Margt búið í dag

Ég var búinn að ljúka fjöldanum öllum af smá verkefnum og það var mál að borða. En fyrst vildi ég fara á smá göngu með myndavélina. Ég var mjög hress með það sem ég hafði komið í verk í dag, ýmislegt sem nauðsynlegt var að ljúka fyrir Íslandsferðina.  Ég byrjaði á því að fara með myndavélina út á veg.
 
 
 Ég var beint framan við hús nágrannanna norðan við þegar ég tók þessa mynd. Frúin, Elísabet, reisti sig upp frá matarborðinu úti og spurði hvað ég væri að gera. Hún gekk fram að grjótgarðinum og við spjölluðum saman. Auðvitað vissi hún hvað ég var að gera en svona er hægt að byrja smá spjall yfir lóðarmörkin og svo kemur eitthvað annað á eftir. Tréð sem teygir sig lengst yfir veginn er stóra Sólvallaeikin. Hún er í bullandi vexti þessi eik enda ekki nema rúmlega hundrað ára. Ég er ögn stoltur af henni. Hún er búin að fylgjast með mörgum fara um veginn á þessum árum, en vegurinn hefur legið þarna -ja, kannski öll þessi hundrað ár. Hinu megin við eikina eru bjarkir sem hafa vaxið heil ógrynni þau ár sem við höfum verið á Sólvöllum. Eikin getur farið að verða farartálmi fyrir vörubíla.
 
 
 Svo tók ég þessa mynd af því sem ég horfi á þegar ég sit hér við austurgluggann og skrifa á tölvuna. Ég er harla ánægður með þetta útsýni, en ef mér skyldi finnast skógurinn vera of nálægt er bara að ég snúi mér við og horfi þá móti Kilsabergen sem eru í 15 til 20 kílómetra fjarlægð utan við vesturgluggann. Þarna vinstra megin eru kartöflurnar sem við Rósa settum niður um daginn. Þessa leið með kassana fórum við vegna þess að við höfðum ekki tíma til að fara í almennilegan frágang á kartöflugarði. Það er líka þarna sem gulræturnar hans Hannesar eru. Á þessari mynd sér að meira eða minna leyti í eikur, hlyn, birki, ask, hegg, grátbjörk, álm og eina viðartegund enn sem ég man ekki hvað heitir. Fyrir miðju er rabbarbarabeð.
 
 
 Þessar jarðarberjaplöntur keypti ég í dag og gróðursetti í kerin. Sama gerði ég í fyrra en þau drápust öll í vetur. Hins vegar voru þau búin að skjóta sér út í jarðveginn umhverfis kerin og þeir afleggjarar lifa sunnan við húsið. Þarna hugsa ég mér að hafa þau í svolitlu vari fyrir sólinni þangað til við komum heim frá Íslandi og hægt verður að vökva þau eftir þörfum. Þetta lítur kannski lítilfjölrlega út, en yfir lengri tíma i fyrra gat Hannes fengið sér eitt og annað jarðarber af plöntunum sem voru í þessum kerjum. Plönturnar bera ber á misjöfnum tíma.
 
 
 Þetta er ekkert sem ég get þakkað mér fyrir. Þetta er framtak þeirra sem hafa dvalið á Sólvöllum í vor, en þó mest er það Rósu framtak. En þau höfðu bæði gaman af að sinna þessu líka Valgerður og Pétur. Ýmsu var reynt að sá inni en það skilaði ekki nógu góðum árangri, en það skilaði hins vegar reynslu sem mun nýtast að ári. Prikin þarna líta kannski einkennilega út, en þegar baunagrösin eru búin að vefja sig uppeftir þeim lítur það mjög vel út, eiginleg girnilega. Svo er bara að fara þarna út um mitt sumar og sækja eitt og annað til að hafa með matnum.
 
 
 Þetta unga eplatré lofar góðu bara ef það er nóg af flugum til að hænast að blómunum.
 
 
 Þetta eru kryddtröppurnar hennar Rósu. Þrír pottar bættust við í dag. Það var fyrst í dag sem ég kom því í verk að gróðursetja í potta kryddjurtir sem Valgerður skildi eftir innanhúss þegar hún fór heim fyrir þremur vikum. Svona er ég nú fljótur að koma sumu í verk. :) Heitir blómið ekki fúsía sem er á múrsteininum lengst til vinstri? Út í þessa stiga verður líka hægt að sækja sér eitt og annað til að bragðbæta matinn og reyndar er það hægt nú þegar. Ég er bara svo mikill skussi þegar kemur að því að krydda mat, en fleiri verða á Sólvöllum í sumar en ég.
 
 
 Valdís bað um rósir í fyrra. Hafði reyndar beðið um þær árið þar á undan líka. En alla vega, í fyrra komu þær og blómstruðu strax á fyrsta ári. En -í vetur eða vor drápust rósirnar. Í dag keypti ég tvær nýjar. Hann Ingimar garðyrkjumaður sagði í dag að það væri búið að kaupa hundraðtals rósir hjá honum í vor vegna þess að það hefði drepist svo mikið af þeim í ár. Svo sagði hann mér að hafa einn meter á milli þeirra, en ég hafði haft hálfan meter á milli þeirra í fyrra. Nú þurfti ég að grafa meira til að fá pláss fyrir þær og þilið að baki þeim verð ég líka að gera upp á nýtt seinna í sumar. Í miðjunni er önnur rósin frá í fyrra. Ég ætla að gefa henni möguleika. Svo er þarna líka dýragarðurinn hennar Valdísar. Að hugsa sér þessa friðsæld. Þarna þrífast saman önd, örn, dádýr og bjarndýrsfjölskylda.
 
Jæja. Niðurstaðan eftir þenna dag, þessa myndatöku og þetta blogg er að það er hægt að vera í fullu starfi hér á Sólvöllum við að annast matjurtarækt, berjarækt, lóðahirðingu, að hirða skóg, að halda þrifalegu í kringum sig og svo þegar haustar að tína ber, sulta, safta og bara allt mögulegt. Er þetta ekki stórkostlegt fyrir ellilífeyrisþega. Ég get vel fundið hið gangstæða út úr hlutunum í dag en ég vel að sjá lífið og möguleikana. Það sem ég hef hér í kringum mig núna og það sem er að klæðast í kvöldrökkur á þessari stundu, það er með ólíkindum ótrúlegt miðað við þær áhyggjur sem sköpuðust þegar ég varð atvinnulaus upp í Svartnesi árið 1995. En sólin hélt áfram að koma upp á hverjum morgni eftir sem áður og svo var bara að verða þátttakandi í lífshjólinu og leggja merki til sólaruppkomunnar. Sama er uppi á teningnum einnig nú.
 
 


Kommentarer
Auja

Guðjón minn við og grannarnir reynum að gera okkar besta með gróðurinn meðan þú ert í burtu, heyrumst

Svar: Þið eruð alveg frábær að vilja gera þetta. það er svo fullt af skógarálfum. Skógarálfar eru nefnilega góðir í sér.
Gudjon

2013-05-28 @ 23:00:39
Björkin.

Gott að eiga góða vini mágur minn.

2013-05-29 @ 01:29:35
Ásrún Ýr

Að sjá þessar myndir hjá þér Guðjón kyndir ansi mikið undir löngun minni að flytja til Svíþjóðar! Við komum í heimsókn þangað í ágúst og hlakkar öllum mikið til.

Svar: Ég verð væntanlega heima í ágúst, bara svo að þið vitið og það finnst pláss.
Gudjon

2013-05-29 @ 10:00:00


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0