Gudjon, hvernig eiginlega hagar þú þér?

Það var merkilegt, við sem höfðum lagt okkur tímanlega í gærkvöldi sváfum til klukkan hálf níu í morgun, "sagt og skrifað "hálf níu". Eftir góðan svefn ættum við að vera vel úthvíld en ég held ekki að við höfum hugsað út í það. Við aftur á móti byrjuðum að tala saman og við töluðum þangað til við Susanne fór í vinnuna klukkan hálf þrjú. Morgunverðurinn varð hádegisverður líka.
 
Þegar ég horfði á eftir bílnum og veifaði Susanne hugsaði ég sem svo að ég ætti að fara í gönguferð eftir gönguleiðinni sem svo margir hér í sveitinni fara og ekkert meira með það, ég hélt af stað á lambaskinnsskónum mínum sem ég keypti á markaði í haust, einmitt þar sem ég keypti hattinn minn. Hann kom alla leið frá Smálöndunum, hann sem seldi lambaskinnsskóna, og hann var svo ótrúlega trúverðugur þegar hann sýndi mér skóna að ég einfaldlega fann á mér að hann hlaut að segja sannleikann. Svo keypti ég fyrstu lambaskinnsskóna sem ég hef átt í lífi mínu.

Sannleikurinn um lambaskinnskóna er að maðurinn sagði nákvæmlega eins og það er og mér finnst að þetta séu bestu skór sem ég hef eignast. Ég keypti þá sem spariskó en núna notaði ég þá sem gönguskó og það verður að vera bara einu sinni, slíkt skal ég ekki gera með spariskóna mína. En ég hef pappíra frá manninum í Smálöndunum og ég ætla mér að hafa samband við hann og athuga hvort hann hefur líka gönguskó úr lambasskinni. Það skyldi ég meta að verð leikum, kaupa þá og henda öðrum skóm sem eru lélegri. Ég reyni að meta fætur mína að verðleikum. Ég hef enga varafætur.

Mér datt allt í einu í hug að ég hefði átt að spyrja Susanne fyrr í dag hvort við ættum að fara í gönguferð saman. Sannleikurinn er að við þurfum bæði að hvetja hvort annað til að fara í gönguferðir. Gönguleið sveitarinnar er tæpir þrír kílómetrar og það er enginn hetjuskapur að ganga það nokkrum sinnum í viku. Ég er statt og stöðugt að sýsla eitthvað og er næstum alltaf á hreyfingu, en það er ekki það sama og að fara í gönguferðir. Ég veit að Susanne situr meira yfir námslestri sínum en ég veit líka að hún er mikið á hreyfingu þegar hún annast sína gömlu og gleður þá með nærveru sinni.
 
Einmitt það höfðum við líka talað um í morgun. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem vinna við þetta, að hlú að fólki sem getur ekki annast hreinlæti sitt og þarfir án hjálpar og þau eru ekki öll gömul sem hafa hafnað í þeirri stöðu. Ég veit afar vel að Susanne gerir hluti sem ég mundi eiga mikið, mikið erfitt með að framkvæma. Við getum öll verið þakklát þeim sem gera þetta af hjartahlýju.
 
Þetta og mikið annað hugsaði ég á göngu minni og vissi ekki fyrr en ég hafði gengið nokkur hundruð metra af gönguhring númer tvö. Þá var ekkert annað að gera en að fara alla leiðina aftur. Tæpir sex kílómetrar mundi ekki teljast til afreka fyrir mann á mínum aldri. Þannig var það ekki heldur og heim kom ég ánægður með mig og hugsaði mér að klára að skrifa blogg um Íslandsferð mína sem ég kom heim úr þann fyrsta desember.
 
Ekkert varð af því og áður en ég vissi af hafði ég byrjað að skrifa þetta, fyrst á sænsku. Íslandsferðin kemur innan tíðar. Ég hafði líka hugsað mér að skrifa nokkur jólakort og almennt að hugsa um jólin, sem ekki varð af. Og bakvið mig er rúmið okkar óumbúið að hálfu. Guðjón, hvernig eiginlega hagar þú þér?
 
En sannleikurinn er sá að í öllum sínum einfaldleika hefur þetta verið mjög góður dagur.
 
 
 
Í öllum einfaldleika sínum eru lambaskinnsskórnir mínir svo undur mjúkir, hlýir og þægilegir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0