Kennslustund hjá Kristjönu

Ég gekk út í skóginn eftir þáttinn Allsång på Skansen og virti fyrir mér gersemarnar sem skaparinn gaf okkur til að auðveldara væri fyrir okkur að finna friðsamar stundir og staði, og eitthvað alveg sérstakt fyrir augað að dásama. Mér varð hugsað til kennslustundar í náttúrufræði í barnaskólanum á sláturhússloftinu á Kirkjubæjarklaustri fyrir tæpum sextíu árum þar sem hún Kristjana frá Sólheimum kenndi okkur að halda höggormum og fleiri slöngum í hæfilegri fjarlgð, sérstaklega þó þessum varasömu. Stappa niður fótunum á göngunni, sagði Kristjana, og gjarnan að hafa staf sem maður stingi dálítið kröftulega niður. Þá mundu slöngurnar vera komnar í hæfilega fjarlægð þegar maður kæmi þangað sem þær hefðu verið. Alveg hárrétt hjá Kristjönu en málið er bara að þetta gerir gönguferðina leiðinlegri og óþægilegri og því nenni ég því alls ekki nema endrum og eins og þá helst þegar mér finnst einhver ófögnuður vera nálægur. Hins vegar ef ég yrði fyrir slöngubiti mundi ég hugsa sem svo að það hefði verið betra að gera eins og Kristjana kenndi fyrir hátt í sextíu árum. Annars eru slöngubit afar sjaldgæf.

Ég fer að heiman um tíu leytið á morgun og ætlaði að fara í sturtu áður en ég leggði mig. Það er hins vegar svo hlýtt ennþá að það er hálfgert svitaveður. Klukkan er að nálgast tíu að kvöldi og það er um 25 stiga hiti úti og enn hlýrra inni. Hvílík sumarblíða. Samkvæmt fréttum virðist gæðunum vera afar misskipt. Parkettið er komið á gólfið sem ég talaði um í blogginu í gærkvöldi og helmingur af gólflistunum. Tvöfalda rúmið er líka komið á sinn stað og skápar eru í startholunum. Nú fær þessi frágangur að vera um kyrrt í nokkra daga meðan ég vinn fyrir launum og skatti. Af hverju skyldu ellilífeyrisþegar lifa í svo miklu annríki? Ég hef komið nokkuð inn á það áður og kem til með að gera það enn nánar síðar.

Stór hluti af því að ég er þó svo ánægður með lífið sem ég er, er nýi mjaðmaliðurinn sem ég fékk ísettan fyrir tæpum tveimur árum. Ég held næstum að ég sé farinn að trúa að þessi mjaðmaliður sé hreinlega orðinn að ekta mjaðmarlið, hann virkar svo vel. Ég fer líka vel með hann eftir bestu getu. Það er vel hægt að skaða svona gersemar. Daginn eftir aðgerðina fékk ég að ganga inni á stofunni og varð næstum ærslafullur af gleði. Þá sagði hún Ása sjúkraliði að ég skyldi ekki ofmetnast, það væri ekki dugnaði mínum að þakka að mér gengi svona vel. Það væri bara gjöf sem ég hefði fengið, gjöf sem sumir hlytu en aðrir ekki. Ása var mjög ung en orð hennar voru vís. Þetta var svo satt. Hins vegar er það trú mín að ef ég væri latur og óánægður væri ég ekki svo mjög sæll með minn nýja mjaðmalið.

Gerðu ekki þetta og gerðu ekki hitt. Berðu ekki of þungt og hoppaðu ekki og margt fleira fékk ég að heyra. Notaðu hækjurnar í þrjá mánuði lærði ég og vertu duglegur við að þjálfa þig sagði Ása og allt liðið á sjúkrahúsinu, en farðu alltaf varlega. Ég notaði hækjurnar í þrjá mánuði, jók gönguferðirnar jafnt og þétt, hvíldi mig á milli, las, dottaði og fékk mér kaffisopa með Valdísi og svo gjarnan út á stutta göngu aftur. Það voru engar smíðar og enginn moldargröftur þessa þrjá mánuði og sannleikurinn er sá að þessi tími er afar ljúfur að minnast.

Nú hyllir í tíma þar sem ég þarf ekki að einbeita mér að daglegri byggingarvinnu, ég þarf ekki að fara margar ferðir á mánuði í Vornes en ég geti þess í stað farið að dingla mér svolítið eins og Ottó nágranni í Hrísey sagði svo oft. Ég vona að hann segi það enn í dag. Ég hlakka til þessa tíma sem ég sé hylla í. Þegar ég kem þangað veit ég að ég verð þakklátur fyrir að hafa tekist á við þessi annríkisár. Ljúfu stundirnar eru rétt handan við næsta leyti.


Ein panelfjöl. Það var ekki mikið en fallegt er eikarparkettið þó að það sé ekki gert úr stóru Sólvallaeikinni. Hún er nú orðin meira en aldar gömul en er samt enn á sínum yngri árum. Ég á engin sérstök verkfæri til að leggja parkett með. Ferkantaða fatan þarna er fré honum Lennart nágranna og í henni varðveitir hann parkettgræjurnar sínar.

 
Hér er komið heldur lengra og mál fyrir kaffihlé. Búið að setja fætur undir rúmin og þau komin nánast á sinn stað. Nei annars, ekkert kaffi. Það er betra með björnsbersaft í hitanum.


Búið, komið að veggnum hinu meginn og þá verður ekki farið lengra og mál fyrir meira af björnsbersaft. Einn pakki af parketti eftir þannig að nú verður sett parkett á loftið líka en þó ekki fyrr en nálgast haust.


Látið ykkur ekki detta í hug að konan á myndinni sé ekki þátttakandi í annríkinu líka. Hún undirbjó parkettlagninguna með mér áfanga fyrir áfanga og þess á milli sló hún lóðina. Bletturinn sem hún er að slá þarna var óttalegt leiðindaland þangað til í fyrrasumar, grýtt, blautt, óslétt og með milklu illgresi. Svo felldum við þarna nokkur tré og hann Peter gröfumaður jafnaði það, hreinsaði úr því heilu bílfarmana af miklu stórgrýti og fyllti svo í það með góðri mold og jafnaði. Þar með vorum við búin að fá baklóð.

Í vor vorum við í járn og málningarvöruversluninni í Fjugesta og þá fann Valdís heyrnarhlífar sem hún var búin að tala um lengi. Auðvitað vorum við oft búin að ganga fram hjá þessu í verslunum en nú varð af kaupunum. Í heyrnarhlífunum eru nokkrar útvarpsrásir þannig að þegar Valdís slær er hún í sínum heimi með þeim rásum sem hún velur sér. Og svo verður lóðin svo undur fín eftir sláttinn.

Spengilegur kall

Í kvöld þegar ég var búinn að leggja þrjár breiddir af parkettinu á nýja herbergið borðuðum við kvöldmatinn. Ég gat ekki hugsað mér að borða fyrr en ég væri byrjaður að leggja og þegar þrjár breiddir eru komnar og allt fellur vel þá er línan bein. Svo skorðaði ég þessar þrjár breiddir og við borðuðum. Ef ég hefði ekki byrjað á þessu hefði ég jafnvel ekkert gert eftir kvöldmatinn. Við erum í þörf fyrir að nota tímann vel núna því að herbergisins er þörf. Valdís var mér til hjálpar með undirbúninginn en þetta parkett sem við erum með er eiginlega lang best að leggja einn.

Eftir kvöldmatinn settist ég aðeins fyrir framan sjónvarpið og hlustaði Christer Sjögren söngvara Víkinganna syngja við fjöldasöng í Gautaborg og aftur og aftur kom hann að þessari setningu: "og lífið hefur verið gott við mig". Svo lagðist ég á hnén, lagði meira parkett, og velti þessum texta fyrir mér. Jú, mér fannst þetta líka að lífið hefði verið gott við mig. Auðvitað get ég fest mig við ákveðna atburði og bara verið þar og harmað en ég held að það sé ekki reiknað með því að við manneskjurnar gerum það. Parkettið var mjög fallegt og herbergið varð fallegra og fallegra við hverja röð sem ég lagði. Ég lagði fjórar raðir í viðbót við það sem ég lagði fyrir kvöldmatinn.

Það var endurtekið í dag samtal við hann Martin Lönnebo frá í gær, sunnudag. Þennan mann hef ég nokkrum sinnum minnst á áður í bloggum mínum. Ragnar heitir sá sem talaði við hann og inn í miðju samtalinu spurði Ragnar hann hvort sorgin hefði ekki knúið dyra hjá honum. Auðvitað vissi Ragnar það en spurði samt til að leiða þáttinn að ákveðnu markmiði. Jú, Martin, þessi áttræði maður, þekkti sorgina og sagði að fyrsta verulega sorgin hefði komið þegar konan hans kom heim frá rannsókn á sjúkrahúsi þá ófrísk af syninum Jónasi.

Það sem hún hafði að segja eftir þessa rannsókn var að barnið sem hún gengi með hefði skaðast og þau mundu trúlega aldrei geta talað við það og barnið mundi aldrei geta séð um sig sjálft. Þau voru stödd í forstofunni þegar hún sagði frá þessu og Martin sagði að honum hefði sortnað fyrir augum við að heyra þetta og sorgin hefði fyllt forstofuna. Svo fæddist Jónas og allt þetta "trúlega" gekk eftir og helsta tjáning hans var að fara í langar gönguferðir með föður sínum, haldandi hönd í hönd, fimmtugur sonur og áttræður faðir, og hljóðir njóta saman þeirrar náttúru sem þeir hrærðust í. Trúlega hefur Jónas kennt mér mest af öllum sagði öldungurinn, maðurinn sem fólk vill bara hlusta á aftur og aftur ef það hefur einu sinni gefið sér tíma frá erlinum til hlusta á hann.

Ég er kannski orðinn of alvarlegur en Martin Lönnebo segir líka að mannkynið skorti alvöru. Hann getur samt gert að gamni sínu eins og hver annar en þó alls ekki hvernig sem er. Nú er hann orðinn of fullorðinn til að fara í langar gönguferðir með Jónasi. Ég er stundum minntur á það að ég er stirður í hálsinum eins og til dæmis í dag þegar ég var eitthvað að bogra og þurfti að líta aftur fyrir mig. Um tíma dofnaði ég oft í vinstri handlegg og hendi og átti stundum erfitt með að finna stellingu sem hjálpaði. Ég setti þetta í samband við stirðleikann í hálsinum. Af því að þetta var nú í vinstri handlegg fór ég að lokum til læknis til að fá einhverja umsögn um þetta.

Ég hitti Ewu, pólska konu, væntanlega aðeins á fimmtugsaldri. Hún þreifað á mér, ýtti á magann, potaði í mig, vaggaði höfðinu á mér og sneri út á hlið eins og hægt var. Svo tók hún blóðþrýstinginn, hlustaði mig, skoðaði blettina á bakinu á mér og sendi mig að lokum til hjúkrunarfræðings til að láta taka plóðprufur. En Eva sagði eitt þegar hún var að vagga höfðinu á mér: þú ert dálítið álútur og þyrftir kannski að gera eitthvað í því. Svo talaði hún um sjúkraþjálfara. Að lokum sagðist hún vilja að ég léti taka röntgenmynd af hálsinum, hún mundi senda tilvísun.

Þegar ég gekk út á bílastæðið hugsaði ég um þessi orð Ewu. Hún vildi mér vel. Ég rétti nú vel úr mér og reyndi að spenna hálsliðina svolítið aftur. Þá fann ég að Ewa hlaut að haf sagt satt því að ég varð lofthræddur og það lá við að mig svimaði. Eitthvað hafði nú teygst úr kauða við það að kona talaði um líkamsburði hans. Hvern einasta dag man ég eftir því sem Ewa sagði og stuttu síðar var talað um svona í sjónvarpsþætti og þar var bent á að þeir sem ækju langar leiðir úr og í vinnu ættu að nota tímann til að rétta úr hálsinum og nota hnakkapúðann sem hjálpartæki. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig ég sit nú þegar ég ek til og fá Vornesi. Það verður ögn spengilegur maður sem þið mætið þegar ég kem í næstu Íslandsferð. Það er ekki víst að alllir komi til með að þekkja glæsimennið.

Svo aftur að alvörunni og röntgenmyndatökunni sem ég fór í fyrir einum þremur mánuðum. Ewa sendi mér bréf varðandi hana og sagði þar að ég væri með gróflega slitna hálsliði og artros. Ég skil í rauninni bara fyrri hlutann; gróflega slitna hálsliði. Fyrst krossbrá mér. Síðan hugsaði ég sem svo að auðvitað eru allir sem komnir eru á fullorðins ár með slitna hálsliði og hryggjarliði almennt. Eitt sinn heyrði ég lækni segja við alvarlegt tilfelli að allir sem væru komnir yfir tuttugu og eins árs aldur væru farnir að slitna í hryggjarliðum. Nú, ég festist ekki í þessu. Ég er stirður í hálsinum óneitanlega, hef ekki verk nema þegar ég reyni dálítið hraustlega að líta við og er liðugri ef ég tek eina verkjatöflu sem ég geri þegar ég er að gera eitthvað sem reynir á hálsinn.

Almennt man ég ekki eftir þessu að öðru leyti en því að ég reyni einhvern tíma á deginum og oft margsinnis á dag að rétta úr hálsinum. Ewa sagði nefnileg annað í bréfinu sem var mikið mikilvægara. Hún sagði að almennt væri ég vel frískur og ekkert hefði verið athugavert við blóðprófin. Að lokum ítrekaði hún að ég gæti haft samband við sjúkraþjálfara. Hver veit hvað ég geri þegar hausta tekur ef ég ekki missi áhugann á að verða spengilegur.

Nú er mál að ganga til fundar við Óla Lokbrá.

Heppin með veðrið - eða ekki heppin með veðrið

Fyrir áratugum var gerð sænsk mynd sem heitir "Við vorum þó alla vega heppin með veðrið". Þessi mynd hefur verið sýnd öðru hvoru í sjónvarpi gegnum árin og hún fjallar um ung hjón sem fóru í sumarfrí á húsbílnum sínum og annað hvort pabbi hans eða pabbi hennar var með í ferðinni. Eiginmaðurinn heitir Gösta og honum var lagið að verða brjálaður af reiði með jöfnu millibili og gera alls kyns vitleysur, bæði í bræði og ekki bræði. Að lokum gafst pabbinn upp og hjónin urðu tvö eftir og Gösta breyttist ekki. Nú er búið að gera framhaldsmynd og Gösta og frú eru orðin ellilífeyrisþegar og fara í ferðalag á nýjum húsbíl.

Gösta hefur ekkert breytst á þessum 30 árum og hann heldur enn í dag áfram að rúka upp í bræði og gera margs konar vitleysur, bæði reiður og ekki reiður. Við horfðum á þessa mynd áðan og aldrei slíku vant tókst mér að horfa á myndina næstum frá byrjun og svo gat ég ekki hugsað mér annað en sjá hana til enda. Nafnið, "Við vorum þó alla vega heppin með veðrið" segir það sem segja þarf, veðrið var gott í báðum myndunum en ekkert annað gekk upp.

Torp er 1,9 km frá Sólvöllum ef við förum þangað á bílnum eftir all krókóttum vegi. Bein loftlína er trúlega innan við einn km. Fríkirkjusöfnuðirnir í Svíþjóð eiga Torp sem er gömul jörð og á þessar jörð er gríðarlega mikið af húsakynnum allskonar, bæði frá búskaparárum í Torp og svo alls konar byggingar sem eru nýrri. Í Jónsmessuvikunni á áru hverju er svo landsmót þessara söfnuða í Torp og það er minnst sagt mikil samkoma. Þar er þá dagskrá í heila viku og á kyrrum kvöldum heyrum við heim á Sólvelli þegar Carola syngur andlega söngva og prestar predika við messur.


Hversu mikið er þarna af fólki veit ég ekki enda hugsa ég að það viti eiginlega enginn þar sem bílar koma og fara án afláts allan daginn. Þó er talað um að allt að 15 000 manns sæki landsmótið heim á hverju ári. Þegar ég fer í vinnu ek ég í gegnum Torpssvæðið og þá gefur að líta aldeilis ótrúlega stórt hjólhýsasvæði sem við sjáum að hluta á myndinni. Í gær vorum við Valdís í Torp og skoðuðum okkur svolítið um þar og fylgdumst með athöfnum fólks. Sem dæmi gaf þar að líta gríðarlega stóra bókaverslun sem einungis er opin á landsmótinu. Þar voru fyrst og fremst til sölu bækur um andleg og trúarleg efni og á niðursettu verði. Það var ekki hægt að ná mynd af hjólhýsa og húsbílasvæðinu öllu á einni mynd og við vorum að giska á að það væri á stærð við Dalvík. Valdís kona mín er til hægri á myndinni, eins á þeirri næstu.


Það var fólk bókstaflega um allar jarðir þarna en þó mest á svæðinu sem við sjáum á myndinni. Það var verið að dansa kringum svonefnda maístöng þegar ég tók myndina. Eins og ég sagði var fólk bókstaflega um allar trissur þarna en samt var allt svo notalega rólegt og vandræðalaust. Lögregla er aldrei á svæðinu en fer kannski einstaka ferð gegnum svæðið meðan á mótinu stendur. Ég hef aldrei heyrt að það hafi orðið vesen á þessum landsmótum, að það sé verið að gefa á kjaftinn, nauðga eða sparka. Hámarkshraðinn á veginum gegnum Torpssvæðið er alla jafna 70 km en meðan á mótinu stendur er hann lækkaður niður í 50 og 30 km. Allir viðrast taka því með jafnaðargeði og allt gengur slysalaust. Segið svo að það séu engin andlegheit í þessu landi skóganna.

En viti menn. Við Valdís vorum ekki eins heppin með veðrið og þau í myndinni í kvöld. Allt í einu gerði hálfgert skýfall og gegnblaut tókum við okkur heim í hýjuna á Sólvöllum.

Annatími

Það er bara svo mikill annatími að ég má ekki vera að því að blogga og enn einu sinni hefur liðið heil vika á milli blogga. Í þetta skipti ætla ég bara að láta vita að við séum í gangi ennþá og birta nokkrar myndir. Þessar annir eru afleysingar í Vornesi og svo auðvitað framhaldsþátturinn smíðar og almenn byggingarvinna. Utan þetta er bara það allra nauðsynlegasta annað framkvæmt sem ekki verður komist hjá að sinna.


Þrátt fyrir annríkið létum við eftir okkur að fara einn rólegan hring í skóginum. Það er mikil blaðgræna sem þarna umlykur Valdísi. Það eru engin beð eða klipptar runnaraðir þarna, það er bara gróðurinn eins og hann skipuleggur sig sjálfur. Að vísu var grisjað þarna mikið af reyniviði í fyrra og þyrfti að gera aftur nú, en að öðru leyti er það skrúðgarður náttúrunnar sjálfrar sem við sjáum á myndinni. Burknaflákarnir ná manni í mitti og sums staðar í miðja bringu. Þeir eru í sínu allra besta formi einmitt núna.


Hann er eitthvað skakkur og lúðalegur kallinn þarna á myndinni. Nei heyrðu! þetta er ég! Við hliðina á mér þarna er eitt af stoltunum mínum í skóginum, beikitré, sem var bara þokkalega stór planta 2006 þegar við fluttum hana frá Vingåker. Þetta beykitré vex jafnt til allra átta en sum þeirra vaxa hins veger meira upp á við. Þarna hefur mannshöndin verið meira á ferðinni og það eru fimm beykitré að vaxa upp í dálitlu rjóðri með stuttu millibili. Þau eru í góðu skjóli þarna, umgirt meira en 20 m háum skógi á alla vegu.


Eftir skógarrölt var stuttur kaffitími og svo tók ég mér pensilinn í hönd og málaði loftlistana sem ég setti upp fyrr í dag. Það varð breyting á framkvæmdaáætluninni sem gerð var um síðustu helgi. Málarin kom ekki í vikunni eins og við gerðum ráð fyrir og við unnum í gluggaáfellum í staðinn fyrir að leggja parkett á gólfið í þessu herbergi. Það var ekki málaranum að kenna að hann kom ekki. Það var veðrinu að kenna. Veðurfræðingarnir gerðu ráð fyrir talsverðri rigningu í vikunni, rigningu sem ekki kom, og við málarinn gerðum um það að smakomulagi að hann yrði hér fyrst og fremst þegar rigndi.

Það er nefnilega útimálningarvertðið um þessar mundir og málað inni aðeins í votviðri. Að vísu kom hann tvo tíma á föstudaginn var svo að við hættum ekki alveg að þekkja hvor annan í sjón. Að ég mála loftlistana sjálfur byggist á sérvisku minni. Ég vil nefnilega gera það á minn hátt og málarinn er sáttur við það. Gluggaáfellurnar eru nú næstum tilbúnar til uppsetningar en ég var búinn að hugsa mér að setja þær ekki upp fyrr en síðla sumars. Þetta herbergi verður mjög fínt eins og annað hér á Sólvöllum. Við tökum það í notkun í næst næstu viku.


Valdís fór í ferðalag á föstudaginn var. Hún fór í svonefnda ullarferð. Svíarnir fara í þannig kynningarferðir af ýmsu tagi og þessi var tileinkuð ullarvörum. Að vísu er þessi mynd ekki af neinum ullarstað, heldur af veðreiðavelli sem heitir Solvalla eða Sólvellir ef við snúum nafninu á íslensku. Valdís tók þessa mynd yfir hluta vallarins frá matsölustað þar sem ferðafólkið borðaði hádegisverð.

Dagbók sunnudaginn 12. júní

Ég lá um kyrrt dálitla stund eftir að ég vaknaði í morgun og velti fyrir mér hvernig best væri fyrir mig að nota daginn. Það nefnilega lá fyrir verkefni sem mér leiðist alltaf jafn mikið. Ég þurfti að skila ákveðinni skattaskýrslu til tryggingarstofnunar. Allt frá því að ég byrjaði að gera þetta þegar Valdís fór fyrst að fá greitt frá stofnunni fyrir all mörgum árum hefur verkefnið farið í taugarnar á mér. Ég hef líka átt erfitt með að skilja það sem ég þarf að gera grein fyrir, hvernig á að gera það, hvað og hvers vegna. Einu sinni á ári þurfum við að gera áætlun og einu sinni á ári að skila endanlegum tekjum. Það er of langt á milli til að muna hvernig á að gera og mér er ómögulegt að vera alltaf að hringja. Í verkefnaskiptingu okkar fellur þetta í minn hlut og ég er of barnalegur til að geta farið í þetta sem fullorðinn maður. Svona skýrslu gerir fólk einu sinni á ævinni hér í Svíþjóð og svo ganga hlutirnir af sjálfu sér eftir það.

Fyrst var það morgunverður hjá okkur, svo messa og svo varð ekki undan því komist að byrja skýrslugerðina. Ef ekki mundu greiðslur til okkar falla niður. Að vísu myndu engar greiðslur til mín falla niður þar sem ellilífeyrir minn frá tryggingarstofnun er 0. Þegar ég hafði lagt pappírana á borðið stöðvuðu öll meltingarfæri starssemi sína og maginn varð óhuggulega þungur. Svo þungur að ég hefði örugglega hætt að fljóta á sundi. Mér leið illa! Svo byrjaði ég að reikna út því að auðvitað þurfum við að svara þannig að beinar tölur sænsku tryggingarstofnunarinnar er ekki hægt að færa nákvæmlega í viðeigandi reiti á íslensku skýrslunni. Ég reyndi að fara ekki í fýlu og á nákvæmlega réttum tíma fór Valdís út að slá. Það var best þannig. Svo lauk skýrslugerðinni og á morgun þarf ég að taka ein átta ljósrit og svo er þetta tilbúið. Umslögin eru meira að segja tilbúin með utanáskrift og öllu og maginn er smám saman á leiðinni í gang aftur.

Hætti ég hér með þessu hálfgríni að sjálfum mér og sný mér að grænnni víddum. Valdís var jú úti að slá og ég ákvað með sjálfum mér að það yrðu engar smíðar í dag. Ég ætlaði líka að snúa mér að snyrtingu á þeim náttúrunnar skrúðgarði sem umhverfi okkar er hér um þessar mundir. En fyrst gekk ég út með myndavélina.


Við norðurgafl hússins stendur þessi gamla alparós. Það svo sem ber ekki mikið á því, en hún skemmdist mikið í snjóþyngslunum í fyrravetur. Það brotnaði mikið innan úr henni og það var ekkert annað gera en taka sig inn í hana miðja og beita söginni harðneskulega. Ef við tökum myndir af henni frá vissri átt ber ekki mikið á skemmdunum en ef ekkert hefði skeð væri hún all nokkru hærri og væntanlega fallegri að sama skapi. Valdís tók þessa mynd í gær.


Þessa mynd tók Valdís líka í gær af annarri alparós. Hún var litlu minni en sú fyrri en þegar hann Arne gekk frá frárennsli með tilheyrandi útbúnaði 1996 var þessi alparós fyrir honum. Að lokum gafst hann upp við að fara varlega í kringum hana og tók helminginn af henni í vélskófluna og færði til hliðar. Sá helmingur fór algerlega forgörðum og endaði sem uppfylling einhvers staðar. Með áburðargjöf og umhyggju hafa báðar þessar alparósir endurheimt sig ótrúlega. Valdís sparaði ekki við þær áburðargjöfina í vor.


Ég sagðist hafa farið út með myndavélina. Valdís var nú hætt að slá á lóðinni og var komin út í skóg og þar var hún að slá krákustíga eða völundarhús sem í fyrra voru gerð með hjólbörum, skóflu og garðhrífu fyrir barnabörn að leika sér í. Þar er hægt að hlaupa, fela sig, skoða pöddur, broddgelti, einstaka frosk og fugla. Komast í námunda við berjalyng og ber, runna, margs konar trjástofna og mikið grænt haf af miklu samansafni af plöntum og gróðri. Það hefur þegar komið í ljós að völundarhúsið er líka ljómandi vetvangur fyrir fullorðna.


Hér er Valdís er komin lengra í beyjunni . . .



og hér er hún snúin við og farin inn í næsta áfanga.




Ég auðvitað setti myndavélina þar sem Valdís tæki eftir henni og svo setti ég motororfið í gang. Sums staðar er skógarbotninn orðinn eins og kafloðið tún og nauðsynlegt að slá hann. Þetta er að vísu mjög snemmt en ef við sláum ekki þennan gróður verða skógarsóleyjarnar og fleiri blóml ekki eins falleg næsta vor. Ég þarf væntanlega að gera þetta aftur í lok ágúst. Kristinn dóttursonur var hér í viku í fyrra og þá sló hann mikið með mótororfinu og létti mikið undir fyrir mér.


Þetta er mikið skemmtilegra en skýrslugerð til tryggingarstofnunar. Þegar byggingarvinna á Sólvöllum minnkar og Vornesvinna með, verður meiri tími til að sinna svona skemmtilegum verkum. Mikið verður gott að vera ellilífeyrisþegar á Sólvöllum í góðum húsakynnum, með náttúruna inn á gafli og með nægan tíma til að hjálpa henni. Grisjun, gróðursetning og aðhlynning eru farin að hafa mikil áhrif á Sólvallaskóginn en það er eiginlega fyrst á þessu vori sem það er virkilega að skila sér.

Ég held bara að ég sé að verða búinn að ná mér eftir skýrslugerðina.

Þjóðhátíðardagur

Það hefur verið mikið "Jag vill leva jag vill dö i norden" í dag sem eru lokaorðin í sænska þjóðsöngnum. Ég kom heim frá vinnu upp úr klukkan fimm. Það eru nefnilega sumir svo mikilvægir að þeir verða að vinna á þóðhátíðardaginn líka. Ég er búinn að horfa á tvo þjóðhátíðardagsþætti með Valdísi og það var alls ekki svo vitlaust. Í öðrum þættinum komu nokkrar manneskjur saman og einfaldlega töluðu um þjóðhátíðardaginn frá mörgum sjónarhornum. Meðal þessa fólks var ein finnsk kona og ein kúrdisk kona. Kúrdiska konan talaði um frelsið sem hefði boðið hana velkomna til Svíþjóðar og hún talaði um landið sem möguleikanna land sem hún elskaði. Sú finnska sagði að ekkert land hér um slóðir byði fólki frá svo mörgum löndum velkomið til að taka þátt í þjóðhátíðarfagnaði. Báðar konurnar af erlendum uppruna eru leikkonur í Svíþjóð.

Í þessum þætti var sýnt frá þjóðhátíðardegi Norðmanna og fréttamaðurinn sem hafði verið sendur til að annast þá upptöku var svört kona. Fyrir nokkrum árum hélt hálf svrt kona ávarp þjóðhátíðardagsins. Hér heima sátum við Valdís svo og horfðum af áhuga á þáttinn og mundum ekkert eftir því að við værum ekki Svíar. Ég held að enginn í Vornesi hafi heldur velt því fyrir sér í dag að ég væri ekki hreinræktaður Svíi.

Litla veðurstöðin hennar Valdísar spáir rigningu og þrumuveðri. Hún er að vísu búin að spá rigningu í tvo daga en ekki hefur rignt ennþá. Veðurspáin í sjónvarpinu í gær gerði líka ráð fyrir rigningu í dag en allt kom fyrir ekki. Hins vegar sá ég í veðurathugun minni áðan að dökkir bakkar dragast nú upp á himininn frá suðvestri til norðvesturs. Þegar ég lagði af stað heim um fjögur leytið var Vorneshitamælirinn í 27 stigum, mælirinn í bílnum í 28 stigum og þegar ég kom heim voru allir mælar í 29 stigum. Það er því sumar.

Ég hef ekki bara horft á sjónvarp í kvöld skuliði vita. Ég gekk auðvitað á vit vina minna sem mynda skóginn bakvið húsið. Ég brá tommustokknum á álminn sem ég flutti í fyrra af gamla túninu vestan við húsið og hann mælsdist 125 sm. Og hvað ætli sé merkilegt við það? Ég kem að því. Eitthvað tré sem ég ekki þekkti óx alveg gríðarlega hratt við skurðbarm eina fimmtán metra frá húsinu. Ég klippti allar plöntuspírur þarna burtu árið 2007 og hélt að þetta væri allt reyniviður og aspir. En svo bara æddi þessi planta upp á óttrúlega stuttum tíma og er nu orðin að tré. Ég tók blað með mér til hans Ingemars garðyrkjumanns og hann þekkti þegar í stað að þarna væri álmur á ferðinni.

Þar með vissi ég hvernig álmur lítur út. Um mánuði eftir að hann Arnold sló gamla túnið vestan við húsið okka í fyrra, það er að segja í ágúst, gekk ég um túnið og fann nokkra álma sem þá voru orðnir um 30 sm háir þrátt fyrir að hafa verið slegnir niður mánuði fyrr. Ég sótti þrjú stykki og gróðursetti út í skógi. Tíminn til að gera þetta var á móti allri skynsamlegri þekkingu, en viti menn; hæðin á þessum plöntum er nú upp í 125 sm sem fyrr er sagt.

Það gengur trjásjúkdómur í Svíþjóð sem kallaður er álmveikin. Gert er ráð fyrir að allir álmar í þessu landi verði sjúkdómnum að bráð. Afar fallegar, langar raðir af gömlum álmum við gamlar götur í Örebro hafa gert þessar götur þekktar í bænum um langan tíma. En því miður; álmarnir eru dauðir. Fyrir nokkrum árum talaði ég um þetta við Ingemar, þann sem ég nefndi áðan. Hann sagði einfaldlega að hann tryði ekki á þetta. Svo sagði hann: hugsaðu þér ef tvöföldu álmaraðirnar við Karlshertogaveginn dræpust, nei, það bara má ekki henda. Nú er það skeð. Nú ætla ég að hlú að nokkrum álmum hérna og ég neita að trúa því að þeir drepist úr álmaveikinni. Ef sá draumur minn mundi nú rætast komum við Valdís til með að verða álmfræjakaupmenn framtíðarinnar. Ég man ekki betur en að loftplöturnar í stofunni í Sólvallagötu 3 séu spónlagðar með álmi.

Ég birti svo að lokum myndir af barnabörnum.


Hér er hann nafni minn á rölti í Stokkhólmi með myndavélatösku foreldranna sinna.


Hér eru svo systurnar frá Vestmannaeyjum að leika sér í Reynisfjöru. Kristinn bróðir þeirra tók myndina. Ég vona svo að hann sendi mér nýja mynd af sér og kærustunni.

Að lokum óska ég þeim sem eiga við sárt að binda um þessar mundir góðs bata og góðra daga.

Helgarlok

Ég var að koma úr einum hring í skóginum og klukkan er níu að kvöldi. Ég fór of seint af stað á þetta rölt mitt sem ekki er hægt að kalla gönguferð. Ég byrjaði að horfa á sjónvarpsþátt um sænska konu sem hafði verið í fangelsi í Bandaríkjunum í 28 ár en fluttist svo þaðan í fangelsi í Svíþjóð. Hún er nú frjáls manneskja eftir meira en 29 ára frelsissviptingu. Ekki leit hún glæpamannslega út og ekki kom hún fram sem illmenni, heldur sem friðsöm manneskja sem hefur tekist að komast út úr hremmingum lífs síns án biturleika og harms. Henni hafði verið fundið að sök að meðverka til morðs.

En sem sagt, þetta tafði skógarröltið. Mauraþúfan sem lengst af hefur verið eins og keila er engin keila lengur. Hún er nú orðin að fjalli í laginu eins og Harðskafinn í bernskusveit minni. Það eru aðallega tvær farleiðir sem maurarnir hafa yfir gönguslóðina og þeim bara fjölgar og fjölgar sem eru þar á mikilli ferð fram og til baka. Ef maður stoppar eitt augnablik leggja þeir af stað upp fótleggina og gera það jafnvel þó að maður stoppi ekki. Svo var það í kvöld. Ég varð hans þó ekki var fyrr en hann var innan á vinstra hnénu og ég hefði svo sem getað leyst niður um mig þar sem ég var staddur en ég beið. Svo þegar maurinn var kominn upp í nára renndi ég niður buxnaklaufinni og sleppti honum út í frelsið á ný. Ég vona að honum verði ekki refsað í mauradómi fyrir uppátækið.

Ég er alltaf að dást að góða veðrinu og gróskunni hjá okkur. Ég hringdi áðan í hana Fríðu systur sem er austur á Kálfafelli í sumarhúsinu sínu. Ég heyri að það er munur á landgæðum þessa dagana og veðri líka. Hér er búinn að vera yfir 20 stiga hiti all lengi en frekar lítil úrkoma. Nú er spáð rigningu með köflum í þrjá daga en þó á hitinn ekki að fara niður fyrir 20 stig á daginn. Að rigningardögunum loknum á svo hitinn að fara upp í 27 stig að deginum. Ég laumaðist með tommustokkinn með mér og sem dæmi get ég nefnt að beykitrén mín hafa breikkað um 45 til 75 sentimetra. Hæðina get ég ekki mælt lengur þar sem þetta eru orðin of stór tré til þess að mæla á þann veginn. Trúlega er vaxtartímabilið aðeins hálfnað.

Mér verður oft hugsað til bæjanna í Fljótshverfinu þar sem askan hefur orðið til mikilla vandræða. Þreytt hlýtur fólk að vera þar um þessar mundir en ég vona að enginn gangi of mikið á krafta sína. Ef það er rétt að askan upp við eldstöðvarnar sé 170 sm djúp hefur orðið þar mikil breyting. Á þeim slóðum eru margar ótrúlega fallegar vinjar í annars grýttu og körgu landslagi, en þó er þetta landslag allt mjög fallegt. Fossabrekkan og Fossahraunið er með þeim svæðum sem ég upplifi allra auðugust af kyrrð og andlegum ríkidómum af þeim svæðum sem ég hef heimsótt. Lindirnar í mis lítið uppgrónu Fossahrauninu upp af sjálfum Fossunum eru perlur, perlur sem líkjast djúpbláum augum ungrar, fallegrar konu sem dreymin horfir mót himni. Ég er sannfærður um það að þessar lindir eiga eftir að hreinsa sig af öskunni og ég á mér draum um að heimsækja þær einu sinni enn.

Nú er kominn háttatími fyrir mig ellilífeyrisþegann og við erum ótrúlega nánir vinir ég og Óli Lokbrá. Ég sagði í blogginu mínu í gær að ég ætlaði alla vega að setja í eina hurð í dag og ég stóð við það. Þessi hurð var aðeins meira en venjuleg hurðarísetning og ég sætti mig við það að það varð ekki meira. Ein hurð er vel merkjanlegur áfangi. Að svo búnu segi ég góða nótt.

Eftir viku þögn

Hvað er eiginlega á seiði með mig? Ég var að gá að því hvað það er langt síðan ég bloggaði og það er bara heil vika. Svo gekk ég um húsið og reyndi að telja upp hvað ég hefði gert hér heima þessa viku og lengi vel fannst mér sem ég hefði ekkert gert annað en leggja eina rönd af parketti meðfram vesturveggnum í gamla hlutanum, það er að segja síðustu röndina sem ég þurfti líka að saga á breiddina. Svo rak ég allt í einu augun í tvær hurðir sem standa upp við vegg fram í nýju forstofunni. Já, alveg rétt. Við fórum bæði með fulla kerru af rusli á endurvinnslustöðina og tókum hurðirnar í sömu ferð. Svo hafði ég unnið fjóra langa daga og frekar en að gera ekki neitt á kvöldin eftir að ég kom heim setti ég upp hillur út í geymslu og bar líka 100 lítra af vatni á lindina suður á lóðinni sem er svolítið eftirlætistré eins og svo mörg önnur tré hér hjá okkur. Svo gerði ég klárt með moltuna sem ég hafði trassað og nú er vinnslan þar komin í fullan gang og það er ylur undir lokinu.

Valdís er með vondan hósta sem vill ekki láta undan. Samt hefur hún verið að koma skipulagi á heimilið og tína frá hluti sem ekki hafa verið notaðir lengi og þeir bíða nú flutnings á endurvinnslustöðina. Það er mikið sem breytir um stað núna þegar góð eldhúsinnrétting er komin upp og Valdís skipuleggur og gengur frá en ég finn ekki og verð að spyrja mig áfram. Það er líka svolítið skrýtið með suma hluti. Við vorum úti áðan og vökvuðum og ég reytti hávaxinn gróður frá nokkrum minni trjám.

Svo greip ég mótororfið og það flaug í gang í fyrstu tilraun eftir veturinn. Þegar ég ætlaði að grípa axlaböndin sem það hangir í við notkun héngu þau alls ekki á naglanum sínum. Ég fór svo augum um allt okkar geymslupláss og fann ekkert. Þegar ég spurði Valdísi hvort hún hefði rekið augun í axlaböndin sagði hún að þau ættu að hanga á naglanum sínum en ég sagði svo ekki vera. Þá kom valdís út og leitaði á þessum margnefnda nagla og rétti mér axlaböndin. Ég skil ekki almennilega hver hefur verið að atast í mér og fela fyrir mér böndin og vera svo kominn með þau í tíð til að Valdís gæti fundið þau á sínum stað. Alveg merkilegt það!

Nokkru fyrir hádegi í dag, laugardag, fórum við Valdís í Vornes. Það er orðin hefð fyrir því að fyrsti laugardagurinn í júní er svonefndur Vornesdagur þar sem öllum sem hafa verið í Vornesi í meðferð er gefinn kostur á að hittast. Fólki er boðið upp á kaffi og saft og brauð að vild og að sitja AA fund. Svo talar fólk mikið saman og þarna hittast meðferðarfélagar fyrri ára. Ég held kannski að Valdís hafi svo sem ekkert sérstaklega gaman að því að vera þarna þennan dag. Hún hittir mig ekki svo mikið eftir að við erum stigin út úr bílnum þar sem allir koma og vilja heilsa. Meðan ég deili nokkrum orðum með þeim fyrsta kemur sá næsti og heilsar. Þannig tekur það mig kannski upp undir klukkutíma að komast hundrað metra frá bílnum og að samkomutjaldinu.

Þetta fólk getur sagt mér af áhuga frá einhverju sem ég sagði fyrir átta eða fimmtán árum og hversu mikilvægt það var. Ekki man ég eftir þessu, eða öllu heldur sjaldan, en vissulega er fróðlegt að heyra um hluti sem voru þessu fólki mikilvægir fyrir löngu síðan. Læknir einn sem skrifaðist inn á meðferðarheimilið fyrir fjórtán árum segir mér á hverju ári að ég hafi komið út á móti honum, heilsað hann velkominn og spurt hann hvort hann væri búinn að draga upp hvíta fánann. Ég man ekki eftir þessu en ég veit af eigin raun að það er sá sem finnur sig minni máttar í stöðunni sem man betur. Það er líka mjög rökrétt að segja svona. Að draga upp hvíta fánann er tákn um uppgjöf í bardaga og það stendur skrifað að enginn getur hætt drykkjuskap nema vilja það sjálfur. Maður verður að gefast upp.

Mig dreymir um að vakna tímanlega í fyrramálið og setja saman karminn fyrir eina hurð fyrir sjónvarpsmessuna og setja svo hurðina í eftir messuna. Ég þori ekki að ákveða meira því að ég fer í vinnu snemma á mánudagsmorgun. Svo vinn ég líka tvö kvöld næstu viku. Þó að ég kvarti minna undan þreytu en ungu ráðgjafarnir skal ég viðurkenna að ég verð þreyttur. Mér finnst það líka hversu eðlilegt sem helst að verða þreyttur af því að vinna. Öðrum kosti leggur maður afar lítið af mörkum. Kannski segi ég eitthvað næstu viku sem einhver man eftir fimmtán ár. Kannski, vonandi, segi ég eitthvað í næstu viku sem getur hjálpað einu eða fleiri börnum að fá til baka mömmu sína eða pabba. Annars er það ekki aðallega það sem ég segi sem getur hjálpað illra staddri manneskju, en ef einhverjum sem sér mig og heyrir telur að ég hafi líf sem vert er að lifa án áfengis, þá er miklu náð.
RSS 2.0