Af hverju að blogga?

Mér datt þetta bara allt í einu í hug, af hverju að blogga? Það var alls ekki á dagskránni þegar ég opnaði bloggið en þegar ég ætlaði að skrifa fyrirsögn skaut spurningunni upp í huga mér. Upphaflega gerði ég þetta til að þeir sem vildu vita af okkur Valdísi gætu kíkt á bloggið en seinna varð þetta líka dægradvöl. Alls ekki dægrastytting því að mér nægja ekki dagarnir til að gera það sem mig langar að gera.

Ég byrjaði daginn á því að sleppa tíkinni Sölku út út búrinu. Ég held að henni hafi verið orðið mál. Hún byrjaði með að flaðra upp um mig í kæti og þegar hún dró loppurnar niður eftir berum fótleggjunum á mér skildu klærnar eftir hvítar rendur á húðinni. Síðan sleppti ég henni út á lóðina til að viðra sig. Ég forðaðist svo að taka eftir því hvort hún gerði eitthvað óleyfilegt eftir að hún kom út og kannski voru líka húsráðendur búnir að fara með hana á þarfagöngu. Þegar svo Valdís sleppti henni inn rétt í þessu kom hún hlaupandi til mín, stakk hausnum upp á milli læranna á mér og vildi þrálát komast upp á lyklaborðið. Þá bauð ég henni að fara inn í búrið aftur og það var eins og hún skildi það og hún lagði niður lyklaborðskröfuna.

Einhvers staðar minntist ég á Eldfell í gær, á bloggi eða feisbókinni. Í fyrsta sinn sem ég kom til Eyja í janúar 1991 lét ég mér nægja að horfa á Eldfell (fer ekki út í þann sljóleika minn nánar). Síðan hefur það verið regla að fara minnst einu sinni á Eldfell á ferðum mínum til Eyja og í hverri ferð hef ég setst á vikurþekjuna þarna uppi. Þegar ég kom þar upp í fyrstu ferðinni varð ég fljótlega volgur á rassinum og ég átti varla von á því. Þá gróf ég hendina í vikurinn og fann hitann samstundis. Síðast kom ég upp 2004 og þá var þetta minna áberandi en daufir gufuflákarnir liðu þó upp eftir hlíðunum. Eftir fyrstu ferðina var ég svo hugfanginn að ég skrifaði í sæluvímu ferðalýsingu og sendi sænskum vini mínum og vinnufélaga. Ég held næstum að hann hafi verið öfundsjúkur yfir að ekki hafa verið með í för. Stuttu síðar sýndi ég sænskri konu bréfið, konu sem hefur mjög oft verið á Íslandi og kann  íslensku það mikið að það er betra að segja ekki hvað sem er í návist hennar. Ég sá á henni að hún renndi augum hvað eftir annað yfir hluta bréfsins og síðan spurði hún hvort hún mætti fara með það heim og senda leiðrétt il baka. Ég var dauðfeginn að hún vildi gera þetta en svo sagði hún: Maður sem skrifar svona á að skrifa bók.

Eftir eina af Eldfellsferðum mínum skammaðist ég mín. Þá spurði Valgerður dóttir mín hvort dæturnar tvær, barnabörnin mín, mættu ekki koma með. Það kom á mig og svo sagði ég nei. Ég var löngu búinn að ákveða að eiga kyrra stund þarna uppi og láta hugann reika. Toppurinn á Eldfelli er kjörinn staður fyrir svoleiðis. Svo fór ég á Eldfell og tókst að hugsa ekki um þessa neitun mína og var í tíma þar uppi. Ég horfði yfir Vestmannaeyjabæ, upp til Heklu, austur til Eyjafjallajökuls, til jökla sem ég ekki þekkti, upp til íslenska hálendisins sem hafði gefið hugmyndaflug til svo margra sagna, þjóðsagna og útilegumannaævintýra í ellefu hundruð ár. Ég horfði einnig niður til hraunsins kringum Eldfell og fann svo vel að ég sat á einstökum stað. Ég sat á fjalli sem hafði orðið til í manna minnum fyrir flesta íslendinga og sama með hraunið þar í kring. Því næst allt land á þessari jörð er hundruð þúsunda, miljóna eða hundruð miljóna ára gamalt. Ég horfði niður til hússins þar sem dóttir mín bjó með sjölskyldu sinni. Ef ekki svona staður gefur tilefni og aðstæður til andlegra hugleiðinga, þá veit ég ekki hvar sá staður finnst. Svo þegar ég kom niður fann ég fyrir skömmini yfir að hafa ekki tekið barnabörnin með. Samt fannst mér sem ég hefði gert eitthvað sem fólk, og þar með talinn ég sjálfur, gerir of sjaldan.

Þegar ég við góð tækifæri segi svíum frá svona löguðu verða þeir sérkennilegir, kannski næstum vandræðalegir. Þeir mundu svo gjarnan vilja vera með í einni svona ferð.

Ég ætlaði að skrifa meira um Eldfell og lífið þar uppi en það sem ég skrifaði núna varð öðru vísi en ég hugsaði í fyrstu. Klukkan er orðin tíu og Valdís spyr hvort ég ætli ekki að borða morgunverð. Jú, það er best að ég renni mér í buxurnar og borði morgunverð. Þessi dagur hefur byrjað vel.

Hundvarsla

Það rignir með köflum í Eyjum og stundum mígrignir. Við höldum okkur því mest innan dyra og með okkur er tíkin Salka. Salka er ung og lífleg og við áttum okkur ekki almennilega á því að ef það kemur smá gætt á dyrnar er Salka horfin þar út. Þetta er hún búin að leika tvisvar í dag og hlæjandi virðist hún trítla burt á vit nýrra ævintýra. Sem líkamlega áreynslu hef ég í fyrsta lagi stundað smíðar marga síðustu mánuðina. Nú er ég búinn að átta mig á því að það nægir mér ekki. Þegar ég hef drattast upp brekkuna hér framundan húsinu í dag í rigningarhraglanda með Sölku í taumi eftir að náðst hefur að véla hana aftur í manna hendur, þá hef ég blásið eins og hvalur. Það er af sem áður var þegar skaftfellingurinn fótfrái blés ekki úr nös við að skokka eftir fjallafé í Kálfafellsheiðinni fyrir 50 árum og þaðan af meira. Mér ber að taka stafina í hönd þegar ég kem heim úr þessu ferðalagi og byrja á ný gönguferðir í sænsku skógunum. En eitt er sannað; við Valdís erum hundlélegir hundahirðar.

Í Eyjum

Það blés í Eyjum í mogun, vit ekki hvað Eyjamenn kalla það, kannski golukalda, en alla vega þegar ég leit í spegilinn var ég býsna hrukkóttur og ófrýnilegur. Það var alls ekki eins og ég væri vel úthvíldur eftir þessu útliti að dæma en það var ég nú samt. Við komum hingað í gærkvöldi með Herjólfi og með Renó Clío að láni sem systir Valdísar og mágur eiga. Það er í fyrsta skipti sem við komum með bíl með okkur til Eyja.

Valdís er hér frammi og sýslar við eitt og annað en ég er sestur í stól og sýslar bara við að blogga. Tíkin Salka tríttlar á milli okkar og er forvitin. Hún virðist vera glöð yfir að hafa einhvern heima við en er líka svolítið gætin í könnunum sínum á þessu ókunna fólki. Þó virðist hún treysta okkur fullkomlega.

Ég fann á mér í morgun að það væri eitt og annað sem ég vildi skrifa um og ég var því hinn brattasti þegar ég settist við tölvuna. Svo þegar ég var búinn að skrifa fyrirsögninga var andinn víðs fjarri og höfuðið tómt. Hvað geri ég þá? Jú, það er einfalt, bara láta þetta nægja og segja bless. En þó! Skaftfellingar gefast ekki upp bara svona eins og dauðyfli.

Það er enginn gluggi beint fyrir framan mig, en ef svo væri sæi ég til Eldfells í svo sem hálfs kílómeters fjarlægð. Í öll skipti sem ég hef komið til Eyja hef ég gengið á Eldfell fyrir utan fyrsta skiptið, en það var 1991. Ferðir mínar þar upp eru því orðnar nokkuð margar. Ég hef verið þar upp í vindi, logni og sólskini með útsýni vítt og breitt um Suðurland og ég hef verið þar uppi svo mikilli þoku að ég sá bara niður í miðjar hlíðar frá toppnum. Sú ferð var býsna skemmtileg og gaf tilfinningu fyrir þjóðsögum og landvættum. Franski leiðsögumaðurinn sem ég hitti þar í glampandi sólskini með hópinn sinn spurði á mjög góðri íslensku hvort ég væri fjallavörður og svo hló hann við. Nú er það spurningin hvort ég fer á Eldfell líka í þessari heimsókn. Ég útiloka það alls ekki.

Í framhaldi af því vil ég gera grein fyrir læknisferð sem ég sagði frá hér um daginn. Lækninum, henni Gunillu, fannst ég vera ótrúlega hress en ég fékk þó tilvísun á röntgen. Svo fór ég í röntgenmyndatöku á háskólasjúkrahúsi í Örebro. Niðurstöðuna fékk ég svo bréflega frá Gunillu rétt áður en við lögðum af stað í Íslandsferð okkar. Brjóskið í vinstri mjöðminni er mjög mikið eytt og á vissum punktum alveg horfið. Gunilla ætlar því að senda tilvísun á bæklunarlækni. Ég geri flesta hluti sem fólk á mínum aldri gerir og var til dæmis að vinna á þakinu á bústaðnum fyrir ekki löngu. Ég var þar líka skríðandi þar uppi í risi við afar þröngar aðstæður snemma í vetur. En nú fer væntanlega að nálgast að ég fái mjaðmarlið úr stáli og þá fer ég líklega að tjútta og skvetta ærlega úr klaufunum svo ég tali nú ekki um að fara fleiri ferðir á Eldfell.

Valdís er farin að lesa hér frammi heyri ég því að hún flettir bók með jöfnu millibili. Hún sleppðir líka Sölku út og inn öðru hvoru. Sölku líkar nú vel að hafa svona þjónustu og þegar hún vill inn aftur geltir hún gætilega við útihurðina. Ég veit að Valdís vill gera fleira. Hún er nú búin að ganga kringum þvottavélina og hún er búin að velta fyrir sér að hengja út þvott. En hana grunar að þvotturinn vefjist bara utan um snúruna og þá er það kannski ekki svo sniðugt að hengja hann út. Fljótlega setjumst við út í bíl og flengjumst svo út í lífið hér í Eyjum í leit að nýjum ævintýrum. Ég segi oft þegar fólk skrifar sig út frá meðferðarheimilinu Vornesi þar sem ég vinn að það hafi ákveðið að leita nýrra ævintýra. Ævintýrin sem við Valdís leitum eru þó af allt öðrum toga.

Nú er ég hættur að blogga að sinni. Gangi ykkur öllum allt í haginn.

Á Íslandi

Tunglið skartaði beint yfir Snæflellsjökli í gærkvöldi og bæði blöstu við af svölum hér í Garðabænum. Við giskuðum á að þau hefðu samband sín á milli í þessari stöðu, samband sem er mikilvægt fyrir land og þjóð, og svo lögðum við okkur og treystum á að allt færi fram í ró og spekt án þátttöku okkar meðan við dveldum í félagsskap Óla Lokbrár. Það best ég veit gekk það svo fyrir utan að manni nokkrum þóknaðist að skemma aldagamla kertastjaka og steinda glugga í Bessastaðakirkju. Trúlega best að ég fari með hann í ferðatösku þegar við förum heim og leggi hann inn á Vornes til endurhæfingar. Hann hlýtur að geta orðið nýtur maður í framtíðinni með þessaa lífsreynslu að baki.

Í kvöld höldum við til Eyja til að gista við rætur Eldfells. Hér í garðabænum skín sólin glatt og nú þegar ég lít yfir matborðið er morgunverðurinn þegar frammi. Það er greinilega eins og í gær, fimmstjörnu hótels morgunverður og af því verð ég fær í flestan sjó. Ekki slæmt þar sem ég ætla í Tryggingarstofnun á eftir til að athuga með íslenska ellilífeyrinn minn. Einhver bréfaviðskipti hafa verið væntanleg um umsókn mína en ekki orðið af. Nú má gera ráð fyrir að bréf um þetta hafi borist heim til mín í Örebro eftir að ég fór þaðan og því best að ég sýni mig í öllu mínu veldi í þessari virðulegu stofnun.

Nú er best að snúa sér að morgunverðinum. Ég er búinn að líta út um vesturgluggann til Bessastaða og sýnist að kirkjan standi í fullri reisn þrátt fyrir atburði næturinnar, enda í tryggri vörslu forsetahjóna.

Stæðileg grenitré

Ég talaði um það í gær að í dag mundi ég taka mynd af beykilaufum ef þau væru farin að springa úr. Mér varð ekki að ósk minni enda varla von. En í stað þess tók ég mynd af grenitrjám sem við skildum eftir þegar við felldum skóg til að fá efnivið í viðbyggingarnar við bústaðinn. Þessi grenitré voru einhver þau stærstu í skóginum þá og nú hafa þau stækkað töluvert. Þau taka vel við sér þegar grisjað er og sólin nær að senda geisla sína alla leið niður á skógarbotninn. Það var aðeins vestan andvari og eftir trjánum að dæma blés aðeins meira þarna uppi þar sem þau svignuðu merkjanlega undan vindinum.

Það var gaman að taka einn hring í skóginum í dag og það verður gaman að taka þar einn hring þegar við komum til baka eftir fjórar vikur. Staðurinn er kvaddur að sinni og allt á að vera klárt fyrir fjarveru okkar. Svo koma Rósa og Pétur um miðjan maí og lífga við á Sólvöllum með nærveru sinni. Næst þegar ég blogga verður það af íslenskri grund.

Ferðaundirbúningur

Það er glampandi sól, 11 stiga hiti og það er spáð 16 stiga hita í dag. Næstu dagana er spáð 17 til 21 stigs hita. Dagurinn í dag fer í að undirbúa Íslandsferð. Hérna vinstra megin við mig þar sem ég sit eru tvær ferðatöskur á rúmi. Það er ekki ég sem hef raðað niður í þessar töskur. Nei, það hefur Valdís annast. Gerði ég það mundi ég fleygja einhverju niður seinni partinn í dag og svo mundi mjög margt vanta. Það mundi ég svo byrja að uppgötva einhvers staðar yfir Atlnatshafinu.

Í dag verður til dæmis farið yfir bílinn hjá umboðinu og hann gerður klár fyrir næstu mánuðina. Meðan við verðum á Íslandi ætla Rósa og Pétur að geyma bílinn og nota hann til dæmis til að skreppa á Sólvelli. Þau ætla að líta þar eftir, vökva ef það verður mjög heitt og þurrt og svo ætla þau að mála á Sólvöllum. Við förum líka á Sólvelli í dag og ætlum að líta eftir, laga til, kíkja á þrútin brum og nýútsprungin laufblöð. Það væri gaman ef fyrstu beykiblöðin væru farin að kíkja út. Beykiblöð sem eru að líta dagsins ljós eru fallegustu laufblöð sem hægt er að hugsa sér. Ef svo er ætla ég að taka mynd af þeim og birta síðar í dag. Það er að fara í hönd ótrúlegur tími. Fyrstu vorin í Svíþjóð hugsaði ég sem svo að það ætti hver einasta manneskja í jarðríki að fá að uppliifa sænskt vor alla vega einu sinni á ævinni. Ég hélt svo að sænska vorið kæmist upp í vana en það hefur ekki skeð ennþá. Það er alltaf jafn mikið kraftaverk.

Myndin hér fyrir neðan er tekin mitt í vorverkunum í fyrra. Kannski var myndin frekar tekin snemmsumars. Ef ekki verður allt of gott vor náum við því að komast lítilsháttar í svona verk í byrjun júní eftir heimkomuna. Guðný systir ásamt manni og tveimur dætrum kemur í heimsókn í lok maí. Þau mega vænta afar fallegra daga í þessu landi. Tíminn sem þau völdu er nú sá besti.

Íslandsferðin já. Það verður mikið á dagskrá. Ferming í Vestmannaeyjum þann 2. maí. Fermingarbarnið Guðdísi sá ég í fyrsta skipti þegar hún var rúmlega árs gömul. Þá var hún komin heim til okkar í Falun ásamt mömmu sinni þegar ég kom heim frá Vornesi eftir vinnuviku þar. Leiðin heim til Falun frá Vornesi er 240 km og ég velti því mikið fyrir mér á þessari leið hvernig það yrði að hitta barnabarnið. Ég held að henni hafi fundist þessi kall óttalega skrýtinn.

Eftir Vestamnnaeyjar tekur við heil mikil dagskrá. Við þurfum að hitta marga í Reykjavík, ég skrepp austur á bernskustöðvarnar og við skreppum norður í Hrísey. Svo ætlum við skólasystkinin sem útskrifuðumst frá Skógum að hittast þar þann 9. maí. Sá hluti Íslandsferðarinnar verður nú áhrifaríkur. Við verðum öll vel meðvituð um að við hittumst þar vegna þess að það eru 50 ár liðin síðan við útskrifuðumst. Það er að segja; árin hafa liðið þrátt fyrir það að við höfum ekki orðið neitt eldri að ráði.

Nú tekur við annasamur dagur og bloggtíminn þennan morgun er liðinn.


Frá snemmsumarverkum í Sólvallaskóginum í fyrra. Nöktu stofnarnir í baksýn eru arfur af skógi sem ekki var grisjaður. Svo þegar við fórum að grisja komu þessir stofnar í sljós en hvert ár sem líður kemur nýr gróður sem brúar bilið upp að gömlu krónunum. Það er gaman að þessu.

Hengiblóðbeyki

Dagurinn á Sólvöllum byrjaði með því að gróðursetja tré sem heitir því ágæta nafni hengiblóðbeyki. Rósa og Pétur sem hafa búið hafa Sólvöllum síðustu daga fóru heim seinni partinn í gær. Þau komu hingað nokkru fyrir hádegi á leið sinni heim og skálmuðu upp stigann með þetta tré og gáfu mér. Hvað ég varð klökkur. Svo var sem sagt þetta tré gróðursett með gætni og umhyggju í morgun og nú er bara að treysta því að því farnist vel. Ég nefnilega varð þess áskynja seinni partinn í dag að eplatré sem var gróðursett þegar ég varð 65 ára (og þar með sænskur ellilífeyrisþegi) gengur fljótlega á vit feðra sinna. Eitthvað dýr sem ég reikna með að hafi verið dádýr hefur étið af þessu eplatré börkinn á svo sem 60 sm kafla, étið af því börkinn allan hringinn. Það þýðir að tréð getur ekki lifað. Ég þarf að sýna einhverjum nágranna þetta og fá staðfestan grun minn um að þarna hafi verið dádýr á ferðinni. En hvað sem því líður eru dádýr afar falleg dýr og fallegir nágrannar.

Dýralíf

Það var góður dagur hjá okkur í sveitinni í dag. Það voru hlýindi, sól og eftirmiðdagskaffið drukkið úti. Tré voru færð lítið hingað og þangað og það var rakað og gert í stand. Svo var borðuð bæjonesskinka og Valdís lumaði á ís í eftirmat. Síðan skutluðu Rósa og Pétur okkur Valdísi heim þar sem þau ætla að hafa bílinn í nótt. Svo koma þau hingað heim og eftir hádegi fara þau heim til Stokkhólms.

Skömmu eftir að við lögðum af stað frá Sólvöllum þurfti elgskú að komast yfir veginn. Rósa, sem keyrði, varð hennar vör í ljósgeislanum meðan hún var enn utan vegar og þegar hún fór yfir veginn var hún svo sem tíu metra framan við bílinn. Samt var Rósa búin að klossbremsa. Svo skondraði héri yfir veginn og nokkru síðar köttur. Dádýr og annar íkorni voru utan vegar nokkru eftir þetta. Þetta var óvenju lífleg ferð þessa stuttu leið núna í kvöld.

Það er fólk á Sólvöllum

Rósa og Pétur eru á Sólvöllum en við Valdís erum heima og ætlum að fara snemma að sofa til að safna kröftum fyrir morgundaginn. Á morgun á að skrúfa fast krossvið sem ég er fyrir löngu búinn að sníða og tilla lauslega upp á veggi. Svo á jafnhraðan sem búið er að skrúfa krossviðinn að sníða gipsonít plötur og tylla á sínn stað og svo má skrúfa þær líka. Rósa hefur nefnilega ákveðið að skrúfa allt hvað af tekur og þá verðum við Pétur að hafa okkur alla við til að hafa tilbúin verkefnin handa henni. Gipsónítið ætla ég að kaupa í fyrramálið og hver veit nema að það verði mikið af því komið á sinn stað annað kvöld. Mér býr í grun að Valdís muni setja pönnukökupönnuna á eldavélina og ekki verða afköstin verri ef það smýgur pönnukökulykt fyrir húshornin.

Við fórum öll á Sólvelli um fjögur leytið og svo fórum við Valdís heim um níu leytið. Þá var mikið af froskum á vegunum og það var í mörgum tilfellum erfitt að vita hvort þeir sluppu allir undan bílhjólunum. Ekki langar mig að kremja þá undir bílnum en það er sem sagt ekki auðvelt að forðast þá. Það er hætt við að leit margra þeirra að elskunni sinni endi með bílslysi. En að því ég best veit er þessi fjöldi á vegunum vegna þess að ástarlífið er þá í fullu fjöri.

Læknisferð

Ég hef bloggað um löngu liðna óheilsu fyrir einhverjum mánuðum veit ég, en ég ætla að byrja þetta blogg á því að endurtaka þetta gmala blogg. Þetta var um það þegar ég var búinn að vera fyrstu mánuðina í Svíþjóð og var búinn að ganga svo mikið um skógana upp í Dölum að ég var orðinn alveg frá í hnjánum. Svo var ég á leið til Íslands til að sækja Valdísi og búslóðina. Ég gisti þá eina nótt hjá Rósu og Pétri og var þá bæði haltur og aumur og hafði átt erfitt með svefn í margar nætur. Ég var því þreyttur þegar ég kom þangað. Ég fékk að hringja hjá Rósu til sjúkranuddara í Reykjavík sem heitir Kristján Ívar. Kristján er maður sem veit lengra nefi sínu. Komdu sæll Kristján, sagði ég, þegar hann svaraði í símann og gætti þess að kynna mig alls ekki. Hann svaraði án umhugsunar; komdu sæll Guðjón. Þetta byrjaði vel fannst mér þar sem hann þekkti mig alveg á sugnablikinu. Svo bar ég upp erindi mitt og það var ákveðið að ég kæmi til hans svo fljótt sem hægt var eftir komuna til Íslands. Eftir þetta samtal fann ég ekki meira fyrir verknum í hnjánum og um nóttina svaf ég alveg dásamlegum svefni. All nokkuð varð ég undrandi.

Nú undanfarið hef ég stundum bloggað um það að ég sé haltur á köflum og haltur hef ég verið -á köflum. Nú hef ég oft fengið ítrekaðar áskoranir frá fólki sem ekki er sama um heilsu mína, áskoranir um að fara nú í mjaðmaaðgerð þar sem helti mín kemur út frá slitinni mjöðm. Eftir eigið japl og jaml og fuður og skipulagningar á hvenær það mundi henta mér best að fara í þessar aðgerð, sendi ég heimilislækni mínum e-póst. Þar þakkaði ég þessari ágætu konu, Gunillu, fyrir síðustu og einu heimsókn mína til hennar. Hún fór þá almennt yfir heilsu mína, leit sérstaklega á mjöðmina, lét taka mörg blóðpróf og kvaddi mig svo með virktum. Hún komst líka að því að mig vantaði fólinsýru og síðan hef ég tekið inn fólinsýru og það hefur gert mér mikið gott. En eftir að hafa komið þessu þakklæti mínu á framfæri talaði ég um mína slitnu mjöðm og óskaði nú eftir að hún hugaði að aðgerð. Nokkrum dögum síðar fékk ég bréf frá Gunillu og þar fékk ég tíma hjá henni. Það er nú ekki að orðlengja það að mér fór að batna í mjöðminni og í morgun var ég orðinn svo góður að það verkaði fáránleiki að eiga að hitta Gunillu klukkan þrjú í dag til að ræða mjaðmaaðgerð.

Nú er ekki að orðlengja það að klukkan rúmlega þrjú í dag om Gunilla fram á biðstofuna og að venju prýdd sínum góðlátlega svip. (ég hef oftar séð hana en þegar ég fór til hennar í fyrra) Hún kallaði upp nafn mitt og svo gengum við hlið við hlið eftir löngum gangi að stofudyrum hennar. Gunilla er álíka há og ég og gengur rösklega. Ég sá hvernig hún horfði lítillega til hærgi eimitt í þá áttina þar sem ég gekk álíka rösklega við hlið hennar. Mér fannst þetta neyðarlegt þar sem ég gerði mér vel grein fyrir því að ég var algerlega óhaltur. Þegar inn á stofunar kom byrjuðum við á að ræða um mjöðmina. Þar notaði ég orðalagið; þegar ég er haltur. Ert þú einhvern tíma haltur? sagði hún bæði með smá undrun og kankvísi. Það lá við að ég stamaði. Án orðalenginga varð niðurstaðan sú að aðgerð væri ekki á dagskrá ennþá og bæklunarlæknirinn mun nú verða á sama máli, sagði Gunilla. Hins vegar fer ég í röntgenmyndatöku á miðvikudag fyrir hádegi.

Hugsið þið ykkur hvað heilinn þarna upp í höfði mínu hefur mikið með heilsu mína að gera. Nú er það bara spurningin hvort það er heltin eða óheltin sem kemur frá höfðinu.

Vorkoman

Sólin skín frá austri þvert yfir Suðurbæjarskóginn sem er bara fáein hundruð metra hérna sunnan við mig. Yfir skóginn en mun lengra burtu sé ég skýjafar á hraðri austurleið. Hér heima er þó logn og hitinn er sex stig núna klukkan hálf níu að morgni. Þó að ekkert laufverk sé enn farið að sýna sig er skógurinn þó breyttur. Þetta hef ég séð frá fyrstu tíð hér í Svíþjóð, þessa breytingu áður en skógarnir laufgast, og skildi fyrst ekki hvað það snerist um. En það er auðvitað ekkert skrýtið þegar hugsað er til þess að miljarðar brumhnappa eru farnir að lifna við og þrútna að það verði sjáanleg breyting á. Fólk talar mikið um vorið og ef fólk hittist verður bara að segja eitthvað um vorið.

Fyrir nokkrum dögum talaði ég um stóra fugla sem lentu í óvæntu kuldakasti eftir komu sína til Svíþjóðar frá hlýrri löndum. En þessi mikli skari af svönum, trönum og gæsum sem voru snemma á ferðinni voru bara fyrsti dropinn af niklu flóði farfugla. Áður en ég fór í vinnu á laugardagsmorguninn las Valdís í blaðinu að það væru eitthundrað miljón farfuglar á leiðinni til landsins allt frá Suðurafríku. Oj oj, svo mikið, og svo margir komnir áður, og svo margir sem voru um kyrrt allan veturinn. Það er synd að hafa ekki fjölgað fuglahúsum á Sólvöllum en áherslan þar hefur verið lögð á mannahús.

Dýralíf á og við Sólvelli hefur auðgast síðan við komum þangað. Ekki er það okkur að þakka heldur er það árangur af breyttum háttum í landbúnaði. Þó höfum við gert eitt jákvætt, og það er að það eru nokkrar hrúgur af greinum sem við höfum skilið eftir í skóginum við grisjun. Þessar greinahrúgur eru svo sem ekki fallegar en þær auðga lífríkið. Til dæmis eru þessar greinahrúgur eftirsóttar sem bústaðir af broddgöltum sem eru vinsælir nágrannar. Broddgeltir sáust ekki í okkar nágrenni á Sólvöllum en eru nú algengir. En við höfum fengið annan nágranna. sem er ekki eftirsóknarverður. Hann heitir greifingi. Greifinginn étur upp öll egg sem hann kemst yfir. Hann tekur líka vesalings broddgeltina og veltir þeim á hrygg. Síðan étur hann þá. Ég er búinn að tala um þetta við hann Lars nágranna okkar í sveitinni. Þá þurfum við eina gildru hér líka, sagði Lars. Það eru nefnilega tvær gildrur ekki svo langt frá okkur því að það eru fleiri sem hafa orðið varir við greifingja. Þessar gildrur eru nokkurs konar vírnetshús sem lokast þegar greifinginn kemur inn í þau. Svo kemur til þess valinn maður og sér um afganginn.

Nágrannabóndi, Arnold, var í bílskúrnum sínum að bardúsa. Allt í einu sá hann greifingja koma lallandi inn í bílskúrinn. Greifingi bítur harkalega og sagan segir að þegar hann bíti sleppi hann ekki takinu fyrr en hann heyri bein bresta. Þetta skeður mikið sjaldan en þegar hann kemur lallandi inn í bílskúr verður mönnum auðvitað um og ó. Bóndinn lagði til greifingjans með hamri og sló af alefli. En greifingjar eru svínsterkir á skrokkinn og það þurfti mörg högg innan greifinginn féll í valinn. Bóndinn var ögn skjálfhentur eftir atburðinn og einhverjir svitadropar runnu niður andlit hans. Hann hafði samband við manninn sem sér um eftirleikinn þegar greifingjar hafa orðið fastir í búrum. Hann rannsakaði bílskúrinn og nágrenni hans og viti menn. Í sjálfum bílskúrnum fann hann tvo yrðlinga. Það má því fullyrða að greifinginn hefur haft fullan hug á að sigra Arnold bónda til að verja unga sína. En nú er saga þessara greifingja öll og ef einhver skyldi vilja kíkja við á Sólvöllum í sumar get ég lofað því að þar verða engir greifingjar á ferð undir veisluborðunum. Þar mun bara lifa sagan um greifingjana.
RSS 2.0