ellefu að kvöldi og reyna svo að koma á hreinlæti og baka tímann þar á milli eins og ég gerði í gær.
 
Á leiðinni til baka af klósettinu drakk ég stórt glas af vatni. Vatn er gott við því mesta, meira að segja óróleika snemma að morgni. Svo lagði ég mig á bakið með hnakkann á dýnu sem ég nota sem höfðagafl. Í þeirri stellingu er svo gott að hugsa í rúminu. Síðan heyrði ég mínar eigin hrotur og þá var tímabært fyrir mig að leggjast á hliðina sem ég hrýt ekki á. Þannig sofnaði ég.
 
Klukkan hálf átta vaknaði ég og nennti ekki á fætur "ekki alveg strax". Svo svaf ég til klukkan níu. Óróinn var fokinn út i veður og vind og lífið blasti við.
 
Núna er klukkan orðin svo margt á þessum föstudegi að ég vil ekki segja frá því, en nú ætla ég að elda minn indæla hafragraut og ég hlakka svo innilega til að fá mér nýtt rúgbrauð með kaffinu á eftir. Meira þarf ég ekki til að gleðjast á þessum morgni.
 
Fyrir mér er eiginlega sunnudagur í dag, það er bara fast í mér.
 
 
 
 
Blettirnir eins og ég kalla það og einu sinni voru ellefu eru nú orðnir 15 og grasfræið í þeim öllum er farið að spíra, eftir bara fáeina daga að mér finnst. Eljusemin með slönguna og gjöful sólin eiga sameiginlegan þátt í því.
 
 
 
Það sem ég kalla blett í þessu bloggi er til dæmis þetta. Fylling að veröndinni sem ég vildi ekki framkvæma í fyrra þar sem viss skipulagsmál hér á lóðinni voru ekki tilbúin. Þó að það sjáist ekki er grasfræið farið að spíra þarna. Það sést líka á veröndinni að það hefur ringt lítillega mér til mikillar ánægju.
 
 
 
Hér eru svo fimm blettir. Þetta lætur ekki mikið yfir sér enda er ég ekki að tala um mannvirkjagerð á Sólvöllum þó að orðin um það séu mörg. Í þessa bletti fóru 41 hjólböruferð af mold frá öðru horni lóðarinnar og undir setti ég hænsnaskít. Í staðinn vonast ég eftir góðri ávaxtauppskeru og til þess stend ég í öllum þessum jarðvegsflutningi
 
 
 
Og hér er einn blettur sem á að gera mér auðveldara að hirða lóðina framvegis.
 
 
 
Að loknu dagsverki fæ ég mér staðgóðan kvöldverð, bara ekki allt of seint. Dagurinn í dag varð nákvæmlega eins og ég vil hafa dag á Sólvöllunum í framtíðinni. Fyrst vökvaði ég hóflega þar sem það var spáð rigningu. Ég setti stuðning við þrjú eftirlætistré sem höfðu orðið halloka á einn og annan hátt. Ég klippti burtu sjálfsagt á annað hundrað minni og stærri plöntur sem hindruðu önnur eftirlætistré að vaxa eðlilega. Ég sat um stund á bláberjabekknum og hugaði um lífið og tilveruna. Eitt og annað var það fleira sem gott og gagnlegt var að sinna.
 
Ég geri enga kröfu enda er það ekki á færi mínu en þakklátur mundi ég taka við nokkrum árum til til að njóta þess sem ég hef verið að gera á síðustu árum. Ég sé heldur ekkert sem ætti að hindra það.
 
Svo er það rúsínan í pylsuendanum.
 
Líklega var það um sjöleytið sem síminn hringdi og ég heyrði hressa rödd Evu hjúkrunarfræðings og Íslendings. Er í lagi að droppa inn spurði Eva. Það var í lagi. Svo kom hún og við drukkum eplasafa og borðuðum ristað brauð með smjöri og osti. Rúgbrauðið var þá ekki enn tilbúið. Við töluðum um heima og geima og þetta kvöld varð öðruvísi kvöld. Svo lagði Eva af stað til að gæta bús og barna í 200 km fjarlægð héðan, norðan við Stokkhólm.
 
Ég hef nefnt þessa konu áður. Hún reyndist Valdísi sérstaklega vel alla tíð og sérstaklega síðustu mánuðina. Konu eins og Evu get ég bara borið vel söguna vegna þess að þess er hún verð.

Mikill morgunmatur

Fyrir nokkrum árum þegar þær voru hjá okkur dótturdæturnar Guðdís og Erla veltu þær fyrir sér hvað væri eiginlega á þessum ökrum. Við útskýrðum það fyrir þeim að á ökrunum væri mikið af höfrum sem síðan yrðu malaðir í haframjöl sem haft væri í norgunhafragrautinn. Þar væri líka mikið af hveiti og rúgmjöli sem væri notað í brauðið sem væri borðað með hafragrautnum á morgnana. Eftir það sögðu þær þegar við fórum um stór akurlönd að þar væri mikill morgunverður. Það eru orðin all nokkur ár síðan þetta var og nú eru þessar stelpur orðnar að nánast fullorðnum konum. Það er staðfesting á því að tíminn malar áfram án afláts, óhagganlega óstöðvandi.
 
 
Ég var á leiðinni heim frá Vornesi um helgina í 27 til 29 stiga hita. Þá einmitt hugsaði ég um þetta með morgunverðinn á ökrunum. Það hefur orðið breyting á ökrunum á síðustu árum. Repjan hefur fengið mun meira pláss en áður þannig að það er líka framleidd olía á ökrunum. Olía sem hægt er að steikja eggin í sem borðuð eru með morgunverðinum og ég nota hana í pönnukökurnar mínar og þegar ég steiki grænmetið mitt og fleira. Hún er líka notiuð sem eldsneyti á dráttarvélarnar og önnur tæki, jafnvel bíla. Ég veit að korn og repja er líka ræktuð á íslenskum ökrum þannig að ég er ekki að segja Íslendingum neinar fréttir.
 
 
Á leiðinni heim þarna í hitanum datt mér fleira í hug en dótturdæturnar með morgunverðarhugleiðingar sínar. Ég velti fyrir mér þeim ríkidómi sem það er að eiga þessa fallegu vor og sumardaga og alla þá náttúrufegurð sem fylgir þeim. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn ástafanginn af þessu fallega góðviðrislandi sem er svo gróið svo langt sem séð verður til allra átta. Ég minntist þess þegar ég fór upp í útsýnisturninn í Vidablick upp í Dölum og sá tugi kílómetra til sumra átta og allt var gróið svo langt sem sást. Þá minntist ég líka gönguferðar sem ég fór upp með Fjaðrá hjá Holti á Síðu þegar við vorum að brúa þar og ég leit yfir meira graslendi en ég hafði nokkru sinni séð áður. Ég varð algerlega hugfanginn af þeirri sýn. Síðar sá ég eflaust stærri graslendur á Íslandi en ég sá þarna á út Síðunni, en þó veit ég það ekki, en áhrifin af gróðrinum þar vöktu hjá mér hrifningu sem mér er enn minnisstæð.
 
 
Þessi mynd er ekki tekin sama dag og myndirnar af ökrunum. Hún er tekin rigningardag einn fyrir stuttu, kærkominn rigningardag, og er nánast útsýnið ef setið er við vesturgluggann á Bjargi. Ég þarf því ekki að fara neitt til að hafa töfrana fyrir augunum.
 
 
Þessi ungi maður brá sér út af leikskólanum og malbikinu í lok síðustu viku til að komast á vit fegurðarinnar. Þessi mynd er tekin af honum þar sem hann er sestur niður á dýnuna sína til að hvíla sig eftir rúmlega tíu kílómetra göngu. Þetta með tíu kílómetra göngu vakti mikla undrun hjá mér. Mér hefði bara ekki dottið það í hug að þessir stuttu fætur gætu borið litla manninn alla þessa leið. En hann virðist hvergi banginn eftir myndinni að dæma.
 
 
Vatnið er ekki orðið nægjanlega heitt ennþá til að það sé notalegt að baða í því en ég geri samt ráð fyrir að það hafi verið ævintýri fólgið í því að bleyta fæturna þarna. Umhverfið er ekki amalegt og fjöldi seglbáta sést handan víkurinnar til vinstri.
 
Ég var búinn að hugleiða að bregða mér líka af bæ á morgun til að sjá nýja töfra. Fara í algert töfralandslag til að fá mér eina máltíð. Ég ætlaði með því að halda upp á ákveðinn áfanga sem ég hef verið að vinna við hér heima. En nú er áfanganum ekki lokið þannig að það væri öfugmæli að segja að ég væri að halda upp á að eitthvað sé búið. Ég hef grun um að í fyrramálið ákveði ég að fresta þeirri ferð um einn dag. Eftir það mun ég svo geta haldið af stað glaður yfir því að enn einum áfanga sé lokið á Sólvöllum.
 
Næsti áfangi eftir það er að klára leikturninn hans Hannesar. Ég þarf að setja eitthvað varanlegra á þakið en bara þakpappa og ég ætla líka að setja viðdskeiðar og ég sé ekki betur en ég þurfi að setja einhvers konar þakrennur. Hannes getur ekki hjálpað mér við þetta þannig að það er einfaldast að gera það áður en hann kemur til sumardvalar sinnar á Sólvöllum.
 
 

Smíðaeik

Sumar helgar í Vornesi eru erfiðaðri en aðrar. Helgin núna var ein af þeim. Eftir 40 tíma vinnu frá föstudagshádegi til mánudagsmorguns hélt ég heim á leið, ánægður með að vera búinn að ljúka þessu og líka ánægður með geta gert það án þess að ganga nærri mér. Landið var fagurt og frítt, laufgað, blómlegt, grænt, vingjarnlegt og bauð bara upp á það besta af því sem það á. Ég hlakkaði til næsta verkefnis sem var að saga tvo eikarstubba sem ég lagði til hliðar í vor, bara svona til að eiga sagaðan eikarvið úr sólvallaskóginum. Hann sögunar Mats ætlaði að koma klukkan eitt og sækja stubbana.
 
 
Og svo gerði Mats, hann kom klukkan eitt og bakkaði upp að bílageymslunni á Bjargi og við settum stubbana á vagninn hjá honum. Ég hefði getað annast þetta sjálfur en mér datt alls ekki í hug að stubbarnir hefðu léttst svo mikið frá því í mars sem þeir höfðu gert. Það datt Marts ekki í hug heldur.
 
 
Ég sagði einhvers staðar um daginn að þessi dráttarvél hans væri frá 1952. Því skrökvaði ég óvart, hún er International frá 1965. Alver þokkalegur aldur samt. Hún bilar nánast aldrei sagði Mats og hún væri þar að auki auðveld í viðgerð og viðhaldi. Hljóðið í henni er notalegt eins og í góðum bíl. Hlutverk þessarar dráttarvélar er að draga þennan skógarvagn og annast glussavökvann á kranann
 
 
Þarna sjáum við bændasögina hans Mats. Ég veit ekki hvort það er fjárhagslegur ágóði að hafa farið þessa leið til að fá nýjan við í setur og bök á sex stóla og í eina borðplötu. En það er eitthvað við það að gera þetta, það er gaman og mér finnst það vera ákveðin dyggð. Ég fann líka á Mats að hann skildi mjög vel þá afstöðu mína. Hann vildi vera mér innan handar.
 
Þegar Bjarg var byggt hafnaði það nálægt tveimur eikum og það tók mig langan tíma að sætta mig við að fella þær. Svo fór þó að lokum. Það eru margar, margar aðrar eikur í Sólvallaskóginum þó að þessar hafi verið í stærri kantinum. Viðurinn úr þeim var of lítill til að selja hann en líka of góður til að brenna hann. Að lokum fór hann að mestu í eldivið og lítillega í smíðavið. Ég er mikið ákveðinn í því núna að láta Mats saga fyrir mig þegar felld verður góð björk, askur og hlynur.
 
 
Má ég taka mynd af þér sagði ég við Mats þegar við vorum að kveðjast. Já já, það máttu gjarnan sagði hann og ég varð svolítið hissa. Viltu senda reikning eða á ég að koma með peninga til þín spurði ég hann. Þú ræður því alveg, svaraði hann. Þegar ég heyrði svo hvað þetta ætti að kosta, þá sagði ég honum að ég kæmi með peningana á morgun. Hann ætlar að heimsækja dóttur sína í Bergen á miðvikudaginn og sú upphæð sem hann ætlar að taka er ekki fyrir mörgum lítrum af bensíni.
 
Þessi maður hefur hjálpað mér áður og ég hef alltaf fengið að borga honum fyrir það, en svo mikið er víst að hann hefur ekki auðgast á því sem hann hefur tekið fyrir þá aðstoð. Hann sagaði niður í byggingarvið fyrir okkur 13 stór grenitré árið 2006 þegar við byggðum fyrst við Sólvelli. Hann reynir ekki að vera til lags, en hann leggur aðstoð sína fram á eitthvað svo þægilegan hátt og það er svo auðvelt að vinna með honum. Mér er mjög hlýtt til þessa manns.
 
Þegar ég var búinn að taka myndina sagði hann mér að hann væri búinn að vera á Íslandi. Hann hafði farið í rútuferð og þeir þorðu ekki að koma of nálægt Heklu því að þeir töldu að hún gæti farið að gjósa með stuttum fyrirvara. Ísland er mikið öðru vísi land sagði hann.
 
 
Ég segi sjúklingunum í Vornesi oft að þegar fólk kemur lífi sínu í góðan farveg, þá þarf ekki svo mikið til að verða ánægður. Það sagði ég þeim líka um síðustu helgi. Ég er notalega ánægður núna að eiga 19 lengdarmetra af 20 sm breiðum eikarborðum og 2,2 sm þykkum úr tré úr Sólvallaskóginum. Ég veit að ég verð líka ánægður ef ég eignast nokkra metra af svona borðum úr birki, ask og hlyn.

Það hefur ekki komið upp í vana

Eitt sinn þegar ég kom í vinnuna í Svartnesi að morgni til fyrsta sumarið mitt í Svíþjóð, í miklu blíðskaparveðri, þá var ég aldeilis frelsaður af þeirri náttúrufegurð sem við mér blasti á leiðinni þangað snemma um morguninn. Ég reyndi að lýsa fyrir sænskum vinnufélaga mínum þar hversu fanginn ég var af upplifuninni. Honum fannst ekki mikið um og sagði að það væri bara eins og það ætti að vera. Þá datt mér í hug að þetta kæmi kannski bara upp í vana og ég mundi hætta að hrífast af sænska sumrinu eins og þessi maður virtist hafa gert. En sannleikurinn er sá að jafnvel ekkert vor í Svíþjóð hefur heillað mig jafn mikið og þetta tuttugasta og fyrsta vor mitt hér. Ég reyndi að taka nokkrar myndir sem allra snöggvst á leiðinni hingað í morgun og svo hér í Vornesi. Myndavélin ræður ekki við það en ég birti hér alla vega nokkrar myndir.
 
 
Við Hjälmaren
 
 
 
Og aftur við Hjälmaren
 
 
 
Til suðurs frá fyrrum skrifstofunni minni í Vornesi
 
 
 
Til vesturs frá Vornesi. Til hægri er stór lind sem gefur mörgum skugga og svala á heitum og sólríkum sumardögum
 
 
 
Til norðurs frá Vornesi, séð út móti heimkeyrslunni og fínu trjágöngunum þar
 
 
 
Til austurs frá Vornesi. Einmitt þarna kemur sólin upp um þessar mundir
 
 
 
Hér er hægt að tala um blómaskrúð undir glugga að matsalnum
 
 
Gert í miklum flýti í smá hléi í vinnunni á föstudagskvöldi

Margar myndir - heldur minna blaður

Ég skrökvaði um daginn þegar ég sagði að við hefðum keypt Grythyttans garðhúsgögn niður í Laxå. Nei! það var Rósa sem tók upp veskið og borgaði. Þar með var það hún sem keypti, ekki við. En það þarf að setja nýja rimla í setur og bök á helmingi stólanna. Það þarf að eignast og vinna efni í það. En viti menn, út í bílskúr liggja tveir eikardrumbar úr Sólvallaskóginum. Þeir duga í alla rimla á öllum stólunum. Þess vegna heimsótti ég hann sögunar Mats í dag.
 
Þessi rólyndi, hjálpsami, góðlátlegi maður tók mér vel eins og alltaf. Ég bar upp erindið og sagði honum stærðina á drumbunum. Já, já, þá bara sögum við sagði Mats, við sögum á mánudaginn eftir hádegi, er það ekki í lagi? Ég horfði á breiðar og vöðvamiklar axlir hans og arma og ég vissi að hann er gríðarlega sterkur. Það hef ég séð. Svo sagði ég honum að ég væri svo kraftlaus að ég gæti alls ekki lyft drumbunum upp á kerru. Nei, svaraði hann rólega, það get ég ekki heldur. Þá óx mér aðeins sjálfstraust. Hann ætlar að koma á Nallanum sínum frá 1952 og hafa skógarkerruna með og lyfta drumbunum með krana upp á vagninn. Það verður gaman að saga smíðavið úr eik úr Sólvallaskóginum.
 
Þarna fyrir miðju er stóra Sólvallaeikin. Hún verður ekki tekin í smíðavið á næstu árum. Hún er eiginlega sjálfskipuð drottning Sólvallatrjánna og er útvörður á norðvesturhorninu. Hinu megin á grindverkinu sem er fyrir miðri mynd eru tveir brómberjarunnar. Upphaflega gróðursetti ég þá á kjánalegum stað þannig að þeir eru búnir að vera á vergangi. Það var svo Rósa sem gróf fyrir þeim á ný um mitt sumar í fyrra. Nú eru þeir á góðum stað og koma væntanlega til með að þéttklæða þetta grindverk. Spurning hvort ég þarf að hækka það síðar. Milli grindverksins og eikarinnar er alparós sem er rúmir fimm metrar í þvermál og tveir og hálfur meter á hæð. Hún er sú stærsta sem ég og fleiri vita um hér á svæðinu.
 
Kringum grindverkið og brómberin er moldarflekkur sem er svo sem eins og fjórir sinnum sex metrar. Það fóru margar, margar hjólbörur af mold í hann til að fá hann til að falla inn í umhverfið. Undanfarna daga hef ég verið að vinna við ellefu svona staði þar sem ég hef verið að laga að umhverfinu. Ég sáði í þá síðustu í dag en á eftir að valta fjóra þeirra. Það verður að bíða laugardags eða mánudags því að á morgun fer ég að vinna löngu helgina í Vornesi.
 
Beykið vex af ótrúlegum hraða um þessar mundir. Vaxtarsprotarnir eru eins og hálf glærir og linir mjög. Því hanga þeir eins og myndin sýnir. Þeir reisa sig þegar líður á sumarið en endanlega verða þeir beinn hluti af greininni næsta vor.
 
Valdís vildi alltaf hafa rabarbara en það var eins og við fyndum ekki góðan stað fyrir hann fyrr en í fyrra. Nú virðist honum líða vel og það er sjálfsagt komið á annað kíló af rabarbara til sultugerðar. Ég þarf að kaupa fleiri hnausa til að þetta verði búskaparlegra.
 
Líklega verða kartöflurnar tilbúnar fyrir Jónsmessuhelgina. Rósa átti frumkvæðið að kartöflunum eins og flestum matjurtum.
 
Þú færð kannski smávegis af berjum á sólberjarunnann sagði hun Pernilla í Trädgårdsväxter þegar ég keypti tvo runna þar í vor. En viti menn; það eru margir svona klasar á runnunum þannig að það verður hægt að fá eina og aðra munnfyllii þarna í sumar.
 
Sama sagði hún um rifsberjarunnana tvo sem ég keypti í sama skipti. En þarna er líka töluvert af berjum á leiðinni.
 
Þú færð ekki ber fyrr en í fyrsta lagi næsta sumar sagði hún um stilkilsberjarunnana, en það eru þegar komnir nokkrir grænjaxlar. Það þarf kannski ekki stórt ílát undir berin þetta sumarið en það er svo skemmtilegt að sjá að þetta er allt á góðri leið. Stikilsber eða þyrniber heitir það víst.
 
Ætlarðu ekki að fara að rækta eitthvað spurði hún Helga Bjarnadóttir fyrir mörgum árum. Nei, ég hélt ekki, ég hefði ræktað yfir mig og fengið ólyst á garðrækt í Hrísey. Nei, láttu ekki svona sagði Helga. Það er bara að byrja og svo vex allt svo hratt hér að þú færð áhugann aftur. Hún hafði nú rétt fyrir sér.
 
Það eru ný og ný blóm á jarðarberjaplöntunum tólf og ég sé ekki betur en það verði ber um Jónsmessuhelgina. Það verður alla vega mikið af jarðarberjum ef fer fram sem horfir.
 
Svo er hér mynd af Svenna og Lottu. Svenni var ungur hljómsveitarmaður á sjöunda áratugnum. Hann er með töluverðan herðakistil. Svo fékk hljómsveitin söngkonu, frá Bandaríkjunum held ég, og það urðu ástir. herðakistillinn stóð ekki í vegi fyrir því.
 
Þessir berjarunnar heita havtorn og ég finn ekkert íslenskt orð yfir það. Það þarf einn af hvoru kyni ef það eiga að verða ber. Þessir runnar eru kallaðir Svenni, og Lotta. Svenni er til vinstri og er karlrunninn en Lotta er til hægri og er að sjálfsögðu kvenrunninn. Það er spurning hvort ég hafi verið of linur við að vökva þau en í dag setti ég rör á milli þeirra til að vatna í. Það eru engin merki um ber ennþá.
 
Svo gróðursetti ég líka sex ameríska bláberjarunna í viðbót við þá sem fyrir voru. Einnig tvær plöntur af hindberjum í viðbót við þær sem fyrir voru. Ég finn fyrir berjabrgði þegar ég skrifa þetta.
 
Svo að lokum er hér sýrena í blóma sem lyktar afar vel.
 
Ég hélt að ég væri að verða heittrúarmaður i dag. Það var svo mikil upplifun að sjá hversu vel öllu fer fram og að ég að lokum náði þessum frábæra árangri með flekkina mína. Svo fannst mér að ég væri barnalega glaður og fannst það allt í lagi. Að lokum varð ég mjög þreyttur en ánægður yfir langþráðum áfanga -einum áfanganum enn- og hann er fyrir mig verulega stór. Mikið verður að vökva á næstunni en það er hugleiðslu og afslöppunarverk. Valdís var lengi búin að þrá þessar umbætur en það fór sem fór. Það verður mikið einfaldara að hirða Sólvallalóðina hér eftir.
 
Nafnið Härjedalen hefur bergmálað mikið í höfði mér allan daginn. Eftir vinnuna um þessa helgi verð ég í þriggja vikna fríi. Ég fer ekki hátt með það og segi ekki neitt en ég get hugsað mér að verðlauna mig. Härjedalen, borið fram Herjedalen, er það hérað í Svíþjóð sem er hæst yfir sjávarmáli, en þar ríkir gróðurinn eins og annars staðar í þessu frábæra landi og allar myndir sem ég hef séð þaðan eru frábærilega fallegar.

Svo fer ég fyrr að sofa en í gær

Það skeði margt í gær. Ég fór snemma út til að taka mynd af Sólvöllum og færði þá bílinn inn á lóð nágrannans sunnan við. Bílinn vildi ég ekki hafa með á myndinni þar sem hann er bara hrúga úr járni, plasti og gleri. Svo tók ég myndina og birti á feisbókinni.
 
Síðan hringdi ég í gleraugnasérfræðinginn minn til að panta tíma. Þegar búið var að ganga frá því og ég var að kveðja, þá heyrði ég að ég fékk sms. Gaman hugsaði ég. Ég lagði á og fór að leita að farsímanum mínum. Ég byrjaði að leita inn í herbergi en þar var hann ekki. Þá leitaði ég í þvottahúsinu og ekki var hann þar heldur. Þá gekk ég að heimasímanum og ætlaði að hringja í farsímann en á leiðinni þangað stakk ég hendinni óvart í vasa minn og þar var farsíminn. Smsið var staðfesting á tímanum hjá gleraugnasérfræðingnum, það var ekki meira spennandi en svo.
 
Síðan ætlaði ég að fara til Fjugesta til að kaupa moltuker úr plasti. Fyrst hringdi ég í verslunina Nágrannabæinn og spurði hvort þeir ættu það ker sem ég leitaði að. Ég heyrði á röddinni að það var Lod (Lúd) sem svaraði. Kerið var til og ég spurði eftir verði. Lod sagði að það sem væri best einangrað kostaði 2200 krónur. Árans peningur hugsaði ég en var samt ákveðinn í að kaupa það.

Síðan ætlaði ég að grípa bíllykilinn af ákveðinni hyllu en þar var hann ekki. Þá byrjaði leit að honum. Ég var farinn að óska þess að geta hringt í bíllykilinn eins og ég geri þegar ég finn ekki farsímann. Aukalyklana vildi ég ekki taka, þar lágu mörkin. Svo mundi ég eftir því að ég hafði notað lykilinn þegar ég færði bílinn vegna myndatökunnar. Auðvitað var lykilinn í bílnum.
 
Ég hika ekkert við að segja frá svona vegna þess að ég veit að margir þekkja sjálfan sig í lýsingunni. Svona er þetta stundum en sem betur fer ekki alltaf. Ég held að svona hafi það reyndar verið lengst af í lífi mínu, að þetta sé sem sagt ekki ellimerki.
 
Þegar ég kom að versluninni Nágrannabærinn var Lod þar úti að raða pokum með mold, áburði, kalki og öllu mögulegu. Hann áttaði sig straax á því að við hefðum talað saman stuttu áður og sagði nú alvarlegur í bragði: Þú getur eiginlega ekki fengið kerið núna. Jæja, er eitthvað á seiði. Ja-a, sagði hann, á föstudaginn verða þessi ker 500 krónum ódýrari og ég get ekki selt þér það á því verði í dag.
 
Mér leiddist þetta hreint ekki því að 500 sænskar krónur eru um það bil 8600 íslenskar krónur. En ég ætlaði líka að kaupa hænsnaskít í pokum og það gerði ég. Lod hjálpaði mér með pokana út að bílnum og þegar þangað kom lagði hann hendina á skrásetningarskiltið og sagði: Þetta er fallegt skrásetningarnúmer. Það er nefnilega svo að bókstafirnir á skrásetningarnúmerinu hjá mér eru LOD. Bíllinn minn og Lod verslunarmaður í Nágrannabænum eru eiginlega nafnar og þetta talar hann alltaf um þegar við förum með eitthvað út í bílinn.
 
 
 
 
Það er 17 stiga hiti núna klukkan að verða tíu. Ég var á hinum árlega vegafundi okkar nágrannanna áðan og byrjaði hann klukkan sex. Við vorum þar átta kallar, helmingurinn á mínum aldri og við vorum allir á stuttbuxum og stutterma skyrtum. Það eru góðir dagar um þessar mundir.
 
Ég var þreyttur þegar ég hætti bardúsimínu hér úti í gærkvöldi. Ég borðaði og settist svo í stól og svo leið kvöldið í tilgangsleysi. En svo áttaði ég mig á að ég ætti að sitja úti. Það var orðið dimmt þegar ég settist ég út í hengiróluna en það var samt gott að vera þar.
 
Þegar ég kom inn var klukkan vel að halla í tólf, ég gekk að tölvunni og rakst þá á myndbandið frá Djúpavogi. Þegar ég var búinn að horfa á það minntist ég atburðanna í Hrísey árið 1999 eða 2000 þegar kvótinn var rifinn af Hríseyingum. Ég skrifaðilanga grein um Hrísey í febrúar árið 2000. Ég fann greinina á netinu og reyndi lengi en án árangurs að spara hana inn á Word. Svo var klukkan orðin eitt og ég gafst upp. Mér hefur ekki enn tekist að leysa þetta með greinina en ég er alveg ákveðinn í því að setjast núna út í hengiróluna með ristaða brauðsneið með osti og heitan drykk og hafa það huggulegt þar um stund. Ég er glorhungraður eftir strangar annir dagsins. Svo fer ég FYRR að sofa en í gær.

Í morgun setti ég textvarpið á og viti menn!

Í morgun setti ég textvarpið á nokkuð snemma og sá nokkuð mjög áhugavert. Karolinska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi hefur á sex mánaða tímabili fylgst með 100 manns sem hefur tekið þátt í  5:2 aðferðinni til að minnka blóðsykur og yfirvigt. 99 af þessum 100 léttust og blóðsykur og líkamsfita þeirra minnkaði. Hins vegar minnkaði ekki mittismál allra sem léttust. Einn hafði léttst um tólf kóló á þessu tímabili og annar aðeins um eitt kíló. Hins vegar bætti þetta almenna heilsu þátttakenda, líka þeirra sem léttust minna.
 
Ég varð harla glaður við að lesa þetta. Ég nefnilega nota sjálfur 5:2 aðferðina. Ég var kannski ekki í bráðri þörf fyrir að léttast en óneitanlega hef ég verið og er óþarflega þungur. Ég hef léttst um einhver tvö til þrjú kóló á rúmum tveimur mánuðum, ég er hressari og maturinn er mér verðmætari. Í dag er mánudagur, annar föstudagurinn í þessari viku. Hinn er svo á fimmtudaginn. Einstaka sinnum færi ég föstudaginn á þriðjudag eða föstudag ef eitthvað serstakt er í gangi. Ef ég á von á fólki eða ég er boðinn eitthvað annað, en það er þó mjög sjaldgæft.
 
Nú vil ég gera játningu. Það er að nálgast hádegi þegar ég er að skrifa þetta og ég er verulega svangur en það skeður ekki oft, svo undarlegt sem það nú er. Enginn morgunverður og enginn hádegisverður. Ég kem til með að borða kvöldmatinn minn milli klukkan fjögur og fimm og fyrir þann tíma verð ég búinn að gleyma því að ég er svangur núna um hádegisbil. Að öðru leyti vil ég bara segja að mér líður mjög vel með þennan lífsstíl og ég þekki fleiri sem nota þessa aðferð og segja að það auki almenna vellíðan og sé mjög góð leið til að léttast.
 
Meðan ég var á Íslandi frá 19. apríl til 5. maí sleppti ég því að fasta utan einu sinni, hefði annars átt að fasta fimm sinnum. Ég var nú einu sinni á ferðalagi og mér datt ekki í hug að vera þá í neinu föstuveseni. Ég hafði bara veislu þennan tíma og borðaði þær máltíðir og kökur og tertur sem mér var boðið upp á eða ég valdi að láta eftir mér. Ég þyngdist ekki á þeim tíma og ég fann ekki að þetta hefði nein áhrif á líðan mína. Hefði ég verið fleiri vikur geri ég ráð fyrir að ég hefði þurft að fara að færa út í beltinu og að ég hefði fundið fyrir þreytu af sykri og hveiti. Svo þegar ég kom heim byrjaði ég aftur á mínum tveimur föstudögum á viku eins og ekkert hefði í skorist.
 
 
 
 
 
Það er komið kvöld og ég borðaði 200 gr af steiktum makríl klukkan hálf fimm og hafði með honum minn sígilda pönnugrænmetisrétt. Þegar leið að kvöldmatnum var ég búinn að gleyma hungrinu sem ég fann fyrir um hádegið. Ég var mjög duglegur við að drakka vatn eins og aðra daga sem ég fasta. Makríllinn var afar góður eftir föstu dagsins og þar sem það voru 400 gr í pakkningunni á ég tilbúinn steiktan makríl í eina máltíð á morgun.
 
Ég læt líka öðru hvoru heyra í mér varðandi hvönnina frá honum Bjarna í Hrísey. Það er nú meiri hollustan þó að hún sé svo sem ekki falleg út í hafragrautnum. Áður var það þannig að ef ég fékk mér köku, til dæmis eftir kvöldmat, gat ég fengið heiftarlegan brjóstsviða sem truflaði svefn. Ég þurfti of oft að pissa á nóttunni og mér fannst maginn ekki vera alveg í nógu góðu jafnvægi. Svo byrjaði ég á að hafa hvönn sem hluta af matnum fyrir rúmlega ári síðan og öll þessi einkenni hurfu. Ég varð allur hressari, duglegri heima fyrir, duglegri við framkvæmdir mínar og jafnvel hressari en vinnufélagar mínir sem í aldri gætu verið börnin mín.
 
Ég hélt að ég hefði sofið vel en eftir hvönn fór ég samt að sofa ennþá betur. Fleira gæti ég talið upp en ég ætla að tilláta mér að hafa pínu einkamál.
 
Barnaskapur!    Ímyndun!    Já, ef svo er þá er það afar góð ímyndun

Helgi á Sólvölum

Ég get orðað það þannig að þessi helgi byrjaði byrjaði hjá mér á járnbrautarstöð í bæ sem heitir Hallsberg. Mæðginin Rósa og Hannes Guðjón stigu þar af lestinni frá Stokkhólmi og færðu sig um set inn í bílinn minn. Svo var haldið til Sólvalla. Þau virtust vera í essinu sínu.
 
 
 
 
Fyrsta verk þeirra á Sólvöllum var að fara bakvið húsið og athuga með matjurtaræktina sem er komin í gang. Það fyrsta sem skeði í matjurtaræktinni var 1. apríl þegar ég sáði fyrir graskeri og skvass. Skvass er nafn sem ég hef gefið ákveðinni matjurt og ég hugsa að flestir skilji þetta nýyrði mitt. Í þessari fyrstu ferð að húsabaki vökvuðu gestirnir mínir fyrstu sáninguna af kartöflunum. Ekki stór garður það, enda eru kartöflurnar hér á Sólvöllum settar niður til gamans.
 
Það er hins vegar allt annar handleggur með það sem þarna er í gangi. Það eru fjölmargar tegundir af afar hollum matjurtum í þessum römmum og það sem hægt er að greina þarna ef að er gáð er hvítlaukur og laukur. Svo er bara nefndu það allt mögulegt komið upp í römmunum eða í þann veginn að kom upp. Ég á engan heiður af þessu, það er Rósa sem er driffjöðrin og hún hefur verið hér með alla fjölskyldu sína í nokkur skipti í vor. Það sem ég sáði 1. apríl er í römmunum sem eru all nokkuð lengra í burtu. Grasker og skvass tekur mikið pláss og fer með sína kröftugu leggi, sinn mikla blaðvöxt og stóru grænmetisávexti út um víðan völl. Þess vegna var það sett vel afsíðis.
 
Við unnum líka við turninn hans Hannesar um helgina. Þarna eru þau mæðgin að flytja perlumöl  að turninum.
 
Við nefnilega hellulögðum svæðið inn í turninum og hellulögn krefst þess að mold sé fjarlægð og síðan undirbyggingar. Byggir maður turn þá byggir maður turn og ekkert hálfkák við það. Hannes er lagtækur maður ef honum er gefið færi á því.
 
Og afi gamli sem stundum er ögn undarlegur í kollinum er líka svolítið lagtækur. Undarlegur í kollinum skýrist á þann hátt að studnum eru afi og dóttursonur ekki alltaf alveg vissir um það hvað hinn er að meina. Það fer þó alltaf vel að lokum.
 
 
Ég átti kannski minn þátt í þessari framkvæmd en hugmyndin að því að setja niður sumarblóm og fjölær blóm þarna í hornið kom frá Rósu. Því verki lukum við skömmu fyrir brottför þeirra í dag og Rósa lét sér ekki detta í hug að fara fyrr en hún væri búin að vökva.
 
Og fyrir brottför fékk afi að taka mynd. Hannes er ekki alltaf hrifinn af myndatökum en þarna var hann býsna samvinnuþýður. Aftan við hann sér í nýgömlu Grythyttans garðhúsgögn sem við keyptum í Laxå í gær. Þessi húsgögn eru fokdýr ný og þess vagna keyptum við þau þarna niðurfrá í verslun sem selur notuð húsgögn. Fokdýr en alveg frábær að gæðum. Þar sem það mesta er að verða klárt á Sólvöllum mætti ætla að gamli smiðurinn geti hresst upp á þessi húsgögn í bílskúrnum á komandi vetri.
 
Svo má segja að þessari helgi lauk á sömu járnbrautarstöð og hún byrjaði. Myndina tók ég einhverri mínútu áður en þau stigu um borð í lestina. Ég var þeim mæðginum mikið þakklátur fyrir heimsóknina.
 
Af járnbrautarstöðinni fór ég beina leið heim, gekk að sláttuvélinni, setti hana í gang og byrjaði að slá. Ég verð að sýna Valdísi, mér og umheiminum að ég geti líka rækt þetta mikilvæga verkefni. Sólvellir líta ekki vel út nema að það sé slegið nokkuð reglulega. Gestirnir mínir voru rétt farnir og ég var kominn í gamla hlutverkið hennar Valdísar og því saknaði ég hennar óvenju mikið á því augnalbiki sem ég byrjaði að slá.
 
Síðan lék þetta í höndunum á mér þangað til ég fékk heimsókn eins af nágrönnum mínum. Við fórum inn í kaffi og spjölluðum um ferðalög langt norður í land. Hann á nefnilega mjög góðan bústað þar langt uppi og vill endilega fá mig í heimsókn í sumar. Ennþá norðar er annað maður sem ég kynntist á sínum tíma gegnum minn góða vin Kjell sem líka á þar frístundahúsnæði. Hann vill einnig fá mig í heimsókn. Báðir þessir menn eru ellilífeyrisþegar eins og ég. Svona ferðalag er í athugun og verður farið seinni hluta sumars ef af verður eins og ég vona að gangi eftir.
 
Þegar þessi gestur fór hringdi síminn og þar dvaldi ég lengi. Mikið er gott að það er til fólk sem vill hafa svona samband við mig. Stuttu eftir símtalið byrjaðiað rigna og síðan hafa gengið yfir hressilegar skúrir. Á morgun, mánudag, og á þriðjudag er spáð þrumuskúrum í 18 til 20 stiga hita. Síðan er spáð allt að 25 stiga hita og talsverðri sól.
 
Þegar vð fórum á járnbrautarstöðina í dag fór ég á stuttbuxunum mínum með mína hvítu leggi, í stutterma skyrtu og berfættur í sandölum. Slíkir dagar eru góðir dagar, dagar þegar maður finnur snemmsumarylinn umlykja sig í faðmi sínum.
 
 

Hún á afmæli í dag

Félagsmálafulltrúi einn í Södermanland, kona á tæplega miðjum aldri, kom oft með fólk til mín í Vornes, fólk sem þá fann sig algerlega minni máttar. Að vera vitni að því hvernig þessi kona kom fram við skjólstæðinga sína á þessum erfiðu stundum hafði alltaf áhrif á mig. Ég sá líka hvernig þessir skjólstæðingar hennar næstum því hölluðu sér nær henni þar sem þau sátu venjulega hlið við hlið og hlustuðu á þær upplýsingar sem ég gaf um starfssemi okkar í Vornesi. Það var auðséð að fyrir þá sem funndu sig minni máttar átti hún einhvern ósýnilegan styrktarsjóð sem gerði erfiðar stundir auðveldari að komast í gegnum.
 
Í morgun sá ég á feisbókinni nokkrar línur sem þessi kona eignaði mömmu sinni sem yfirgaf jarðlífið fyrir áratugum síðan. Þessar línur skrifaði hún vegna þess að dóttir hennar var að bjóða til stúdentsveislu og dóttirin gat ekki boðið ömmu sinni á sama hátt og öðrum vegna þess að hún féll frá löngu fyrir aldur fram. Þessar línur félagsmálafulltrúans í Södermanland snertu mig djúpt og hugsanir mínar komust í ákveðinn farveg minninga og trega.
 
En þegar ég var búinn að lesa þessar línur félagsmálafulltrúans og verða fyrir sterkum áhrifum af lestrinum, þá hélt ég áfram að renna augum yfir feisbókina. Svo stoppaði ég snögglega við nokkuð sem ég sá; fólk var að óska henni Binnu mágkonu minni til hamingju með sjötíu og fimm ára afmælið. Úff, aulinn ég, sem sendi henni ekki einu sinni kort.
 
Valdís hafði til að bera þann eiginleika að muna afmælisdaga af alveg ótrúlegri nákvæmni. Hún átti gamla íbúaskrá Hríseyjar og það brást nánast alls ekki ef íbúaskránni var flett og Valdís spurð út í afmælisdaga fólks, hún mundi þá. Hefði Valdís ennþá verið hérna megin landamæranna til ókunna landsins hefði hún verið farin að tala um það fyrir fáeinum vikum að hún þyrfti að kaupa kort handa henni Binnu og eitthvað smá í pakka. Svo hefði hún verið búin að senda það fyrir eins og einum tíu dögum.
 
Trygglyndið milli þeirra systranna þriggja var sterkt og þar að auki sýndi Valdís öllum trygglyndi sem á einhvern hátt tengdust henni fjölskyldu eða vinaböndum. Þegar við komumst á aldur verða afmælin sem lenda á tug stærri afmæli. Afmæli sem enda á fimm verða líka heldur stærri afmæli. Hvort hún Valdís hefði ekki munað eftir því að senda henni Binnu systur sinni aðeins fallegra kort og aðeins veglegri sendingu í tilefni sjötíu og fimm ára afmælisdagsins. En ég mundi ekki eftir afmælinu hennar fyrr en ég sá það á feisbókinni. Þarna verð ég mér stundum til skammar.
 
Binna mín, þú hefur líka sýnt mér trygglyndi. Til dæmis þegar þú fékkst hana Þorbjörgu dóttur þína og Tomas tengdason þinn í Värnamo til að koma með þig í heimsókn hingað til mín, tæplega 300 km vegalengd, til að vera hérna stund úr degi. Eða þegar þú hringir til mín til að athuga hvort það sé ekki allt í lagi með mig.
 
Ég geng ekki hratt fram í því að leggja til hliðar eða fjarlægja föt og hluti sem tilheyrðu Valdísi. Ég hef sent þeim systrum hennar smávegis sem hún átti og þá hringja þær til baka til að þakka fyrir og láta mig vita að sendingin hafi komið fram. Ég sendi Binnu meðal annars nokkra boli um daginn, boli sem passa vel á hana. Þegar hún hringdi til að láta mig vita að sendingin hefði komið fram sagði hún að hún hefði tekið bolina, lagt þá gætilega á borð eða rúm, strokið mjúklega úr þeim og brotið þá fallega saman aftur.
 
Ég skildi Binnu afar vel þegar hún var að segja nér frá þessu. Það voru í raun ekki bolirnir sem skiptu máli, heldur hugsanirnar sem þeir komu af stað. Hugsanir um samveru í bernsku, samveru gegnum lífið, lífsreynslu, minningar, tillitssemi, tregablandið þakklæti, sorg og góða hjartalagið sem þessar þrjár systur báru hver til annarrar. Nú eru þær tvær, Árný og Binna, sem sem halda áfram að hlú að þessu góða hjartalagi sín á milli.
 
Binna mín, innilega til hamingju með áfangann.
 
 
 
 
Það er spurning hvenær eitthvað á að skrifa, hvort það á að skrifa það eða hvernig. Ef ég hefði ekki verið búinn að lesa línurnar sem félagsmálafulltrúinn í Södermanland skrifaði á feisbókina áður en ég áttaði mig á afmæli Binnu, þá er eins víst að ég hefði bara hringt til hennar seinna í dag, óskað henni til hamingju og sagt að ég hefði verið klaufi að senda ekki kort. Kannski vekja svo þessar línur mínar upp hugsanir einhvers annars eða fá einhvern annan til að skrifa einhverjar línur. Þannig er lífið, við höfum áhrif hvert á annað og oft án þess að átta okkur endilega á því.
 
Þessar línur mínar eru ekki gleði- eða húrrahróp og það var heldur ekki ætlun mín. Þær eiga að vera línur virðingar, þakklætis og væntumþykju. Heimsókn mín til ykkar mágkonur mínar, Binna og Árný, var stutt og léleg í Íslandsferð minni um daginn. Fyrirgefið mér, ég set ykkur lengst upp á listann í næstu Íslandsferð minni. Mér þykir vænt um ykkur.

Kannski var það bara gott á mig

Það lá við að mér fyndist ég ekki eiga það skilið þegar ég var að taka afrit til að færa til í blogginu mínu áðan og allt bloggið hvarf. Líklega eru hálfgerðir svefnórar í mér eftir mjög stuttan svefn í Vornesi í nótt og ég hefði bara átt að vera kominn í rúmið. Ég kom heim nokkru fyrir hádegi og ætlaði svo að flytja slatta af mold á vissa staði. Eftir tólf hjólbörur var ég uppgefinn, fór inn og útbjó mat handa mér. Þegar ég var búinn að borða fékk ég mér kaffi í bolla, settist ég í djúpan stól og kveikti á sjónvarpinu til að lesa textavarpið. Ég sá aldrei myndina koma á skjáinn en ég vaknaði snarlega þegar ég missti kaffið niður á lærið á mér og niður í stólinn sem ég sat í. Þar með var ekki drukkið svo mikið meira kaffi og afslöppuninni var snarlega lokið.
 
Ég hef ekki yfir nokkru að kvarta, er stálhrustur og fullfær i vinnu þegar á þarf að halda. Það liggja fyrir mér næg verkefni hér heima til að halda mér í formi og mér líkar alltaf jafn vel að virða fyrir mér það sem kemst í verk. Broddi er búinn að heimsækja mig tvisvar í kvöld, eða kannski eru það tveir Broddar. Á sunnudagskvöldið var hann ekki kominn þegar ég lagði mig og ég var orðinn afbrýðissamur, var hræddur um að hann væri farinn að halda framhjá mér og farinn að daðra við nágrannana. Þegar ég leit út í gærmorgun var maturinn þó horfinn. Þá létti mér þó að mig grunaði pínulítið að Broddi væri lauslátur og héldi við fleiri en mig.
 
En það er gaman að þessu og best að ég fari ekki að byrja á neinu bulli sem ég missi svo af skjánum og finni ekki aftur.
 
Þessa mynd tók ég út á móti trjágöngunum heim að Vornesi korter fyrir sjö í morgun. Hjúkrunarfræðingurinn Annelie er þarna að mæta í vinnu. Hringurinn í miðju hlaðinu verður orðinn mjög fallegur um helgina gæti ég trúað. Lauflausa tréð vinstra megin við trjágöngin er hengiaskur. Askur laufgast seinast af lauftrjánum og í skóginum norðaustan við Sólvallahúsið eru all margir askar. Það er eðalviður í askinum en hann er sem sagt seinn til. Hann fellir líka laufið fyrst allra lauftrjáa á haustin. Því er ég mátulega hrifinn af honum en hann eykur þó óneitanlega á trjáflóruna hjá mér.
 
Þetta eru runnarnir í græna hringnum í Vorneshlaðinu. Mér er ómögulegt að muna hvað þeir heita, en blómskipanin er eins og flugeldur sem er að springa þegar hún er í hámarki. Nokkra daga eru þessir runnar alveg makalaust fallegir og eftir það eru þeir bara fallegir.
 
Svo hef ég ekki hugmynd um hvað þessi runni heitir þó að ég sé búinn að sjá hann í blóma átjan ár í röð. Það má segja að hann er þakinn hvítri ábreiðu meðan hann er í fullum blóma. Næst þegar ég verð í vinnu í Vornesi, um 25. maí, verður blómgunin líklega farin að láta á sjá. Vornes er fallegur staður.
 
Það varð blogg samt sem áður en ekki stafkrókur af því efni sem ég tapaði af upphaflega blogginu. Nú er Óli farinn að kasta sandi í augu mín. Góða nótt.

Vætutíð

Klukkan er á tólfta timanum á þessum sunnudegi. Morgunverðinum er lokið, sjónvarpsmessan er afstaðin en rigningartíðin gefur sig ekki. Ég get svo sem ekki neitað því að það er mikilvægt að hafa raka í jarðveginum einmitt núna þegar gróðurinn er að lifna við af miklum krafti, miklum krafti en hljóðlátum. Það er ótrúegt eins og það skeður mikið þegar allt er að koma í gang á vorin hvað það fer hljóðlátlega fram.
 
Þegar ég gróf fyrir bláberjarunnum á miðvikudaginn var, daginn eftir að ég kom heim frá Íslandi, þá kom ég á skraufaþurra mold á um sjö til tíu sentimetra dýpi. Ég reyndar skil alls ekki þau lögmál sem búa þar að baki að jörð sé þurr á þessu dýpi eftir um það bil fimmtíu millimetra regn á þrjátíu tímum eða svo. Það er aðeins eitt sem trúlega útskýrir þetta, en það eru nefnilega fimmtán til tuttugu metra háar bjarkir kringum svæðið þar sem ég gróf. Bjarkir eru gríðarlega drykkfelldar og þurrka upp svo lengi sem nokkurn dropa er að finna. Þess vegna ætla ég líka að fækka björkum kringum matjurta og berjaræktina. En nú ætla ég bara að drífa mig til verka.
 
Og ég dreif mig til verka og það er komið kvöld. Ég er duglegur við að skapa mér vinnu, kannski óþarfa vinnu, hver veit? Þegar ég gróðurset ávaxta eða berjarunna þá fylli ég holuna sem ég gref þannig að tréð komi að minnsta kosti tíu sm yfir landið í kring. Það sést á myndinni að þetta plómutré er gróðursett kannski eina fimmtán sentimetra yfir landið í kring. Síðan flyt ég að gróðrarmold og mýki þessa mishæð út og set hænsnaskít undir þá uppfyllingu. Þá tel ég mig vera búinn að fá góðan jarðveg ofan á grjótharða malarlagið sem hér er niður á 60 til 70 sentimetra dýpi. Þetta vann ég við í dag í drjúgri rigningu í dag.
 
Þarna er ég búinn að flytja samtals tuttugu hjólbörur að þremur trjám. Tvö eru eplatré lengra frá en það sem er nær er plómutré. Tréð sem er við kantinn vinstra megin er japanskt kirsuberjatré og er einungis blómanna vegna. Þetta tré var í blóma þegar ég var á Íslandi. Ég mun líka flytja mold að því til að það beri mikið af sínum bleiku blómum fyrir mig í framtíðinni. Það er ótrúleg blómaþekja sem þessi tré skreyta sig með á vorin.
 
En af hverju haga ég mér svona að vera að vesenast þetta í rigningu með níðþunga mold? Jú, það er vegna þess að fyrir og um næstu helgi gerir tölvuspáin ráð fyrir því að það verði sól og svo sem 17 stiga hiti. Ef það gengur eftir verð ég harla glaður að hafa fengið moldina á sinn stað þar sem hún verður fljót að taka sig þegar sólin tekur völdin. Þá verður gaman að jafna með garðhrífu og sá grasfræi. Ég var í moldarvinnu í rigningunni og ég veit líka um fólk sem var í golfi í rigningunni.
 
Og er ekki tilveran dásamleg? Þegar ég var búinn að moldast nægju mína fór ég inn og bakaði nokkrar pönnukökur og svo dreif að fólk. Ég sé ekki betur en það fari bara notalega um gestina mína.
 
Í morgun heyrði ég í skógardúfunum inn um loftventlana og þrestirnir héldu mér tónleika meðan ég var úti þrátt fyrir regnið, kannski frekar á lægri nótunum. Ungarnir eru horfnir úr hreiðri sem var í viðarskýli að húsabaki. En ég fann líka maga og garnir úr tveimur smáfuglum hlið við hlið á stíg úti í skógi áðan. Það er spurning hvort einhver kom fyrr í dag og fékk sér auðfenginn hádegisverð í hreiðrinu. Alla vega hef ég ekki séð neina unga á ferli hér í kring. Þannig er það. Ég borðaði líka kjúkling í vikunni. Einhvern tíma var honum slátrað svo ég gæti fengið mér góða máltíð og til að framleiðandinn gæti keypt sér eitthvað sem gerir lífið vert að lifa því -eða þannig.
 
Broddi er ekki enn kominn til að borða það sem ég er búinn að setja út fyrir hann og það er að detta á myrkur. Það er nú lag á ef hann er farinn að halda framhjá mér og éta af annarra borði. Ég finn nú að þung moldarvinnan í morgun er að taka sinn toll af þreki mínu. Klukkan er hálf tíu og lítið annað fyrir mig að gera en bursta og pissa. Ég  skipti um ver á koddanum mínum í morgun. Draumar mínir ættu því að verða þokkalegir þegar ég legg vangann á hreint línið.

Fyrsti slátturinn

Fyrsta slætti á Sólvöllum er lokið og allt er þar með slegið, hver einasti smástígur og afkimi. Þetta verk annaðist Valdís af mikilli kostgæfni en í fyrra annaðist ég það og ekki með sóma, alls ekki. Ég ítreka að Valdís annaðist það af mikilli kostgæfni og stundum fannst mér sem henni lægi full mikið að slá þegar mér fannst það mætti dragast aðeins lengur. En svona var Valdís, það sem hún taldi sitt annaðist hún vel. Þetta var ofarlega í huga mér í gær þegar ég var að slá. Best var lóðin hirt í fyrra þegar Auður og Þórir voru bæði húsverðir og húsálfar fyrri hluta júní.
 
En að minnast á Valdísi þá ætla ég að segja frá svolitlu. Ég kom við hjá fólki í Fjugesta í fyrradag, hjónum á mínum aldri. Þau eru að selja húsið sitt og voru að segja mér frá kaupanda sem á tímabili var líklegur. Hann tilheyrir Hafðu það gott kórnum sem Valdís var í eftir að við fluttum á Sólvelli. Þegar þau sögðu mér frá þessu var mín fyrsta hugsun að þetta yrði ég að segja Valdísi. Ég áttaði mig jafn fljótt og hugsunin gerði vart við sig. Á leiðinni heim hugsaði ég eitthvað um þessi kaup aftur og þá kom hugsunin upp aftur, að þetta yrði ég að segja Valdísi. Árin 53 hverfa ekki eins og dögg fyrir sólu.
 
Þegar ég hef lokið einhverju verki sem hefur tekið dálítinn tíma, þá er eins og ég verði svolítið ráðviltur. Hvað geri ég nú?!?! Áður en ég fór til Íslands lauk ég við að gróðursetja tíu berjarunna. Það var talsvert verk og tók talsverðan tíma þó að það láti kannski undarlega í eyrum. Svo þegar ég kom heim velti ég fyrir mér á hverju ég ætti að byrja næst og af því að ég fékk ákvörðunarangist, þá fór ég einföldustu leiðina og keypti fjóra runna í viðbót. Nú, þeir fjórir runnarnir fóru í jörð í gær og ekki gat ég keypt berjarunna endalaust þannig að mér var nauðugur einn kostur að taka ákvörðun og slátturinn varð fyrst fyrir valinu. Í dag hefur það verið alls konar tiltektir og pjatt.
 
Í gær var Vornes í sambandi við mig. Það virðist vera endalaus vinna fyrir mig þarna á meðferðarheimilinu. Nú er búið að bæta svo oft við sumarafleysingarnar hjá mér að við þorðum ekki annað en fara vel yfir og bera saman bækur okkar. Og hvað vil ég svo segja um þetta? Jú, að ég kem samt sem áður til með að hafa marga frídaga í sumar og meira að segja frívikur, en það verður heilmikil vinna samt. Ég get bara ekki látið vera að hafa gaman að þessu. Ég er ánægður með að geta það og svo er þetta skemmtileg vinna og þakklát að auki.
 
Ég hef verið að flytja mikið í hjólbörum í dag, meðal annars rennblauta mold. Nágranni kom og þó að ég geti við viss tækifæri talað of mikið og gripið frammí, þá var engin hætta á að ég gerði það í þetta skipti. Nágranninn var einfær um að tala. Hann stoppaði lengi og þegar hann fór ætlaði ég að fara að moka í enn einar hjólbörur, en nei, ég var kominn með harðsperrur, hætti púli dagsins og fór inn til að steikja smásíld.
 
Nágranninn kom á bíl. Annars er umferðin svo lítil að ef ég heyri í bíl eftir hádegi reikna ég með að pósturinn sé kominn.
 
Nýslegnir ævintýrstígar sem eru ætlaðir fyrir litla fætur. Skógurinn mun minna en hálf laufgaður.
 
Ég lagði út avakadó í gær, ætlað Brodda eða Broddu. Ég varð þeirra ekki var en avakadóið var búið í morgun. Ég lagði út avakadó aftur i kvöld og fylgdist mikið með. Broddi kom eftir að skyggja tók og leyfði myndatöku. Broddi er góður.
 
Þessi bílfarmur af mold kom í fyrradag. Hún er mikið blaut núna. Ég er búinn að taka 22 hjólbörur af hlassinu og þá eru 128 eftir. Ég fæ kannski hjálp með þessa moldarvinnu um næstu helgi. Það er margt að jafna og snyrta á Sólvöllum. Byggingaframkvmdum er lokið og nú er bara að pjatta og gera fínt og þessi mold mun fara víða.
 
 
 
 
Nú ætla ég að hita kaffi og svo kveiki ég trúlega á söngvakepninni. Annars er svo hljótt og gott á Sólvöllum eins og reyndar alltaf.

Dagur frelsisins var runninn upp

Hér er eitt dæmi um það hverjum tökum alkohólisminn nær á fólki.
 
Tæplega miðaldra kona kom í meðferð í Vornesi fyrir einum fimmtán árum. Hún var þriggja barna móðir. Ég hafði hana í grúpu nokkra fyrstu dagana. Hennar eina vandamál að hennar mati var aðeins það að hún drakk full mikið stöku sinnum. En hún hafði aldrei fengið neitt mótlæti eða afleiðingar vegna drykkjunnar. Hinir sjúklingarnir drógust allir með misjafnlega skelfilegar afleiðingar af drykkju sinni og þeir skildu ekki hvað hún var að gera þarna. Eftir nokkra daga horfði ég á hana í grúppu og hugsaði að við gætum ekki hjálpað þessari manneskju, hún einfaldlega spillti fyrir hinum í blindri afneitun sinni og ég yrði að skrifa hana út.
 
Ég vildi gera eina tilraun enn og spurði hana hvaða augnalit börnin hennar hefðu. Þá leit hún snöggt á mig með mikla undrun í augnaráðinu, bókstaflega með stórum gapandi augum. Síðan brast hún í hömlulausan grát. Hún vissi ekki um augnlit barnanna sinna. Þessi dagur var kaflaskil í lífi hennar og henni fór að ganga vel. Síðar sagði hún mér að sér hefði verið alveg ómögulegt að sjá að áfengið hefði staðið í vegi fyrir velferð hennar eða fjölskyldunnar, eða yfir höfuð skaðað hana á nokkurn hátt. En þegar hún áttaði sig á því að hún vissi ekki um augnalit barnanna sinna, sem hún elskaði samt svo mikið, þá brustu veggir blindninnar sem sjúkdómurinn alkohólismi hafði byggt upp í hugskoti hennar. Eftir þetta voru afleiðingar hennar ekki minni en hinna.
 
Afneitun er blindni á ástandið og er fylgifiskur alkohólisma. Lygi er hins vegar óheiðarleiki. Afneitun er stórhættuleg vegna þess að fólk sér ekki betur. Konan í dæminu fyrir ofan var ekki að skrökva, hún bara sá ekki betur.
 
 
 
Viljum við alkohólistar vera ábyrg verðum við að verða edrú. Viljum við verða edrú er hjálp að finna. Eftir að ég hafði drukkið í fyrsta skipti á ævinni í Vík í Mýrdal sumarið 1958, þá taldi ég að ég hefði fundið áhald sem gæti hjálpað mér til að verða félagslega frjáls maður og til að hjálpa mér við að læra að dansa eins og hver annar "sjarmör". Það mistókst og ég varð ófrjáls. Svo leitaði ég að fyrsta fylleríinu í áratugi og það kom aldrei til baka. Mín drykkja var kannski ekki svo óskapleg ef ég bar mig saman við einhverja aðra en hún var óskaplega mikil fyrir mig. Það var það sem skipti máli.
 
Árið 1991 fann ég afl sem hjálpaði mér til að losna við áfengið sem sem þá var á leiðinni að knésetja mig endanlega. Ég losnaði við það og losnaði þar með undan þrælkuninni. Þegar ég var orðinn frjáls maður fóru hjólin að snúast mér í vil. Allt byrjaði á því að gefast upp og segja satt.
 
Ég kom inn á Vog frá Vestmannaeyjum á föstudagskvöldi. Ég sat mína fyrstu grúppu á mánudegi og allan tímann frá föstudagskvöldinu velti ég fyrir mér hvað væri gert í þessum grúppum sem hinir sjúklingarnir voru að tala um. Ég var mjög kvíðinn en of stoltur til að spyrja fólk eftir því. Svo kom þessi hræðilega stund þegar ég sat mína fyrstu grúppu. Ráðgjafinn horfði á mig og ég vissi að nú mundi það ske, ég mundi þurfa að ganga í gegnum eitthvað áður óþekkt. Hann bað mig vingjarnlega að segja grúppunni frá því hvernig líf mitt hefði litið út og hvers vegna ég hefði komið inn á Vog akkúrat núna.
 
Ég setti upp sakleysissvipinn sem ég hafði oft platað fólk með og sagði að það væri vegna þess að mér fyndist að drykkja mín væri að aukast og gæti orðið of mikil ef ég gerði ekkert. Þegar ég hafði sagt þetta reyndi ég að verða gáfulegur í andlitinu. En ráðgjafinn var ekki að byrja í vinnunni þennan dag. Hann sagði vingjarnlega: Heyrðu Guðjón, þessi var nú bara of ódýr, ég kaupi hann ekki. Mér mistókst að ljúga og leið illa og grúppufélagar mínir horfðu tómlega út í loftið eins og ég væri ekki til í þeirra augum. Svo viðurkenndi ég að einstaka sinnum færi það úr böndunum -eða svona næstum því. Ráðgjafinn var bæði vigjarnlegur og ótrúlega lipur, þolinmóður og góður var hann. Þetta gekk svona einhverjar mínútur og ég bara gat ekki sagt eins og var.
 
En að lokum vann ráðgjafinn með snilldarlegum hæfileikum sínum. Ég var orðinn mjög viðkvæmur, gráti nær, og loks kom það.
 
Ég viðurkenndi að ég hafði komið í meðferð vegna þess að mér þætti sem öll sund væru að lokast, ég væri skelfingu lostinn og ég orkaði ekki lengur. Ég væri búinn að reyna á eigin spýtur allt of lengi en ástandið bara versnaði.
 
Þakka þér fyrir, sagði ráðgjafinn, þú ert svo velkominn. Léttir minn var ólýsanlegur. Maður einn í grúppunni sem hafði fiskað norður undir íshafi í marga áratugi horfði vingjarnlega á mig og kinkaði kolli. Ég hafði sagt satt og það kom alla leið frá hjartanu. Ég sá viðurkenninguna í augum allra viðstaddra og ég var orðinn einn af grúppunni. Dagur frelsisins var runninn upp.
 
 

Minn æðri máttur var með mér á göngunni við vatnið Tisken

Ég hef mikið talað um að segja sannleikann. Eftir sumarið 1993 sem ég vann á Vogi hitti ég forstöðumann fyrirtækis á suðvesturlandi á tröppum Landakotskirkju. Sá hafði verið innskrifaður á Vog um sumarið. Guðjón, ég vil segja þér svolítið sagði hann. Ég varð forvitinn. Ég bar virðingu fyrir þessum manni og hans hógværu og fáguðu framkomu. Hann var nokkrum árum yngri  en ég. Hann valdi að leita tímanlega hjálpar vegna þess að sársaukinn gerði snemma vart við sig hjá honum. Hann hafði sterka siðgæðisvitund og slíkt fólk byrjar snemma að finna til sársaukans.
 
Svo sagði hann: Þegar þú talar er auðvelt að skilja hvað þú ert að fara. Haltu því áfram.
 
Ég var honum þakklátur fyrir þessi orð sem ég leit á sem uppörvunarorð og þessi uppörvun var meðal annars þáttur í því að ég vildi halda áfram að vinna við það sem ég byrjaði með þarna um sumarið. Þegar ég talaði við alkohólistana talaði ég ekki í kenningum, ég talaði um raunveruleikann bara eins og alkohólistar þekkja hann. Ég hef síðan lagt mig fram um að gera það alla tíð.
 
Nágrannar mínir í Hrísey, alla vega hluti þeirra, varð hissa þegar það fréttist að ég var kominn í áfengismeðferð á Vogi í janúar 1991. Þeir sáu heldur ekki til mín þegar ég stundum sat undir áhrifum á nóttunni í stofuni heima með heyrnartæki á höfðinu og með dapra tónlist á fóninum. Svo grét ég yfir tregablandinni tónlist Vilhjálms Vilhjálmssonar og mest eftir að hann fórst í bílslysi út í Þýskalandi. Akkúrat þarna fannst mér sem ég upplifði andlegheit þessar nætur en ég get lofað að daginn eftir þegar ég vaknaði, þá skildi ég að þetta voru engin andlegheit, langt í frá. Þetta var sjúklegt. Hluti af þessu var sjálfsvorkunn og stór hluti var líka einfaldlega sorg yfir að hafa mistekist að ávaxta líf mitt og vera til gagns fyrir aðra.
 
Fyrstu árin í Svíþjóð gekk ég í fyrsta lagi á AA fundi á þriðjudögum í Sóknarhúsinu í Svärdsjö þar sem við Valdís bjuggum fyrst. Ég gekk þangað líka fyrsta árið okkar í Falun. Í Svärdsjö var minn heimafundur á þessum tíma. Við getum kallað mann einn Mats. Hann var einn af AA félögunum í Svärdsjö. Mats kenndi mér margt. Hann ráðlagði mér til dæmis að hafa sérstakt kort fyrir bensínkaup mín, þá yrði bensínverðið lægra, og það var margt einfalt og nytsamt sem hann vék að mér. Mats var vinur minn.
 
Þriðjudag einn snemmsumars 1996 var ég á leiðinni heimanað frá Norslund í Falun niður í miðbæ. Ég var þá í reglubundnu viku fríi frá Vornesi. Ég gekk meðfram spegilsléttu vatninu Tisken sem er inni í Falun. Ég var alsæll. Ég var kominn með vinnu sem mundi væntanlega verða til frambúðar, skógarnir og eðaltrén í Falun nutu snemmsumarsins og gerðu bæinn einstaklega fallegan, þrettán hundruð ára gamla Falunáman með sinn þekkta rauða turn var uppi í dálítilli brekku framundan nokkuð til vinstri, Valdís var í vinnu og allt virkaði á allra besta veg. Á ákveðnum stað á göngustígnum tók ég stíg þvert til hægri móti miðbænum í Falun. Svo gekk ég undir járnbrautarbrúna og þar skeði það.
 
Gömul vond minning stakk sér allt í einu fram íhuga mér og ekki bara minning, það var þarna sem ég fyrst áttaði mig á þeirri alvöru sem bjó að baki þessarar minningar. Ég snarstoppaði, greip með lófunum um gagnaugun og starði fram fyrir mig. Fólk stoppaði og horfði á mig og þá flýtti ég mér áfram móti miðbænum en ákvað jafnframt að á AA fundinum mínum upp í Svärdsjö um kvöldið skyldi ég segja allan sannleika um þessa minningu. Það skyldi kosta það sem það kosta vildi og ekkert annað kæmi til greina.

Þegar röðin kom að mér á fundinum byrjaði ég með þurran munn að segja frá og hafði nokkuð á tilfinningunni að enginn mundi vilja þekkja mig á eftir. Þarna lýsti ég í smáatriðum margra ára gömlum atburði. Það var dauðakyrrð og ég hélt út til enda. Ég hafði gert játningu, en mér fannst líka sem ég hefði ef til vill orðið vinalaus við þessa játningu.
 
Eftir fundinn gekk ég djúpt hugsi yfir bílastæðið að bílnum mínum og þá var allt í einu klappað nokkuð hressilega á bak mitt milli herðablaðanna. Síðan heyrði ég rödd Mats þar sem hann sagði: Guðjón: Þetta var afar sterkt gert hjá þér. Ég heyrði að hann var ennþá vinur minn, mér fannst meiri vinur en áður. Ég leit í augu hans og hugsaði; Mats, ég elska þig. Eftir þetta var ég sterkari félagi í AA grúppunni í Svärdsjö en nokkru sinni fyrr og vinir mínir þar urðu betri vinir en áður. Þannig virkar lífgjafinn AA, mannræktandi eins og Sigurður Jóhannsson vinur minn sagði í umsögn á feisbókinni í gær.
 
Minn æðri máttur var með mér á göngunni við vatnið Tisken og hann sá að einmitt þá var ég tilbúinn. Þegar ég kom undir brúna ákvað hann að láta mig hafa það og svo gerði hann. Þessi dagur er kannski mikilvægasti dagur í öllum bata mínum hingað til. Á ferðum mínum til Falun síðan hef ég reynt að koma að þessum göngustíg og sjá járnbrautarbrúna. Þaðan á ég sterka minningu.

Þú færð korter og ekki mínútu meira

Ég sagði í gær að það væri spurning hvort ég ætti að legga mig að fótum heimsins eins og ég hefði gert í línunum sem ég skrifaði þá. Ég talaði líka um sannleikann.
 
Það eru tæp 80 ár síðan mjög fær fjármálamaður í Bandaríkjunum gafst upp fyrir ofurvaldi Bakkusar. Hann hafði þá tapað því trausti sem haft var á honum og þeir sem áður höfðu leitað eftir áliti hans vildu ekki vita af honum lengur. Hann var búinn að vera allsgáður í nokkra mánuði þegar hann óttaðist um heill sína. Hann leitaði uppi annan mann í sama ástandi sem mundi vilja hlusta á hann. Það tókst honum og maðurinn sem hann fann var læknir, einnig bandarískur maður.
 
Fjármálamaðurinn kom í heimsókn til læknisins og þegar læknirinn opnaði fyrir honum tilkynnti hann nokkuð fráhrindandi að fjármálamaðurinn fengi korter hjá honum og ekki mínútu meira. Fjármálamaðurinn gekk inn, þeir settust og þá sagði læknirinn við hann að allir færustu læknar og sálfræðingar landsins hefðu reynt að hjálpa honum en ekki tekist það. Þess vegna mundi fjármálamaðurinn lítið geta gert fyrir hann.
 
Fjármálamaðurinn byrjaði að tala. Hann sagði frá lífi sínu nákvæmlega eins og það hafði litið út með allri niðurlægingunni, mistökunum, skelfingunni, vonleysinu, sektarkenndinni, sorginni og öllum hinum neikvæðu tilfinningunum sem ofneysla áfengis hafði valdið honum. Læknirinn átti hreint alls ekki von á þessum samræðum og varð mikið undrandi. Hann varð snortinn af að heyra mann koma fram á þennan hátt og segja svo umbúðalaust sannleikann um líf sitt. Svo byrjaði hann að tala líka þar sem hann þekkti sitt eigið líf í tali fjármálamannsins. Samtal þessara manna varð ekkert korter eins og læknirinn hafði talað um, það varði í sex tíma.
 
Þessir tveir menn urðu miklir vinir þó að þeir hefði aldrei hittst áður og þeir eru frumkvöðlar AA samtakanna ásamt fleiri mönnum og konum sem fljótlega tóku að fylgja þeim í baráttunni. Þrisvar sinnum í minni áfengismeðferð hlustaði ég á ólíka fyrirlestra um þetta og ég varð jafn snortinn í öll skiptin, ég var gráti nær. Þeir voru uppi á undan mér og höfðu lagt grunninn að því sem ég þurfti á að halda 56 árum eftir að þeir sögðu hvor öðrum sannleikann í fyrsta sinn.
 
Allur heimurinn getur vitað um þessa menn. Það hafa verið skrifaðar bækur um þá og það hafa verið gerðar kvikmyndir um þá. AA finnst í öllum löndum og stendur öllum til boða en það vita samt ekki allir um það. Það væri mikil gæfa ef allir sem vita um þessa hjálp og þurfa á henni að halda mundu taka henni.
 
 
Fjármálamaðurinn er til vinstri á myndinni og hét Bill. Læknirinn er til hægri og hét Bob. Ég er þeim þakklátur fyrir það sem þeir gáfu mér og heiminum.
 
Ég tala oft um sorg þegar ég tala um þessi mál. Virkur alkohólisti er óaðlaðandi. Óvirkur alkohólisti er andstæða hins virka. Alkohólisti sem er kominn að sársaukamörkum sínum er mjög sorgmæddur og fjölskylda hans ennþá sorgmæddari. Meðferðartímabil mitt var mikil sorg sem var svo sannarlega þess verð að ganga í gegnum. Ég fæ oft að heyra að AA sé mjög gott fyrir þá sem það passar fyrir. Ég segi hins vegar að AA er frábært fyrir nánast alla sem eru komnir að sársaukamörkum sínum og eru reiðubúnir að hætta neyslu. Meðferð gengur út á að smita fólk af boðskap þessara samtaka og fá það til að byrja að segja sannleikann
 
Ég var á AA fundi fyrr í kvöld af því að ég tek enga áhættu. Ég tek AA af ennþá meiri alvöru í dag en ég gerði á árum áður.

Að segja brot af sannleikanum

Ég sat í lest á járnbrautarstöðinni í Stokkhómi í morgun og beið þess að hún legði af stað. Þar vistaði ég tvær myndir af mér og honum Birni skólabróður mínum. Önnur var af okkur ungum að árum og hin var tekin á Nauthóli í Reykjavík þegar við í árgangi 1959 frá Skógaskóla hittumst 55 árum síðar. Svo seig lestin mjúklega af stað og ég byrjaði að skrifa um það sem ég hafði hugsað mér. Eftir fáein orð rann penninn út af línunni og efnið sem birtist á tölvuskjánum varð með öllu ólíkt því sem til stóð. Það hlýtur að hafa verið best þannig því að ég komst ekki inn á línuna aftur og hafði heldur engn vilja til þess. Ég bara hélt áfram og nýjar myndir birtust fyrir hugskotssjónum mínum. Það var eins og það byggi mikilvægur tilgangur að baki myndanna sem birtust bakvið augu mín og þeirra orða sem birtust á skjánum. Svo leið lestin áfram og setningarnar runnu fram.
 
 
 
Ég er ekki alveg viss en ég reikna með að það hafi verið árið 1948 sem ég datt ofan af bekk í gamla skólanum sem eitt sinn var á Kálffelli, bernskuheimili mínu. Í fallinu dró ég með mér háan kolaofn sem lenti á litlafingri vinstri handar og mölbraut hann. Einhverjum klukkutíma síðar kom Esra Pétursson héraðslæknir á Kirkjubæjarklaustri á Villisjeppanum sínum með tvær læknatöskur. Hann byrjaði á því að deyfa hendina rækilega og síðan var ég lagður á matarborðið í gamla bænum á Kálfafelli með minna borð undir handleggnum og einhverju af áhöldum læknisins. Síðan hófgst aðgerðin. Það var enginn helikopter, sírena eða bláljós. Þetta var á afskekktum sveitabæ fyrir meira en sextíu og fimm árum.
 
Ég horfði af og til á Esra þar sem hann vann sitt verk og að lokum sagði hann mér að hætta að horfa á sig og horfa út um gluggann sem var hægra megin við mig. Ég gerði svo og stalst síðan til að horfa á hann af og til. Eitt sinn þegar ég leit til hans sá ég hvar hann beitti töng á fingurinn og færði hann síðan burt frá hendinni á tönginni. Það var þá sem ég tók ákvörðun sem átti nánast huga minn allan í tíu ár. Ég ætlaði að verða læknir.
 
Tíu árum síðar drakk ég áfengi í fyrsta skipti. Það var á leiðinni til Víkur á svokallað sjálfstæðismót sumarið 1958. Þar vorum við á ferðinni nokkrir brúarvinnufélagar sem vorum að brúa Skaftá við Skál. Það var enginn skipulögð ákvörðun af minni hálfu að drekka þarna en það fór svo. Það má segja að þetta fyrsta fyllerí mitt hafi gengið alveg ágætlega. Ég eiginlega áttaði mig ekki á því að ég var undir hrifum áfengis en ég fann að ég varð ófeiminn og þorði að koma fram á annan hátt, eiginlega eins og mig dreymdi um að geta gert í þá daga. Morguninn eftir sá ég mikið eftir þessu þar sem ég hafði verið mjög ákveðinn í því að ég, sjálfur læknirinn, skyldi aldrei smakka áfengi, ekki einu sinni vita hvernig það bragðaðist.
 
Þennan mogrun eftir mitt fyrsta fyllerí tók ég ákvörðun. Ég hafði fundið áhald sem gæti hjálpað mér. Ég ætlaði að drekka nokkrum sinnum þetta sumar, æfa mig félagslega, læra almennilega að dansa og drekka síðan aldrei meir. Ég drakk tvisvar sinnum aftur þetta sumar og fékk í magannn í bæði þau skipti. Ég er ekki viss um það hvar ég ældi læknisdraumnum, hvort það var í móunum sunnan og vestan við gömlu Þjósrsárbrúna þegar við vorum þar við málningarvinnu, hvort það var við Tungufljótsbrúna í Skaftártungu eða við Framneslækinn í Mýrdal. En alla vega; læknisdraumurinn hvarf. Ég saknaði hans sárlega í fjölda ára, jafnvel í áratugi.
 
Ég get ekki fundið nokkra ástæðu til þessa hvarfs aðra en þá að alkohól hafði gríðarlega fljótt skaðleg áhrif á mig, og svo fannst mér alla tíð í meira en þrjátíu ár þó að ég héldi áfram að drekka. Ég gat tekið þátt í asnalegum umræðum um að það þyrfti að þynna blóðið, að nota áfengi til að halda sér hressum, glöðum, til að forðast sjúkdóma, til að verða ekki sérvitur eða hver veit hvað, en mér fannst alltaf að alkohól færi illa með mig. Samt hélt ég áfram að drekka.
 
Alkohólismi er skuggalegur sjúkdómur.
 
Ég gat aldrei og get ekki enn í dag séð neitt jákvætt við alkohól, en ég hef orðið vitni að ógnarlegum áhrifum þess á einstaklinga og fjölskyldur og samfélög. Ég hins vegar dái það sjálfstæði sem mér hlotnaðist þegar ég náði tökum á drykkjunni þrjátíu og tveimur árum eftir fyrsta fylleríið mitt. Mér þykir vænt um, eða ég hreinlega elska það fólk sem að lokum réttir út fálmandi hendi í leit að hjálp þegar neyslan er búin að brjóta það nægjanlega niður og leggja til og með hið allra besta fólk að fótum sér.
 
Það er ótrúlegt hversu oft sjúkdómurinn þarf að slá fólk til jarðar til að það fái viljan til að takast á við drykkjuna og til að það skilji hvað það er sem er stærsti óvinurinn í lífi þess. Enginn tekst á við drykkjuna vegna þess að hann eða hún er svo skynsöm. Nei, það eru skuggalegar afleiðingarnar og vanlíðanin sem fær fólk loks til að opna augun. Það er svo ótrúlegt hvernig þessi sjúkdómur getur á lúmskan hátt fengið bæði gáfaðasta og besta fólk þessa heims til að ganga honum á vald, gersamlega óvitandi, og svo þegar við að lokum erum þar skiljum við ekki hvernig komið er. Það er alvarlegasta hlið sjúkdómsins.
 
Ég þekki sjáfur vonbrigðin, hræðsluna, nagandi óttann, biturðina, óöryggið, sjálfsvirðingarskortinn, dvínandi heilsuna, sektarkenndina, skömmina, dauðaangistina og djúpa sorgina ásamt svo mörgu fleiru sem fylgir sjúklegri áfengisneyslu. Það er ekki skrýtið þó að ég elski systkini mín í sjúkdómnum sem að lokum vilja brjótast út úr miskunnarlusu fangelsi hans. Það er heldur ekki skrýtið þó að ég vorkenni þeim sem ekki eru farnir að skilja ástæðu ófara sinna eða finna viljann til að brjótast út. Ég get líka reiðst fáránleikanum, en þegar ég er farinn að líta niður á fólkið sem verður fórnarlömb sjúkdómsins, þá veit ég að ég er á rangri leið. Samt skeður það og svo þegar ég átta mig þá iðrast ég.
 
Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
 
Edrúmennskan er mér heilög og ekkert í heimi hér má eyðileggja hana fyrir mér. Ef ég hefði ekki tekið ófrjálsa ákvörðun mína í janúar 1991, tekið ákvörðun sem lífið neyddi mig til að taka en ekki skynsemin, ákvörðunina um að biðja um hjálp, þá hefði ég orðið af með margt í lífi hér. Meðal annars lestarferðina sem ég tek þátt í núna á fögrum vordegi í landi skóganna. Ég hefði ekki heldur fengið að takast á við þau mörgu viðfangsefni sem fallið hafa á götu mína eftir að ánauðinni lauk, viðfangsefni sem ég hef fengið að takast á við í öðru landi án aðstoðar þess umhverfis sem ól mig upp. Það hefur verið mér mikils virði bæði í gleði og sorg. Það hefur fengið mig til að vaxa þó að ég sé einungis lítill maður og reikull í spori. Hefði ég hins vegar ekki tekist á við vanda minn væri ég síðan mörg ár til baka kominn undir græna torfu. Að deyja fullur olli mér alltaf mikilli skelfingu.
 
Nú er mál að pakka niður tölvunni þar sem Örebro er framundan. Svo les ég þessar línur yfir í kvöld eftir að ég verð búinn að ganga um í gróðrinum á Sólvöllum, heimsækja skóginn, leggja hönd á eitthvað sem ég hef unnið að, strjúka yfir hvítmálað húshorn, lyfta grein með nýútsprungnu laufi, vera til, horfa á fuglana og almennt að njóta þess að vera kominn heim. Líta á þessar línur og leiðrétta orð og orð, setja inn orð sem vantar og vera ánægður með þann mann sem ég er.
 
 
 
Nú er ég búinn að vera heima í nokkra klukkutíma. Ég er ekki farinn að skrifa um okkur Björn, vin minn og skólabróður, en hann er búinn að birta myndirnar á feisbókinni, þær sömu og ég sparaði inn á bloggið í morgun. Málefnið sem skaut upp kollinum þegar penninn rann út af línunni bara tók hug minn allan. Ég er búinn að lesa yfir það sem ég skrifaði á leiðinni og hnika til orði og orði. Það er spurning hvort það er þess virði að leggja sig að fótum heimsins eins og ég hef gert í þessum línum. Ýmis alvara lífsins hefur leitað á huga minn síðustu vikurnar og það hefur kannski verið driffjöðrin í því sem átti sér stað í lestinni í morgun. En eitt er víst að Meistarinn sagði fyrir tæpum tvöþúsund árum að sannleikurinn mundi gera okkur frjáls. Eitthvað innra með mér sagði í morgun að ég ætti að segja sannleikann. Ég hef oft gert það áður og birti líka þessar línur þó að þær séu bara lítið brot af þeim sannleika sem ég gæti sagt. Svo fer ég á AA fund annað kvöld og mun leitast við að segja sannleikann þar líka.
RSS 2.0