Minningar mínar um jól fyrir 70 árum

Það er föstudagskvöldið 23. desember og ég er í Stokkhólmi. Það erun jól á morgun. Ég er þreyttur og er genginn til náða og fer í gegnum vissar hugsanir sem hafa fylgt mér bæði í gær og í dag. Þessar hugsanir mínar eru minningar um jólin heima í afskekktri og fámmennri sveit á Suðurlandi um 1950 -minningar eins og þær koma mér fyrir sjónir.
 
Það mesta var skrúbbað og þvegið, fötin hrein, allir höfðu farið í bað við frekar frumstæðar aðstæður, smávegis af svolítið betri smáhlutum var tínt fram ásamt gömlum, litlum pappakassa með myndum frá liðnum árum. Það voru líka til kerti. Maturinn var betri, hann lyktaði notalega og ég trúði sjálfur á að dýrin fengju svolítið aukalega líka, á sjálfa aðfangadagskvöldið. Um jól gat fólk líka keypt eppli eða appelsínur, bara um jól, og eplin lyktuðu alveg unaðslega. Jólapökkunum fyrir sjötíu árum getum við bara gleymt. Hvað voru jólapakkar í minni sveit seinni hlutann af fimmta áratugnum? Aftur á móti voru alltaf ný föt af einhverju tagi og til dæmis nýir ullarsokkar voru unaðslega mjúkir og þægilegir fyrir lítinn fót.
 
Klukkan sex byrjaði útvarpsmessan. Mér fannst jólasálmarnir vera hreinu meistaraverkin og hvað þau sungu fallega í útvarpinu. Mér fannst líka jólaguðspjallið hrærandi fallegt. Allir fengu að borða svo mikið sem þeir vildu og svo lengi sem þeir vildu og svo var smnávegis sælgæti eða góður eftirréttur og síðan skoðuðum við myndirnar í gamla litla pappakassanum. Jólakort voru líka skoðuð.
 
Á jóladaginn var mikið sem fyrr en fólk gerði einungis það sem var nauðsynlegast að sinna. Þá mátti líka spila á spil eða hvort það var á annan í jólum og maturinn hélt áfram að vera betri. Svo var aftur jólamessa í útvarpinu ásamt fallegu jólasálmunum og jólaguðspjallinu. Venjulega var jólamessa í litlu kirkjunni í sveitinni og svo var jólaball fyrir yngri kynslóðina í byrjun janúar.
 
Þetta eru "mínar" minningar um jól fyrir um það bil sjötíu árum. Ég hakkaði mikið til jólanna og minningarnar um þessi einföldu jól eru ótrúlega friðsamlegar og fínar.
 
Kannski birti ég þetta á aðfangadagskvöld. Við sjáum til. Klukkan er tíu mínútur fyrir miðnætti og það er mikið af ljósum í höfuðstaðnum, jólaseríur, ljós í hundruðum þúsunda glugga ásamt hinum venjulegu götulýsingum. Víst er það fallegt -og minningarnar um barndómsjólin mín þar sem það lýsti ein pera yfir útidyrunum eru líka fallegar.
 
 
Hér fyrir neðan myndir frá jólum 2016 í Stokkhólmi
 
Guðjón, Pétur, Hannes Guðjón
 
 
Pétur, Hannes Guðjón, Rósa

Frá langafa Guðjóni

Það er ekkert smáræði að vera orðinn langafi. Það er meira að segja svo mikið að ég kallaði mig langalangafa hérna um daginn og mér var bent á að ég væri farinn að ruglast í ríminu. En nú er það svo að mér dettur ekki í hug að spauga með þetta en mér er ekki alveg ljóst hvað ég á að segja þegar ég blogga um skírn barnabarnsins míns númer tvö.
 
Mamman Guðdís, annað barnabarnið mitt í röðinni á eftir Kristni bróður sínum, var eins og hálfs árs gömul þegar hún kom í heimsókn til afa og ömmu í Svíþjóð. Ég var þá að vinna í 240 km fjarlægð frá heimili okkar í Falun í sænsku Dölunum. Ég var á leið heim í frí vegna þessarar heimsóknar og velti fyrir mér hvernig það myndi verða að hitta þetta barnabarn, fyrstu stúlkuna. Ég hugsaði mikið um það á leiðinni heim hvernig ég mundi heilla stúlkuna sem afi og ég hlakkaði mikið til að sjá viðbrögð hennar.
 
Svo bankaði ég til gamans á dyrnar heima hjá mér og beið þar til Valdís kom til dyra ásamt barnabarninu Guðdísi. Þegar hún sá að ég ætlaði að víkja mér að henni sneri hún sér við, hljóp í burtu og faldi sig bakvið stólinn þar sem mamma hennar sat. Ég fékk sjaldan að taka hana á kné mér meðan á þessari heimsókn stóð en henni þótti mikið gaman að fela sig og láta mig leita að sér.
 
Svo eignaðist Guðdís systurina Erlu og þær komu í heimsókn til okkar, þá til Örebro. Þá voru þær miklir ærslabelgir og léku sér mikið með mér en ég hafði afar mikið minna úthald en þær. Einhvers staðar er til mynd frá þeirri heimsókn þar sem ég sat með þær systur sitt á hvoru hné, ég get trúað að þær hafi þá verið að nálgast annað og fjórða árið. Á þeirri mynd virðist ég vera alveg búinn að vera af þreytu og það er eins og andlitið sé að falla af mér. Þá var leikur búinn að standa lengi yfir. Ég fann vel hversu mikið úthald mitt í leik með börnum hafði þá þegar minnkað frá því að mín börn voru lítil.
 
Þannig var það á þessum árum en núna er Guðdís orðin mamma og Erla systir hennar er orðin móðursystir og Kristinn bróðir þeirra sem sjálfur er faðir, veraldarvanur maður í Noregi og nú móðurbróðir. Hann kom til Stokkhólms sumarið 1994, varð ellefu ára þar og hélt svo ótrauður með lest, aleinn, frá Stokkhólomi til Falun þar sem við amma hans og afi biðum óstyrk á lestarstöðinni þar til við sáum ljósa kollinn hans þar sem hann gekk yfirvegaður með töskuna sína út úr lestinni.
 
Það voru fleiri heimsóknirnar þeirra systkinanna og foreldranna hingað til Svíþjóðar og okkar Valdísar til Íslands. Litið til baka voru þær alls ekki nógu margar og svo get ég sagt sem varð vitur eftir á. Núna eru þau systkinin orðin fullorðið fólk, ég kall sem fer að nálgast barndóminn aftur og amma þeirra horfin á vit tilverunnar sem við þekkjum ekki til. Ný kynslóð er byrjuð að fæðast, barnabarnabörnin.
 
 
Það er fætt barn og það er komið að skírn. Það er sunnudagurinn 27 nóvember. Á myndinni eru frá vinstri; Jóhann Norðfjörð föðurbróðir, Kristinn Jónatansson móðurbróðir, móðirin Guðdís Jónatansdóttir, faðirinn Sigurður Norðfjörð, föðuramman Sigrún Jónsdóttir sem heldur á barninu og ungur nývígður prestur í Vestmannaeyjum, Viðar stefánsson. Hvað á barnið að heita? spurði presturinn, og Sigrún amma svaraði; Sigrún Dís. Og svo var hún dótturdótturdóttir mín skírð Sigrún Dís.
 
En einn fulltrúann á þessari mynd hef ég ekki nefnt. Það er litla hnátan sem lætur lítið fyrir sér fara og situr á hækjum sér. Ég valdi þessa mynd af fleiri mögulegum vegna þess að hún er þarna. Hún kemur þarna fram eins og óþvinguð börn gera, fylgist vel með og ekkert annað skiptir máli en að það er verið að skíra litla frænku hennar.
 
 
Presturinn Viðar Stefánsson, Guðdís mamma og Sigurður pabbi. Og lengst fram fyrir miðri mynd er svo sjálf Sigrún Dís í fangi mömmu sinnar.
 
 
Mamma, pabbi, barn.
 
 
Nú byrja ég, langafinn, að koma við sögu. Valgerður amma með Sigrúnu Dís, Guðdís mamma og langafi Guðjón.
 
 
Systkinin Erla, Kristinn og Guðdís. Sitjandi Valgerður amma með Sigrúnu Dís og svo sjálfur ég, langafinn Guðjón. En hvar er hann tengdasonur minn, hann Jónatan afi? Jú, svo leiðinlegt sem að nú var þá varð hann veikur að morgni skírnardagsins og það var ekkert "kannski" með það, hann bara gat alls ekki komið. Amman, Valgerður dóttir mín, var því fulltrúi fyrir þau bæði.
 
 
Nú er komið að okkur Sigrúnu Dís, bara okkur tveimur. Þegar ég fékk að heyra um að yngsta barnabarnið mitt, Hannes Guðjón sem nú er sjö ára, væri á leiðinni, þá var fyrsta hugsun mín; hvernig mun veröldin sem hann fæðist inn í reynast honum? Sama hugsun flaug gegnum huga minn þegar ég sat þarna með þetta litla barn í fanginu. Litla stúlkan á myndinni virðist sofa afar vært og hún getur gert það vegna þess að hún treystir fullkomlega öllu umhverfi sínu. Við sem eigum að teljast fullorðin berum mikla ábyrgð og presturinn talaði líka um það við skírnina. Megi henni Sigrúnu Dís ásamt öllum öðrum litlum börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum vegna vel í framtíðinni.
 
                                                                    Legg ég nú bæði líf og önd,
                                                                    ljúfi Jesús, í þína hönd,
 
                                                                    síðast þegar ég sofna fer
                                                                    sitji Guðs englar yfir mér.
                                                                         (Hallgrímur Pétursson)
 
 
Að lokum verð ég að hafa með mynd af afa Jónatani þó að hún sé tekin við annað tilfelli. Þegar hann tekur þetta litla barn í fang sér er auðvelt að sjá stjörnur í augum hans. Það er allt sem segja þarf.
 
 
 

Gudjon, hvernig eiginlega hagar þú þér?

Það var merkilegt, við sem höfðum lagt okkur tímanlega í gærkvöldi sváfum til klukkan hálf níu í morgun, "sagt og skrifað "hálf níu". Eftir góðan svefn ættum við að vera vel úthvíld en ég held ekki að við höfum hugsað út í það. Við aftur á móti byrjuðum að tala saman og við töluðum þangað til við Susanne fór í vinnuna klukkan hálf þrjú. Morgunverðurinn varð hádegisverður líka.
 
Þegar ég horfði á eftir bílnum og veifaði Susanne hugsaði ég sem svo að ég ætti að fara í gönguferð eftir gönguleiðinni sem svo margir hér í sveitinni fara og ekkert meira með það, ég hélt af stað á lambaskinnsskónum mínum sem ég keypti á markaði í haust, einmitt þar sem ég keypti hattinn minn. Hann kom alla leið frá Smálöndunum, hann sem seldi lambaskinnsskóna, og hann var svo ótrúlega trúverðugur þegar hann sýndi mér skóna að ég einfaldlega fann á mér að hann hlaut að segja sannleikann. Svo keypti ég fyrstu lambaskinnsskóna sem ég hef átt í lífi mínu.

Sannleikurinn um lambaskinnskóna er að maðurinn sagði nákvæmlega eins og það er og mér finnst að þetta séu bestu skór sem ég hef eignast. Ég keypti þá sem spariskó en núna notaði ég þá sem gönguskó og það verður að vera bara einu sinni, slíkt skal ég ekki gera með spariskóna mína. En ég hef pappíra frá manninum í Smálöndunum og ég ætla mér að hafa samband við hann og athuga hvort hann hefur líka gönguskó úr lambasskinni. Það skyldi ég meta að verð leikum, kaupa þá og henda öðrum skóm sem eru lélegri. Ég reyni að meta fætur mína að verðleikum. Ég hef enga varafætur.

Mér datt allt í einu í hug að ég hefði átt að spyrja Susanne fyrr í dag hvort við ættum að fara í gönguferð saman. Sannleikurinn er að við þurfum bæði að hvetja hvort annað til að fara í gönguferðir. Gönguleið sveitarinnar er tæpir þrír kílómetrar og það er enginn hetjuskapur að ganga það nokkrum sinnum í viku. Ég er statt og stöðugt að sýsla eitthvað og er næstum alltaf á hreyfingu, en það er ekki það sama og að fara í gönguferðir. Ég veit að Susanne situr meira yfir námslestri sínum en ég veit líka að hún er mikið á hreyfingu þegar hún annast sína gömlu og gleður þá með nærveru sinni.
 
Einmitt það höfðum við líka talað um í morgun. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem vinna við þetta, að hlú að fólki sem getur ekki annast hreinlæti sitt og þarfir án hjálpar og þau eru ekki öll gömul sem hafa hafnað í þeirri stöðu. Ég veit afar vel að Susanne gerir hluti sem ég mundi eiga mikið, mikið erfitt með að framkvæma. Við getum öll verið þakklát þeim sem gera þetta af hjartahlýju.
 
Þetta og mikið annað hugsaði ég á göngu minni og vissi ekki fyrr en ég hafði gengið nokkur hundruð metra af gönguhring númer tvö. Þá var ekkert annað að gera en að fara alla leiðina aftur. Tæpir sex kílómetrar mundi ekki teljast til afreka fyrir mann á mínum aldri. Þannig var það ekki heldur og heim kom ég ánægður með mig og hugsaði mér að klára að skrifa blogg um Íslandsferð mína sem ég kom heim úr þann fyrsta desember.
 
Ekkert varð af því og áður en ég vissi af hafði ég byrjað að skrifa þetta, fyrst á sænsku. Íslandsferðin kemur innan tíðar. Ég hafði líka hugsað mér að skrifa nokkur jólakort og almennt að hugsa um jólin, sem ekki varð af. Og bakvið mig er rúmið okkar óumbúið að hálfu. Guðjón, hvernig eiginlega hagar þú þér?
 
En sannleikurinn er sá að í öllum sínum einfaldleika hefur þetta verið mjög góður dagur.
 
 
 
Í öllum einfaldleika sínum eru lambaskinnsskórnir mínir svo undur mjúkir, hlýir og þægilegir.
RSS 2.0