Í Eyjum

Það blés í Eyjum í mogun, vit ekki hvað Eyjamenn kalla það, kannski golukalda, en alla vega þegar ég leit í spegilinn var ég býsna hrukkóttur og ófrýnilegur. Það var alls ekki eins og ég væri vel úthvíldur eftir þessu útliti að dæma en það var ég nú samt. Við komum hingað í gærkvöldi með Herjólfi og með Renó Clío að láni sem systir Valdísar og mágur eiga. Það er í fyrsta skipti sem við komum með bíl með okkur til Eyja.

Valdís er hér frammi og sýslar við eitt og annað en ég er sestur í stól og sýslar bara við að blogga. Tíkin Salka tríttlar á milli okkar og er forvitin. Hún virðist vera glöð yfir að hafa einhvern heima við en er líka svolítið gætin í könnunum sínum á þessu ókunna fólki. Þó virðist hún treysta okkur fullkomlega.

Ég fann á mér í morgun að það væri eitt og annað sem ég vildi skrifa um og ég var því hinn brattasti þegar ég settist við tölvuna. Svo þegar ég var búinn að skrifa fyrirsögninga var andinn víðs fjarri og höfuðið tómt. Hvað geri ég þá? Jú, það er einfalt, bara láta þetta nægja og segja bless. En þó! Skaftfellingar gefast ekki upp bara svona eins og dauðyfli.

Það er enginn gluggi beint fyrir framan mig, en ef svo væri sæi ég til Eldfells í svo sem hálfs kílómeters fjarlægð. Í öll skipti sem ég hef komið til Eyja hef ég gengið á Eldfell fyrir utan fyrsta skiptið, en það var 1991. Ferðir mínar þar upp eru því orðnar nokkuð margar. Ég hef verið þar upp í vindi, logni og sólskini með útsýni vítt og breitt um Suðurland og ég hef verið þar uppi svo mikilli þoku að ég sá bara niður í miðjar hlíðar frá toppnum. Sú ferð var býsna skemmtileg og gaf tilfinningu fyrir þjóðsögum og landvættum. Franski leiðsögumaðurinn sem ég hitti þar í glampandi sólskini með hópinn sinn spurði á mjög góðri íslensku hvort ég væri fjallavörður og svo hló hann við. Nú er það spurningin hvort ég fer á Eldfell líka í þessari heimsókn. Ég útiloka það alls ekki.

Í framhaldi af því vil ég gera grein fyrir læknisferð sem ég sagði frá hér um daginn. Lækninum, henni Gunillu, fannst ég vera ótrúlega hress en ég fékk þó tilvísun á röntgen. Svo fór ég í röntgenmyndatöku á háskólasjúkrahúsi í Örebro. Niðurstöðuna fékk ég svo bréflega frá Gunillu rétt áður en við lögðum af stað í Íslandsferð okkar. Brjóskið í vinstri mjöðminni er mjög mikið eytt og á vissum punktum alveg horfið. Gunilla ætlar því að senda tilvísun á bæklunarlækni. Ég geri flesta hluti sem fólk á mínum aldri gerir og var til dæmis að vinna á þakinu á bústaðnum fyrir ekki löngu. Ég var þar líka skríðandi þar uppi í risi við afar þröngar aðstæður snemma í vetur. En nú fer væntanlega að nálgast að ég fái mjaðmarlið úr stáli og þá fer ég líklega að tjútta og skvetta ærlega úr klaufunum svo ég tali nú ekki um að fara fleiri ferðir á Eldfell.

Valdís er farin að lesa hér frammi heyri ég því að hún flettir bók með jöfnu millibili. Hún sleppðir líka Sölku út og inn öðru hvoru. Sölku líkar nú vel að hafa svona þjónustu og þegar hún vill inn aftur geltir hún gætilega við útihurðina. Ég veit að Valdís vill gera fleira. Hún er nú búin að ganga kringum þvottavélina og hún er búin að velta fyrir sér að hengja út þvott. En hana grunar að þvotturinn vefjist bara utan um snúruna og þá er það kannski ekki svo sniðugt að hengja hann út. Fljótlega setjumst við út í bíl og flengjumst svo út í lífið hér í Eyjum í leit að nýjum ævintýrum. Ég segi oft þegar fólk skrifar sig út frá meðferðarheimilinu Vornesi þar sem ég vinn að það hafi ákveðið að leita nýrra ævintýra. Ævintýrin sem við Valdís leitum eru þó af allt öðrum toga.

Nú er ég hættur að blogga að sinni. Gangi ykkur öllum allt í haginn.


Kommentarer
Rósa

Hér er allt í gúddí. Focusinn er komminn út í úthverfin að hvíla sig. Hann var notaður til verslunarferða í dag :-)



Kveðja,



R

2009-04-28 @ 19:02:46
Guðjón

Gott að hann getur hjálpað, mér líkar vel að heyra það. Hér blæs talsvert og það er mjög takmarkað útsýni. Smávegis unnið við að gera herbergi fermingarbarnsins klárt fyrir fermingardaginn.



Kveðja,



GB

2009-04-28 @ 19:28:46
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0