Ferðaskýrsla frá Norrland

Ég hef við þann vanda að glíma að halda að það sem skeður í lífi mínu sé svo merkilegt að ég verði að skrifa um það. Líka það að halda að ferðalög okkar Susanne séu svo rosalega merkileg að allir vilji vita hvar við höfum verið og hvað gert. En það er best að hlíða kallinu. Ég er einn heima, sólin skín inn um austurgluggann, hafþyrniberin og eplin bíða eftir að ég klári að tína þau og almennt vil ég fara út, vappa um í rólegheitum, skoða og velta fyrir mér. En nú byrja ég hér.
 
 
 
 
Ég hef áður nefnt Höglekardalinn og að við höfum verið þar. Vikudvölin þar var afmælisgjöf til Susanne þannig að við bara komum þar og vorum á þessum friðsæla stað í 600 m hæð yfir haf, umvafin gróðri með útsýni til nakinna fjallatoppa í allt að 1200 m hæð. Nokkuð dreifð húsin í Höglekardalnum eru að því ég best veit fyrst og fremst í einkaeign þar sem fólk kemur til að dvelja í kyrrð. Í austurhlíðunum eru skíðamannvirki og bústaðir þar að lútandi eru neðst í fjallarótum og all hátt upp í hlíðarnar. Þeir bílar sem fóru um fóru hægt og þeir merktust varla. Eitt hús var verið að byggja all nærri húsinu þar sem við vorum en frá þeim heyrðist aldrei neitt. Ég veit ekki almennilega hvernig þeir fóru að eða hvort það var úthugsað af þeirra hálfu. Kannski skeður það ósjálfrátt á svona stað að fara ekki fram með dúndri og braki.
 
 
 
Frá Höglekardalnum fóru við til Anny og Lennarts, nágranna okkar hér í Krekklingesókn, en þau eiga sumarbústað skammt þar norðan við. Við vorum þar eina nótt og nutum af góðum aðbúnaði og vináttu þeirra hjóna. Sjálf búa þau í húsinu til hægri á myndinni en húsið til vinstri er fyrir gest og gangandi. Þar sváfum við Susanne. Eftir dvölina hjá þeim héldum við langt norður á bóginn og eftirleiðis vorum við tvö á ferðalagi okkar.
 
Hótelið í Saxnesi við vatnið Kulten í 542 m hæð yfir haf hef ég nefnt og þaðan héldum við vestur og suður á bóginn aftur eftir þriggja daga dvöl.
 
 
 
Þetta hús er í hálendinu nálægt norsku landamærunum. Það stendur í allnokkurri brekku og ef tekin væru burtu fáein tré neðar í brekkunni væri alveg frábært útsýni frá húsinu. Fáfarinn vegur liggur eina 40 m neðan við húsið og ekkert annað hús er sýnilegt frá þessu húsi. Lykillinn stóð ekki í skránni eins og ég sagði einhvern tíma, hann hékk við hliðina á dyrunum.
 
 
 
Það var hátt til lofts þarna og eiginlega vítt til veggja líka. Átta rúm eru í þessu húsi. Við Susanne vildum vita af svona húsi og hvernig það væri og við áttum kost á að vera þar eina nótt. Við gerðum það til að kynnast húsinu og fá tengsl við eigandann, Rickard. Þetta hús kostaði 12 000 kr íslenskar sólarhringurinn og það styggði okkur ekki mikið. Ég bendi svo á að það eru sérstakar tröppur í þessu húsi. Alla vega þið með smiðsaugu komið að sjá nokkuð sem er öðru vísi.
 
 
 
Frá húsinu hans Rickards fluttum við okkur nokkrum kílómetrum norðar og þar bjuggum við í húsi hjá honum Jimmy, húsinu sem er í miðjunni. Rödingen, eða Bleikjan heitir það. Það hefur ekki sama tígulleika og húsið hans Rickards en það dugði okkur mjög vel og hafði allt sem við þurftum. Okkur leið vel þá þrjá daga sem við dvöldum þar. Þar sem ég stóð þegar ég tók myndina er húsbíla og húsvagnastæði. Maðurinn sem rekur þetta, Jimmy, er líka bóndi, elur upp nautgripi, en það voru engin dráttarvélalæti eða fyrirgangur af neinu tagi. Það heyrðist í bjöllum sem einhverjir nautgripanna báru og svo komu og fóru bílar af og á stæðið og svo var það ekki meira. Sólarhringurinn hjá Jimmy kostar 8 400 ísl. kr.
 
 
 
 
Nú, lykillinn stendur í hurðinnni, sagði Jimmý þegar ég pantaði húsið. Og svo var það, lykillinn stóð í hurðinni. Þessi tvö síðustu hús eru í nálægð við vatn sem heitir Stora-Blåsjön. Þar er margt forvitnilegt og sumt kostar þó nokkuð langar gönguferðir ef maður vill upplifa það og þá þarf að dvelja þar meira en þessa daga sem við vorum þar. Þaðan héldum við all langt suður á bóginn, til Kolåsen.
 
 
 
Við fjallahótelið Kolåsen er fjöldi lítilla húsa til útleigu. Mörg þeirra standa í brattri brekku ofan við hótelið. Þar á meðal þetta hús, hús nr 428 sem stendur í allt að 500 m yfir haf. Þaðan er hægt að fara í gönguferðir bæði niður á láglendi og til fjalla. Það er hægt að heimsækja Lappakapelluna, hugleiðslubekkinn, það er hægt að láta eftir sér að borða eða fá kaffi og köku á hótelinu hjá Önnu og Mikka og það er hægt að bara vera. Við veltum ekki fyrir okkur hvað við ætlum að gera, við ætlum bara til Kolåsen til að vera þar.
 
 
 
Húsin eru gömul en mörg þeirra uppgerð eins og þetta hús, nr. 428. Gólfið hallar ögn til vinstri þegar komið er inn, einn listi er breiðari að ofan en að neðan og það getur blásið inn með opnunarfagi.. En við veltum þessu ekki fyrir okkur. Húsið er tandur hreint og notalegt. Framan við húsið er stór verönd og frá henni er makalaus fjallasýn, útsýni yfir stöðuvötn og mikinn gróður. Vikan í þessu húsi kostar 53 400 íslenskar krónur, 7 630 sólarhringurinn.
 
Þegar við komum norðan úr landi til Kolåsen vorum við svolítið að koma heim. Þegar við fórum svo frá Kolåsen gistum við eina nótt í bænum Sveg í Härjedalen. Þaðan fórum við svo endanlega heim. Það var gott að koma heim og við vorum ánægð með ferð okkar og vitum svo vel að við eigum svo margt ógert í þessu landi. Við erum þakklát öllu því vingjarnlega og hjálpsama fólki sem við hittum og áttum samskipti við. Það er stór kapítuli út af fyrir sig. Svo var kyrrðin alls staðar þar sem við vorum bara eitthvað alveg dásamlegt.
 
Að lokum. Viðargeymslan mín er með tveimur dyraopum en það eru engar hurðir. Þar lá keðjusögin á viðarstafla, bensín í tveimur brúsum, stór tjakkur, stingsög og borvél ásamt fleiri verkværum í ólæstum skáp. Þar er líka hellingur af þurrum og góðum eldiviði. Under þaki sem er við gaflinn móti skóginum var garðsláttuvél sem ég keypti í fyrra. Allt var þetta heima þegar við komum til baka.
 
En við söknum Broddanna okkar.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0