Eftir Íslandsferðina

Síðasta blogg birti ég þann 5. október og það lauk á þessum orðum: "Þann 15. október flýg ég yfir hafið til Íslands". Og svo gerði ég. Ég ætlaði að skrifa blogg á Íslandi en það varð ekki af. Svo kom ég heim þann 3. nóvember.
 
Daginn eftir gekk ég um og ætlaði að taka ákvarðanir en það urðu engar ákvarðanir teknar, ég bara ráfaði um og lét það nægja. Ég sá fyrir mér verkefni svo sem að gera að graskerjunum mínum, en í þeim liggja tugir kílóa af mat. Ég þurfti líka að gera saft og sultu úr berjunum sem voru í frysti. Ég þurfti að hafa samband við hann Anders smið til að fara í gegnum verkefni sem ég hef ákveðið að hann vinni fyrir mig, eða með mér, næsta sumar. Í fjórða húsi norðan við Sólvelli býr skrúðgarðameistari sem ekki hefur neinn skóg en hann þarf eldivið. Ég hef ákveðið að sleppa honum inn í Sólvallaskóginn og taka sér eldivið að vissu marki gegn því að vera mér ráðgjafi varðandi skóginn.
 
Og það var fleira í þessum dúr og ekkert skeði fyrr á fimmta degi eftir heimkomuna sem ég varð fyrir einhverri köllun. Ég gekk ákveðnum skrefum rakleiðis út i bílskúrinn og tók næst stærsta graskerið, gekk með það inn í eldhús og slengdi því á eldhúsbekkinn. Svo tók ég stærsta eldhúshnífinn og byrjaði að skera. Ég var kominn í gang og nú þegar er ákveðið hvað ég geri í næstu viku en ekki meira um það.
 
 
Ég sit í góðum stól í íbúð Susanne í Katrineholm, en hún situr við matarborðið og vinnur að  einhverju verkefni ásamt vinkonu sinni. Við horfum ekki á sjónvarp enda er ekkert sjónvarp í íbúðinni. Hreint alveg frábært fyrirkomulag það. Ég velti ekki fyrir mér hvað ég ætla að gera í næstu viku því að það er 100 kílómetra hér í burtu og er þegar ákveðið sem fyrr segir.
 
Ég talaði um að fá hann Anders smið og garðyrkjumanninn nágranna minn til að vinna fyrir mig ákveðin verk. Málið er að ég er ellilífeyrisþegi og nú er ég farinn að skipuleggja þannig að ég geti oftar verið á sunnudagabuxunum og eða gönguskónum.
 
Fáeinar myndir að lokum.
 
 
 
Í samanburði við eldhúsrúlluna er þetta grasker talsverður kroppur. Svolítið hrjúft á yfirborðinu en kannski ekki inn við beinið.
 
 
 
 
Þegar búið var að hluta það í tvennt jókst matarlystin svo sem ekki umtalsvert.
 
 
 
 
Að lokum stóðu eftir 9,4 kíló af graskerskjöti og slatti af kjörnum og næstum hálf fata af úrgangi til að setja í moldutunnuna. Það var mikil molta í beðunum sem þessi matur óx í og ég notaði einungis hænsnaskt frá vandaðri garðyrkjuverslun sem áburð. Ég veit því að þarna hef ég mjög hreina og heilsusama afurð en ég þarf nú að læra að gera fleiri rétti en súpu úr þessu. Það mun ég leysa en ef einhver sem les þetta hefur góða tillögu tek ég á móti slíku með þökkum.
 
RSS 2.0