Dagbók sunnudaginn 12. júní

Ég lá um kyrrt dálitla stund eftir að ég vaknaði í morgun og velti fyrir mér hvernig best væri fyrir mig að nota daginn. Það nefnilega lá fyrir verkefni sem mér leiðist alltaf jafn mikið. Ég þurfti að skila ákveðinni skattaskýrslu til tryggingarstofnunar. Allt frá því að ég byrjaði að gera þetta þegar Valdís fór fyrst að fá greitt frá stofnunni fyrir all mörgum árum hefur verkefnið farið í taugarnar á mér. Ég hef líka átt erfitt með að skilja það sem ég þarf að gera grein fyrir, hvernig á að gera það, hvað og hvers vegna. Einu sinni á ári þurfum við að gera áætlun og einu sinni á ári að skila endanlegum tekjum. Það er of langt á milli til að muna hvernig á að gera og mér er ómögulegt að vera alltaf að hringja. Í verkefnaskiptingu okkar fellur þetta í minn hlut og ég er of barnalegur til að geta farið í þetta sem fullorðinn maður. Svona skýrslu gerir fólk einu sinni á ævinni hér í Svíþjóð og svo ganga hlutirnir af sjálfu sér eftir það.

Fyrst var það morgunverður hjá okkur, svo messa og svo varð ekki undan því komist að byrja skýrslugerðina. Ef ekki mundu greiðslur til okkar falla niður. Að vísu myndu engar greiðslur til mín falla niður þar sem ellilífeyrir minn frá tryggingarstofnun er 0. Þegar ég hafði lagt pappírana á borðið stöðvuðu öll meltingarfæri starssemi sína og maginn varð óhuggulega þungur. Svo þungur að ég hefði örugglega hætt að fljóta á sundi. Mér leið illa! Svo byrjaði ég að reikna út því að auðvitað þurfum við að svara þannig að beinar tölur sænsku tryggingarstofnunarinnar er ekki hægt að færa nákvæmlega í viðeigandi reiti á íslensku skýrslunni. Ég reyndi að fara ekki í fýlu og á nákvæmlega réttum tíma fór Valdís út að slá. Það var best þannig. Svo lauk skýrslugerðinni og á morgun þarf ég að taka ein átta ljósrit og svo er þetta tilbúið. Umslögin eru meira að segja tilbúin með utanáskrift og öllu og maginn er smám saman á leiðinni í gang aftur.

Hætti ég hér með þessu hálfgríni að sjálfum mér og sný mér að grænnni víddum. Valdís var jú úti að slá og ég ákvað með sjálfum mér að það yrðu engar smíðar í dag. Ég ætlaði líka að snúa mér að snyrtingu á þeim náttúrunnar skrúðgarði sem umhverfi okkar er hér um þessar mundir. En fyrst gekk ég út með myndavélina.


Við norðurgafl hússins stendur þessi gamla alparós. Það svo sem ber ekki mikið á því, en hún skemmdist mikið í snjóþyngslunum í fyrravetur. Það brotnaði mikið innan úr henni og það var ekkert annað gera en taka sig inn í hana miðja og beita söginni harðneskulega. Ef við tökum myndir af henni frá vissri átt ber ekki mikið á skemmdunum en ef ekkert hefði skeð væri hún all nokkru hærri og væntanlega fallegri að sama skapi. Valdís tók þessa mynd í gær.


Þessa mynd tók Valdís líka í gær af annarri alparós. Hún var litlu minni en sú fyrri en þegar hann Arne gekk frá frárennsli með tilheyrandi útbúnaði 1996 var þessi alparós fyrir honum. Að lokum gafst hann upp við að fara varlega í kringum hana og tók helminginn af henni í vélskófluna og færði til hliðar. Sá helmingur fór algerlega forgörðum og endaði sem uppfylling einhvers staðar. Með áburðargjöf og umhyggju hafa báðar þessar alparósir endurheimt sig ótrúlega. Valdís sparaði ekki við þær áburðargjöfina í vor.


Ég sagðist hafa farið út með myndavélina. Valdís var nú hætt að slá á lóðinni og var komin út í skóg og þar var hún að slá krákustíga eða völundarhús sem í fyrra voru gerð með hjólbörum, skóflu og garðhrífu fyrir barnabörn að leika sér í. Þar er hægt að hlaupa, fela sig, skoða pöddur, broddgelti, einstaka frosk og fugla. Komast í námunda við berjalyng og ber, runna, margs konar trjástofna og mikið grænt haf af miklu samansafni af plöntum og gróðri. Það hefur þegar komið í ljós að völundarhúsið er líka ljómandi vetvangur fyrir fullorðna.


Hér er Valdís er komin lengra í beyjunni . . .



og hér er hún snúin við og farin inn í næsta áfanga.




Ég auðvitað setti myndavélina þar sem Valdís tæki eftir henni og svo setti ég motororfið í gang. Sums staðar er skógarbotninn orðinn eins og kafloðið tún og nauðsynlegt að slá hann. Þetta er að vísu mjög snemmt en ef við sláum ekki þennan gróður verða skógarsóleyjarnar og fleiri blóml ekki eins falleg næsta vor. Ég þarf væntanlega að gera þetta aftur í lok ágúst. Kristinn dóttursonur var hér í viku í fyrra og þá sló hann mikið með mótororfinu og létti mikið undir fyrir mér.


Þetta er mikið skemmtilegra en skýrslugerð til tryggingarstofnunar. Þegar byggingarvinna á Sólvöllum minnkar og Vornesvinna með, verður meiri tími til að sinna svona skemmtilegum verkum. Mikið verður gott að vera ellilífeyrisþegar á Sólvöllum í góðum húsakynnum, með náttúruna inn á gafli og með nægan tíma til að hjálpa henni. Grisjun, gróðursetning og aðhlynning eru farin að hafa mikil áhrif á Sólvallaskóginn en það er eiginlega fyrst á þessu vori sem það er virkilega að skila sér.

Ég held bara að ég sé að verða búinn að ná mér eftir skýrslugerðina.


Kommentarer
Þórlaug

Mikið er gaman að sjá hvað allt er grænt og gróskumukið í skóginum ykkar.

Ég er á Akureyri, þar reynir gróðurinn að sperra sig í kuldanum. Einstaka sinnum heyrist í sláttuvél en það er ekki oft. Það hlýtur bráðum að fara að hlýna, hefur alltaf endað þannig :-))



Bestu kveðjur í sumarið til ykkar.



Þórlaug

2011-06-14 @ 14:42:43
Guðjón Björnsson

Þakka þér fyrir Þórlaug. Já, það er mikil gróska og ég verð nú bara að segja að ég vona að það fari að hlýna hjá ykkur líka. Það er heldur svalara hér núna og það er bara notalegt eftir svo mikinn hitakafla að fá svolítinn svalka.



Með bestu kveðju frá Sólvöllum í Grænalandi

2011-06-14 @ 20:46:25
URL: http://gudjon.blogg.se/
Baldur Dýrfjörð

Sæll Guðjón

Ég vona að ég sé hér að hitta á rétta manninn eins og sagt er.

Baldur heiti ég og er starfsmaður Norðurorku sem m.a. rekur hita- og vatnsveitu í Hrísey.

Mér var bent á þig sem mögulegan eiganda einhverra ljósmynda frá uppbyggingu hitaveitunar í Hrísey.

Þætti ágætt ef ég fengi línu frá þér inn á netfangið mitt [email protected] - já eða þú sendir mér netfangið þitt þannig að ég geti upplýst þig nánar um erindið.



Kveðja, Baldur Dýrfjörð forstöðumaður þróunar hjá Norðurorku, Rangárvöllum, 603 Akureyri

2011-06-16 @ 18:30:17


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0