Ég má til með að senda kveðju

Ég er einn heima og finn þörf fyrir að senda kveðju til ykkar sem kannski lesið þessar línur. Valdís er á kóræfingu. Það er önnur æfing haustsins. Strax eftir klukkan níu þegar hún kemur heim förum við til Sólvalla. Þaðan fer ég svo í vinnu á morgun en Valdís ætlar að undirbúa það sem ég kalla mót norrænna kvenna. Ég held að þær verði sex sem hittast þar og þó að Valdísi hefði þótt einfaldast að hitta þær hér heima vilja þær hittast á Sólvöllum. Þetta eru konur sem voru á námskeiði fyrir fáeinum árum og ári eftir námskeiðið bauð Valdís þeim að hittast hér heima. Síðan hafa þær hittst reglulega hver hjá annarri og er þetta í annað skiptið á Sólvöllum á þessu sumri. Kannski er ég búinn að segja eitthvað af þessu áður en sé svo; þá ekkert meira með það.

Á þessu sumri sagði ég. Það er búið að vera kuldakast með niður i 14 til 15 stiga hita á daginn en stundum allt niður að frostmarki á nóttunni. Nú er spáð um 20 stiga á ný um helgina. Eftir vinnuna á morgun verður smíðavinna næstu daga að vanda. Á sunnudag erum við búin að ákveða að taka frí. Þá förum við í kirkju og á eftir messu förum við í 70 ára afmæli gamla prestsins okkar. Hann ætlar að halda veislu í skemmtilegu húsi í kyrrlátri sveit um 50 km norðvestan við Örebro og leiðin þangað liggur í gegnum einhver fallegustu svæði í Örebrosýslu. Til gamans get ég sagt að þetta hús heitir Skrekarhyttan. Hytta er staður þar sem menn bræddu málma fyrr á öldum.

Og hvað haldið þið svo að hafi skeð um helgina. Helst mundi ég vilja skrifa það með smáu letri. Við vorum bæði með magapest af þeirri sort sem enginn vill fá en allir fá samt. Smíðar hafa því legið niðri á Sólvöllum síðan um miðjan dag á laugardag, en þá snögglega lögðust allar smíðar niður þar og hamarshöggin hljóðnuðu. Eftir vinnu á morgun eða tímanlega á laugardagsmorgun fer ég í bláu smekkbuxurnar og tek ég mér hamarinn í hönd á ný eftir viku fjarveru. Það byrtir yfir í náttmyrkrinu utan við gluggann þegar ég skrifa þetta.

Nú nálgast heimkoma Valdísar og ég þarf að bera farangur út í okkar hafsbláa etanolbíl sem er svo hár og góður að setjast inn í að það er alltaf gaman að leggja af stað. Kveðja til ykkar allra og án efa heilsar Valdís líka.

GB


Kommentarer
Anonym

Gaman að heyra í þér! Kveðja frá Stokkhólmi. R

2007-09-07 @ 10:04:31
Valgerður

Smíðavinna að hefjast hér aftur eftir rok og rigningu undanfarna daga.
Kv til ykkar
Valgerður

2007-09-14 @ 18:24:14


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0