Svo fer ég fyrr að sofa en í gær

Það skeði margt í gær. Ég fór snemma út til að taka mynd af Sólvöllum og færði þá bílinn inn á lóð nágrannans sunnan við. Bílinn vildi ég ekki hafa með á myndinni þar sem hann er bara hrúga úr járni, plasti og gleri. Svo tók ég myndina og birti á feisbókinni.
 
Síðan hringdi ég í gleraugnasérfræðinginn minn til að panta tíma. Þegar búið var að ganga frá því og ég var að kveðja, þá heyrði ég að ég fékk sms. Gaman hugsaði ég. Ég lagði á og fór að leita að farsímanum mínum. Ég byrjaði að leita inn í herbergi en þar var hann ekki. Þá leitaði ég í þvottahúsinu og ekki var hann þar heldur. Þá gekk ég að heimasímanum og ætlaði að hringja í farsímann en á leiðinni þangað stakk ég hendinni óvart í vasa minn og þar var farsíminn. Smsið var staðfesting á tímanum hjá gleraugnasérfræðingnum, það var ekki meira spennandi en svo.
 
Síðan ætlaði ég að fara til Fjugesta til að kaupa moltuker úr plasti. Fyrst hringdi ég í verslunina Nágrannabæinn og spurði hvort þeir ættu það ker sem ég leitaði að. Ég heyrði á röddinni að það var Lod (Lúd) sem svaraði. Kerið var til og ég spurði eftir verði. Lod sagði að það sem væri best einangrað kostaði 2200 krónur. Árans peningur hugsaði ég en var samt ákveðinn í að kaupa það.

Síðan ætlaði ég að grípa bíllykilinn af ákveðinni hyllu en þar var hann ekki. Þá byrjaði leit að honum. Ég var farinn að óska þess að geta hringt í bíllykilinn eins og ég geri þegar ég finn ekki farsímann. Aukalyklana vildi ég ekki taka, þar lágu mörkin. Svo mundi ég eftir því að ég hafði notað lykilinn þegar ég færði bílinn vegna myndatökunnar. Auðvitað var lykilinn í bílnum.
 
Ég hika ekkert við að segja frá svona vegna þess að ég veit að margir þekkja sjálfan sig í lýsingunni. Svona er þetta stundum en sem betur fer ekki alltaf. Ég held að svona hafi það reyndar verið lengst af í lífi mínu, að þetta sé sem sagt ekki ellimerki.
 
Þegar ég kom að versluninni Nágrannabærinn var Lod þar úti að raða pokum með mold, áburði, kalki og öllu mögulegu. Hann áttaði sig straax á því að við hefðum talað saman stuttu áður og sagði nú alvarlegur í bragði: Þú getur eiginlega ekki fengið kerið núna. Jæja, er eitthvað á seiði. Ja-a, sagði hann, á föstudaginn verða þessi ker 500 krónum ódýrari og ég get ekki selt þér það á því verði í dag.
 
Mér leiddist þetta hreint ekki því að 500 sænskar krónur eru um það bil 8600 íslenskar krónur. En ég ætlaði líka að kaupa hænsnaskít í pokum og það gerði ég. Lod hjálpaði mér með pokana út að bílnum og þegar þangað kom lagði hann hendina á skrásetningarskiltið og sagði: Þetta er fallegt skrásetningarnúmer. Það er nefnilega svo að bókstafirnir á skrásetningarnúmerinu hjá mér eru LOD. Bíllinn minn og Lod verslunarmaður í Nágrannabænum eru eiginlega nafnar og þetta talar hann alltaf um þegar við förum með eitthvað út í bílinn.
 
 
 
 
Það er 17 stiga hiti núna klukkan að verða tíu. Ég var á hinum árlega vegafundi okkar nágrannanna áðan og byrjaði hann klukkan sex. Við vorum þar átta kallar, helmingurinn á mínum aldri og við vorum allir á stuttbuxum og stutterma skyrtum. Það eru góðir dagar um þessar mundir.
 
Ég var þreyttur þegar ég hætti bardúsimínu hér úti í gærkvöldi. Ég borðaði og settist svo í stól og svo leið kvöldið í tilgangsleysi. En svo áttaði ég mig á að ég ætti að sitja úti. Það var orðið dimmt þegar ég settist ég út í hengiróluna en það var samt gott að vera þar.
 
Þegar ég kom inn var klukkan vel að halla í tólf, ég gekk að tölvunni og rakst þá á myndbandið frá Djúpavogi. Þegar ég var búinn að horfa á það minntist ég atburðanna í Hrísey árið 1999 eða 2000 þegar kvótinn var rifinn af Hríseyingum. Ég skrifaðilanga grein um Hrísey í febrúar árið 2000. Ég fann greinina á netinu og reyndi lengi en án árangurs að spara hana inn á Word. Svo var klukkan orðin eitt og ég gafst upp. Mér hefur ekki enn tekist að leysa þetta með greinina en ég er alveg ákveðinn í því að setjast núna út í hengiróluna með ristaða brauðsneið með osti og heitan drykk og hafa það huggulegt þar um stund. Ég er glorhungraður eftir strangar annir dagsins. Svo fer ég FYRR að sofa en í gær.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0