Grjót og gróska

 
 Allar myndirnar hér fyrir neðan var ég búinn að vista inn á bloggið í gær og ég ætlaði að fara að skrifa. En þá bara var ég orðinn svo þreyttur að ég gat það alls ekki. Eitt og annað hafði komið inn í bloggáætlunina og dregið tímann fram undir miðnætti og þá var ég búinn að vera. En málið var bara að ég var svo ánægður með allt hér á Sólvöllum að ég var í bráðri þörf fyrir að tjá mig um það. En Óli lokbrá réði öllu hér áður en ég var búinn að fallast á það og ég varð að gefa mig.
 
 
 Hvað finnst ykkur? Er eldhúsið ekki snyrtilegt hjá mér? Nei, nú er ég að grínast. Ég fjarlægði allt af bekknum til að slípa hann og bera á hann olíu. Eftir þrjár umferðir með sólarhrings millibili taldi ég bekkinn vera vel vel búinn undir næstu mánuðina. En mér fannst hann bara svo fínn að ég tímdi ekki að nota hann í þrjá daga þar á eftir. Nú er ég búinn að setja allt á sinn stað og ég er svo ánægður með vel unnið verk. Stundum finnst mér að það hefði verið best að hafa bara harðplast á bekknum en þegar búið er að gera svona vel við eikina er hún virkilega fín. Það verður gott að vinna þarna við rúgbrauðsbakstur eftir Íslandsferðina.
 
 
 Þegar ég var kominn með stunguspaða, skóflu, haka og járnkall á staðinn fór hálfgerður hrollur um mig við að þurfa að grafa þennan 120 sm dúpa skurð fyrir nýju vatnsinntaki. Svo stakk ég fyrstu skóflustunguna og lenti samstundis á steini. En skurðinn gróf ég á stuttum tíma og var himinlifandi með það að yfir höfuð geta grafið svona skurð á mínum aldri. Það gerði ég fyrir viku eða svo. Tæpar þrjár hjólbörur af grjóti fékk ég þarna upp. Hún Stína nágranni spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvað væri mest af í Krekklingesókn. Nei, það vissi ég ekki. Grjót, sagði hún þá.
 
 
 Í gær kom píparinn og lagði vatnið og svo gekk ég frá. Burt með allt grjótið, í skurðinn með nýjan sand og svolítið af mold með. Svo burt með afgangs mold, raka og gera fínt. Ræturnar sem ég þurfti líka að fjarlægja við gröftinn ætla ég að geyma um sinn, bara svona til að sjá að margt er sjötugum fært. Seinna í sumar ætla ég að brjóta niður efsta hluta brunnsins og fylla hann svo af sandi. Þá verður fínna bakvið húsið. Þetta atriði með vatnsinntakið var mér mjög mikilvægt að ljúka við.
 
 
 Svona er þetta nýja hús í dag, Bjarg, og um mánaðamótin júní-júlí kemur hann Martin gröfumaður og lagar kringum húsið. Ræsir fram bakvið húsið, fyllir að húsinu með perlumöl og síðan mold. Vegamöl setjum við í veginn. Martin er mjög flinkur gröfumaður með ótrúlegt verkvit. Hann er einn af þessum tækjamönnum sem ég vil kalla listamenn og það sem hann gerir verður fallegt. Þá verður mikil breyting á staðnum Sólvöllum. Ég hlakka til.
 
 
 En þrátt fyrir allt grjótið sem ég talaði um áðan, þá er gróskan með ólíkindum. Stóra tréð er hlynur og hlynir eru afar falleg tré þar sem þeir þrífast vel. Litla tréð aðeins til vinstri er hlynur sem ekki er einu sinni kominn á fermingaraldurinn. Ennþá minna tré aðeins til hægri er eik. Toppurinn á þessari eik hefur verið bitinn niður af elg eða dádýri þó að það sé aðeins 20 metra að baki húsinu. En eikurnar jafna sig að lokum og rétta sig og laga. Hvort þessi eik verður seinna valin til ásetnings fer eftir því hvernig öll tré í heild vaxa þarna og þróast þegar fram líða stundir.
 
 
 Tréð með blómunum er hestkastanía. Við keyptum hana á öðru eða þriðja árinu okkar hér. Ég man vel þegar við gengum með þetta tré sem mannhæðar háa, afar fallega plöntu út úr gróðrarstöð í Örebro, að þá heyrðist í fólki sem næst var; vááá, vilket fint träd. Okkur Valdísi leiddist það sko alls ekki. Há björk trónar svo langt upp yfir kastaníuna að baki henni.
 
 
 Á mynd í fyrradag var stóra Sólvallaeikin næst mér þar sem ég var þegar ég tók myndina en nú er hún fjærst. Háu bjarkirnar þarna eru býsna veglegar, býsna mikið hærri en Sólvallahúsið. Þessar myndir tók ég í gær.
 
 
En í dag var ég að koma heim frá Örebro og var mjög ánægður. Vélsögin er búin að fá sinn stað og spillir ekki lengur snyrtimennskunni á Sólvöllum. Það var svo gott að sjá þetta. Ég varð að taka eina mynd í viðbót. Svo þarf bara að taka til hendinni við turninn hans Hannesar. Mála hann og fá á hann svart þak. Þá fellur hann inn í heildar myndina. Ég er ánægður með þetta og fer með góðri samvisku í Íslandsferð. Ég var farinn að halda að ég kæmist ekki yfir það sem ég ætlaði mér en það hefur nú tekist að mestu. Innan húss vantar svolítið á það en það fer varla frá mér meðan á Íslandsferð stendur.

Íslandsferð

Ég birti þetta fyrir nokkrum dögum síðan og geri það aftur nú.
 
Vilji fólk vita um ferðir okkar og framvindu mála þá er skipulagningin eftirfarandi:
 
Þann 1. júní förum við hér frá Svíþjóð áleiðis til Íslands með duftker Valdísar meðferðis.
 
Mánudaginn 3. júní klukkan 13 verður minningarathöfn um Valdísi í Dómkirkjunni í Reykjavík. Eftir það verður boðið upp á kaffi í safnaðarheimili Fríkirkjunnar við Laufásveg.
 
Þann 8. júní klukkan 14 verður duftkerið jarðsett í Hríseyjarkirkjugarði og eftir það verður boðið upp á kaffi í Sæborg ásamt stuttum atriðum sem eru viðkomandi óskum Valdísar.
 
Að þessu loknu lýkur jarðneskri ferð konunnar frá Hrísey sem á efri árum tók í sig kjarkinn til að kanna ókunn lönd. Að því leyti til endar ferðin í Hrísey, í hríseyskri mold að hennar eigin ósk, og á þann hátt verður hún komin heim aftur. En andinn sem nú er frjáls frá höftum jarðlífsins heldur sínum ferðum og könnunum áfram. Þannig munum við minnast Valdísar, að hún hafi öðlast frelsi og hafi tekið stefnuna móti þeirri birtu sem fannst í orðum hennar og raddblæ síðasta kvöldið sem hún lifði.
 
Við frá Svíþjóð, ásamt Valgerði og fjölskyldu frá Vestmannaeyjum, verðum í Hrísey frá 7. til 13. júní.
 
Við frá Svíþjóð fljúgum svo heim sunnudaginn 16. júní.
 
 
*          *          *
 
 
 
 Snemmsumars á síðasta ári, Valdís fjórða frá vinstri. Útisöngur með Hafðu það gott kórnum.
 
 
 
Samvera um síðustu jól.

Margt búið í dag

Ég var búinn að ljúka fjöldanum öllum af smá verkefnum og það var mál að borða. En fyrst vildi ég fara á smá göngu með myndavélina. Ég var mjög hress með það sem ég hafði komið í verk í dag, ýmislegt sem nauðsynlegt var að ljúka fyrir Íslandsferðina.  Ég byrjaði á því að fara með myndavélina út á veg.
 
 
 Ég var beint framan við hús nágrannanna norðan við þegar ég tók þessa mynd. Frúin, Elísabet, reisti sig upp frá matarborðinu úti og spurði hvað ég væri að gera. Hún gekk fram að grjótgarðinum og við spjölluðum saman. Auðvitað vissi hún hvað ég var að gera en svona er hægt að byrja smá spjall yfir lóðarmörkin og svo kemur eitthvað annað á eftir. Tréð sem teygir sig lengst yfir veginn er stóra Sólvallaeikin. Hún er í bullandi vexti þessi eik enda ekki nema rúmlega hundrað ára. Ég er ögn stoltur af henni. Hún er búin að fylgjast með mörgum fara um veginn á þessum árum, en vegurinn hefur legið þarna -ja, kannski öll þessi hundrað ár. Hinu megin við eikina eru bjarkir sem hafa vaxið heil ógrynni þau ár sem við höfum verið á Sólvöllum. Eikin getur farið að verða farartálmi fyrir vörubíla.
 
 
 Svo tók ég þessa mynd af því sem ég horfi á þegar ég sit hér við austurgluggann og skrifa á tölvuna. Ég er harla ánægður með þetta útsýni, en ef mér skyldi finnast skógurinn vera of nálægt er bara að ég snúi mér við og horfi þá móti Kilsabergen sem eru í 15 til 20 kílómetra fjarlægð utan við vesturgluggann. Þarna vinstra megin eru kartöflurnar sem við Rósa settum niður um daginn. Þessa leið með kassana fórum við vegna þess að við höfðum ekki tíma til að fara í almennilegan frágang á kartöflugarði. Það er líka þarna sem gulræturnar hans Hannesar eru. Á þessari mynd sér að meira eða minna leyti í eikur, hlyn, birki, ask, hegg, grátbjörk, álm og eina viðartegund enn sem ég man ekki hvað heitir. Fyrir miðju er rabbarbarabeð.
 
 
 Þessar jarðarberjaplöntur keypti ég í dag og gróðursetti í kerin. Sama gerði ég í fyrra en þau drápust öll í vetur. Hins vegar voru þau búin að skjóta sér út í jarðveginn umhverfis kerin og þeir afleggjarar lifa sunnan við húsið. Þarna hugsa ég mér að hafa þau í svolitlu vari fyrir sólinni þangað til við komum heim frá Íslandi og hægt verður að vökva þau eftir þörfum. Þetta lítur kannski lítilfjölrlega út, en yfir lengri tíma i fyrra gat Hannes fengið sér eitt og annað jarðarber af plöntunum sem voru í þessum kerjum. Plönturnar bera ber á misjöfnum tíma.
 
 
 Þetta er ekkert sem ég get þakkað mér fyrir. Þetta er framtak þeirra sem hafa dvalið á Sólvöllum í vor, en þó mest er það Rósu framtak. En þau höfðu bæði gaman af að sinna þessu líka Valgerður og Pétur. Ýmsu var reynt að sá inni en það skilaði ekki nógu góðum árangri, en það skilaði hins vegar reynslu sem mun nýtast að ári. Prikin þarna líta kannski einkennilega út, en þegar baunagrösin eru búin að vefja sig uppeftir þeim lítur það mjög vel út, eiginleg girnilega. Svo er bara að fara þarna út um mitt sumar og sækja eitt og annað til að hafa með matnum.
 
 
 Þetta unga eplatré lofar góðu bara ef það er nóg af flugum til að hænast að blómunum.
 
 
 Þetta eru kryddtröppurnar hennar Rósu. Þrír pottar bættust við í dag. Það var fyrst í dag sem ég kom því í verk að gróðursetja í potta kryddjurtir sem Valgerður skildi eftir innanhúss þegar hún fór heim fyrir þremur vikum. Svona er ég nú fljótur að koma sumu í verk. :) Heitir blómið ekki fúsía sem er á múrsteininum lengst til vinstri? Út í þessa stiga verður líka hægt að sækja sér eitt og annað til að bragðbæta matinn og reyndar er það hægt nú þegar. Ég er bara svo mikill skussi þegar kemur að því að krydda mat, en fleiri verða á Sólvöllum í sumar en ég.
 
 
 Valdís bað um rósir í fyrra. Hafði reyndar beðið um þær árið þar á undan líka. En alla vega, í fyrra komu þær og blómstruðu strax á fyrsta ári. En -í vetur eða vor drápust rósirnar. Í dag keypti ég tvær nýjar. Hann Ingimar garðyrkjumaður sagði í dag að það væri búið að kaupa hundraðtals rósir hjá honum í vor vegna þess að það hefði drepist svo mikið af þeim í ár. Svo sagði hann mér að hafa einn meter á milli þeirra, en ég hafði haft hálfan meter á milli þeirra í fyrra. Nú þurfti ég að grafa meira til að fá pláss fyrir þær og þilið að baki þeim verð ég líka að gera upp á nýtt seinna í sumar. Í miðjunni er önnur rósin frá í fyrra. Ég ætla að gefa henni möguleika. Svo er þarna líka dýragarðurinn hennar Valdísar. Að hugsa sér þessa friðsæld. Þarna þrífast saman önd, örn, dádýr og bjarndýrsfjölskylda.
 
Jæja. Niðurstaðan eftir þenna dag, þessa myndatöku og þetta blogg er að það er hægt að vera í fullu starfi hér á Sólvöllum við að annast matjurtarækt, berjarækt, lóðahirðingu, að hirða skóg, að halda þrifalegu í kringum sig og svo þegar haustar að tína ber, sulta, safta og bara allt mögulegt. Er þetta ekki stórkostlegt fyrir ellilífeyrisþega. Ég get vel fundið hið gangstæða út úr hlutunum í dag en ég vel að sjá lífið og möguleikana. Það sem ég hef hér í kringum mig núna og það sem er að klæðast í kvöldrökkur á þessari stundu, það er með ólíkindum ótrúlegt miðað við þær áhyggjur sem sköpuðust þegar ég varð atvinnulaus upp í Svartnesi árið 1995. En sólin hélt áfram að koma upp á hverjum morgni eftir sem áður og svo var bara að verða þátttakandi í lífshjólinu og leggja merki til sólaruppkomunnar. Sama er uppi á teningnum einnig nú.
 
 

Ég gældi pínulítið við vini mína

Skipulagningar mínar fara gjarnan út um þúfur þessa dagana. Ég er gjarnan að, en það er margt sem kemur upp sem ég gerði ekki ráð fyrir. Samt gerði ég góðan díl í dag við hann Gústav hjá Ford. Þeir þurfa að líta á bílinn því að tölvan í honum segir að það sé bilun í mótor og bíllinn þarfnist viðgerðar. En svo þegar þeir fara að lesa af tölvunni segir hún ekkert um hvað sé að og þó að þeir skoði bílinn gaumgæfilega finna þeir heldur ekkert. Ég hef stungið upp á að henda tölvunni en þá ansa þeir mér ekki. Hún sagði jú eitt um daginn. Hún sagði að þaklúgan væri biluð. Þá litu kalla greyin upp og sáu að það var engin þaklúga. Bíllinn hlýtur að vera oftæknivæddur.
 
Snemma í fyrramálið átti ég að koma með bílinn og leggja hann inn. Svo átti ég að fá lánsbíl á meðan þeir klóruðu sér í höfðinu yfir vandanum. En í dag datt mér snjallræði í hug. Ég bíð fram á föstudag með að koma með bílinn og legg hann einfaldlega inn þegar ég legg af stað í Íslandsferðina. Þá yrði bíllinn læstur inni hjá þeim allan tímann og líka fengi ég þannig auðvelt far á járnbrautarstöðina. Þetta fannst Gústav einhver besta hugmynd sem skotið hefur upp kollinum í lengri tíma, alveg lýsandi sagði hann. Já, og fyrir mig líka, sagði ég, ef þið skutlið mér á járnbrautarstöðina frá verkstæðinu. Við tókumst í hendur símleiðis og samningur var staðfestur.
 
Inn á milli í dag var ég að snyrta hér í kringum mig á Sólvöllum. Reyndar líka í gær. Búi ég á Sólvöllum þá stend ég líka undir því. Ég var að blogga um það hér um daginn að fyrir all nokkrum árum hefðum við gert svo fínt í  kringum okkur. Svo fórum við að byggja og þetta fína varð framkvæmdunum að bráð. Við vorum búin að bíða eftir þeirri stund þegar hægt yrði að fara aftur að gera fínt. Nú er það byrjað og óneitanlega finnst mér það vera of seint en við það verður ekki ráðið. Ég fór með heila kerru á endurvinnslustöð í dag og eina kerru fer ég með á morgun til manns sem vill taka við dóti hjá mér sem ég hef ekki not af lengur.
 
Þegar ég var búinn að hlaða því á kerruna var klukkan að ganga níu. Ég gekk rólega fram og til baka og sá að tiltektin hafði skilað árangri. Þá vildi ég verðlauna mig með rólegri hringferð í skóginum. Ég stoppaði hjá mörgum kunningjum, spjallaði við þá, gældi pínu lítið við þá og dró meira að segja upp tommustokkinn til að mæla vöxt. Ungu beykitrén mín eru búin að breikka um 45 til 80 sentimetra, misjafnt milli einstaklinga. Ég gekk í kringum þau og horfði á þau með stolti. Þau gera meira en að standa undir væntingum mínum og það er greinilegt að sumarið sem ég verð 75 ára verða þau orðin hátt í tíu metrar.
 
Það var alltaf meiningin að við Valdís sætum saman á ellilífeyrisþegabekk undir krónum þeirra það ár. Hún verður ekki með mér á bekknum en hún mun heimsækja mig í anda og vekja með mér fagrar minningar. Vinnustundirnar á Sólvöllum hafa skilað sér í mörgu, ekki bara nýjum bústað fyrir ellilífeyrisþega, heldur hafa þær líka gert staðinn að athvarfi þar sem er gott og friðsælt að vera. Ekki veit ég um neinar heimsóknir í sumar utan fjölskylduna í Stokkhólmi sem ætlar að koma til að njóta staðarins í sumarleyfinu sínu.
 
Ég á von á að hann nafni minn muni stöku sinnum hoppa upp í hjólbörurnar hjá mér og fara með mér í rannsóknarferðir um skóginn og kynnast með mér hinum hljóðlátu vinum mínum þar. Ég yrði ekki hissa þó að hann færi smám saman að finna þessa vini mína sem sína vini einnig. Mér hefur ekki enn tekist að fá broddgöltinn til að skilja það að með matnum sem ég legg út handa honum, er ég líka að bjóa honum vináttu mína. Ég yrði stoltur ef ég gæti sýnt nafna fram á það að það væri hægt að eignast dýr að vinum, einungis með því að reynast þeim vel.
 
Ég hélt um daginn að ég væri búinn að vinna hylli broddgaltarins en sá sem át matinn hans var fugl sem kallaður er skata. Ég stóð skötuna tvisvar að verki um fimm leytið á morgnana. Þá minnkaði ánægja mín því að skatan er fugl eins og hrafninn sem hrifsar til sín, hvort heldur það eru egg eða ósjálfbjarga ungar. Broddgölturinn er hins vegar eitthvað friðsamasta dýr sem hrærist á jörðinni. Samt hræðir hann höggorma með broddum sínum, étur sniglana sem vilja éta jarðarberin mín og þrífur almennt kringumm hýbýli manna.
 
Klukkan ert tíu og mál að bursta og pissa. Það eina sem ég heyri er suðan í eyrum mér og stöku sinnum falla regndropar mjúklega. Ég er búinn að skipuleggja morgundaginn og eitt verkefna minna er að kaupa fjórar jarðarberjaplöntur og gróðursetja í þar til gerðar körfur. Hann nafni minn hefur gott af því að sjá að ef maður gerir góða hluti, þá getur maður líka uppskorið eitthvað gott. Sama er það með grænmetisræktina sem Rósa, og reyndar Valgerður líka, hafa komið af stað bakvið húsið. Það er gott fyrir borgarbarnið að sjá að þetta er hægt. Gulrætur líka, gulrætur líka, sagði hann um daginn þegar við Rósa vorum að setja niður kartöflur. Svo sáðu þau fyrir gulrótum og þær eru komnar upp.

Að leggja niður slæman vana

Í gærkvöldi talaði ég við hann Gísla ráðgjafa hjá SÁÁ. Við unnum sman í Svartnesi á árunum 1994 og 1995. Gísli var mér hjálplegur á mínum bernskuárum sem ráðgjafi og enn í dag man ég ýmsan þarfan fróðleik sem hann gaukaði að mér og varð fastur vani hjá mér að nota. Svo gat hann líka verið þarflega hreinskilinn. Eitt sinn þegar ég átti að halda fyrirlestur sem ég hafði aldrei verið með, gekk mér undirbúningurinn mjög erfiðlega og það má segja að þar stóð léleg málakunnátta verulega í vegi fyrir mér. Það voru þungir og erfiðir tímar meðan ég var að komast inn í málið og stundum bara komst ég ekki yfir allt sem ég þurfti.
 
En varðandi þennan ákveðna fyrirlestur, þá spurði Gísli mig hvernig ég væri undirbúinn. Ég hefði vissulega getað logið einhverju en gerði það ekki. Ég svaraði í samræmi við það að sannleikurinn er sagna bestur og sagði eins og satt var að ég væri algerlega óundirbúinn. Þá sagði Gísli af sinni alkunnu hógværð: "Það verður lélegur fyrirlestur." Hann þurfti ekki að segja mér það. Ég gat alveg sagt mér það sjálfur, en rétt hafði hann fyrir sér. Svo hélt ég fyrirlesturinn og mig minnir að ég hafi sagt einhverja sögu úr eigin lífi.
 
En þegar ég byrjaði bloggið var það alls ekki þetta sem ég ætlaði að segja. Það sem ég ætlaði hins vegar að segja er búið að koma upp í huga mér hvað eftir annað síðan við töluðum saman í gær.
 
Við Gísli vorum nágrannar í litlum bæ á afar fallegum stað, en þessi bær heitir Svärdsjö. Svärdsjö er mitt á milli Falun í Dölunum og Svartness þar sem við unnum. Tæplega 30 km leið var á milli þessara staða. Við Gísli ókum þessa 30 km oft á tíðum saman, stundum á mínum bíl og stundum á hans. Þetta voru notalegar stundir og við ræddum margt og oft á tíðum voru þetta miklar lærdómsstundir fyrir mig. Gísli sat mjög makindalega í farþegasætinu þegar við vorum á mínum bíl og gjarnan með hendurnar framan á maganum og þá fléttaði hann saman fingurna.
 
Eitt sinn þegar við vorum á leiðinni í Svartnäs varð Gísla að orði: Heyrðu Guðjón, ef læknirinn mundi segja þegar við komum upp í Svartnäs að þú munir deyja á morgun, þá hugsa ég að þú mundir segja; "já, ég veit".
 
Fjandans Gísli hugsaði ég og skildi sneiðina umsvifalaust og ég seig hljóður niður í bílstjórastólinn. Gjóandi augunum á hann sá ég að hann hafði hendurnar framan á maganum og var með fingurna samanfléttaða. Ég bara fann það á einu augabragði að þetta var rétt hjá honum. Ég hafði rosalega óskemmtilegan óvana og það var að vera alltaf að segja; "já, ég veit". Hvílíkur ósiður! Fjárinn sjálfur! Ég verð að venja mig af þessu. Hvers vegna þarf ég alltaf að vera að láta fólk halda að ég viti alla skapaða hluti. Úffff! Ég vissi að þetta var afleiðing af óöryggi og lélegri sjálfsmynd. Ég yrði að hætta umyrðalaust að segja "já, ég veit", og ég yrði að vinna ötullega að því að bæta sjálfsmynd mína.
 
Að skapa með mér innra öryggi og bæta sjálfsmyndina gerði ég á margan hátt og það yrði of langt mál að fara út í það í bloggi. En einn þátt í því vil ég þó nefna og þann sem ég setti fyrst af öllu í framkvæmd. Ég varð að halda miskunnarlaust áfram að þjálfa mig í sænskunni og gera mér þar með auðveldara að hafa samskipti við Svíana. Þá ætti ég líka auðveldara með að vanda fyrirlestrana mína og almennt að uppfylla skyldur mínar sómasamlega. Svo gæti ég tamið mér meiri hógværð þar sem ég þyrfti ekki í tíma og ótima vera að grípa fram í fyrir fólki til að láta ljós mitt skína og til að segja "já, ég veit". Ég vissi að það væri auðveldasta leiðin til að vera leiðinlegur og ég yrði að ryðja því úr vegi.
 
Þakka þér fyrir þetta Gísli minn. Þú gerðir þetta á ótrúlega fínan hátt þó að ég reiddist þér í augnablikinu, og þetta voru orð í tíma töluð. Álpist ég til þess enn í dag að segja "já, ég veit", sem ég tel þó að skeði afar, afar sjaldan, þá minnist ég þín alltaf Gísli vinur minn.
 
 
Það var þetta landslag sem við ókum gegnum á leiðinni Svärdsjö - Svartnes.
 
Þessi stóra kirkja er í litla samfélaginu Svartnäs og ósjaldan sat ég þar og velti fyrir mér hvað í ósköpunum ég hefði verið að gera með því að flytja til þessa lands. Spennandi var það og ég fékk aldrei fram að það hefði verið misráðið. Sannleikurinn er sá að mörg fyrstu árin eftir að við Valdís fluttum til Svíþjóðar áttum við okkar bestu ár.

Myndir frá 2005

 
Ég hef verið að fara í gegnum gamlar myndir og grisja og jafnframt að leita að vissum myndum sem ég þarf að vista annars staðar. Þetta fékk mig til að hugsa um það sem við vorum að gera hér áður, til dæmis þann 19. júní 2005. Þann dag sóttum við tvær kerrur af þökum á bóndabæ spölkorn hér norðan við. Við vorum að snurfusa kringum húsin á Sólvöllum.
 
 
Kringum bæinn þar sem við fengum þökurnar voru nokkrar gamlar eikur. Þær hafa sjálfsagt verið nokkur hundruð ára gamlar. Við spurðum ábúendur hvort þeir vissu um aldurinn á þeim en það vissu þeir ekki og virtist þykja það hálfgert aukaatriði. En eikur deyja innan frá og það tekur langan tíma. Inni í þessari eik hefði verið hægt að koma fyrir góðum hægindastól og sitja þar í honum. Ég var búinn að stinga höfðinu inn í sprunguna þarna og virða fyrir mér þetta undur. Svo kom Valdís og meðan hún var að gera sína athugun kom fleira fólk og setti sig í biðröð. Við sjáum konu þarna lengst til hægri sem bíður eftir að röðin komi að henni.
 
 
En heim komust þökurnar og ég man að það var gaman að þökuleggja og sjá þá stóru breytingu sem varð við hverja rúllu sem var lögð út. Þetta var framan við Sólvallahúsið eins og það var þá. Þá var það bara lítið huggulegt sumarhús og það var gaman að fínisera kringum það. Líklega hefur aldrei verið jafn fínt á Sólvöllum og þetta sumar. Það þarf að fara að verða fínt Sólvöllum aftur. Aðeins hef ég velt því fyrir mér hvort búið sé að gera staðinn of stóran og erfiðan að hirða, hvort búið sé að byggja of stórt. En, nei. Við gátum ekki haft Sólvelli og líka íbúð inn í Örebro. Við urðum að velja á milli og valið var Sólvellir. Eftir Íslandsferðina byrja ég að snyrta og snurfusa hér í kring og þá hugsa ég að gamla tilfinningin komi upp. "Það er nú fínt á Sólvöllum og alltaf má aðeins bæta það, með smá natni og þolinmæði."
 
 
Þannig leit matarborðið út þann 19. maí 2005. Lítur vel út og svo hafa líka verðið jarðarber í eftirrétt má greina. Full skál af jarðarberjum er þarna á borðinu.
 
 
Það var líka snurfusað kringum útihúsin. Svo máluðum við þetta hús rautt eins og annað á staðnum og ári seinna komu svo hellur á gólfið.
 
 
Valdís hirti vel bíla á þessum tíma. Þeir glönsuðu heldur betur og urðu sem nýir hjá henni.
 
Ég ætlaði að skrifa svolítinn eftirmála en er orðinn of syfjaður til að ráða við það. En alla vega. Ég er ánægður með Sólvelli eins og þeir eru í dag þó að mér detti stundum í hug að markið hafi verið sett óþarflega hátt. En sjáum til um miðjan ágúst eða svo þegar búið verður að fara snyrtilegri hönd um hlutina og grænu fingurnir hafa fengið að njóta sín.

Nú er ég undrandi og þreyttur

Eftirfarandi skrifaði ég í gærkvöldi og undir sömu fyrirsögn, en þegar ég las það yfir fannst mér það svo mikið rugl að mér datt ekki í hug að birta það. Svo las ég það núna að morgni miðvikudags, breyti því ekkert og læt það fara út á veraldarvefinn.
 
 
 
Þetta hefur verið merkilegur dagur. Það hefur margt hent og allt jákvætt sem hefur skeð. Það bara varð allt í einu svo mikil ferð á hlutunum á síðustu skrefunum að markinu og ég átti alls ekki von á svo mörgu í dag. Rólegheita maður kom hér nokkru fyrir hádegi, pípulagningamaður sem ætlar að hjálpa mér að tengja nýtt vatnsinntak í húsið. Hann skoðaði skurðinn sem ég gróf í gær og aðrar aðstæður, skrifaði niður það sem hann þarf að koma með og var mikið þakklátur fyrir að vera boðið upp á kaffi.
 
Svo sátum við yfir kaffi og rúgbrauðssneiðum sem ég hafði skorið á disk. Pípulagningamaðurinn tók eina sneið og lyktaði af henni. Heyrðu, sagði hann, ég hef smakkað þetta áður hjá ykkur, ég þekki það á lyktinni. Já, það gat vel verið en sniðugt fannst mér að það var lyktin sem hann þekkti. Svo alt í einu rúlluðu inn símtöl og mér varð hugsað hvers konar eiginlega rennsli væri á hlutunum á þessum degi. En píparinn beið meðan ég talaði í símann og svo spjölluðum við áfram.
 
Þessi pípulagningamaður er einn af þeim fáu iðnaðarmönnum sem ég hitti og liggur ekki þessi ósköp og skelfing á. Ef hann skrifar þann hálftíma sem hann sat hér við matarborðið þá hef ég alveg efni á því. Mér finnst að fólk eigi að geta spjallað svolítið saman. Meðan við sátum þarna hugsaði ég til hans Mattíasar smiðs á Breiðabólstað á Síðu sem gjarnan stoppaði þegar fólk gekk hjá, tók með köllunum í nefið og ræddi aðeins gang lífsins. Það er stutt síðan ég las skrif tiltölulega ungs manns um Mattías. Þeim unga manni þótti tímarnir góðir þegar menn tóku sér stundir til að spjalla. Ég er honum sammála. Spurning hvort það er ekki nákvæmlega það sem heitir lífsgæði. Það er að lifa lífinu núna.
 
Svo gengum við út að bíl, ég og píparinn, og skoðuðum höggborvél sem hann ætlaði að lána mér. Og hvað skeði ekki einmitt þá? Jú, vörubíllinn sem ætlaði að koma í fyrrahaust með perlumöl kom þarna allt í einu fullhlaðinn möl. Ég pantaði þessa möl í fyrrahaust en það gleymdist að koma með hana. Svo minnti ég á pöntunina en daginn eftir fór að snjóa og þá afpantaði ég. Svo pantaði ég aftur í gær og þarna kom hann ljóslifandi með þetta líka fallega efni. Hér hef ég bara nefnt fáein atriði af því sem gekk upp í dag.
 
Þegar píparinn og vörubíllinn voru farnir gekk ég inn, tók bréfið frá Tryggingastofnun, leit á það og undirbjó mig að hringja í þá stofnun sem mér hefur fundist erfitt að hafa með að gera. Ég segi "fundist". Svo gekk ég að símanum, hringdi, og fékk samband nokkuð fljótlega. Yngri kona kynnti sig, kona með glaðlega rödd og bauð glaðlega fram aðstoð sína. Mér fannst þetta byrja vel. Ég byrjaði að tala um bréfið merkt Valdísi og sagði að því bréfi væri ekki hægt að svara. Henni þótti leiðinlegt að þetta bréf skyldi hafa borist en ég sagðist ekki vera sár út af því.
 
Þá var komið að bréfinu til mín. Ég átti að fá tvo votta til að skrifa á skjal til að sanna að ég væri á lífi. Ekkert mál. Ég sagðist mundu gera það. Síðan fór ég að tala um ellilífeyrinn minn sem ég hef reyndar aldrei fengið greiddann vegna of hárra tekna. Ég sagðist alltaf vera í hálfgerðum vandræðum með skýrslugerð til þeirra sem þarf að gera tvisvar á ári. Það eru margir svaraði hún. Ég kem til Íslands í byrjun júní sagði ég henni, og þá bara segir blessuð konan að það megi hjálpa mér við þetta.
 
Nú var ég orðinn svo stein hissa á hjálpseminni og þessu þægilega viðmóti að ég var orðinn gráti nær og fékk samviskubit yfir að hafa oft talað neikvætt um Tryggingastofnun. Þegar tárin voru að byrja að renna sagði ég einfaldlega; "hvað þú ert hjálpleg". En svo bætti ég við í geðshræringu minni; "mér þykir bara vænt um þig". Þegar ég heyrði rödd mína segja þetta skildi ég að ég hafði farið yfir mörkin. Ég veit mín mörk þegar ég tala við fólk, en stundum get ég orðið svo ótrúlega klaufalegur. En hvað skeði? Jú, konan bara þakkaði ánægð fyrir gott hrós og var alveg ákveðin í að hjálpa mér þegar ég kæmi til Íslands. Hún gaf mér upp nafn sitt og símanúmer sem ég skyldi hringja í og panta tíma. Svo sagðist hún skyldi taka á mér púlsinn til að sanna að ég væri á lífi.
 
Jahérnana hér.
 
Að þessu loknu fór ég að tína saman það sem ég þyrfti að hafa með til Tryggingastofnunar. Ný innkomið bréf um sundurliðun sænska ellilífeyrisins fann ég alls ekki. Líklega hafði ég hent því í því bréfahafi sem hefur verið í kringum mig undanfarið. Þá hringdi ég strax í sænsk ellilífeyrisyfirvöld og bar upp erindi mitt. Nákvæmlega jafn lipur kona og sú sem ég hafði verið að tala við skömmu áður svaraði, sló inn persónunúmerinu mínu og skoðaði upplýsingar um mig. "Það er nú ekki málið, ég sendi þér nýtt bréf sem þú getur notað á Íslandi", sagði hún. Lipurð hennar lýsti upp herbergið þar sem ég sat framan við tölvuna. Ég þakkaði henni fyrir sitt góða viðmót og hjálpsemi en hafði svo gát á frekari orðaflaumi.
 
Nú þegar dagur er kominn að kvöldi er ég undrandi og þreyttur, og ég segi aftur undrandi. Ögn ringlaður og tómur í höfðinu. Ég er svo heppinn að hafa lítið hlustað á heimsfréttir og aðrar fréttir í dag. Þær eru svo sjaldan um hjálpsamt samferðafólk eða glaðlegar raddir.
 
Þegar ég hafði skrifað þetta gekk ég út í skóg til að ná áttum og ég fann að mér þótti vænt um marga.

Ég settist niður og skrifaði

Ég settist niður og skrifaði blogg eftir kvöldmatinn. Svo veitti ég því athygli að bloggið var orðið nokkuð langt þannig að ég las það yfir til athugunar. Samt var ég ekki alveg búinn að skrifa það sem í huga mér bjó.
Mér féllust alveg hendur. Svona blogg bara birtir maður ekki hugsaði ég og fannst sem ég væri búinn að rugla þvílíkt og annað eins. Ég sparaði bloggið og fór út í skóg að tala við tré. Þannig fannst mér sem ég kæmist niður á jörðina aftur. Þegar ég kom til baka ákvað ég það sem er mjög skynsamlegt í svona tilfellum; að birta ekki en lesa aftur að morgni. Þannig standa málin varðandi bloggþáttinn.
 
Annars hefur dagurinn verið mjög sérstæður á jákvæðan hátt. Í dag kom píparinn sem ætlaði að koma fyrir sjö vikum að gera smá úttekt og í dag kom vörubíllinn sem ætlaði að koma í fyrrahsust með perlumölina. Í dag fékk ég símasamtöl sem ég hafði beðið eftir síðan fyrir helgi og í dag fékk ég ákveðið uppgjör sem ég hafði ekki beðið eftir en átti von á eftir nokkrar vikur. Að þetta dróst með píparann og mölina á sér sínar skýringar, skýringar sem voru mér til láns. Svo talaði ég við Tryggingarstofnun ríkisins í dag og varð aðnjótandi meiri lipurðar og hjálpsemi en ég hef nokkru sinni áður fengið þar.
 
Fleira get ég sett á plússíðuna eftir þennan dag og eiginlega var ég orðinn hálf ölvaður í eftirmiðdaginn eftir áhrifin af þessu öllu saman. Ég hef orðið meyrari með árunum, tilfinningarnar sveiflast og augun verða auðveldlega rök. Ég fann það þegar ég talaði við konuna hjá tryggingarstofnun og ég fann það þegar ég talaði við konu hjá sænskum skattayfirvöldum. Hún var líka svona hjálpleg. Það er nú meira hvað það er til mikið af góðu fólki. Hins vegar er bara talað svo mikið meira um fólkið sem sýnir hina hliðina.
 
Samt er það nú svo að það er mannbætandi að tala um góðu hliðina á samferðafólki okkar. Þó hefur mér ekki tekist það eins og ég vil. Kyrrð dagsins segir núna þann 21. maí: "Hamingjan hlotnast þeim sem sér ævintýrin í hversdagslífinu; hefur barnshjarta og einfalda sál." Mér líst vel á þennan vísdóm og ég tel mig sjá ævintýri í hversdagslífinu og svo tel ég mig líka óttalegan einfeldning. Það er nú best svo.

Sunnudagsheimsókn

Ég endaði bloggið í gærkvöldi á því að segja að ég ætlaði að fara einn hring í skóginum og svo gerði ég. Það voru gaukar á tveimur stöðum sem virtust hafa einhvers konar samskipti með sínu go-gú hljóði, en þetta hljóð er einhvern veginn þannig að það er notalegt í kvöldkyrrðinni. Maurarnir voru þá enn á mikilli hreyfingu en þeir létu fótleggina á mér í friði. Ég stoppaði á nokkrum stöðum og virti mörg trén fyrir mér frá jörð og upp á topp. Kvöldið gerði það að verkum að þau virtust stærri en ella. Þau virtust mörg hver vera alveg gríðarlega stór. Nokkur stór grenitré sem við völdum til að lifa áfram þegar við grisjuðum árið 2006 og fengum efni í húsbyggingu, þau virtust hafa launað lífgjöfina vel og stækkað mikið. Svo er það líka þegar grisjað er og birtunni sleppt niður í skóginn, þá eykst vöxturinn svo um munar.
 
Það var gott að vera til þarna í gærkvöldi. Þegar ég kom til baka kveikti ég á sjónvarpinu, fannst ég þurfa að fylgjast aðeins með söngvakeppni. Þá stóð yfir einhver feikna mikil sýning með ljósum, glitter og glansi. Síðan hófst talning stiga. Á sama tíma hófst ferð mín um draumalandið. Þegar ég vaknaði aftur í stólnum var talningunni að vera lokið og ég bjó mig til áframhaldandi svefns á betri stað. Svo svaf ég í tæpa átta tíma. Það er mjög, mjög langt síðan ég svaf síðast fram undir klukkan níu að morgni. Ég er úthvíldur og minningar mínar um gærdaginn eru góðar.
 
Þetta skrifaði ég í morgun og svo fékk ég mér morgunverð. Nokkru síðar brast á heimsókn þeirra Rósu dóttur minnar og hennar Usha, indversku vinkonu hennar, en þær komu í eins dags ferð frá Stokkhólmi.
 
 
Ýsa var það heillin, matreidd af Rósu. Og veðrið bauð upp á útiborðhald. Usha gengur ekki heil til skógar og fyrir þá sem þekkja hana má greina það á þessari mynd.
 
 
Við brugðum okkur í skógarferð og í hinum litla Sólvallaskógi er hægt að taka eftir ýmsu ef rólega er farið og áhugi á gróðri er fyrir hendi. Þarna er Rósa að benda Usha á mauraþúfuna margnefndu sem veldur því að slóðin við fætur þeirra iðar af maurum sem eru önnum kafnir.
 
 
Hvað þær eru að spekúlera þarna er ég ekki viss um, en einhver planta er það gæti ég trúað. Umhverfið er gott enda nær iðandi lífríkið þarna upp í 20 til 30 metra hæð. Þar sem er svo mikið af hljóðlátu lífi ætti að vera gott að vistast.
 
 
En hér er spekúleringum alveg lokið. Usha tók allt í einu stjórnina og er hér komin á fulla ferð heim á leið. Hún vildi ekki fá stígvélin lánuð sem Rósa bauð henni og var á hálfgerðum sandölum. Mauramergðin var farin að gera hana órólega enda er ekki svo sniðugt að fá þá mikið á milli tánna. Þá eru stígvél betri. En þetta var allt í lagi. Einni hringferð um Sólvallaskóginn var lokið.
 
 
Það var komið að brottför eftir vel heppnaðan dag á Sólvöllum. Usha var ánægð með að hafa drifið sig í þessa ferð og það virtist hressa hana. Mér finnst alla vega þegar ég horfi á þessa mynd að hún sé mun hressari í útliti en hún var þegar hún kom.
 
Ætlarðu ekki að taka mynd af okkur með Kilsbergen í baksýn spurði Rósa. Jú, svo gerði ég það og árangurinn er góður finnst mér. Þakka ykkur fyrir heimsóknina stelpur mínar. Nú verður aftur ýsa í síðbúinn kvöldmat.

Álfar í skóginum

Það var um miðja viku sem ég fór einn hring í skóginum í blíðskapar veðri en  þó engum hlýindum. Allt í einu fann ég á mér að mér var veitt eftirför. Ég leit við og sá tvo skógarálfa fylgja mér eftir.
 
 
 Álfkonan rétti fram myndavélina og bað mig að taka mynd af þeim og það var nú líklega.
 
 
Svo þegar ég var búinn að taka myndina af þeim vildi hún líka taka mynd af mér. Það var hugulsamt og það var gaman.
 
 
Svo komu þessir skógarálfar aftur í dag og höfðu þá aðra álfkonu með sér. Þegar ég var búinn að skrifa þetta á fimmtudaginn var, að ég hefði verið út í skógi og fundið á mér að mér væri veitt eftirför, þá áttaði ég mig á því að ég hafði skrifað nákvæmlega það sama fyrir um það bil ári síðan, eða tveimur, og það var líka sama fólk sem um var að ræða. En mér finnst það ekki skipta neinu máli þó að ég hafi sagt nákvæmlega það sama í fyrra, eða hitteðfyrra. Það kemur ekki í veg fyrir að ég geti sagt það aftur núna. Frá vinstri Þórir, þá Auður og síðast Eva.
 
Þegar þau komu leit út fyrir skúr þannig að við fengum okkur kaffi inni. Þegar við vorum búin að drekka kaffið hafði ekkert rignt, það var vel hlýtt og við færðum okkur út. Það var hreina sumarblíðan eins og sjá má á myndinni. Að það væri hljótt nefndist oft þarna úti í blíðunni og það var svo sannarlega hljótt. Það var spurning hvort það fór einn bíll framhjá eða tveir þá dágóðu stund sem við sátum þarna í sólinnni. Ég sagði þeim frá því að það hefðu verið tvær klukkur í svefnbherberginu mínu og eftir því sem kyrrðin jókst hér heima urðu klukkurnar háværari. Nú eru þær komnar bakvið hurð með gleri og tikk takk hljóðið heyrist ekki lengur. Það var léttir.
 
Í Kyrrð dagsins eru mörg vísdómsorðin um þögn og kyrrð. Þann 14. maí sagði að "Þögnin getur haft voldugan hljóm." Mér finnst ég skilja þetta en samt get ég ekki útskýrt það. En mér finnst það eiga nokkuð skylt við það að eftir því sem kyrrðin varð meiri hér heima urðu hljóð klukkanna hærri. Það er mikil náðargjöf að geta notið kyrrðarinnar og þagnarinnar. Einum 15 mínútum eftir að þetta fólk fór byrjaði gaukurinn sitt go-gú út í skógi. Ég hefði svo gjarnan viljað bjóða þeim upp á að hlusta á það. Ég er stoltur af staðnum Sólvöllum og því sem hann getur boðið upp á, hvort heldur það er kyrrðin, hljóð gauksins eða annarra fugla og svo margt annað.
 
 
Álfkonan tók mynd af stóru mauraþúfunni um daginn. Þessi mauraþúfa er orðin afar mikil fyrirferðar, ég held sú allra stærsta sem ég hef augum litið. Og maurarnir eru sjálfsagt í margmiljónatali. Þeir koma alveg heim undir hús í verðmætaöflun sinni þó að þúfan sé eina 100 metra fá húsinu. Gönguslóðir eru þaktar maurum og ef maður stoppar á göngu sinni eru þeir fljótir að taka sig upp fótleggina. Ég skal viðurkenna að stundum finnst mér nánast nóg um. En ekki geri ég þúfunni samt neinn miska þó að mér blöskri. Það liggur ekki í eðli mínu að gera svoleiðis og það iðandi samfélag sem þarna lifir er ekki á mínu valdi að útrýma. Ég geri ráð fyrir að náttúran sjálf sjái um það að lokum. Ég las í sögu þegar ég var í Skógaskóla að öll voldug samfélög hefðu hrunið að lokum. Kannski það verði líka þannig að lokum með stórveldið mauraþúfuna austan við Sólvelli.
 
Ég þakka vingjarnlegum og einstaklega skemmtilegum skógarálfum fyrir heimsóknina í dag. Kyrrðin er algjör og góð hjá mér núna utan lágvært fuglatíst, en glaðvær heimsókn ykkar lifir með mér og mun fylgja mér þangað til félagsskapur Óla lokbrá leggur mig á koddann þegar þar að kemur. Fyrst ætla ég mér þó að fara eins og einn hring í skóginum og njóta stuttrar kvöldstundar með hljóðlátum vinum mínum þar úti.

Íslandsferð - minningarathöfn

Vilji fólk vita um ferðir okkar og framvindu mála þá er skipulagningin eftirfarandi:
 
Þann 1. júní förum við hér frá Svíþjóð áleiðis til Íslands með duftker Valdísar meðferðis.
 
Mánudaginn 3. júní klukkan 13 verður minningarathöfn um Valdísi í Dómkirkjunni í Reykjavík. Eftir það verður boðið upp á kaffi í safnaðarheimili Fríkirkjunnar við Laufásveg.
 
Þann 8. júní klukkan 14 verður duftkerið jarðsett í Hríseyjarkirkjugarði og eftir það verður boðið upp á kaffi í Sæborg ásamt stuttum atriðum sem eru viðkomandi óskum Valdísar.
 
Að þessu búnu lýkur jarðneskri ferð konunnar frá Hrísey sem á efri árum tók í sig kjarkinn til að kanna ókunn lönd. Að því leyti til endar ferðin í Hrísey, í hríseyskri mold að hennar eigin ósk, og á þann hátt verður hún komin heim aftur. En andinn sem nú er frjáls frá höftum jarðlífsins heldur sínum ferðum og könnunum áfram. Þannig munum við minnast Valdísar, að hún hafi öðlast frelsi og hafi tekið stefnuna móti þeirri birtu sem fannst í orðum hennar og raddblæ síðasta kvöldið sem hún lifði.
 
Við frá Svíþjóð, ásamt Valgerði og fjölskyldu frá Vestmannaeyjum, verðum í Hrísey frá 7. til 13. júní.
 
Við frá Svíþjóð fljúgum svo heim sunnudaginn 16. júní.
 
 
 
 
Snemmsumars á síðasta ári, Valdís fjórða frá vinstri. Útisöngur með Hafðu það gott kórnum.
 
 
 
Samvera um síðustu jól.

Að takast á við hlutina

I morgun renndi ég af einhverri rælni auga yfir fyrirsagnir að bloggunum mínum síðustu vikurnar. Ég man innihanld þeirra nokkuð þegar ég les fyrirsagnirnar, að minnsta kosti nokkra mánuði aftur í tímann. Þann 16. apríl var fyrirsögnin Ferðalok. Ég stoppaði við, vildi opna það en þorði ekki. Ég vissi hverjar afleiðingarnar yrðu og vildi ekki takast á við þær. Eftir nokkur augnablik vissi ég að þetta væri aumingjalegt af mér og svo opnaði ég bloggið og las. Afleiðingarnar urðu þær sem ég bjóst við.
 
 Lokaorð þessa bloggs voru: . . ."en Valdísar er sárt saknað nú þegar. Hins vegar byggist stærsta sorgin ekki á því að hafa misst, heldur á því að hún fékk ekki að taka þátt í því sumri sem við vorum búin að skipuleggja. Hún átti það svo sannarlega inni að fá að vera með."
 
Hvað veit ég svo um þetta sem ég sagði þarna? "Hún átti það svo sannarlega skilið að fá að vera með." En ég hef ekki hugmynd um hvað hún hefur fengið að vera með um í staðinn fyrir það sem til stóð hjá okkur í jarðlífinu. Kannski það sé bara eigingirni af minni hálfu að halda að hún hafi misst af einhverju. Síðustu símtölin sem við áttum saman bentu til þess að hún vissi að það væri bjart framundan. Ég vil ekki taka þá birtu frá henni.
 
Samt sem áður brýst sorgin undan slæðu sinni bara þegar henni dettur það í hug. Ég er hins vegar búinn að læra það að slæðan breiðir sig af mildri miskun yfir sorgina á ný og eftir stendur sterk löngun til að gera góða hluti, verða betri, taka þátt í lífinu og bæta það. Vera sáttur við allt og ekki skorast undan því að vera lifandi manneskja sem heldur áfram göngunni fram á við þangað til minn tími kemur.
 
Guð
gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
 
*        *        *
 
Sólin skín björt á hálfskýjuðum austurhimni og hitinn hefur stigið úr átta stigum í fjórtán á einum klukkutíma. Trjákrónurnar standa kyrrar en lauf á einstaka greinum bærist í andvara sem ekki finnst fyrir að öðru leyti. Eggjarauðan á undirskálinni austan við húsið hvarf í nótt, aðra nóttina í röð. Hver át veit ég ekki ennþá en það mun koma í ljós á sínum tíma ef þetta endurtekur sig nógu oft. Broddgöltur má það svo sannarlega vera. Í dag mun ég þurfa að vökva grænmetisræktina undir skógarjaðrinum sem búið er að leggja svo mikla alúð við að koma af stað.
 
Framhaldsspáin fyrir næstu tíu daga er góð en þó engin regluleg sænsk hlýindi. Veltigrænar trjákrónur eru enn að laufgast og eikurnar sem alltaf eru frekar seinar til eru komnar vel af stað. Askurinn sem laufgast síðastur trjáa stendur við sitt eins og venjulega og bærir ekki á sér. Mikið fallegur dagur er hafinn og ég ætla að taka þátt í honum.
 
Í kvöld verður það svo AA fundur í Fjugesta frá klukkann sjö til átta.

Að hæna að sér vini

 
Hvað í ósköpunum ætli þetta sé nú sem er hérna bakvið húsið? Jú, það er einfaldlega svo að í skálinni til vinstri er vatn en á undirskálinni til hægri er eggjarauða. Hannes Guðjón hefur undir höndum bók og þar segir eftirfarandi: "Leggðu út vatn, avakadó, kattamat og hrá egg. Þá áttu möguleika á að eignast vin sem vill búa í heimilisgarðinum þínum." Og vinurinn er: Broddgöltur. Ég byrjaði í gær og eggjarauðan var étin í nótt en hver það var sem át veit ég ekki. Verði broddgölturinn tíður gestur í þessu kemur að því að hægt verði að horfa á hann í róleghitum. Það væri mjög skemmtilegt.
 
Ég er búinn að skrifa á innkaupalistann bæði kattamat og avakadó. Af vatni hef ég nóg og egg til viku eða svo. Það er svo skemmtilegt að við broddgölturinn eigum það sameiginlegt  að nota það mesta af þessu. Það er aðeins kattamaturinn sem ég vil helst ekki leggja mér til munns. Hins vegar var ég eitt sinn sem oftar í búð og var að leita einhverju matarkyns í dós. Ég hafði meðferðis innkaupalista frá Valdísi. Svo var ég eitthvað utan við mig og leitaði mjög náið í stórum rekka en fann alls ekki. Eftir dágóðan tíma tók ég eftir því að ég var að leita að einhverju matarkyns handa okkur Valdísi í katta- og hundamatarrekkanum. Þá hefði Valdís hlegið ef hún hefði orðið vitni að þessu villuráfi mínu. En hvað um það; nú bíð ég eftir því að matargjöfin mín hæni að broddgeltina.
 
 
Það var hljóðlát kvöldgangan sem ég fór um Sólvallaskóginn eftir að ég hafði borðað kvöldmatinn og gengið frá. Ég byrjaði hér heimundir þar sem ég byrjaði að dást að beykutrénu sem er fyrir miðri mynd. Falleg er krónan hugsaði ég þó að ekki séu öll brum sprungin út. Til vinstri er nakinn stofn sem ber í bláberjabekkinn. Það er björk sem átti að fella í vor en þar sem ekki hefur allt gengið eftir á mínum bæ er ekki búið að hrinda því í framkvæmd. En þarna sést vel hvernig ung tré eru að taka við af þeim gömlu sem ekki fengu þá alúð sem þau þurftu á að halda á sínum yngri árum.
 
 

Þetta er lengra út í skógi. Vinstra megin er fura sem við frelsuðum úr ánauð vorveturinn 2006. Það voru greni- og reyniviðartré sem þjörmuðu að henni og eyðilögðu krónuna langt upp eftir trénu. Síðan við frelsuðum hana hefur þessi fura vaxið alveg makalaust mikið og gildnað að sama skapi. Þegar ljósið kemst að þessum  trjám launa þau ríkulega umönnunina og gleðja þann sem telur sig eiga. Fyrir miðju er beykitré sem ekki er komið eins langt og tréð á fyrri myndinni. Nokkur þessara trjáa sem við sjáum á myndinni eru há, yfir 25 metrar.
 
Þannig er staðan á Sólvöllum í kvöld. Það er kyrrlátt að vanda og kyrrlátara en verið hefur um áraraðir. Kvöldsólin var með mér á göngunni og lýstu upp skóginn á sinn sérataka hátt. Það hefur verið kaldara í nokkra daga, en eftir tvo daga á að hlýna verulega aftur og þá verður líf og fjör í ört vaxandi Sólvallaskógi.
 
 
Ps. Broddgölturinn hefur ekki látið á sér kræla. Með vökulum augum hef ég litið eftir því.

Síðasta myndin er afar mikilvæg

 
"Ég var örugglega ekki eins frjálslegur í háttum þá og ungi heimsmaðurinn á þessari mynd" sagði ég í bloggi í gær með annarri mynd. Ekki eins frjálsmannlegur í háttum þegar ég fór með honum Ingólfi Magnússyni á kaupfélagsbílnum út að Klaustri í fyrsta skipti. En nú að myndinni: Það var all mikið af fólki þarna inni á Max hamborgarastað í Örebro um helgina þegar Rósa keypti barnahamborgara handa Hannesi. En hann rölti um gólfið, alveg óþvingaður af nærverunni við ókunnugt fólk, spáði í kaðal sem skipti milli þeirra sem eru að koma að afgreiðslunni og fara frá henni með innkaupin í fanginu. Hann lyfti kaðlinum upp og lét hann hvíla á öxl sér, gekk út að glugga og spáði í fólk sem fór hjá. Stóran hluta af lífinu hef ég reynt að láta sem minnst á því bera að ég sé óöruggur og enn í dag koma upp tilfelli þar sem gamla tilfinningin kemur upp.
 
Það er stór munur á erlinum inn í miðjum Stokkhólmi og erlinum í Örebro. Þar á eftir er svo erillinn á Sólvöllum þar sem það er ekki tiltökumál að fara út á nærbuxunum eða í hjólböruferð út skóg með afa, klæddan í jakka sem enn er betri jakkinn þegar kallinn fer í vinnuna. Eða bara að veltast í grasinu og skoða stórar bjöllur sem eru á stærð við litil vínber. Að hlaupa um berfættur og fara svo eina hundrað metra til Ölmu og Siw til að leika sér með þeim í sandkassa.
 
 
"Nú er ég svolítið lúinn og ég er ekkert feiminn við að setjast hérna í gluggann til að hvíla mig meðan mamma kaupir hamborgarann". Ég geri honum upp orðin hérna.
 
 
Um daginn bardúsuðu þær þarna systur, Rósa og Valgerður, byggðu og baukuðu. Fyrir nokkrum vikum birti ég mynd af þeirri vinnu á blogginu. Eitt erindi Rósu á Sólvelli núna um helgina var að planta út innisáningu. Hannes var með en kannski ekki alltaf til hjálpar. Þarna að morgni dags i sterku sólskini, en vindi og engum hlýindum, voru þau að gera úttekt á öllu saman. Þau þurftu að vera vel klædd þrátt fyrir sólskinið.
 
 
"Sjáðu afi! þarna!"  held ég að Hannes hafi sagt. Þarna liggur slanga út í skóg og maurarnir nota hana sem hraðbraut og þó allra mest sem brú yfir skurð sem þarna er. Það var spennandi og mikið, mikið áhugavert fyrir Hannes.
 
 
Þeir sem eru Þarna hægra megin eru á leiðinni til vesturs en þeir til vinstri eru á leiðinni inn í skóginn. Sjálfsagt eru þeir sem eru á leiðinni inn í skóginn búnir að finna eitthvað alveg bráð nauðsynlegt í risa mauraþúfuna sem er eina hundrað metra frá þessum stað. Það er mikið í gangi hjá þeim og ég finn að við Hannes eigum mikið eftir órannsakað í þessu atferli mauranna. Slík rannsókn skemmir engan. Áhugi hans á þessu var mikill og það gladdi mig verulega og örugglega mömmu hans líka. Hún tók myndirnar.
 
 
Tveir lærlingar. Rósa er með myndavélina og stjórnar pönnukökugerð. Fyrir ekki svo löngu sagði ég við Valdísi að ég þyrfti að læra af henni og baka með henni pönnukökur. Þann dag bakaði hún pönnukökurnar í laumi og kallaði svo á mig í kaffi. Hún vildi bjóða mér upp á pönnukökurnar sínar sjálf en ekki láta mig baka þær. Nú fæ ég uppskriftina hennar hjá Rósu í staðinn. Pönnukökurnar hennar voru þekktar í héraðinu má segja.
 
 
Að lokum: Hannes kemur svo oft á Sólvelli að hann varð auðvitað að fá sinn dótaskáp. Það sem áður var í þessum skáp er nú komið í skáp út á Bjargi. Svo keyptum við skúffur í hann um helgina. Hannes virtist skilja vel að hann hefði fengið sinn samastað fyrir sína hluti og var ánægður með að losna nú við ólánlegan plastkassann sem stóð svolítið eins og illa gerður hlutur út við vegg. Mér var mikið í mun að þetta kæmist í lag í þessari ferð og það var svo gaman að verða þess var að hann gladdist yfir skápnum sínum. Svo hjálpaði mamma honum að koma hlutunum fyrir.
 
Það er mikil breidd í lífinu hjá þessum unga manni, honum nafna mínum, og það er mikið að varðveita og fara vel með hjá dreng sem ekki er orðinn fjögurra ára. Það má mikið vera ef Astrid Lindgren talaði ekki um það að kærleikurinn væri börnunum mikilvægur.
 
 
Og hér stendur það. "Gefðu barni kærleika, meiri kærleika og ennþá meiri kærleika. Þá koma mannasiðir af sjálfu sér." Svo skrifar hún undir þetta, konan sem skrifaði svo ótrúlega mikið, hollt og fallegt fyrir börn.
 
Kærleikur er ekki bara að faðma og gefa góðgæti. Kærleikur er líka að kenna aga, en það er nefnilega ekki sama hvernig það er gert. Ég vildi óska að mér hefði sem oftast tekist að gera það með hógværð og virðingu fyrir börnunum mínum og viðkvæmum hjörtum þeirra. Mér tóks það alls ekki nógu oft.
 
Sannleikurinn er sagna bestur og hreinskilnin er skilyrði fyrir mannlegum þroska og góðum persónuleika. Ég reyni enn að vinna að eigin framförum.

Einbúi á ný

 
Á járnbrautarstöðinni í Hallsberg rúmlega hálf fimm í dag. Góðir gestir eru á leið heim eftir tvo sólarhringa á Sólvöllum.
 
 
"Bíddu nú við, eru sæti 14 og 15 hérna megin? Nei, reyndar ekki, þau eru hinu megin." Hann er þriggja ára og sjö mánaða ungi maðurinn sem er þarna að leita að sætinu sínu með mömmu sinni. Ég var níu ára árið 1951 þegar ég fór með kaupfélagsbílnum á Klaustur til að byrja fyrstu vikuna í barnaskólanum á sláturhúsloftinu þar. Það var í fyrsta skipti sem ég kom til slíkrar stórborgar. Ég var örugglega ekki eins frjálslegur í háttum þá og ungi heimsmaðurinn á þessari mynd. Þegar þau voru búin að átta sig á að sætin væri hinu megin vinkaði hann til mín og svo hurfu þau inn ganginn til hægri. Ég beið eftir að lestin rynni af stað og svo hélt ég heim á leið.
 
 
Það var ýmislegt brasað um þessa helgi. Í þessum tveimur hólfum eru kartöflur. Það var ekki athafnamaðurinn í mér sem kom því til leiðar að setja niður nokkrar kartöflur. Það var fyrir tilstilli Rósu. Hún spurði í gær eða fyrradag hvort við ættum ekki að setja niður nokkrar kartöflur. Svo fórum við í gær og keyptum það nauðsynlegasta til þess að geta komið því í framkvæmd. Vonandi verður það til þess að það verður gerð smá garðhola næsta vor.
 
 
Hannes er mikill mömmustrákur og það gekk ekki aldeilis fljótt fyrir mig að ná honum sem leikfélaga.

 
En hann féll fyrir hjólbörunum. Honum þótti það góður ferðamáti og spekúleraði mikið og spjallaði. Þegar hann varð var við að maurarnir voru komnir upp í hjólbörurnar til hans fannst honum sem hart væri að sér vegið og þeir ættu betur heima á jörðu niðri. Ég varð svolítið undrandi líka þar sem ég stoppaði ekki á neinu maurasvæði, en þeir höfðu lag á því að komast upp í börurnar til hans eigi að síður.
 
Ég ætlaði að gera þetta að líflegu bloggi en netsambandið er lélegt á þessu kvöldi og allt gengur seigt og hálf ómögulega. Því ætla ég að taka mig út í góða veðrið þar sem skógardúfurnar kurra mikið núna og vera með þeim í því að vegsama þetta fallega kvöld. Svo blogga ég þegar netið verður samvinnuþýðara.

Síðasta myndin er best

Maður að nafni Ralph Waldo Trine var uppi í Illinois frá 1866 til 1958. Hann var heimspekingur, kennari og rithöfundur og hann hafði mikil áhrif á margt af sínu samferðafólki og hann seldi mikið magn bóka. Að hann hafði mikil áhrif á sitt samtíðafólk segir nokkuð um manninn reikna ég með. Hann sagði "Sönn fegurð verður að spretta, hana verður að rækta innanfrá". Það er ekkert nýtt að heyra það en það er mikilvægt að vera minntur oft á það.
 
 
Það er að vísu ekki þessi ræktun sem Ralph Waldo Trine talar um en það er spurning hvort ræktun og ræktun geta ekki haldið hönd í hönd. Ég hlakka mikið til næstu daga og vikna þar sem umhverfið sem við sjáum á myndinni er á leiðinni.
 
 
Það vantar eitt hús á þessa Sólvallamynd, hús sem var byggt eftir að myndin var tekin. Enn um sinn ætla ég mér að rækta innan frá á þessum stað, rækta báða hlutana, minn innri og umhverfi mitt.
 
Og nú kemur mynd dagsins þó að hún hafi verið tekin í fyrra.
 
 
Þessi ungi maður, hann nafni minn, ætlar að mæta á járnbrautarstöðina í Hallsberg klukkan tuttugu mínútur yfir sex í kvöld. Hann er að koma í heimsókn til afa með henni mömmu sinni. Það verður enginn svona fínn malarhaugur til að klífa hjá afa núna þar sem það er full byggt á Sólvöllum, en það verður nóg að fást við samt. Það er ræktun innan frá að horfa á það hvernig lífið ólgar hjá litla manninum á þessari mynd.

Uppstigningadagur á Sólvöllum

Ég var kannski ekki Guðrækinn í dag. Ég var að vinna á Bjargi við að setja upp skápana sem við Lennart nágranni sóttum í IKEA í gær. Að vísu las ég tvær síður í biblíunni í dag í tilefni dagsins. Það var endirinn á Jóhannesarguðspjalli og byrjunin á Postulasögunni, nokkuð sem fjallar um uppstigningardaginn. Að öðru leyti var ég dyggur nýbyggingunni en fór alls ekki hratt.
 
 
Þarna er búið að stilla skápunum upp og setja hurðirnar á, en ég á eftir að festa þá og kannski að stilla þá svolítið af í stæðum sínum. Öðruvísi skápar eiga að koma vinstra megin við fataskápana. Þegar ég verð búinn að ganga frá skápunum tæmi ég skáp inni á Sóvlöllum og þar með getur hann Hannes fengið heilan skáp fyrir dótið sitt og annað sem hann þarf að hafa aðgang að þegar hann dvelur í sveitinni.
 
 
Tengdasonur og tengdafaðir hjálpast að við að leggja parkett fyrir fáeinum vikum. Það er orðinn munur á í dag. Það miðar í rétta átt.
 
 
Ég er búinn að nota þessa mynd áður en ég nota hana aftur. Hún er frábær. Hannes ryksugar falsið áður en næsta panelborð verður lagt niður og Valgerður ljósmyndar aðstoðarmanninn.
 
 
Og til gamans. Þessi mynd mun vera frá í mars 2005 ef myndaprógrammið skrökvar ekki að mér. Ef einhver veit betur væri gaman að vita. Þarna er Sólvallahúsið nákvæmlega eins og það var þegar við keyptum það utan að við vorum búin að mála. Til vinstri á myndinni eru ung hjón sem bjuggu um tíma í Örebro, Þórarinn Þórarinsson og Guðrún Snorradóttir. Ég man ekki hver lágvaxna unga konan í miðjunni er, en svo koma þau Þórir Þórisson og Auður Dúadóttir og svo að lokum Valdís með reiðhjólakörfuna sína.
 
 
Beykið er komið af stað eins og fram hefur komið hjá mér áður. Takið eftir gamla laufinu sem enn er á trénu. Það fellur ekki fyrr en tréð verður nánast allaufgað.
 
 
Aðeins verður maður að handleika svona djásn, gæla svolítið við nýkviknaða lífið. Undir eru nokkrar skógarsóleyjar.
 
Þórir hringdi áðan til að vita hvernig Sólvallabúinn hefði það. Meðan við töluðum saman kom broddgölturinn lallandi fyrir húshornið og snuddaði bakvið svefnherbergið mitt. Þeir eru mikið skemmtileg dýr broddgeltirnir. Dádýr hefur verið á gamla túninu vestan við húsið í mest allan dag og fuglarnir hafa tíst og sungið og unnið vorverkin sín af eljusemi. Hjól athafnalífsins hafa sem sagt snúist hér í sveitinni í dag.
 
Á morgun koma Rósa og Hannes í helgarheimsókn. Þá þarf ég að vera búinn að gera matvælainnkaup svo að ég geti staðið mig vel sem gestgjafi. Að svo búnu ætla ég undir ullarfeldinn minn. Ég hef nú í nokkur kvöld drollað of lengi fram á kvöldið. Það verður gott að hlusta á regnið á leiðinni inn í svefninn.

Kyrrð

Kyrrlátur er hann þessi morgun. Það er hljótt í Sólvallahúsinu og hinir hávöxnu nágrannar mínir bakvið húsið bærðust ekki þegar ég leit fyrst út. Síðan virðist einhver andvari hafa gert vart við sig því að nokkrir trjátoppar bifuðust örhægt um stund, svo varð allt kyrrt aftur. Það er alskýjað og hitinn er um 16 stig og fer hækkandi. Ég veit ekki hvort ég á að segja að það hafi rignt ögn í gærkvöldi og nótt eða hvort það rigndi talsvert. Skógarsóleyjarnar virðast hafa dregið sig saman en trén eru ánægð með lífið. Græni liturinn er sigurvegari morgunsins og beykitréð sem ég talaði um í bloggi í gær er orðið svo grænt að það sést héðan út um gluggann.
 
 
Að birta þessa mynd í gær af svo litlu var kannski að bera í bakkafullan lækinn og þar að auki er hún ekki í fókus. Í gær sá ég í sjónvarpsfréttum að fólk var úti í skógi að skoða fugla. Þar var maður með linsu sem ég gæti trúað að hafi verið upp undir hálfur metri á lengd. Hann var þýskur og var að leita að ákveðinni spætutegund sem hann hafði áhuga á. Í fyrra sá ég mynd af stoltum manni á vöðlum þar sem hann stóð á árbakka með veiðistöng og við hliðina á nokkrum silungum sen hann hafði veitt. Ég þekki líka mann í Lekebergshreppi sem á nokkra gamla bíla og rallýbíla. Eitt sinn brenndi hann upp einum gangi af dekkum á einum degi. Hann sagði að það hefði verið alveg rosalega skemmtilegur dagur.
 
Við erum mörg sem höfum okkar og ég hef mín beykitré og þær eru margar litlu svipbreytingarnar sem ég tek eftir en aðrir mundu ekki skynja. En þegar ég var búinn að skrifa þessar línur tók ég eftir því að það var allt um menn. Er það kannski svo að konur hafa minni þörf á að sýna heiminum áhugamál sín en við kallpúngar? Ég veit það ekki en ég veit bara að fljótlega fer ég fram í eldhus að elda mér hafragraut.
 
Mig hefur vantað mjöl til að geta bakað rúgbrauð en ég hef ekki farið í búð í nokkra daga. Því hefur baksturinn beðið í þrjú kvöld en ég segi oft að það þurfi ekki alltaf allt að vera til. Svo í gærkvöldi var ég að fara í gegnum það sem finnst í frystunum og viti menn; ég fann eitt rúgbrauð. Barnalega glaður setti ég það á borðið og á eftir hafragrautnum verður því te og rúgbrauð. Dagurinn í dag verður eins góður og ég geri hann til sjálfur.
 
Þegar ég var búinn að skrifa ofanritað fannst mér kominn tími til að líta á orð dagsins í Kyrrð dagsins. Þar segir Laó Tse sem var uppi á 6. öld fyrir krist að "Mesta uppgötvunin er kyrrðin". Já, það var ekki í gær sem þessi orð urðu til. Mikið er gott að þykja vænt um kyrrðina. Fyrir mig er það merki þess að ég sé ekki hræddur við að hitta sjálfan mig. Það eru lífsgæði. Svo finnast mér sniðugt að eftir að hafa skrifað þessar línur, að finna þá vísdómsorðin um kyrrðina í bókinni. Fyrirsögnin að þessu bloggi er auðvalin.
 
Sólin er að sigra skýin, fuglar ýmist syngja á greinum eða eru á ferð og flugi. Ekki mun blaðgrænan hafa á móti sólríkum degi og ekki mun ég hafa á móti hafragrautnum sem brátt rýkur á diski.

Lífið springur út

Ég fylgdist ekki nógu vel með í gær. Svo voru grannarnir að segja mér í dag að það hefði verið 22 stiga hiti. Af manni sem er jafn oft búinn að tala um þrá sína til vorsins og ég hef gert, þá er þetta auðvitað bara kæruleysi og vanþakklæti að taka ekki eftir þessu. Að vísu var ég að mála dyra og gluggaáfellur og gerefti innan húss í gær en það er engin afsökun. Nú er þessari málningu lokið og vel var það unnið. Í dag var hin árlega hátíð hjá mér (eða hitt þó heldur) að raka þykku lagi af rotnuðu laufi úr skurðinum þar sem frárennslið frá húsinu fer eftir hreinsunarferlið. Ekki fannst mér það frítt við lykt en ég veit ekki hvað var rotnunarlykt af laufi eða lykt af frárennsli.
 
Ekki er það nú sjarmerandi tal þetta, og þó. Ég var á skyrtunni og svitnaði. Það var góðs viti. Svo þegar ég var búinn að fara vandlega í sturtu og komin í hrein föt leið mér eins og ég væri nýr maður. Skítverkinu var lokið og ég tók eftir því að trén hafa laufgast afar mikið í gær og í dag. Ég var aldeilis hugfanginn af góðleika tilverunnar og tókst nokkurn veginn að helga mig því að það væri gott að vera til. Svo fórum við Lennart nágranni inn í Marieberg til að kaupa fataskápa í Bjargsherbergið.
 
 
En meðan við vorum í Marieberg héldu þessi vinalegu og hreinlegu blóm að brosa við sólu og þau heita skógarsóleyjar. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja en eitthvað á þá leið að mér dettur í hug vinátta þegar ég horfi á breiðurnar af skógarsóleyjunum. Að draga upp gardínurnar á morgnana og sjá úti á skógarbotninum að þær eru mun fleiri en í gær, það bara hlýjar hjartanu. Vitsippa heitir þetta blóm á sænsku.
 
 
Horfandi yfir stærra svæði getur skógarsóleyjabreiðan litið þannig út. Ég þorði ekki að bíða til morguns, en þó grunar mig að þessi breiða verði ennþá þéttari á morgun. Rauða húsið sem við sjáum í þarna er geymsluhús hjá nágrönnunum.
 
 
Svo er komið að beykinu, þessu eftirlætistré mínu. Ég heimsótti nokkur þeirra í dag. Brumið sem liggur þarna á fingrum mér er orðið yfir fimm sentimetra langt. Þá fer alveg að koma að því að það bresti. Ég tók nokkrar myndir til að fá eins og eina góða mynd og þegar ég var búinn að spígsspora hringinn í kringum tréð tók ég eftir nokkru.
 
 
Græni liturinn var að brjóta sér leið út og mér fannst á svipaðan hátt og kjóaungarnir fyrir sextíu árum á aurunum fyrir neðan Kálfafell. Ég reyndi einu sinni að hjálpa unga að komast út úr eggi og braut svolítið af skurn frá nefinu á honum af mikilli nærgætni. En það passaði ekki að grípa svoleiðis inn í feril náttúrunnar og sá ungi drapst. Í dag horfði ég bar á þetta með lotningu í lófa mér og gerði engar tilraunir til að hjálpa við fæðinguna. Myndin er hreifð eða ekki í fókus, en á þremur brumum má þó greina græna litinn á oddinum á bruminu. Og vitið þið bara; þetta var á sömu grein og ég sá fyrstu brumin springa út í fyrra. Það verður gaman að ganga út í fyrramálið og fylgjast með þessari hljóðlátu fæðingu.
 
Þannig er það hér á Sólvöllum. Það er margt fallegt að upplifa þessa dagana. Stóru bjarkirnar tvær sem eru sitt hvoru megin við bílageymsluhurðina á Bjargi og skurðgrafan sleit svo margar rætur af í fyrra, þær eru báðar í óða önn að laufgast. Það gladdi mig líka að sjá að þær stóðust raunina, alla vega enn sem komið er. Ég mun gauka að þeim góðgæti eftir bestu getu í vor til að bæta þeim upp skaða og kannski líðandi, hver veit.
 
 
*        *        *
 
 
 
Og nú allt annað. Efni þessarar myndar hefur leikið við huga minn í gær og í dag. Þetta er altaristaflan í Stórkirkjunni í Stokkhólmi sem við Valgerður heimsóttum í síðustu viku. Ég ætlaði að lesa um altaristöfluna en svo skrýtið sem það nú var, þá tókst mér ekki að sjá hversu gömul hún er. Helst vildi ég að hún væri mörg hundruð ára gömul því að þá gæti ég dáðst að handverki fyrri alda. Ég hef oft gert það í ýmsum kirkjum, en hef ekki getað gert það þarna. Þess eldri sem þessir vönduðu hlutir eru, þess meiri veður aðdáun mín. Með nútíma tækni er þetta svo einfalt, eða svo virðist mér alla vega.
 
Það er gefandi að fylgjast með vorkomunni og það er svo áhugavert að velta fyrir sér hvernig fólk hreinlega gat gert svo fallega og vandaða hluti fyrir mörg hundruð eða jafnvel þúsundum ára.

Nátthrafninn

Núna um áttaleytið að morgni sunnudags gnauðar vestanvindur á vesturveggnum og samkvæmt veðurstofunni er átta stiga hiti. Ekki er það vorlegt en þó skín sólin björt á heiðum himni. Ég sagði vestanvindur, ekki hvassviðri eða neitt slíkt, en veðrið er ekki vorlegra en svo að skógarsóleyjarnar virðast hafa dregið saman hvítu blómin sín og halda sig til hlés ef hægt er að segja svo um blóm.
 
Það er skrýtið þetta með veðrið. Það er talað um hlýnandi veðurfar en svo virðist kuldatíð ráða á Norðurhveli. Og þó, það hefur líka verið talað um að hlýnandi veðri fylgi vaxandi veðurfarslegar öfgar. Samkvæmt skilningi Svía á veðurfari var síðasta sumar rigningasamt, sólarlítið og kalt. En samkvæmt mínum verursmekk var síðasta sumar gott fyrir gróðurinn bakvið húsið og hitastigið var oftast gott fyrir mig. Ég er heldur ekki viss um að við Valdís hefðum verið svo oft úti við ef hitinn hefði löngum stundum verið við þrjátíu stig.
 
Ég veit ekki hvers vegna ég er að setja á blað þessi orð mín um verðið. Og þó. Ég sakna þess að geta ekki þessa dagana gengið inn í skóginn og tekið grein á beykitré í hönd mér og horft á krulluð, glansandi, ungu blöðin í lófa mér. Sleppa svo greininni og ganga að næste beykitré og gera hið sama þar. Það er að lifa lífinu á einfaldan og mannbætandi hátt. Ég sakna þess líka að bláberjalyngið skuli ekki vera grænt. Þess í stað er það brúnt og það er vegna þess að eftir góð snjóalög sem skýldu jarðargróðri í vetur, þá hvarf snjórinn og frost kom aftur á auða jörð. Það verður lítið eða ekkert um bláber í suður Svíþjóð á þessu sumri.
 
Í gær kallaði ég hafragrautinn hafragrautarlellu. Ég ætti að biðja hann fyrirgefningar á þessu orðbragði þar sem hafragrauturinn hefur verið mér góður um áraraðir. Ég gæti skrifað langt blogg um hafragraut. Kannski hef ég gert það. Bloggin mín eru orðin 934 á undan þessu sem ég skrifa núna og ekki man ég allt sem stendur þar. Það er þess vegna sem þau eru mér heil mikils virði. En hvað sem því líður er klukkan farin að halla í tíu að morgni og ég ætla nú að elda hafragraut með rúsínum og abríkósum. Ég á ekki rjóma út á hann að þessu sinni enda þarf ekki alltaf allt að vera til. Síðan ætla ég að horfa á sjónvarpsmessuna.
 
 
 *      *      *
 
Það er komið kvöld á Sólvöllum og mikil kyrrð. Stakt dádýr er á beit neðarlega á gamla túninu vestan við húsið og fashaninn sem sjaldan stoppar rekur stöku sinnum upp skræki. Ég veit ekki hvað það þýðir, hvort það tilheyrir leitinni að lífsförunaut. Messan sem ég talaði um í morgun var ótrúlega góð. Það var endursýnd messa frá því í fyrra og temað í messunni var Johnny Cash. Ég mundi vel eftir þessari messu og núna, alveg eins og í fyrra, varð ég hissa á því hversu trúaður maður hann var. Ég hef sáralítið skilið af textum hans hingað til, en þegar hægt var að lesa þá á sænsku á skjánum í morgun skildi ég tilfinningaþrungið, trúarlegt innihaldið. Hann átti ekki sjö dagana sæla en ekki var þó biturðinni fyrir að fara. Kannski hefur hann verið búinn að biðja æðruleysisbænina oft eins og sumir. Hún svíkur ekki.
 
Vestanvindurinn sem gnauðaði í morgun er þagnaður. Trén eru samt á hreyfingu ennþá. Gott ef það er ekki af gömlum vana. Veðurfræðingurinn spáði um tuttugu stiga hita í næstu viku og jafnvel upp í tuttugu og fimm á stöku stað. Þá fara nú kraftaverk náttúrunnar að leystast úr læðingi og kannski ég fái að taka litlu, krulluðu beykiblöðin í lófa mér í næstu viku. Ef svo fer mun ég ekki geta þagað yfir því.
 
Nú er mál að fara í bólið. Ég hef orðið að hálfgerðum nátthrafni upp á síðkastið. Það er að segja að ég kem mér varla í bólið fyrr en um miðnætti. Það er of seint fyrir kall eins og mig og ég á að hafa meiri sjálfaga en svo að ég sé að þvælast um seint á kvöldin. Ég finn á mér að í fyrramálið verður fallegt að sjá sólaruppkomuna þegar fyrstu geislarnir leita sér leiðar gegnum barrþykknið í austri.
 
Ps. Ég setti lika epli í hafragrautinn í morgun  -bara svo að allt sé á hreinu um mataræði mitt.

Einbúi að troða nýjar slóðir.

Eitthvað var ég búinn að vera á rölti í morgun þegar Valgerður kom fram um klukkan hálf átta að ég held. Hún gekk beint að eldavélinni og setti bakarofninn á. Ég hafði ekki hugmynd um hvað hún hafði í huga og fékkst ekki meira um það. Nokkru seinna varð mér ljóst hvað til stóð.
 
 
Árangurinn varð þessi. Beikon og egg í morgunverð. Þessi morgunverður angaði aldeilis öðruvísi en hafragrautarlellan mín. Ég hélt því framhjá hafragrautnum í morgun og naut þessara kræsinga með Valgerði. Beikon og egg borðaði ég í fyrsta skipti í morgunverð í London um páska árið 1960 á heimleið úr misjafnlega skynsamlegri Majorkaferð minni. Beikon og egg hef ég oft borðað um dagana en ég held að ég hafi ekki borðað það í morgunverð öðru sinni fyrr en nú. Valgerður vildi greinilega skilja vel við mig, en ekki svo löngu eftir morgunverðinn lögðum við af stað á járnbrautarstöðina í Hallsberg þar sem hún steig um borð í lest. Hún var að leggja af stað heim eftir þriggja vikna dvöl og ég hafði á tilfinningunni að hún væri ekki alveg laus við áhyggjur af pabba sínum.
 
 
Það var góður tími á lestarstöðinni og ég skaust inn til að taka þessa mynd af henni. Svo flýtti ég mér út til að lokast alls ekki inni. Hefði ég farið af stað með lestinni hefði ég lent einhvers staðar vestur í Värmland og þá hefði það orðið býsna löng gönguferð fyrir mig til baka að bílnum.
 
 
Þegar ég kom út aftur leit ég á lestardyrnar og las þetta. Það kom í mig svolítill ferðafiðringur sem ég sló þó fljótt frá mér. Næsta ferðalag mitt verður til Íslands í byrjun júní. Eftir það get ég kannski hugað að einhverju öðru stuttu ferðalagi, en ég losnaði þó ekki alveg við hugmyndina um að ég ætti að fara í eitthvað stutt ferðalag eftir heimkomuna frá Íslandi. Kannski það verði bara Stokkhólmur þar sem ég get mælt gangstéttar undir feyki stórum trjákrónum og farið í ferjuferðir um skerjagarðinn. Það væri alveg mátulegt fyrir mig. Þar á ég líka góða heim að sækja þar sem Rósa og fjölskylda er.
 
 
Síðan gekk ég aftur með lestinni og þá birtist Valgerður þar og hún dró niður rúðu. Ég hélt áfram að hafa það á tilfinningunni að hún væri ekki alveg laus við áhyggjur af pabba. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þegar ég tók myndina að ég mundi verða með á henni líka með myndavélina fyrir framan nefið.
 
Síðan leið lestin hljóðlega af stað og kveðjustundin á járnbrautarstöðinni var á enda. Ég gekk til baka í átt að bílnum með viðkomu í kaupfélaginu. Sjálfur hafði ég ekki áhyggjur af framtíð minni í þess orðs merkingu. Hins vegar á ég eftir að að laga mig að nýjum lifnaðarháttum sem einbúi þar sem ég verð að gæta þess að einangrast ekki. Treginn, sorgin og söknuðurinn munu fylgja mér langt inn í framtíðina og að einhverju leyti til frambúðar. Slæða sorgarinnar mun verða miskunnsöm og breiða sig yfir sársaukann, en eins og ég hef sagt áður; þá gliðnar hún við ýmis tækifæri, sleppir út tilfinningunni, en leggst síðan af mildi sinni yfir sársaukann aftur.
 
Ég á margt ólært í minni nýju stöðu í lífinu, ekki bara varðandi matargerð, þvotta og þrif. Þvottar og þrif eru mér ekki framandi en matargerðarkunnátta mín er meira á frumstigi en mun halda í mér lífi samt. Það sem ég á ólært fjallar meira um að vera sjálfum mér nógur á hugarfarslega og andlega sviðinu. Að hugleiða liðnar stundir og sjá verðmætin í svo mörgu sem við Valdís áttum saman lífinu, að læra af svo mörgu sem ég er að átta mig á í fari hennar en ég skildi ekki þá en er að sjá í dag að hafði þýðingu. Þetta þarf ég að læra og margt annað. Ég tala oft um að verða fullorðinn og það er nákvæmlega það sem ég mun stefna að svo lengi sem ég held sönsum. Ég verð aldrei fullorðinn í þeirri merkingu sem ég legg í orðið en það er samt sem áður markmiðið sem ég stefni að.
 
 
Ég get ekki látið hjá líða að birta mynd sem ég fann á feisbókinni hjá honum Jónatan tengdasyni mínum.
 
Þessi mynd er tekin á góðum degi utan við Falun í Dölunum sumarið 1996. Þarna er Kristinn dóttursonur, þá Valdís, síðan Valgerður og Jónatan. Ég sé myndina í mikið öðru ljósi í dag en ég gerði fyrir meira en þremur vikum síðan. Þannig er það bara.

Stokkhólmur er góður heim að sækja

Stokkhólmsferðir eru jafnan góðar og ferðin þangað í vikunni var engin undantekning frá því. Við Valgerður komum heim þaðan um það sem kalla mætti kvöldmatarleytið í gær. Ég ætlaði að setja saman nokkur orð um það í gær en úthald mitt brást og Óli lokbrá vann öruggan sigur yfir mér. Áður en mér tókst að komast í bólið var ég farinn að dotta þar sem ég skoðaði myndirnar á tölvuskjánum. Ég lét undan og þótti skynsamlegra að leggja mig í stað þess að velta sofandi út úr stólnum. Ég hefði getað fengið kúlu á höfuðið af einhverjum hörðum hlut en koddinn minn tekur alltaf vel á móti mér. Hann gerði það líka í gær. Nú er ég að komast í gang um átta leytið á föstudagsmorgni.
 
Hér eru nokkrar myndir frá Stokkhólmsferðinni.
 
Á leið út í eyjuna Djurgården með ferju í frekar svölu vorveðri en fallegu. Hannes Guðjón er mikill mömmustrákur og vildi bara hjúfra sig að henni og láta sem hann sæi ekki afa með myndavélina. Rósa mamma hans bendir honum hins vegar árangurslaust á að horfa á mig. Valgerður móðursystir er í bakgrunninum og okkur ókunnugt par ennþá lengra í bakgrunninum.
 
 
Úti á Djurgården, á Skansinum, er margt hægt að taka sér fyrir hendur. Meðal annars að aka bíl. Hann nafni minn tók hlutverkið mjög alvarlega og stýrði ábyrgðarfullur en svona bílferðir taka bara allt of fljótt enda. Hann fékk að fara aftur og svo vildi hann fara enn aftur. Þá var gerður við hann samningur; ein ferð enn og svo búið. Hann stóð við samninginn.
 
 
Í gær fórum við Valgerður í Gamla Stan. Við heimsóttum meðal annars fallega kirkju, mjög fallega. Hvort Guði var það þóknanlegast af öllu að menn legðu svo mikil verðmæti og vinnu í þessa kirkjubyggingu í stað þess að hlú að fólki sem var í nauð, ætla ég ekki að dæma um. En það verður ekki hjá því komist að þessar kirkjur skilja eitthvað eftir hjá manni eftir svona heimsókn. Það var byrjað á þessari kirkju á þrettándu öld og svo var hún að fá á sig mikið af núverandi svip á næstu 550 árunum. Hér er mynd af Valgerði í Dómkirkjunni í Gamla Stan.
 
 
Þau eru býsna þröng sum húsasundin í Gamla Stan.
 
 
Við Valgerður heimsóttum Rósu í vinnuna á Karolinska sjúkrahúsinu i Huddinge. Þær systur sýna þarna glatt yfirbragð en alvaran er samt ekki langt undan á þessari stundu. Hún Uhsa, indverskættuð kona og vinkona þeirra systra og nánast mín líka, lá þá á stofu ekki svo langt undan. Í gær fékk hún tilkynningu um að hún væri með krabbamein. Við hittum Uhsa en hún lét ekki deigan síga og talaði um að koma með Rósu í heimsókn á Sólvelli fljótlega.
 
Þetta sjúkrahús er svo stórt að það er eins og það sé sama hvar maður er þar staddur í gangi, þá er alltaf gríðarlega langt í enda ganganna. Margir svona gangar eru á hverri hæð og í lyftunni eru sýndar sjö eða átta hæðir. Starfsfólkið er sjö þúsund manns.
 
 
Þokkalega tímanlega í gærmorgun gengum við Valgerður undir þessa pílviði og þá voru þeir sannarlega líflausir. Þegar við gengum undir þá á leiðinni til baka þremur tímum síðar voru þeir sannarlega ekki aldeilis líflausir. Hreint ótrúlegt en svona bara var það.
 
Ég held að ég mundi ekki vilja eiga heima í Stokkhólmi en hann er góður heim að sækja. Ég þarf að taka margar svona gönguferðir þar og kynnast staðnum betur. Ellilífeyrisþegi ætti að geta látið það eftir sér.

Að kvöldi skal dag lofa

Í gærmorgun lýsti ég veðrinu næstum þunglyndislega. Í gærkvöld var annar gáll á mér þó að ég hafi ekki gefið neina lýsingu á því fyrr en núna. Veðrið varð nefnilega mjög gott síðdegis þótt það væri ekkert sérstakt vorveður. Í gærmorgun sveifluðust hæstu trén svo mikið að ég er nokkuð viss um að ég hefði orðið mikið sjóveikur ef ég hefði verið þar uppi. Í gærkvöldi var svo mikil kyrrð þar að hreyfingin var varla merkjanleg. Sólin settist mun norðar á Kilsbergen en hún gerði fyrir minna en viku. Sólsertrið í gærkvöldi var mikil listasýning sköpunarverksins án allra afskipta mannanna. Það fór nú best á því. Sem sagt; að kvöldi skal dag lofa.
 
Nú er klukkan hálf sjö að morgni þess fyrsta maí og ég er búinn að draga frá austurglugganum. Það er ótrúlegt að svo mörg tré sem eru yfir tuttugu metrar á hæð skuli geta staðið svo grafkyrr sem þau gera. Ég er búinn að horfa á marga toppa og miða þá við eitthvað í glugganum og það er ekki hægt að merkja hina minnstu hreyfingu. Ekki hina minnstu. Sólin styrkist frá mínútu til mínútu þar sem hún er að fikra sig gegnum trjá og greinaverk í austri. Kyrrðin er algjör utan fuglasöng með löngum hléum og hin sérstöku ástarhljóð spætunnar. Svo heyri ég líka öðru hvoru önnur hljóð frá spætunni, en það eru hljóðin sem heyrast þegar hún heggur sig inn í tré. Annars er allt kyrrt.
 
Bráðlega höldum við af stað til Stokkhólms, ég og Valgerður. Í öll fyrri skipti var Valdís ferðafélagi minn en nú heyrir hún kyrrðinni til. Hljóð baráttunnar í rúminu við hlið mér hafa þagnað og friðurinn hefur tekið Valdísi að sér. Um leið og ég segi þetta minnist ég fyrstu ferðar okkar frá Örebro til Stokkhólms í mars 1997. Það var ferð góðra minninga fyrir okkur bæði og sem betur fer á ég hana skrifaða, skrifaði hana niður þegar á því sama ári. Sú ferð er einhver sú besta sem við höfum farið um dagana.
 
Þessi byrjun á degi lofar góðu þó að ég hafi komið inn á svæði sorgarinnar sem ég þó ætlaði ekki að gera. En það er svona með það að skrifa, að hið óvænta grípur allt í einu frammí og vill vera með. Nú er það gert. Það verður gaman að láta Hannes sýna sér nýja eldhúsið heima hjá mömmu og pabba, eða þá nýjasta legóverkið sitt. Kannski förum við á kaffihús. Það er nefnilega gaman að fara með Hannesi á kaffihús. Foreldrar hans voru farnir að æfa hann í svoleiðis þegar í Uppsala þegar han var ekki einu sinni orðinn ársgamall. Hann er stilltur og prúður á kaffihúsum og vökull er hann þar fyrir umhverfi sínu.
 
Enn hækkar sólin þennan morgun eins og hún hefur gert í miljarða ára og ég fæ að vera með um það. Þó að hitamælirinn hafi verið neðarlega klukkan hálf sjö er hann farinn að hækka og eitthvað innra með mér hvíslar gætilega "vor". Eftir Stokkhólmsferðina síðdegis á morgun taka við verkefni hér heima. Ég kom nokkru skipulagi á huga minn í gær og ég finn að það verður gaman að sinna því sem sinna þarf hér á Sólvöllum. Það er af mörgu að taka og ég minnist orða eldri manns í sjónvarpi í vetur þegar hann sagði að uppi í höfðinu á honum væri líffæri sem þyrfti að halda lifandi og það væri best gert með því að hafa eitthvða fyrir stafni. Hann var á áttræðis aldri og enn í hlutastarfi. Það var hluti af því að halda heilanum í gangi.
 
Mér féll vel við að hlusta á þennan mann. Svo verða kyrru stundirnar á milli þess að sinna verkefnum sínum að verðmætum stundum hugleiðinga og að njóta þeirrar fegurðar sem okkur býðst. Bókin Kyrrð dagsins segir fyrsta maí að "Þumlungur tíma er þumlungur gulls. Varðveittu hann vel. Lærðu að meta hverfulleika hans." Nafn höfundarins er svo flókið að ég finn hann ekki einu sinni á Wikipedia, en ég get hugsað mér kínverskan speking frá því fyrir þúsundum ára eða svo. En alla vega, ég var farinn að gæla við þessi orð þegar í gær. Ég skal taka þau til mín á þessum fagra sólskinsdegi.
RSS 2.0