Mikill morgunmatur

Hér er aðeins upprifjun frá í sumar þegar barnabörnin voru í heimsókn. Við vorum á einhverju ferðalagi gegnum akurlönd með þær Guðdísi og Erlu og sögðum þeim frá því að tvö síðustu ár hefðu bændurnir sett upp skilti á akrana sem á stóð "Hér vex morgunverðurinn þinn" ásamt ýmsum fleiri textum á ólíkum skiltum. Þeim þótti þetta sniðugt og eftir þetta sögðu þær oft þegar við vorum á ferðinni að hér yxi mikill morgunverður. Sólvellir eru í það sem kallað er Krekklingesókn. Þar er líka nokkuð sem kallað er Krekklingedalurinn og Sólvellir standa á austurbrún Krekklingedalsins. Að vísu mundi þessi dalur varla kallast dalur á Íslandi. En alla vega; Sólvellir standa það hátt að þaðan er æði víðáttumikið útsýni til vestlægra átta. Krekklingedalurinn gengur stundum undir nafninu matarkistan þar sem þar er ræktað mikið korn og þar er einnig mikill kúabúskapur. Það kemur haframjöl í afar marga hafragrauta úr Krekklingedalnum og það voru þær systur líka alveg vissar um og léku sér stundum að tölum í því sambandi. Þessi akurlönd gera héraðið afar falleg ásamt skógum og myndarlegum bændabýlum, sérstaklega frá tímanum frá því akrarnir verða grænir og fram undir uppskerutímann. Hér fylgir mund af vel stórum akri sem gefur hráefni í afar marga morgunverði. Ef þið lesið þetta Guðdís og Erla, viljið þið reyna að reikna út morgunverðina, alla þá hafragrauta og brauðhleifa sem koma af þessum akri? Þessi akur tilheyrir honum Mikka bónda og nágranna okkar á Suðurbæ, að minnsta kosti að stórum hluta.
Mikill, morgunmatur
Í dag, fimmtudaginn 20. september er búið að rigna all mikið og nú er búið að hirða kornið af flestum ef ekki öllum ökrum. Og það er búið að plægja þá marga og líka sá í nokkurn hluta þeirra. Þeir nýsánu verða því brátt grænir á ný og koma væntanlega að halda græna litnum í allan vetur.

Mikill, mikill morgunmatur

Þegar ég fór til að taka myndir af stórum ökrum var hann Patrik að vinna á stóru kornskurðarvélinni. Ég tók nokkrar myndir af honum og þegar hann var búinn að losa á vagninn kom hann hlauðandi til mín og hélt þá að ég væri blaðamaður. Patrik er ungur maður sem oft gengur fram hjá Sólvöllum og stoppar stundum til að spjalla. Hann var búinn að fara einn hring á nokkurra hektara stórum akri og sagðist vera með 6 til 7 tonn af korni eftir hringinn sem hann svo dældi á vagninn á stuttum tíma.
Mikill, mikill morgunmatur

Ég má til með að senda kveðju

Ég er einn heima og finn þörf fyrir að senda kveðju til ykkar sem kannski lesið þessar línur. Valdís er á kóræfingu. Það er önnur æfing haustsins. Strax eftir klukkan níu þegar hún kemur heim förum við til Sólvalla. Þaðan fer ég svo í vinnu á morgun en Valdís ætlar að undirbúa það sem ég kalla mót norrænna kvenna. Ég held að þær verði sex sem hittast þar og þó að Valdísi hefði þótt einfaldast að hitta þær hér heima vilja þær hittast á Sólvöllum. Þetta eru konur sem voru á námskeiði fyrir fáeinum árum og ári eftir námskeiðið bauð Valdís þeim að hittast hér heima. Síðan hafa þær hittst reglulega hver hjá annarri og er þetta í annað skiptið á Sólvöllum á þessu sumri. Kannski er ég búinn að segja eitthvað af þessu áður en sé svo; þá ekkert meira með það.

Á þessu sumri sagði ég. Það er búið að vera kuldakast með niður i 14 til 15 stiga hita á daginn en stundum allt niður að frostmarki á nóttunni. Nú er spáð um 20 stiga á ný um helgina. Eftir vinnuna á morgun verður smíðavinna næstu daga að vanda. Á sunnudag erum við búin að ákveða að taka frí. Þá förum við í kirkju og á eftir messu förum við í 70 ára afmæli gamla prestsins okkar. Hann ætlar að halda veislu í skemmtilegu húsi í kyrrlátri sveit um 50 km norðvestan við Örebro og leiðin þangað liggur í gegnum einhver fallegustu svæði í Örebrosýslu. Til gamans get ég sagt að þetta hús heitir Skrekarhyttan. Hytta er staður þar sem menn bræddu málma fyrr á öldum.

Og hvað haldið þið svo að hafi skeð um helgina. Helst mundi ég vilja skrifa það með smáu letri. Við vorum bæði með magapest af þeirri sort sem enginn vill fá en allir fá samt. Smíðar hafa því legið niðri á Sólvöllum síðan um miðjan dag á laugardag, en þá snögglega lögðust allar smíðar niður þar og hamarshöggin hljóðnuðu. Eftir vinnu á morgun eða tímanlega á laugardagsmorgun fer ég í bláu smekkbuxurnar og tek ég mér hamarinn í hönd á ný eftir viku fjarveru. Það byrtir yfir í náttmyrkrinu utan við gluggann þegar ég skrifa þetta.

Nú nálgast heimkoma Valdísar og ég þarf að bera farangur út í okkar hafsbláa etanolbíl sem er svo hár og góður að setjast inn í að það er alltaf gaman að leggja af stað. Kveðja til ykkar allra og án efa heilsar Valdís líka.

GB
RSS 2.0