Að skokka um Kálfafellslandið

Um gönguferð um Kálfafellsland, bernskuslóðirnar, um miðjan september í ár. Önnur af tveimur. Fyrir mig voru þessasr gönguferðir svolítið eins og að hitta sjálfan mig og að minnast þess hver ég var sem stráklingur þegar ég naut þess, gjarnan aleinn, að skokka um Kálfafellslandið og líkaði vel einveran.
 
 
"Ég hafði eitt sinn einn draum" söng maður að nafni Kornelíus á sínum tíma og hann söng líka um að hann trúði að draumurinn væri sannur. Ég hef haft marga drauma gegnum árin og einn draumur sem oft heimsótti mig var að innarlega í þessum hvammi, sem er í Kálfafellslandi, myndi ég byggja lítið snoturt hús. Í þessu litla snotra húsi mundi alltaf ríkja kyrrð og friður á svona friðsömum stað, og til að komast í snertingu við hringiðu heimsins yrði ég að yfirgefa hvamminn og hella mér inn í hringiðuna. Svo þegar ég yrði þreyttur á henni eða líkaði ekki við hana gæti ég dregið mig til baka í hvamminn minn og lifað friðsömu lífi. Eigi ég að vera alveg sannur í því sem ég segi þá skal ég viðurkenna að draumurinn kom og fór langt fram eftir ævi, en reyndar trúði ég varla að hann yrði að veruleika. Þegar ég leit yfir hvamminn á gönguferð minni nú á septemberdögum skal ég viðurkenna að mér fannst draumurinn enn í gildi og vera jafn fallegur og fyrrum.
 
 
Þegar ég yfirgaf hvamm draumahússins kom ég í nokkrum skrefum yfir í þennan hvamm sem varla er þó hvammur, enda segir nafnið á honum að þetta sé hagi en ekki hvammur. Straumhljóðið í ánni er sterkt, voldugur niður. Samt er þessi niður afar lágur miðað við hávaða heimsins. Að vera þarna á göngu í haustblíðunni, þá virðist vera friður í heiminum. Að muna eftir að hafa séð tófuför í sandinum fyrir 65 árum, að hafa horft á hraunkantinn með skuggunum undir brekkurótinni og trúað að þar væri ævintýri að finna, allt gaf hugmyndafluginu lausan tauminn. Svo þegar þangað var komið voru litlu skútarnir svipaðir því sem þeir höfðu alltaf verið en burknablöðin sem teygðu sig í átt að birtunni höfðu stækkað eilítið síðan síðast. Svo hélt gangan áfram.
 
 
Eftir því sem lengra dregur inn með ánni eykst niðurinn en hávaði heimsins fjarlægist að sama skapi. Kannski var ég tíu ára og ef svo, þá eru 65 ár síðan. Eitthvað ár fram eða til baka skiptir ekki máli. Ég gekk sem oftar inn með ánni og kom að lambá sem var þar með aldeilis nýfæddu lambi sínu. Lambið var svo fallegt að ég bara mátti til með að taka það í fangið. Svo settist ég með það í grasið og kannski var það einmitt í hallanum sem við sjáum þarna á myndinni. Lambið var svo undur fallegt og ég strauk yfir fíngerðu hárin undir auganu sem að mér sneri. En! en! allt í einu buldi í jörðinni og mamman kom æðandi og stangaði mig um koll svo ég kútveltist í grasinu. Sárt var það og sár var ég líka vegna þess að mamman skildi bara alls ekki að ég vildi vera góður við lambið hennar.
 
 
Það var oft takmarkið fyrrum að koma að þessum fossi, sitja þar og hlusta á þungan niðinn og skynja kraftinn, vilja næstum falla með vatninu, reyna að horfa á sama punktinn sem þó var aldrei sá sami, og bara vera til.
 
Og enn einu sinni hafði ég komið að gamla takmarkinu, að fossinum í heiðinni, og upplifað einmitt það sama og áður. Eftir dágóða stund við fossinn gekk ég heim á leið og hafði upplifað hreina helgistund með sjálfum mér, með náttúrunni og þeim kröftum sem höfðu verið með mér á þessum slóðum alveg frá því að ég man eftir að ég fékk að vera einn á svona ferðum.
 
 
Ég hélt athyglinni vakandi og horfði yfir lautir og hóla, gil og grónar flatir. Það hafði orðið breyting í heiðinni. Þarna um miðjan september var ekki lengur grænt en allt var svo vel gróið. Gömlu grýttu svæðin, moldarbreiðurnar og gömlu rofin sem blésu upp frá ári til árs, allt var þetta grasi gróið. Ég anaði að grænir fingur Stefáns bróður míns hefði verið þar að verki og breytt vörn í sókn. Ég ekki bara anaði, ég vissi.
 
Hvað er verðmætamat? Hvað eru ríkar upplifanir? Þetta hugsaði ég mikið um á leiðinni til baka. Ég skokkaði ekki eins og ég gerði fyrir 65 árum. Ég ýmist rölti eða gekk frísklega.

Ég hafði kvatt alla á Skagaströnd

Það er mánudagskvöldið 25. september og klukkan er eitthvað nálægt ellefu að kvöldi. Ég hef dregið sængina næstum upp undir höku þar sem ég hálf sit með tölvuna í rúminu heima hjá Valgerði og Jónatan í Smáragötunni í Vestmannaeyjum. Ég hef heyrt verri vindhviður en þær sem takast á við húsið núna en þær eru þó mun verri en þær vindhviður sem leika við húshornin heima hjá mér í sveitinni á Sólvöllum í Svíþjóð. Inn á milli koma hressilegar regnskúrir, koma snöggt og hverfa eins snöggt og blikkað sé auga. Þetta lætur kunnuglega frá fyrri árum utan það hversu snöggt styttir upp. Það er bara eins og stóru þaki sé rennt hratt undir regnið og eftir stendur vindurinn einn þar til næst skúr gengur yfir.
 
Ég renni huganum til daganna sem liðnir eru af Íslandsheimsókn minni og það bregður fyrir trega og minningar flæða fram. Ég er búinn að vera á bernskuslóðunum austur í Skaftafellssýslu eins og ég hef skrifað um áður, hitta fólk í Reykjavík og í morgun kom ég frá henni Guðnýju systur minni á Skagaströnd. Ég sé hvernig árunum hefur fjölgað hjá jafnt yngri sem eldri og að skatturinn sem skaparinn leggur á okkur fyrir árin okkar á jörðinni er greiddur á misjöfnu verði. Mér finnst ég koma létt út úr álagningunni og við viss tækifæri getur mér fundist sem álagningin sé óréttlát. Ég reyni að ávaxta mitt pund vel en hvort það hefur lækkað álagninguna á mig fæ ég trúlega aldrei að vita og ég veit að örlögin geta gripið inn í og breytt henni. En ég er mjög þakklátur fyrir það sem ég hef og hvað örlögin hafa verið mér góð. Góði guð, þakka þér fyrir það sem ég hef.
 
Þar sem ég sit hér nýlega kominn frá Skagaströnd hvarflar hugurinn mikið þangað. Það er gott fólk heim að sækja þar og frændræknin er með afbrigðum. Það má í stórum dráttum segja að stórfjölskylda Guðnýjar systur minnar og Sveins mágs míns búi þar öll og fjölskyldufaðmurinn á Skagaströnd er stór og hlýr. Hún Birna systurdóttir mín og maðurinn hennar, hann Slavko, sóttu mig á Blönduós þangað sem ég kom með Jónatan tengdasyni mínum á leið hans til Akureyrar. Þau léku á als oddi og vinarþelið fyllti bílinn. Síðan komum við heim til Guðnýjar systur minnar og Svenna. Þau eru nokkrum árum eldri en ég en vinarþelið þar og frændræknin þeirra var söm við sig sem áður.
 
Daginn eftir kom hún Björk systurdóttir mín til að heilsa upp á mig, gamla frænda. Talið barst til Hríseyjar og hún varð íbyggin. Rétt áður en hún hélt heim til sín sagði hún við mig; heyrðu, ég kem um tíu leytið á morgun og svo getum við skropið til Hríseyjar. Og svo varð það að við Björk frænka mín, Guðný systir mín og ég skruppum til Hríseyjar.
 
 
Við heimsóttum kirkjugarðinn í Hrísey þar sem legsteinn þarfnast viðgerðar. Ég velkist ekki í vafa um það að þeir sem eru farnir heim að lokinni jarðvist eru allt annars staðar en í kirkjugarðinum. En við að lesa nöfnin þeirra þarna mitt í grænu grasinu, að sjá fæðingardaga og dánardægur, þá er það mikið sem streymir gegnum hugann. Og það er sem hjartslátturinn breytist, umhverfið hljóðnar, augun verða rök. Einhverjar mínútur líða án upphafs eða endis og allt í einu er mál að signa hæglátlega yfir og í huganum að senda sínar innilegustu kveðjur. Svo er dvölinni í Hríseyjarkirkjugarði lokið.
 
Nöfn á förnum vegi í Hrísey í þessari stuttu heimsólkn voru til dæmis Linda Ásgeirs, Rósa Kára, Ragnar Víkings, Heimir Áslaugs, Bjarni í hvönninni, Smári á ferjunni, Nanna Björns, Steinunn Hauks, Fríða og Sigurbjörg Guðlaugs. Og Dúnný, þakka þér innilega fyrir þægilegu spjallstundina og kaffið og soðiðbrauðið með hangikjötinu sem hún Steinunn bar á borð. Ég borðaði svo mikið af soðiðbrauðinu að ég næstum roðna þegar ég hugsa til þess. Og Rósa mín Kára, þakka þér fyrir kjötsúpuna og elskulegar móttökur.
 
Stutt Hríseyjarheimsókn var á enda og leiðin tekin á Skagaströnd þar sem stórveisla var á borð borin hjá henni Birnu frænku minni og ég hitti marga, frændfólk og venslafólk. Ég hefði eflaust hitt hann Stefán systurson minn líka ef hann hefði verið heima en í stað þess var hann að veiða fisk við Færeyjar.
 
 
Ég hafði kvatt alla á Skagaströnd og einmitt þar sem ég var á leið gegnum útidyrnar leit ég við til að rétta upp hendi til kveðju, þá sá ég þetta. Þessi mynd sem blasti við mér hafði sterk áhrif á mig, ég stoppaði við, lagði frá mér töskuna, og bara varð að taka mynd. Þarna er hún litla Björk frænka mín og kúrir í hálsakoti Evu Daggar mömmu sinnar, en Eva Dögg er dótturdóttir Gunýjar systur minnar og hans Sveins. Eva Dögg vildi koma og hitta mig, gamla frænda. Lengra á bakvið Evu er hún Björk systurdóttir mín og mamma Evu, hún sem fór með mig til Hríseyjar. Þá er það hann Sveinn mágur minn sem fór með mig á jeppanum sínum vítt og breytt um Skagaströnd og nágrenni og sýndi mér margt áhugavert ásamt að sýna mér mikla hlýju.
 
Svo er það hann Ísak sem stendur framan við hann Svein langafa sinn og hann er líka sonur Evu og bróðir hennar Bjarkar litlu. Næst lengst til hægri er hún systurdóttir mín hún Birna, hún sem sótti mig á Blönduós og útbjó stórveisluna. Að lokum er það Guðný systir mín, móðirin í stórfjölskyldunni á Skagaströnd. Guðnýju fellur afar illa að standa framan við myndavélar og helst vildi hún losna við það þarna líka. En akkúrat svona var það þegar ég leit við í útidyrunum og þessi mynd var nokkuð föst í huga mér langleiðina í Staðarskála. Jafnframt var ég mjög þakklátur fyrir móttökurnar og alla vináttu á Skagaströnd. Þið eruð ekki gleymdir heldur Ingvar og Slavko, menn Bjarkar og Birnu og ekki heldur önnur frændsystkini sem ég hitti á Skagaströnd.
 
Ég er farinn að þreytast við tölvuna og Óli lokbrá sækir að mér. Mér fannst ég heyra hann segja; farðu nú að sofa gamli. Vindurinn gnauðar ennþá og ég slekk ljósið. Síðar við tækifæri les ég þetta yfir og birti kannski við tækifæri.
 
Það tækifæri er núna.
 
 
 

Núna er ég ferðamaður á Íslandi

Þetta blogg skrifaði ég í Vestmannaeyjum, á sænsku fyrir Svía, og var ákveðinn í að þýða það síðan á íslensku. Nú þegar ég er kominn heim og sest niður til að þýða það sé ég auðvitað að það passar alls ekki fyrir Íslendinga því að Íslendingar vita auðvitað svo mikið um eigið land umfram Svíana. En hvað um það; ég þýði það eins orðrétt á íslensku og ég bara best get og akkúrat svona skrifa ég um Íslandsferð fyrir Svía.
 
Það er miðvikudagurinn 20. september og ég sit bakvið stóran glugga sem snýr móti norðri og ég hef útsýni yfir stærstan hluta af Vestmannaeyjabæ.
 
 
Það er hægur vindur og það rignir. Þess vegna sé ég aðeins hálfa leið yfir sundið milli eyjunnar Heimaeyjar og fasta landsins. Vestmannaeyjar er sameiginlega nafnið yfir eyjaklasann sem er samtals fimmtán eyjar og um 30 sker og drangar. Byggð er aðeins að finna á einni af þessum eyjum; Heimaey, og bærinn heitir Vestmannaeyjar með sína um það bil 4300 íbúa. Regnið truflar mig ekki. Á stól nærri stólnum sem ég sit á liggja regnföt þannig að ég get virkilega gengið út í regnið og viðrað mig, en ég er nokkuð ákveðinn í að hafa það rólegra en svo í dag.
 
Húsið sem ég er staddur í er hús dóttur minnar og tengdasonar og hér hef ég gist þó nokkrum sinnum. Þegar þau höfðu farið til vinnunnar í morgun eldaði ég hafragrautinn minn. En fyrst opnaði ég útihurðina til að finna ögn betur hvernig veðrið var. Þegar ég rétti út hendina að handfanginu á hurðinni kom hundurinn Salka og vildi taka þátt í einhverju. Það varð ekkert. Þegar ég hafði lyktað aðeins af röku loftinu lokaði ég hurðinni og Salka lagði sig aftur og hraut friðsamlega.
 
 
Þegar ég hafði eldað grautinn opnaði ég ísskápinn eins hljóðlega og mögulegt var en varla hafði mér tekist það þegar Salka var þar og horfði á allt góðgætið bakvið hurðina. Hún virðist hafa sjötta skilningarvitið hún Salka. Hún er vinaleg og væri hún hundurinn minn væri hún trúlega líkari óléttri gyltu í sköpulagi en þeirri stæltu tík sem hún er. Ég væri enginn góður hundeigandi því að ég mundi kasta mörgum góðum bitanum að henni.
 
 
Ég kom með ferju til Vestmannaeyja frá fastalandinu eftir nokkurra daga heimsókn til bernskustöðva minna á Suðurlandi. Akkúrat núna þjónar hér ferja sem er leigð frá Noregi vegna þess að hin eiginlega ferja er í slipp til viðhalds fyrir veturinn.
 
 
Hin eiginlega ferja sem heitir hinu rammíslenska nafni Herjólfur er stærsta ferjan á Íslandi en er lítil á heimsmælikvarða. Vestmanneyingarnir lifa mest á því sem hafið gefur og það vegur mikið sem þessi ferja flytur og farþegafjöldinn nálgast 300 000 á ári.
 
 
Rétt fyrir klukkan hálf níu í gærkvöldi bakkaði ferjan að viðlegukantinum og þá var dimmt. Klukkan hér er tveimur tímum á eftir sænsku klukkunni og svo verður það þar til sænska klukkan færist einn tíma til baka til vetrartíma.
 
 
 
*          *          *
 
 
Nú hef ég verið eina viku á Íslandi og ég hafði farið í æði langar gönguferðir á bernskuslóðum mínum áður en ég kom til Vestmannaeyja. Ég byrjaði með að heimsækja bernskuslóðirnar eins og áður sagði. Mjög margir staðir á Islandi eru nú næstum yfirtroðnir af ferðamönnum en þó eru til vissar perlur þar sem allt er ósnortið og afar friðsamt. Það er varla að ég vil fletta ofan af hvar þessar perlur er að finna.
 
 
Gilin í brekkunum beint á móti hafa myndast á þúsundum ára, hinn þykki, mjúki mosi hefur barist fyrir lífinu síðan á ísöld, grasið sækir fram á hlýindaskeiðum en hörfar á kaldari árum. Þessi náttúra í þögn sinni er viðkvæm og endurheimtir sig hægt.
 
Fyrir nokkrum dögum síðan sat ég í þessum mjúka mosa allnokkuð frá byggð, varð hlýr á rassinum og á einfaldan hátt ótrúlega hamingjusamur. Ég heyrði dauft hljóð frá rennandi vatni, fann hreinan ilm frá umhverfinu og hafði þetta gamalkunnuga landslag fyrir framan mig. Mér fannst ég vera nálægt Guði og að við vorum þar báðir, við vorum þar saman. Ekkert mátti trufla þetta því að þetta er besta hamingjan sem er til.
 
Slíka hamingju er hægt að finna, en alla vega ég get ekki verið þar öllum stundum. Ég veit bara að það er hægt að finna hana og þegar hún hverfur er hægt að finna hana aftur. En þessu fæ ég að vinna fyrir eins og til dæmis núna með gönguferð minni. Eftir að hafa setið þarna góða stund kom herþota frá Keflavík og þvældist í hringi í gisnum skýjum fyrir ofan mig. Þá var kominn tími fyrir mig að standa upp og halda áfram. Hin frábæra stund í félagsskap Guðs var liðin í þetta skiptið.
 
Þá gekk ég niður brekkuna og að ánni sem sést til vinstri á myndinni fyrir ofan. Þar dró ég buxurnar upp að hnjám til að vaða yfir.
 
Ég vissi um leyndarmál sem ekki er svo sýnilegt fyrr en maður er þar.
 
 
 
RSS 2.0