Ferðaskýrsla frá Norrland

Ég hef við þann vanda að glíma að halda að það sem skeður í lífi mínu sé svo merkilegt að ég verði að skrifa um það. Líka það að halda að ferðalög okkar Susanne séu svo rosalega merkileg að allir vilji vita hvar við höfum verið og hvað gert. En það er best að hlíða kallinu. Ég er einn heima, sólin skín inn um austurgluggann, hafþyrniberin og eplin bíða eftir að ég klári að tína þau og almennt vil ég fara út, vappa um í rólegheitum, skoða og velta fyrir mér. En nú byrja ég hér.
 
 
 
 
Ég hef áður nefnt Höglekardalinn og að við höfum verið þar. Vikudvölin þar var afmælisgjöf til Susanne þannig að við bara komum þar og vorum á þessum friðsæla stað í 600 m hæð yfir haf, umvafin gróðri með útsýni til nakinna fjallatoppa í allt að 1200 m hæð. Nokkuð dreifð húsin í Höglekardalnum eru að því ég best veit fyrst og fremst í einkaeign þar sem fólk kemur til að dvelja í kyrrð. Í austurhlíðunum eru skíðamannvirki og bústaðir þar að lútandi eru neðst í fjallarótum og all hátt upp í hlíðarnar. Þeir bílar sem fóru um fóru hægt og þeir merktust varla. Eitt hús var verið að byggja all nærri húsinu þar sem við vorum en frá þeim heyrðist aldrei neitt. Ég veit ekki almennilega hvernig þeir fóru að eða hvort það var úthugsað af þeirra hálfu. Kannski skeður það ósjálfrátt á svona stað að fara ekki fram með dúndri og braki.
 
 
 
Frá Höglekardalnum fóru við til Anny og Lennarts, nágranna okkar hér í Krekklingesókn, en þau eiga sumarbústað skammt þar norðan við. Við vorum þar eina nótt og nutum af góðum aðbúnaði og vináttu þeirra hjóna. Sjálf búa þau í húsinu til hægri á myndinni en húsið til vinstri er fyrir gest og gangandi. Þar sváfum við Susanne. Eftir dvölina hjá þeim héldum við langt norður á bóginn og eftirleiðis vorum við tvö á ferðalagi okkar.
 
Hótelið í Saxnesi við vatnið Kulten í 542 m hæð yfir haf hef ég nefnt og þaðan héldum við vestur og suður á bóginn aftur eftir þriggja daga dvöl.
 
 
 
Þetta hús er í hálendinu nálægt norsku landamærunum. Það stendur í allnokkurri brekku og ef tekin væru burtu fáein tré neðar í brekkunni væri alveg frábært útsýni frá húsinu. Fáfarinn vegur liggur eina 40 m neðan við húsið og ekkert annað hús er sýnilegt frá þessu húsi. Lykillinn stóð ekki í skránni eins og ég sagði einhvern tíma, hann hékk við hliðina á dyrunum.
 
 
 
Það var hátt til lofts þarna og eiginlega vítt til veggja líka. Átta rúm eru í þessu húsi. Við Susanne vildum vita af svona húsi og hvernig það væri og við áttum kost á að vera þar eina nótt. Við gerðum það til að kynnast húsinu og fá tengsl við eigandann, Rickard. Þetta hús kostaði 12 000 kr íslenskar sólarhringurinn og það styggði okkur ekki mikið. Ég bendi svo á að það eru sérstakar tröppur í þessu húsi. Alla vega þið með smiðsaugu komið að sjá nokkuð sem er öðru vísi.
 
 
 
Frá húsinu hans Rickards fluttum við okkur nokkrum kílómetrum norðar og þar bjuggum við í húsi hjá honum Jimmy, húsinu sem er í miðjunni. Rödingen, eða Bleikjan heitir það. Það hefur ekki sama tígulleika og húsið hans Rickards en það dugði okkur mjög vel og hafði allt sem við þurftum. Okkur leið vel þá þrjá daga sem við dvöldum þar. Þar sem ég stóð þegar ég tók myndina er húsbíla og húsvagnastæði. Maðurinn sem rekur þetta, Jimmy, er líka bóndi, elur upp nautgripi, en það voru engin dráttarvélalæti eða fyrirgangur af neinu tagi. Það heyrðist í bjöllum sem einhverjir nautgripanna báru og svo komu og fóru bílar af og á stæðið og svo var það ekki meira. Sólarhringurinn hjá Jimmy kostar 8 400 ísl. kr.
 
 
 
 
Nú, lykillinn stendur í hurðinnni, sagði Jimmý þegar ég pantaði húsið. Og svo var það, lykillinn stóð í hurðinni. Þessi tvö síðustu hús eru í nálægð við vatn sem heitir Stora-Blåsjön. Þar er margt forvitnilegt og sumt kostar þó nokkuð langar gönguferðir ef maður vill upplifa það og þá þarf að dvelja þar meira en þessa daga sem við vorum þar. Þaðan héldum við all langt suður á bóginn, til Kolåsen.
 
 
 
Við fjallahótelið Kolåsen er fjöldi lítilla húsa til útleigu. Mörg þeirra standa í brattri brekku ofan við hótelið. Þar á meðal þetta hús, hús nr 428 sem stendur í allt að 500 m yfir haf. Þaðan er hægt að fara í gönguferðir bæði niður á láglendi og til fjalla. Það er hægt að heimsækja Lappakapelluna, hugleiðslubekkinn, það er hægt að láta eftir sér að borða eða fá kaffi og köku á hótelinu hjá Önnu og Mikka og það er hægt að bara vera. Við veltum ekki fyrir okkur hvað við ætlum að gera, við ætlum bara til Kolåsen til að vera þar.
 
 
 
Húsin eru gömul en mörg þeirra uppgerð eins og þetta hús, nr. 428. Gólfið hallar ögn til vinstri þegar komið er inn, einn listi er breiðari að ofan en að neðan og það getur blásið inn með opnunarfagi.. En við veltum þessu ekki fyrir okkur. Húsið er tandur hreint og notalegt. Framan við húsið er stór verönd og frá henni er makalaus fjallasýn, útsýni yfir stöðuvötn og mikinn gróður. Vikan í þessu húsi kostar 53 400 íslenskar krónur, 7 630 sólarhringurinn.
 
Þegar við komum norðan úr landi til Kolåsen vorum við svolítið að koma heim. Þegar við fórum svo frá Kolåsen gistum við eina nótt í bænum Sveg í Härjedalen. Þaðan fórum við svo endanlega heim. Það var gott að koma heim og við vorum ánægð með ferð okkar og vitum svo vel að við eigum svo margt ógert í þessu landi. Við erum þakklát öllu því vingjarnlega og hjálpsama fólki sem við hittum og áttum samskipti við. Það er stór kapítuli út af fyrir sig. Svo var kyrrðin alls staðar þar sem við vorum bara eitthvað alveg dásamlegt.
 
Að lokum. Viðargeymslan mín er með tveimur dyraopum en það eru engar hurðir. Þar lá keðjusögin á viðarstafla, bensín í tveimur brúsum, stór tjakkur, stingsög og borvél ásamt fleiri verkværum í ólæstum skáp. Þar er líka hellingur af þurrum og góðum eldiviði. Under þaki sem er við gaflinn móti skóginum var garðsláttuvél sem ég keypti í fyrra. Allt var þetta heima þegar við komum til baka.
 
En við söknum Broddanna okkar.
 

Að kynnast ókunnum manni

Það er föstudagur og við sitjum í dagstofu á fjallahótelinu Kolåsen og erum svo sem ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Og þó. Ég sit með tölvuna mina og skrifa niður það sem mér dettur í hug og Susanne situr líka með sína tölvu og fer í gegnum tölvupóst og skilaboð af ýmsu tagi sem henni ber að fara í gegnum. En það eru engar tímasetningar og það er ekkert ógert sem óróar okkur og við erum sátt við að vera að gera ekki neitt. Vikan okkar hér er brátt á enda, þetta er næst síðasti dagurinn.
 
Við höfðum stórar væntingar til þessarar ferðar okkar og rétt áðan vorum við sammála um að væntingarnar hefðu gengið eftir. Það hefur margt einfalt rekið á fjörur okkar og það er það sem við erum ánægð með.
 
 
 
Við vorum stödd í Saxnesi í syðra Lapplandi fyrir nokkrum dögum og það var tími til kominn að heimsækja Marsliden, sögulegt svæði þar í nágrenninu, hinu megin við vatnið Kulten. Við komum þar að húsi sem virtist vera einhver blanda af kaffihúsi og pinulítilli verslun. Við ókum inn á lítið bílastæði og horfðum upp til þessa húss sem stóð í talsverðum halla. Við dyrnar var verönd eða pallur með nokkrum borðum og þar sátu menn og spjölluðu saman. Mér datt í hug Jóa Árna tröppurnar í Hrísey þar sem menn, stundum margir, hittust gjarnan, sátu í tröpunum og ræddu gang mála. Rétt þegar við höfðum lagt bílnum kom maður á reiðhjóli sem hann stillti upp við grindverk.
 
Þessi maður hafði höfuðfat sem við vorum ekki vön við og gerði okkur svolítið undrandi. Ég skal viðurkenna að mér fannst sem ekki gætu orðið mikil samskipti milli mín og hans. Hann virtist bara af svo allt öðru sauðahúsi. Hann var á undan okkur upp að húsinu og inn á veröndina þar sem mennirnir sátu. Þá varð augljóst að hann var þeim ekki ókunnur og að hann var samþykktur af þeim, hann varð samstundis einn úr hópnum.
 
Við komum upp á pallinn, gengum inn og svipuðumst um. Það var ekki um mikið annað að velja þar en kaffi og ís enda ekki neitt af verra taginu. Við settumst með veitingarnar við borð á öðrum og lægri palli þar sem miðaldra maður sat og af einhverri ástæðu fannst mér sem hann væri Ástrali. Ögn seinna kom kona sem virtist tilheyra honum. Við sleiktum ísinn og spjölluðum saman okkar megin við borðið en þau töluðu saman hinu megin. Nú kom maðurinn með einkennilega höfuðfatið og mér var spurn hvað væri eiginlega inni í því.
 
Þeir virtust málkunnugir Ástralinn og maðurinn með höfuðfatið. Hvað þeim fór á milli hvorki heyrði ég eða skildi eða reyndi að heyra. Svo virtist mál fyrir Ástralann og konuna að stefna eitthvað annað og þau kvöddu og hurfu af vetvangi. Stuttu síðar sneri maðurinn með höfyuðfatið sér að okkur og ávarpaði okkur á sænsku. Úr því varð heil mikið samtal.
 
Ég gekk smám saman hreint til verks og spurði hann frá hvaða heimshorni hann kæmi. Hann sagðist koma frá lítilli eyju á Karabiska hafinu. Pabbinn hefði stugnið af þegar hann hafði gert mömmu mannins ólétta og meðan hann ennþá var barn hefði mamma hans dáið. Þrettán ára hafði hann verið orðinn þreyttur sem götubarn og ásamt öðrum jafnaldra sínum tóku þeir sig um borð í stórt flutningaskip og földu sig í einhverri kaðalhrúgu. Þar kúrðu þeir þar til skipið var komið svo langt á haf út að þeir vissu að það yrði ekkert gert meira í málinu fyrr en þeir kæmu aftur í land. Þeir höfnuðu í Englandi og hann síðar í Svíþjóð.
 
Hvernig allt gekk fyrir sig var ekki tími til að tala um en hann byrjaði í grunnskóla og gekk svo í gegnum menntaskólann. Þar á eftir skrifaðist hann inn í háskóla og vann nú sem tónlistarkennari og kennari í myndlistum. Þarna nálægt í Marsliden átti hann sumarbústað og var á sumrin leiðsögumaður fyrir ferðafólk sem kom til að skoða landið og til að veiða fisk. Hann var greinilega landfræðilega vel að sér. Við þekktum nógu vel til til að skilja það.
 
Ég spurði hann hvernig það eiginlega væri fyrir þrettán ára strák að koma inn í ókunnugt land þar sem maður kynni ekki málið og þekkti alls engan, bara hreinlega hvernig maður gengi fyrstu skrefin. Ég get ekki haft neitt eftir honum um það en að lokum sagði hann nokkuð sem ég man vel.
 
Hann sagði að það snerist um að vilja vera ábyrgur, að taka ábyrgð á eigin lífi og sem meðlimur í samfélaginu.
 
Við fengum góða tilfinningu fyrir honum og þegar við sáum að kallarnir á efri pallinum sáu hann sem góðkunningja sinn, þá varð hann góðkunningi okkar líka. Hann kenndi mér lexíu með sinni þægilegu framkomu og með því sem hann hafði að segja.
 
Við Susanne getum engan vegin munað nafnið á eyjunni sem hann kom frá og alls ekki hans nafn heldur, þó að hann reyndar stafaði það fyrir okkur. Ef það er sett "h" inn í þitt nafn sagði hann við mig, þá eru nöfnin á okkur ekki svo ólík. Hann gaf góðfúslega leyfi til að taka myndina. Hvað var svo í höfuðfatinu? Jú, það var alveg óhemja af hári.
 
Þetta skrifaði ég á dagstofu fjallahótelsins Kolåsen.
 
 
Séð frá Marsliden suður yfir vatnið Kulten

 
 

Í norðvestra Jämtland

 
 
Við erum í húsi við vatn sem heitir Ankarvattnið og er aldeilis norðvestast í fjöllunum í Jämtland. Húsið nefnist Rödingen, Bleikjan. Vatnið hefur skógi vaxna umgjörð aldeilis allan hringinn og það er í 448 metra hæð yfir sjó. Því miður náði ég engri góðri mynd af því húsi.
 
 
 
Á leiðinni hingað vorum við á ferðinni um mikil vatnasvæði sem eru álíka norðarlega og miðhálendi Íslands og vöttnin þar eru í þetta 530 til allt að 550 metra hæð yfir sjó. Hér er ég að tala um fleiri tugi kílómetra þar sem vatn er alltaf á aðra hvora hönd við veginn, allt frá bænum Vilhelmina og langt norðvestur á bóginn.

Þessi vötn eru líka umvafin skógi vöxnum fjöllum, víða með litlu undirlendi. Lægri fjöllin skógi vaxin yfir fjallatoppana og þau hærri skógi vaxin langt upp eftir hlíðunum. Svona landssvæði heilla mig gerssamlega. Víðfeðmu akurlöndin kringum Sólvelli, umgirt víðáttumiklum skógum, eða skógareyjum, jafnvel með stóru eikartré mitt út í akri, heilla mig einnig, en hið stórfenglega landslag hér upp í norðrinu sem er vaxið svo miklum skógi og gróðri almennt er andstaða heimasvæðisins og tilbreytingin heillar.
 
 
 
En ferðin frá Vilhelmina og norðvestur á bóginn endaði svo á hásléttunni Stekenjokk þar sem vegurinn byrjar að liggja suður á bóginn. Á Stekenjokk liggur vegurinn upp í 876 metra hæð eða svipað Sprengisandi sýnist mér og álíka norðarlega. Allt er þetta malbikaðir vegir.

Fyrir tveimur árum kom ég í fyrsta skipti á Stekenjokk og þá var rigningarhraglandi, aðeins örfárra stiga hiti og vindur. Síðar bloggaði ég um heimsóknina á Stekenjokk og lýsti svæðinu sem ógrónu, grýttu og kuldalegu.
 
Núna kom ég þangað eftir ærlegt þrumuveður og skýfall niður í byggð en fékk að upplifa þar uppi fallegan sumardag með yfir tuttugu stiga hita. Þá komst ég að því að þessi háslétta er alls ekki svört auðn. Þar er mikill gróður, svo sem fjallablóm, mikið af víði og krækiberjalyngi og grasflákar inn á milli.

Þar var mikið af fólki sem var hljóðlátt og við vorum hljóðlát. Við hölluðum okkur góðum stundum upp að bílnum og töluðum bæði lítið og lágt. Við gengum um, stóðum aftur kyrr og héldum áfram að tala bæði lítið og lágt. Þegar við vorum þar fyrir tveimur árum vorum við þar ein í kalsaveðrinu sem ég hef þegar lýst. Samt höfðum við góðar minningar frá þeirri heimsókn okkar til Stekenjökk utan bara að mér fannst sem staðurinn væri nánast eyðimörk.
 
 
 
Eftir dágóða stund á Stekenjokk héldum við svo suður á bóginn að húsinu við  Ankarvattnið. Kjarrið varð smám saman hærra og hærra og síðan tóku við lágvaxin og kræklótt birkitré. Svo tóku við barrskógar blandaðir lauftrjám. Þéttvaxnir skógar sem eru ómissandi til að halda vorri jörð byggilegri.

Efter að hafa sofið eina nótt við Ankarvattnið sunnan hásléttunnar unnum við það til að aka um 30 km norður á bóginn aftur til að upplifa á ný nánast heilaga kyrrðina þar uppi. Þá var þar aftur mikið af fólki, jafn hljóðlátu og daginn áður og staðurinn var ennþá heillandi. Nú hefur Stekenjokk hásléttan mótað sig inn í huga okkar  með kyrrð sinni og heillandi landslagi, með einföldum fjallagróðri sínum og útsýninu til grannlandsins Noregs
 
Það eru víðáttumiklar andstæður milli hásléttunnar annars vegar og skógarins og vattnanna báðu megin við hins vegar, en hvort tveggja heillar mig og ég verð nánast ölvaður av að sitja hér á bekk utan við húsið við Ankarvattnið og skrifa um þetta.
 
 
 
Ég hreinlega elska þessa skóga, seiðmagn þeirra er svo áþreifanlegt, og ég er þeim þakklátur fyrir það sem þeir gera fyrir mig. Eftir bestu getu taka þeir til sín úrganginn sem ég anda frá mér ásamt svo mörgum öðrum úrgangi sem ég skil eftir mig með lifnaðarháttum mínum en þeir hafa bara ekki undan. Án þeirra væru lífsmöguleeikar mínir litlir. Ég elska þá.

Stundum finnst mér sem ég skilji hvers vegna það er gróðurlaust á stöðum á Íslandi sem liggja á sömu breiddargráðu og í sömu hæð og skógrnir hér í Svíþjóð en ef ég ætti að útskýra það fyrir einhverjum núna þegar ég er að skrifa þetta norður undir Lapplandi, þá mundi ég ekki geta gert það.
 
 
 
Við Susanne erum á vel heppnuðu ferðalagi um ókunnar slóðir.
RSS 2.0